(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 25. nóv. 2012)
Fullveldissinnar eru oft stimplaðir þjóðernissinnar sem í
munni þess sem stimplar er þá jafnan niðrandi, ekki sama sem „nazistar“ en í þá
átt. Hugrenningatengsl verða, ekki kannski við Hitler en við hægripopúlista
eins og Le Pen, Pia Kjærsgaard eða þá Benjamin Netanyahu.
Fyrir hrun – meðan útrásin blómstraði – voru samtökin Heimssýn og þess háttar fólk einkum bendlað
við einangrunarhyggju, sveitamennsku og nesjamennsku. Eftir að útrásin hrundi
tóku áðurnefndir stipilgjafar upp nýja baráttuaðferð: að kenna íslenskri
„þjóðernishyggju“ um útrásina, sögðu að íslensk þjóðremba hefði verið virkjuð í
þágu glæfralegrar útrásar, jafnvel komið henni af stað. Ekki gengur þó vel að
finna þessu stað. Það er nefnilega ómótmælanlegt að nánast allar
útrásarhetjurnar voru ESB- og evrusinnaðar (vildu kasta krónunni), fullar af
„evrópuhugsjón“. Það er líka
rökrétt.
Spurningin um þjóðernishyggju/-stefnu er stórt mál. Stefnan
varð til á 19. öld og snerti afstöðuna til þjóðríkisins. Meginstef
þjóðernishyggju var og er að ríki skuli fylgja þjóðernislínum og vera fullvalda.
Þjóð sem samfélagsheild með sameiginlega menningu sé eðlilegasta uppspretta
ríkisvalds og grundvöllur stjórnmála. Á 19. öld var borgarastéttin
þjóðernissinnuð og skipulagði atvinnuhætti sína á grunni þjóðríkjanna sem mörg
hver urðu til á þeirri öld. Gegn hugmyndinni um „sameinaða þjóð“ tefldu
sósíalistar fram alþjóðahyggju verkalýðsins, „öreigar allra landa sameinist!“.
Engu að síður þróaðist lýðræði einmitt á grunni þjóðríkja, þar sem almenningur
í gegnum samtök sín hafði möguleg áhrif á gang stjórnmála.
Á 20.öld, á tíma voldugra auðhringa og heimsvaldastefnu, óx
kapítalískt hagkerfi hins vegar út fyrir ramma þjóðríkjanna. Auðmagnið leitaði
yfir landamærin að auðlindum, mörkuðum og fjárfestingum (mætti því kenna það
við „útrásar“auðvald). Stórauðvald vestrænna iðnríkja snérist smám saman gegn
þjóðernishyggju og leit nú á fullveldi þjóðríkja sem alvarlegan hemil á
athafnafrelsið. „Alþjóðahyggja“ auðvaldsins hefur í seinni tíð verið kennd
við „hnattvæðingu“, en á henni
herti mjög á síðustu áratugum 20. aldar (tengt m.a. falli Austurblokkar) með
hjálp samtaka eins og AGS, ESB, NAFTA, GATT, WTO. Þessar stofnanir eru allar byggðar
utan um hnattvæðingarreglu nr. 1: óheft flæði og athafnafrelsi fjármagnins um
lönd og álfur. EES-reglurnar um athafnafrelsi fjármálastofnana innan alls hins
sameiginlega markaðar – og þar með íslenska fjármálaútrásin – er mjög bein
afleiðing af því prinsippi.
Þegar svo er komið þróun mála er það þess vegna afar
mikilvægt hagsmunamál alþýðu í löndum sem ekki eru efnahagsstórveldi að verja
fullveldið og þjóðlegt sjálfsforræði á sem flestum sviðum. Hið „frjálsa flæði“
er knúið fram af gróðahagsmunum. Það er andstætt kröfum lýðræðisins og setur
sig þess vegna yfir þær. Boðskapur hnattvæðingarinnar sló óðara í gegn hjá
efnahagselítu, hagfræðingum og stjórnmálamönnum á Vesturlöndum. Í Evrópskum
stjórnmálum eru það einkum tveir hópar sem fremstir fara og hafa leitt bæði markaðsvæðingu
og samrunaferlið í ESB: hægrifrjálshyggjumenn og svo markaðskratar, þ.e.a.s.
markaðssinnar til vinstri.
Á Íslandi urðu línurnar dálítið flóknari vegna spurningarinnar
um yfirráð yfir fiskimiðunum. Svarið við þeirri spurningu ræður því að íslensk
borgarastétt (viðskiptalífið) er miklu klofnari í afstöðu sinni til
Evrópusamrunans en systur hennar í nálægum löndum. Fyrir LÍÚ og tengda hagsmuni
er EES æskileg millistaða. Fyrir
vikið varð þróunin sú að markaðskratar urðu helstu málpípur ESB á Íslandi.
No comments:
Post a Comment