Saturday, November 26, 2016

Trump, Pútín, stríðshættan


Mun Donald Trump breyta utanríkisstefnu USA? Ég bendi hér á grein með brýnum spurningum og varkárum ályktunum um utanríkisstefnu Trumps. Eftir Stephen Kinzer á Boston Globe. Stutt og skýr. Kinzer hefur samið fjölda bóka, m.a. nokkrar um valdaskiptaíhlutanir USA.  

Í kosningabaráttunni spilaði Donald Trump sóló. En það er þyngra að snúa stjórnkerfinu á fullum skirðþunga en halda kosningaræður. Og þeir fáu þungaviktarmenn sem fylgdu honum alla leið (þ.á.m. líklegir ráðherrar) eru hluti af þessu mannætukefi. Þau svið utanríkismála sem Kinzer telur samt að geti breyst tengjast einkum stefnunni gagnvart Rússum, sem myndi þýða minni líkur á stórstyrjöld í bili: "First, he [Trump] wants to de-escalate our spiraling conflict with Russia. For whatever reason, he has rejected the playbook view that President Vladimir Putin is a mad thug whose policies threaten our national security. If he remains firm and pulls us out of the spiral of US-Russia confrontation, he will be stepping back from the conflict that has seemed more likely than any other to explode into nuclear war. Trump’s unorthodox view of Russia leads to his second wise foreign policy instinct, about the horrific war in Syria... It tells him that Syria poses no threat to the United States, and that our priority there should be crushing ISIS, not overthrowing the government... The third way Trump’s foreign policy may break with the playbook has to do with his view of NATO... He doesn’t seem to like the idea that the United States could be dragged into great-power war over a local dispute in the Baltic or the South China Sea."

Tuesday, November 15, 2016

Sigur Trumps: viðbrögð gegn ríkjandi hnattvæðingarþróun og íhlutunarstefnu
Hér má sjá mjög athyglisvert viðtal við Donald Trump, tekið 12. nóvember 2016. Afar fjarri málflutningi Hillary Clinton. Hvernig má skýra sigur Trumps? Annars vegar held ég að hann skýrist sem viðbrögð gegn hnattvæðingarþróun síðustu áratuga (einkum útvistun og afiðnvæðingu í USA) sbr. slagorð hans: "Americanism, not globalism is our credo." Mætti segja að hann kalli á efnahagslega einangrunarstefnu sem svar. Sigur Trumps er þá samfélagsleg höfnun á þeirri þróun, en auðvitað er önnur saga hve vel gengur að snúa henni við. Hins vegar er svo það sem áðurnefnt viðtal snýst um. Þar hafnar hann hinni trylltu íhlutunar- og valdaskiptastefnu sem fylgt hefur verið og Hillary er þvottekta fulltrúi fyrir. Kannski má líka kalla svar Trumps þar aukna einangrunarstefnu. Eða kalla það utanríkisstefnu "raunsæis" sem viðurkennir að hernaðarleg heimsyfirráðastefna USA er að lenda í strandi ellegar heimsstyrjöld - og treysta þurfi á aðrar leiðir til að bjarga heimsveldinu. En the military industrial complex er auðvitað ekki búið að viðurkenna það. Pólitísk færni Trumps felst í að bregðast við straumum og stemningum. Hvort hann gerist svo baráttumaður sömu stemninga í valdastól er annað mál.

Kosningarnar – árangur og lærdómar


(birt á bloggsíðu Alþýðufylkingarinnar 11. nóv 2016)

Það  var óraunhæft var að reikna með að fylgi Alþýðufylkingarinnar teldist í prósentum. 0.3% er kannski í lægra lagi eftir býsna vasklega kosningabaráttu, þó er það ekki afleit byrjun. Það voru 575 manns sem kusu okkur.

Það er vel kunnugt, og auðskilið, að fólk flest kýs taktískt og mjög var fókusað á vegasaltið: stjórnarflokkarnir gegn vinstra bandalagi. Það að greiða R atkvæði þýddi að láta EKKI lóð sitt á umrætt vegasalt – og vera þar með óhjákvæmilega sakaður um að „hjálpa íhaldinu“! Fólkið sem greiddi okkur atkvæði vissi vel að atkvæðið nýttist ekki til þingsæta en vildi væntanlega í staðinn efla Alþýðufylkinguna sem raunverulegan vinstri valkost. Sem sagt nokkuð staðfast fólk sem tók það að byggja flokk til framtíðar fram yfir áhrif á stjórnarmyndunarbrölt hér og nú.

Ég var skeptískur í byrjun og sagði að fyrir byltingarsinnaðan flokk (sem vill steypa auðvaldinu) hefði lítið upp á sig að bjóða fram til þings áður en fólk hefði neitt séð til hans, þ.e.a.s. áður en hann hefði eitthvað gert sig gildandi í stéttabaráttunni. Fyrir því er nokkur reynsla að alþýða fer ekki að treysta róttækum sósíalistum nema hún hafi handfasta reynslu af þeim í stéttabaráttunni. Mælskur málflutningur einn nægir ekki. Það er nefnilega svo að málflutningur byltingarsinna er hreint ekkert meira lokkandi fyrir alþýðu en t.d. málflutningur endurbótasinnaðra krata. M.a.s. getur hann að nokkru virkað fráhrindandi, t.d. tal um nauðsyn harðrar stéttabaráttu, hvað þá tal um nauðsyn byltingar. Það sem á endanum verður að skera úr í málinu og skilja hafrana frá sauðunum er reynsla alþýðunnar í stéttabaráttunni og sá stuðningur sem hún fær þar frá ólíkum stjórnmálaöflum.

Og það var nóg af lokkandi kratískri endurbótastefnu á boðstólnum. VG, Samfylking, Björt framtíð og Dögun eru flokkar sem einkennast af dæmigerðum kratískum áherslum (ásamt mismiklu innslagi af græna litnum m.m.). Og Píratar, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin höfðu að stórum hluta áherslur í sömu átt (hins vegar eru Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn markaðshyggjuflokkar, og að hluta til Framsókn líka). Sem sagt kratisminn var mjög ríkulega í boði, og alls ekki fluttur af minni mælsku en stefna Alþýðufylkingarinnar. Og ef fólk hafði fengið nóg af gömlu vinstri flokkunum (VG, Samfylkingu) var þarna slatti af nýjum og nýlegum valkostum – aðrir en við – til að hlusta á og taka afstöðu til. Íslenskri alþýðu er vorkunn að sjá ekki út úr þessu bleika skýi.

Ég er samt ekki þess sinnis að framboðið hafi verið mistök. Framboðið sem slíkt tókst vel og var framkvæmt af þrótti, meiri þrótti en ég hafði búist við. Róttæk alþýða og róttæklingar almennt vita nú af Alþýðufylkingunni. Kosningarnar ýttu á að Alþýðufylkingin mótaði róttæka stefnu við íslenskar aðstæður (stefnu sem er þó síst hafin yfir gagnrýni) og náði að kynna hana talsvert. Kosningapróf („Stundarinnar“) benda til að stefnan hafi fallið í góðan farveg þó ekki hafi skilað sér í kjörklefann.

Í svona ströggli fæst líka reynsla, það lærist að afhjúpa veilurnar og mótsagnirnar í málflutningi mótherja, ekki síst gerfivinstri- og hentistefnuflokka, t.d. afhjúpa VG í NATO-málum, ESB-málum, umhverfismálum síðustu ríkisstjórnar, afhjúpa tilræði ESB-flokkanna við sjálfstæðið, misskiptingarpólitík Sjálfstæðisflokksins...

Sem sagt: kosningaræður geta verið nytsamlegar en þær breyta ekki samfélaginu. Enda berst sósíalisminn okkur ekki frá Alþingi. Nú þarf að reka stéttabaráttu á grundvelli stefnunnar og sanna sig í starfi.

Tuesday, November 8, 2016

Alþjóðamálastofnun og RÚV til skammar

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 1. nóv 2016)
Opinn fundur um stríðið í Sýrlandi var haldinn á vegum HÖFÐA Friðarseturs Reykjavíkurborgar og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands miðvikudaginn 2. nóvember. Kominn tími til að sinna þessari mestu pólitísku krísu og stríðshörmungum samtímans. Fenginn var landflótta Sýrlendingur, Khattab al Mohammad, til að koma og tala um Sýlandsstríðið í fyrirlestrarsal Þjóðmingasafnsins. Daginn eftir fékk Mohammad svo vænt og „athyglisvert“ viðtal á RÚV.
Það er skemmst frá því að segja að hann segir enn einu sinni þá sögu sem við höfum fengið inngefna í sífellu í íslenskum fjölmiðlum, ekki síst RÚV, síðan 2011, að Sýrlandsstríðið sé grimmum harðstjóra að kenna. Assad barði sumsé niður „friðsamleg mótmæli“ og „sigaði her og lögreglu á varnarlaust fólk“.
Spurður um „þátt grannríkja“ í stríðinu segir hann að athæfi Assads gagnvart eigin fólki hafi „gert óhjákvæmilegt að aðrir drægjust inn í það“. Sem sagt þáttur t.d. Sáda og Tyrkja finnst honum "óhjákvæmilegur".
Það helsta sem Mohammad bætir við RÚV-tugguna er sú kenning hans að hryðjuverkin í Frakklandi og Evrópu séu framin af „flugumönnum Assads“. Því til stuðnings hafði hann eftir Muallem utanríkisráðherra Sýrlands að Evrópa yrði „þurkuð út af kortinu“ ef hún skipti sér af Sýrlandi, og „æðstiklerkurinn í Damaskus“ hefði sagt að Assad og hans menn væru „tilbúnir að senda hryðjuverkamenn hvert sem er í Evrópu“. Ofan á allt þetta gagnrýndi Khattab al Mohammad svo Bandaríkin fyrir að „aðhafast ekkert“ í málinu!
Það er hneyksli að Aljóðamálastofnun skuli setja nafn sitt við slíkan fyrirlestur, hneyksli líka að Jón Guðni Krisjánsson hjá RÚV skuli bera slíkt á borð og hvergi gera krítíska athugasemd við svona málflutning. Sjá frétt RÚV:

Wednesday, November 2, 2016

Aleppo: Sviðsettar barnamyndir og krafa um „loftferðabann“

Barnamyndirnar frá Aleppo þjóta um eterinn og steypast yfir okkur gegnum sjónvörp, dagblöð og samfélagsmiðla. Vaskir menn, gjarnan með hvíta hjálma, hlaupa út úr hrynjandi húsum með börn í fanginu. Myndunum fylgir jafnan sú skýring að þetta séu fórnarlömb loftárása Sýrlandshers („tunnusprengjurnar“) ellegar Rússa. Myndirnar þjóna nokkrum brýnum hlutverkum: a) að djöfulgera Assad forseta og hans menn, b) að vinna fylgi kröfunni um að dæma Sýrlandsstjórn og Rússa fyrir stríðsglæpi – í Öryggisráðinu og víðar og c) að kalla eftir „loftferðabanni“ á Sýrland sem í framkvæmd þýðir fullgildur lofthernaður og/eða innrás NATO-veldanna í Sýrland. Hér skiptir líka máli að Hillary Clinton hefur nú stillt sér kröftuglega á bak við hugmyndina um „loftferðabann“, andstætt bæði Donald Trump og Barak Obama.
"Drengurinn í sjúkrabílnum" - Omran litli í heimspressunni

Omran litli – „andlit Aleppo“
Ein mynd hefur farið öðrum meiri sigurför um heiminn síðan hún birtist í ágúst síðastliðnum: myndin af „drengnum í sjúkrabílnum“ sem ku heita Omran Daqnees. Sjá Wikipedíu um hann. Samkvæmt fréttinni bjó Omran litli á svæði uppreisnarmanna í Aleppo. Ljósmyndarinn Mahmoud Raslan bjó aðeins 300 metra þaðan frá, og vaknaði því upp við sprengjuárás stjórnarhersins svona nærri. Sem betur fór voru „Hvítu hjálmarnir“ nærstaddir og björguðu Omran og fjölskyldu hans.
Fyrir skemmstu fullyrti Assad Sýrlandsforseti í svissnesku sjónvarpsviðtali að umrædd mynd væri sett á svið og dró fram aðrar myndir af drengnum og systur hans í öðrum kringumstæðum annars staðar í borgarrústunum. Yfirleitt eru þau þar í fanginu á einhverjum „Hvítu hjálmanna“, og Assad fullyrti að þetta væru hannaðar sviðsmyndir.
Myndirnar hafa verið krítískt skoðaðar af fleirum, bæði áður og enn frekar eftir viðtalið við forsetann. Moon of Alabama hefur nú birt nokkrar og mismunandi myndir af þeim systkinum, og ekki fer á milli mála við skoðun og samanburð að börnin eru klessumáluð og förðuð, og eru í leiksýningum. Þarna er sem sé einhver auglýsingaiðnaður á bak við. Einhvers konar barnaklám sem fréttastofurnar styðja og fær því mikla dreifingu.