Showing posts with label Venesúela. Show all posts
Showing posts with label Venesúela. Show all posts

Monday, March 11, 2019

Netárás á Venesúela?

 (birtist á fésbók SHA 11. mars 2019)
                                             Caracas myrkvuð - eftir netárás?
                                         
Nicolas Maduro fullyrðir að stórfelld netárás hafi verið gerð á rafkerfið í Venesúela, og bendir á USA sem líklegasta sökudólg. Kanadíski höfundurinn Stephen Gowans færir rök fyrir að ásökunin sé ekki langsótt. Hann vitnar í New York Times frá því fyrr í vetur. Þar kemur fram að USA hefði hernaðaráætlun um netárás á dreifikerfi rafmagns í Íran ef skerast skyldi í odda milli landanna. Ennfremur segir þar „Such a use of cyberweapons is now a key element in war planning by all of the major world powers.“ NYT minnir á að USA og Israel hafi þegar gert stórfelldar netárásir á rannsóknarstöðvar Írans fyrir auðgun úrans. Nú um stundir hefur USA ennþá meiri áhuga á Venesúela en Íran. Er þá ekki netárás þar nærtækt snjallræði?

Friday, February 15, 2019

„Valdaskiptaaðgerðir“ – Venesúela og Líbía

("Birtist á Neistar.is og Kvennablaðinu 12. febrúar 2019)
                                               Merkt við þá til "valdaskipta": Gaddafí og Madúró

Aðferðir við „valdaskiptaaðgerð“ (regime change) eru svolítið breytilegar í ólíkum löndum, en munstrið sem birtist í Venesúela er orðið mjög kunnuglegt, auðþekkjanlegt frá Stór-Miðausturlöndum. Munstrið er eftirfarandi: Efnahagslega og hernaðarlega mikilvægt ríki „gengur ekki í takt“, valdaskipti eru sett á dagskrá, hliðarríkisstjórn sett á fót og viðurkennd, efnahagslegar refsiaðgerðir, fjölmiðlaherferð byggð á mannréttinda-mælskulist og loks hernaðarárás „í mannúðarskyni“. Af breytilegum styrjöldum í Stór-Miðausturlöndum frá 2001 sýnast líkindi Venesúela við Líbíu 2011 vera einna mest, en þetta munstur birtist líka í Írak, Afganistan og Sýrlandi. Pólitískt landslag landanna er ólíkt, í Venesúela er harðvítug deila milli stétta eftir hægri/vinstri línum en Líbía skiptist meira skv. ættbálkum og trúarhópum. Samt er sama munstri fylgt.

1 HLIÐARSTJÓRN. „Valdaskiptamenn“ frá Bandaríkjunum og NATO koma sér upp hliðarríkisstjórn og leita eftir diplómatískri viðurkenningu á henni, veita henni fjárstuðning og hernaðaraðstoð. Í Líbíu hét það National Transitional Council (NTC), stofnað í Benghazi í febrúar 2011. BNA, Frakkland o.fl. gengust þá fyrir fjölþjóðlegri viðurkenningu (Ísland viðurkenndi NTC mánuði áður en Gaddafí féll). Svokölluð „Þjóðareining uppreisnarhópa í Sýrlandi“ var stofnuð í Katar í nóv. 2012 og viðurkennd m.a. af Íslandi sem „hinn lögmæti fulltrúi Sýrlands“ mánuði síðar. Í Venesúela riðu Bandaríkin á vaðið og viðurkenndu Juan Guaido sem forseta, og bandamennirnir fylgdu þeim í halarófu, þ.á.m. Ísland.

2 EFNAHAGSLEGAR REFSIAÐGERÐIR. Þær eru alltaf undanfari beinnar íhlutunar. Formlega beinast þær ýmist gegn einstaklingum eða ríkisstjórn landsins. Þeim var beitt óspart í Líbíu og í enn meiri mæli í Írak og Sýrlandi (Chile 1973 er annað dæmi). Þetta vopn bítur vel af því svo kallað „alþjóðasamfélag“ (frá 1990) er samhangandi heimsvaldakerfi undir „einpóla“ bandarískri drottnun – með bæði dómsvald og refsivald.

3 FJÖLMIÐLAHERFERÐ er sett af stað þar sem dregin er upp mynd af ríki í kaldakoli („failed state“). Í gríðarlegri fjölmiðlaorðræðu um „harðstjórn“, „mannréttindi“ og „lýðræði“ eru viðkomandi stjórnvöld „skrímslisgerð“ (demóníseruð) , jafnframt gefin mynd af almenningi í uppreisn gegn skrímslinu. Myndum sem sýna stuðning við stjórnvöld er skipulega haldið frá. Sagan er sögð í CNN, CBS, BBC og hún svo bergmáluð í þúsundum endurvarpsstöðva vítt um heiminn (RÚV er ein slík).

4 RAUNVERULEGAR ÁSTÆÐUR íhlutunar eru náskyldar og líkar. Olía er lykilorðið. Líbía er olíuauðugasta land Afríku. Venesúela er olíuauðugasta land allrar Ameríku (og heimsins). Heimsvaldasinnar leyna ekki alltaf ástæðum gerða sinna. Donald Trump var spurður um afstöðu sína til Líbíustríðsins árið 2011 (í viðtali við Kelly Ivans á Wall Street Journal): “I’m only interested in Libya if we take the oil. If we don’t take the oil, I have no interest in Libya.” Og í lok janúar sl. sagði John Bolton öryggisráðgjafi Trumps á Fox News: “Það munar miklu fyrir Bandaríkin efnahagslega ef við fáum bandarísk olíufyrirtæki til fjárfestingar og framleiðslu í olíumöguleikum Venesúela.“ Þetta eru blessunarlega bersöglir menn. Þess vegna er bágt að þau Guðlaugur Þór og Katrín skuli komast upp með að babla um „lýðræði“ í þessu samhengi. Stjórnaðist sprengjukastið á Líbíu af lýðræðisást? Fyrir Bandaríkin snýst málið auk þess um yfirráðin í heimshlutanum, Suður-Ameríku og Karíbahafi, eins og Sýrlandsstríðið snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum (eða var það lýðræði?).

5 GEGN ÞJÓÐNÝTINGARSTEFNU. Þjóðnýtingarstefnan í Líbíu er gömul. Stefna Gaddafí-stjórnarinnar, kennd við sósíalisma, fól í sér þjóðnýtingu olíunnar. Allt frá 8. áratug var þeirri stefnu mætt með ýmiss konar refsiaðgerðum BNA og Vestursins gegn Líbíu, og loks með stríði. Í Venesúela eiga olíurisarnir (t.d. Chevron, ExxonMobil og Halliburton) sér langa sögu en endurteknar þjóðnýtingar í olíuiðnaði landsins hafa dregið mjög úr gróða þeirra þar. Því fer þó fjarri að um fulla þjóðnýtingu sé að ræða í Venesúela. Landið er enn háð helsta andstæðingi sínum um olíuhreinsun og fjármál, olíuviðskiptin fara fram gegnum Texas, og olíukapítalistar Venesúela eru flestir á bandi stjórnarandstöðunnar. Nú getur Bandaríkjastjórn með refsiaðgerðum hindrað að greiðslur fyrir olíuna renni til stjórnvalda í Caracas (hún mun beina þeim til Juan Guaido). En olíurisarnir vilja auðvitað greiðara aðgengi – og „hliðarstjórnin“ lofar slíku, Independent skrifaði 5. febrúar: „Væntanleg ríkisstjórn Venesúela mun leyfa erlendum einkaolíufyrirtækjum meiri hlutdeild í sameignarrekstri með ríkisrekna olíurisanum, segir útsendari Juan Guaidos til Bandaríkjanna.“

6 OLÍUDOLLARINN SEM VOPN. Á velmektardögum sínum byggði BNA upp olíudollarakerfið. Heimsviðskipti með olíu skyldu fara fram í dollurum. Punktur! Kerfið stendur en, en er mjög ógnað. Það skapar enn endalausa eftirspurn eftir dollurum. En Gaddafí og Madúró eiga það sameiginlegt að hafa stefnt á að færa olíuviðskipti sín yfir í annan gjaldmiðil (Íran og Írak hótuðu hinu sama). Slíkri stefnu svara BNA og bandamenn þeirra jafnan með efnahagsþvingunum og – ef það nægir ekki – með stríði.

7 HERNAÐARÍHLUTUN. Eðlilega kjósa heimsvaldasinnar friðsamleg „valdaskipti“, t.d. í formi „litabyltingar“ frekar en hernaðaríhlutun. Það er ákjósanlegt fyrir auðhringana að geta gengið að olíuiðnaði Venesúela óskemmdum. En reynslan frá Miðausturlöndum sýnir að þeir víkja sér aldeilis ekki undan hernaðaríhlutun ef „nauðsyn krefur“. Innrásin er alltaf (Líbíu, Sýrlandi, Júgóslavíu, Afganistan...) dulbúin sem „mannúðaríhlutun“. Hún er nú í bígerð í Venesúela. Eftir að hafa í nokkur ár þjarmað að almenningi með refsiaðgerðum bjóða Bandaríkin nú með hinni hendinni miklar matarsendingar til Venesúela. Mike Pompeo utanríkisráðherra tísti 6. febrúar: „The Maduro regime must LET THE AID REACH THE STARVING PEOPLE.“ Þetta bragð er sótt pólitíska herfræði íhlutunarsinna, í kaflann „Uppreisn alþýðu“. Seint mundi þó RÚV láta sér detta í hug að benda á svo óviðeigandi tengingar. Í þessu efni er þó staða Madúrós ósambærileg við stöðu t.d. Assads í Sýrlandi: Madúró er djúpt inni á hernaðarlegu yfirráðasvæði óvinarins.

8 VALDASKIPTABANDALAGIÐ. Á bak við kröfuna um „valdaskipti“ í Venesúela standa BNA + ESB = NATO, studd af svæðisbundnum fylgiríkjum Bandaríkjanna, „Líma-hópnum“ svonefnda með Kólumbíu fremsta í flokki en einnig Brasilíu og Perú. Munstrið var það sama í tilfelli Líbíu. Svæðisbundnu fylgiríkin þá voru Katar og Persaflóaríkin sem sendu heri og peninga til „uppreisnarinnar“. Eftir að BNA reið á vaðið með að viðurkenna Juan Guaido 23. janúar sl. settu Þýskaland, Frakkland og Spánn fram úrslitakosti fyrir Madúró sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

9 LÖND Í RÚST. Líbía, Írak, Sýrland voru öll lönd með tiltölulega mikla velferð áður en valdaskiptaaðgerðir hófust. Eftir á standa þau stórlega miklu verr, Írak og Líbía eru brotin og mikið til í upplausn, Sýrland stóð af sér árásina en verður lengi að gróa sára sinna.

10 ÍSLAND ER MEÐ. Ísland má sín lítils en er þó alltaf tilbúið að lýsa yfir stuðningi við eyðileggjandi valdaskiptaaðgerðir húsbændanna í BNA og NATO. Þar sem aðgerðirnar gagnvart Líbíu og Venesúela eru hér sérstaklega til umræðu þá er einn stjórmálaflokkur sem á aðild að ríkisstjórnarstuðningi Íslands við þær aðgerðir báðar: VG. Og finnst sumum hart.

Wednesday, January 30, 2019

Valdaránstilraunin í Venesúela

(Birtist á Neistar.is 30. jan 2019)
                                                   Fyrsta maí-ganga í Caracas 1918


JUAN GUAIDO, NÝKJÖRINN FORSETI LJÖGGJAFARÞINGS VENESÚELA lýsti yfir miðvikudaginn 23. jan, að hann væri forseti landsins. Hann fékk samstundis stuðning Bandaríkjanna, síðan stuðning þeirra ríkja í Rómönsku Ameríku sem handgengin eru Bandaríkjunum, síðan helstu NATO-velda og fleiri. Þessir aðilar kalla á „valdaskipti“ (regime change) í landinu.

KREPPAN Í VENESÚELA ER RAUNVERULEG. Alls ekki er þar hungursneyð en vöruskortur á mörgum og mikilvægum sviðum, á ýmsum nauðsynjum og meðulum. Einnig er pólitísk kreppa frá 2015 eftir að þingkosningar og forsetakosningar hafa skilað ólíkum fylgishlutföllum vinstri sinnaðarar stjórnar og hægri sinnaðrar stjórnarandstöðu.

STJÓRNAÐ UTANLANDS FRÁ. Kreppan breytir ekki því að í Venesúela erum við vitni að valdaránstilraun sem stjórnað er utanlands frá. Kreppuna í landinu má einnig skilgreina sem efnahagslegt stríð gegn landinu af hálfu hins volduga granna í norðri auk skipulegrar herferðar vestrænna auðhringa og fjármálavalds – sem hafa 1000 leiðir (á sviði viðskipta, fjármála og gjaldeyrismála, lánaþjónustu, diplómatís...) til að þjarma að einu „óþægu“ landi. Þetta bættist við skuldir og snöggversnandi viðskiptajöfnuð eftir að verð á seldri olíu landsins lækkaði snögglega úr 110 dollurum fatið í 28 dollara vegna skipulegra aðgerða Sádi-Arabíu sem kýlt hefur niður olíuverð með offramleiðslu frá 2014.

BANDARÍKIN STANDA FYRIR EFNAHAGSLEGUM REFSIAÐGERÐUM, og hafa rekið skipulegar þvingunaraðgerðir gegn Venesúela um árabil Sjá nánar. Kverkatakið er nú enn hert með frystingu á sölutekjum og innistæðum Venezúelska ríkisolíufyrirtækisins PDVSA m.m.

BANDARÍKIN LEGGJA STÓRFÉ TIL HARÐSVÍRAÐRAR STJÓRNARANDSTÖÐU innan Venesúela. Stofnanir eins og National Endowment for Democracy og USAID (báðar tengdar bandaríska utanríkisráðuneytinu og CIA) fjármagna USA-sinnaða fjölmiðla í landinu og veita alhliða stuðning stjórnarandstöðuflokkum og fjölmörgum „frjálsum félagsamtökum“ í Venesúela. Meginverkefni þeirra er að „grafa undan“, valda óstöðugleika (destabilise) með mikilli mælskulist um valdníðslu, mannréttindabrot og neyðarástand.

BANDARÍKIN HAFA ÁÐUR STAÐIÐ AÐ VALDARÁNUM og valdaránstilraunum í um 20 löndum Rómönsku Ameríku (löndin í heimshlutanum eru 27 alls!). Sjá nánar
 
BANDARÍKIN HAFA TILEFNI: Venesúela býr yfir stærstu olíubirgðum á plánetunni, sem sósíalistar hafa leyft sér að þjóðnýa! Sjá nánar Heimsvaldasinnar reiða þeim mun hærra til höggs sem meira er í húfi, sbr „stríðið langa“ í hinum olíuríku Stór-Miðausturlöndum, óslitið frá 2001. Venesúela er alveg „eðlilegt framhald“ af „stríðinu langa“. Valdaránstilraunin snýst öðru fremur um olíu. „Stríðið langa“ hefur gengið illa en með Venesúela í vasanum hefðu Bandaríkin og olíuauðhringarnir m.a.s. mun minni þörf fyrir olíuna í Miðausturlöndum! Aukatilefni til valdaráns: Venesúela hefur síðan 1998 (er Hugo Chavez kom til valda) skipað sér með „andspyrnuöxlinum“ (Kína, Rússland, Íran m.m.) gegn hnattrænum yfirráðum USA og Vestursins.

WALL STREET JOURNAL, einn voldugasti bandaríski meginstraumsmiðillinn, birti grein 25. janúar með yfirskrift: "Pence [varaforseti BNA] lofaði stuðningi Bandaríkjanna áður en leiðtogi stjórnarandstöðu Venesúela steig skrefið." Þar stendur m.a. um Juan Guaido: "kvöldið áður en hann lýsti sig bráðabirgðaforseta Venesúela fékk [hann] símhringingu frá Mike Pence varaforseta.“ Sjá nánar Trumpstjórnin gaf augljóslega grænt ljós kvöldið fyrir, og leppurinn Guaido lýsti sig forseta næsta dag! (Juan var í Washington í desember) Samdægurs viðurkenndi Trump svo Juan Guaido sem forseta! Fljótlega hafði Trump einnig lýst yfir að af hálfu Bandaríkjanna væru allar aðgerðir „á borðinu“ og hernaðarinnrás þar með ekki útilokuð.
VESTRÆNA BRÆÐRALAGIÐ STENDUR SAMAN. Frammi fyrir svona áríðandi heimsvaldaíhlutun stendur bræðralag vestrænna heimsvaldasinna (NATO-veldanna) sameinað, bandalag sem þjáðst hefur af sundurlyndi um skeið (sbr. mótmæli evrópskra leiðtoga við bandarískri heimkvaðningu frá Sýrlandi). Allir helstu bandamennirnir: Kanada, ESB og Bretland, Frakkland, Þýskaland, Spánn lýsa yfir stuðningi við valdatöku Guaido, ef ekki verður boðað til kosninga í Venesúela innan 8 daga. Þýskaland, Frakkland og Spánn settu fram úrslitakosti sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

MUNSTUR ATBURÐANNA ER KUNNUGLEGT, afar líkt og í fyrri valdaskiptaaðgerðum: í Júgóslavíu, Írak, Líbíu og Sýrlandi. Allt „óþæg“ ríki með stefnu sem samræmdist ekki hagsmunum Vestursins (sem drottnað hefur með stefnu á heimsyfirráð frá 1990). Áður en ráðist var á þau var beitt pólitískri og diplómatískri einangrun síðan var beitt efnahagslegum refsiaðgerðum og auðvitað leitað að veikleikum innanlands (verðbólga, vöruskortur, trúardeilur, þjóðernisdeilur...) og ekki síst:

FJÖLMIÐLAHERFERÐ. Umfram allt annað er „skrímslagerðin“ ómissandi, þar sem viðkomandi þjóðarleiðtoga er lýst sem harðstjóra og illmenni sem níðist á þjóð sinni og ógni umheimi (Milosevic, Saddam, Gaddafi, Assad, Janúkóvitsj í Úkrínu, Madúró..). Skrímslagerðin er meginþáttur í heimsvaldasinnaðri árás. Ef vel er leitað finna íhlutunarsinnar tilefni til „mannúðaríhlutunar“. Meginstraums-fjölmiðlun á Vesturlöndum er afskaplega miðstýrð, ekki síst þegar kemur að „átakasvæðum“. Sú mötun drottnar í hinum vestræna „hugarheimi“ og hefur enn gríðarlegt hnattrænt vald. Ekki nóg með það: Fjölmiðlarnir eru meginverkfæri valdbeitingar og stríðs.

FORASETAKOSNINGARNAR Í VENESÚELA 2018 VORU UMDEILDAR, með undir 50% þátttöku, þar sem stjórnarandstaðan hundsaði þær. Þátttakan var samt ekki minni en í mörgum vestrænum lýðræðisríkjum, og Nicolás Maduro hefur t.d. hærra hlutfall kjósenda á bak við sig en Donald Trump. Aðlatriðið er þó að það er ekki Bandaríkjanna eða annarra erlendra heimsvaldasinna að skera úr um framkvæmd kosninga í Venesúela. Það er málefni heimamanna. Aðgerðir Maduros gegn þinginu má gagnrýna alvarlega. En það eru ekki áhyggjur af lýðræðinu sem stýra ákvörðunum í Washington (eða Bussel). Umhyggjuna þar á bæ fyrir lýðræði og mannréttindum erum við farin að þekkja. Hún er nákvæmlega eins mikil og hún var gagnvart Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi eða Úkraínu. Hvaða umhyggja er það? Hún heitir heimsvaldastefna.

HVAÐ GERIR ÍSLAND? Enginn hefur tekið upp málið á Alþingi Íslendinga. Guðlaugur Þór Þórðarson segir „óstjórn, meingallaða hugmyndafræði og ofbeldi“ einkenna stjórnarfar Venesúela: „Ástandið í Venesúela er algerlega ólíðandi og við höfum tjáð okkur um það á vettvangi mannréttindaráðs Sam-einuðu þjóðanna.“ (Mbl. 24. jan) Tónninn boðar ekkert gott. Og hjá frjálslyndum vinstrimönnum er hvorki fullveldi né heimsvaldastefna tískuorð.

VIÐ ÞURFUM EKKI AÐ ELSKA MADÚRÓ. En við þurfum að sjá að Jan Guaido er lítið verkfæri voldugri afla. Hagsmunirnir bak við valdaránstilraunina eru hagsmunir olíuauðhringa og vestrænnar fjölþjóðlegrar fjármálaelítu. Mestu ræningja heimsins.