Monday, June 24, 2013

ESB og hið stóra samhengi


Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 22.6.2013

Auðmagnið hefur innbyggða tilhneigingu til að hlaðast upp. Kapítalískar efnahagseiningar éta hver aðra og þenjast út. Kapítalisminn á 21. öld er þess vegna heimur einokunar, risaauðhringa og fjármálafáveldis sem mergsýgur alþýðu og þjóðir um heim allan. Arðránið er hnattrænt, frá jaðarsvæðum til kjarnsvæða. Jaðarsvæðin eru efnahagslega vanþróaðri og lúta oftar en ekki yfirráðum landa úr kjarnanum. Hnötturinn okkar er nú heimur heimsvaldasinnaðra auðvaldsblokka sem takast á sín á milli um yfirráð svæða og markaði.
Þróun ESB endurspeglar þróun kapítalismans. ESB er ein af auðvaldsblokkunum stóru, og með bandalagi þess við Bandaríkin verður svo til miklu stærri valdablokk - Vesturblokkin/NATO-blokkin - sem ræður mestu í heimsmálum nú um stundir og beitir auk þess óspart hernaðarstefnu fyrir hagsmuni sína.
Samrunaferlið í ESB er knúið áfram af gróðasókn stórauðvalds sem ætlar sér að keppa við hina risana - eins og Bandaríkin og Kína. Auðhringar ESB stunda arðrán á þjóðum heims auk þess sem ESB skiptist sjálft í kjarna og jaðar, sem birtist m.a. í því hvernig fjármálavald kjarnalandanna sýgur þróttinn úr jaðarsvæðum Evrópu.
ESB er sem sagt ekkert einstætt, heldur aðeins ein blokkin í efnahagskerfi sem oft er kennt við „hnattvæðingu auðhringanna". Kapítalisminn er orðinn að risavöxnu afætukerfi, skaðlegu og hættulegu bæði mannkyninu og jörðinni.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR gera baráttuna fyrir fullveldi og þjóðlegum sjálfsákvörðunarrétti svo brýna. Sú barátta horfir til frelsis og framfara en er í andstöðu við ríkjandi þróun hins hnattvædda kapítalisma. Þeir sem styðja hnattvæðingu auðhringanna stimpla gjarnan þessa þjóðvarnarbaráttu sem „þjóðernisafturhald". Taka verður fram að þessi þjóðvarnarbarátta felur EKKI í sér þá afstöðu að ein þjóð sé merkilegri en önnur.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR gera það ekki síður brýnt að vinna að samstöðu alþýðu þvert á landamæri. Verkalýðhreyfingin þarf enn frekar en áður að ala með sér alþjóðahyggju byggða á stéttarsamstöðu. Liður í því er að tryggja að erlent vinnuafl búi við sömu kjör og innlent.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR kalla ennfremur á þrotlausa baráttu gegn hernaðarlegum yfirgangi heimsvaldasinna. Nú um stundir er það fyrst og fremst VESTURBLOKKIN áðurnefnd sem stundar þann yfirgang - í Afganistan, Miðausturlöndum, Afríku og víðar - og ógnar hvaða landi sem ekki lýtur vilja hennar í efnahags- eða utanríkismálum.

Sunday, June 9, 2013

Bandaríkin eru fyrirmynd ESBBandaríkin eru vont samfélag. Gjáin milli fáækra og ríkra er óbrúandi og breikkar stöðugt. Í þessu ríkasta landi heims lifir sjötti hver þegn nú á matargjöfum. Sex milljónir Bandaríkjamanna eru í fanglesi, og FBI og Þjóðaröryggisstofnunin stunda æ víðtækari persónunjósnir á þegnunum. Í utanríkismálum reka Bandaríkin kolgrimma hernaðarstefnu til að tryggja hagsmuni auðhringa sinna.

Bandaríkin eru draumaland frjálshyggjunnar, f.o.m. Reagan enn frekar en áður. Þar er afar „hreyfanlegt“ vinnuafl, má flytja það langar leiðir þangað sem auðmagnið þarf á því að halda. Launamunur er óskaplegur, ekkert „gólf“ á vinnumarkaðnum og ekkert „þak“ heldur, stór hluti launþega er ólöglegur og réttlaus. Sétt launamanna er sundruð og verkalýðshreyfingin tjóðruð, vængstífð og áhrifalítil. Auðmagnið og pólitísk elíta því tengd ráða lögum og lofum.

Bandaríkin eru ekki bara nánasti bandamaður ESB í utanríkismálum, þau eru hin mikla fyrirmynd ESB sem samfélag. Sú breyting sem orðið hefur á ESB-ríkjunum síðustu 2-3 áratugi er öll í sömu átt, í átt að fyrirmyndinni.  Hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar („fjórfrelsið“) er ígildi boðorðanna tíu og kom m.a. inn í Lissabonsáttmálann (2007) sem nánast stjórnarskrárbundin lög. Árið 2000 tók ESB upp sk. Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims“ fyrir árið 2020. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki“, sem byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að gera efnahagskerfið samkeppnishæfara og auka hagvöxt. Svo kemur hagkvæmni stærðarinnar: að gera ESB að risaríki með risarekstur og risamarkað –líkt og fyrirmyndin, Bandaríkin.

Sama þróun heldur áfram. Eftir stækkun ESB í austur er ódýrt vinnuafl flutt inn á vinnumarkað ESB í stórum stíl. Síðastliðið haust lagði Framkvæmdastjórn ESB fram tillögur um „skipulagsumbætur“ á vinnumarkaðnum. Þær ganga út á lækkun lágmarkslauna, minna vægi heildarkjarasamninga og sveigjanlegri vinnumarkað. http://eldmessa.blogspot.com/2012_12_01_archive.html  Hefðbundin réttindi launafólks og velferðarkerfið eru rifin niður.

Þetta er frjálshyggjuþróun að bandarískri fyrirmynd. Frjálshyggjan er stríðspólitík auðvaldsins gegn verkafólki. Ein ástæða þess að evrópska stórauðvaldið getur keyrt í gegn frjálshyggju sína er að verkalýðshreyfingin er þar orðin mjög veik.

Okkur verkalýðssinnum finnst verkalýðshreyfingin veik á Íslandi. En á evrópskan mælikvarða er hún mjög sterk. Á Íslandi er í reynd við lýði skylduaðild launafólks að stéttarfélögum. Í ESB-löndunum hefur hins vegar hlutfall þess launafólks sem er skipulagt og félagsbundið farið dramatískt lækkandi undanfarin 30 ár. Á vinnumarkaði ESB í heild er hlutfallið 23%. Í Þýskalandi er hlutfallið 19%, Spáni og Póllandi um 15% og í Frakklandi er það komið niður í 8%. Þetta líkist orðið mjög Bandaríkjunum. Auk þess sem verkalýðshreyfingin er víðast undir forustu krata sem sjálfir hafa gengið hafa frjálshyggjunni á hönd eins og við þekkjum á Íslandi. Sjá þetta hér um hlutfall félagsbundinna:
http://www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Across-Europe/Trade-Unions2 

Svo bætist það við að sjálfskipað herforingjaráð elítunnar – Þríeykið: Framkvæmdastjórnin, Evrópubankinn og AGS – keyrir nú í gegn vægðarlausa niðurskurðarstefnu og víkur öllu lýðræði til hliðar í aðþrengdum löndum Suður-Evrópu. Og meira en það, herforingjaráðið stefnir stöðugt að miklu meiri valdasamþjöppun inna ESB, þótt meirihluti almennings í nánast öllum aðildarríkjum sé því andvígur.

Evrópa kallar sig vöggu bæði lýðræðis og verkalýðshreyfingar en er orðin að sjúkrabeði beggja – líkt og Bandaríkin – þökk sé ESB.

Hin sívaxandi ólga í suðurríkjum ESB gefur von um að alþýðan muni senn rísa upp og snúa þessari voluðu þróun við.
ÞH
                                                                                                                                  

Wednesday, June 5, 2013

Hægri öfgastefna - mesta ógn við lýðræðið nú?


(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 1.6.2013)

Brusselvaldið og Evrópuelítan vilja gera Evrópu að yfirþjóðlegri efnahagsblokk og risaríki sem getur keppt við Bandaríkin og Kína. Til þess þarf vægðarlausa samþjöppun efnahagslífs og stjórnmála. Til þess þarf útþurrkun landamæra. Til þess er allt efnahagslíf álfunnar sveigt að hagsmunum risaauðhringanna en atvinnullíf sem sniðið hefur verið að staðbundnum samfélögum og þörfum er rifið niður. Til þess er álfunni breytti í kjarna og jaðar, lánadrottna og skuldara. Til þess eru reglur hnattvæðingarinnar leiddar í lög - hjá ESB heita þær „fjórfrelsi".
Þegar kapítalísk kreppa sverfur að og endurreisa þarf gróða auðhringanna er öllu lýðræði vikið til hliðar. Þá tekur skrifræðisleg miðstjórn völdin, hin erópska elíta. Hún er ekki þjóðkjörin, hún er fulltrúi fjölþjóðlegs fjármaálavalds, hún er ópersónuleg, andlitslaus. Fremst í þeim flokki fer „Þríeykið", Framkvæmdastjórn ESB og Evrópski seðlabankinn að viðbættu AGS. Þríeykið setur sig nú ofar bæði þingi og ríkisstjórnum í þeim löndum Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Í stuttu máli: þessi auðræðiselíta afnemur þingræðið.
Við lærðum það upp úr 1930 að auðvaldskreppa er lýðræðinu æði háskasamleg. Svar auðvaldsins við innri átökum lýðræðis var þá víða að afnema lýðræðið. Og það er einmitt það sem við sjáum aftur í hinni dýpkandi kreppu okkar daga. En nú sem stendur stafar lýðræðinu í okkar heimshluta MEIRI ÓGN AF UMRÆDDRI AUÐRÆÐISELÍTU en af krúnurökuðum og svartstökkuðum öfgahægrimönnum.
Þetta er veruleikinn. Umræðan er allt annað. Í hinni ríkjandi umræðu er þetta afnám lýðræðis kallað „sparnaðaraðgerðir", „ögunaraðgerðir" „björgunarpakki", „samábyrgð um yfirþjóðlegan vanda" o.s.frv. Umrædd elíta stjórnar nefnilega umræðunni líka, alveg sérstaklega umræðunni um „evrópumálin".
Andstaðan við Evrópusamrunann er mikil, á Íslandi sem annars staðar. Grundvöllur hennar er alla jafna óskir um þjóðlegan sjálfsákvörðunarrétt, oft einhverjar tegundir þjóðernis- og þjóðfrelsishyggju, andstaða við markaðshyggju ESB eða bara óskir um vald nálægt fólkinu. Andstaðan við Evrópusamrunann hefur alltaf verið meiri meðal almennings en hjá samfélagselítunni.
Hinu skal ekki neitað að til eru einnig hægrimenn sem sjá í ESB ný Sovétríki og eitthvað sem þeir kalla sósíalisma, og eru þá oftar en ekki mjög langt til hægri. Evrópskir fasistar og fólk yst til hægri snýst gegn því hvernig kapítalísk hnattvæðing eyðir landamærum í Evrópu - en það hugsar órökrétt og kallar þetta sósíalsima.  
Evrópuelítan grípur þessa síðustu tilhneigingu á lofti og notar hana í stjórnun sinni á „evrópuumræðunni". Það er nefnilega eitt meginviðkvæði Brusselvaldsins í þeirri umræðu að skilgreina alla andstöðu við hinn skrifræðislega Evrópusamruna sem HÆGRI ÖFGASTEFNU. Þetta er ákveðin umræðutækni og ákveðin drottnunartækni um leið. Aðferðin er oftast sú að nota stimpilinn „þjóðernishyggja" á andstöðuna. Í þessari stimpilgjöf er öll þjóðernishyggja lögð að jöfnu, til dæmis er enginn greinarmunur gerður á herraþjóðarhyggju og þjóðfrelsishyggju, á Hitler og Ho Chi Minh.
Endurómur af þessari einkunnagjöf heyrist mjög hér á landi. Árni Þór Sigurðsson, þá þingflokksformaður VG, sagði vefmiðilinn Evrópuvaktina einkennast af„áróðri og árásum hægri öfgamanna undir forystu þeirra Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar. http://smugan.1984.is/?p=18215 Eftir að Framsóknarflokkurinn hvarf af Evrópubraut Halldórs og Valgerðar hafa Evrópusinnar fundið þénanlegt að kenna flokkinn við þjóðernishyggju. Eiríkur Bergmann, Evrópuprófessor á Bifröst, skrifaði:
„Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísar til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum."
Vigdís Hauksdóttir, sá þingmaður Framsóknarflokksins sem mest hefur látið til sín taka í andstöðu við ESB-umsókn Íslands, er lögð í einelti sem kunnugt er. Stimplarnir eru eins og við er að búast úr þessari átt, „þjóðernissinni og afturhaldspíka" er hún kölluð af manni sem notar skáldanafnið „Eirikur Magnússon". Taktu það ekki nærri þér, Vigdís, þessir stimplar eru bara endurómur þeirra tóna sem gefnir eru í Brussel.