Monday, November 5, 2012

„Kommúnistar“ gefa hnattvæðingunni heilbrigðisvottorð


(Birtist á eggin.is og this.is/nei 27. maí og 1. júní 2009)

Ég komst ekki á fund þeirra Hardts og Negris á Háskólatorgi  vegna fjarlægðar og var hálft í hvoru fenginn. En ég fylgdist af athygli með kynningu á þeim fyrirfram, í Speglinum og kynningu Viðars Þorsteinssonar og annarra  í Nei, og ég var stundum hissa. Viðar er oftast skýr og skilmerkilegur í málflutningi sínum en þarna gerðist hann æði flókinn og þokukenndur. Enda svo sem ekki að skýra eigin kenningar. Svo hef ég lesið dálítið hrafl úr bókinni Empire eftir þá félaga. Þeir kenna sig við marxisma og m.a.s. kommúnisma en þeir sýnast hafa lesið hina kommúnísku hefð eins og fjandinn biblíuna.

Hardt og Negri segja: Hnattvæðing efnahagslífsins undafarna áratugi, hnattvæðing markaðsaflanna, er framsækin!  Ekki er lengur hægt að tala um skiptingu heimskapítalismans í miðju og jaðar – og því síður skiptinguna í fyrsta, annan og þriðja heiminn. Við hefur tekið hið frjálsa flæði vöru, auðmagns og vinnuafls  og flókin tengslanet.  Hnattvæddann heimskapítalisma má kalla „veldi“ en hann er án miðju.
Í stað iðnaðarkapítalisma kemur „póstindústríalismi“ þar sem ríkir „óefnisleg framleiðsla“ þekkingar- og þjónustusamfélagsins sem er svo skapandi. USA rekur utanríkisstefnu á grundvelli efnahagasprinsippa og alþjóðaréttar, ekki út frá heimsvaldastefnu á grunni þjóðríkis. Frá bandarískum sjónarhóli má skoða Víetnamstríðið sem endalok hinnar heimsvaldasinnuðu viðleitni og Persaflóastríðið 1990 sýndi Bandaríkin sem eina aðila færan um að fullnusta alþjóðarétt, ekki í krafti þjóðlegra hagsmuna heldur í nafni hnattræns réttar (bls. 178, 180). Heimsvaldastefnan er ekki lengur til og baráttan gegn henni því úrelt. „Veldið“ opnar landamærin og bindur enda á ögunar- og kúgunartæki hinna fullvalda ríkja. Þróun stórauðmagnsins í átt til opnunar allra markaða og fjarlægingar þjóðlegra hindrana er framsækin. Hnattvæðingin gerir menn frjálsari. Það er tímaskekkja að verja þjóðlegt sjálfstæði. Verkalýður sem barðist fyrir réttindum sínum á vinnustað og á stéttarlegum grunni innan þjóðlegs framleiðslukerfis – og kúgaðar þjóðir og alþýða sem börðust gegn yfirgangi heimsvelda – allt þetta er úldið og búið. Við tekur „mergð“ á ferð og floti yfir öll landamæri, launafólk jafnt sem ólöglegir innflytjendur. Og það er nokkuð sniðugt því við erum frjálsari en áður. Samt er arðrán og óréttlæti enn fyrir hendi. Verkefni kommúnista  og andófsafla er að koma auga á og staðsetja sig í námunda við þær „mótsagnir“ sem kapítalisminn felur í sér, mótsagnir sem stuðla óhjákvæmilega að óstöðugleika hans og jafnvel hruni...

Gamaldags marxismi svarar: Hnattvæðing markaðsaflanna er framhald hefðbundinnar heimsvaldastefnu. Hún formfestir og kerfisbindur arðrán og kúgun heimsvaldakerfinsins. Iðnaðarkapítalisminn blívur og arðránskerfi hans harðnar í takt við hnattrænar tilfærslur framleiðslunnar. Hugmyndin um skapandi þekkingarsamfélag er bara ein bullhugmyndafræði fjármálaauðvaldsins. Heimsvaldakerfið hefur aldrei verið eins miðstýrt og það er nú um stundir. Fjölmiðlar kalla það „alþjóðasamfélagið“, „Alþjóðasamfélagið“ réðist á Serbíu, og inn í Afganistan, tvívegis inn í Írak og hótar nú Íran, Sómalíu, Pakistan, Norður-Kóreu... Miðstýringin helgast af einstæðri stöðu USA sem beitir einnig fyrir sig stofnunum eins og NATO og SÞ. Nú standa Bandaríkin ein fyrir helmingi hernaðarútgjalda heimsins. Það var óheppilegt fyrir bókina Empire, með boðskap sinn um andlát heimsvaldastefnunnar, að hún skyldi koma út árið 2000, ári áður en bandarísk heimsvaldastefna gegnum 11. sept-kúppið hóf „stríð gegn hryðjuverkum“ og hrein hernaðarleg nýlendustefna var innleidd, naktari en nokkru sinni. Hinar hnattrænu andstæður miðja–jaðar hafa ekki haggast og heimsvaldastefna auðhringanna hefur afar skýra tengingu við ákveðin ríki og ákveðna heri. Hið nýja í þróuninni eftir stríð er það hvernig hinir hnattrænu auðhringar í kjarnríkjum heimsauðvaldsins hafa komið á yfirþjóðlegum stofnunum sem opna allar dyr fyrir þeirra frjálsa flæði. Þær eru t.d. Heimsbankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ESB, Heimsviðskiptastofnunin. Prinsipp þeirra allra er það sama: Frjálst flæði fjármagns! niður með landamæri og hindranir og niður með efnahagslega sjálfsákvörðun þjóðríkja! Eftir 1980 hefur hert á þróuninni og markaðshyggja orðið þar einráð efnahagsstefna. Misskipting gæða heimsins er enda núna miklu öfgakenndari en við lok seinni heimsstyrjaldar þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Heimsbankinn voru stofnaðir. Að þessum sökum er sem áður eitt mikilvægasta verkefni kommúnista og framsækinna að styðja þjóðfrelsishreyfingar – eins þær sem safna alþýðu á þjóðernislegum eða trúarlegum grunni – og sömu leiðis að standa vörð um efnahagslega og pólitíska sjálfsákvörðun þjóðríkja gagnvart áðurnefndum stofnunum heimsvaldakerfisins. 


Það er ekkert nýtt í því að sjálfnefndir vinstrimenn styðji markaðshyggjuna, við höfum séð nóg af því á Íslandi. Það er líka rökrétt að „kommúnískur“ markaðskrati eins og Antonio Negri skuli styðja stjórnarskrá ESB (Spegillinn 28.  maí), þ.e.a.s. stjórnarskrá sem, ef hún fæst samþykkt,  bannar aðildaríkjum með lögum að víkja frá reglum hins frjálsa flæðis. Og svo ráðleggur hann Íslendingum eðlilega að láta sig hverfa þangað inn.  

No comments:

Post a Comment