Showing posts with label söguendurskoðun. Show all posts
Showing posts with label söguendurskoðun. Show all posts

Saturday, July 3, 2021

Óperasjón Barbarossa – enn og aftur

 (birt á Neistum 22. júní 2021)


Áttatíu ár eru í dag liðin frá innrás Þýskalands í Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa, mannskæðasta glæp veraldarsögunnar. Haldið er upp á afmælið með mikilli samræmdri heræfingu í Austur-Evrópu, gegn Rússlandi. Æfingin sem nefnist DefenderEurope 2021 stendur nú yfir en er dreift á nokkrar vikur í 12 Austur-Evrópulöndum, á landi og sjó. Þátt taka 37 þúsund hermenn frá 27 löndum, þar á meðal frá hinum 14 nýju aðildarríkjum NATO í Austur-Evrópu. Öll fer æfingin fram í Austur-Evrópu, frá Eystrasalti til Svartahafs og Balkanskaga.

Á tímum kalda stríðsins var það líkast til aðeins í verstu martröðum sínum sem Rússar gátu séð andstæðinga sína viðhafa slíka vígvæðingu á svo nálægri lengdargráðu. Þá var „stuðpúðabelti“ vinsamlegra ríkja vestan Rússlands, en nú hefur varnarlínan færst miklu, miklu nær – og óvinurinn stendur við útidyrnar.

Nú er nánast allt meginland Evrópu sameinað í pólitísk-hernaðarlegt bandalag gegn Rússum, NATO. Undantekningin er Hvítrússland (og Sviss). Löndin Úkraína, Georgía, Svíþjóð og Finnland eru að vísu enn ekki formleg NATO-lönd en hafa öll tekið upp „aukna samstarfsaðild“ (NATO‘s Enhanced Opportunities Partners) sem er full þátttaka í hernaðarsamstarfinu án formlegrar NATO-aðildar (Úkraína fékk þá stöðu 2020).

Þá hlýtur staðan að minna óþægilega mikið á stöðuna við upphaf Barbarossa, fyrir réttum 80 árum, frá rússneskum sjónarhól. Þá var einmitt allt meginland Evrópu sameinað undir eina herstjórn (undantekningar voru Sviss og Svíþjóð) þegar herir Þýskalands og bandamanna þeirra réðust inn í Sovétríkin.

Leiðtogafundur NATO var haldinn viku fyrir afmælið og kallaði Evrópuþjóðir til samstöðu á tímum þegar „árásarsinnaðar aðgerðir Rússlands eru ógn við öryggi Evrópu og Atlantshafs“ og til samstöðu um „að verja gildi okkar og hagsmuni“ á tímum þegar „valdboðsríki eins og Rússland og Kína ógna samskiptareglum milli ríkja.“ https://www.nato.int/cps/en/natohq/news_185000.htm

Söguendurskoðun Evrópuþingsins 2019

Vígvæðingin gegn Rússlandi fer líka fram á sagnfræðisviðinu. Nýlega hefur Evrópuþingið í Brussel ályktað sérstaklega um upphaf Seinni heimstyrjaldarinnar. Sú ályktun var gerð í september 2019, þegar 80 ár voru liðin frá því Þýskaland réðist á Pólland 1939. Ályktunin fól í sér svokallaða söguendurskoðun, endurtúlkun á upphafi stríðsins og þar með allri sögu þess.

Ályktunin segir að Evrópuþingið “…leggur áherslu á að Heimsstyrjöldin síðari, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, hófst sem bein afleiðing af hinum illræmda sovét-nasíska griðasáttmála frá 23. ágúst 1939, einnig þekktur sem Mólotoff-Ribbentrop samningurinn og leynilegum ákvæðum hans, en með þeim skiptu þessar tvær alræðisstjórnir, sem deildu sameiginlegu markmiði um heimsyfirráð, Evrópu í tvö áhrifasvæði.” Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem „heiðra alræðisstjórnir“, þ.á.m. þau fjölmörgu minnismerki í austanverðri álfunni sem helguð eru baráttu Rauða hersins gegn nasismanum. https://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-09-19_EN.html

Nokkrum árum fyrr hafði reyndar Evrópuþingið samþykkt að gera 3. september að «evrópskum degi minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma.“ Þá tengdi Evrópuþingið sig við sk. Prag-yfirlýsingu frá 2008 sem endurspeglar gallharða andkommúníska hefð og var undirrituð m.a. af þekktum stjórnmálamönnum eins og Václav Havel og Vitautas Landsbergis. Kjarni yfirlýsingarinnar er ákall um „al-evrópskan skilning því á að kommúnískar jafnt sem nasískar stjórnir... verða að skoðast sem þær meginhörmungar sem hafa eyðilagt 20. öldina.“ https://en.wikipedia.org/wiki/Prague_Declaration#2009

Frumkvæðið að söguendurskoðun Evrópuþingsins hefur m.a. komið frá stjórnvöldum Tékklands og Póllands í nokkrum atrennum. Síðan hefur þessi sagnfræði tekið upp hugmyndina um „tvöfalt þjóðarmorð“ sem í austanverðri Evrópu er orðin að hreyfingu á sviði sögutúlkunar, og er í senn afar hægrisinnuð og afar andrússnesk.

Þessi sagnfræði beitir sálfræði og nokkrum hugrenningatengslum: Hún lýsir Sovétríkjum Stalíns sem útþenslusinnuðu ríki á borð við Þýskaland Hitlers. Hún tengir Pútín við „útþenslusinnan“ Stalín. Hún lýsir jafnframt Sovétríkjunum og Hitlers-Þýskalandi sem tveimur hliðum á sömu mynt, myntinni „tótalítarisma“ (oftast þýtt sem „alræði“ sem einnig er þýðing á orðinu „diktatúr“). Sú hugmynd er svo yfirfærð til nútímans þar sem NATO er fulltrúi lýðræðisins sem berst við „alræðisöflin“ (tótalítarismann) og er þá yfirleitt vísað til Rússlands og Kína (og Íran og N-Kóreu bætt við þegar hentar).

Griðasamningnum gefið nýtt og aukið vægi

Sagnfræðin er í þá veru að Hitler og Stalín hafi deilt með sér Evrópu og byrjað svo heimsstyrjöldina sameiginlega. Þýskaland var áður talið vera einn upphafaðili Seinni heimsstyrjaldar en þarna eru Þýskaland og Sovétríkin sögð bera ábyrgðina sameiginlega. Sem sagt, stórfelld söguleg „endurskoðun“.

Endurskoðunin felur í sér að heimsstyrjöldin hafi ekki hafist 1. sept. 1939 þegar Þýskaland réðist á Pólland heldur einni viku fyrr, 23. ágúst, við undirritun griðasamningsins sem gjarnan er kenndur við Mólotoff-Ribbentrop. Samningnum er gefið vægi sem hann hefur ekki áður haft, að vera upphaf heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt er skipulega horft framhjá aðdraganda samningsins. Sá aðdragandi er þó ærið mikilvægur, jafnvel mikilvægari en samningurinn sjálfur, nefnilega stigvaxandi yfirgangur Þjóðverja (og í minna mæli Ítala) í álfunni – og mjög misjafnlega öflugar tilraunir annarra ríkja til að halda aftur af þeim.

Friday, February 7, 2020

Söguendurskoðun frá Brussel



Molotov undirritar griðarsamninginn. Ribbentrop og Stalín fyrir aftan.


Í september 2019 voru 80 ár liðin frá upphafi seinna stríðs. Af því tilefni  samþykkti Evrópuþingið í Brussel þann 19. september „Ályktun um mikilvægi evrópskra minninga fyrir framtíð Evrópu.“ http://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-0021_EN.pdf  Í ályktuninni eru aðildarlöndin hvött til að halda hátíðlegan dag griðarsamnings Hitlers og Stalíns, 23. ágúst sem „sameiginlegan minningardag um fórnarlömb nasisma og kommúnisma“. Söguendurskoðun ESB gefur griðarsáttmálanum gríðarlegt sögulegt vægi en horfir skipulega framhjá aðdraganda hans.

Söguendurskoðunin er ekki alveg ný af nálinni þar sem Evrópuþingið samþykkti árið 2008 að lýsa 23. ágúst „evrópskan dag minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma“ og hefur síðan gert nokkrar almennari samþykktir um „evrópska samvisku og kommúnisma“ og „evrópska samvisku og alræðisstefnu“. En þessi síðasta ályktun gengur skrefi lengra en áður í því að gera Sovétríkin og Þýskaland Hitlers sameiginlega ábyrg fyrir heimsstyrjöldinni síðari.

Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem heiðra alræðisstjórnir, þ.á.m. þau sem helguð eru Rauða hernum. 

Ályktunin var borin fram af hægriflokkum á Evrópuþinginu en hún var studd af mörgum krataflokkum, grænum og frjálslyndum. En hún hefur mætt verulegri andstöðu. T.d. komu þúsundir kommúnista og vinstriróttækra saman í Róm hálfum mánuði eftir samþykktina og svöruðu ályktun ESB með slagorðinu „Fuck you!“ https://morningstaronline.co.uk/article/w/italian-communists-protest-eu-moves-to-rewrite-history
 
Í íslensku samhengi má segja að sögutúlkanir Þórs Whitehead  og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar ráði nú ríkjum í Brussel. Söguendurskoðunin er gamaldags andkommúnismi en gegnir jafnframt nýju hlutverki í nútímanum: í því að djöfulgera Rússland og endurnýjað rússahatur gegnir einmitt meginhlutverki í herskárri liðssöfnun BNA og Vestursins gegn keppinautunum í kalda stríðinu nýja. 

Hér á eftir fylgir ágæt grein um málið eftir Lennart Palm, sænskan söguprófessor, og birtist á vefnum BEVARA ALLIANSFRIHETEN. https://www.alliansfriheten.se/brussels-historierevisionism-om-andra-varldskriget/ 


ESB endurskoðar sögu síðari heimsstyrjaldar
Lennart Palm

Þann 19. sptember 2019 samþykkti Evrópuþingið með miklum meirihluta ályktunina „Mikilvægi evrópsksra minninga fyrir framtíð Evrópu“. Tilgangurinn með henni var sagður vera að þjóðir evrópu læri af stórslysum sögunnar til að forðast þau í framtíðinni. En minni er vandmeðfarið. Mennirnir vilja gjarnan hagræða og lagfæra söguna, oft af hugmyndafræðilegum orsökum. Stjórnmálamenn Evrópuþingsins reyna að búa til sameiginlegar minningar en sams konar hagræðingar-gangverk sýnir sig þar eins og hjá einstaklingum. Pólitískt viðkvæmum staðreyndum er ýtt út og hlutir teknir úr samhengi. Með orðum Harolds Pinter frá Nóbelsræðunni 2005: „Það hefur aldrei gerst. Ekkert hefur gerst. Ekki einu sinni meðan það gerðist gerðist það. Það hefur enga þýðingu.“ Hin umrædda ályktun hefur naumast verið nefnd í stóru fjölmiðlunum okkar. 

Meginhugsun ályktunarinnar er að Hitlers-Þýskaland og Sovétríkin hafi í sameiningu hafið seinni heimsstyrjöldina: „Evrópuþingið leggur áherslu á að seinni heimsstyrjöldin, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, byrjaði sem bein afleiðing af hinum alræmda nasistþýska-sovéska griðarsamningi frá 23. ágúst 1939, einnig nefndur Mólotoff-Ribbentropsamningurinn, og leynilegri bókun hans en með henni skiptu tvö alræðisríki, sem stefndu að því að leggja undir sig heiminn, Evrópu í tvö áhrifasvæði.“ Svo auðveldlega rugla menn spilunum – án neinna nýrra upplýsinga ganga menn í berhögg við viðtekið viðhorf í sagnfræðirannsóknum um Þýskaland sem upphafsaðila stríðsins. 

Nokkur gleymd efnisatriði: Seinni heimsstyrjöl var að miklu leyti framhald þeirrar fyrri. Í baráttu sinni um nýlendur og markaði öttu pólitískar elítur Evrópu árið 1914 þjóðum sínum út í mestu slátrun fram til þess tíma. Sigurvegararnir, fyrst og fremst Frakkar, Bretar, Bandaríkin og Belgar útnefndu Þýskaland sem eitt ábyrgt fyrir stríðinu og kröfðust grimmúðlegra stríðsskaðabóta. Landið var rænt gömlum þýskum svæðum eins og Elsass og Lotringen og Vestur-Prússlandi. Rínarhéruðin voru sett undir erlenda stjórn. 

Í austri féll rússneska keisaradæmið saman og í staðinn komu sjálfstæð ríki, verðandi Sovétríkin, Finnland, Eystrasaltslönd, Pólland m.m. Í Sovét-Rússlandi hélt borgarastríð milli rauðra og hvítra áfram til 1922. Hinir hvítu fengu hjálp frá hundruðum þúsunda  hermanna frá ríkjum í Vestrinu: Þýskalandi, Bretlandi, Tékkoslóvakíu, Bandaríkjunum, Finnlandi og öðrum. Í viðbót við það kom að Pólland réðst á og hernam stóra hluta af núverandi Hvítrússlandi og Úkraínu (hluta sem Stalín tók svo tilbaka 1939). Þessar innrásir skildu ekki bara eftir sig eyðingu, þær áttu líka þátt í að skapa andrúmsloft umsáturs í Sovétríkjunum. Einnig hér gleymir Evópuþingið illu sáðkorni Vestur-Evrópu í jörð hins ókomna. 

Sovétmenn voru sannfærðir um að þeir lifðu í fjandsamlegu umhverfi. Sovétforustan óttaðist fyrst mest Breta en fór með valdaatöku Hitlers að líta á hið nasíska Þýskaland sem helstu ógn. Áform Hitlers um að skapa sér „lebensraum“ og að gera hinn „óæðri lýð“ í austri að nýlendum voru vel þekkt úr Mein Kampf sem og þýska vígvæðingin (sem Sovétmenn vissu vel um gegnum hernaðarsamvinnuna við Weimarlýðveldið). Hernám Rínarhéraða og og íhlutunin gegn spænska lýðveldinu gerðu hættuna ljósari. 

Árið 1934 áleit utanríkisráðherra Sovétríkjanna að það væri „aðeins hægt að berjast gegn metnaðrgirnd Þýskalands af skjaldborg ákveðinna granna“. Sovétríkin beittu sér því fyrir „sameiginlegu öryggi“. En hversu „ákveðnir“ voru grannarnir? Íhaldssamir og frjálslyndir flokkar Þýskalands gerðu Hitler kleift að taka völdin og greiddu samhljóða atkvæði með umboðslögum hans 1933 [lög sem veittu honum stjórnarumboð, þýð.]. Lýðræðisstjórnir Evrópu höfðu staðið aðgerðarlausar gagnvart hernámi Rínarhéraða og uppreisn fasista á Spáni. Þrátt fyrir það gerðu Sovétríkin á 4. áratugnum ákafar tillögur um varnarbandalög við Frakka, Breta, Bandaríkin, Rúmeníu, Pólland, Júgóslavíu, já m.a.s. hina fasísku Ítalíu. Allstaðar var tillögunum hafnað, Pólland vann beinlínis gegn tillögum Sovétríkjanna alveg fram að stríði. Og enn átti það eftir að versna. 

Þann 29. September 1938 hittu breski forsætisráðherrann Chamberlain og Dadalier forseti Frakklands Hitler og Mússólíni í München. Þýskaland heimtaði að Tékkóslóvakía skilaði Súdetahéruðum með þýskmælandi íbúum. Hitler fékk grænt ljós frá Bretum og Frökkum að ráðast inn í Tékkóslóvakíu, og hann lét sem kunnugt er ekki staðar numið við Súdetahéruðin.

Einnig Pólland, sem árið 1934 varð fyrst til að gera griðarsamning við Hitler, sendi inn hermenn sína sem hertóku slésíska hluta Tékkóslóvakíu. Sovétfoustan sá nú hvert stefndi, þ.e.a.s. að Vestrið vildi fá Hitler til að stefna í austur. Stríðið virtist stöðugt nálgast, en svo seint sem í apríl 1939 hafnaði Frakkland nýju tilboði frá Sovétríkjunum. Í maí leitaði nýi utanríkisráðherran Mólotoff eftir samningi við Pólland en var strax hafnað. Það fóru þó fram samningaviðræður við Englendinga. Þeir áttu þó einnig í leynilegum samningaviðræðum við Þjóðverja og ákváðu að „fara sér hægt“. Þeir sendu sendinefnd með farþegaskipi (á 14 hnúta hraða) sem náði til Sovétríkjanna á 5 dögum, og þar sýndi sig að sendinefndin hafði ekki umboð til að undirrita neinn samning.

Nú gaf Moskva upp alla von um samninga við Vesturveldin. Mólotoff-Rippentroppsamningurinn var undirritaður 23. ágúst 1939. Samningurinn gaf Sovétríkjunum nokkra ávinninga. Þau fengu tóm til að byggja frekar upp varnir sínar fyrir þýsku árásina sem menn vissu að kæmi fyrr eða síðar. Gegnum hina (vissulega siðlausu) leynilegu bókun fékkst „áhrifasvæði“ sem virka skyldi sem stór höggdeyfir.
Öllu þessu samhengi hlutanna er vandlega ruglað og eytt í söguritun Evrópuþingsins. Einna furðulegast er að München-samkomulagið er þar ekki nefnt einu orði. 

En þetta er ekki nóg. Þann 22. júní 1941 kom svo árásin mikla á Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa. Þar tóku þátt auk Þýskalands einnig Austurríki, Rúmenía, Finnland, Ítalía, Ungverjaland, Slóvakía og Króatía. Það er frá nokkrum þessara landa sem eldsálirnar að baki ályktun Evrópuþingsins eru. Í hinni herteknu Evrópu lagaði borgarastéttin sig gjarnan að Þjóðverjum. Það voru reyndar Sovétríkin sem stóðu fyrir stærstum hluta andspyrnunnar gegn nasismanum (kostaði 27 milljónir sovétborgara lífið), og í andspyrnuhreyfingunum gegndu kommúnistar oft leiðandi hlutverki. Hvaða „minningar“ um þetta eigum við að varðveita, skv. Evrópuþinginu? Augljóslega engar!

Hvaða afleiðingar fær svona ályktun? Í framhaldinu er tjáningarfrelsinu hótað. Við megum búast við stöðugt þrengra tómi til umræðu, og nýjum, pólitískt leiðréttum skólabókum. Í ályktuninni eru aðildarlönd ESB hvött til að halda hátíðlegan 23. ágúst, dag þýsk-sovéska griðarsamningsins, sem  sameiginlegan minningadag um fórnarlömb um nasisma og kommúnisma, að forðast „lágkúru“ í umræðu og fjölmiðlum, að efla sameiginlega sögumenningu og veita meira fé til ESB-áróðurs. Rússneska samfélagaið er hvatt til að gera upp við sína sorglegu sögu og hætta meintu upplýsingastríði, háðu til að kljúfa hina lýðræðislegu Evrópu. Án þess að spá í grjótkast úr glerhúsi skrifar Evrópuþingið einnig að Rússland verði að hætta að rangsnúa sögulegum staðreyndum.

Þessi rússaandúð frá Brussel hefur verið ákaft gripin af stærsta blaði Svíþjóðar, Dagens Nyheter, af Michael Winiarski utanríkisskriffinna og af leiðarasíðu blaðsins. Við munum því miður sjá meira af slíku í fjölmiðlum okkar, miklu meira. En er það ekki viðvörunarmerki að pólitísk samkunda eins og Evrópuþingið fyrirskipi hvað er sögulegur sannleikur? Það leiðir hugann óneitanlega að alræðislegum forskriftum.
(Höfundur er prófessor emerítus við Gautaborgarháskóla)

Saturday, November 10, 2012

Söguendurskoðun og fullveldi

(Birtist á eggin.is 23. mars 2010)


Víðsjá útvarpsins föstudaginn 5. febrúar lagði fyrir fjóra fræðimenn spurninguna „hvort gamlar og úreltar hugmyndir um sögu þjóðarinnar stjórni umræðu um brýn málefni“. M.ö.o. hvort þjóðernishyggjan þvælist fyrir Íslendingum. Hluti af sama vandamáli var spurningin af hverju svo mikið bæri á milli söguvitundar þjóðarinnar og söguskoðunar fagsagnfræðinga. Þau fjögur, sagnfræðingarnir Guðmundur Hálfdanarson, Sverrir Jakobsson og Ragnheiður Kristjánsdóttir og svo Úlfar Bragason íslenskufræðingur, voru mjög samstíga í svörum sínum. Já, þjóðin er enn í hugarhlekkjum þjóðernishyggju sem torveldar henni að fást við vandamál nútímans. Það var ekkert óvenjulegt við málflutning þessa fólks, ég bregst einmitt við honum af því hann er dæmigerður fyrir stóra hópa menntamanna.
Hvernig þvælist þjóðernishyggjan fyrir? Jú, segja menn, í góðærinu var óheft þjóðremba virkjuð í þágu útrásarkapítalista og í eftirköstunum nota menn sömu þjóðernisorðræðu, tala um „umsátur“ útlendinga, æsa þjóðina til að hafna Icesave-samningnum o.s.frv. Okkur hefnist fyrir þetta en Íslendingar læra aldrei neitt, vaða alltaf áfram í stað þess að leita samvinnu við önnur lönd. Ragnheiður Kristjánsdóttir hélt að því miður hefðum við (væntanlega þjóðin) enn ekki „lært að skammast okkar“.
            Þjóðrembingsleg afstaða Íslendinga, segja þau, hvílir á þjóðernislegri söguskoðun. Hún byggir aftur á goðsögnum eins og þeirri að frelsi og fullveldi hafi skapað framfarir Íslands og að sjálfstæðið hafi verið afurð mikillar baráttu. Sannleikurinn sé hins vegar sá að sjálfstæðisbaráttan hafi byggst meira á afturhaldi en framfarahugmyndum og fullveldið hafi komið sem gjöf eða söguleg tilviljun. 
            Í ofanskráðu verða tvær hugmyndastefnur að einni: annars vegar ákveðin útgáfa af svonefndri „íslenskri söguendurskoðun“ sem sló í gegn um og upp úr 1990 og hins vegar það sem ég kalla kratíska afstöðu til íslensks sjálfstæðis og fullveldis. Kratíska afstaðan felst í að taka sterklega undir söguendurskoðunina og ganga langt í henni.
Það er óhjákvæmilegt að skoða söguendurskoðunina í tengslum við þjóðfélagsumræðu sem fram fór á sama tíma. Þá stóð yfir mikil sóknarlota í Evrópusamrunanum og leiddi af sér sameiginlegan „innri markað“ og einnig inngöngu Norðurlandanna (í kjölfar Danmerkur) í ESB og EES árin 1992–1994.  Umrædd breyting á ESB, ennfremur tilkoma NAFTA í Ameríku og Úrúgvælota GATT (1994) snérust um eitt og sama hnattvæðingarprinsipp: um frjálst flæði fjármagns og fjárfestinga milli landa. Stóauðvaldið leit nú á fullveldi þjóðríkja sem alvarlegan hemil á athafnafrelsi, og þessi boðskapur sló óðara í gegn hjá efnahagselítu, hagfræðingum og stjórnmálamönnum á Vesturlöndum. Á Íslandi urðu línur aðeins flóknari vegna spurningarinnar um yfirráð yfir fiskimiðunum. Hérlendis urðu því markaðskratar meiri málpípur ESB en gamaldags hægrimenn.
Svo kom íslenska hrunið, AGS og ESB-umsókn nýrra stjórnvalda. Var þá fullveldi Íslands afskrifað enn ákafar en áður, ekki síst af fjölmiðlafólki. Almenningur hefur ekki tekið undir það og virðist bara forherðast í sjálfstæðisvilja sínum og fúlsar við Icesave-samningnum sem aðgöngumiða að ESB. Þá grípa evrópusinnar – fræðimenn jafnt sem aðrir – til þeirra undarlegu röksemda að kenna íslenskri þjóðernishyggju um útrásina og hrunið. Það er þó reginfirra. Meginstef þjóðernishyggju er að ríki skuli fylgja þjóðernislínum og vera sjálfstæð. Þjóðir sem samfélagsheildir með sameiginlega menningu séu hinn eðlilegi grundvöllur stjórnmála og ríkisvalds. Hugmyndafræði útrásarmanna var hins vegar aljóðahyggja auðstéttarinnar. Fyrsta boðorðið þar er frjálst flæði fjármagnsins milli landa.
            Í íslenskri söguendurskoðun er marxískri stéttgreiningu stundum beitt til að stimpla sjálfstæðisbaráttuna afturhaldssama. En þegar sama fólk talar um ESB og AGS sem nú hafa svínbeygt íslenska ráðherra í röðum þá hverfur öll róttæk greining og talað er um þær sem „alþjóðasamfélagið“ eins og um óháða aðila væri að ræða.  Stórveldapólitík, heimsvaldastefna og valdahlutföll heimskapítalismans eru einkennilega fjarverandi í þessari vinstriorðræðu. Yfirgangurinn er víst einkum Íslands megin!
            Fjármálakerfi og regluverk Evrópska efnahagssvæðisins hefur reynst Íslendingum ofurdýrt og ógnar fullveldi landsins. Íhlutun AGS í íslensk stjórnmál sömu leiðis. Skilyrði þjóða til sjálfsákvörðunar er vissulega vandamál sem þarf að ræða. En sjálfstæðisvilja þjóðarinnar get ég ekki litið á sem vandamál.