Tuesday, April 22, 2014

Klúbbarnir tveir og vinstrimenn

Ég er ósáttur við fésbókarvini mína.  Fólkið sem stóð með mér í Búsáhaldabyltingu fyrir bráðum 6 árum stendur nú aftur reglulega á Austurvelli og heimtar áframhald á umsóknarferlinu að ESB. Yfirlýstir vinstrimenn vilja afhenda skrifræðinu í Brussel íslensk gögn og gæði. Jafnframt er uppistaðan í pólitískri umræðu margra þeirra orðin að persónulegum skætingi, skítkasti og níði um íslenska ráðherra eða forsetann á fésbókarsíðunni minni og í öðrum netmiðlum - vegna ESB-afstöðu þeirra.

Þetta fólk, sem ég held að skiptist tilvijanakennt milli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, og Evrópuarms VG (helstu afskipti VG af ESB-málinu undanfarið eru reyndar þau að heimta framhald umsóknar!) lítur á evrópska sameiningar- og samrunaþróun sem ópólitíska „efnahagsþróun“, „opnun“ „fjölþjóðlega samvinua“ o.s.frv. Einkum lítur það á allt viðnám gegn þessari „eðlilegu“ þróun sem nesjamennsku og þjóðrembu, og lægra verður víst ekki komist.

Ég held því fram að þessu valdi einfaldlega pólitískur vanþroski. Fésbókarvinir mínir eru upp til hópa vel meinandi vinstri menn og um margt skynsamt fólk. En þetta er „vinstrimennska“ sem hefur þann galla að vita ekkert hvað kapítalismi eða heimsvaldastefna er. Þekking á slíku er gleymd. Fók sem ekki er meðvitað um það heimsvaldaumhverfi sem það lifir í er á valdi þess umhverfis. Þegar meðvitaða greiningu skortir lifir maðurinn í ímynduðum heimi. Upphleðsla auðmagns og samþjöppun auðs og valds í heimsvaldablokk birtist honum þá einfaldlega sem  „eðlileg efnahagsþróun“ og heimsvaldaprósékt (evrópskrar) borgarastéttar birtist sem „alþjóðleg samvinna“.

Ísland – verandi aðili að EES og NATO – er á yfirráðasvæði ESB og Vesturblokkarinnar. Við Íslendingar lifum mjög á forsendum þeirra hugmynda sem þar ríkja og hlýðum þeim lögmálum sem þar gilda. Aðlögun og innlimun gengur þar SJÁLFKRAFA, nema henni sé meðvitað veitt viðnám. Inngangan sjálfvirk, en útgangan....

Þorsteinn Pálsson skrifar: „Evrópusambandið snýst... í stuttu máli um frjáls viðskipti og vestræna samvinnu.“ Þetta er rétt. ESB er evrópski hluti Vesturblokkarinnar. Sá hluti hennar sem hefur þanist út. Útþensla hennar eftir lok kalda stríðsins hefur falist í að  innlima ný svæði í vestræna efnahagskerfið, opna það fyrir frjálsu flæði fjármagns, opna það fyrir „hnattvæðingu“ vestrænna auðhringa.

Sem er þó bara önnur hlið málsins. Hin hliðin er útþensla NATO: að innlima ný svæði inn í hernaðarkerfi NATO.  NATO er hernaðararmuninn á Vesturblokkinni. Þegar Sovét – tilverugrunnur NATO – var horfin fór „varnarbandalagið“ að þenjast út. Í grófum dráttum hefur það innlimað afganginn af Evrópu. NATO-blokkin er stríðsblokk nútímans sem kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og stefnir á heimsyfirráð. Í þeirri blokk eru Bandaríkin foringinn og ESB aðstoðarmaðurinn.

Evrópuvinstrið ímyndar sér gjarnan að stækkun ESB og stækkun NATO séu tvö aðskilin ferli, hvort öðru óháð. Það er misskilningur. Öll ríki ESB eru NATO-ríki ellegar hafa aukaaðild/samstarfsaðild að bandalaginu. Kýpur hefur verið eina undantekningin en nýr forseti landsins hefur nú sótt um samstarfsaðild að NATO. Engu ESB-ríki líðst til lengdar að standa utan NATO né hafa aðra sjálfstæða utanríkisstefnu. Eftir fall Múrsins hafa stækkunarferlin tvö gengið samhliða yfir Evrópu. Stærsti skammtur Austur-Evrópuríkja, sjö talsins, gekk nær samtímis inn í samböndin tvö árið 2004 (Rúmenía og Búlgaría urðu þó að bíða þrjú ár í viðbót utan ESB).

Því fylgja skyldur að vera í liði Vesturblokkarinnar. Þegar lönd eru komin í NATO eru þau SJÁLFKRAFA þátttakendur í hernaði bandalagsins. Öll ESB-ríki nema Malta og Kýpur hafa átt aðild að hernaðinum í Afganistan og Líbíu. Og nú eru þau SJÁLFKRAFA komin í viðskipta- og diplómatískt stríð við Rússland.

Hið nána bandalag ESB og Bandaríkjanna gegnum NATO hefur stundum verið Evrópuvinstrinu sálrænt erfitt. Tilkoma hins frjálslynda Obama auðveldaði sumum vinstrimönnum að styðja stríðsrekstur Bandaríkjanna. Og nú verður norski „vinstrimaðurinn“ Jens Stoltenberg nýr framkvæmdastjóra NATO. Verður þá kannski NATO líka boðlegur klúbbur fyrir vinstri menn, og stríð hans ásættanlegri?  

Friday, April 11, 2014

Lýðræðið verst í vök

Lýðræði hentar auðvaldinu illa á krepputímum.Þróun ESB er dæmi um það.ESB er þó alls ekki einangrað, mislukkað dæmi eins og ýmsir kjósa að skoða sambandið, heldur er það á margan hátt dæmigert fyrir þróunina á heimsvísu.
Meðan fullvalda þjóðríki með eru rammi stjórnmála gefur það verkalýðshreyfingu og virkri grasrót möguleika til áhrifa. En yfirþjóðlegar blokkir eins og ESB og NATO taka sér æ meira vald. Þær stjórnast af öflugri þrýstihópum: stórveldum Evrópu, fjármálamörkuðum austan Atlantshafs og vestan, Bilderberg-klúbbnum, World Economic Forum, AGS, Heimsviðskiptastofnuninni o.s. frv. Grasrót og smáríki hafa þar harla litla möguleika til áhrifa. Hagsmunir vestræns stórauðvalds sitja fyrir og menn nálgast þar hreint auðræði. Einkennilegt er að sjá yfirlýsta vinstri menn styðja þessa þróun.
Þessi samþjöppun valdsins í Evrópu gildir ekki eingöngu fyrir lönd með fulla ESB-aðild. Hvort sem við Íslendingar innleiðum 2/3 af regluverki ESB gegnum EES-samninginn - oftast án teljandi umræðu á þingi - eða ögn hærra eða lægra hlutfall er það sannanlega grafalvarlegt afsal á fullveldi landsins og þar með lýðræðinu.
Auðurinn þjappast saman ekki síður en valdið, svo nú eiga 85 auðugustu einstaklingar heims jafn miklar eignir og fátækari helmingur jarðarbúa.
Evrópa hefur þróast hratt til tvískiptingar, kjarnasvæði norðan- og vestanvert og svo jaðarsvæði í austri og suðri. Efnahagskerfi jaðarsins verður undir í samkeppninni, þau lönd verða efnahagslegar hjálendur meðan kjarninn, einkum Þýskaland, þróast sem útflutningshagkerfi. Kapítalískur aflsmunur ræður.
Í kreppu síðustu ára í Evrópu hafa jaðarlöndin orðið ofurskuldug. Þá er lýðræðinu og borgaralegum réttindum miskunnarlaust fórnað. Árið 2011 neyddi fjármálafáveldi Evrópu tvo forsætisráðherra, ítalska Berlusconi og gríska Papandreo, til að segja af sér. Berlusconi hafði sagt að Ítalía gæti e.t.v. ekki greitt skuld sína. ESB skipti honum þá snarlega út og setti Mario Monti, bankastjóra í Goldman Sachs í hans stað. Þegar Papandreo ýjaði að því að þjóð hans ætti e.t.v. að fá að segja álit sitt á kreppuráðstöfunum ESB þá ýtti ESB honum til hliðar og setti varaforseta Evrópska seðlabankans í hans stað.„Þríeykið" - Framkvæmdastjórnin í Brussel plús Evrópski seðlabankinn plús AGS - lagði línuna. Þjóðþing voru einskis spurð. Þingræðinu er ýtt til hliðar þegar það hentar ekki.
Í kreppunni miklu upp úr 1930 jókst vægi grasrótarinnar víða í Evrópu smám saman (þar sem ekki ríkti fasismi) einkum vegna framsóknar róttækrar verkalýðshreyfingar og sósíalískra viðhorfa. En vegna sögulegs undanhalds sósíalismans er nú mikill skortur á mótafli í samfélagið gegn hinu óhefta auðræði.  
Lögregluríkið þróast jafnt og þétt bak við tjöldin. Edward Snowen hefur sýnt og margsannað að bandarískar öryggisstofnanir hafa árum saman njósnað um almenning í eigin landi og um heim allan gegnum Microsoft, Google, Facebook m.m. Bandaríska Þjóðaröryggisstofnunin hlerar Angelu Merkel, en Snowden hefur einnig sýnt að breskar þýskar og meira að segja skandinavískar öryggisstofnanir vinna náið með þeirri bandarísku.Þessi lönd halda þó fram eigin lýðræði sem fyrirmynd. Þetta er skýlaust brot á stjórnarskrá landanna, en hún víkur fyrir þörfum auðs og valds.
Í sunnanverðri Evrópu, þar sem kreppan kemur harðast niður hefur ríkisvaldið tekið að skerða atahafnafrelsi verkalýðshreyfingar og virkrar fjöldahreyfingar. Á Spáni er kreppan hyldjúp. Atvinnuleysi fólks innan 25 ára nálgast 60%, sem eðlilega hefur leitt til mikilla mótmæla. Því svarar ríkisvaldið með harðneskjulegum lögum gegn mótmælaaðgerðum. Lögleidd hafa verið grimmilegar fjársektir t.d. við verkföllum og við því að mótmæla í leyfisleysi nálægt þinginu í Madríd.
Þegar kreppan dýpkar og átök heimsveldanna harðna bruggar Vestrið (USA og ESB-veldin) sterkari meðul. Í Sýrlandi beitir það fyrir sig vígasveitum íslamískra terrorista. Í Úkraínu var löglega kjörinni stjórn steypt með dyggilegri hjálp ESB og Bandaríkjanna. Miklu ofbeldi var beitt við stjórnarskiptin. Vestræn pressa lýsir þessu reyndar sem sigri „lýðræðisins" enda voru það vestrænt sinnuð öfl sem komust að. Helstu flokkarnir í nýrri stjórn eru Föðurlandsflokkur Jatsenjúks forsætisráðherra og Júlíu Tímosjenko fyrrum forsætisráðherra og svo fasistaflokkurinn Svoboda. Ekki þarf að fjölyrða um þann síðarnefnda, þar fara nasistar af gamalli gerð. Hinn er flokkur öfgaþjóðernissinna, afskaplega Rússlands-fjandsamlegra. Tímosjenko hefur verið séstakur talsmaður ESB í Úkraínu, mjög vestrænt sinnuð og frjálslynd að því okkur er sagt. En rússnesk leyniþjónusta náði að hlera og leka til fjölmiðla símtali hennar við samflokksmann sinn þar sem hún segir að útrýma beri Rússunum í Úkraínu og breyta Rússlandi í sviðna jörð! Í háborgum valdsins vestan og austan Atlantshafs eru menn sjálfsagt ekkert hrifnir af fasistum. En allt er hey í harðindum og sem sagt: á krepputímum hentar lýðræðið auðvaldinu illa.

Thursday, April 10, 2014

Sókn Pútíns sem nauðvörn

Nú er hafið efnahagslegt stríð gegn Rússlandi. Viðskiptaþvinganir og diplómatísk einangrun. Bandaríkin eiga frumkvæðið. Evrópuríkin fylgja á eftir í halarófu – að vanda. Ísland veitir virkan stuðning – eins og venjulega þegar ófriður er í boði. Ástæðan er íhlutun Rússlands í málefni Úkraínu. Nú eru stóru vopnin skekin.
Ásakanir Rússa um vestræna íhlutun í Úkraínu, tal Pútíns um að Bandaríkin og Vesturveldin hafi staðið á bak við valdaskiptin í Úkraínu og þar með umsátur um Rússland eru hins vegar afgreidd í vestrænni pressu sem samsæriskenning. Hlustið bara á eða lesið íslensku pressuna. Vestræn íhlutun er þar aldrei til umræðu. Óheillavænleg þróun mála á Krím er sprottin af valdahroka Pútíns, punktur og basta. Pútín er æ oní æ líkt við Hitler. Fyrstur til þess varð Zbigniew Brzezinski, gamli utanríkisráðgjafi Carters forseta sem enn hefur háa stjörnu og sem Obama kallar „one of our most outstanding thinkers“. Daginn eftir fylgdu bæði Hillary Clinton og John McCain í kjölfarið og brúkuðu Hitlerstimpilinn á Pútín. Garry Kasparov tönglaðist á því í viðtali við Þóru Arnórsdóttur og síðan hefur hver étið það upp eftir öðrum.

Nú skal horft í austur og rök færð fyrir því að vestræn íhlutun sé einmitt afgerðandi í Úkraínu og að umsátrið um Rússland sé raunverulegt.

Dæmisagan falska um Rúanda

Birtist á fridur.is og attac.is í febrúar 2014 
TheNewScrambleforAfrica 298x268.jpg

Fyrst: um Bosníu og Kosovo

Í fyrri grein var minnst á nokkur þau voðaverk á undanförnum áratugum sem eru notuð til réttlætingar hinnar vestrænu íhlutana- og hernaðarstefnu, sem "múrbrjótar" gegn fullveldismúrnum. Það er rík ástæða til að skoða þau dæmi vel.
NATO réttlætti aðgerðir sínar í Bosníu 1995 og Kosovo 1999 með "þjóðernishreinsunum" þar, "skipulegum hópnauðgunum" og "fjöldamorðum". Í vestrænni pressu er goðsögnin um bæinn Srebrenica skóladæmi um fjöldamorð í "óþokkaríki". Þar áttu 7-8 þúsund múslimar að hafa verið myrtir í miklu fjöldamorði en rannsóknir eftir á sýndu að í kringum Srebrenica féllu um 2000 manns sem að stærstum hluta voru hermenn í bardögum, úr báðum fylkingum stríðsins. (Sjá grein eftir Edward S Herman um Srebrenica.)
NATO hóf loftásrásir sínar á Júgóslavíu í Kosovo-stríðinu 1999 eftir ótal uppslætti í vestrænni pressu um "þjóðarmorð" eða "Holocost". Bandaríski sendiherrann í landinu hafði t.d. sagt að 100-250 þúsund Kosovoalbanir væru "horfnir" og líklega "myrtir". Ári síðar upplýsti Alþjóðlegi glæpadómstóllinn í Hag eftir vettvangskannanir sínar að fundist hefðu 2788 lík í "fjöldagröfum" Kosovo. Í þeirri tölu var meirihlutinn stríðsmenn frá báðum hliðum og flestir höfðu fallið á svæðum þar sem Frelsisher Kosovo (studdur af Vesturveldunum) hafði verið virkastur. (Sjá grein John Pilger um áróðurinn og raunveruleikann).