Showing posts with label bandaríski flotinn. Show all posts
Showing posts with label bandaríski flotinn. Show all posts

Tuesday, January 2, 2018

Vaxandi viðsjár á Norðurlöndum 2017


Stórstríð er í gerjun. Á Norðurlöndum færist það einnig nær. Á árinu 2017 var Ísland flækt betur í styrjaldarundirbúning Bandaríkjanna og NATO. Í júní og júlí stóð tveggja vikna NATO-flotaæfing við Ísland. Þar tóku þátt 2000-3000 manns frá 9 NATO-ríkjum. Tilefnið var sagt vera vaxandi umsvif rússneskra kafbáta á svæðinu. Keflavíkursamningurinn er í gildi og Pentagon hefur nú eyrnamerkt 1,5 milljarð króna til uppgerðar á flugskýlum sínum á Keflavíkurvelli. Það er fyrsta skref.

Í þrjár vikur í september sl. var NATO-heræfingin Áróra haldin í Svíþjóð, stærsta heræfing þar í landi eftir Kalda stríðið. Yfir 20 þúsund hermenn tóku þátt, frá a.m.k. 5 NATO-löndum auk Svíþjóðar og Finnlands. Svíþjóð lét af hlutleysi sínu 1994 þegar það gerðist aukaaðili að NATO undir yfirskriftinni „Partnership for Peace“. Og 2016 tók NATO næsta skref og gerði „gestgjafasamning“ við Svía: Svíþjóð heimilar NATO-æfingar í landi sínu, NATO fær að geyma hergögn í landinu og sendir mannafla með litlum fyrirvara ef ófriðlegt skyldi gerast. Í höfuðstöðvum NATO var heræfingin Áróra skýrð svo: „Í ljósi núverandi stöðu öryggismála, með auknum áhyggjum af rússneskri hernaðarvirkni, þá styrkir NATO samvinnuna við Svíþjóð og Finnland á Eystrasaltssvæðinu.

Nýjustu fréttir frá Noregi: Í Noregi hafa þegjandi og hljóðalaust orðið brotthvarf frá upphaflegum NATO-skilmálum landsins frá 1949 þar sem sagði að ekki yrðu leyfðar í landinu herstöðvar eða herafli framandi hervelda á friðartímum. Nú hefur bandaríski flotinn viðvarandi herafla og hergögn á Værnes í Þrándheimsfirði. Og nú í desember er þar mættur bandarískur yfirhershöfðingi, Robert Neller, heldur fund með bandarískum hermönnum þar og segir: „Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en það er stríð á leiðinni.“ Neller kallar það stórstríð, „a big-ass fight“. Á sama fundi sagði undirforingi hans, Ronald Green: „We've got 300 Marines up here; we could go from 300 to 3,000 overnight.“ Norsk stjórnvöld hafa ekki hafnað þessum orðum herforingjans.