Showing posts with label hnattvæðing. Show all posts
Showing posts with label hnattvæðing. Show all posts

Monday, December 14, 2020

Heimsvaldastefnan og bandarísku kosningarnar

 

(birtist á Neistar.is 12. 12. 20)


                                       Frelsisstyttan í útrás. Málverk Þrándar Þórarinssonar.

Trumpisminn sem pólitísk stefna tengist öðru fremur neikvæðri afstöðu til „hnattvæðingarstefnu“. Afstaða bandarískra stjórnvalda til þessa fyrirbæris er afgerandi hluti af stjórnmálum risaveldisins eina – og okkur hina jarðarbúana skiptir hún líka býsna miklu máli. „America is back“ hrópaði Joe Biden eftir kosninganóttina og vísaði til þess forustuhlutverks í alþjóðamálum sem Trumpstjórnin hefði sagt sig frá en skyldi nú tekið upp aftur.

Það er orðin viðtekin venja að kenna heimskapítalismann eftir 1990 við „hnattvæðingu“. Þetta er jafnframt það tímabil sem nýfrjálshyggjan/markaðshyggjan hefur mótað auðvaldskerfið – hnattvæðingin ruddi sér til rúms á grundvelli markaðshyggju og er hluti af henni. Samhliða einkavæðingu og markaðsvæðingu í einstökum löndum fól hnattvæðing í sér „opnun markaðanna út á við“, frjálst flæði fjármagns milli landa og heimshluta og með tilheyrandi athafnafrelsi auðhringa. Á þessu 30 ára skeiði hefur markaðsfrjálslynd hnattvæðingarstefna verið ríkjandi hugmyndafræði, a.m.k. um hinn vestræna heim.

Einnig marxistar nota hugtakið hnattvæðing – og tengja hana hugtakinu HEIMSVALDASTEFNA. Marxísk fræði hafa lengi bent á þá þætti sem einkennt hafa kapítalisma á stigi heimsvaldastefnu allt frá upphafi 20. aldar: samþjöppun og einokun auðmagnsins, drottnun risaauðhringa, aukið vægi fjármálaauðmagnsins, mikill fjármagnsútflutningur, átök heimsvelda um markaði og áhrifasvæði. Þróunin þessa þrjá áratugi hnattvæðingar sýnir einmitt öll þessi efnahagslegu einkenni – í öðru veldi. Hnattvæddur kapítalismi er form heimsvaldastefnunnar í nútímanum.

Jafnframt þessum efnahagslegu einkennum kapítalismans hefur sama tímabil kapítalismans ákveðin PÓLITÍSK einkenni. Eftir fall Sovétríkjanna og Austurblokkar um 1990 hefur megineinkenni alþjóðastjórnmála verið EINPÓLA HEIMUR með Bandaríkin sem eina risaveldið, og þau nýttu þá stöðu til að reyna að leggja heiminn allan undir sig.

Eftir aldamótin 2000 urðu samt til ný viðnámsöfl innan heimsvaldakerfisins og þeim öflum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þau hafa styrkt sambandið sín á milli og komið fram sem mótpóll. Fremst í þessum andstöðuarmi eru Rússland og Kína, líka Íran ásamt smærri bandamönnum. En jafnframt hafa þesi lönd gengist inn á hið hnattvædda efnahagslíkan, ekki síst nýkapítalískt Kína sem kemur fram sem hratt rísandi keppinautur innan þess kerfis.

Hnattvæðingarferlið – nokkur einkenni

Skoðum fyrst nokkur einkenni hnattvæðingar sem EFNAHAGSLEGS FERLIS. Hnattvæðingaröflin leitast við að gera heiminn að einu opnu athafnasvæði auðhringa, með opnun markaða, frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls milli landa og heimshluta. Hnattvæðingarþróun felur í sér að ákvarðanavald um efnahagsmál færist í hendur á fjarlægum fjármálaelítum, burt frá almannavaldi og þjóðþingum einstakra landa, grefur undan lýðræði, grefur undan sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ríkja.

Af helstu verkfærum og múrbrjótum hnattvæðingarinnar á umræddu hnattvæðingarskeiði ber að nefna GATT, WTO, ríkjabandalög eins og ESB/EES í Maastricht-búningi, NAFTA og ASEAN, viðskiptasamningar eins og TISA og TTIP og fjármálastofnanirnar AGS og Alþjóðabankinn. Ef benda skal á hugmyndalega forustu í ferlinu er eðlilegt að benda á samtökin World Economic Forum (WEF, með fundarstað í Davos í Sviss) samkundu hnattrænnar fjármálaelítu og 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims.  

Monday, September 7, 2020

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Seinni grein

 (birt á Neistum.is 13. ágúst 2020)


Fyrri grein um heimsvaldastefnuna fjallaði einkum um efnahagslegan grundvöll hennar en þessi hér um pólitísku og hernaðarlegu hliðina, baráttuna um áhrifasavæði – og heimsyfirráð. Greinin byggir á fyrirlestri hjá Sósíalistaflokknum 4. júlí sl.

Hernaðarlegt og efnahagslegt stríð

Auðmagnið, „frjálsa framtakið“ og markaðsöflin flæða ekki einfaldlega um löndin af sjálfsdáðum. Þau mæta m.a. mismiklu viðnámi frá þjóðríkjum og keppni frá keppinautum. Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman skrifar reglulega pistla í NYT um hnattvæðingu og alþjóðamál, m.a. í pistli frá því um aldamót, svohljóðandi.

„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem bjó til F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ https://fair.org/media-beat-column/thomas-friedman/

Farvegir fjármagnsins (arðránsins) liggja frá jaðrinum og streyma til kjarnans samkvæmt eðli heimsvaldastefnunnar. Hernaðarleg yfirráð tryggja þessa farvegi og tryggja fjármagnsflæðið í rétta átt. Bandarískar herstöðvar í hundraðatali raðast um heiminn út frá þessu munstri.

Þegar kalda stríðinu lauk héldu ýmsir, jafnvel bandaríska þjóðin, að upp myndu renna friðsamlegir tímar og það myndi draga úr hernaðaruppbyggingu. En bandarísk utanríkisstefna og strategía er ekki ákveðin á þjóðþingi heldur af nokkrum hugveitum elítunnar sem þekkja raunveruleika heimsvaldastefnunnar álíka vel og Vladimir Iljits Lenín gerði. Í mars 1992, þegar Sovétríkin voru nýlega fallin og Persaflóastríðinu – fyrsta meiriháttar stríði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum – var nýlokið settu þeir Dick Cheney varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarráðherra hans fram utanríkisstefnu í ljósi nýjustu stórtíðinda – oft nefnd Wolfowitz kenningin – stefnu sem Bandaríkin hafa staðfastlega fylgt síðan undir breytilegum stjórvöldum: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar... að hindra sérhvert fjandsamlegt vald í því að drottna yfir svæði sem býr yfir auðlindum sem myndu, undir styrkri stjórn, nægja til að búa til hnattrænt vald.“ (Sjá NYT https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html ).

Seríustríðið í Austurlöndum nær sem í bandarískum hernaðarkreðsum er oft nefnt „stríðið langa“ hófst með Persaflóastríðinu u.þ.b. þegar Wolfowitz og Cheney skrifuðu ofanritað. Aðrir miða reyndar upphaf þess við 11. september 2001. „Stríðið langa“ snýst um tilraunir bandarískra heimsvaldasinna til að tryggja full yfirráð sín á efnahagslegu lykilsvæði sem Austurlönd nær eru. Í þeim tilgangi komu bandaríkin upp 125 herstöðvum í Austurlöndum nær á árabilinu 1983-2005. Mesta uppbyggingin var eftir að kalda stríðinu lauk. Til að tryggja full yfirráð þurfti að brjóta niður þvermóðskufull sjálfstæð ríki á svæðinu. „Stríðinu langa“ er stjórnað frá Bandaríkjunum með þátttöku svæðisbundinna bandamanna þeirra og NATO-ríkja. Mikilvægustu vígvellirnir hingað til eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland.

Í ríkjandi orðræðu og fréttaflutningi á Vesturlöndum er „Stríðinu langa“ ýmist lýst sem „stríði gegn hryðjuverkum“, sem „borgarastríði“ eftir trúarbragðalínum eða sem „uppreisn gegn harðstjórn“ sem kalli á „verndarskyldu“ (responisbility to protect) svokallaðs „alþjóðasamfélags“ (sama sem Vestrið). Alvarlegast er að á 21. öldinni hefur heimsvaldasinnum og fjölmiðlum þeirra gengið furðuvel að selja stríð sín í þessum fallegu umbúðum. Andstaðan við stríðsreksturinn frá friðarhreyfingum Vesturlanda og hefðbundnum stríðsandstæðingum til vinstri hefur verið sáralítill. Og víst er að ef slík andstaða kemur fram byggir hún ekki á greiningu á heimsvaldastefnunni heldur á þeirri friðarhyggju að maður skuli ekki drepa mann.

Heimsvaldasinnum hefur almennt gengið illa í „stríðinu langa“ – en stjórnvöld í Washington sýna mikla staðfestu í því að koma óvinum sínum á kné. Bandaríska þingið hefur nýlega lögfest grimmúðlegar refsiaðgerðir gegn bæði Íran og Sýrlandi, lög sem setja útskúfun og sektir á öll fyrirtæki og öll lönd sem eiga viðskipti eða diplómatísk samskipti við þessi útlagaríki. Samskipti við þau þýða stríð við BNA. Viðskiptabannið beinist gegn almenningi þessara landa í von um pólitíska kreppu sem leiði til „valdaskipta“.

Efnahagslegt stríð er stríð með öðrum aðferðum. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir gegn Íran og Sýrlandi eru orðin hluti efnahagsstríði Bandaríkjanna við Kína og bandamann þeirra Rússland. Í tilfelli Kína er samt orsakasamahengið sagt vera öfugt: Ein helstu rökin fyrir refsiaðgerðum gegn Kína er sú ásökun Trump-stjórnarinnar að kínverski tæknirisinn Huawei hefði brotið bandaríska refsilögggjöf gegn Írönum (brotið bandaríska refsilöggjöf!) með því að selja þeim síma. https://neistar.is/greinar/stridid-gegn-syrlandi-efnahagsvopnunum-beitt/


Enduruppskipting eftir fall Sovétríkjanna

Þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna 1915 gerði hann það m.a. til að skýra hreyfiöflin á bak við heimsstyrjöldina sem þá geysaði. Helstu drifkraftana bak við stríðið sá hann annars vegar í KAPÍTALÍSKRI GRÓÐASÓKN og úþensluhneigð sem af henni leiðir og hins vegar í ÓJAFNRI ÞRÓUN FRAMLEIÐSLUAFLANNA sem breytti styrkleikahlutföllum hagkerfa og skóp misræmi milli þeirra og þar með grundvöll stórstyrjalda. Heimsveldin ýmist sækja fram eða hopa á heimsmarkaði og m.t.t. áhrifasvæða – eftir styrkleika sínum. Þetta misræmi sprengir valdarammann sem fyrir er, knýr á um „enduruppskiptingu“. Lenín skrifaði: "Spuningin er: Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendnanna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar.“ ( Heimsvaldastefnan, bls. 130)

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Fyrri grein

 (birt á Neistum 6. ágúst 2020)

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá glæpnum gegn mannkyni þegar bandarískri kjarnorkuspregju var varpað á Hírósíma. Glæpurinn var réttlættur með endalausum lygum og skipulegum stríðsáróðri. Sami stríðsáróður frá sama stríðsaðila beinir nú spjótum sínum skipulega að nýjum andstæðingi – Kína. Bandaríkin hafa komið fyrir yfir 400 herstöðvum umhverfis Kína auk gríðarlegrar og hraðvaxandi flotauppbyggingar á Kyrrahafssvæðinu. Samhliða þessari uppbyggingu hefur „stríðið langa“ í Austurlöndum nær geysað það sem af er 21 öldinni. Bandaríkin hafa (2019) einhliða sagt sig frá samningum um takmörkun kjarnorkuflauga (INF, frá 1987). Alls 30 aðildarlönd SÞ stynja nú undan bandarískum efnahagslegum refsiaðgerðum af einhverju tagi. Formlega snúast þær um „lýðræði“ en raunveruleikinn er keppnin um heimsyfirráð.

Hvað hreyfiöfl knýja slíka atburðarás? Í tveimur greinum verður hér fjallað um heimsvaldastefnuna, hæsta stig auðvaldsins – og beina þær ljósinu sérstaklega á þá bandarísku, samt alls ekki eingöngu. Fyrri greinin fjallar einkum um efnahagslega hlið málsins en sú síðari um pólitíska og hernaðarlega hlið. Hryggjarstykki greinarinnar er fyrirlestur sem fluttur var á fundi hjá Sósíalistaflokknum að Borgartúni 1, fjórða júlí sl.


Hugtak sem hvarf

Þegar Bandaríkin herjuðu í Víetnam og Indó-Kína kringum 1970 hrópuðu vinstri menn um allan heim vígorð gegn „heimsvaldastefnu Bandaríkjanna“. Árið 1970 var íslenska Víetnamhreyfingin stofnuð og lýsti yfir á stofnfundi: „Víetnamhreyfingin styður þjóðfrelsisbaráttu Víetnama og baráttu gegn heimsvaldastefnunni um allan heim.“ Árið 1972 breyttist hún í Víetnamnefndina með víðtæku samstarfi vinstri hreyfinga. Fyrsta kjörorð hennar var: „Fullur stuðningur við Þjóðfrelsishreyfinguna (FNL)!“ og annað kjörorð var „Berjumst gegn bandarísku heimsvaldastefnunni!“ Málið var stuðningur við „þjóðfrelsisbaráttu“ þjóða undan heimsvaldastefnu. Þetta var róttæk og framsækin hreyfing..

Á 9. áratug hélt stuðningsstarf við þjáðar þjóðir áfram en innihaldið breyttist. 1985 hófust „Life aid“ tónleikarnir með söfnunarstarfi vegna hungurs í Afríku. Þá fóru jafnvel róttæklingar á Vesturlöndum að syngja „We are the world.. so let´s start giving“ eða „Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín“. Andheimsvaldabaráttu var skipt út fyrir BORGARALEGT LÍKNARSTARFF sem minntist ekki á heimsvaldastefnuna.

Þegar Bandaríkin réðust á Írak 2003 með stuðningi „viljugra ríkja“, þ.á.m. Íslands, var andstaða vinstri manna mjög massíf, en hugtakinu „heimsvaldastefna“ var þá almennt sleppt. Þegar hins vegar NATO, vestrænir herir og staðbundnir bandamenn hafa ráðist á Afganistan, Líbíu eða Sýrland á 21. öldinni hafa vinstri menn vítt um heim veitt því litla mótstöðu, og vestræn friðarhreyfing sömuleiðis. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessi stríð alveg óháð því hvort ráðherrarnir eru til hægri eða vinstri.

Í inflytjendaumræðunni er sama borgaralega líknarhugsun ráðandi. Góðir og „líknsamir“ vinstri menn og andrasistar sjá nú helstu von fyrir íbúa Afríku í leyfi þeirra til að flýja til Evrópu.


Klassísk greining á heimsvaldastefnunni

Í sögulegu samhengi er áhrifamesta ritið um heimsvaldastefnuna bók Leníns frá 1917 (rituð 1915), Heimsvaldastefnan: hæsta stig auðvaldsins. Í apríl í vor voru 150 ár liðin frá fæðingu Leníns. Í þessari bók dró hann saman meginþætti heimsvaldastefnunnar/ imperíslismans í eftirfarandi skilgreiningu: „Imperíalisminn er kapítalismi á því þróunarstigi er drottinvald einokunar og fjármálavalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutningur hefur öðrast áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Heimsvaldastefnan... bls 117) Lenín nefndi heimsvaldastefnuna „einokunarstig auðvaldsins“ sem komin var í stað kapítalisma frjálsrar samkeppni. Annað grundvallareinkenni hennar var fjármagsútflutningurinn, erlendar fjárfestingar. Tilvitnun: „Vöruútflutningur var einkenni gamla auðvaldsins þegar frjáls samkeppni var alls ráðandi. Útflutningur fjármagns er orðið einkenni nútíma kapítalisma þar sem einokun drottnar“ (Heimsvaldastefnan.. bls. 79).

Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldssins.
Lenín 150 ára í ár. Höfundur klassísks rits um efnið.

Samkvæmt þessari greiningu var heimsvaldastefna/imperíalismi orðin ríkjandi formgerð kapítalismans um aldamótin 1900. Og samkvæmt þessum skilningi er heimsvaldastefnan í grundvallaratriðum EKKI HUGMYNDALEGS EÐA SIÐFERÐILEGS EÐLIS HELDUR ER HÚN SJÁLFT EFNAHAGSKEFI KAPÍTALISMANS á ákveðnu þróunarstigi, „it's way of life“. Og hún er skilgreind sem „HÆSTA STIG AUÐVALDSINS“ sbr. titil bókarinnar.

Þessi greining varð klassísk meðal marxista, og heimsvaldastefnan í þessari merkingu varð algert lykilhugtak í sósíalískri og andkapítalískri baráttu á 20. öld. Barátta gegn henni varð ANNAR AF TVEIMUR MEGINÞÁTTUM BYLTINGARSINNAÐS STARFS gegn kapítalismanum og fól öðru fremur í sér stuðning við baráttu í 3. heiminum til að losna úr arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Skýringarlíkan Leníns reyndist öðrum skýringum frjórra við að greina hreyfiöflin að baki heimsstyrjöldunum tveimur. Á eftirstríðsárunum og enn frekar frá og með sjöunda áratugnum var þessi klassíska greining á heimsvaldastefnunni í mikilli almennri notkun, á vinstri væng stjórnmála og ekki síður í „þriðja heiminum“ þar sem frelsisstríð og byltingar geysuðu og beindust gegn fjötrum nýlendutímans.

Thursday, June 18, 2020

Icelandair-kjaradeilan og stéttabaráttan eftir Covid

(birtist á Neistum.is 15 maí 2020)
Icelandair Group og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa gert með sér nýjan kjarasamning til fimm ára (15/5). Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé „í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.“ Samningurinn tryggir m.a. verulega aukið vinnuframlag flugmanna. Bogi Nils Bogason forstjóri orðar það svo: „Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.“ Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kallar þetta „tímamótasamning“ og bætir við: „Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair.“ https://theworldnews.net/is-news/flugmenn-og-icelandair-gerdu-timamotasamning-i-nott

Björgunaraðgerðir fyrir Icelandair-group hafa verið fyrsta frétt fjölmiðla um skeið. Fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots, en stefnir á að safna 29 milljarða hlutafé fyrir hluthafafund 22. maí. Biðlar m.a. til lífeyrissjóða og enn frekar til ríkisins. Ennfremur: Bogi Nils forstjóri hefur sagt að unnið sé dag og nótt að því að bjarga fyrirtækinu en „að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu.“ Ef bjarga eigi fyrirtækinu verði starfsfólk þess að taka á sig kjaraskerðingar. Stjórn Icelandair hefur gert Flugfreyjufélagi Íslands tilboð sem félagið metur sem allt að 40 prósenta kjaraskerðingu. Samninganefnd félagsins hafnaði tilboðinu en þá sendi Bogi Nils tilboðið bara beint til einstakra félagsmanna!

Þann 11. maí sagði í frétt Morgunblaðsins: „Til að forða Icelandair frá gjaldþroti verða flugfreyjur og flugmenn félagsins að taka á sig launalækkun á bilinu 50-60%. Þá verður nýr kjarasamningur að gilda til fimm ára og vera auk þess uppsegjanlegur að hálfu Icelandair að samningstíma loknum. Þetta segir ráðgjafi eins af stóru hluthöfum Icelandair í Morgunblaðinu í dag.“ https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2020/05/11/stadan_ordin_grafalvarleg/


Hamfarakapítalismi og hnattvæðing
Stórauðvaldið lítur á Covid-kreppuna sem tækifæri til mikilla árása gegn réttindum launafólks. Sú afstaða er skýr í orðum og aðferðum hins prúðmannlega Boga Nils Bogasonar. Aðferðir Icelandair eru í góðum samhljómi við þá „sjokkmeðferð“ sem Naomi Klein hefur lýst best í bókum sínum um aðferðir stórkapítalsins á heimsvísu, einkum við innleiðingu nýfrjálshyggju/markaðshyggju: „Ég nota hugtakið „sjokkkenningin“ til að lýsa hinum ruddalegu aðferðum að nýta sér ráðaleysi almennings eftir sameiginlegt áfall – styrjöld, valdarán, hryðjuverkaárás, markaðshrun eða náttúruhamfarir – til að knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja, oft kallaðar „sjokkmeðferð“ [shock therapy]... Þessi hernaðaraðferð hefur verið þegjandi fylginautur innleiðingar á nýfrjálshyggju í yfir 40 ár.“ https://www.theguardian.com/us-news/2017/jul/06/naomi-klein-how-power-profits-from-disaster

Talskonur flugfreyja benda á að kjaraskerðingarstefna Icelandair sé ekki alveg ný: „þeir eru búnir að bjóða nánast sömu samninga síðan haustið 2018 og það er ástæðan fyrir að ekki hefur verið samið.“ En með tilkomu Covid-19 getur Icelandair sett margfalt afl á bak við kjaraskerðingakröfur sínar. Nákvæmlega eins og Naomi Klein lýsir er það til að „knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja“. Markmiðið er að sjokkera fólk til undirgefni, Covid-19 er verkfærið.

Thursday, May 7, 2020

Hugleiðingar um Covid-kreppu

(birtist á Neistum 16. apríl 2020)



                                                    Mynd: Shutterstock
Neistar eru kraftasmár fjölmiðill. Af því Neistar mátu það svo nokkrar fyrstu vikur COVID-tímans að veiki þessi þessi væri fremur heilsufarslegt vandamál en hápólitískt sagði ritið fátt um faraldur þann hinn mikla. En þar sem faraldurinn, og enn frekar viðbrögðin við honum, hefur með undaraskjótum hætti orðið þjóðfélagsmál af slíkri stærðargráðu að yfirskyggir allt annað – og af því að þetta hefðu Neistar mátt láta sér skiljast fyrr – þá gerir ritið sjálfsgagnrýni fyrir (næstum) þögn sína um málið.
Og þar sem Neistar búa ekki yfir (og ekki Alþýðufylkingin heldur) neinni samhæfðri stefnu gagnvart COVID-faraldri eða afleiðingum hans verða hér aðeins settar fram nokkrar lausar athugasemdir, á ábyrgð höfundar, og alls engin alhliða úttekt.


Varð skjótt að djúpri kreppu
Bandaríski seðlabankinn (FED) spáði í marslok allt að 32% atvinnuleysi þar í landi eða 47 milljónum atvinnuleysingja á örðum ársfjórðungi 2020. https://www.cnbc.com/2020/03/30/coronavirus-job-losses-could-total-47-million-unemployment-rate-of-32percent-fed-says.html Til að skilja dramatíkina í þeirri tölu má nefna að atvinnuleysið í Bandaríkjunum á 4. áratugnum – í upphafslandi kreppunnar miklu – varð aldrei meira en um 25%. Haft er nú eftir hagstofum OECD að atvinnustarfsemi í næstum öllum hagkerfum heims dragist saman um 25% á meðan hinar víðtæku rekstrarstöðvanir (lockdown) gilda. Tekjutap í tvo til þrjá mánuði hjá smáfyrirtækjum eða sprotafyrirtækjum leiðir af sér neikvæða spírala gjaldþrota og atvinnuleysis. Og eftir þvísem rekstrarstöðvanir og lokanir dragast á langinn verða slíkar afleiðingar meiri.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu að reikna megi með að 6,3 prósent vinnustunda í heiminum tapist á öðrum ársfjórðungi 2020, sem tilsvarar 195 milljón heilsdagsstörfum. Framkvæmdastjóri ILO, Guy Ryder, segir kórónukreppuna verstu kreppu í 75 ár https://www.ilo.org/global/about-the-ilo/newsroom/news/WCMS_740893/lang--en/index.htm
Samkvæmt svartsýnustu spá sinni fyrir árið 2020 á Íslandi gerir Seðlabankinn ráð fyrir allt að 4,8% samdrætti. Nú þegar hefur Vinnumálastofnun gefið út spá um 14% atvinnuleysi í apríl sem er talsvert hærra hlutfall en var í kreppunni hér á landi á 4. áratug og miklu meira en mesta mánaðaratvinnuleysi eftir fjármálahrunið 2008 (hæst í febrúar 2009, 9,3%). Og nú gerist einmitt það að samfélagslegar lokanir framlengjast með hverri viku sem líður, og neikvæðir spíralar þar með. Að öllum líkindum verður atvinnuleysi í maí verra en í apríl. Og mikið af þessum störfum verður þá varanlega horfið.

Monday, December 30, 2019

Brexit og breyttar átakalínur í stéttabaráttunni

(birtist á Neistar.is 29. des 2019)


Bresku kosningarnar 12. desember snérust um Brexit og niðurstaðan speglaði stéttalínur. Alveg eins og Brexitatkvæðagreiðslan 2016 gerði það, þótt margur tregðaðist við að sjá það þá. Nú blasir þetta við, breskur verkalýður öskrar það svo skýrt að ekki verður misskilið. Verkalýðurinn segist tilbúinn að búa við stéttaróvin sinn Boris Johnson næstu fjögur árin til þess eins að reyna að tryggja að staðið verði við það Brexit sem hann valdi 2016.

Atkvæðagreiðslan 2016 opinberaði mikla gjá á milli valdakerfisins og kjósenda. Ekki bara hafði almenningur á móti sér stjórnmálastéttina, fjármála- og bankavaldið og alla voldugustu fjölmiðla landsins auk ESB-elítunnar heldur líka NATO, Obama forseta og leiðtogafund G7 ríkjanna. Auk þess opinberaði atkvæðagreiðslan regingjá á milli London annars vegar og ensku landsbyggðarinnar hins vegar. Á ensku landsbyggðinni kaus 55-60% útgöngu en 40-45% að vera áfram í ESB. Í London kaus 40% útgöngu en 60% vildi vera kyrr. Sjá hér.

Kosningarnar núna staðfestu þessa útkomu á sinn hátt. Aðalkjörorð útgöngusinna 2016 var „Vote leave – take back control!“. Sem sagt krafan um að taka löggjöfina aftur inn í landið. Og verkalýðurinn vildi störf sín til baka, störf sem hafa horfið fyrir tilstilli þeirrar efnahagslegu frjálshyggju og hnattvæðingarstefnu sem flutt hefur iðnaðarstörfin yfir á láglaunasvæði. Samkvæmt því stóðu átökin milli sigurvegara og tapara í hnattvæðingunni. Fylgjendur ESB og fjórfrelsinsins segja hins vegar að átökin séu fyrst og fremst með og móti „kynþáttahyggju“ eða „þjóðernishyggju“. Sótsvartur almúginn hafi verið afvegaleiddur og þurfi því að kjósa aftur. Þess vegna var krafa Brexitsinna núna krafa sem Boris Johnson tók upp af pólitískum hyggindum: „Get it done!“


Útreið Labour
Nú í desember tapaði Verkamannaflokkurinn víðast hvar stórt, ekki síst á sterku verkalýðssvæðunum í Norður-Englandi og Midlands þar sem hann hefur haft áskrift að meirihlutafylgi allt frá flokksstofnun, svæði sem oft er talað um sem „Rauða múrinn“ (Red Wall). Labour hafði þvælt málið og Brexitstefnu sína í 3½ ár. Fyrst í þá veru að England skyldi vera áfram á innri markaðnum (hugmynd um EES-lausn) og síðan – þegar Teresu May gekk ekkert að semja við ESB – að endurtaka þyrfti Brexit atkvæðagreiðsluna. Þar með settist flokkurinn á ækið með bresku stjórnmálastéttinni og London-elítunni sem jafn lengi hefur þæft málið og reynt á sinn hrokafulla hátt að kollvarpa lýðræðislegri ákvörðun frá 2016. Öskur verkalýðsins núna þýddi: Hættið að þæfa málið! Hlustið á okkur! Sjá nánar.

Útkoman árið 2016 var alveg skýr og afdráttarlaus, með sögulega hárri kosningaþátttöku (72%, alveg óvenjulegt í ESB-samhengi) og átti að vera bindandi. Formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, er a.m.k. hálfvolgur Brexit-sinni sjálfur, en hann fór fyrir flokki sem lengi hefur verið kyrfilega ESB-sinnaður, NATO-sinnaður og inngróinn í markaðsfrelsi evrópumarkaðarins, hina frjálshyggjulegu hnattvæðingu og flest það sem verkalýðurinn hafnaði 2016. Hin loðnu viðbrögð og afstöðuleysi flokksforustunnar við útkomunni upplifðust því sem svik.

Mistök Corbyns voru auðvitað, í ljósi úrslitanna 2016, að virða ekki þá lýðræðislegu niðurstöðu sem fyrir lá og bjóða ekki síðan upp á útgönguprógram á forsendum verkalýðs og alþýðu. Með því að sleppa því lagði Corbyn allt Brexit eins og það lagði sig í hendurnar á refnum Boris Johnson, sem fékk fyrir vikið ótal „atkvæði að láni“.

Það blasir við að Verkamannaflokkurinn er ekki í tengslum við sína gömlu stéttarlegu umbjóðendur. Hann er orðinn miðstéttarflokkur, gegnsýrður af ESB-hagsmunum og viðhorfum hnattvæðingarelítu í London. Það breytir því ekki þótt flokkurinn hafi undir Corbyn haldi á loft ýmsum gömlum vinstri gildum og barist fyrir ýmsum þarflegum stefnumálum. Það breytir ekki heldur mati kjósenda þótt Boris Johnson hafi í kosningabaráttunni lofað ýmsum félagslegum umbótum sem hann er manna ólíklegastur til að efna. Hvernig og hvenær aðskilnaður stéttar og flokks verkamanna varð í Bretlandi er auðvitað lengri saga, talsvert lengri en nemur þessu 3½ ári, eins og enn mun sagt verða.

Niðurstaðan kosninganna speglar stéttarlínur sem áður segir. Í Bretlandi hafa stéttastjórnmál löngum verið skýr og línur hreinar, verkafólk kaus Labour og eignamenn og millistétt kusu Tories. En átökin um Brexit segja mikla sögu um nýjar í átakalínur stéttabaráttunni.

Hliðstæðar átakalínur birtast í Frakklandi í hreyfingu Gulu vestanna sem hefur nú mótmælt á götum borga og bæja um hverja helgi, einkum í minni og dreifðari borgum og bæjum Frakklands í á annað ár að mestu óháð hefðbundinni verkalýðshreyfingu og vinstri flokkum. Kröfur Gulvestunga eru m.a. gegn niðurskurðarstefnu, hækkun lágmarkslauna, bætt þjónusta á landsbyggðinni, aukið beint lýðræði gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur, gegn ESB-aðild.

Ég ætla nú að leyfa mér að vitna í þrjá höfunda sem komið hafa með áhugaverðar greiningar á einmitt „hinum nýju átakalínum stéttabaráttunnar“ í Bretlandi og Evrópu.


Almenn hnignun sósíaldemókrata
Athyglisverð grein eftir Jack Rasmus birtist á Global Research 18. desember sl. Hann stingur því vissulega ekki undir stól að úrslitin séu sigur fyrir þjóðernishyggju, enska jafnt sem skoska, og skrifar: „Í Bretlandi, líkt og í Bandaríkjunum, Evrópu og annars staðar, hefur auðvaldskerfið augljóslega gengið inn í tímabil „þjóðernislegs andsvars“ við minnkandi vaxtarhorfum alþjóðlegs kapítalisma. Þjóðernisstefna er andsvar við þeim samdrætti.“

Rasmus dvelur samt ekki lengi við þetta atriði til að skýra úrslitin í Bretlandi, en heldur áfram:

„Annað langtíma sögulegt hreyfiafl er hér líka að verki... Það er hnignun og hrun hefðbundinna sósíaldemókrataflokka. Sú hnignun er að hluta til vegna áratuga vondrar stjórnar af hálfu krataforustu sem hefur staðið með nýfrjálshyggjustefnu atvinnurekendaflokka í eigin löndum... Þegar verst lætur hefur þessi samvinna sósíaldemókrata við auðvaldssinnaða „andstæðinga“ sína síðustu 40 ár þýtt viðsnúinn fjöldainnflutning, þ.e.a.s. útflutning tugmilljóna af störfum iðnverkalýðs frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Evrópu og Japan til nýmarkaðslanda... Heilar kynslóðir verkalýðs í Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópu – sem nú eru skikkaðar í hlutastörf, skammtímastörf, ótrygg störf lítilla þjónustufyrirtækja og laus verkefni, án reynslu af að tilheyra stéttarfélögum – finna ekki lengur fyrir neinum skyldleika við hefðbundna sósíaldemókrataflokka... Sósíaldemókrataforingjar hafa á síðustu áratugum tekið þátt í, og haft umsjón með, eyðileggingu á eigin samtökum og fyrrverandi grunni undir eigin fylgi. Um leið og þeir leyfðu tortímingu eigin iðnverkalýðsstéttar þá fylgdi visnun og brotthvarf stéttarfélaga sem skipulagt stuðningsafl í kosningum.“

Greining Jack Rasmus segir heilmikið um stéttarlegt eðli hnattvæðingarinnar, hvernig hún er algjörlega á forsendum auðmagnsins og grefur kerfisbundið undan skipulegri og hefðbundinni verkalýðsbaráttu.


Tvöföld elíta
Franski þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty sló í gegn með bókinni Capital in the Twenty-First Century frá 2014. Í fyrra lagði Piketty fram aðra greiningu sem ennþá er miklu minna umtöluð og hefur ekki fengið þá dreifingu sem hún á skilið. Titillinn er Brahmin Left vs Merchant Right. Þar gerir hann mikla úttekt á kjörfylgi flokka í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á tímabilinu 1948-2017, og sýnir fram á ákveðna eðlisbreytingu sem orðið hefur á hefðbundinni skiptingu í vinstri og hægri: „Hnattvæðing og hækkað menntunarstig hefur skapað nýja vídd ójafnaðar og átaka og leitt til þess að fyrri bandalög byggð á stéttum og tekjuskiptingu hafa veikst og ný tvískipting hefur þróast...“ Piketty skrifar um „‘tilkomu fjölelítu flokkakerfis’; algera endurskipan flokkakerfisins út frá tvískiptingu á milli ‘hnattvæðingarsinna’ (hámenntun, hátekjur) og ‘heimalninga’ (lágmenntun, lágtekjur).“

[Nánari útfærsla Piketty á breytilegri tvískiptingu:] „Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar var stuðningur við „vinstri sinnaða“ (sósíalíska og sósíaldemókratíska) flokka í kosningum tengdur minni menntun og lágtekjuhópum. Þetta svarar til þess sem kalla má stéttbundið flokkakerfi: lágstséttakjósendur skilgreindir út frá mismunandi þáttum (lágmenntun, láglaunum o.s.frv.) hafa tilhneigingu til að kjósa sama flokk eða bandalag á meðan yfirstétta- og millistéttakjósendur út frá mismunandi þáttum hafa tilhneigingu til að kjósa hinn flokkinn eða bandalagið.

Frá og með áttunda áratug hafa „vinstri“ atkvæðin smám saman tengst einkum kjósendum með hærri menntun. Það er ástæða þess að ég kýs að kalla flokkakerfið á fyrsta og öðrum áratug 21. aldar „fjölelítu flokkakerfi“. Hámenntaelítan kýs nú „vinstri“ en hátekju- og stóreignaelítur kjósa ennþá „hægri“ (vissulega minna en áður).“

Menntaelítuna kallar Piketty „brahmína“ og vísar þar til hæstu stéttarinnar af fjórum innan hindúismans. Brahmínar eru þar prestar og fræðimenn. Samkvæmt þessu er menntaelítan orðin að prestastétt hnattvæðingarinnar, og vinstri flokkarnir orðnir að flokkum þessarar stéttar. Piketty notar enn fremur tilkomu þessarar tvöföldu elítu (kaupsýsluelítu og menntaelítu) til að skýra vöxt nýrra popúlískra flokka, og ekki síst færslu á verkalýðsfylgi sósíaldemókrata yfir til þeirra. Sjá hér.

Að þessu sögðu má ekk gleyma að hægripopúlistar hafa gegnt verulegu hlutverki í Bretlandi þar sem popúlískur UKIP-flokkur Nigel Farage var meginafl á bak við sigur Brexitsinna 2016 og Brexitflokkur sama Farage var sigurvegari kosninganna til Evrópuþingsins í maí í vor, en í kosningunum í desember dró hann framboð sitt tilbaka í flestum kjördæmum, studdi þar Íhaldsflokkinn og að kosningum loknum lýsti hann yfir sigri í „stríðinu um Brexit“.


Frakkland – metrópóll og jaðar
Víkjum sögunni til Frakklands. Franskur landafræðingur, Christopher Guilluy, vakti mikla athygli 2014 með bókinni La France périphérique, Jaðarsvæði Frakklands. Hún sýnir hvernig verkalýður Frakklands lifir að mestu utan stærstu borganna og er utangarðs í efnahags-, menningar- og stjórnmálalífi. Hins vegar situr hnattvædd stórborgarelíta í París og örfáum stórborgum (líkt og í London og New York). Nokkru eftir útkomu bókarinnar hefur hreyfing „Gulvestunga“ sýnt að elítan hefur slaka stjórnartauma á þessum umrædda lýð, sérstaklega í minni og dreifðari bæjum Frakklands. Guilluy útlistar greiningu sína frekar í Twilight of the Elites: Prosperity and the Future of France (2019).

Vefritið  spiked  birti viðtal við Guilluy sl. vor og hann ræðir þar niðurstöður sínar. Grípum niður í viðtalið:
„Tæknilega séð virkar hnattvædda efnahagslíkanið vel. Það gefur mikinn auð. En það hefur enga þörf fyrir meirihluta íbúanna til að það virki. Það hefur ekki raunverulega þörf fyrir verkafólk sem vinnur líkamlega vinnu eða annað verkafólk eða sjálfstæða smáatvinnurekendur utan við stærstu bæina, París skapar nægan auð fyrir Frakkland og London gerir það sama fyrir Bretland. En það er ekki hægt að byggja samfélag kringum þetta. Gulvestungar eru uppreisn vinnandi stéttanna á þeim stöðum.
Það er fólk í vinnu en á mjög lágum launum... Sumt er mjög fátækt og atvinnulaust. Sumt var eitt sinn millistétt. Það sem það á sameiginlegt er að þar sem það býr er varla neina vinnu að hafa. Það veit að þótt það hafi vinnu í dag getur það misst hana á morgun og þá ekki fengið aðra.“

Spurður um menningarlegt gildi Gulvestunga svarar Guilluy: „Ekki bara farnast fólki jaðarsvæðanna illa í efnahagskerfi nútímans, það er menningarlega misskilið af elítunni. Hreyfing Gulvestunga er sönn 21. aldar hreyfing að því leyti að hún er menningarleg ekki síður en pólitísk. Menningarleg staðfesting er afar mikilvæg á okkar tímum.

Eitt einkenni á hinni menningarlegu gjá er að flestar nútímalegar framsæknar hreyfingar og mótmæli nú um stundir eru aðlöguð hinum frægu, leikurunum, fjölmiðlunum og menntafólki. En enginn þessara aðila viðurkennir Gulvestunga. Tilkoma Gulvestunga hefur valdið andlegu áfalli hjá ráðandi menningaröflum. Það er sama áfall og breska elítan upplifði með Brexit-atkvæðagreiðslunni og sem þau eru enn í þremur árum síðar. Brexit-kosningin hafði mikið með menningu að gera, fjallaði um fleira en að yfirgefa ESB. Margir kjósendur vildu minna stjórnmálastéttina á tilveru sína. Til þess nota Frakkar gul vesti – til að segja að við erum til. Við sjáum það sama í popúlískum uppreisnum vítt um heim.

Við höfum nýja tegund borgarastéttar... Ekki bara hagnast hún gríðarlega á hnattvædda hagkerfinu en hún hefur einnig framleitt ríkjandi menningarlegt hugarfar sem útilokar verkalýðinn. Hugsið bara um þá „ömurlegu“ (deplorables) sem Hillary Clinton kallaði fram. Svipað er viðhorfið til verkalýðsstéttarinnar í Frakklandi og Bretlandi.“ Sjá hér.

Margar afleiðingar af Brexit
Við munum sjá margs konar afleiðingar af Brexit. Ein afleiðing verður vísast styrking á ensk-amerískri blokk, í aukinni andstöðu við ESB undir þýsk-franskri stjórn þar sem Austur-Evrópa teymist illa til aukins samruna. En kannski verða þó áhrifin meiri inn á við, á stéttabaráttuna. Þær þrjár greiningar sem hér hafa verið lítillega raktar (frá Rasmus, Piketty og Guilluy) hjálpa til að setja Brexit-kosningarnar í Bretlandi í samhengi og gefa innsýn í komandi stéttabaráttu með breyttum átakalínum.

Thursday, November 21, 2019

Samherji varla sértilfelli

(Birtist  á Neistum 20 nóvember 2019)


Ekki skal fella dóma fyrirfram í máli Samherja í Namibíu. En þáttur Kveiks og umfjöllun Stundarinnar um málið sýndist vel unnin, trúverðug og áhrifamikil. Málið er stórt hneykslismál í Namibíu ekki síður en hér og ráðherrar segja af sér svo það snýst áreiðanlega um raunverulega hluti. Hvað sem sannað verður um lögbrot og sekt í einstökum dæmum segir málið heilmikla sögu, m.a. um auð og arðrán, völd og valdaleysi.

Eftir því sem meira rúllast upp þetta mál mun íslenska eignastéttin kappkosta betur að stilla utanlandsrekstri Samherja upp sem algeru sértilfelli.

Ég er hvorki sérfóður um Namibíu né Samherja. En ég vil setja fram þá tilgátu að þær rekstraraðferðir Samherja í Namibíu sem kynntar voru séu e.t.v. ekki ýkja afbrigðilegar. Og að aðalatriði málsins sé ekki spilling. Fremur séu þessi Samherjarekstur í Afríku DÆMIGERÐUR. DÆMIGERÐUR kapítalismi. DÆMIGERÐ heimsvaldastefna. Og að hann endurspegli ríkjandi efnahagskerfi heimsins í dag (Íslands þar með).


Hið kapítalíska
DÆMIGERÐUR kapítalismi. Kapítalisminn byggir á gróðasókn – gróðasóknin er driffjöður kapítalismans. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Gróðinn er jákvæður segja menn – en græðgin er vond. Slík afstaða verður tvískinnungur af því gróðasókn sem aðaldriffjöður efnahagslífs hlýtur að leiða af sér græðgi. Þegar talað er um „spilltan kapítalisma“ er látið í veðri vaka að „sannur“ kapítalismi sé siðavandur. Sem hann hefur aldrei verið. Það er eðli hlutfjár að leita að hámarksgróða. Fyrirtæki með 5% arðsemi 2,6-faldar heildarfjármagn sitt á 20 árum en fyrirtæki með 10% arðsemi 6,7-faldar það. Þess vegna leitar hlutaféð á markaðnum skiljanlega yfir í 10%-fyrirtækið en 5% fyrirtækið dettur út. Í kauphöllinni er fyrst og síðast spurt um arðsemi, ekki aðferðir í rekstrinum eða samfélagslega nytsemd. Sá kapítalisti sem nær mestum arði út úr starfsmönnum sínum verður sigurvegari. Útkoman er m.a. eignasamþjöppun.

Aðferðir Samherja endurspegla ríkjandi frjálshyggjukapítalisma. Íslenskur sjávarútvegur var markaðsvæddur í upphafi nýfrjálshyggjubyltingar á Íslandi. Þegar aflaheimildir voru gerðar framseljanlegar og veðsetjanlegar 1990 fól það í sér einkavæðingu miðanna. Með því var útgerðin í reynd frátengd samfélaginu: líf og dauði sjávarbyggða réðist á hlutabréfamarkaðnum. Einkavæðing auðlinda árið 1990 var líka DÆMIGERÐ fyrir tíðaranda þess tíma. Margrét Thatcher var enn við völd, framstormandi nýfrjálshyggja á Vesturlöndum og hrynjandi sósíalismi. Markaðsvæðing sjávarútvegs leiddi á skömmum tíma til gríðarlegrar eignasamþjöppunar.

Samþjöppun er eitt af lögmálum kapítalismans. Samþjöppunin í íslenskum sjávarútvegi var hröð, en hún var lögmálsbundin kapítalísk þróun. Hún var DÆMIGERÐ í okkar heimshluta – og íslenskir kapítalistar telja hana mjög árangursríka. DÆMIGERÐ já, en hafði séríslenskt form, kvótakerfið var það form, með framseljanlegum kvóta og söfnun aflaheimildanna í örfá stórfyrirtæki.

Úr þessari keppni kom Samherji stærstur. Þar stjórna harðdrægir fjáraflamenn. Þeir hafa náð meiri arði út úr starfsfólki sínu en aðrir og orðið eitt stærsta útgerðarfyrirtæki í Evrópu. Harðdrægir en ekkert sértilfelli, DÆMIGERÐIR sigurvegarar líklega frekar. Kunna „the name of the game“. Harðdrægnin hefur ekki verið lögð fyrirtækinu til lasts af eftirlitskerfinu. Matsfyrirtækið Creditinfo útnefndi Samherja í efsta sæti „framúrskarandi fyrirtækja“ á Íslandi bæði árið 2017 og 2018!

Friday, April 26, 2019

Baráttan fyrir „nýju og betra ESB“

(umræða á Fésbók Sósíalistaflokksins 26 apríl 2019)


Ég set stórt spurningarmerki við hugmyndir um að sósíalistar geti breytt Evrópusambandinu. Efnahagsbandalagið/Evrópusamb hefur frá upphafi verið auðvaldsprósékt. Sérstaklega frá og með Maastricht er það blanda af annars vegar hnattvæðingarfrjálshyggju og hins vegar andlitslausu, ekki-kjörnu, yfirþjóðlegu skrifræðisvaldi. Sem er tengt efstu fjármála- og auðvaldselítum þúsund þráðum. Þetta vald keyrir samrunaþróunina stöðugt áfram. Árið 2015 mörkuðu hinir 5 sviðsforsetar ESB (Tusk, Schulz, Juncker, Dijsselbloem, Draghi) þá stefnu að fyrir 2025 skuli stofnanir ESB ákvarða fjárlög fyrir einstök aðildarlönd. Slík afgreiðsla lýðræðis virðist ekki bögglast fyrir hinum skriftlærðu „brahmínum“. 

Hins vegar er alþýðan miklu fullveldissinnaðari og skoðanakannanir sýna alltaf og alls staðar að hún er andvíg auknu valdi til stofnana ESB, ergó fær hún yfirleitt ekki að kjósa um slíkt. Þegar innleiða skyldi stjórnarskrá 2004 ætluðu aðeins 8 ESB-lönd að leggja það fyrir þjóðina. Þegar svo Frakkar og Hollendingar felldu var stjórnarskráin blásin af sem slík en 95% hennar lögð fram sem Lissabonsáttmáli. Þá hann afgreiddur eingöngu af þjóðþingum nema bara Írar fengu að kjósa. Þeir felldu en voru látnir kjósa aftur eftir örlitla andlitslyftingu samnings. Síðan voru engar þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-mál fyrr en Bretar fengu að kjósa um Brexit. Og á Íslandi mega Orkupakkamenn ekki heyra nefnt að alþýðan fái að kjósa um pakkann.

Guðmundur Auðunsson skrifar:  "Vissulega eru alþjóðastofnanir byggðar á grunni pólitískrar og efnahagslegrar hegemóníu frjálshyggjunnar.".. „Hugmyndafræðilega er nýfrjálshyggjan gjaldþrota. Stóri sigur Bramítanna hefur verið í félagslegum málum (mannréttindum, réttindum minnihlutahópa t.d. samkynhnegðra o.sv.fr.), því stríði er meira og minna lokið í okkar heimshluta, "hægrið" tapaði þeirri orusstu þó þeir hafi unnið efnahagsorusstuna. En nú eru miklar væringar. Stór hluti almennings er búinn að gefast upp á elítunni og stofnannapólitík og ef við byggjum ekki upp nýja vinstristefnu, sem byggir á sósíalískum og lýðræðislegum efnahagslegum gildum, er voðinn vís. Ef okkur tekst að vinna þá hugmyndabaráttu á alþjóðavísu þá getum við breytt alþjólegum stofnunum nýfrjálhyggjunnar eins og ESB og nýtt þær til að byggja upp nýjan heim, nýja Evrópu, byggða á sósíalískri félags- og efnahagsstefnu.“

Þórarinn svarar: Er það ekki svolítið tómt mál að segja að nýfrjálsyggjan sé „hugmyndalega gjaldþrota“ þegar þú segir jafnframt: „Vissulega eru alþjóðastofnanir byggðar á grunni pólitískrar og efnahagslegrar hegemóníu frjálshyggjunnar.“ Þær þurfa þá ekki að vera hugmyndalega frjóar þegar þær hafa yfirráðin. Að við getum breytt „alþjólegum stofnunum nýfrjálhyggjunnar eins og ESB“ í átt til sósíalisma tel ég mjög óraunsætt. Hverjum öðrum þá, fjandakornið ekki World Economic Forum, AGS, WTO, OECD...
Hægri hefur "unnið efnahagsorusstuna" segir þú, en "stóri sigur bramítanna hefur verið í félagslegum málum (mannréttindum, réttindum minnihlutahópa....)". Sammála. Þess vegna vilja brahmínar færa fókusinn frá efnahagsorustu og stéttastjórnmálum yfir á réttindi minnihluta og sjálfsmyndarstjórnmál. Hvaða stétt skyldi sú fókusfærsla þjóna?

Gelding stjórnmálanna og tvískipt elíta

(birtist á Neistar.is 24. apríl 2019)

                                         
                                                 Stjórnmálastéttin er sú starfsstétt sem hér er til umræðu

Í orkupökkunum er fjórfrelsi ESB innleitt í íslenska orkugeirann og þær reglur ýta til hliðar íslenskri orkulöggjöf. Í lögum sem afnema frystiskyldu á hráu kjöti er fjórfrelsið líka innleitt og ýtir til hliðar íslenskum fyrirvörum og íslenskri matvælalöggjöf. Íslenska stjórnmálastéttin er sameinuð um þetta að undanateknum Miðflokknum (og Flokki fólksins í orkupakkamáli). Í utanríkismálum undafarin ár hefur íslenska stjórnmálastéttin verið algerlega sameinuð í einni blokk: í refsiaðgerðum BNA og ESB gegn Rússum, flugskeytaárásum BNA & co á Damaskus, NATO-æfingunni Trident Juncture á Íslandi í haust, stuðningi við valdaránstilraun í Venesúela. Og fjölmiðlarnir: Í öllum þessum framantöldu málum og málaflokkum eru hinir ráðandi fjölmiðlar í landinu sameinaðir þessari í sömu fylkingu. Engin hjáróma rödd heyrist.

Það kostar sitt að vera stofuhæfur

Hlutskipti VG er hér umhugsunarefni. Ekki bara er flokkurinn formlega and-NATO og andsnúinn ESB-aðild. Miðað við alla ímynd VG fyrir nokkrum árum hefði talist óhugsandi að flokkurinn styddi nokkurt þessara mála. En alla þessa úlfalda hefur VG gleypt. Það var verðið sem flokkurinn þurfti að greiða til að geta talist stjórntækur og hæfur í „betri stofu“ stjórnmálanna.

Það hefur yfirleitt einkennt þessi framantöldu mál að þau hafa farið gegnum Alþingi nokkurn veginn sjálfkrafa og umræðulítið. Það á við um öll framantalin utanríkismál, þau fóru þegjandi í gegn. Þriðji orkupakkinn er að því leyti undantekning þar sem Miðflokkurinn og Flokkur fólksins veita mótspyrnu og eru enda óðara stimplaðir sem þjóðernispopúlistar, en það er einmitt einkunn sem skilgreinir fólk út úr „betri stofunni“.

Hvað er „betri stofan“? Hún er sá hugmyndalegi og pólitíski rammi sem leyfður er nú um stundir í íslenska valdakerfinu. Í efnahagsmálum markast ramminn af alþjóðavæddri frjálshyggju. Hafni menn þeim ramma, þeirri grundvallarforsendu, verða þeir utangarðsmenn, til hægri eða vinstri. Í alþjóðamálum er ramminn einfaldur: skilyrðislaus stuðningur við stefnu og aðgerðir NATO (stefnu sem stjórnað er frá Washington). Það skiptir engu máli hvort flokkarnir skilgreina sig til hægri eða vinstri eða hvort þeir styðja formlega tilveru NATO eða ekki.

Geldingin – valdaafsal stjórnmálanna

Við erum vitni að geldingu stjórnmálanna. Hún felst í því að nokkrir afgerandi málaflokkar eru teknir út fyrir sviga. Stjórnmálastéttin stendur í fyrsta lagi sameinuð um nokkur aðalatriði, og er sameinuð í því að taka þau „út fyrir sviga“, úr umræðunni. Í öðru lagi er hún sammála um að rífast heiftarlega um aukaatriðin.

Efnahagslega þungvægasta atriðið sem sameinast er um á þennan hátt eru reglur alþjóðavæddrar frjálshyggju. Þórlindur Kjartansson skrifar 12. apríl í Fréttablaðið greinina „Hvernig gat þetta gerst?“ Hann ræðst gegn þeim sem hafna vilja Þriðja orkupakkanum. Þetta séu „uppivöðsluseggir“ í ætt við Trump, þetta sé „afturhald“ og „andstaða við frjálsa verslun, alþjóðlega samvinnu og mannréttindi“ og þeir stefni á „upplausn“.

Þessu svaraði Gunnar Smári Egilsson samdægurs á fésbók Sósíalistaflokksins: „Það vantar eitt mikilvægt atriði í þessa greiningu á upplausn samfélagsins í kjölfar tímabils nýfrjálshyggjunnar, sem því miður virðist vera stjórnmálastefna og tímabil sem Þórlindur vísar til sem uppbyggingar frjálsra viðskipta, alþjóðlegs samstarfs og mannréttinda. Hið rétta er að undir slíkum slagorðum og yfirvarpi hafa völdin verið færð frá hinum pólitíska vettvangi út á hinn svokallaða markað á liðnum fjórum áratugum, færð frá vettvangi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði yfir á vettvang þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Á þessum tímabili voru stjórnmálin skræld að innan allri merkingu og inntaki, eitt megin einkenni þessa tíma var sannfæring um að stjórnmálin væru ekki lausnin heldur vandinn, hinn svo kallaði markaður var bæði lausnin, leiðin og markmiðið. Það sem Þórlindur kallar frjáls viðskipti, alþjóðlegt samstarf og mannréttindi varð í reynd að markaðsvæðingu allra geira samfélagsins, alþjóðavæðingu sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja en braut niður réttindi launafólks og dró úr völdum hins lýðræðislega vettvangs...“

Þetta sem Gunnar Smári nefnir „valdaafsal hins lýðræðislega vettvangs til hins svokallaða markaðar“ er nokkurn veginn það sama og ég nefni geldingu stjórnmálanna. Það er þetta sem meira en nokkuð annað hefur holað innan lýðræðið á seinni árum. Gunnar Smári bendir á að þetta „valdaafsal“ sé tvíþætt: „markaðsvæðing allra geira samfélagsins“ og „alþjóðavæðing sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja“. Frjálshyggjan og alþjóðavæðingin (hnattvæðingin) eru tvö ferli en þau ferli eru þó kyrfilega samofin. Í Evrópu fer alþjóðavæðingin helst fram þannig að skrifræðið í Brussel yfirtekur stjórn mála frá þjóðþingum álfunnar, í einum málaflokki af öðrum. Orkupakkarnir eru gott dæmi um það. Orkan er markaðsvædd, gerð að vöru á markaði hæstbjóðenda (aðrir málaflokkar skrifræðisvæðingar ESB eru t.d. fjármálaregluverk, fjármálaeftirlit, persónuvernd, innflytjendastefna, vinnumarkaðsmál, reglur um útboð verkefna, matvælalöggjöf).

Frá u.þ.b. 1990 (fall Sovétsins) hefur hnattvæðing kapítalismans stormað fram og hnattvæðingarhyggjan verið ríkjandi hugmyndafræði á heimsvísu. Auðvaldið í sóknarham. Opna skyldi lönd og álfur fyrir auðhringana: með stofnun NAFTA, Maastrichtsamkomulagi ESB, Úrúgvælotu GATT, stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (WTO), TISA, TTIP; allt eru þetta verkfæri hnattvæðingar, hafa það meginhlutverk að tryggja frjálst flæði fjármagnins og takmarka sem mest möguleika þjóðríkja og þjóðþinga til að stjórna eigin efnahagsmálum. Kjarni og eðli hnattvæðingarhyggjunnar er efnahagsleg nýfrjálshyggja. En búningur og yfirskriftir hennar eru „alþjóðleg samvinna“, „viðskiptafrelsi“, „lýðræði“. Og markaðskratar hafa búið til sinn sérstaka „sósíalíska“ búning utan á sömu efnahagsstefnu.

ESB fékk núverandi form og nafn 1993 (í Maastricht), byggt utan um innri markað fjórfrelsisins. Það er kjarni þessa sambands. Samtímis var EES búið til sem forgarður þess og aðilum EES-samningsins gert að taka einhliða við megninu af lögum og tilskipunum Framkvæmdanefndarinnar í Brussel og undirgangast sama fjórfrelsi – með undanþágum varðandi sjávarútveg og landbúnað fyrir þá sem ekki voru tilbúnir til fullrar inngöngu strax.

Og ESB gekk skrefi lengra. Sambandið setti sér stjórnarskrá árið 2004. Það var fyrsta stjórnarskrá í heimi sem mælti fyrir um ákveðna efnahagspólitík – hvað annað en frjálshyggjuna, fjórfrelsið?! Þessi stjórnarskrá var að vísu felld af Hollendingum og Frökkum í þjóðaratkvæðagreiðslu. En þá var hún, eða 95% hennar, bara lögð fram aftur og löggilduð (þjóðaratkvæðagreiðslu sleppt!) en ekki kölluð stjórnarskrá heldur sáttmáli, Lissabonsáttmálinn. Og gegnum EES-samning gildir hann á Íslandi líka. Sem sagt markaðsvæðing og skrifræðisvæðing ESB er ekki sitt hvað, það er tvíeitt fyrirbæri. En stefnan er negld föst af skrifræðisbákninu og ekki á valdi kjósenda að breyta henni.

Íslenska stjórnmálastéttin hefur (nokkurn veginn heil og óskipt) gengist inn á grundvallarforsendur hnattvæddrar frjálshyggju, stefnu NATO í alþjóðamálum o.s.frv. Málpípur valdsins, eins og t.d. Þórlindur Kjartansson, búa svo til nýjar grundvallarandstæður í stjórnmálum í staðinn fyrir stéttaandstæðurnar: andstæðurnar á milli „framsækni“ og „afturhalds“, eftir því hvort menn styðja hið markaðsfrjálslynda „frjálsa flæði“ milli landa og svæða eða ekki. En í þessum grundvallarandstæðum er hefðbundið hægri (t.d. Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn) og hefðbundið vinstri (Samfylking og VG) saman í liði, fylgjandi „frelsi og fjölmenningu“ en hitt liðið kallast þá „þjóðernissinnar“, „ostopafullur minnihluti“, „uppivöðslusesggir“, „afturhald“, enda skal umræðan um „fjórfrelsið“ tekin út úr „betri stofunni“ og helst „út fyrir sviga“ stjórnmálanna.

Kerfisflokkarnir eru sem sagt orðnir að einni samsteypu í stóru málunum eins og efnahagsstjórn, og í öllum utanríkismálum. En auðvitað verður að fela þessa miklu samtöðu. Þess vegna verða flokkarnir fyrir kosningar að gera sem allra mest úr því sem á milli ber (þó það séu í raun aukaatriði) svo að kjósendur fái á tilfinninguna að þeir ráði einhverju um þá stjórnarstefnu sem verður ofan á.

Piketty um brahmínvinstri og markaðshægri

Franski þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty sló í gegn á heimsvísu með bókinni Capital in the Twenty-First Century frá 2014 (rannsóknir sem Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson kynntu og nýttu sér í bókinni Ójöfnuður á Íslandi). Í fyrra lagði Piketty fram aðra greiningu sem ennþá er miklu minna umtöluð, hefur enda ekki enn fengið mikla dreifingu, sem hún á þó skilið. Titillinn er Brahmin Left vs Merchant Right. Þar gerir hann mikla úttekt á kjörfylgi flokka í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á tímabilinu 1948-2017, og sýnir fram á ákveðna eðlisbreytingu sem orðið hefur á hefðbundinni skiptingu í vinstri og hægri. Piketty skrifar í inngangi:

„Hnattvæðing og hækkað menntunarstig hefur skapað nýja vídd ójafnaðar og átaka og leitt til þess að fyrri bandalög byggð á stéttum og tekjuskiptingu hafa veikst og ný tvískipting hefur þróast“... [og áfram skrifar hann] „Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar var stuðningur við „vinstri sinnaða“ (sósíalíska og sósíaldemókratíska) flokka í kosningum tengdur minni menntun og lágtekjuhópum. Þetta svarar til þess sem kalla má stéttbundið flokkakerfi: lágstséttakjósendur skilgreindir út frá mismunandi þáttum (lágmenntun, láglaunum o.s.frv.) hafa tilhneigingu til að kjósa sama flokk eða bandalag á meðan yfirstétta- og millistéttakjósendur út frá mismunandi þáttum hafa tilhneigingu til að kjósa hinn flokkinn eða bandalagið.
Frá og með áttunda áratug hafa „vinstri“ atkvæðin smám saman tengst einkum kjósendum með hærri menntun. Það er ástæða þess að ég kýs að kalla flokkakerfið á fyrsta og öðrum áratug 21. aldar „fjölelítu flokkakerfi“. Hámenntaelítan kýs nú „vinstri“ en hátekju- og stóreignaelítur kjósa ennþá „hægri“ (vissulega minna en áður). Þ.e.a.s. að „vinstri“ hefur orðið flokkur menntaelítunnar (brahmína) en „hægri“ má skoða sem flokk kaupsýsluelítunnar (markaðshægri). Ég sýni fram á að sama umbreyting hefur orðið í Frakklandi, Bandaríkjunum og í Bretlandi þrátt fyrir margs konar ólíkindi í flokkakerfum og stjórnmálasögu þessara landa.“

„Brahmínar“ sem Piketty talar hér um vísar til hæstu stéttarinnar af fjórum innan hindúismans. Brahmínar eru prestar og fræðimenn. Samkvæmt því er menntaelítan orðin að prestastétt hnattvæðingarinnar og nýtur á ýmsan hátt molanna sem falla af hennar borði. Brahmínarnir hafa yfirtekið hefðbundnu vinstriflokkana sem jafnframt hafa yfirgefið hina gömlu stéttapólitík. Verkalýðsstéttin hins vegar hefur fallið niður á milli stóla og er á flestan máta tapari markaðsvæðingar og hnattvæðingar, finnst hún vera svikin og leitar eitthvert annað. Það er skiljanlegt: Ef flokkur snýr baki við stéttinni snýr hún óhjákvæmilega baki við honum líka.

Rannsókn Piketty nær líka yfir hraðan vöxt popúlismans á síðari árum: „Að því er ég best veit er rannsókn mín sú fyrsta sem tengir vöxt „popúlismans“ við það sem kalla má „elítu-þróun“, þ.e.a.s. stigvaxandi þróun „fjölelítu“-flokkakerfis þar sem hvort hinna tveggja ráðandi bandalaga sem skiptast á að hafa völdin endurspeglar viðhorf og hagsmuni sinnar elítu (menntaelítu eða kaupsýsluelítu).“

Þessi greining á popúlisma er í dágóðum samhljómi við það sem þessi skriffinni hér hefur áður skrifað um fyrirbærið. Sjá hér. Elítugreining Piketty virkar skarpleg og sannfærandi fyrir Ísland líka. Hún hjálpar manni við að skilja stéttbundinn (og hrokafullan) málflutning til stuðnings Þriðja orkupakkanum. Hún setur líka í upplýsandi samhengi dvínandi fjöldafylgi sósíaldemókrata (Evrópu) og ekki síst færslu á verkalýðsfylgi margra þeirra yfir til nýrra popúlískra flokka.

Thursday, September 27, 2018

Hægripopúlisminn – helsta ógn við lýðræðið?

(birtist á Neistum.is 26. sept 2018)


                                           Marine Le Pen á útifundi

Ef hlustað er á RÚV fæst sú mynd að mesta vandamál í stjórnmálum Vesturlanda og jafnvel heimsins alls sé hægripopúlismi/ þjóðernispopúlismi.
Sem er ekki rétt, en stafar af því að RÚV er málgagn markaðsfrjálslyndrar, hnattvæddrar, kapítalískrar heimsvaldastefnu (vestrænnar).
Sem stafar aftur af því að markaðsfrjálslynd hnattvæðingarhyggja er RÍKJANDI HUGMYNDAFRÆÐI á heimsvísu nú um stundir.
„Ríkjandi hugmyndir á hverjum tíma hafa alltaf verið hugmyndir ríkjandi stéttar" segir í Kommúnistaávarpinu. Nú á dögum eru það hugmyndir auðstéttarinnar – nánar tiltekið hugmyndir EINOKUNARAUÐVALDSINS, sem verið hefur ríkjandi hluti stéttarinnar undanfarna öld, sem ráða. Og RÚV er málpípa ríkjandi hugmynda.
Þessar hugmyndir eru ríkjandi einfaldlega af því hnattvædd heimsvaldastefna undir merkjum markaðsfrjálshyggju er RÍKJANDI EFNAHAGSKERFI okkar daga – núverandi form heimsvaldastefnunnar og þróunarstig kapítalismans.
Það er þetta ríkjandi efnahagskerfi sem nú tröllríður mannkyninu og jörðinni. Það er MEGINVANDAMÁL OKKAR DAGA.
RÚV er kannski vorkunn af því ALLIR stjórmálaflokkar á Alþingi aðhyllast og styðja þetta efnahagskerfi og þessa hugmyndafræði. Engin raunveruleg stjórnarandstaða.
RÚV telur sig tilheyra „det gode selskap“. Þar á hægripopúlisminn/þjóðernispopúlisminn hins vegar ekki sæti. Af hverju ekki?
Af því hann rekur raunverulega stjórnarandstöðu, fer út fyrir meginstrauminn. Hann hafnar vissum þáttum í hinni ríkjandi hugmyndafræði: fyrst og fremst hnattvæðingarhyggjunni og að nokkru leyti markaðsfrjálshyggjunni. Hann gerir út á afleiðingar hnattvæðingarinnar – og hann gerir út á „flóttamannavandann“. Og hann þykist eiga góð svör og lausnir á þessum sviðum.
Sem hann á ekki.
Hægripopúlisminn/þjóðernispopúlisminn sækir margar hugmyndir sínar og lausnir til rasisma, þjóðrembu og fasisma – í mismiklum mæli. Sem er alveg nógu slæmt. Reynsla 20. aldar færir okkur órækar sannanir um það. Það er þó ekki það sama og að segja að umræddur popúlismi sé helsta ógn lýðræðisins nú um stundir. Því það er hann ekki.