Showing posts with label Keflavíkurhestöðin. Show all posts
Showing posts with label Keflavíkurhestöðin. Show all posts

Thursday, October 27, 2022

Vígvæðingin á Íslandi (framhaldssaga)

 (Birtist á Neistum 19. september)

Umsvif Bandaríkjanna og NATO á Íslandi aukast jafnt og þétt. Ekki síður árið 2022. Að nokkru leyti tengist það innrás Rússa í Úkraínu, en fyrst og fremst er það þó hluti af breiðara ferli vestrænnar vígvæðingar sem hófst miklu fyrr.

Áfram með Finnafjörð

Einn þáttur hennar er ósk NATO um aðstöðu í Finnafirði austur. Í fyrra, 2021, lagði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra fram frumvarp um breytingu á varnarmálalögum og áttfalda stækkun öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall á Langanesi, niður í Finnafjörð til að tryggja «öryggishagsmuni Íslands á Norðurslóðum» https://neistar.is/greinar/ys-og-thys-ut-af-nato/ Núna sumarið 2022 bárust fréttir af óskum NATO um langan viðlegukant þar í Finnafirði. Skömmu síðar komu fréttir af ósk frá Utanríkisráðuneytimu um það sama. Framtak og erindisrekstur Kolbrúnar Reykfjörð í sumar er m.ö.o. beint og hnökralaust framhald af því sem Guðlaugur Þór baukaði í fyrra – að tilhlutan NATO. Þessi mál fara að mestu leyti fram á bak við tjöldin, svo erfitt er að leita heimilda og átta sig á hverslu lagt málið er komið.

B-2 þoturnar, sbr. ályktun Húmanista.

Annar þáttur í auknum umsvifum er notkun bandarískra sprenguþotna á Keflavíkurstöðinni. Ekki síst gildir það um B-2 Spirit, dýrustu sprengjuþotur heims., sem hafa komið hér við og við á undanförnum árum. Skv. Wikipedíu voru þessar þotur «aðallega hannaðar fyrir kjarnorkusprengjur». Þær geta borið allt upp í 16 kjarnorkusprengjur hver. Ekki eru þær hugsaðar til landvarna heldur eru þær svo hreinræktuð árásaratæki sem hugsast getur, hannaðar til að fljúga óséðar inn yfir lönd óvinarins og skjóta á hann sprengjum. Þegar árið 2019 kom það fram hjá Bandaríska flughernum að Keflavíkurstöðin væri skilgreind sem «framvarðarstöð» fyrir þessar flugvélar.

Í fyrra var utanríkisráðherra spurður, bæði af Andrési Inga Jónssyni þingmanni og af SHA hvað fælist í hugtakinu «framvarðarstöð». Kolbrún Reykfjörð sendi spurninguna einfaldlega til bandarískra hermálayfirvalda, lét þau skilgreina málið, og kom tilbaka með þau svör að B-2 þoturnar væru hluti af «varanlegum tilflutningi bandarísks liðsafla» (“rotational presence”). Keflavík er sem sagt liður í «rotational presence» flugflotans (sem væri eðlilegra að þýða sem «hreyfanleg viðvera”).

Keflavíkurstöðin er að verða aftur, eða er þegar orðin, bandarísk herstöð, flestar bandarískar herstöðvar á 21. öld hafa einmitt ekki fastan herafla heldur “hreyfanlegan”. Í svörum sínum báru íslensk stjórnvöld ekki á neinn hátt til baka skilgreiningu bandarískra hermálayfirvalda á Keflavíkurstöðinni sem «framvarðarstöð” fyrir þoturnar B-2 Spirit. Sem felur í sér viðurkenningu á skilgreiningunni, án þess að málið sé nokkurn tíma formlega tekið fyrir í íslensku stjórnkerfi.

Nú skal vakin athygli á ársgamalli ályktun/fréttatilkynningu frá Húmanistaflokki Íslands, gefinni út í tilefni af staðsetningu B-2 sprengiþotnanna á Keflavíkurflugvelli í fyrrasumar. Ályktunin greinir vel málið og setur í samhengi. Þar segir:

“”

„Húmanistaflokkurinn á Íslandi fordæmir harðlega samþykki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þeirri ákvörðun Bandaríkjanna að gera Keflavíkurflugvöll að skilgreindri framvarðarstöð fyrir B-2 þotur til sprengjuárása eins og fram hefur komið m.a. í fréttum Stövar 2 og visir.is að undanförnu. B-2 sprengjuþoturnar eru einhver skæðustu árásarvopn mannkyns, þær eru hannaðar til kjarnorkuárása og geta borið allt að 16 slíkar sprengjur. B-2 þotunum fylgja um tvöhundruð liðsmenn bandaríska hersins. Þess má geta að þotur þessararar tegundar voru meðal annars notaðar þegar Bandaríkin - með stuðningi „hinna viljugu þjóða“ þar á meðal Íslands - sprengdu upp Bagdad í Íraksstríðinu 2003 til 2011. Með samþykki ríkisstjórnarinnar á að gera Keflavíkurflugvöll að framvarðarstöð B 2 sprengjuþotanna er Ísland orðinn beinn og virkur aðili að þeim stríðum smáum og stórum sem Bandaríkin kunna að heyja. Með þessum hætti verður Ísland jafnframt að skilgreindu hernaðarlegu skotmarki andstæðinga Bandaríkjanna í stríði.“

Aðvörunin í lok álykktunarinnar hljómar spámannlega nú ári síðar þegar staðgengilsstríð USA/NATO við Rússa geisar í Úkraínu. Ísland er í reynd orðinn aðili að því stríði, og gerir sig um leið að skotmarki, m.a. með því að hafa hér framvarðarstöð fyrir árásarvopn á borð við B-2.

Norður-Víkingur 2022

Hvað um aðra vígvæðingu á Íslandi þetta árið? “Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022” fór fram í Hvalfirði í apríl í vor. Landganga, og um 700 manns æfði sig á Íslandi en einnig fóru fram æfingar herskipa sunnan við Ísland. «Norður-Víkingur» er fyrst og fremst tvíhliða æfingar Íslands og Bandaríkjanna, á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Þær hafa í heild farið vaxandi. Til marks um það var að Annar floti Bandaríkjanna var endurræstur 2018, hafði þá ekki verið virkur frá 2011). Æfingin 2022 skar sig þó ekki úr að umfangi.

Allt er þetta fyrst og fremst beint og hnökralaust framhald á stefnu þeirri sem áður hafði verið tekin. Ekkert rof varð eða kúvending árið 2022, vegna Úkraínustríðs eða af öðrum sökum. Það er samfella í stefnunni, og stefnan varð ekki til með Úkraínustríðinu. Samfellan gengur út á vígvæðingu. Hina nýju vígvæðingu. Sú vígvæðing hófst í raun með lokum kalda stríðsins um 1990, tók stefnu með «alþjóðavæðingu NATO 1999» og fór á flug með yfirlýstu «stríði gegn hryðjuverkum» 2001. Eftir ca. 2007 hefur vígvæðingin snúist æ beinna um «einpóla heimsskipan», að viðhalda henni og berjast gegn rísandi keppinautum, Kína og Rússlandi.

Helsta viðbót: vopnaflutningur til Úkraínu

Vígvæðingar-marsinn herti þó á sér 2022. Það sem helst hefur bæst við á Íslandi með Úkraínustríðinu er þátttaka Íslands í vopnaflutningum. Strax eftir innrás Rússa í 24. febrúar hófu íslensk stjórnvöld að standa fyrir vopnaflutningum tíl Úkraínu. Um miðjan maí höfðu þau lagt fram 125 milljónir til þess arna. Illa hefur þó gengið að fá fram framlög Íslands skjalfest. Annað atriði er stóraukin «loftrýmisgæsla». Æfingar þær sem voru ca 5 sinnum á ári koma nú á fárra vikna fresti. Nú tala ég mest frá eigin tilfinningu fyrir þotuæfingum og herflutningavélum á Akureyrarflugvelli. Ég tel að tíðni æfinganna hafi a.m.k. tvöfaldast frá undangengnum árum.

Ísland er NATO-hjálenda. Í utanríkismálum ganga hlutirnir sjálfkrafa fyrir sig. Við höfum enga sjálfstæða utanríkisstefnu. Gerum það sem NATO segir. Ísland hefur stutt allar aðgerðir NATO síðustu þrjá áratugi. Og allar stórar aðgerðir Bandaríkjahers. Punktur. Sjálfvirknin er óháð stjórnarsamsestningu. Við flækjum okkur rækilegar í net vígvæðingarinnar með hverju árinu. En ekkert af þessu er í raun nýtt. Úkraínustríðið er aðeins eitt skref enn niður á við.

 

Sunday, October 13, 2019

Stríðsöflunum miðar betur í norðri en í suðri

(birtist á Neistum 25. september 2019)

Átökin um hnattræn yfirráð nú um stundir einkennast annars vegar af mikilli alhliða drottnunarstöðu Bandaríkjanna og NATO-blokkarinnar – sem í krafti stöðu sinnar kalla sig „alþjóðasamfélagið“ – og hins vegar af hnignandi stöðu sömu blokkar. Efnahagsleg hnignun hennar (undanhald í keppninni um heimsmarkaðinn) samfara miklum hernaðaryfirburðum leiðir af sér þá miklu árásahneigð sem hún sýnir (sérstaklega Bandaríkin). Helstu stríð og stríðsógnir nútímans eru komnar frá þessari blokk, undir bandarískri forustu.
Á 21. öldinni hafa vestrænir heimsvaldasinnar þróað hugmyndafræði íhlutana sem þeir nefna „verndarskyldu“ (responisbility to protect). Nefnilega að ástandið í tilgreindum ríkjum sé þannig að það kalli á íhlutun „alþjóðasamfélagsins“, yfirleitt í nafni „mannúðar“.
Sú „vernd“ og „mannúð“ sem um ræðir felst í efnahagslegum refsiaðgerðum, valdaránum og valdaskiptaaðgerðum, innrásum eða staðgegnilsstríðum gegn löndum sem vestrænir auðhringar vilja ráða yfir en hafa ekki nægjanleg tök á (mótþróalönd).


Suðrið
Kringum 2001 hófu Bandaríkin og NATO „stríð gegn hryðjuverkum“ og settu fram lista yfir „öxulveldi hins illa“ og stefndu herjum sínum einkum á hin olíuauðugu Austurlönd nær til að tryggja yfirráðin eftir fall Sovétríkjanna. Þegar fyrir aldamót hafði Pentagon skilgreint Íran og Írak sem „þorpararíki“ og kallaði eftir einangrun þeirra og „valdaskiptum“. Fljótt eftir 11. september var ráðist inn í Afganistan og nýjum ríkjum var bætt á listann „öxulveldi hins illa“: Líbíu og Sýrlandi. Sjá nánar.
     Síðan hefur stríðið á þessu svæði staðið óslitið – gegnum beinar innrásir Bandaríkjanna og „alþjóðasamfélagsins“ eða staðgengilsstríð og málaliðahernað studdan af Vestrinu og Ísrael ásamt bandamönnum í arabalöndum. Megintaktíkin hefur verið að nota trúardeilur til að brjóta mótþróalöndin niður innan frá.
     Hin volduga bandaríska hugveita Brookings Institution gaf árið 2009 út skýrsluna „Hvaða leið til Persíu?“ Sjá hér. Þar kom fram að til að sigrast á Íran væri nauðsynlegt að gera fyrst skaðlausan helsta bandamann Írans, Sýrland. Sú aðgerð hófst 2011.
     En það er skemmst frá því að segja að þessar styrjaldir Vestursins í Austurlöndum nær hafa gengið mjög illa. Stríð NATO í Afganistan hefur staðið í 18 ár og „sigur“ er síst í augsýn. Afganir eru stolt þjóð og mjög ákveðnir í að ráða sér sjálfir. Íraksstríðið var tíu ára hroðaleg og blóðug katastrófa (að viðbættu borgarastríðinu við ISIS frá 2014) og eru innrásaröflin þó litlu bættari á eftir. Líbíustríð NATO-ríkja þótti takast best en eftir stendur niðurrifið land. Sýrlandsstríðið leit vel út um tíma fyrir Vestrið og bandamenn þess en frá 2015 snérist stríðsgæfan Sýrlandi í vil (með hernaðaraðstoð frá Rússlandi) og landið er unnið tilbaka úr kjafti vargsins í bitum og áföngum. Sjá stöðuna hér. Og Íran hefur ekki látið ógnanir, innikróun og viðskiptastríð beygja sig til undirgefni og svarar nú stríðshótunum BNA og bandamanna þeirra fullum hálsi.
     Djöfulskapurinn hefur nefnilega ekki skilað tilætluðum árangri heldur hefur andspyrnan styrkt sig. Ríki og þjóðir sem hafa mátt þola þessa ásókn heimsvaldasinna verja sjálfsákvörðunarrétt sinn og snúa bökum saman. Til varð andspyrnuöxull („axis of resistance“) í Miðausturlöndum og hann hefur eflst við hverja raun. Kjarni hans er Íran, Sýrland og Hizbollahreyfingin í Líbanon. Upp á síðkastið hefur Írak æ meir tekið sér stöðu með andspyrnuöxlinum og eins er um Hútahreyfinguna í Jemen sem á í höggi við nokkra sömu meginóvini (Sáda, Bandaríkin, Breta...) og lætur ekki sinn hlut.


En norðrið?
Svona er staðan í Suðrinu. En í Norðrinu er allt annars konar þróun í gangi. Á Íslandi er „herinn“ á leiðinni til baka, í Keflavík er að taka á sig mynd varanleg herstöð með sívaxandi herbúnaði og hreyfanlegum herafla frá Bandaríkjunum og NATO (og herstöðvar nútildags hafa einmitt „hreyfanlegan herafla“). Á alþingi Íslendinga er engin andstaða sem hægt er að nefna því nafni gegn þessari þróun.


Noregur
Ísland er þó ekkert sértilfelli. Noregur hefur nú látið af 70 ára gamalli herstöðvastefnu sinni, stefnu frá tilurð NATO 1949, um að leyfa aldrei erlenda herstöð í Noregi á friðartímum. Undanfarin fáein misseri hafa verið settar upp tvær bandarískar herstöðvar í Noregi, í Værnes í Þrændalögum og Setermoen í Tromsfylki og er þar gert ráð fyrir 700 hermönnum fyrst um sinn. Sjá hér. Miklar bandarískar vopnabirgðir eru í risastórum geymslusölum gröfnum inn í nokkur fjöll í Þrændalögum. Þær eiga að duga 16 þúsund hermönnum til eins mánaðar stríðs. Sjá hér. Uppbygging radarkerfa í Noregi fer fram undir bandarískri stjórn, og verður áfram undir bandarískri stjórn. Noregur hefur kúvent landvaranarstefnu sinni og aðlagað hana hnattrænni stríðsstefnu NATO: setur eigin landvarnir undir bandaríska forsjá og tekur jafnframt fullan þátt í stríðum NATO í fjarlægum heimshlutum, var m.a. í miklu hlutverki í lofthernaðinum gegn Líbíu. Noregur var aðalgestgjafi Trident Juncture í fyrra, mestu NATO-æfingar frá 2002 (50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar) sem æfði óopinbert stríð við Rússa.


Svíþjóð og Finnland
„Hlutlausu löndin“ Svíþjóð og Finnland hafa nú gerst mjög virkir þátttakendur í NATO. Bæði gerðust „samstarfsaðilar“ að NATO (s.k. „partnership for peace“) árið 1994. Bæði hófu þátttöku í stríðinu í Afganistan árið 2002. Bæði sendu flugvélar og mannskap í stríðið gegn Líbíu 2011. Bæði löndin gerðu „gestgjafasamning“ við Bandaríkin árið 2014 sem þýðir að Bandaríkin og NATO geta – að boði gestgjafanna – bæði æft og háð stríð frá þessum löndum við þriðja land. Og þá heimild hefur NATO nýtt sér með miklum heræfingum í báðum löndunum, gegn Rússum. Svíþjóð og Finnland eru ekki lengur hlutlaus lönd heldur í reyndinni orðin NATO-meðlimir og æfa NATO-stríð. Sjá hér. Og hér.


Danmörk og Grænland
Það er í ljósi þessa undirlægjuháttar Norðurlanda sem skoða verður nýjan áhuga Donalds Trump á að kaupa Grænland. Danski forsætisráðherrann kallaði reyndar hugmyndina „absúrd“, og gott var það. Við það varð Trump hins vegar móðgaður og ítrekaði að hugmyndin væri alvarlega meint. Og í ljósi þess hvað Norðurlönd hafa lagt sig gjörsamlega flöt undir Bandaríkin í varnarmálum (og refsiaðgerðum gegn Rússum m.m.) og í ljósi nýlegrar skyndisóknar Bandaríkjanna sem „heimskautaþjóð“ er trúlegt að „tilboð“ Trumps verði ekki það síðasta sem við heyrum um áhuga BNA á Grænlandi.


Glæpur Pútíns
Þessi þróun á Norðurlöndum er auðvitað bara hluti af allsherjarsókn NATO til austurs og vígvæðingunni gegn Rússlandi, með skotpallavíglínu og vaxandi heræfingum vestan vesturlandamæra Rússlands. Og óvíða er andrússneski NATO-áróðurinn meira eintóna en á Norðurlöndum, áróður sem er þó runnin upp í Bandaríkjunum. Stöðugt er haldið á loft þeirri mynd að Rússland sé hin mikla ógn sem þurfi að refsa, einangra og vígbúast gegn. Það er þó ljóst öllum þeim sem vilja sjá að öll þessi vígvæðing er drifin áfram af Bandaríkjunum og Vestrinu. Rússland ógnar ekki á neinn hátt stórveldum NATO (síst af öllu Bandaríkjunum) heldur er það öfugt. Raunverulegur glæpur Pútíns er að snúa frá þjónkun fyrirrennarans Jeltsíns við Vesturlönd og taka að verja af kappi hið smækkaða áhrifasvæði Rússlands gagnvart ásókn USA/NATO-velda. Og að mynda blokk með Kína gegn þeirri blokk sem öllu hefur ráðið og kallar sig „alþjóðasamfélagið“.

Friday, August 23, 2019

Vígvæðing norðurslóða

(birt á neistar.is 20. ágúst 2019)

Ný hervæðing á Keflavíkurflugvelli er liður í vígvæðingu norðurslóða, Norður-Atlantshafsins og Norður-Íshafsins. Hver vígvæðingarfréttin rekur aðra.

A. Á undanförnum mánuðum hefur útvarpið sagt nokkrar fréttir af viðamiklum framkvæmdum á Keflavíkurvelli á vegum (aðallega) Bandaríkjahers, aðstöðu fyrir fleiri kafbátaleitarvélar, íbúðir fyrir meira en þúsund hermenn og uppfærsla ratsjárkerfa í fjórum landshornum. Hægt verður að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum hvenær sólarhringsins sem er, í hverri flugsveit jafnan 18 til 24 orrustuflugvélar o.s.frv.
B. Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna væntanlegur í opinbera heimsókn til Íslands fjórða september til viðræðna við Katrínu og Guðlaug Þór. RÚV vitnar í vef Hvíta hússins: „Í heimsókninni mun varaforsetinn leggja áherslu á hernaðarlegt mikilvægi Íslands á Norðurslóðum... Einnig verður lagt áherslu á [svo] aðgerðir NATO gegn umsvifum Rússa á svæðinu og tækifæri til aukinna viðskipta og fjárfestinga.“ Sjá hér.
C. Að lokinni Íslandsför heldur Pence til Bretlands. Auk efnahagsmála ætlar hann þar að „ræða við Breta um hvernig best sé að stemma stigu við árásargirni Írans í Miðausturlöndum og víðar, og hvernig svara eigi ógninni sem stafi af Kínverjum.“ Sjá hér.
D. Á heimleið frá Póllandi – til að minnast 80 ára innrásar Þjóðverja þar – kemur Donald Trump við í Kaupmannahöfn til að funda með Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana. Samkvæmt mörgum fréttaveitum er fyrsta atriði á dagskrá að „ræða norðurslóðamál“, með sérstöku tilliti til Grænlands. Því til staðfestingar verða á fundinum einnig formaður grænlensku landstjórnarinnar og lögmaður Færeyja. Það sem gerir Danmörku spennandi fyrir forusturíki Vestursins eru yfirráðin yfir Grændlandi sem gefur aðgang að Norður-Íshafinu. Tal hins opinskáa forseta BNA við fjölmiðla um áhuga á að kaupa Grænland talar sínu máli, er púslubiti í þessari mynd. „Trump sagði landlegu Grænlands hernaðarlega mikilvæga og því sé áhuginn fyrir hendi“ segir í fréttum RÚV. NÝJASTA 21/8: Nú hefur Trump aflýst heimsókninni þar sem danski forsætisráðherrann vilji ekki ræða „sölu Grænlands“. Trump er greinilega móðgaður og móðgar Dani (og enn frekar grænlendinga). Þá blasir líka við að hernaðarlegt mikilvægi Grænlands var hið eina í heimsókninni sem skipti BNA einhverju máli.
E. Þriðja Bandaríska stórmennið heiðraði Ísland með nærveru sinni, Mike Pompeo í febrúar sl. Hann ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson um „hvert sé best að flytja hergögn og annað, til að tryggja öryggi á norðurslóðum“, og sagði að Ísland yrði „ekki vanrækt lengur“. Sjá grein Neista: „Herinn: út um framdyr, inn um bakdyr."
F. Bandaríkjastjórn endurræsti í fyrra Atlantshafsflotann (United States Second Fleet) sem hún hafði leyst upp árið 2011. Hún „ætlar honum hlutverk á hafsvæðum fyrir norðan Ísland. Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli tekur mið af þessu“, skrifar Björn Bjarnason í Mbl. 9. ágúst. Sjá hér.
G. NATO-flotaæfingar við Ísland eru nú haldnar ár eftir ár: Árið 2017, Exercise Dynamic Mongoose, 11 herskip, 5 kafbátar og 2000-3000 sjóliðar frá 9 NATO-ríkjum. Árið 2018, Trident Juncture 10 herskip með um 6000 sjóliða æfðu við Ísland í október (sem var upphaf að 10-falt stærri æfingu í Noregi).
H. Í maí í vor tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins í Rovaniemi í Finnlandi. Samkvæmt hefðinni snúast fundir ráðsins um annað en öryggismál. Á fundinum kom þó skýrt í ljós gildi ráðsins séð af bandarískum sjónarhóli. Pompeo utanríkisráðherra var mættur og lýsti yfir: “Þetta er stund Ameríku til að standa upp sem heimskautaþjóð... Svæðið er orðið að vettvangi hnattrænna valda og samkeppni.“ Pompeo talaði býsna dólgslega á þessum fundi og hann beindi spjótum sínum nú einkum gegn Kína (sem þarna var áheyrnaraðili) og talaði um „ásælni“ Kína á svæðinu, vísandi einkum til norðursiglingaleiðarinnar til Evrópu. Sagði svo: "Árásargjörn hegðun (aggressive behaviour) Kína annars staðar sýnir okkur hvernig Kína mun fara með norðurslóðir.“ Sjá hér.

Friday, July 26, 2019

Herinn: út um framdyr, inn um bakdyr

(birt á Neistum.is 22 júlí 2019)
Samkvæmt útvarpsfréttum eru framundan framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurfluvelli auk ratsjárkerfis í fjórum landshornum, framkvæmdir fyrir 14 milljarða króna. Upphæðin jafngildir ca. 100 nýjum glæsivillum.
„Framkvæmdunum má skipta í tvo hluta. Annars vegar er uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbygging á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins... Bandaríski flugherinn ætar svo að útbúa aðstöðu til búsetu í einskonar gámaíbúðum fyrir meira en þúsund hermenn inni á varnarsvæðinu. Íbúðirnar rísa ekki strax heldur verður lagt skólpkerfi í jörðu, raflagnir og annað slíkt.“ Sjá nánar.

mikepompeooggudlaugur

                                 Utanríkisráðherra tekur á móti kollega sínum Pompeo í febrúar sl.

Þegar Mike Pompeo utanríkisráðherra kom í heimsókn til Íslands í vetur sagði hann að „Ísland verði ekki vanrækt lengur“ Sjá nánar.
Hann ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson um viðbúnað á norðurslóðum og „hvert sé best að flytja hergögn og annað, til að tryggja öryggi á norðurslóðum“. En samkvæmt RÚV: „Guðlaugur Þór túlkar orð Pompeo um flutning hergagna ekki sem svo að Bandaríkjamenn séu að boða aukin hernaðarumsvif“ ...„Þannig að það er ekkert neitt annað í gangi en það sem er búið að vera í gangi á undanförnum árum“.
Friðardúfan Katrín Jakobsdóttir sagðist auk heldur hafa sagt við Pompeo að „mikilvægt sé að ekki verði hernaðarumsvif á norðurskauti“ og á Arctic Circle í fyrra sagðist hún vona að „Norðurslóðir verði vopnlaust svæði“ Sjá hér.
Katrín hefur hlutverk í samhenginu: að gefa uppbyggingunni hér mildilegt andlit. Sjá hér.

Hinar auglýstu framkvæmdir benda ekki til að allt sé bara í hefðbundnum skorðum á Miðnesheiði. Viðvera herliðs eykst jafnt og þétt. Kafbátaleitarsveitir Bandaríkjanna og NATO-ríkja dvelja nú reglulega á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar bætist við á annað eða þriðja hundrað manns sem koma þrisvar á ári vegna „loftrýmiseftirlits“. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, spurði utanríkisráðherra í nóvember sl. um viðveru erlends herliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli frá 2007-2017. Svarið var á þessa leið: „Á síðustu ellefu árum hefur viðvera erlends herliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli verið mjög breytileg frá ári til árs, allt frá sautján dögum árið 2007 til þess að vera dagleg viðvera síðustu þrjú árin.“ Og fram kom í svarinu að fyrsta árið voru hermennirnir alls 17 en síðasta árið voru þeir 1220. Ekkert að breytast? Sjá hér svarið.

Herstövasamningurinn við BNA er enn í fullu gildi. Bandaríkin fluttu aðeins her sinn í bili af taktískum ástæðum. Í stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar Íslands segir: „...grunnstoðir utanríkisstefnunnar eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn og friðar- og öryggissamstarf.“
Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, viðurkennir nýja og aukna hernaðaruppbyggingu Bandaríkjanna hér og í Norður-Atlantshafi, sem auðvitað stafar af hinni miklu ógnun frá Rússum:
„Þeir [Bandaríkjamenn] eru náttúrulega búnir að virkja aðra flotadeildina á nýjan leik og það er alveg augljóst að það verða hér meiri hernaðarumsvif. Það verður meiri fókus. Hernaðarumsvif Rússa og uppbygging er auðvitað mest hér, miklu meiri en uppbygging Bandaríkjamanna. Því miður þá er það þannig að hernaðarumsvif eru að aukast.“ Sjá nánar.

Það er reginlygi að Rússar leiði vígvæðinguna. Við höfum ekki gleymt Trident Juncture í haust: 10 herskip, 6000 sjóliðar, 400 bandarískir landgönguliðar á Íslandi, og héðan stukkur þeir yfir í mestu heræfingu í Skandinavíu eftir kalda stríðið: 50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar bara í Noregi. Og ári áður var 20 þúsund manna NATO-æfing í Svíþjóð (hlutlaust land!). Bandaríski flotinn hefur í fyrsta sinn í sögunni fengið tvær fastar herstöðvar í Noregi. Norðurlönd liggja flöt sem stökkpallur fyrir Bandaríkin og NATO gegn Rússum. Uppbyggingin í Keflavík er liður í því. Þetta eru EKKI „STRÍÐSLEIKIR“ (uppáhaldsorð sumra hjá Samtökum hernaðarandstæðinga). Þetta er STRÍÐSÁRÓÐUR OG STRÍÐSUNDIRBÚNINGUR. NATO í vígahug – Trident Juncture á Íslandi og Noregi
Hver ógnar hverjum? Hver æfir stríð við landamæri hvers? Bandaríkin hafa yfir 800 herstöðvar erlendis. Rússar hafa eina flugherstöð og eina flotastöð í Sýrlandi, og þá er allt upptalið. Árið 2017 stóðu Rússar fyrir 3.8% af herútgjöldum heimsins, Bandaríkin 35%. Þegar hertólahlutföllin eru þannig er huggun að heyrða það og sjá að Pompeo og Pentagon ætla að „hætta að vanrækja Ísland“. Eða hvað, VG?

Tuesday, February 19, 2019

Pompeo boðar aukin hernaðarumsvif á norðurslóðum

(Birtist á fésbók SHA 17. febr. 2019)

                                     Bollalagt um aukin hernaðarumsvif. Guðlaugur Þór og Mike Pompeo

Mike Pompeo kom. Hann lýsti yfir á blaðamannafundi að BNA ætli að hætta  að „vænrækja bandamenn á noðurslóðum“, en „segir að ákveðið verði í samvinnu við Ísland hvernig og hvert sé best að flytja hergögn og annað, til að tryggja öryggi á norðurslóðum.“

Síðan komu fulltrúar íslenskra stjórnvalda og túlkuðu boðskapinn. Katrín Jakobsdóttir sagðist hafa sagt Pompeo að „mikilvægt sé að ekki verði hernaðarumsvif á norðurskauti“. Guðlaugur Þór sagði aðeins fleira, enda ræddi hann meira við Pompeo. Samkvæmt RÚV: „Guðlaugur Þór túlkar orð Pompeo um flutning hergagna ekki sem svo að Bandaríkjamenn séu að boða aukin hernaðarumsvif“ ... „það er ekkert neitt annað í gangi en það sem er búið að vera í gangi á undanförnum árum“. En jú, það er annar aðili sem hefur magnað spennuna: „Frá því Rússar hertóku og innlimuðu Krímskaga í Rússland fyrir fimm árum hafa þeir aukið umsvif sín á norðurslóðum og ríki Atlantshafsbandalagsins brugðist við með því að styrkja varnarviðbúnað í Evrópu.“

Í framhaldinu ræddi RÚV við aðstoðarmann Guðlaug Þórs, Borgar Þór Einarsson, og hann hagaði orðunum allt öðru vísi.: „Því miður þá er það þannig að hernaðarumsvif eru að aukast.“ Ennfremur samkvæmt Borgari Þór: „Aðstoðarmaðurinn segir að ekki megi skilja þau ummæli öðruvísi en að Bandaríkjamenn ætli í auknum mæli að beina sjónum sínum að Norður Atlantshafi.“


Þetta er sérkennileg blanda af sefandi hughreystingarorðum og stríðsöskrum. Fyrst fer friðardúfan Katrín og segir „öll dýr í skóginum skulu vera vinir“. Svo kemur Guðlaugur Þór og segir ekkert hefur breyst – nema jú, vaxandi yfirgangur Rússa. Svo kemur aðstoðarmaðurinn og segir að síðan herinn fór af Miðnesheiði árið 2006 „hafi Bandaríkin lítið hugað að ástandinu á norðurslóðum“. Og raunverulega er ástandið alvarlegt: „Hernaðarumsvif Rússa og uppbygging er auðvitað mest hér, miklu meiri en uppbygging Bandaríkjamanna. Því miður þá er það þannig að hernaðarumsvif eru að aukast,“ sagði Borgar.“ 


Er það rétt að Bandaríkin hafi „lítið hugað að ástandinu á norðurslóðum.“ Við munum enn Trident Juncture í haust: 10 herskip, 6000 sjóliðar, 400 bandarískir landgönguliðar á Íslandi, og héðan stukkur þeir yfir í mestu heræfingu í Skandinavíu eftir kalda stríðið: 50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar bara í Noregi. Og ári áður var 20 þúsund manna NATO-æfing í Svíþjóð. Bandaríski flotinn hefur fengið tvær fstar herstöðvar í Noregi. Norðurlönd liggja flöt sem stökkpallur fyrir Bandaríkin og NATO gegn Rússum. Hver ógnar hverjum? Hver æfir stríð við landamæri hvers? Árið 2017 stóðu Rússar fyrir 3.8% af herútgj-öldum heims, Bandaríkin 35%.


Sem sagt. Íslenska ríkisstjórnin tekur þátt í stríðsvæðingu norðursvæðanna undir forustu Bandaríkjanna. En með þátttöku VG og með mjúkum talanda Guðlaugs Þórs er hægt að gera það undir friðarfánum.

Saturday, February 13, 2016

Flugskýlin á Miðnesheiði

(birtist á fésbókarsíðu SHA 12. feb 2016)
Gunnar Bragi og Hanna Birna gera lítið úr "uppfærslu flugskýlis" á Miðnesheiði. En vefrit Bandaríkjahers segir málið snúast um að taka skuli upp eftirlit úr lofti með rússneskum kafbátum og sjóherinn gæti síðar "farið fram á aðstöðu til langframa". Fyrir viku kom fram að Bandaríkin áforma að FJÓRFALDA á næstunni hernaðarútgjöld sín í Evrópu. Og í gær kom fram frá fundi utanríkisráðherra NATO í Brussel í fyrsta lagi að NATO hefur undanfarið ÞREFALDAÐ viðbragðsliðsafla sinn í Austur-Evrópu og áformar nú að bæta 40 þúsund manns við auk þess að auka mjög hernaðaraðstoð við Tyrkland m.m.  Sjá frétt þar um. Það verður að setja flugskýlismálið inn í þetta samhengi og segja svo að það sé meinlaust.