Saturday, November 10, 2012

Hvernig flokk þurfum við?



(Ræða á ráðstefnu Rauðs vettvangs 11. okt. 2009, lítillega aukin og endurbætt. Birtist á eggin.is 28. okt. s. á.) 

HVERNIG FLOKK ÞURFUM VIÐ? Því verður að svara með hjálp annarrar spurningar: TIL HVERS Á AÐ BRÚKA HANN?
BRÝNASTA VERKEFNIÐ hlýtur að vera þetta: Að hjálpa íslenskri alþýðu að verja sig gegn núverandi árásum, skipuleggja vörnina, og mögulega sókn. Það er ekkert stjórnmálaafl í landinu sem gerir það svo gagn sé að.
EN TIL LENGRI TÍMA? Hvaða framtíðarsýn höfum við? Kannski vitum við það ógjörla en vitum þó að nú er rétti tíminn til að ræða einmitt það. Ég held við vitum líka hvað við viljum ekki.  Ég tel víst að flest okkar hér inni séum sammála um að við viljum ekki auðvaldið. Auðvaldið sem ræður ríkjum, vald peninganna, vald markaðarins, auðræði, altækt vald og alls staðar nálægt eins og guð.

ANDKAPÍTALÍSKAN FLOKK. Við höfnum því algjörlega að sníða baráttu okkar að þeim ramma sem er utan um auðvaldsskipulagið. Við viljum kollvarpa í fyrsta lagi þjóðfélagslegu valdi og þjóðfélagslegri stöðu íslenskrar auðstéttar og í öðru lagi losa tök heimsvaldastefnunnar á landinu. Í stað þjóðfélagslegs valds auðstéttar og heimsvaldasinna hljótum við að stefna að valdi fólksins, skipulögðu valdi verkalýðs og alþýðu. Í stað eignaréttar auðstéttarinnar á atvinnutækjunum hljótum við að berjast fyrir samfélagslegri eign á atvinnutækjum. Í þessa veru talaði Karl Marx um það sem hann kallaði sósíalisma. Nú eru harla litlar fyrirmyndir til í þessu efni. Allar alþýðubyltingar og tilraunir til sósíalisma hingað til hafa runnið sitt skeið, og jafnan skilað alþýðu afar mikilsverðum arangri, en þær hafa þó allar endað feril sinn með ósigri. Þar sem þær urðu allar í vanþróuðum ríkjum varð áhrifamáttur þeirra skiljanlega meiri í 3. heiminum en t.d. í þróuðum verstrænum ríkjum. Fyrirmynd sem hentar Íslandi nútímans hefur aldrei verið til í framkvæmd. Engu að síður færir fyrri reynsla sósíalsískra ríkja – jákvæð jafnt sem neikvæð – okkur afskaplega mikilvæga lærdóma. 

BYLTINGARSINNAÐAN FLOKK. Þetta þýðir að við þurfum byltingarsinnaðan flokk. Af því byltingin getur aðeins verið þetta: að brjóta rammann, að kollvarpa eigna- og valdakerfi ríkjandi stéttar. Hvernig byltingu? er spurt. Stefnum við að blóðugri byltingu? Persónulega langar mig ekkert í vopnaða byltingu, og kann t.d. ekkert með byssu að fara, Hins vegar veit ég að vald auðsins er í eðli sínu bæði undirokandi og ofbeldishneigt, ekki síst auðvald sem þróast hefur á stig heimsvaldastefnu. Vitnisburðir sögunnar eru óteljandi. Þess vega er best að vera hreinskilinn: Ég sé það hreint ekki fyrir mér að auðvaldið muni gefa frá sér völd sín og þjóðfélagsstöðu á friðsamlegan hátt, ekki á Íslandi og alls ekki á heimsvísu. En auðvitað verða byltingarsinnar að nýta eftir fremsta megni hinar löglegu og friðsamlegu baráttuaðferðir meðan þær bjóðast.

LENÍNÍSKAN FLOKK? Baráttustaða íslenskrar alþýðu er veik eftir áratuga stéttasamvinnustefnu. Stéttabaráttan er í ýmsum efnum á byrjunarstigi líkt og á fyrstu áratugum 20. aldar. Búsáhaldabyltingin gaf fyrirheit en við erum samt ekki nálægt neinni úrslitabarátta um völd í þjóðfélaginu. Þegar Lenín lagði á ráðin um skipulag kommúnista kringum stofnun KOMINTERN 1919 bjóst hann við að verkalýðsbylting væri á næsta leiti í allri Evrópu, og skipulagshugmyndir hans miðuðust við það (auk þess sem bolsévíkar höfðu jafnan starfað við lögregluríki og bann). En nú um stundir er slík bylting vissulega ekki í augsýn. Ég spurði í upphafi: til hvers á að nota flokkinn? Aðstæðurnar núna kalla ekki á neinn borgarastríðsflokk og ekki búum við við lögregluríki. Ég álít þess vegna ekki að við þurfum, a.m.k. ekki fyrst um sinn, flokk „atvinnubyltingarmanna“, flokk sem starfar neðanjarðar, heimtar víðtæka hugmyndafræðilega einingu og beitir járnaga eins og lenínískir flokkar gerðu á 3. og 4. áratug og á stríðsárunum. Slík skipulagning mundi stuðla að einangrun flokksins. Lenínískt skipulag hindraði ekki að gömlu kommúnistaflokkarnir („Moskvuflokkar“) þróuðust yfir í endurskoðunarstefnu og kratisma. Og lenínískt skipulag stuðlaði beinlínis að því að flokkar kenndir við marx-lenínisma og maóisma á 8. áratugnum einangruðust og urðu áhrifalitlir.

LIÐSMANNASAMTÖK OG EININGU Í STARFI. Það er mjög margt úr hinni lenínísku arfleifð sem læra verður af og nýta. Ég tel að við þurfum liðsmannasamtök (kadersamtök) sem leggur starfsskyldu á liðsmennina, gerir samþykktir um stefnu og markmið og gerir kröfu um vissa einingu og aga í starfi. Vopn verkalýðs gegn valdi auðsins er hið samstillta átak. Byltingarsinnuð samtök (eða flokkur) þurfa jafnframt að vera skóli sem fræðir fólk í skóla stéttabaráttunnar og gegnum byltingarsinnaða þjóðfélagsumræðu. Ef samtökin ætla sér að verða forustuafl verða þau enn fremur að starfa með alþýðunni og læra af henni.

STÉTTABARÁTTUFLOKK. Fyrst um sinn vantar umfram allt stéttabaráttuflokk. Það sárvantar stjórnmálaafl sem setur sér það höfuðverkefni að skipuleggja baráttu alþýðunnar sjálfrar gegn árásum þeim sem yfir hana ganga. Það hefur nefnilega enn ekki komið fram nein aðferð til að kljást við vald auðsins önnur en sú að treysta á samtakamátt og baráttu alþýðunnar sjálfrar. Flokkar sem klifra innan valdakerfis auðstéttarinnar og miða meginstarfið við kosningasmölun koma í besta tilfelli að mjög takmörkuðu gagni í stéttabaráttu alþýðu.

HVAÐ MEÐ RÁÐHERRALEIÐINA TIL VINSTRI? Hverjir hafa nú völdin á Íslandi var spurt í gær. Jakobína Ólafsdóttir gerði spurningakönnun hér og þar úr samfélaginu, m.a. úr stjórnkerfinu og meðal þingmanna, og fékk það álit að valdið lægi alla vega ekki á Alþingi. Nú um stundir eru vonbrigði og frústrasjón áberandi meðal flokksmanna og stuðningsmanna Vinstri grænna, líka tilfinning fyrir magnleysi. Eftir hrun og búsáhaldabyltingu var þetta fólk bjartsýnt. Upp var runnin stund breytinganna og allt hægt. Kosningarnar sýndu vinstrisveiflu á þjóðarskútunni, hart í bak. Ákaft félagshyggjufólk studdi nýja vinstri stjórn til valda til að uppfylla langan lista af stefnumálum. En nú grípur um sig önnur tilfinning: Við erum á stóru skipi með mikinn skriðþunga og það er víst ekki hægt að breyta kúrsinsum. Kannski erum við alls ekki á skipi heldur járnbrautarlest og þess vegna ekki hægt að beygja. Þá er gott að kosnir fulltrúar viðurkenni – eins og Lilja Mósesd  og Þorleifur Gunnlaugsson gerðu í gær – að þau geti ekki breytt stefnunni í hinum þjóðkjörnu  stofnunum og þess vegna þurfi að byggja aftur upp mótmælahreyfingu vetrarins til að þrýsta stefnumálunum í gegn.

MARXISTAR HAFA ALLTAF SAGT ÞAÐ: valdið er ekki á þinginu. Stjórnkerfið er annað en kosningar og þing, stjórnkerfið hlýðir ekki þinginu heldur fyrst og fremst því stéttbundna efnahagskerfi sem það er sniðið til að þjóna. Ríkisstjórn er hluti af þessu stjórnkerfi og hefur raunverulegt vald en það er stéttbundið vald. Þess vegna fær t.d. engin að verða fjármálaráðherra nema lofa að gera allt til að tryggja íslenskum auðmönnum ásættanlega arðsemi peninga sinna. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er ekki hægt að skoða sem fólk sem vill vel en er á villigötum og ræður ekki við kerfið. Losum okkur við allar grillur um þessa vinsntri stjórn. Hún er fulltrúi íslenska einokunarauðvaldsins og verkefni hennar er að hressa upp á íslenska auðvaldskerfið sem laskaðist í hruninu. Enda sannar hún daglega hvaða stéttarhagsmunum hún þjónar (sjá frekari umræðu um stéttareðli ríkisins og hlutverk kratismans í greininni „Nokkur orð um VG“ undir efnisflokknum „Stefnur“).
 
VALDIÐ EKKI ALLT INNANLANDS. Valdið er ekki bara hjá íslenska auðvaldinu. Stór hluti valdsins liggur hjá utanaðkomandi heimsvaldastefnu, því vestræna heimsvaldakerfi sem líkamnast í landsstjóranum herra Rasvadovski á skrifstofu í Hverfisgötu, en undir hann þarf íslenska ríkisstjórnin að bera allar stórar ákvarðanir. Í hádeginu fer heimsvaldastefnan út og gengur upp á Laugaveg og fær sér kaffi. Undanfarna áratugi hefur íslenska einokunarauðvaldið ruglað reitum sínum saman við erlenda heimsvaldasinna. Það skýrir hegðun íslensku ríkisstjórnarinnar, að hún skuli koma fram, m.a. í Icesave-málinu og ESB-umsókn, sem málsvari erlends valds.

BYGGJUM UPP MÓTAFLIÐ. Eins og ég sagði áðan hefur ekki fundist nein önnur aðferð til að kljást við vald auðsins en samtakamáttur alþýðu. Það verður að byggja upp mótaflið í samfélaginu. Það er svo að þessi samtakabarátta – jafnvel þótt varnarbarátta sé – hefur í sér kím byltingar. Samstillt átak í hvers konar samtökum alþýðu felur það í sér að almenningur sjálfur tekur sér vald, og kemst þar með úr stöðu magnleysis og stöðu hins almenna þolanda. Það er þannig sem fólk skynjar eigið afl og fær um leið skólun í stéttabaráttu. Þessi grasrótarbarátta getur verið verkfallsbarátta til að verja kjörin, barátta bænda, sjómanna og jafnvel útgerðarmanna (sem ekki tilheyra einokunarauðvaldinu) gegn ESB og fyrir sjálfsforræðinu, barátta gegn landsölu og umhverfisvá stóriðjustefnunnar, barátta gegn launamisrétti kynja eða á hvaða sviði sem vera skal. Markmiðið er ekki að byggja stóran þingflokk heldur virka hreyfingu meðal fólksins.

HVAÐA ISMI? Ég veit ekki hvað við kjósum að kalla okkur: sósíalista, kommúnista, rauðliða, heimsvaldaandstæðinga, kannski allt þetta eða ekkert af því. Orðin sósíalismi og kommúnismi hafa vissulega í tímans hlaðist margs konar merkingu sem bæði gefur styrk og  þvælist fyrir. En hvað sem baráttan er kölluð: í samræmi við það sem sagði í upphafi máls er hún tvíþætt:
I. Að  taka fullan þátt í stéttabaráttu launafólks og alþýðu, endurvekja samtakamáttinn, efla grasrótarbaráttuna og tengja saman ólíkar grasrætur stéttabaráttunnar og leitast við að stefna þeim í eina átt.
II. Að halda á loft framtíðarsýninni um samfélag þar sem valdi auðsins hefur verið hnekkt.
Í ljósi þessa tvöfalda verkefnis eru samtökin sem við þurfum SAMÖK UM GRASRÓTARBARÁTTU OG BYLTINGU. Í ljósi þessa tvöfalda verkefnis þurfum við einnig tvenns konar málgögn. Við þurfum vettvang sem fjallar um baráttu (og daglegt líf) dagsins í dag og styður við stéttarlega baráttu alþýðu og afhjúpar aðferðafræði auðvaldsins. Jafnframt þurfum við fræðilegan vettvang sem fjallar um langtímastefnu og markmið hreyfingar okkar. 
Þess konar samtök/flokk læt ég mig dreyma um þegar ég ligg andvaka á nóttunni.

No comments:

Post a Comment