Showing posts with label kosningar. Show all posts
Showing posts with label kosningar. Show all posts

Monday, October 23, 2017

Hverflyndi og þagnarbindindi VG í Evrópumálum

(birtist á Neistar.is 21. okt 2017)

Umræða um ESB er algjörlega fjarverandi í kosningaefni Vinstri grænna. Hins vegar: „Alls segj­ast 51 pró­sent stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland.“ (Kjarninn 16 október) Skv. sömu könnun er um 40% þjóðarinnar ESB-sinnuð en 60% andvíg. VG-kjósendur eru sem sagt orðnir mun aðildarsinnaðari en þjóðin. Þó að VG hafi enn á stefnuskrá að Ísland sé betur komið utan ESB hefur flokkurinn VG nokkrum sinnum á síðustu 4 árum ályktað um að hann vilji að Ísland taki aðildarsamningana upp að nýju og „ljúki aðildarviðræðunum“. Í ljósi þessarar stöðu og þróunar hjá VG og í ljósi þess að Samfylking og Viðreisn hafa umsókn á stefnuskrá sinni og í ljósi þessarar stöðu er hættan á að ný miðju-vinstri stjórn reyni að halda áfram aðildarumsókninni. Það sem verður okkur til happs í þessum efnum er núverandi tregða hjá ESB að opna á aðildarviðræður og frekari stækkun að sinni.

Það sem ég vil einkum benda á í þessu samhengi er: ESB-þróun VG sýnir hvað gerist með flokk sem svíkur sjálfan sig. VG fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2009 og fórnaði þá ESB-stefnu sinni snarlega fyrir það samstarf (fórnaði reyndar ýmsum öðrum stefnumálum líka) og lagði inn aðildarumsók án þess að spyrja þjóðina fyrst – vísandi til „lýðræðisástar“ flokksins þar sem þjóðin skyldi fá að tjá sig um lokaniðurstöðuna! Ekki nóg með það, frá þessari stjórnarmyndun tók VG-forustan ESB-andstöðuna algjörlega af dagskrá sinnar orðræðu meðan aðildarsinnar fluttu sitt mál sem óðir væru. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og félagi í flokknum til 2013 skrifaði seinna: „Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.“ ("Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018", Mbl. 26. október 2016)

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn. 

Tuesday, November 15, 2016

Kosningarnar – árangur og lærdómar


(birt á bloggsíðu Alþýðufylkingarinnar 11. nóv 2016)

Það  var óraunhæft var að reikna með að fylgi Alþýðufylkingarinnar teldist í prósentum. 0.3% er kannski í lægra lagi eftir býsna vasklega kosningabaráttu, þó er það ekki afleit byrjun. Það voru 575 manns sem kusu okkur.

Það er vel kunnugt, og auðskilið, að fólk flest kýs taktískt og mjög var fókusað á vegasaltið: stjórnarflokkarnir gegn vinstra bandalagi. Það að greiða R atkvæði þýddi að láta EKKI lóð sitt á umrætt vegasalt – og vera þar með óhjákvæmilega sakaður um að „hjálpa íhaldinu“! Fólkið sem greiddi okkur atkvæði vissi vel að atkvæðið nýttist ekki til þingsæta en vildi væntanlega í staðinn efla Alþýðufylkinguna sem raunverulegan vinstri valkost. Sem sagt nokkuð staðfast fólk sem tók það að byggja flokk til framtíðar fram yfir áhrif á stjórnarmyndunarbrölt hér og nú.

Ég var skeptískur í byrjun og sagði að fyrir byltingarsinnaðan flokk (sem vill steypa auðvaldinu) hefði lítið upp á sig að bjóða fram til þings áður en fólk hefði neitt séð til hans, þ.e.a.s. áður en hann hefði eitthvað gert sig gildandi í stéttabaráttunni. Fyrir því er nokkur reynsla að alþýða fer ekki að treysta róttækum sósíalistum nema hún hafi handfasta reynslu af þeim í stéttabaráttunni. Mælskur málflutningur einn nægir ekki. Það er nefnilega svo að málflutningur byltingarsinna er hreint ekkert meira lokkandi fyrir alþýðu en t.d. málflutningur endurbótasinnaðra krata. M.a.s. getur hann að nokkru virkað fráhrindandi, t.d. tal um nauðsyn harðrar stéttabaráttu, hvað þá tal um nauðsyn byltingar. Það sem á endanum verður að skera úr í málinu og skilja hafrana frá sauðunum er reynsla alþýðunnar í stéttabaráttunni og sá stuðningur sem hún fær þar frá ólíkum stjórnmálaöflum.

Og það var nóg af lokkandi kratískri endurbótastefnu á boðstólnum. VG, Samfylking, Björt framtíð og Dögun eru flokkar sem einkennast af dæmigerðum kratískum áherslum (ásamt mismiklu innslagi af græna litnum m.m.). Og Píratar, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin höfðu að stórum hluta áherslur í sömu átt (hins vegar eru Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn markaðshyggjuflokkar, og að hluta til Framsókn líka). Sem sagt kratisminn var mjög ríkulega í boði, og alls ekki fluttur af minni mælsku en stefna Alþýðufylkingarinnar. Og ef fólk hafði fengið nóg af gömlu vinstri flokkunum (VG, Samfylkingu) var þarna slatti af nýjum og nýlegum valkostum – aðrir en við – til að hlusta á og taka afstöðu til. Íslenskri alþýðu er vorkunn að sjá ekki út úr þessu bleika skýi.

Ég er samt ekki þess sinnis að framboðið hafi verið mistök. Framboðið sem slíkt tókst vel og var framkvæmt af þrótti, meiri þrótti en ég hafði búist við. Róttæk alþýða og róttæklingar almennt vita nú af Alþýðufylkingunni. Kosningarnar ýttu á að Alþýðufylkingin mótaði róttæka stefnu við íslenskar aðstæður (stefnu sem er þó síst hafin yfir gagnrýni) og náði að kynna hana talsvert. Kosningapróf („Stundarinnar“) benda til að stefnan hafi fallið í góðan farveg þó ekki hafi skilað sér í kjörklefann.

Í svona ströggli fæst líka reynsla, það lærist að afhjúpa veilurnar og mótsagnirnar í málflutningi mótherja, ekki síst gerfivinstri- og hentistefnuflokka, t.d. afhjúpa VG í NATO-málum, ESB-málum, umhverfismálum síðustu ríkisstjórnar, afhjúpa tilræði ESB-flokkanna við sjálfstæðið, misskiptingarpólitík Sjálfstæðisflokksins...

Sem sagt: kosningaræður geta verið nytsamlegar en þær breyta ekki samfélaginu. Enda berst sósíalisminn okkur ekki frá Alþingi. Nú þarf að reka stéttabaráttu á grundvelli stefnunnar og sanna sig í starfi.