Showing posts with label hamfrakapítalismi. Show all posts
Showing posts with label hamfrakapítalismi. Show all posts

Thursday, May 7, 2020

Covid-faraldur og kreppa. Skoðun

(birt á Neistum 5. maí 2020)

Ísland er nú á miðjum skala yfir dánartíðni vegna Covid-19 í heiminum. Dánartíðnin á heimsvísu sýnist sambærileg við árstíðabundna inflúensu, en viðbrögðin eru alveg ósambærileg. „Aukaverkanir“ heilbrigðisstefnunnar eru kreppa sem er líkleg til að valda miklu meiri þjáningu en veikin sjálf.


Ísland nálægt heimsmeðaltali
Íslensk stjórnvöld stæra sig af glæstum árangri í baráttunni við heimsfaraldurinn Covid-19. Aðeins 10 eru dánir af veikinni á Íslandi (af Covid-19 og öðrum undirliggjandi sjúkdómum), af 357 þúsund manna þjóð. Dánartíðni vegna sjúkdóma er gjarnan mæld sem sem hlutfall af milljón, og íslenska dánartalan tilsvarar 28 eða 29 af milljón.

Our World in Data er rannsóknarstofnun tengd háskólanum í Oxford og ástundar útreikninga um hnattræn vandamál, fátækt, sjúkdóma, hungur, loftslagsbreytingar, stríð m.m. og byggir á gögnum frá European Centre for Disease Prevention and Control. Hún dekkar m.a. Covid-19 frá degi til dags. Skoðum fyrst nokkrar tölur þaðan.

Dánarhlutfall af milljón íbúum vegna Covid-19, staðan 4. maí 2020:
Belgía : 676
Spánn : 540
Ítalía : 477
Svíþjóð : 265
Írland : 263
Bandaríkin : 204
Danmörk : 83
Þýskaland : 80
Íran : 73
Finnland : 41
Brasilía : 33
Allur heimurinn : 31,5
Ísland : 29
Japan : 4,0
Kína : 3,2
Indland : 0,1
Eþíópía : 0,03

Á heimsvísu þann 4. maí voru dáin af veirunni 245 þúsund af 7,8 milljörðum sem þýðir 31,5 af milljón. Ísland er því mjög nærri heimsmeðaltali með 29, en stendur hins vegar mjög vel í samhengi Vestur-Evrópu þar sem dánarhlutfallið er langhæst í heiminum (ásamt Bandaríkjunum) sem sakir standa. https://ourworldindata.org/grapher/rate-confirmed-cases-vs-rate-confirmed-deaths

Þá er þess að geta að Ísland og Vestur-Evrópa eru komin yfir hápunkt sýkingar meðan hún er enn í sókn í sumum heimshlutum. Því má reikna með að Ísland eigi eftir að færast eitthvað hærra upp fyrir heimsmeðaltalið. En Ísland á langt í hjarðónæmi fyrir veirunni, og það veikir árangurinn. Lægri dánartala hér en í öðrum Vestur-Evrópulöndum tengist m.a. því hvað landið er strjálbýlt.


Samanburður við inflúensu
Það eru sem sagt 245 þúsund staðfest dauðsföll úr COVID-19 í heiminum 4.maí. Sjúkdómurinn er skæður og hraðsmitandi en tölurnar verður samt að skoða í samhengi til að skiljast, t.d. í samanburði við aðra sjúkdóma. Samanburður við árstíðabundna inflúensu er nærtækur.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO gaf í desember 2017 út tölur um árstíðabundnar inflúensur fyrir heiminn í heild síðustu áratugi: „Allt að 650 þúsund manns deyr árlega af öndunarfærasjúkdómum tengdum árstíðabundinni inflúensu,“ segir þar.Í þessari skýrslu WHO segir að tölur um árleg dauðsföll fyrir undangenginn áratug sveiflist á bilinu 290-650 þúsund. Inflúensan er nokkuð breytileg frá ári til árs en samkvæmt þessu er Covid-19 ekki mjög fjarri meðalflensu m.t.t. dauðsfalla það sem af er árinu.

Hugleiðingar um Covid-kreppu

(birtist á Neistum 16. apríl 2020)



                                                    Mynd: Shutterstock
Neistar eru kraftasmár fjölmiðill. Af því Neistar mátu það svo nokkrar fyrstu vikur COVID-tímans að veiki þessi þessi væri fremur heilsufarslegt vandamál en hápólitískt sagði ritið fátt um faraldur þann hinn mikla. En þar sem faraldurinn, og enn frekar viðbrögðin við honum, hefur með undaraskjótum hætti orðið þjóðfélagsmál af slíkri stærðargráðu að yfirskyggir allt annað – og af því að þetta hefðu Neistar mátt láta sér skiljast fyrr – þá gerir ritið sjálfsgagnrýni fyrir (næstum) þögn sína um málið.
Og þar sem Neistar búa ekki yfir (og ekki Alþýðufylkingin heldur) neinni samhæfðri stefnu gagnvart COVID-faraldri eða afleiðingum hans verða hér aðeins settar fram nokkrar lausar athugasemdir, á ábyrgð höfundar, og alls engin alhliða úttekt.


Varð skjótt að djúpri kreppu
Bandaríski seðlabankinn (FED) spáði í marslok allt að 32% atvinnuleysi þar í landi eða 47 milljónum atvinnuleysingja á örðum ársfjórðungi 2020. https://www.cnbc.com/2020/03/30/coronavirus-job-losses-could-total-47-million-unemployment-rate-of-32percent-fed-says.html Til að skilja dramatíkina í þeirri tölu má nefna að atvinnuleysið í Bandaríkjunum á 4. áratugnum – í upphafslandi kreppunnar miklu – varð aldrei meira en um 25%. Haft er nú eftir hagstofum OECD að atvinnustarfsemi í næstum öllum hagkerfum heims dragist saman um 25% á meðan hinar víðtæku rekstrarstöðvanir (lockdown) gilda. Tekjutap í tvo til þrjá mánuði hjá smáfyrirtækjum eða sprotafyrirtækjum leiðir af sér neikvæða spírala gjaldþrota og atvinnuleysis. Og eftir þvísem rekstrarstöðvanir og lokanir dragast á langinn verða slíkar afleiðingar meiri.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu að reikna megi með að 6,3 prósent vinnustunda í heiminum tapist á öðrum ársfjórðungi 2020, sem tilsvarar 195 milljón heilsdagsstörfum. Framkvæmdastjóri ILO, Guy Ryder, segir kórónukreppuna verstu kreppu í 75 ár https://www.ilo.org/global/about-the-ilo/newsroom/news/WCMS_740893/lang--en/index.htm
Samkvæmt svartsýnustu spá sinni fyrir árið 2020 á Íslandi gerir Seðlabankinn ráð fyrir allt að 4,8% samdrætti. Nú þegar hefur Vinnumálastofnun gefið út spá um 14% atvinnuleysi í apríl sem er talsvert hærra hlutfall en var í kreppunni hér á landi á 4. áratug og miklu meira en mesta mánaðaratvinnuleysi eftir fjármálahrunið 2008 (hæst í febrúar 2009, 9,3%). Og nú gerist einmitt það að samfélagslegar lokanir framlengjast með hverri viku sem líður, og neikvæðir spíralar þar með. Að öllum líkindum verður atvinnuleysi í maí verra en í apríl. Og mikið af þessum störfum verður þá varanlega horfið.