Ísland er nú á miðjum skala yfir dánartíðni vegna Covid-19 í heiminum. Dánartíðnin á heimsvísu sýnist sambærileg við árstíðabundna inflúensu, en viðbrögðin eru alveg ósambærileg. „Aukaverkanir“ heilbrigðisstefnunnar eru kreppa sem er líkleg til að valda miklu meiri þjáningu en veikin sjálf.
Ísland nálægt heimsmeðaltali
Íslensk stjórnvöld stæra sig af glæstum árangri í baráttunni við heimsfaraldurinn Covid-19. Aðeins 10 eru dánir af veikinni á Íslandi (af Covid-19 og öðrum undirliggjandi sjúkdómum), af 357 þúsund manna þjóð. Dánartíðni vegna sjúkdóma er gjarnan mæld sem sem hlutfall af milljón, og íslenska dánartalan tilsvarar 28 eða 29 af milljón.
Our World in Data er rannsóknarstofnun tengd háskólanum í Oxford og ástundar útreikninga um hnattræn vandamál, fátækt, sjúkdóma, hungur, loftslagsbreytingar, stríð m.m. og byggir á gögnum frá European Centre for Disease Prevention and Control. Hún dekkar m.a. Covid-19 frá degi til dags. Skoðum fyrst nokkrar tölur þaðan.
Dánarhlutfall af milljón íbúum vegna Covid-19, staðan 4. maí 2020:
Belgía : 676
Spánn : 540
Ítalía : 477
Svíþjóð : 265
Írland : 263
Bandaríkin : 204
Danmörk : 83
Þýskaland : 80
Íran : 73
Finnland : 41
Brasilía : 33
Allur heimurinn : 31,5
Ísland : 29
Japan : 4,0
Kína : 3,2
Indland : 0,1
Eþíópía : 0,03
Á heimsvísu þann 4. maí voru dáin af veirunni 245 þúsund af 7,8 milljörðum sem þýðir 31,5 af milljón. Ísland er því mjög nærri heimsmeðaltali með 29, en stendur hins vegar mjög vel í samhengi Vestur-Evrópu þar sem dánarhlutfallið er langhæst í heiminum (ásamt Bandaríkjunum) sem sakir standa. https://ourworldindata.org/grapher/rate-confirmed-cases-vs-rate-confirmed-deaths
Þá er þess að geta að Ísland og Vestur-Evrópa eru komin yfir hápunkt sýkingar meðan hún er enn í sókn í sumum heimshlutum. Því má reikna með að Ísland eigi eftir að færast eitthvað hærra upp fyrir heimsmeðaltalið. En Ísland á langt í hjarðónæmi fyrir veirunni, og það veikir árangurinn. Lægri dánartala hér en í öðrum Vestur-Evrópulöndum tengist m.a. því hvað landið er strjálbýlt.
Samanburður við inflúensu
Það eru sem sagt 245 þúsund staðfest dauðsföll úr COVID-19 í heiminum 4.maí. Sjúkdómurinn er skæður og hraðsmitandi en tölurnar verður samt að skoða í samhengi til að skiljast, t.d. í samanburði við aðra sjúkdóma. Samanburður við árstíðabundna inflúensu er nærtækur.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO gaf í desember 2017 út tölur um árstíðabundnar inflúensur fyrir heiminn í heild síðustu áratugi: „Allt að 650 þúsund manns deyr árlega af öndunarfærasjúkdómum tengdum árstíðabundinni inflúensu,“ segir þar.Í þessari skýrslu WHO segir að tölur um árleg dauðsföll fyrir undangenginn áratug sveiflist á bilinu 290-650 þúsund. Inflúensan er nokkuð breytileg frá ári til árs en samkvæmt þessu er Covid-19 ekki mjög fjarri meðalflensu m.t.t. dauðsfalla það sem af er árinu.