(birt á Neistum.is 13. ágúst 2020)
Fyrri grein um heimsvaldastefnuna fjallaði einkum um efnahagslegan grundvöll hennar en þessi hér um pólitísku og hernaðarlegu hliðina, baráttuna um áhrifasavæði – og heimsyfirráð. Greinin byggir á fyrirlestri hjá Sósíalistaflokknum 4. júlí sl.
Hernaðarlegt og efnahagslegt stríð
Auðmagnið, „frjálsa framtakið“ og markaðsöflin flæða ekki einfaldlega um löndin af sjálfsdáðum. Þau mæta m.a. mismiklu viðnámi frá þjóðríkjum og keppni frá keppinautum. Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman skrifar reglulega pistla í NYT um hnattvæðingu og alþjóðamál, m.a. í pistli frá því um aldamót, svohljóðandi.
„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem bjó til F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ https://fair.org/media-beat-column/thomas-friedman/
Farvegir fjármagnsins (arðránsins) liggja frá jaðrinum og streyma til kjarnans samkvæmt eðli heimsvaldastefnunnar. Hernaðarleg yfirráð tryggja þessa farvegi og tryggja fjármagnsflæðið í rétta átt. Bandarískar herstöðvar í hundraðatali raðast um heiminn út frá þessu munstri.
Þegar kalda stríðinu lauk héldu ýmsir, jafnvel bandaríska þjóðin, að upp myndu renna friðsamlegir tímar og það myndi draga úr hernaðaruppbyggingu. En bandarísk utanríkisstefna og strategía er ekki ákveðin á þjóðþingi heldur af nokkrum hugveitum elítunnar sem þekkja raunveruleika heimsvaldastefnunnar álíka vel og Vladimir Iljits Lenín gerði. Í mars 1992, þegar Sovétríkin voru nýlega fallin og Persaflóastríðinu – fyrsta meiriháttar stríði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum – var nýlokið settu þeir Dick Cheney varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarráðherra hans fram utanríkisstefnu í ljósi nýjustu stórtíðinda – oft nefnd Wolfowitz kenningin – stefnu sem Bandaríkin hafa staðfastlega fylgt síðan undir breytilegum stjórvöldum: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar... að hindra sérhvert fjandsamlegt vald í því að drottna yfir svæði sem býr yfir auðlindum sem myndu, undir styrkri stjórn, nægja til að búa til hnattrænt vald.“ (Sjá NYT https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html ).
Seríustríðið í Austurlöndum nær sem í bandarískum hernaðarkreðsum er oft nefnt „stríðið langa“ hófst með Persaflóastríðinu u.þ.b. þegar Wolfowitz og Cheney skrifuðu ofanritað. Aðrir miða reyndar upphaf þess við 11. september 2001. „Stríðið langa“ snýst um tilraunir bandarískra heimsvaldasinna til að tryggja full yfirráð sín á efnahagslegu lykilsvæði sem Austurlönd nær eru. Í þeim tilgangi komu bandaríkin upp 125 herstöðvum í Austurlöndum nær á árabilinu 1983-2005. Mesta uppbyggingin var eftir að kalda stríðinu lauk. Til að tryggja full yfirráð þurfti að brjóta niður þvermóðskufull sjálfstæð ríki á svæðinu. „Stríðinu langa“ er stjórnað frá Bandaríkjunum með þátttöku svæðisbundinna bandamanna þeirra og NATO-ríkja. Mikilvægustu vígvellirnir hingað til eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland.
Í ríkjandi orðræðu og fréttaflutningi á Vesturlöndum er „Stríðinu langa“ ýmist lýst sem „stríði gegn hryðjuverkum“, sem „borgarastríði“ eftir trúarbragðalínum eða sem „uppreisn gegn harðstjórn“ sem kalli á „verndarskyldu“ (responisbility to protect) svokallaðs „alþjóðasamfélags“ (sama sem Vestrið). Alvarlegast er að á 21. öldinni hefur heimsvaldasinnum og fjölmiðlum þeirra gengið furðuvel að selja stríð sín í þessum fallegu umbúðum. Andstaðan við stríðsreksturinn frá friðarhreyfingum Vesturlanda og hefðbundnum stríðsandstæðingum til vinstri hefur verið sáralítill. Og víst er að ef slík andstaða kemur fram byggir hún ekki á greiningu á heimsvaldastefnunni heldur á þeirri friðarhyggju að maður skuli ekki drepa mann.
Heimsvaldasinnum hefur almennt gengið illa í „stríðinu langa“ – en stjórnvöld í Washington sýna mikla staðfestu í því að koma óvinum sínum á kné. Bandaríska þingið hefur nýlega lögfest grimmúðlegar refsiaðgerðir gegn bæði Íran og Sýrlandi, lög sem setja útskúfun og sektir á öll fyrirtæki og öll lönd sem eiga viðskipti eða diplómatísk samskipti við þessi útlagaríki. Samskipti við þau þýða stríð við BNA. Viðskiptabannið beinist gegn almenningi þessara landa í von um pólitíska kreppu sem leiði til „valdaskipta“.
Efnahagslegt stríð er stríð með öðrum aðferðum. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir gegn Íran og Sýrlandi eru orðin hluti efnahagsstríði Bandaríkjanna við Kína og bandamann þeirra Rússland. Í tilfelli Kína er samt orsakasamahengið sagt vera öfugt: Ein helstu rökin fyrir refsiaðgerðum gegn Kína er sú ásökun Trump-stjórnarinnar að kínverski tæknirisinn Huawei hefði brotið bandaríska refsilögggjöf gegn Írönum (brotið bandaríska refsilöggjöf!) með því að selja þeim síma. https://neistar.is/greinar/stridid-gegn-syrlandi-efnahagsvopnunum-beitt/
Enduruppskipting eftir fall Sovétríkjanna
Þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna 1915 gerði hann það m.a. til að skýra hreyfiöflin á bak við heimsstyrjöldina sem þá geysaði. Helstu drifkraftana bak við stríðið sá hann annars vegar í KAPÍTALÍSKRI GRÓÐASÓKN og úþensluhneigð sem af henni leiðir og hins vegar í ÓJAFNRI ÞRÓUN FRAMLEIÐSLUAFLANNA sem breytti styrkleikahlutföllum hagkerfa og skóp misræmi milli þeirra og þar með grundvöll stórstyrjalda. Heimsveldin ýmist sækja fram eða hopa á heimsmarkaði og m.t.t. áhrifasvæða – eftir styrkleika sínum. Þetta misræmi sprengir valdarammann sem fyrir er, knýr á um „enduruppskiptingu“. Lenín skrifaði: "Spuningin er: Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendnanna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar.“ ( Heimsvaldastefnan, bls. 130)