Showing posts with label viðskiptastríð. Show all posts
Showing posts with label viðskiptastríð. Show all posts

Friday, July 31, 2020

Stríðið gegn Sýrlandi – efnahagsvopnunum beitt


(birtist á Neistum.is 22. júlí 2020)
 

Stríðið gegn Sýrlandi hefur færst yfir á nýtt skeið. Á meðan dregið hefur úr hernaði heimsvaldassinna gegnum málaliða og trúarlega vígamenn hefur stórlega verið hert á efnahagshernaði gegn hinu stríðshrjáða landi.

RÚV: Rússland og Kína loka á mannúðaraðstoð til Sýrlands!

Í fyrri viku kom RÚV með nokkrar fréttir um að Rússar og Kínverjar hefðu í Öryggisráðinu lokað á innflutning hjálpargagna frá Tyrklandi til Sýrlands (nema gegnum eina landamærastöð) og þeir hefðu í raun „lokað á alla utanaðkomandi mannúðaraðstoð til Sýrlands“. Haft var eftir „ónafngreindum evrópskum diplómata“ að „markmið Rússa – og Sýrlandsstjórnar - sé að herða enn grimmdartök sín á stríðshrjáðri og aðframkominni sýrlenskri þjóð.“ Sjá hér: https://www.ruv.is/frett/2020/07/11/lokad-a-alla-utanadkomandi-mannudaradstod-til-syrlands og hér: https://www.ruv.is/frett/2020/07/09/tillaga-russa-um-ad-takmarka-neydaradstod-felld
Þetta er dæmigert fyrir fréttaflutning RÚV frá Sýrlandi. Í Öryggisráðinu fyrr í júlí var tekist á um innflutning inn í Idlibhérað, eina svæði sem hryðjuverkamenn (RÚV: „uppreisnarmenn“) halda í Sýrlandi, og eina svæðið sem flest verstæn hjálparsamtök hafa starfað á. RÚV talar hins vegar ekki um hjálpargögn, og skort á þeim, til svæða í Sýrlandi þar sem 95% Sýrlendinga býr. Þar ríkir nú aukinn skortur líka – sem hvorki Rússar né Kínverjar bera ábyrgð á.

„Sesars-lög“ gegn Sýrlandi

Fyrir rúmum mánuði síðan, 17 júní, gengu í gildi í Bandaríkjunum ný lög gegn Sýrlandi. Kallast þau Caesar Syria Civilian Protection Act (Sesars-lög um verndun sýrlenskra borgara) og herða á hinu banvæna umsátri um Sýrland. Tilvísunin til „Sesars“ í þessum lögum er ekki til rómverska keisarans heldur vísar til dulnefnis landflótta Sýrlendings sem hefur frá 2014 verið miðlægur í áróðursherferðum gegn Sýrlandi. Hann var sagður hafa lagt fram þúsundir ljósmynda frá líkhúsi í Damaskus þegar Sýrlandsstríð var í hámarki. Myndirnar voru sagðar vera af fólki sem Assad hefði pyntað og drepið. Þær fengu mikla dreifingu, m.a. gegnum Human Rights Watch sem hafa þó síðar viðurkennt að a.m.k. helmingur myndanna sýni sýrlenska hermenn sem lentu í höndum terrorista. Sjá grein The Greyzone um málið: https://thegrayzone.com/2020/06/25/us-qatari-intelligence-deception-produced-the-caesar-sanctions-syria-famine/amp/

Stríðið gegn Sýrlandi hefur færst yfir á nýtt skeið. Sú aðferð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra að styðja við hópa pólitískra vígamanna hefur ekki tekist, svo nú er veðjað á annað sóknarfæri og aðra aðferð, engu síður banvæna: að steypa efnahagnum og hindra enduruppbyggingu landsins. „Látið efnahagslífið kveina!“ (Make the economy screame!) voru skilaboð Nixons til CIA í Chile 1973. Efnahagslegt stríð til að steypa mótþróafullum ríkisstjórnum (sem þjóna ekki bandarískum hagsmunum) er ekki nýtt af hálfu Bandaríkjanna. Efnahagsþvinganir BNA gegn Norður Kóreu hafa staðið í 70 ár, gegn Kúbu í 60 ár, gegn Íran í 40 ár og Venesúela í 20 ár. Í Írak drápu efnahagsþvinganirnar milli stríðanna tveggja, 1991 og 2003, yfir milljón manns, helminginn börn.
Nýju Sesarslögin í Washington eru áþján sem bætast við 9 ára stríð gegn Sýrlandi, 9 ára harðar viðskiptaþvinganir (og minni þvinganir alveg frá 1979), hrun sýrlenska pundsins sem hefur hækkað matvöruverð í Damaskus 20-falt og nú síðast baráttu Sýrlendinga við Kovid 19. Lögin leitast við að banna Sýrlendingum allar bjargir, innflutning á nauðsynjum, meðulum eða orku, fjárfestingar, peningasendingar frá ættingju í útlöndum... Allt með þann yfirlýsta tilgang að „vernda“ þessa þjóð.
Almennur skortur sýrlensku þjóðarinnar, helst sultur, eru vopnin sem heimsvaldasinnar vona að bíti að lokum, með því að herða þumalskrúfuna og bæta nógu lengi á þjáningar þjóðarinnar svo að hún af alvöru snúist gegn ríkisstjórninni. Meðan hún snýst ekki gegn ríkisstjórn landsins skal hún heldur ekki fá að borða!

Sunday, June 2, 2019

Íran, heimsvaldastefnan og „Miðsvæðið“

(birtist á Neistar.is 1. júní 2019)
                                              US-CENTCOM, Miðsvæði bandarísks imperíalisma
„Ef Íran langar til að berjast verða það opinber endalok Írans“, tísti Donald Trump 19. maí sl.“ Viðskiptaþvinganir, stríðshótanir, hernaður eru kjarninn í bandarískri utanríkisstefnu. Undanfarna mánuði hafa spjótin og sviðsljósið beinst að Venesúela og Íran. Bandaríkin senda herflotafylki og kjarnasprengjuberandi flugvélar austur að Persaflóa. En nú bregður svo við að fáir taka undir bandarísku stríðsöskrin gegn Íran. Ekki hinir nánu bandamenn í Evrópu. ESB hefur tekið afstöðu gegn nýjustu refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Íran. Þær beinast ekki aðeins gegn Íran, heldur öllum þeim ríkjum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti við Íran. Sem stendur leiðir þessi stefna til einangrunar Bandaríkjanna. Ekki minnkar árásarhneigðin við það. Málið snýst um heimsvaldastefnu og yfirráðin í Austurlöndum nær. Lítum á baksviðið.

1985-2005, upp spruttu 125 herstöðvar

Bandaríkin hafa sem kunnugt er yfir 800 herstöðvar utanlands. Bandaríska Varnarmálaráuneytið í Pentagon skiptir nú hnettinum okkar í sex bandarísk herstjórnarsvæði: AFRICOM, CENTCOM, EUCOM, INDOPACOM, NORTHCOM, SOUTHCOM.Sjá nánar
 
Það var árið 1983 sem Reaganstjórnin setti á fót „Herstjórn Miðsvæðisins“, CENTCOM, í MacDill-herstöðinni við borgina Tampa í Flórída. Stofnun CENTCOM markaði nýjar áherslur í bandarískri hnattrænni herstjórn eftir hina alvarlegu ósigra Bandaríkjanna í Indó-Kína og Austur-Asíu. Strategistar utanríkisstefnunnar beindu nú sjónum sínum að orkuríkasta svæði heimsins, Miðausturlöndum og því sem USA skilgreindi sem „Miðsvæðið“ (Central Region) en það nær yfir Stór-Miðausturlönd: Miðausturlönd plús Mið-Asíu. Svæðið við og austur af Kaspíahafinu hafði þegar verið skilgreint sem eitt allra olíuríkasta svæði heims. Fróðir menn telja raunar umrætt svæði geyma meirihlutann af vinnanlegum olíuforða heimsins.

Fyrir stofnun CENTCOM 1983 fólst bandarísk „hervernd“ á Miðsvæðinu í mikilli viðverðu bandaríska flotans á svæðinu og herþjálfun og sameiginlegum heræfingum með fylgiríkjum BNA. En frá 1985 og áfram fór á skrið uppbygging herstöðva á svæðinu, fyrst í Sádi-Arabíu, skömmu síðar öðrum Persaflóaríkjum o.s.frv. Írski fræðimaðurinn John Morrissey birti nýlega niðurstöður sínar um þessa uppbyggingu:
„Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum. Á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENTCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Frá stofnun sinni hefur þessi herstjórn haft forustu í öllum meiriháttar bandarískum hernaðaríhlutunum utanlands, frá Olíuskipastríðinu (Tanker War) í Persaflóa á 9. áratug, frá Persaflóastríðinu á 10. áratug til Stríðsins gegn hryðjuverkum á seinni áratugum.“ Sjá nánar

Sem sagt, á tveimur áratugum, 1985-2005, hafði orðið á þessu svæði hreint ótrúleg breyting, án þess að nokkuð bæri á því í heimspressunni. Komandi umskipti voru einna fyrst orðuð opinberlaga í „State of the Union“-ávarpi Jimmy Carter í janúar 1980. Þá lýsti hann yfir að: "ef utanaðkomandi afl nær yfirráðum á Persaflóasvæðinu verður það skoðað sem árás á grundvallarhagsmuni Bandaríkjanna og slíkri árás verður mætt með öllum nauðsynlegum aðferðum, þ.á.m. með herafli." Sjá yfirlýsingu