Tyrkland hefur næststærsta herinn í NATO
"Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi“, segir í ályktun ríkisstjórnarinnar, og þingflokkur VG „fordæmir harðlega innrás tyrkneska hersins inn í Norður-Sýrland“. Full fordæming á innrásinni er auðvitað meira en réttmæt. „Friðarvorið“ sem Erdogan nefnir hernaðaraðgerðina er brot gegn fullveldi Sýrlands, fótum troðinn þjóðaréttur, stórfelldur glæpur gegn friði og mannúð. Árásin á Kúrda mælist illa fyrir víða um heim, sérstaklega í Evrópu.
Margir þeir aðilar sem fordæma innrásina „harma“ samtímis „brottköllun“ Trumps á bandarískum hersveitum við norðurlandamæri Sýrlands og boðað frekara brotthvarf herja þaðan. Margir þeir aðilar sem mótmæla nú, m.a. stjórnvöld Íslands, studdu loftskeytaárásirnar á Damaskus í fyrra og hafa aldrei mótmælt neinu í hernaðinum gegn Sýrlandi öðru en árásunum á Kúrda.
Staðan í Norður-Sýrlandi er ekkert einföld. Fréttablaðið slær upp dag eftir dag: „Sýrlenski stjórnarherinn berst með Tyrkjum gegn Kúrdum.“ Það er mikill misskilningur. Ekki er um að ræða Sýrlandsher heldur leifar af hryðjuverkaher á snærum Tyrkja sem áður kallaði sig Free Syrian Army en nú „Syrian National Army“, her sem Erdógan sigar nú gegn Kúrdum. Þetta er reyndar talandi dæmi um þann fréttaflutning af Sýrlandsstríðinu sem Fréttablaðið (og reyndar helstu fjölmiðlar landsins) hafa boðið okkur upp á. Fréttablaðið er aðallega auglýsinga- og afritunarstofa en er þarna „lost in translation“.
Innrás Tyrkja gegn Kúrdum er aðeins einn millikafli í stríðinu gegn Sýrlandi. Aðalgerendur í því stríði eru Bandaríkin, NATO-veldi (Bretland, Frakkland einkum) og svæðisbundnir bandamenn þeirra, Tyrkir, Sádar, Ísrael. Sýrlandsstríðið er auk þess þáttur í umsátrinu um Íran.
Sýrlandsstríðið – stríð með nýjum aðferðum
Sýrlandsstríðið átti frá byrjun að verða allt öðruvísi en Íraksstríðið sem var óvinsælt stríð af almenningi, dýrt (m.a. í bandarískum mannslífum) og sóðalegt. Slík opin og bein innrás var nú álitin gamaldags. Hún yrði að vera óbein, staðgengilsstríð, leynistríð. Fótgöngulið innrásarinnar í Sýrland voru málaliðar og trúarvígamenn sem fjölmiðlar okkar hafa alltaf kallað „uppreisnarmenn“. Ísland hefur stutt þessa „uppreisn“ frá upphafi.
Í upphafi voru áformuð skjót „valdaskipti“ í Damaskus (Assad must go!) í beinu framhaldi af vel heppnaðri „valdaskiptaaðgerð“ í Líbíu, en Sýrlandsstjórn reyndist alls ekki völt í sessi. Þessi plön breyttust síðan í „plan B“, áætlun um sundurlimun landsins (eftir trúar- og þjóðernalínum). En þá fóru að koma fram brestir í samstöðu árásaraflanna, einkum þegar Bandaríkin fundu sína nytsamlegustu fótgönguliða í hersveitum aðskilnaðarsinnaðra Kúrda. Fyrir Tyrklandsstjórn var það breyting til hins verra ef uppskipting Sýrlands myndi þýða styrkingu „kúrdískra hryðjuverkamanna“!