Showing posts with label litabyltingar. Show all posts
Showing posts with label litabyltingar. Show all posts

Sunday, April 3, 2016

„Arabíska vorið“ í Sýrlandi

(Birt á fridur.is 1. apríl 2016)

„Átökin í Sýrlandi hófust í apríl 2011 þegar friðsöm mótmæli að fyrirmynd byltinganna í Egyptalandi og Túnis breyttust í mótmæli gegn einræðisstjórn landsins. Ríkisstjórnin brást við eins og sönn illmenni gera. Fyrst sáu öryggissveitir um að taka aðgerðarsinna af lífi… Því næst hófu hersveitir að skjóta á mótmælendur og það endaði með að mótmælendurnir skutu á móti….“ (eyjan.pressan.is 2. sept 2013)
Þessa tuggu (í fáeinum tilbrigðum) hafa íslenskir fjölmiðlar tuggið nær daglega eins og kýr jórtrandi makindalega á sínum bás í vestræna fjölmiðlafjósinu. Þetta er hin staðlaða opinbera saga sem okkur hefur verið sögð allt frá 2011. Og á henni byggir afstaða NATO-ríkja og Vesturlanda til þessa stríðs: meginorsök þess er harðstjórn Assads og þess vegna verður ekki friður nema til komi valdaskipti, Assadstjórnin fari frá.
Svona einföld var atburðarásin í Sýrlandi þó ekki og að stærstum hluta er sagan lygi. Mótmæli hófust vissulega í landinu í mars 2011, undir áhrifum “arabíska vorsins”. En undurfljótt breyttust þau í innanlandsstríð, með miklu mannfalli á bága bóga. Það er mikilvægt að átta sig á í hvaða röð hlutirnir gerðust í kviknun og þróun þessa stríðs, m.a. átta sig á þætti „arabíska vorsins“ í því.
Vestræn afskipti hófust fyrir 2011
Ísrael á landamæri að Sýrlandi (við hinar hernumdu Gólanhæðir) og fylgist því betur en flestir aðrir með málum í nágrannalandinu. Í ísraelskum leyniþjónustuskjölum frá ágúst 2011 kemur fram að NATO og Tyrkland voru þá að hefja vopnaflutninga til uppreisnarinnar og liðssöfnun trúarvígamanna í múslimalöndum til að berjast gegn Assad, en ætluðu þó að beita annarri taktík en í Líbíu:
“NATO headquarters in Brussels and the Turkish high command are meanwhile drawing up plans for their first military step in Syria, which is to arm the rebels with weapons for combating the tanks and helicopters spearheading the Assad regime’s crackdown on dissent. Instead of repeating the Libyan model of air strikes, NATO strategists are thinking more in terms of pouring large quantities of anti-tank and anti-air rockets, mortars and heavy machine guns into the protest centers for beating back the government armored forces … the arms would be trucked into Syria under Turkish military guard and transferred to rebel leaders at pre-arranged rendezvous… Also discussed in Brussels and Ankara, our sources report, is a campaign to enlist thousands of Muslim volunteers in Middle East countries and the Muslim world to fight alongside the Syrian rebels. The Turkish army would house these volunteers, train them and secure their passage into Syria.”

Saturday, December 20, 2014

Ný skref í uppgjörinu við Rússa

(birtist á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 19. des. 2014)

Í USA hafa þingið og fulltrúadeildin samþykkt lagafrumvarp, "Ukraine Freedom Support Act". Þegar Obama hefur undirritað það er stórt skerf stigið í átt til stríðs, því lögin hljóða upp á umfangsmikla vopnaaðstoð Bandaríkjanna við úkraínska herinn ásamt þjálfun og hernaðarráðgjöfum. Með lögunum skuldbinda Bandaríkin sig ennfremur sig til að tryggja Úkraínu, Georgíu og Moldóvu stöðu sem "major non-NATO ally". Sú staða gefur eins konar aukaaðild að NATO fyrir lönd með mikla hernaðarlega þýðingu, og eykur mjög gagnkvæmar skuldbindingar þessara ríkja og NATO. Atburðarásin allt árið 2014 bendir eindregið til að USA (með bandamennina í eftirdragi) hafi ákveðið að taka uppgjör við Rússa NÚNA. Lagafrumvarpið má lesa hér

Refsiaðgerðirnar og efnahagshernaðurinn gegn Rússum, þ.á.m. verðfelling Sáda á olíunni, er farinn að bíta. Rúblan hríðfellur svo nú fer að sverfa að almenningi. Verðbólgan fer upp í 10% og hörgull er á æ fleiri nauðsynjavörum vegna viðskiptahafta. Pútín talar opinskátt um það í ræðum að hugsun USA og NATO-veldanna með refsiaðgerðunum sé að valda ólgu meðal almennings og litabyltingu í stíl við Júgóslavíu og Úkraínu. Það mun vera raunsætt mat.

Thursday, April 10, 2014

Sókn Pútíns sem nauðvörn

Nú er hafið efnahagslegt stríð gegn Rússlandi. Viðskiptaþvinganir og diplómatísk einangrun. Bandaríkin eiga frumkvæðið. Evrópuríkin fylgja á eftir í halarófu – að vanda. Ísland veitir virkan stuðning – eins og venjulega þegar ófriður er í boði. Ástæðan er íhlutun Rússlands í málefni Úkraínu. Nú eru stóru vopnin skekin.
Ásakanir Rússa um vestræna íhlutun í Úkraínu, tal Pútíns um að Bandaríkin og Vesturveldin hafi staðið á bak við valdaskiptin í Úkraínu og þar með umsátur um Rússland eru hins vegar afgreidd í vestrænni pressu sem samsæriskenning. Hlustið bara á eða lesið íslensku pressuna. Vestræn íhlutun er þar aldrei til umræðu. Óheillavænleg þróun mála á Krím er sprottin af valdahroka Pútíns, punktur og basta. Pútín er æ oní æ líkt við Hitler. Fyrstur til þess varð Zbigniew Brzezinski, gamli utanríkisráðgjafi Carters forseta sem enn hefur háa stjörnu og sem Obama kallar „one of our most outstanding thinkers“. Daginn eftir fylgdu bæði Hillary Clinton og John McCain í kjölfarið og brúkuðu Hitlerstimpilinn á Pútín. Garry Kasparov tönglaðist á því í viðtali við Þóru Arnórsdóttur og síðan hefur hver étið það upp eftir öðrum.

Nú skal horft í austur og rök færð fyrir því að vestræn íhlutun sé einmitt afgerðandi í Úkraínu og að umsátrið um Rússland sé raunverulegt.