Showing posts with label Reykjavíkurborg. Show all posts
Showing posts with label Reykjavíkurborg. Show all posts

Thursday, May 7, 2020

Sigur Eflingar

(birtist á Neistum 13. mars 2020)

„Við lítum á þessa umframhækkun sem viðurkenningu á okkar málflutningi og kröfum um að sögulega vanmetin kvennastörf þurfi einfaldlega á þessari leiðréttingu að halda." Í viðtali við RÚV var Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingarkona fegin og ánægð eftir undirritun kjarasamnings Eflingar – stéttarfélags og Reykjavíkurborgar þann 10. mars, eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna.

Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Sem er umtalsverður ávinningur miðað við þau 90 þúsund á lægstu laun sem um var samið í Lífskjarasamningunum. Efling hélt því alla tíð stíft fram að þörf væri á „sérstakri kjaraleiðréttingu vegna lágra heildarlauna, álags og kynbundins misréttis sem Eflingarfélagar hjá borginni búa við.“

Auk þessarar hækkunar var samið um styttingu vinnuvikunnar í takt við það sem gert hefur verið hjá öðrum hópum undanfarið. Vinnuvika vaktavinnufólks fer niður í 36 tíma og 32 tíma hjá þeim sem ganga vaktir allan sólarhringinn, leikskólastarfsfólki eru tryggðir 10 yfirvinnutímar á mánuði í formi sérgreiðslu, auk þess sem námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launum og fleira mætti telja. Samningurinn nær til um 1.850 starfsmanna borgarinnar.