(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 8. desember 2012
Hvað skyldi ráða gerðum Nóbelsnefndar norska Stórþingsins?
Nú á mánudaginn veitir nefndin Evrópusambandinu friðarverðlaunin þremur árum
eftir að hafa hengt orðuna á Barak Obama.
Erfitt er að mótmæla þeirri fullyrðingu að allar helstu
styrjaldir sem geysað hafa í heiminum síðustu tvo áratugi séu afleiðingar af
hernaðaríhlutunum Bandaríkjanna og NATO. Og hvað er NATO? Jú, hernaðarbandalag
byggt á tveimur súlum, sameiginlegt bandalag Bandaríkjanna og Evrópuríkja,
fyrst og fremst ESB-ríkja. Fyrir tveimur áratugum féllu Sovétríkin, árið 1991.
Þá blésu Bandaríkin og Vesturblokkin til hnattrænnar sóknar og NATO var nokkru
síðar gert að hnattrænu herbandalagi. Stiklum lauslega á þessum styrjaldaferli – og höfum friðarverðlaunin í huga.
a) Bandaríkin höfðu frumkvæði að tveimur
árásarstyrjöldum gegn Júgóslavíu á
10 áratugnum. Ekki tókst að koma þeim íhlutunum í kring á vegum Sameinuðu
þjóðanna, en í staðinn var ráðist á landið undir merkjum NATO. Bandaríkin unnu verkið en öll
ESB-veldin stóðu þétt að baki og studdu gjörninginn.
b) Árið 2001 réðust Bandaríkin á Afganistan.
Innrásin var sögð liður í stríði þeirra „gegn hryðjuverkum“. Bandaríkjaher bar
uppi innrásina frá byrjun en frá 2003 hefur meginheraflinn formlega verið undir
stjórn NATO, enda þótt stríðið sé
inni í miðri Asíu. Þetta var fyrsti stríðsrekstur NATO eftir að það
hnattvæddist. Auk Bandaríkjanna eru það fyrst og fremst Evrópuríki sem berjast
í Afganistan, m.a. öll aðildarríki ESB. Þátttaka ríkja utan N-Ameríku og Evrópu
er hverfandi.
c) Stríðið í Írak sem hófst 2003 er viss
undantekning. Þýskaland og Frakkland tóku afstöðu gegn þeirri innrás nema
Öryggisráðið legði blessun þar á. Ekkert slíkt skilyrði hafði verið sett fyrir
stríðsrekstri í Júgóslavíu, svo málið snérist ekki um hlýðni við alþjóðalög. Að
nokkru leyti brugðust Evrópu-stórveldin svona við af því innrásin skaðaði
þeirra hagsmuni, þau höfðu ríka olíuhagsmuni í Írak og góð sambönd við Saddam
Hússein. En öðru fremur voru þetta mótmæli gegn Bush-kenningunni (frá haustinu
2002) um að Bandaríkin áskiluðu sér rétt til að fara í stríð á eigin spýtur –
ekki bara án samþykkis SÞ heldur líka án samþykkis bandamannanna í NATO – gegn
hvaða landi sem þau skilgreindu sem ógnun. Með þessu voru ESB-veldin niðurlægð
og það olli klofningi. Klofningurinn veikti innrásina pólitískt og
hernaðarlega. Bandaríkin létu það ekki henda sig aftur og kappkostuðu að efla
samstöðuna um utanríkisstefnu sína, m.a. um hernaðinn í Afganistan. Og hvert
skyldi leitað eftir samstöðu nema til nánustu bandamannanna – NATO-veldanna í
Evrópu.
d) Árásin á Líbíu þótti til fyrirmyndar.
Málatilbúnaðurinn fyrir „mannúðarinnrás“ þótti vel borinn á borð í vestrænu
pressunni, enda var samstaðan meðal vestrænna bandamanna órofa. Til að sjá voru
t.d. Frakkar og Bretar ennþá ákafari um árás en Bandaríkin. Samstaðan innan
NATO var breið, ráðist var úr lofti og fáir innrásarmenn féllu. Bingó!
e) Taktík Vesturveldanna gegn Sýrlandi byggist
að svo komnu máli á því að styðja uppreisn í landinu og heyja stríð í gegnum
staðgengla: íslamista frá arabalöndum, vopnaða og styrkta utanlands frá, gegnum
fylgiríki Vestsurvelda meðal araba, einkum Sádi-Arabíu og Katar og svo gegnum
NATO-landið Tyrkland sem fær nú mikla vopnaaðstoð frá NATO. Síðan er allri sök
komið á Sýrlandsstjórn og krafist „valdaskipta“. Aðgerðirnar í Sýrlandi – sem
og vopnaskakið gegn Íran – beinast mjög opinskátt gegn keppinautum
Vesturveldanna í taflinu um heimsyfirráð, Kína og Rússlandi, nokkuð sem
greinilega virkar vel til að sameina stórveldi Vesturlanda.
Klisjan um að ESB sé mótvægi við Bandaríkin er fölsk í gegn.
Meginþáttur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna er að beita pólitísku og hernaðarlegu valdi þau ríki sem ekki
opna sig fyrir hnattvæðingu vestræns auðmagns, og/eða eru í vitlausu liði.
Stefna ESB-veldanna er einfaldlega að standa fast við hlið stóra bróður.
Bandaríkin þurfa bandamenn í taflinu um heimsyfirráð, ekki síst til að borga
hinn dýra hernað. Sá mikilvægasti er ESB. En stuðningur Bandaríkjanna er þó ESB
sínu mikilvægari, enda ræður bandaríska vígvélin úrslitum á alþjóðavettvangi,
enn sem áður.
Nóbelsnefnd norska Stórþingsins keppist við að rýja sig
ærunni. Orðan hengd fyrst á Obama, svo á ESB. Til að þrenningin verði heilög er
fullkomlega eðlilegt hengja hana næst á NATO.
No comments:
Post a Comment