Þýddur er hér hluti af stærri grein eftir John Bellamy Foster úr marxíska tímaritinu Monthly Review, 3. hefti 2017, „Revolution and Counterrevolution, 1917–2017“. Þennan kafla um herstjórnarlist heimsvaldasinna og gagnbyltingar undangengin 100 ár er skynsamlegt að lesa í framhaldi bókar Leníns, Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins. Þýðandi
Það var heimsvaldastefnan – ekki í hefðbundnu merkingunni sem spannar alla sögu nýlendustefnunnar [ætti þá frekar að skrifast „heimsveldisstefna“ Þ.H.] heldur tengd einokunarstsigi kapítalismans, eins og V.I. Lenín notaði hugtakið – sem myndaði differentia specifica eða ákvarðandi sérkenni kapítalisma 20. aldarinnar og ákvarðaði þar með skilyrði jafnt byltingar sem gagnbyltingar. Strax á seinni hluta 19. aldar hafði keppnin um nýlendurnar – sem hafði að miklu leyti mótað átökin innan Evrópu allt frá 17. öld – breyst í baráttu nýs eðlis: baráttu á milli ríkja ásamt auðhringum þeirra, ekki fyrir ákveðnum heimsveldissvæðum heldur fyrir hnattrænum yfirráðum í sífellt samþættaðra heimsvaldakerfi.1 Síðan þá hafa bylting og gagnbylting verið samtengdar í kerfinu sem heild. Allar byltingaröldur eftir það – oftast sprottnar upp á jaðarsvæðum þar sem kúgunin er harkalegust, magnaðar af arðráni heimsveldanna – hafa verið byltingar gegn heimsvaldastefnunni og hafa átt í höggi við heimsvaldasinnaða gagnbyltingu, skipulagða af kjarnríkjum heimskapítalismans.2 Það flækti þessa stöðu enn frekar að forréttindageiri verkalýðsstéttarinnar í þróuðum auðvaldsríkjum sýndist þéna óbeint á arðinum sem fenginn var frá jaðarsvæðunum og myndaði „verkalýðsaðal“, fyrirbæri sem Friedrich Engels benti á og seinna var skilgreint fræðilega af Lenín í Heimsvaldastefnunni, hæsta stigi auðvaldsins.3