Showing posts with label Sameinuðu þjóðirnar. Show all posts
Showing posts with label Sameinuðu þjóðirnar. Show all posts

Sunday, January 14, 2018

Rætur Kóreudeilunnar

(birtist á neistar.is 13. janúar 2017)

Samkvæmt boðskap vestrænu heilaþvottavélarinnar, sem endurvarpað er samviskusamlega af íslensku fréttastofunum, eru stjórnvöld Norður Kóreu stórhættuleg umheiminum fyrir brjálsemi sakir. Þó eru þau, eftir að þau misstu bakhjarl sinn, heimskommúnismann, fyrst og fremst til að hlæja að, skv. sama boðskap. Samt er það svo að það er ekki brjálsemi og árásarhneigð Norður-kóreskra leiðtoga sem veldur spennunni þar. Ekki heldur leifar af „gagnkvæmri tortryggni“ Kalda stríðsins. Heldur hefur meginorsökin alla tíð verið botnlaus yfirgangur forysturíkis Vestursins gagnvart þessu litla landi, Norður-Kóreu, og Kóreu allri.

Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga
Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga

Til að skilja ástandið á Kóreuskaga er óhjákvæmilegt að seilast aftur í og aftur fyrir Kóreustríðið (1950-53). Jaltasamningurinn undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari gerði ráð fyrir sameiginlegu hernámi Kóreu af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna meðan hernám Japans væri upprætt. Kórea hafði þá verið undir grimmdarlegu japönsku hernámi frá 1910. En þegar Japanir höfðu gefist upp og áður en til hernáms landsins kom hafði þjóðfrelsishreyfing Kóreu komið upp ákveðnu stjórnkerfi sem borið var uppi af sk. „alþýðunefndum“ og miðstjórn þeirra, og stefndi á fullt sjálfstæði.
Sovétmenn sendu her inn í landið frá norðri en Bandaríkin sendu skömmu síðar miklu stærri her inn að sunnan og hernámu beinlínis suðurhluta landsins. Bandarísk herstjórn beitti strax yfirdrifnum herstyrk af því hún óttaðist hið pólitíska ástand innan landsins, nefnilega mikinn styrkleika kommúnista og eindreginna þjóðernis- og andheimsvaldasinna í þjóðfrelsishreyfingunni, ástand sem einkenndi flest hernámssvæði Japana í Austur-Asíu í stríðslok (eins og reyndar líka hernámssvæði Þjóðverja í Evrópu). Það gilti m.a. um Kóreu, allt Indó-Kína, Filipseyjar og ekki síst Kína.

Tuesday, March 18, 2014

„Verndarskyldan“ – óskabúningur íhlutunarstefnunnar

Birtist á Attac.org 14. febr. 2014

 

 

Spegillinn á Þrettándanum

Þrettándadag jóla, 6. janúar, hafði Spegillinn í Ríkisútvarpinu (Pálmi Jónasson) innslag um friðar- og ófriðarhorfur í byrjun árs 2014. Farið var yfir helstu ófriðarsvæði á hnettinum nú um stundir. Innslagið var byggt á bandaríska tímaritinu „Foreign Policy“. Það gaf glögga mynd af helstu átakasvæðum í dag, og horfurnar framundan sýndust vissulega ekki bjartar. Hins vegar: Eins og títt er á þessum miðli, og ÖLLUM íslenskum fréttastofum, var sjónarhornið amerískt, myndin var FRÉTTAFRÆÐANDI en SKILNINGSHAMLANDI OG FÖLSK.
Efst á lista ófriðarlandanna, las Pálmi Jónasson, eru Sýrland og einnig Líbanon þar sem Sýrlandsstríðið flæðir yfir landamærin. „Assad forseti virðist fastari í sessi eftir að ekkert varð úr hernaðaríhlutun Bandaríkjanna. Hann hefur að einhverju leyti náð að spila á ótta Vesturveldanna við uppgang íslamskra hryðjuverkamanna þótt hann hafi átt stóran þátt í uppgangi þeirra með grimmdarverkum sínum. Uppreisnarmenn eru margklofnir og helstu stuðningsríki þeirra ósamstíga.“ (þetta má skilja sem svo að vandi Sýrlands sé hinn grimmi Assad, skortur á bandarískri íhlutun og klofningur andstöðunnar). Í Írak reyna súnnítar að rísa upp gegn sía-stjórnvöldum og Al Kaída hefur styrkst, og „óttast er að Íran láti þar enn meira til sín taka með ófyrirséðum afleiðingum“. Í Líbíu virðist allt vera að sjóða upp úr og „þjóðin er margklofin milli íslamista og umbótasinna, þéttbýlis og dreifbýlis o.s.frv. Vopnaðir hópar hafa tekið stjórnina í eigin hendur og allt flæðir í vopnum.“ Afganistan var afgreitt með stuttri setningu: „Og ekki skal gleyma Afganistan.“
Sú mynd sem yfirlitið gaf var að yfirstandandi stríðsátök séu til komin fyrir tilverknað andstæðra trúarhópa eða þjóða/þjóðabrota og vegna harðstjórnar einstakra stjórnvalda gegn eigin þegnum.. Augljósar lygar voru ekki í þættinum en „Hálfsafsannleikur oftast er/ óhrekjandi lygi“ sagði skáldið. Fréttayfirlitið í Speglinum er hversdagslegur fréttaflutningur, ekki gróft tilfelli en dæmigert. Það þarf einbeittan vilja til að fjalla um áðurnefnd helstu stríðssvæði heimsins ÁN þess að TENGJA ÁSTANDIÐ NEITT UNDANGENGNUM ÍHLUTUNUM STÓRVELDA. Nema hvað nefndur var SKORTUR Á ÍHLUTUN Bandaríkjanna í Sýrlandi.
Mín fullyrðing er hins vegar sú að MEGINORSÖK ALLRA STRÍÐSÁTAKA Í HEIMINUM í dag séu yfirgangur og undirróður heimsvaldasinna. Að baki átökunum býr ALLTAF gróðadrifin heimsvaldastefna voldugra efnahagsblokka, og langfremst í þeim flokki eru Bandaríkin og NATO-veldin sem jafnan tala um sig sem „alþjóðasamfélagið.“

Síbreytilegur búningur heimsvaldastefnunnar

Hugmyndaleg yfirbygging heimsvaldastefnunnar er aðeins breytileg í tímans rás. Klassískri nýlendustefnu 19. aldar, kapphlaupi Evrópumanna um Afríku og Asíu fylgdu opinská herraþjóðaviðhorf. Sú kynþáttahyggja hafði þó oftar en ekki „göfugar“ yfirskriftir eins og „kristniboð“ og „siðun“ villimanna og óæðri kynstofna m.m. Herraþjóðaviðhorf Evrópubúa náðu ákveðnu hámarki í nasismanum á árunum 1930-45. Jafnframt náði nasisminn með framgöngu sinni að ófrægja kynþáttahyggjuna svo mjög að hún átti sér ekki viðreisnar von í óbreyttri mynd. Eftir Nürnberg varð hún óbrúklegur búningur.
Framganga nasismans leiddi einnig til stofnunar Sameinuðu þjóðanna, og í stofnsáttmála þeirra frá 1945 fjölluðu fyrstu greinarnar um „jafnan rétt og sjálfsákvörðunarrétt þjóða“ og bann við því að ríki beittu önnur ríki vopnavaldi (nema í sjálfsvörn).
Hugmyndafræði vestrænna heimsvaldasinna á tíma kalda stríðsins (eftir 1945) – undir ótvíræðri forustu Bandaríkja N-Ameríku – byggði öðru fremur á tvennu: Annars vegar á því sem kalla má hnattvæðingarreglu nr. eitt, þ.e.a.s. hugmyndir frjálshyggjunnar um frjálst flæði fjármagns milli landa og heimsálfa (stýrt af Bretton Woods stofnunum og síðar Heimsviðskiptastofnuninni). Þar ræðst straumstefna peninganna af styrkleikahlutföllum efnahagseininganna. Hinn meginþáttur hugmyndafræðinnar var andkommúnismi. Hann réttlætti víðtækt hernaðarkerfi heimsvaldasinna um lönd og álfur.
Eftir fall múrsins og Sovétríkjanna kringum 1990 höfðu Bandaríkin og bandamenn þeirra einstæða yfirráðastöðu á heimsvísu, heimurinn varð „einpóla“. En þar með var líka farin ein helsta forsendan fyrir þeirri heimsmynd heimsvaldastefnunnar sem ríkt hafði. Hugveitur heimsvaldasinna þurftu nú að leggjast í dýpri pælingar og finna hugmyndalega yfirbyggingu yfir það sem þeir nefndu new world order. Stóra vandamálið fyrir USA og aðra vestræna heimsvaldasinna var að skapa sér RÉTTLÆTINGU FYRIR VIRKRI ÍHLUTANASTEFNU og fyrir hernaðarbröltinu sem tryggði arðránskerfið mikla á heimsvísu.
Heimsmyndin eftir 1990 hlaut að verða ofurlítið margbrotnari en hinar fyrri. Skjótt eftir lok kalda stríðsins smíðaði einn helsti ríkishugmyndafræðingur Bandaríkjanna, starfsbróðir Kissingers við Harvard-háskóla, stjórnmálafræðingurinn Samuel Huntington, kenningu sem réttlætti áframhaldandi hernaðarhyggju heimsvaldasinna. „Næsta stríð, ef það kemur, verður átök milli siðmenninga“, sagði hann. Í Asíu eiga Vesturlönd í höggi við siðmenningar konfúsíanismans og hindúismans, en aðalandstæðingur Vesturlanda á heimsvísu er þó íslam, útskýrði Huntington. Þetta mikilvægi íslams verður varla skýrt með sérstöku eðli íslamskrar menningar, miklu fremur af því að íslömsk svæði og OLÍURÍK svæði er nokkuð sem fer mjög saman. Og eftir fall Sovétríkjanna lögðu vestrænir heimsvaldasinnar einmitt áherslu á að tryggja yfirráð sín í Miðausturlöndum, þar sem íslam er ríkjandi trú og menning.
Sjá má að ofanskráð greining „Foreign Policy“ á heimsástandinu nú um stundir er í góðum samhljómi við þessar tesur Huntingtons. Engan skyldi undra, því tímarit þetta var á sínum tíma (1970) stofnað einmitt af Samuel Huntington sjálfum (ásamt Warren D. Manshel).
Heimurinn varð sem sagt einpóla eftir 1990. Ofurvald Bandaríkjanna og bandamanna þeirra var slíkt að þau réðu flestu á alþjóðavettvangi, gátu t.d. notað SÞ í eigin þágu án teljandi mótstöðu og annað eftir því. Samkeppni um auðlindir og markað hélt þó áfram. Bandaríkin voru EIN Í FYRSTU DEILD en þau kepptu stundum um áhrifasvæði við lið úr Annarri deild eins og t.d. gömlu evrópsku stórveldin, Frakkland og Þýskaland. Dæmi um það var í aðdraganda seinna Íraksstríðsins og einnig í Afríku neðan Sahara, Kongó, Rúanda m.m. eins og brátt mun sagt verða. Gamla nýlenduveldið Bretland hefur hins vegar fyrir löngu sætt sig við að vera meðhjálpari í heimsvaldaathöfnum Bandaríkjanna. Upp úr aldamótunum fór síðan nýtt framstormandi auðvaldsríki, Kína, að banka á í keppninni í Fyrstu deild. Það olli því í fyrsta lagi að Vesturveldin snéru bökum þéttar saman en áður og í öðru lagi urðu þau HERSKÁRRI en fyrr.
Snúum þá aftur að hinni hugmyndalegu yfirbyggingu. Segja má að vestræn heimsvaldastefna og hernaðarstefna eftir 1990 hafi sótt fram undir tveimur fánum, a) fána sem á stendur skrifað „hryðjuverkaógn“ og b) fána sem á stendur „verndarskylda“.

Nýhægri heimsvaldastefna gegn „hryðjuverkaógn“

Hugmyndafræðin merkt „hryðjuverkaógn“ finnur helstu ógn samtímans í samsæri íslamskra hryðjuverkamanna. Sú hugmynd samræmist vel áðurnefndum kenningum Huntingtons um íslam sem helsta andstæðing Vesturlanda. Hryðjuverkagrýlan smáfærðist í aukana á 10. áratugnum. Með 11. september 2001 skópu svo vestrænir heimsvaldasinnar sér miklu herskárra hugmyndafræðilegt vopnabúr en áður. Bush yngri og hans menn hófu strax í kjölfarið „stríð gegn hryðjuverkum“, settu fram stefnu um „fyrirbyggjandi stríð“, gerðu lista yfir „öxulveldi hins illa“, og samdrætti í vestrænum herjum og bandarískum herstöðvum eftir lok kalda stríðsins var skjótlega snúið við í átt til nýrrar hernaðaruppbyggingar (árið 20013 voru bandarískar herstöðvar utanlands um 900 í 160 löndum). Óhætt er að kenna þessa hugmyndafræði við NÝHÆGRI HEIMSVALDASTEFNU: Sá sem ekki er með mér er á móti mér. Stefnan er bandarísk að uppruna en var óðara sett á verkefnaskrá NATO líka. Undir þessum merkjum hófst stríðið í Afganistan, og augljós undirbúningur undir seinna Íraksstríðið hófst einnig strax eftir 11. september.
Sá herskái íslamismi sem gjarnan fjandskapast við Vesturlönd er ekki allur sem hann er séður. Al Kaída er auðvitað aðeins einn, en mikilvægur, hluti þeirrar flokkaflóru. Það er hreyfing af grein salafista á meginstofni sunnímúslima. Flokkur þessi varð til í leynilegum en afgerandi tengslum við bandaríska leyniþjónustu í stríði Afgana við Sovétmenn á 9. áratugnum. Síðan þá hafa samtök þeirra verið gegnumsmogin af flugumönnum og komið afar víða við. Mikilvægur millihlekkur í samskiptum CIA við al Kaída eru Sádi-Arabar (sem einnig tilheyra súnnívæng íslam).
Meginhlutverk al Kaída og annarra jíhadista (herskárra íslamista) fyrir vestræna heimsvaldasinna var lengi að skapa þeim réttlætingu til íhlutana, eins og Afganistan er skóladæmi um. En vopnaðir jíhadistar hafa fjölþætt notagildi. Eftir að barátta Vesturveldanna gegn Íran hefur fengið meiri forgang hafa þau beitt íslamistunum fyrir sig á beinni hátt, nefnilega í því að kynda undir trúardeilum í löndum þar sem þeir vinna að „valdaskiptum“. Árið 2007 skrifaði Seymour Hersh grein um þetta sem hann nefndi STEFNUBREYTINGUNA„Bandaríkin taka þátt í leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra, Sýrlandi. Hliðarafurð þeirrar starfsemi er að styrkja hópa öfgasinnaðra súnníta sem hafa herskáa trúarafstöðu, eru fjandsamlegir Bandaríkjunum og hliðhollir al Kaída.“ Þróunin eftir 2007 sýnir æ betur með hverju ári að þessi greining Hersh gengur eftir.

Frjálslynd heimsvaldastefna og „verndarskylda“

Hugmyndir um „hryðjuverkaógn“ og ógn frá framandi siðmenningu hafa dugað Vesturveldunum vel til hernaðarlegrar útrásar, en þær duga þó ekki ótakmarkað. Mörgum frjálslyndum manni fannst og finnst þetta minna nokkuð mikið á nýlendustefnu 19. aldar og baráttu Evrópu fyrir „siðun villimannanna“. Og eftir sem áður stóð prinsippið um ósnertanlegt fullveldi þjóða óhaggað og torveldaði allar íhlutanir. Enda varð fljótlega til annar farvegur, samhliða þessum, sem heimsvaldastefnan gat veitt sókn sinni eftir. Í vestrænum hugveitum varð til hugmyndin um íhlutanir „í mannúðarskyni“: að það sem best geti réttlætt valdbeitingu og hernað gegn öðrum ríkjum væri „verndun mannréttinda“. Með því að gera valin ríki/stjórnvöld að djöflum með hjálp stóru fréttastofanna mátti grafa skipulega undan fullveldisprinsippinu og koma jafnvel á nýjum og „hreyfanlegri“ reglum í alþjóðlegum samskiptum. Þetta voru frjálslyndar hugmyndir og hér mátti fá með í krossferð ekki aðeins hina frjálslyndu heldur einnig marga vinstri menn, t.d. evrópuvinstrið sem hefur sínar eigin ástæður til að amast við fullveldinu. Hér var sem sagt komin hugmyndalegur búningur fyrir FRJÁLSLYNDA HEIMSVALDASTEFNU.
Góð dæmi um þessa íhlutanastefnu í framkvæmd, svonefndar „mannúðaríhlutanir“, eru stríðin tvö í gömlu Júgóslavíu á 10. tug síðustu aldar, síðan stríðið í Líbíu 2011 og nú síðast staðgengilsstríðið í Sýrlandi sem enn hefur ekki þróast í beina NATO-innrás. Hugmyndalegur búningur íhlutana í þessi lönd hefur verið sá að verið sé að vernda þegna landanna frá voðaverkum eigin stjórnvalda.
Það segir sína sögu að forysta Samfylkingarinnar – sem studdi ekki innrásina í Írak 2003 – studdi einarðlega árásir NATO á Júgóslavíu 1999 og Líbíu 2011. Og vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms studdi alveg fumlaust „uppreisnaröflin“ í Líbíu sem og aðgerðir NATO gegn landinu. Og Össur Skarphéðinsson talaði ítrekað fyrir aðgerðum „alþjóðasamfélagsins“ í Sýrlandi. Eftir að Rússland og Kína beittu neitunarvaldi í Öryggisráðinu gegn aðgerðum í Sýrlandi í febrúar 2012 gagnrýndi Össur ráðið harðlega og sagði það vera þröskuld í vegi þess að „alþjóðasamfélagið“ gæti látið til sín taka í málefnum Sýrlands. Á hinum Norðurlöndunum er myndin svipuð. Í innrásinni í Írak 2003 voru aðeins hægristjórnirnar í Danmörku og á Íslandi með í „bandalagi hinna viljugu.“ En í Líbíustríðinu voru öll Norðurlöndin með, í nafni „mannúðar“, m.a.s. þau sem ekki eru í NATO. Þessi búningur íhlutunarstefnunnar þjónar henni sem sagt enn betur en hinn.
Með yfirburðastöðu sinni á alþjóðavettvangi tókst vestrænum heimsvaldasinnum árið 2005 að koma í gegn í Allsherjarráði SÞ nýju prinsippi, um „verndarskylduna“, skyldu „alþjóðasamfélagsins“ til að vernda borgarana í hvaða landi sem er (Responsibility to Protect, gjarnan skammstafað R2P). Verndarskyldan er prinsipp sem í framkvæmd er SETT OFAR en reglan um að HLUTAST EKKI TIL UM INNRI MÁL fullvalda ríkja. Þarna er fundin skylda og réttur sem rýfur fullveldismúrinn! Undir þessum merkjum eru nýjustu stríðin háð. Þetta er búningur hinnar nýju hernaðarstefnu, „mannúðar-heimsvaldastefnunnar“.
Á 19. öld og allt fram til 1945 voru það nýlenduherrar og „herraþjóðir“ sem áskildu sér rétt til íhlutana í fjarlægum löndum. Nú er það eitthvað sem nefnir sig „alþjóðasamfélagið“ sem áskilur sér þann rétt. Eftir 1990 eru þeir sem beita þessum rétti alltaf þeir sömu – Bandaríkin og NATO-veldin. Engir aðrir.

Múrbrjótar gegn fullveldismúrnum

Þessi róttæka breyting í alþjóðasamskiptum komst ekki á allt í einu vetfangi heldur smátt og smátt. Útbreiðsla hugmyndanna um „hryðjuverkaógnina“ og hugmyndanna um „verndarskylduna“ er aðeins möguleg fyrir tilstilli „heilaþvottavélarinnar“, þ.e. gífurlegrar miðstýringar í vestrænu fjölmiðlakerfi. Heimsmyndinni er dælt inn í okkur nótt og dag – eins og áðurnefnt yfirliti í Speglinum 6. janúar er gott dæmi um.
Heimsvaldasinnar bjuggu sér til hugmyndaleg verkfæri sem kalla má „múrbrjóta“ gegn fullveldismúrnum. Eitt áhrifaríkasta verkfærið er að úthrópa viss ríki sem „óþokkaríki“ og gera leiðtoga þeirra að djöflum í mannsmynd. Annað verkfæri, náskylt, er að auglýsa upp úr öllu valdi ákveðin grimmdarverk (gjarnan framin í „óþokkaríkjum“, allt upp í það að lýsa yfir „þjóðarmorði“. Með þessi dæmi að vopni er skipulega grafið undan áður ríkjandi reglum í alþjóðalögum, grafið undan hugmyndinni um ósnertanlegt fullveldi þjóða og samtímis markaðssett hugmyndin um nauðsyn utanaðkomandi íhlutana (af hálfu „alþjóðasamfélagsins“).
Dæmi sem mest eru notuð hin síðari ár af vestrænum leiðtogum og vestrænum fjölmiðlum til að réttlæta íhlutanastefnu eru sótt til Bosníu 1995, Kosovo 1999, Darfúr (Powell, bandaríski utanríkisráðherra lýsti yfir 2003 að „þjóðarmorð“ færi fram í Darfúr), Suður-Súdan hin síðari ár og nýjustu stríðslöndin, Líbía og Sýrland. En mest notaða dæmið af öllum er blóðbaðið í Rúanda og Búrúndí 1994 (Búrúndí, nágrannaríki Rúanda, hefur reyndar nokkuð fallið í skuggann, „þjóðarmorðið“ þar var nokkru minna í sniðum). Kofi Annan, aðalritari SÞ 1997–2006 (m.a. þegar „verndarskyldan“ var viðtekin hjá SÞ), orðaði það svo í sjónvarpsviðtali: „Alþjóðasamfélagið brást Rúanda og það hlýtur að skilja eftir hjá okkur beiska eftirsjá.“ (BBC news 26. mars 2004)
Fleiri verkfærum beitir heimsvaldastefnan til að skapa sér árásarfæri inn á mikilvæg svæði. Áður var nefnt að Bandaríkin kyntu undir trúardeilum til að grafa undan ákveðnum stjórnvöldum með því að styrkja íslamista og beita leynivopninu al Kaída. Þetta fellur inn í gamla stjórnlist heimsvelda og stórvelda við að veikja eða fella andstæðinga, að „deila og drottna“. Aðferð Vesturveldanna við að styrkja tök sín í Mið-Austurlöndum, Afríku og víðar er mjög oft einmitt þessi: að skapa sundrungu og upplausn, að gera viðkomandi land „viðráðanlegra“, að koma á valdaskiptum, a.m.k..
Vel auglýstar áróðursherferðir heimsvaldapressunnar um mannréttindabrot, fjöldamorð o.fl. byggja yfirleitt ekki á eintómu lofti. Umrædd svæði eru átakasvæði þar sem geysar frelsisbarátta, þjóðernisleg barátta, barátta fyrir aukinni sjálfsstjórn, aðskilnaði landshluta, ólga af einhverju tagi eða þá einhvers konar neyðarástand. Nóg er af slíkum dæmunum en vestræn pressa ræður því hvaða svæði er sett í fókus.
Ef slík barátta fær stuðning í vestrænni pressu eða slík neyð fær kastljósið á sig er ástæða til að skoða málið nánar. Þá er nokkuð víst að heimsvaldasinnar telja viðkomandi stjórnvöld til andstæðinga sinna og styðja þess vegna andspyrnuöflin til að veikja þetta ríki eða koma á „valdaskiptum“. Þegar ólgan á slíkum átakasvæðum þróast yfir í borgarastríð er mjög líklegt að heimsvaldasinnuð herveldi standi þar á bak við. Við nánari skoðun sést líka oftar en ekki að heimsvaldasinnar eiga einhvern hlut að máli í hinum auglýstu grimmdarverkum, en ekki er við að búast að hin miðstýrða vestræna pressa fjalli um það.

Afríka – endurtekið nýlendukapphlaup

Nýlendukapphlaupið um Afríku endurtekur sig. Endurtekið nýlendukapphlaup stórveldanna er hreint ekki bundið við Afríku en í þessari grein er athyglinni beint að Afríku.
Afríka er afar rík af mörgum þeim hráefnum sem heiminn skortir. Olía og jarðgas eru mikilvægur en þó aðeins einn þáttur. Nefna má málma (gull, járn) og grundvallarefni í nútímaiðnaði og landbúnaði eins og úran, báxít og fosfat. Í Kongó keppa auðhringarnir um vinnsluna á koltan sem er nauðsynlegt efni fyrir alla farsíma og tölvur, þar með lykilefni í hergagnaframleiðslu. Aðalkeppendur um auðlegð Afríku eru annars vegar Vesturveldin (einkum Bandaríkin, Bretar og Frakkar) og hins vegar Kína. Kína er nú stærsti viðskiptavinur Afríku og sem fjárfestir er það líka risi. Vesturveldin geta ekki lengur unnið Kína í keppninni um Afríkumarkaðinn á viðskiptagrundvelli. Svar þeirra er aukin beiting hervalds.
Heimsvaldasinnar senda nú heri og/eða „hernaðarráðgajafa“, lofthersveitir eða „dróna“ inn í Afríku og blanda sér þannig í þarlend átök í meiri mæli en þau hafa almennt gert frá því nýlendutímanum lauk upp úr 1960. Frakkar hafa á undarförnum misserum sent hersveitir inn í nokkrar af gömlu Afríkunýlendum sínum: Fílabeinsströndina (2011), Malí (2013), Miðafríkulýðveldið (2013).
Bandaríkin beita æ fjölbreytilegri herstjórnarlist í heimsvaldabrölti sínu. Eðlilega beita þeir helst hervaldi í löndum þar sem stjórnvöld teljast þeim ekki nægilega hliðholl. En í staðinn fyrir beinar innrásir líkt og í Írak og Afganistan veðja þau í auknum mæli á STAÐGENGILSSTRÍÐ, að vopna og styðja helstu fylgiríki sín til að annast hernaðarafskipti, stundum gegnum Afríkusambandið. Ellegar að Pentagon styður staðbundna stríðsherra gegn óæskilegum stjórnvöldum, stríðsherra sem ýmist berjast á grundvelli ættflokka eða trúar. Þegar þetta er skrifað láta Kanar til sín taka hernaðarlega í Súdan, Sómalíu, Miðafríkulýðveldinu (ásamt Frökkum) og miklu víðar.
Súdan: Bandaríkin stóðu fremst í flokki í stuðningi við aðskilnað suðurhluta Súdans og sjálfstæði Suður Súdan, bæði með viðskiptaþvingunum gegn stjórninni í Khartoum og áratuga stuðningi við uppreisnarherinn SPLA (Sudan Peoples Liberation Army), nokkuð sem skilaði landshlutanum sjálfstæði 2011. Áherslu Pentagon á þennan stuðning verður að skilja annars vegar í ljósi mjög lofandi olíulinda í Suður Súdan og hins vegar vaxandi umsvifa Kínverja í Súdan og vinskap þeirra við stjórnvöld í Khartoum. Sómalía: Eftir misheppnaða vopnaða íhlutun í Sómalíu 1991-94 hafa Bandaríkin beitt fyrir sig herjum Eþíópíu, Kenýu og Afríkusambandsins til íhlutunar og „friðargæslu“ í landinu. Helstu fylgiríki Bandaríkjanna leggja til hersveitir á vegum Afríkusambandsins, ekki síst Úganda. Bandaríkin hafa í landinu hópa hernaðarráðgjafa og stöðvar til drónahernaðar á borgir og bæi Suður-Sómalíu. Líbía: Kínverjar voru hraðvaxandi viðskiptaaðili Gaddafís í Líbíu en innrás NATO 2011 neyddi þá til að draga sig út. Líklega var það mikilvægasta ástæða fyrir árás NATO þótt vestræn pressa forðaðist eins og heitan eldinn að nefna slíkt.
Eftir að efnahagssókn Kína í Afríku hófst lögðu heimsvaldasinnaðar hugveitur til við George W. Bush að stofna sérstaka herstjórn fyrir Afríku og niðurstaðan varð AFRICOM, Bandaríska Afríkuherstjórnin sem var komið á fót 2006-08. Gegnum AFRICOM leggur Pentagon Afríkuríkjum til hernaðarráðgjafa, sendir litla herflokka til herþjálfunar, tekur þátt í heræfingum og skipuleggur hernaðaraðstoð. Þannig hefur Pentagon nú komið á skipulegu hernaðarsamstarfi við öll 54 ríki Afríku nema Súdan, Simbabve og Erítreu. Markmið Bandaríkjanna er að SAMEINA Afríku undir Bandarískri herstjórn, ennfremur freista þess að halda Kína frá kjötkötlum Afríku.

Saturday, November 10, 2012

Nýju stríðin sýna endurkomu nýlendustefnunnar


(Birtist í Dagfara nóvember 2011)

Í október horfðum við á þjóðarleiðtoga eltan uppi og drepinn í beinni útsendingu. „Við komum, sáum og – hann dó!“ sagði Hillary Clinton skellihlæjandi við sjónvarpið þegar hún hafði horft á slátrunina. Hinn formlegi farvegur árásar á Líbíu lá gegnum samþykkt Öryggisráðs SÞ nr. 1973 frá í mars í vor um flugbann yfir Líbíu og „verndun borgaranna“ út frá óstaðfestum fréttum um fjöldamorð Gaddafís á eigin þegnum. Skömmu síðar sendu leiðtogar helstu árásarveldanna, Bandaríkjanna Breta og Frakka, frá sér yfirlýsingu og sögðu „ómögulegt að ímynda sér framtíð Líbíu með Gaddafí við völd“ (International Herald Tribune, 14. Apríl).

Svipaða aftöku þjóðhöfðingja eftir innrás sáum við áður í Írak þar sem innrásarherirnir og þjónar þeirra eltu uppi Saddam Hússein og hengdu hann eftir skyndimeðferð í götudómstól. Afgreiðslan á Milosévic fyrrum forseta Júgóslavíu var náskyld: Vesturveldin og NATO gerðu hernaðarinnrás, steyptu „óæskilegum“ þjóðarleiðtoga, drógu hann svo fyrir eigin dómstól þar sem hann dó í fangelsi meðan á réttarhöldunum stóð. Allir þessir þjóðarleitogar dæmdu sig til dauða með því að vera Vesturveldunum óþjálir. Aftakan var í tveimur áföngum: fyrst áróðursleg þar sem fjölmiðlar heimsvaldasinna breyttu mönnunum í skrýmsli og síðan var gerð hernaðarleg „mannúðarinnrás“ til að frelsa þjóðirnar undan skrýmslinu, skrýmslið drepið - og æði margir aðrir.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið að flækja málin eða gera sér lífið erfitt. Þau hafa stutt allar þessar innrásir. Enda er komið upp sjálfvirkt kerfi þar sem öll Vesturlönd eru komin inn í NATO, hernaðarbandalag USA og ESB, ýmist með beinni aðild eða aukaaðild og löndin fara nánast sjálfkrafa í stríð hvar og hvenær sem herforingjarnir stökkva til. Vinstri stjórn, hægri stjórn, NATO-þjónkunin óbreytt. Steingrímur og Ögmundur halda að vísu friðarræður og eru á móti stríðinu, en þeir marsera samt með á vígvöllinn. Annað myndi bara kosta veruleg óþægindi gagnvart NATO.

Hættuleg þjóðréttarþróun
Í tveimur fyrstu greinum í sáttmála Sameinuðu þjóðanna  frá 1945 koma fram þau prinsipp sem síðan urðu mikilvægustu atriðin í þjóðarrétti, og voru rökréttur lærdómur af nýliðinni styrjöld. Í fyrstu grein er talað um að virða skuli „grundvallaratriðin um jafnan rétt og sjálfsákvörðunarrétt þjóða“. Í samningi SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi stendur ennfremur: „Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar...“ Önnur grein sáttmálans frá 1945 bannar ríkjum að beita aðrar þjóðir vopnavaldi. Undantekning er aðeins beiting þess í sjálfsvörn.
         Undanfarna tvo áratugi hefur markvisst verið grafið undan þessum  þjóðréttarreglum. Þær hafa ekki verið numdar úr gildi formlega en að miklu leyti í reynd: a) Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er mjög gengisfelldur. b) Bann við árásarstríðum er í upplausn. c) Stórveldin beita  hernaðaraðgerðum gegn smærri ríkjum  hvort sem SÞ leggur stimpil sinn við þær eða ekki.  
         Eftir 11. sept. 2001 héldu Bandaríkin fram rétti sínum til „fyrirbyggjandi stríðs“ með eða án samþykkis SÞ, og komust upp með það sem eina risaveldið. Mikilvægt skref í þessari þjóðréttarþróun var svo ályktun Allsherjarþings SÞ árið 2005 um „skyldu til að vernda“ borgarana. Í framhaldinu hafa þeir sem nefna sig „alþjóðasamfélgið“ – í reynd fyrst og fremst USA og NATO – ýmist hótað löndum hernaðaraðgerðum eða, eins og í Líbíu, beinlínis gert innrás með tilvísun til „skyldunnar til að vernda“. Vísað er til þess að stjórnvöld í viðkomandi löndum brjóti „mannéttindi“ sem þarf að hindra ef og aðeins ef stjórnvöld eru ekki þóknanleg USA og NATO-veldunum. Vesturveldin hafa því komið á breyttum alþjóðasamskiptum og réttarreglum í þá átt sem hentar best þeirra landvinningabrölt, enda er „verndun borgaranna“ alveg kjörið yfirvarp til innrásar í lönd, og réttlætir „mannúðaríhlutun“. Réttur til íhlutunar er alltaf réttur hins sterka og þegar afnumin er virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða gengur frumskógarlögmálið í gildi.
         Þeir stóru og sterku grafa undan sjálfsákvörðunarréttinum. Það birtist ekki aðeins í formi hernaðarafskipta. Á tímum hnattvæðingar fjandskapast fjölþjóðlegt auðmagn og stórveldi við efnahagslegum sjálfsákvörðunarrétti (smærri) þjóða. Það viðhorf birtist m.a. í Evrópusamrunanum, og í sama  anda starfa AGS, Alþjóðabanki, WTO, ASEAN, NAFTA sem öll hafa frjálst flæði fjármagnsins sem sitt meginboðorð. Þegar svo hernaðarlega ógnunin frá USA og NATO bætist við efnahagslegar fyrirskipanir ofannefndra samtaka er erfitt fyrir einstök ríki að reka sjálfstæða efnahagsstjórn.

Nýja NATO og Sameinuðu þjóðirnar
Afgerandi í þessari þróun var sú breyting sem gerð var á stefnugrundvelli NATO 1999. Þá var opnað fyrir hernað bandalagsins „out of area“, s.s. utan svæðis aðildarlandanna, til að berjast fyrir grunngildum NATO (skilgreind sem mannéttindi, lýðræði, frjáls markaður). Sama ár réðist NATO á Júgóslavíu, án samþykktar frá SÞ. Nýja NATO er hernaðarhlið tvíeykisins USA/ESB og er megingerandi í tveimur heitustu styrjöldum samtímans: í Afganistan og Líbíu.
Í „nýju stríðunum“, þ.e. eftir fall Sovétríkjanna um 1990, hafa SÞ annars vegar orðið verkfæri Vesturveldanna í alþjóðapólitík og hins vegar hafa þau hætt beinum afskiptum á deilu- og átakasvæðum. Gerendurnir sem koma í staðinn eru annars vegar risaveldið eina, Bandaríkin – í Sómalíu, Írak, Afganistan – og hins vegar NATO – í Júgóslavíu, Afganistan, Líbíu. NATO kemur þar fram sem allt í senn a) löggjafi (skilgreinir hver er óvinur), b) gerðadómari,  c) hervald. Bandalagið kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og gefur sig út fyrir að vera „yfirþjóðlegt“ og hlutlaust afl, en gætir eingöngu hagsmuna vestrænna heimsvelda og sýnir æ herskárri hegðun.

Dæmið um Líbíu er ekki flókið
 Hvers eðlis var og er innrásin í Líbíu? Sumum finnst dæmið flókið og trúa Össuri sem talar um „mannúðaríhlutun“. Málið er samt alveg jafn einfalt og í Afganistan og Írak. Líbía er olíuauðugasta land í Afríku en auðhringarnir hafa ekki fengið ótakmarkað aðgengi að lindunum. Þetta er einfaldur olíuimperíalismi.
Það er auðvelt að setja slíkan stimpil á Bandaríkin enda er komin hefð á blóði drifna utanríkisstefnu þeirra. En nú voru það Evrópuríki, Bretar og sérstaklega Frakkar, sem tóku frumkvæði, jafnvel umfram Bandaríkin. Hvað voru þau að gera? Útbeiða evrópsk gildi? Já, Vestur-Evrópa er vagga nýlendu- og heimsvaldastefnu og kynþáttahyggju. En eftir seinna stríð urðu gömlu nýlenduveldin að draga sig til baka, bæði vegna frelsisbaráttu nýlendna og vegna yfirburða Bandaríkjanna. En samhliða þeirri þróun þjóðréttarmála sem rædd var hér að ofan taka þessi sömu ríki, ESB-stórveldin, aftur upp opnari nýlendustefnu. Frakkar kepptu öðrum lengur við Bandaríkin um gömlu svæðin sín í Vestur-Afríku, jafnvel gegnum leiguheri (t.d. í Kongó, Rúanda..). Eftir að Sarkozy kom til valda hafa þeir hins vegar tekið upp fulla samvinnu við Bandaríkin – og innan NATO – og ætla sér þannig stærri skerf en áður. Í kosningabaráttunni árið 2007 lagði Sarcozy upp hina endurbættu utanríkisstefnu og sagði þá í ræðu: „Ég vil vera forseti yfir Frakklandi sem kemur Miðjarðarhafssvæðinu í ferli endursameiningar eftir tólf alda klofning og sársaukafull átök... Ameríka og Kína hafa nú þegar hafið landvinninga í Afríku. Hversu lengi ætlar Evrópa að bíða með að byggja Afríku morgundagsins? Meðan Evrópumenn hika sækja aðrir fram.“ Og fimm dögum eftir að loftárásirnar hófust á Líbíu í mars í vor sagði Sarkozy á leiðtogafundi ESB: „Þetta er sögulegt augnablik... það sem gerist í Líbíu mótar réttarfarið... það eru meiri háttar straumhvörf í utanríkisstefnu Frakklands, Evrópu og alls heimsins.“ („Libya:NATO provides the Bombs; the French „Left“  provides the Ideology“ eftir Pierre Lévy, sjá Google). Um líkt leyti birti franska blaðið Libération bréf þar sem Líbíska þjóðarráðið („uppreisnarmenn“) lofaði að tryggja franska olíurisanum Total 35% af öllum vinnsluheimildum á líbískri olíu „í skiptum fyrir“ fullan hernaðarlegan stuðning Frakka við Líbíska þjóðarráðið.
Þetta er jafn einfalt og ógeðslegt og það hljómar. „Mannúðaríhlutunin“ er gamaldags ræningjaleiðangur. Gömlu nýlenduveldin renna nú aftur á lyktina af blóði og olíu, og bandalagsríki þeirra koma í halarófu á eftir, óháð því hvort þar sitja hægri eða vinstri stjórnir.   

Endurkoma nýlendustefnunnar
Heimsvaldastefnan hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás m.t.t. beinnar pólitískrar undirokunar þeirra landa sem verða fyrir henni. Seinni hluti nítjándu aldar var saga um útrás og nýlendusamkeppni Evrópuríkja sem er vel kunn úr skólabókum – saga um hernaðarinnrásir, fallbyssudiplómatí, uppkaup á nokkrum ættbálkahöfðingjum og síðan beina evrópska stjórn á viðkomandi landi. Á tuttugustu öld (einkum eftir seinna stríð) hörfaði nýlendustefnan um skeið vegna frelsisbaráttu nýlendna. Samhliða því tóku nokkur svæði upp sósíalisma og studdu þjóðfrelsisbaráttuna. Heimsvaldasinnar tóku þá upp „nýnýlendustefnu“, nýlendur fengu formlegt pólitískt sjálfstæði án þess þó að losna undan efnahagslegu ofurvaldi heimsvaldasinna. Eftir að sósíalsiminn beið aftur ósigur á sínum svæðum þrengdi mjög að fyrrverandi nýlendum á ný.
Tuttugasta og fyrsta öldin: Heimsvaldasinnar hafa snúið sér aftur að því að vinna beina stjórnun á hinum vanþróaðri jaðarsvæðum og/eða koma sér þar upp leppríkjum – umfram allt í efnahagslega mikilvægum löndum. Til þess þarf m.a. að veikja og beygja í duftið ríki sem á einhvern hátt hindra fullt markaðsfrelsi og hnattvæðingu á forsendum auðhringanna og ekki síður ríki sem mynda öflug sjálfstæð hagkerfi og bjóða vestrænum heimsvaldasinnum upp á efnahagslega samkeppni. Hnattvæðing auðhringanna er ótrygg ef henni er ekki fylgt eftir með hervaldi. Ríki eins og Íran og Líbía (og fáein önnur) hafa verið Vesturveldunum óþjál og ósamvinnuþýð. Auk þess bjóða ríki eins og Rússland og sérstaklega Kína upp á alvarlega efnahagslega samkeppni í Asíu og Afríku. Vesturveldin reiknuðu sem svo: Það þarf stríð til að reka Kína út úr Líbíu. Það er að takast, og sýnir það sem koma skal.

Vellyktandi heimsvaldahyggja
Málstaður heimsvaldasinna er vondur. Öll stríð þeirra eru til að byggja upp og verja arðránskerfi þeirra á heimsvísu. Slíkt er óheppilegt að segja upphátt svo stríðin verður óhjákvæmilega að heyja undir fösku flaggi. Svo einfalt er það. Yfirskin allra heimsvaldastríða er einhver stórfelld lygi – vegna þess að nauðsynlegt er að vinna stuðning almennings svo hann sé reiðubúinn að leggja fram bæði skattpeninga og syni sína til stríðsins. Þáttur fjölmiðla heimsvaldasinna er því algjört grundvallaratriði í sjálfum stríðsrekstrinum. Yfirskrift stríðsins verður að hljóma vel. Á 19. öld voru þessar ofbeldisfullu ránsferðir kallaðar kristnun, siðvæðing villtra og ósiðaðra þjóða, jafnvel afnám þrælahalds o.fl. Í þá daga keypti almenningur heimsvaldaríkjanna kynþáttahyggjuna og át hana hráa. Á 20. öld var kommúnisminn helsti óvinur heimsvaldastefnunnar og taktíkin var þá að beita fjölmiðlunum til að gera kommúnismann að grýlu sem æti börn og þvæði heila. Í upphafi 21. aldar er kommúnisminn horfinn um sinn sem ógn, og hrá kynþáttahyggjan dugar heldur ekki lengur sem stríðshugmyndafræði. Það verður að tilreiða heimsvaldahugmyndafræðina ögn betur og teikna betur myndina af óvininum. Yfirskriftir hernaðaraðgerða sem nú eru vinsælastar eru einkum tvær: a) „stríð gegn hryðjuverkum“ og b) „mannúðaríhlutun“. 

„Stríð gegn hryðjuverkum“
Þann 11. september 2001 kvað við startskot stórfelldrar hernaðarútrásar, þegar Bandaríkin og NATO settu „stríð gegn hryðjuverkum“ á fána sinn sem stríðshugmyndafræði. Hin heimatilbúnu hryðjuverk á Manhattan og heimatilbúna hugmyndafræði dugðu vel til innrása í Afganistan, Írak, Pakistan m.m. og eru enn megingrundvöllur undir vestrænni hernaðarútrás. Blekkingarleikurinn kringum 11. september og Afganistan- og Íraksstríðin er fyrir löngu afhjúpaður. Það vissu hinir voldugu bakmenn að myndi gerast, en þeir tóku óhræddir þá áhættu af því þeir vita að völd þeirra yfir ríkjandi og tóngefandi fjölmiðlakerfi eru slík að það skaðar þá ekki að marki þótt þeir séu afhjúpaðir af einhverjum einstaklingum og smáfjölmiðlum. Á Íslandi er vinsælt að tala um innrásirnar sem „misheppnaðar“ tilraunir til að „frelsa“ þessi lönd. Stríðin eru sem sagt „klúður“ en tilgangurinn góður. Þetta er bara ein útgáfan af blekkingunni miklu.
         Tveimur mánuðum eða svo eftir 11. september, þegar innrás í Afganistan var hafin, var Wesley Clark, fyrrum yfirhershöfðingi NATO í Kosovo, staddur í hermálaráðuneytinu í Washington. Hann skrifar:

 „...í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan.“ (Wesley Clark, Winning Modern Wars, bls. 130)
        
Al-Kaida gegnir lykilhlutverki í “stríði gegn hryðjuverkum”. Þetta eru óskilgreindir hópar íslamista sem hafa verið gegnumsmognir af flugumönnum tengdum CIA allt frá stríði Afgana við Sovétmenn. Það sérkennilegasta við þessa hópa  er að þeir ýmist ganga beint erinda USA og Vesturveldanna í því að grafa undan „óæskilegum” stjórnvöldum (í Afganistan á 9. áratug, í Bosníu, Kosovo, Tsétsníu, Líbíu) eða þeir birtast sem svarnir óvinir Vesturlanda og eru þá réttlæting fyrir vestrænni íhlutun (í Afganistan frá 2001, í Írak, Pakistan, Sómalíu og víðar). Þeir þjóna sem sagt vestrænum hagsmunum með breytilegum hætti.

“Manúðaríhlutanir”
Eftir umbreytingu NATO frá 1999 og sérstaklega eftir samþykkt SÞ árið 2005 um “skyldu til að vernda” hafa heimsvaldasinnar skipulega unnið fylgi hugmyndum sínum um íhlutunarrétt „alþjóðasamfélagsins” á grundvelli  “mannúðar”. Óæskileg stjórnvöld eru í fjölmiðlum útmáluð sem skrýmsli, sem er undirbúningur íhlutunar.  En vestrænir heimsvaldasinnar láta ekki þar við sitja. Þáttur vestrænnar leyniþjónustu á efnahagslega og hernaðarlega mikilvægum svæðum verður sífellt fyrirferðarmeiri. CIA og breska BI6 fara þar fyrir. Leyniþjónusturnar eru sífellt reiðubúnar að nýta sér og ýta undir pólitíska ólgu til að koma ár sinni betur fyrir borð og steypa óæskilegum stjórnvöldum og koma æskilegum að í staðinn.
         Júgóslavía var prófsteinn nýrrar herskárrar stefnu USA og NATO, og Kosovo-stríðið 1999 var gott dæmi um „mannúðaríhlutun”. Loftárásir NATO á Serbíu hófust eftir að bandarískir ráðherrar og fréttastofur höfðu óskapast yfir serbneskum fjöldamorðum á 100 þúsund eða 250 þúsund Kosovoalbönum og yfir serbneskum „nauðgunarbúðum” o.s.frv. Eftir uppgjöf Serbíu fundust fjöldagrafirnar aldrei og þeir sem féllu höfðu fallið í átökum serbneska hersins og Frelsishers Kosovo.
Fyrsta „litabyltingin” kom í kjölfarið gegnum kosningar í Serbíu árið 2000 með miklum vestrænum afskiptum. Forustuafl í þeirri byltingu voru serbnesku stúdentasamtökin Otpor. Vestrænum, fyrst og fremst bandarískum, stuðningi við þau var einkum beint gegnum frjáls „mannréttindasamtök” eins og National Democratic Institute (tengd Demókrataflokknum) og International Republican Institute (tengd Repúblíkanaflokknum) og einnig hin ríkisreknu National Endowment for Democracy, og stuðningurinn var pólitískur, fjárhagslegur, faglegur og tæknilegur.  Niðurstaðan var fall Milosévic og sigur „hófsamra”, vestrænt sinnaðra afla, bygging stærstu bandarísku herstöðvar í Evrópu í Kosovo m.m.
Serbneska dæmið lagði línuna fyrir þær „litabyltingar” sem urðu á svæði fyrrum Sovétríkjanna, svo sem í Georgíu  2003, Úkraínu 2004 og Kyrgistan 2005. Afskipti  vestrænna stjórnvalda og leyniþjónusta voru bein og óbein, leynd eða ljós, ekki síst gegnum frjáls vestræn „mannréttindasamtök” og samtök frá Serbíu, ennfremur með pólitískum ráðgjöfum, flugumönnum, fjölmiðlafári, nethernaði, opnun sjónvarpsstöðva og miklum peningastraumi. Ekki skal því haldið fram að þessar byltingar eigi sér engra rætur í raunverulegri ólgu heima fyrir, en málið er að heimsvaldasinnar spila á þá ólgu og geta haft úrslitaáhrif á stefnu hennar og útkomu. „Litabylingarnar“ skiluðu í öllum tilfellum bandarískum herstöðvum í viðkomandi löndum. Það gat heldur ekki hjá því farið að vestræn afskipti léku stórt hlutverk í hinu svokallaða „arabíska vori” á þessu ári enda eru þar meiri heimsvaldahagsmunir í húfi en annars staðar og vestræn (númer eitt bandarísk) viðvera er þar leynd og ljós á öllum sviðum.
Vesturveldin og NATO („alþjóðasamfélagið”) blanda sér svo með beinni hernaðaríhlutun í innri átök landa og borgarastríð, kynda undir ættbálka- og þjóðernaátök til þess að brjóta niður eða veikja viðkomandi lönd, þ.e.a.s. ef þau eru of sjálfráða, hlýða illa hnattvæðingarreglunum, neita vesturveldunum um herstöðvar, eiga of mikil viðskipti við Kína o.s.frv. Þannig hefur verið í pottinn búið í öllum helstu styrjöldum eftir lok kalda stríðsins, í Júgóslavíu, Afganistan, Írak og nú síðast í  Líbíu. Næsta land í þessari röð sýnist vera Sýrland og herkvíin um Íran þrengist stöðugt.
Í aðdraganda Líbíustríðs voru spunavélar ráðandi vestrænna fréttastofa á yfirsnúning að mála myndina af Gaddafí og básúna um „fjöldamorð á eigin þegnum” (netsíðan Gagnauga.is hefur gert því lygamoldroki góð skil). Afgerandi fyrir samþykkt Öryggisráðsins nr. 1973 (um flugbann yfir Líbíu) var ennfremur undirskriftalisti 70 mannréttindasamtaka, langflestra vestrænna, m.a. þeirra sem virkust voru í áðurnefndum „litabyltingum”, en formlegt frumkvæði að listanum tóku líbísk samtök sem nefna sig Libyan League for Human Rights (LLHR). Þar var farið fram á íhlutun alþjóðasamfélagsins í Líbíu og vísað til áðurnefndrar „skyldu til að vernda” borgarana. Bænaskráin var m.a. send Obama forseta og Ban-ki Moon. Sýnt hefur verið fram á náin tengsl samtakanna LLHR og Líbíska þjóðarráðsins. (Mahdi Darius Nazemroaya, Libya and the Big Lie: Using Human Rights Organizations to Launch Wars“). Þetta meðal annars bendir til að ákveðið úrval mannréttindasamtaka sé orðið eitt meginvopn vestrænnar heimsvaldastefnu í hernaðarlegri útrás hennar.
Nýtt amerísk-evrópskt hernám Afríku er aftur komið í gang. Í vor sendu Frakkar herafla til Fílabeinsstrandarinnar. Bandaríkin hafa undanfarið stóraukið hernaðarsamvinnu við nær öll ríki Afríku gegnum Afríkuherstjórn sína (AFRICOM) og munu ekki lýða það að þau halli sér í neinar aðrar áttir. Nýlega sendi Obama herlið til Uganda og á næstunni fara bandarískar hersveitir til Suður-Súdan, Kongó og Miðafríkulýðveldisins. Líbíustríðið er ekki lokaþáttur hernaðaraðgerða heldur bera þau flest merki þess að vera upphafsþáttur.

Alhliða barátta – sálmasöngur nægir ekki
Við Vesturlandabúar lifum í miklum lygaheimi. Okkur mun farnast illa nema við hættum að blekkja okkur sjálf og nefnum hlutina réttum nöfnum. Það bjargar okkur ekki þótt friðarsinnar syngi sálma um frið. Vandamálið er stærra en svo. Sem stendur er baráttan gegn heimsvaldastefnunni sorglega veik. Á Íslandi þurfum við öflug samtök heimsvaldaandstæðinga. Heimsvaldastefnan er ríkjandi form kapítalismans, og það er mikilvægt að fólk greini ráns- og mannætueðli hennar. Við þurfum að berjast gegn henni í öllum myndum hennar, efnahagslegum, pólitískum og hernaðarlegum. Við verðum að stuðla að því að Íslendingar verji eigin sjálfsákvörðunarrétt, og einnig að þeir styðji heimsvaldaandstöðu hvar sem er í heiminum. Sérstaklega er brýnt að berjast gegn hinni ríkjandi heimsvaldablokk USA/ESB – sem sameinuð er í NATO – og hinni herskáu og stórhættulegu sókn hennar að heimsyfirráðum. Því lengra sem hún kemst í þeirri sókn þeim mun ófriðvænlegra og ógæfulegra er framundan.