Showing posts with label hnattræn elíta. Show all posts
Showing posts with label hnattræn elíta. Show all posts

Friday, March 31, 2017

Einkavæðing - hnattvæðing - Goldman Sachs

(birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. mars)

Salan á þriðjungi Arion banka féll fljótt í skugga frásagnarinnar um gruggug kaup Ólafs Ólafssonar á Búnaðarbanka árið 2003/04. Sú frásögn þjónar þeim markmiðum a) að glæpkenna og bófavæða kreppuna, skýra hana með siðferðisbresti og spillingu einstakra banka- og kaupsýslumanna og b) að lýsa bankasölu til erlendra fjármálastofnana sem ákjósanlegri og eftirsóknarverðri. Hvort tveggja rangt.

Þrír bandarískir vogunarsjóðir plús bandaríski bankinn Goldman Sachs kaupa nú 29,2% af Arion banka með kauprétt á 21,9% til viðbótar sem líklegt er að þeir nýti síðar á árinu og eiga þá meirihluta í bankanum. Þessir fjórir aðilar keyptu hlutinn af Kaupþingi ehf sem þeir eiga sjálfir 2/3 hlut í. Þeir eru því að kaupa af sjálfum sér. Kaupþing ehf átti 87% af Arion banka eftir að hann var einkavæddur af vinstri stjórninni á haustdögum 2010. Það var þá sem hún, í samráði við AGS, seldi lánadrottnum og kröfuhöfum gömlu bankanna tvo af nýju bönkunum, Arion banka og Íslandsbanka.

Stærsti hlutafjáreigandi Kaupþings (38.64%) er vogunarsjóðurinn Taconic capital. Einn hinna þriggja kaupendanna er hinn voldugi fjárfestingabanki Goldman Sachs. En auk þess tengjast Goldman Sachs og Taconic capital innbyrðis af því stofnendur og eigendur þess síðarnefnda voru tveir fyrrverandi starfsmenn Goldman Sachs. Goldman Sachs er kannski voldugasti fjárfestingabanki heims. Þefum aðeins af honum.

Goldman Sachs múrbrjótur hnattvæðingarafla
Bandaríska stjórnkerfið er klofið. Klofningurinn birtist í nýliðinni kosningabaráttu. Hillary Clinton var skýr fulltrúi hnattvæðingaraflanna, efnahagslegrar hnattvæðingar og pólitískrar/hernaðarlegrar íhlutunarstefnu um heim allan. Hillary var nánar tiltekið fulltrúi kerfisins, „The Establishment“, fulltrúi óbreyttrar stefnu (sem þó skyldi taka skrefi lengra). Andspænis henni stóð Donald Trump sem sagði „Ameríkanismi, ekki hnattvæðing, er okkar trúarjátning“ og sagðist mundu draga mjög úr efnahagslegri hnattvæðingu og sömuleiðis úr íhlutunarstefnunni. Þó miklu stærri hluti stjórnkerfisins, bankakerfisins og fjölmiðlanna styddi Clinton dugði það ekki til. Sigur Trumps fólst að stórum hluta í því að bregðast við stemningu meðal lýðsins, höfnun á útvistun iðnaðar og atvinnu – og almenningur reyndist einnig áhugalaus um vopnakapphlaup gegn Rússagrýlu. Bankinn Goldman Sachs, miðlægur í fjármálakerfinu, tók skýra afstöðu í kosningunum, bannaði fjárframlög til Trumps en var einn af fimm stærstu greiðendum í kosningasjóð Clintons. (heimild)

En eitt er að vinna kosningar, annað að breyta stefnu stjórnkerfisins. Eftir stjórnarskiptin er áðurnefndur klofningur enn við lýði – og birtist nú í klofnu ráðuneyti Donalds Trump og miklum brösum forsetans við hluta stjórnkerfisins (m.a. CIA) og voldugustu fjölmiðla.Þekktur stjórnmálarýnir lýsir klofinni ríkisstjórn svo: „Það virðast vera Goldman Sachs liðið gegn Bannon/Miller andstöðunni.“ Fjármálaráðherra Trumps er nefnilega sóttur til Goldman Sachs. Það er afar skýrt merki um það hvernig „djúp-ríkisvaldið“ (The Deep State) gerir sig gildandi þvert gegn hinni íhaldssömu, popúlísku retórík nýja forsetans. Líka skýrt merki um miðlæga stöðu bankans í bandarísku valdakerfi.

Ef einhver banki er fulltrúi hnattvæðingarafla, múrbrjótur hnattvæðingar, er það Goldman Sachs. Víkjum sögunni yfir Atlantshafið, að helstu átökum um hnattvæðinguna þar: Brexit. Rétt fyrir atkvæðagreiðsluna sl. sumar flaug Obama forseti yfir hafið og hótaði Bretum verri viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir kysu ekki rétt. Ekki nóg með það, Goldman Sachs og þrír aðrir bandarískir risabankar lögðu fram milljónir punda til að styðja herferðina fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB. Sjá grein The Telegraph undir fyrirsögninni: „Official pro-European Union campaign is part-funded by Goldman Sachs, Citigroup, Morgan Stanley and JP Morgan“.

Tuesday, May 31, 2016

Stríð um heimsyfirráð - hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

Birtist á fridur.is 24. maí og vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. maí 2016
„Það er alheims stríð, það er allsherjar stríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“ (heimild)

              

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan
Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.