Saturday, November 10, 2012

„Norðurvíkingur“ og stórveldaásælnin á norðurslóðum


(Birtist í Fréttablaðinu 4. júní 2011)

Liðaskipting heimsvelda nútímans er ljós. USA og ESB eru saman í liði þrátt fyrir samkeppni og átök þeirra á milli (og innan ESB). Þau eru meginbandamenn og mynda járnslegna blokk, sameinaða í  NATO, blokk sem stendur nær miðstýrðum heimsyfirráðum en nokkurt stórveldi sögunnar. NATO var breytt í hnattrænt, útrásarhneigt bandalag um aldamótin. Blokkin ógnar keppinautum sínum (Rússar og Kínverjar þar helstir) og lýður ekki mótþróa smáríkja sem liggja á mikilvægum svæðum: Afganistan, Írak, Líbýa. Þessi stríð eru ekki „strákaleikir“, ekki „gamaldags“ né byggja á „kaldastríðshugsun“. Þau eru nútímastjórnmál í skýrustu mynd: hernaðarstefna sem grundvallaratriði í  heimsvaldastefnu.
            Blokkin hefur um tíma beint meginsókn sinni að Miðausturlöndum og þaðan beinist hún nú að Afríku. Markmiðið er augljóst: vestræn yfirráð, frjálst aðgengi auðhringanna og að nokkru leyti afturhvarf til nýlendukerfis. Hnötturinn allur er undir. Eitt fjölmargra svæða sem verða nú fyrir ásókn er Norðuríshafið. Stórveldaásælnin þar er sama eðlis og í suðri, birtist einkum í heræfingum og vopnaskaki.
            Heræfingarnar hérlendis bera nafnið „Norðurvíkingur“ og nú í byrjun júní verður hér sú stærsta eftir brotthvarf Bandaríkjahers af Miðnesheiði, með 450 manns, 16 orustuflugvélum auk fleiri flugvéla og herskipa. Heræfingin er að vanda undir stjórn Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna en samkeyrð við „loftrýmisgæslu“ NATO á Keflavík og Akureyri. Halda menn að varnarþörf Íslendinga ráði þar för?
            Í janúar 2009 hélt NATO þungavigtarráðstefnu í Reykjavík undir yfirskriftinni: „Öryggishorfur á Norðurskautssvæðinu“. Framkvæmdastjóri NATO mætti þar auk þriggja úr æðstu herstjórn bandalagsins og ráðherra nokkurra aðildarríkja.
            Undanfarin ár hafa verið haldnar miklar æfingar Bandaríkjahers norðan Alaska og tilsvarandi æfingar Kanandahers á „Norðvesturleiðinni“ út af norðausturströnd Kanada. Í fyrra tóku fulltrúar herja Danmerkur, auk Bandaríkjanna (tvö skip frá hvorum) þátt í kanadísku æfingunni. Þessu hafa fylgt  herskáar yfirlýsingar bandarískra og kanadískra ráðamanna í garð Rússa.
            Sumarið 2008 var meiri háttar NATO-heræfing norður í sænska Lapplandi, með þátttöku 12 þúsund hermanna frá 9 NATO-þjóðum að viðbættum Svíum, og önnur litlu minni NATO-æfing úti fyrir norðurströnd Noregs. Stjórnstöðvar norska hersins voru árið 2009 fluttar til Reitan, þ.e. norður á heimskautssvæðið. Varnarmálasamstarf Norðurlandanna og Eystrasaltslanda hraðvex og stefnir í myndun einhvers konar hliðardeildar í NATO með aðild hinna „hlutlausu“ Finna og Svía. Síðastliðið haust fór fram mesta flotaæfing sem haldin hefur verið út af ströndum Finnlands með þátttöku norrænu ríkjanna auk Bretlands, Frakklands og Þýskalands.
Wikileaks lak nýlega orðsendingum James Cain sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku til Bushstjórnarinnar um að nú lægi á að smíða vináttubönd við Grænland vegna olíuhagsmuna. Hann sagðist þegar hafa komið Grænlenskum framámönnum í beint samband við stóra vestræna olíuvinnsluhringa. Mæting bæði utanríkisráðherra og innaríkisráðherra Bandaríkjanna á fund Norðurskautsráðsins í Nuuk í Grænlandi nú í maí sýnir áhersluna. Að Danir fimm dögum síðar geri tilkall til sjálfs Norðurpólsins er varla tilviljun. Danska skjalið talar um friðsamlegt samstarf  vegna nýrra siglingaleiða og olíuvinnslu á Íshafinu (talið er að um 25% vinnanlegrar olíu og gass í heiminum sé á þeim hafsbotni). En „hins vegar er einnig lagt til að danski herinn beini starfi sínu í auknum mæli að norðurslóðum..“ (Féttablaðið 18. maí) Þarna stendur Blokkin á bak við enda beinist krafa Dana gegn Rússum.
Í beinu framhaldi býður frú Clinton Össuri Skarphéðinssyni heim til samræðna, m.a. um varnarmál, þó einkum um norðurslóðir. Þegar Össur túlkaði NATO-fundinn í Lissabon sl. haust nefndi hann sem helstu ógnun við Vesturlönd „framferði ofbeldisfullra músimskra öfgasamtaka“ og svo 27 þjóðir sem búi yfir skotflaugum, og hann nefndi Íran og Sýrland sem sérlega hættuleg, en Rússar væru nú bandamenn NATO (Fréttablaðið 23. nóvember). Það eru þá Íranir og Al-Kaída sem réttlæta vígvæðingu norðurslóða. Eða hvað, Össur?
            ESB sýnir nú  mjög vaxandi áhuga á íslenskri aðild. Vegna íslenkra fiskimiða og orku? Það reynist ekki  vera aðalatriðið. Opinber vefsíða Evrópuþingsins fjallaði um umsókn Íslands 20. janúar undir yfirskriftinni: „ESB má ekki missa af heimskautslestinni“: „Möguleg ESB-aðild Íslands, nýir möguleikar á olíuvinnslu, mengun á heimskautssvæðum ásamt áhrifum mengunarinnar á vatnabúskap ESB-landanna mælir með því að setja málefni Norðurskautsins í forgang, ennfremur að ESB beiti sér meira í Norðurskautsráðinu, segir Evrópuþingið í ályktun á fimmtudag… Þingið undirstrikar kosti íslenskrar aðildar sem mun gefa ESB samhangandi strandlengju á Norðurskautssvæðinu og styrkja aðkomu ESB að Norðurskautsráðinu (www.europarl.europa.eu)“
            „Norðurvíkingur“ er réttnefni, víkingasveit sem Blokkin sendir hingað til að tryggja yfirráðin á Norðuríshafinu.

No comments:

Post a Comment