[Á 4. og 5. áratug síðustu aldar var kommúnistahreyfingin helsta forustuafl alþýðu í baráttunni gegn nasisma og fasisma á heimsvísu. Og í seinna stríði voru það fyrsts og fremst Sovétmenn sem sigruðu og moluðu þýsku stríðsvélina. Ein helsta forsenda þess sigurs var fresturinn sem Sovétmenn keyptu sér með griðarsáttmálanum við Hitler 1939. Svo koma sagnfræðingar borgarastéttarinnar eins og Þór Whitehead og segja okkur að fasisminn og kommúnisminn hafi verið og séu bræður í anda og samherjar í raun. Neðanskráð grein er svargrein við bók Þórs, Milli vonar og ótta. Fyrir hana fékk Þór íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995. Á þessum tíma framstormandi frjálshyggju mætti bókin lítilli andstöðu meðal sagnfræðinga, og grein mín er áreiðanlega helstu andmælin úr þeim ranni. En burtséð frá skrifum Þórs Whitehead er þessi samningur Stalíns við Hitler heimssögulegur, og mjög mikilvægt að draga af honum rétta lærdóma.]
(Birtist í Morgunblaðinu 16. júní 1996)
ÞÓR Whitehead er langt kominn með að verða opinber sögutúlkandi íslenskrar utanríkisstefnu. Þar að auki er hann eitt helsta átórítet í akademískri umræðu um sögu íslenskrar kommúnistahreyfingar. Bæði þessi málefni eru mjög á dagskrá í síðustu bók hans, Milli vonar og ótta, sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin sem bestu bók síðasta árs á sviði fagbókmennta. Margt fróðlegt hefur Þór grafið úr fylgsnum heimildanna. Ég vil þó setja fram þessa spurningu: Er það sem hann skrifar um þessi mál e.t.v. fremur skilningshamlandi en skilningsaukandi?
"Kommúnasismi" sem tvíhöfða þurs
Milli vonar og ótta fjallar um fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er dramatískur tími í stjórnmálalífi Íslands og Evrópu, mjög markaður af griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Yfirleitt hefur Þór Whitehead þann sið að láta "heimildirnar tala". Hann leggur lítt fram eigin túlkanir á atburðum þessara tíma heldur dregur hann saman mikið magn heimilda, birtir úrval af því og eftirlætur lesendum að draga ályktanir. En úrval þeirra heimildabrota sem Þór dregur fram og samhengið sem þær mynda leiða hins vegar lesandann að ákveðnum ályktunum. Og þetta samhengi litast mjög af lífssýn Þórs. Það á við um það sem hann ritar um framgöngu kommúnista, hérlendis sem erlendis, á umræddum tíma og um þau skrif langar mig að fjalla lítillega (og til þeirra vísar titill greinar minnar). Einn ritdómari dregur t.d. ályktun beint af þessu "tali heimildanna" hjá Þór og skrifar að kommúnistar hafi bersýnilega verið "helstu talsmenn nasista eftir að griðasáttmálinn var gerður" (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Mbl. 20. des.). Þór setur aldrei fram svo grófa fullyrðingu berum orðum enda væri það ekki í samræmi við aðferð hans. Hann býr hins vegar til mynd þar sem slík fullyrðing liggur beint við en lætur ekki hanka sig á að koma með hana sjálfur. Myndin sem Þór dregur upp er raunar ekki ný. Hún er í meginatriðum lík málflutningi ráðandi afla þessara ára á Vesturlöndum og túlkun þeirra á griðasáttmálanum. Þór endurframkallar þá mynd einfaldlega með því að kalla á ný fram anda þessara ára. Að mínu mati er hér á ferðinni eitthvað annað en sagnfræði. Það er blaðamennska í sögulegu efni. Sagnfræðingur spyr spurninga, leitar hinna mögulegu skýringa og svara í heimildum sínum og tekur síðan afstöðu til þeirra. Þór veltir upp miklu söguefni að hætti blaðamanns en stoppar þar og eftirlætur lesendum að draga ályktanir.
En blaðamennska Þórs Whitehead er pólitísk, og stöku sinnum kemur hann með almennar "upplýsingar" sem í reynd eru pólitískt merktar túlkanir:
"Stalín mælti einnig svo fyrir að Alþjóðasamband kommúnista skyldi virkjað gegn Bandamönnum ... Á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga ... Ráðstjórnin og Komintern höfðu afturkallað boðskapinn um samfylkingu gegn fasisma og fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu""(bls. 60-61).
Að sögn Þórs bergmálaði þessi nýja stefna Stalíns og Kominterns strax í málflutningi kommúnista á Íslandi. Sem dæmi um það tilfærir hann brot úr grein eftir Halldór Laxness og túlkar hana á sinn hátt. Hann segir hana vitnisburð um að kommúnistar hér hafi strax þóst skilja hver væri "dulinn tilgangur Stalíns" með hinni nýju stefnu:
"Samfylking gegn fasisma" var úrelt orðin, því sáttmáli við Hitler, óvin siðmenningarinnar, þjónaði betur hagsmunum heimsbyltingarinnar ... Herjum Bandamanna og Þjóðverja blæðir út í langvarandi stríði, en Sovétríkin færa út landamæri sín í vesturátt og vígbúast í friði ... Í stað þess að haltra til framtíðarríkisins í hægfara samfylkingu gat óskadraumurinn um frelsun alþýðunnar þá ræst um alla álfuna, eins hratt og skriðdrekar hinnar stórkostlegu fimm ára áætlunar fengju sótt fram vestur á bóginn" (bls. 65).
Ofangreindar tilvitnanir og túlkanir draga upp eftirfarandi mynd: Í fyrsta lagi voru Stalín og Hitler bandamenn á þessu tímabili. Í öðru lagi hafði Stalín 1939 dulin plön um sórkostlega sókn vestur á bóginn. Í þriðja lagi gat Stalín, þegar honum hentaði, skipað fylgismönnum sínum á Íslandi sem annars staðar að gerast bandamenn fasista gegn sameiginlegum óvini beggja: lýðræðinu. Þeir hlýddu. Og þannig var línan fram á sumar 1941 þegar Hitler óforvarandis réðist á Stalín. Þá gerðust kommúnistar aftur andfasistar en svo langt nær raunar ekki bókin Milli vonar og ótta.
Hér má lesa greinar eftir ÞÓRARIN HJARTARSON um þjóðfélagsmál úr mismunandi miðlum frá og með 2009 (bloggsíðan stofnuð 2012). Um yfirgang og hernaðarstefnu heimsvaldasinna og andófið gegn þeim. Um framrás hnattvædds kapítalisma og viðnámið gegn honum. Um aðkallandi verkefni verkalýðshreyfingarinnar. Um sögu og framtíð sósíalismans. Í febrúar 2017 eru greinarnar orðnar 134.
Showing posts with label fjármálavæðing. Show all posts
Showing posts with label fjármálavæðing. Show all posts
Monday, September 22, 2014
Saturday, August 9, 2014
Kreppa auðvaldsskipulagsins
(ræða flutt á ráðstefnu Rauðs vettvangs 10. október 2009, birtist á eggin.is og this.is/nei í nóvember sama ár)
1. Um orsakir kreppunnar
• Sjálfstæðisflokkurinn segir: Hugmyndafræðin og efnahagsstefnan var góð en einstaklingarnir brugðust. Þeir menn yfirtóku því miður sviðið, sem amma Davíðs Oddssonar nefndi „óreiðumenn“.
• Þorvaldur Gylfason segir: Einkavæðingin var vitlaust framkvæmd, enda framkvæmd af spilltri stjórnmálastétt.
• Jóhanna og Steingrímur segja: Það var efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins sem gaf græðginni lausan tauminn og þar með tók græðgin völdin í landinu. En með vinstri menn við stjórnvölinn og með auknu eftirliti má laga kerfið á ný og byggja hér norrænt velferðarkerfi..
Til að byrja með aðeins um græðgina. Það er alveg út í hött að kenna græðginni um kreppuna. Græðgin, gróðasóknin er eina driffjöður kapítalismans. Þar með er hún innsta eðli hans og fjöregg. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Að kenna græðginni kreppuna er eins og að segja að bílslys hafi stafað af því að vél var í bílum.
Kreppuskýringar þessa fólks sem ég vísaði til eiga það sameiginlegt að hafa mjög takmarkað sjónarhorn og fókus. Þau segja öll: Þetta var klúður. Þau segja líka öll, nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta var séríslenskt klúður og hálfvitagangur. Rangir aðilar fengu að ráða ferðinni í fjármálakerfinu og stjórnkerfinu.
Það er ekki séríslenskt að kalla kreppuna klúður. Í hverju landinu af öðru má sjá skýringanna leitað í hagstjórnarmistökum stjórnvalda. Enda hafa fjölmargar ríkisstjórnir ýmist hrökklast frá völdum eða sitja nú við litlar vinsældir og bíða kosninga.
Marxista, hins vegar, dettur ekki í hug að kenna neinu klúðri um yfirstandandi kreppu. Það dygði ekki til, nánast hvar sem væri í hinum kapítalíska heimi, jafnvel þótt eintóm fjármálaséní væru í ríkisstjórn, þá gætu þau ekki stýrt framhjá kreppunni. Hér er nefnilega um að ræða kerfiskreppu, þjóðfélagsskipan í kreppu.
Sunday, January 20, 2013
Goldman Sachs & ‘Masters of the Eurozone‘
(birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 19. janúar 2013)
Goldman Sachs er fjármálaráðgjafi fyrir nokkur ráðandi fyrirtæki heims, nokkur voldugustu stjórnvöld heims og auðugustu fjölskyldur. Fjármálafyrirtækið er megingerandi á verðbréfamarkaði bandaríska fjármálaráðuneytisins.
Í apríl 2010 hóf bandaríska fjármálaeftirlitið (Securities and Exchange Commission) málsókn gegn Goldman Sachs fyrir að hafa blekkt viðskiptavini sína í undirmálslána-hneykslinu svokallaða. Goldman Sachs hjálpaði grísku ríkisstjórninni árið 2001 við að fela skuldir Grikklands svo að landið liti út sem hæfur kandídat til að taka upp evru.
Einhver skyldi halda að fjárfestingabanki með slíka sögu hefði misst áhrif sín eftir bankahrunið 2008 og síðan evrukreppuna. Svo er þó ekki. Menn nátengdir Goldman Sachs sitja eða hafa undanfarin misseri setið í lykilstöðum í ESB-batteríinu og í toppstöðum í sjö löndum á evrusvæðinu, sem forsætisráðherrar og seðlabankastjórar. Ýmist hafa þeir farið úr pólitískum valdastöðum til bankans eða úr bankanum til pólitískra valda. Þessum hrókeringum er mjög stjórnað beint frá stjórnstöðvum ESB og klúbbum fjármálavaldsins en þær fara hins vegar að miklu leyti fram yfir höfðum þjóðþinga og þjóðkjörinna stofnana. Og stefnu þessa býrókratíska valds gagnvart skipulegri verkalýðshreyfingu hef ég áður lýst í grein.
Hér að neðan má sjá „drengjaklúbb Goldman Sachs" sem á undanförnum árum hefur setið marga hæstu valdastóla í evrópskum fjármálum og stjórnmálum. Samantektin er sótt í rúmlega ársgamla grein í The Independent:
Mario Draghi. Ítalíu.
Forseti Evrópska seðlabankans (höfuðstöðvar í Frankfurt). Áður bankastjóri Seðlabanka Ítalíu og framkvæmdastjóri Goldman Sachs International.
Otmar Issing, Þýskalandi.
Var í yfirstjórn Evrópska seðlabankans 1998-2006 og áður í stjórn þýska Bundesbank. Einn af arkítektum evrunnar. Nú ráðgjafi hjá Goldman Sachs.
Mark Carney, Englandi
Yfirbankastjóri Bank of England. Áður bankastjóri Bank of Canada og framkvæmdastjóri í Goldman Sachs.
Lucas Papademos, Grikklandi
Forsætisráðherra Grikklands 2011-12. Fyrrum bankastjóri Seðlabanka Grikklands á þeim tíma er skuldir Grikklands voru lækkaðar á pappírnum með hjálp Goldman Sachsárið 2001 (til að undirbúa upptöku evru í Grikklandi 2001) og aftur síðar. Síðar var hann varaforseti Evrópska seðlabankans þar til hann varð forsætisráðherra 2011.
Petros Christodoulou. Grikklandi
Yfirmaður skiptastjórnar þeirrar sem stjórnar nú skuldum gríska ríkisins. Hóf frama sinn innan Goldman Sachs í London og Kanada.
Mario Monti, Ítalíu
Forsætisráðherra Ítalíu. Áður í Framkvædastjórn ESB og síðan alþjóðlegur ráðgjafi hjáGoldman Sachs.
Antonio Borges, Portúgal/Frakklandi
Stjórnar nú einkavæðingunni í Portúgal í samvinnu við „Þríeykið" (Evrópska seðlabankann, Framkvæmdastjórnina og AGS). Var fram til 2011 yfir Evrópusviði AGS og þar áður varaforseti Goldman Sachs.
Peter Sutherland, Írlandi
Framkvæmdastjóri í Goldman Sachs International. Áður Ríkissaksóknari á Írlandi og fulltrúi Írlands í Framkvæmdastjórn ESB
Samantektin sýnir m.a. þrennt: 1) að fjármálaauðvaldið hefur ekki veikst þrátt fyrir fjármálakreppuna, fjármálavæðingin heldur áfram og „2007" varir enn, 2) í öðru lagi sést mikið nábýli stjórnmálaheimsins og fjármálaheimsins, jafnt í Evrópu sem Bandaríkjunum og 3) loks sýnir þetta hin nánu tengsl á efsta plani auðs og valds milli ESB og USA þar sem sá síðarnefndi er stóri bróðir. /ÞH
Saturday, November 10, 2012
Fjármálavæðingin og móthverfur kapítalismans
(Birtist á eggin.is 13. ágúst 2010)
Í áramótaávarpi
sínu sagði Jóhanna Sigurðardóttir
m.a.: „Hugmyndir eru máttugar, bæði til góðs og
ills…. Þannig hefur sú hugmynd leikið okkur grátt að gróði og arður til
hluthafa sé helsta stýriafl og drifkraftur fyrirtækja.“ Hún talaði eins og þetta væri hugmynd sem hefði nýlega orðið til á
Íslandi, í aðdraganda hrunsins og hefði svo leitt til hrunsins. En hún var í
raun að lýsa hversdagslegri hegðun dæmigerðustu kapítalista um heim allan.
Eldri samfélög
manna framleiddu út frá þörfum sínum, út frá notagildi framleiðslunnar. Aftur á
móti eru það sögulelgar forsendur auðvaldsskipulagsins að kapítalistinn
framleiðir fyrst og síðast til að græða peninga. Hann horfir ekki á notagildi
framleiðslunnar heldur skiptagildi hlutanna, markaðsgildi þeirra, af því hann
framleiðir vörur fyrir markað. Vöruframleiðslan er kjarni auðvaldsskipulagsins
og varan er grunneining (fruma) þess, samkvæmt skilgreininu Karls Marx.
Fókus auðherrans á peningana hefur orðið
eindregnari í tímans rás. Í upphafi iðnaðarkapítalismans var var auðherrann gjarnan
uppteknari af framleiðslunni sem slíkri og hægfara uppbyggingu fyrirtækis en
með þróun hlutabréfamarkaða urðu peningarnir eina áhugasvið hans. Hvað
framleitt er skiptir hann þá litlu máli. Í þessum forsendum liggja spírur
kreppunnar. Marx orðaði það svo:
„Framleiðsluferlið er
fyrir kapítalistann aðeins óhjákvæmilegur milliliður, ill nausyn til að hann
geti grætt peninga. Allar auðvaldsþjóðir eru þess vegna á tímabilum undirlagðar
örvæntingarfullum tilraunum til að græða peninga án þess að leggja leið gegnum
framleiðsluferlið.“ (Capital, volume II, bls. 58, Moskva 1971)
Móthverfan milli framleiðslukerfis
(raunhagkerfis) og fjármálageirans er ein af mörgum móthverfum kapítalismans. Hún
birtist t.d. þannig að framleiðslugreinar flytjast burt frá þróuðum (vestrænum)
auðvaldslöndum en á móti kermur vöxtur fjármálageirans þar. Fjármálageirinn
tekur til sín sístærri hluta af sameiginlegum gróða efnahagaskerfisins, ekki
síst á kostnað framleiðslugeirans. Hin gríðarlega þensla fjármálageirans er mesta
og mikilvægasta breyting sem orðið hefur á kapítalismanum á síðustu 3-4
áratugum. Þetta nefna ýmsir, m.a. margir marxistar, fjármálavæðingu. Móthverfan
bistist einnig þannig að gömul og gild fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu háþróaðra
auðvaldsríkja verða að eignarhalds- og fjárfestingarfélögum. Það að fjárfesta
og eiga verður aðalverkefni þeirra í stað framleiðslu og rekstrar. Dæmi um
slíkt úr íslensku efnahagslífi eru fjárfestingafélagið Exista, sem þróaðist upp
úr fiskvinnslufyrirtækinu Bakkavör og varð svo stærsti eigandi í Kaupþingi
banka. FL group og seinna Stoðir voru fjárfestingarfyrirtæki sem þróuðust upp
úr flugrekstrarfélaginu Flugleiðum.
Samkvæmt Wikipediu er fjármálavæðingin fólgin í „..vaxandi
yfirdrottnun fjármálageirans í efnahagslífinu í heild…, drottnunarstöðu
verðbréfa á markaði og hlutabréfa meðal heildarfjármagnseigna, yfirráðum
hlutabréfamarkaðarins yfir fyrirtækjum…“ Annað einkenni fjármálavæðingar er
sprengjukenndur vöxtur einkaskulda sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Sístækkandi
hluti af efnahagskerfum heims gengur fyrir lánum og skuldum.
Ofangreind móthverfa
er ekki sú eina í efnahagskerfinu enda er auðvaldskerfið allt krossprungið af
innri móthverfum. Hún er ekki heldur sú mikilvægasta. En á ríkjandi
þróunarstigi, við ríkjandi
fjármálavæðingu, er þessi móthverfa mikilvæg og verkar á margar aðrar.
Ein mikils
háttar móthverfa er sú á milli hraðvaxandi afkastagetu framleiðslukerfisins og
kaupgetu þegnanna sem vex miklu hægar. Í þessari móthverfu liggur grunnurinn að
þeirri krepputilhneigingu auðvaldskerfisins sem sífellt vofir yfir því og á
tímabilum ríður því eins og mara. Ýmsir spekingar – hagfræðingar sem aðrir –
tala um fjármálavæðinguna sem orsök núverandi kreppu. Aðrir benda á
nýfrjálshyggjuna. Það er misskilningur. Orsakir kreppunnar liggja í nokkrum
eðlislægum móthverfum kerfisins, ekki síst þeirri sem hér var nefnd.
Frjálshyggjubyltingin kringum 1980 var hugmyndafræðileg viðbrögð auðstéttarinnar
við samdrætti og lækkandi arðsemi fjárfestinga þegar svonefnd „gullöld“
eftirstríðsáranna var liðin hjá. Fjármálavæðingin var viðbrögð við hinu sama. Af
þessum tveimur systrum var fjármálavæðingin djúptækari af því hún fól í sér
breytingu á efnahagskerfinu á meðan frjálshyggjan er hugmyndafræðilegs eðlis. Hvorug
þeirra systra er nýfædd – þær hafa báðar lengi gegnt hlutverki í kapítalismanum
– en vöxtur þeirra felur í sér áherslubreytingar og formbreytingar í auðvaldskerfinu.
Fjármálavæðingin
er afleidd beint af áðurnefndri móthverfu milli afkastagetu og kaupgetu: Þegar
eftirspurn þegnanna dregst saman eða hefur ekki undan hraðvaxandi afkastagetu
er hægt að halda henni uppi með því að bjóða þegnunum lán – vafninga, afleiður,
kúlulán… Fjármálageiri nútímans byggist á að hirða gróða beint af persónulegum
tekjum vinnandi fólks og annarra samfélagsþegna, gegnum lán, vexti, þóknanir og
gjöld. Þetta þenur út markaðinn tímabundið en til lengdar kemur þetta niður á
kaupgetu þegnanna og skerpir umrædda móthverfu enn frekar.
Þenslan var fyrst
og fremst rekin áfram af græðgi fjármálaauðvaldsins. Á þensluárunum eftir
aldamótin 2000 tók við villt spákaupmennska – þetta sem Marx í fyrrnefndri
tilvitnun kallaði „örvæntingarfulla tilraun til að græða peninga án þess að
leggja leiðina gegnum framleiðsluferlið.“ Til varð bóla – á hefðbundnum sviðum:
á hlutabréfamarkaði og á húsnæðismarkaði. Hún var drifin áfram á uppskrúfuðum
væntingum og skuldsetningu – lengra en svo að nokkur von væri um endurgreiðslu.
Tryllt lánaþenslan endaði svo óhjákvæmilega á að reka fjármálakerfin fram af
hengifluginu.
Fjármálavæðingin
er sem sagt tilraun auðvaldsins til að þenja út markaðina. Hún er hugsuð sem
úrlausn úr vanda efnahagslegs samdráttar. Hún getur skapað tímabundna þenslu. En
kaup og sala á hlutabréfum og skuldavafningum skapa engin verðmæti. Eins og
aðrar greinar efnahagslífsins lifir fjármálageirinn einvörðungu af verðmætasköpun
þess launafólks sem vinnur framleiðin störf. Þensla fjármálageirans er merki um
að stig arðráns á því fólki hafi hækkað, og afætum fjölgað. Í stað þess að leysa vanda auðvaldsins
skerpir fjármálavæðingin krepputilhneigingu kerfisins. Tilraunir auðvaldsins
til að búa til peninga úr loftinu takast ekki til lengdar. Fjármálakreppan síðan
2008 staðfestir það. Í stað þess að leysa vandann skerpir fjármálavæðingin
krepputilhneigingu kerfisins.
Loks er að nefna
það að fjármálavæðingin opinberar og skerpir mikilvægustsu móthverfu
kapítalismans – á milli félagslegs eðlis framleiðslunnar og einkaeignar
á framleiðslutækjum. Í fyrsta lagi fylgir fjármálavæðingunni meiri samþjöppun
eigna og auðmagns en nokkru sinni áður – innan einstakra landa og ekki síður á
heimsvísu gegnum hnattvæðinguna. Auðhringarnir stækka hratt. Yfirþjóðlegar
stofnanir (AGS, Heimsviðskiptastofnunin, OECD, NATO..) taka að sér meira og
meira vald til að reyna að hemja stjórnleysi markaðarins – og hefta sjálfstæði
þjóðríkja. Það sést jafnvel vísir að einni alheimsstjórn þrátt fyrir samkeppni
einstakra eininga. Hins vegar birtist í fjármálavæðingunni morgunljóst og skýrt
afætueðli austéttarinnar. Einmitt í fjármálavæðingunni kemur stéttin nakin fam:
sem gráðug og spillt þjóðfélagsstétt sem mergsýgur fólk og náttúru.
Samfélagslega nytjalaus skepna. Sú var tíðin að borgarastéttin var kennd við
sparsemi og meinlætalifnað. En það var á 17 og 18. öld. Nú hefur stéttin svipuð
afætu- og úrkynjunareinkenni og franski aðallinn í aðdraganda frönsku
byltingarinnar.
Ég skrifaði
bækling um fjármálavæðinguna á Íslandi (Fjármálavæðingin
á Íslandi. Dæmigerð þróun frekar en undantekning). Það sem bæklingurinn
sýnir er tvennt: Annars vegar að íslenska þróunin er í fyllsta samræmi við
ríkjandi þróunarstefnu vestræns kapítalisma. Hins vegar að sú þróun sprettur
beint af innbyggðum móthverfum auðvaldskerefisins. Þessar tvær niðurstöður mæla
sterklega gegn ríkjandi skýringu á fjármálakreppunni, nefnilega þeirri að
kreppan sé „séríslenskt klúður“. Að baki kenningunni um „séríslenska klúðrið“
búa nokkrar aðrar kenningar og meginályktanir.
a) af því kreppan á Íslandi stafaði af
mannlegum mistökum er hún auðvaldskerfinu óviðkomandi.
b) hún varð vegna óskynsamlegrar
efnahagsstjórnar, með skynsamlegri stjórn í landinu má komast hjá kreppum.
c) Auðstéttin skal áfram ráðskast með
atvinnutækin, en hún þarf bara að standa sig betur.
d) Brýnasta verkefnið er að endurreisa
fjármálakerfið. Svo brýnt er það á alþjóðlega vísu að það opinbera fé sem dælt
hefeur verið inn í bankakerfið í Bandaríkjunum, Bretlandi og evruríkjunum frá
2008 nemur 14.000 milljörðum dollara. Það mun tilsvara ¼ af vergri
þjóðarframleiðslu allra landa heims.
Auðvaldskreppur hafa
oft reynst tími endurmats – ekki síst hjá auðstéttinni sjálfri. Í kreppunni á
4. Áratugnum fæddist Keynesisminn, sem tók stefnu á skynsemisstýrðan
velferðarkapítalisma. Eftir samdráttinn á 8. áratugnum kenndan við olíukreppu
fæddist pólitísk bylting
nýfrjálshyggjunnar – og samtímis því byrjaði fjármálavæðingin. En í núverandi
kreppu hefur ekki verið fitjað upp á neinu nýju svo séð verði. Nýsköpunin í
hagstjórn og þjóðfélagsmálum er jafnlítil hvort heldur menn tala út um hægra
eða vinstra munnvikið. Það undirstrikar væntanlega sögulegt úrræðaleysi
auðstéttarinnar, þótt auðvitað sé of snemmt að afskrifa alveg andans getu
hennar.
Monday, November 5, 2012
Þjóðfélagsskipan í kreppu
(birtist á marxismi.com apríl 2009 og eggin.is ágúst 2009)
Hannes Hólmsteinn Gissurarson finnur orsakir
núverandi kreppu í einu tæknilegu atriði, bandarískum húsnæðismálasjóðum (með
upphaf í efnahagsstefnu Clinton-stjórnarinnar) sem veittu undirmálsfólki
undimálslán (sjá hannesgi.blog.is – leitið
að orðinu „undirmálslán“). Óstjórn, vanhæfni og spilling íslenskra ráðamanna er
orsökin segja aðrir. „Spillt stjórnmálastétt“ segir Þorvaldur Gylfason.
Gamaldags, borgaralegir og íhaldssamir umbótasinnar eins og Ragnar Önundarson
greina á milli „féfletta“ sem stunda spákaupmennsku af fíkn og „alvöru
fjárfesta“, og segir að þeir fyrrnefndu hafi orðið ofan á eftir aðsteðjandi
sókn frjálshyggjunnar fyrir áratug eða rúmlega það. Þingmenn VG taka undir
þetta og kenna um hægrisinnaðri stjórnarstefnu, „eftirlitslausu ríkisvaldi
frjálshyggjunnar“. Þeir bæta við að með því að kjósa vinstristjórn megi
endurbæta auðvaldskerfið, sníða af því vankanta og smyrja legur og reka það
síðan sem skynsamlegan kapítalsima eða „blandað hagkerfi“, laust við stjórnleysi
markaðarins, og væntanlega laust við bæði kreppur og misrétti. Þeir benda á
Skandinavíu og vísa stundum í breska hagfræðinginn John M. Keynes. Loks koma
prestar og siðapostular og tala um „græðgisvæðingu samfélagsins“ sem skýringu á
ofvexti bankanna og vilja hefðja almenna siðvæðingu. Engin þessara skýringa
leitar orsakanna í grundvellinum sem undir býr, í hagkerfi og þjóðfélagsskipan
auðvaldsins.
Subscribe to:
Posts (Atom)