Showing posts with label wahhabismi. Show all posts
Showing posts with label wahhabismi. Show all posts

Friday, January 8, 2016

Vestrið og gerfistríðið við ISIS

(birtist á fridur.is 7.jan 2016)


Vestræn herveldi ráðast nú hvert af öðru inn í Sýrland til að „berjast við ISIS“. Nú er endurvakið það „stríð gegn hryðjuverkum“ sem Bandaríkin og NATO skrifuðu á stríðsfána sína eftir 11. september 2001 og réðust í framhaldinu á Afganistan og Írak. Margt er líkt. Fyrirbærið ISIS er einmitt af sama meiði og fyrirbærið Al Kaída: Islömsk hryðjuverkasamtök af stofni Súnnía. ISIS hétu upphaflega Al Kaída í Írak. Líkt og Al Kaída láta þau nú til sín taka í mörgum löndum í Asíu og Afríku.
Þessi hernaður vestrænna ríkja í Sýrlandi er í óþökk ríkisstjórnar landsins, vestrænir leiðtogar og bandamenn þeirra taka mjög skýrt fram að þeir muni ekki vinna með því afli sem öðrum fremur hefur þó sýnt árangur í að uppræta ISIS á svæðinu, þ.e. Sýrlandsher.
Vestrænar íhlutanir og hryðjuverk hanga saman
Jafnvel í vestrænni fréttaveitu er sú staðreynd nokkuð viðurkennd að íslamskir hryðjuverkahópar og jíhadistar – bæði Al Kaída, ISIS og fleiri slíkir – hafi einkum sprottið og gróið úr innrásum og íhlutunum vestursins á hinu íslamska svæði frá Mið-Asíu til Norður-Afríku eftir að „stríð gegn hryðjuverkum“ hófst. Þetta má staðfesta með því að ganga á röðina.
Írak: Fyrir innrás „hinna viljugu“ 2003 var Al Kaída ekkert afl í Írak. Upp úr innrásinni og hernáminu uxu samtökin úr grasi, hétu fyrst Al Kaída í Írak, svo ISI. Hlutverk þeirra í stríðinu varð að vekja trúarbragðadeilur innan Írak og veikja þar með samstöðuna og viðnámið gegn hinni vestrænu innrás. Hryðjuverkasamtökin fluttu svo meginstarfsemi sína 2011 yfir landamærin til Sýrlands þegar vestrænt studd uppreisn hófst þar, uxu þá eins og arfi á mykjuhaug og urðu smám saman höfuðaflið í þeirri uppreisn. Árið 2014 voru þau orðinn stór, ríkulega útbúinn her og kölluðu sig ISIS/ISIL. Líbía: Al Qaeda var ekki neitt neitt í Líbíu fyrr en með hinni vestrænt studdu uppreisn og lofthernaði NATO gegn landinu 2011. En eftir íhlutunina er landið orðið að miðstöð íslamskra hryðjuverkahópa alls konar sem sendir vopn og vígamenn í allar áttir. Framantalin dæmi gefa skýra mynd: Eftir vestrænar íhlutanir standa viðkomandi lönd í upplausn, sundurtætt af trúardeilum þar sem íslamskir vígamenn gera sig gildandi umfram aðra. Hryðjuverkahóparnir gréru og blómstruðu við þær aðstæður sem ihlutanirnar skópu. Þetta vitum við og þurfum ekki að deila um. Afganistan er aðeins flóknara dæmi. Sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton , viðurkenndi (2009) berum orðum hinn stóra þátt bandarískra strategista í því að skapa Al Kaída og slíka íslamska hryðjuverkahópa þegar hún sagði: „þeir sem við berjumst við núna kostuðum við fyrir 20 árum“ til að berjast við Sovétherinn í Afganistan.https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=xd0fLAbV1cA Í því stríði gegndu þessir íslömsku hryðjuverkahópar mikilvægu staðgengilshlutverki fyrir vestræna heimsvaldastefnu, fjármagnaðir og vígbúnir einkum annars vegar af CIA og hins vegar af Sádi-Arabíu. Í seinna Afganistanstríðinu hafði Al Kaída hins vegar aðeins það hlutverk að réttlæta innrás USA og NATO-veldanna í landið, svo var því hlutverki lokið og þau hurfu að mestu úr sögunni. Í viðtali nýlega viðurkenndi Hamid Karzai – sem var yfirverkfæri Bandaríkjanna og NATO eftir innrásina – að Al Kaída sé kannski mýta og hann, forseti landsins 2004-2014, hafi a.m.k. aldrei séð neinar sannanir fyrir tilvist þeirra í Afganistan. http://www.theguardian.com/us-news/2015/sep/10/hamid-karzai-al-qaida-myth-september-11-afghanistan

Monday, November 30, 2015

Forsetinn um Sáda og ISIS - mjög gott og minna gott

(birtist í Fréttablaðinu og Vísi 27. nóvember 2015)
Ólafur Ragnar Grímsson hefur eftir ódæðin í París varað við afskiptum Sádi-Arabíu af trúmálum á Íslandi, „ríki sem fóstrað hefur öfgakennt íslam og þær sveitir sem hafa lagt til atlögu gegn vestrænni siðmenningu… Þessi ákvörðun erlends ríkis að fara að skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi á sama hátt og það hefur gert vítt og breitt um veröldina… er áminning til okkar Íslendinga að við verðum að hefja nýja umræðu“ og barnalegt sé að leysa megi málið með „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta.“ 

Hann nefndi þó nafn ríkisins fyrst nokkrum dögum síðar: „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem ræktuð hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni öfgafullu útgáfu af íslam.“
Ýmis viðbrögð við þessum viðtölum eru fróðleg. Baldur Þórhallsson prófessor segir að orð forsetans „ali á andúð í garð múslima“. Guðmundur Andri Thorsson skrifar að: „Forseti Íslands mætti minnast þess að hann er líka forseti innflytjendanna… Og það er rangt að taka sérstaklega út eina tegund öfgamanna og segja þá hættulegri en aðra.“ Um þetta segi ég tvennt.
A) Forsetinn er algjörlega maður orða sinna í því sem hann segir um stefnu Sádi-Arabíu. Þá stefnu má kenna við olíuimperíalisma, sambrædda efnahagslega og trúarpólitíska heimsvaldastefnu. Sádar heyja nú blóðugt innrásarstríð gegn Jemen, þeir hafa – ásamt fleiri Persaflóaríkjum, og Tyrklandi – verið helsti bakhjarl hryðjuverkaherja í stríðunum í Líbíu og Sýrlandi. Þeir eru helstu kostunaraðilar, og líka hið hugmyndafræðilega bakland, bæði við ISIS og Al Kaída og þeir standa á bak við hryðjuverkahreyfingar í Keníu, Nígeríu og Malí. 

Þeir ausa peningum á báðar hendur til að styrkja eigin útgáfu af bókstafstrú, loforðið um 135 milljónir til moskubyggingar í Reykjavík er bara lítið en lýsandi dæmi um þetta ágenga „trúboð“: moskur, kóranskólar, bækur og bæklingar sem eiga að treysta efnahagsveldið. 

Ólafur Ragnar gerði skýran greinarmun á íslam og „hinni öfgafullu útgáfu af íslam“ og það er mikilvægt. Ríkistrú Sáda er gjarnan kennd við Wahhabisma eða Salafisma. Sá mannsskilningur og samfélagssýn fótum treður allt það besta í húmanisma síðari tíma, ekki síst í menningu múslima. Hann er eins konar fasismi á trúargrunni sem kallar á alræðislegt, ofbeldisfullt ríkisvald. Hann er blettur á íslam. Það er hættuleg og „barnaleg einfeldni“ að láta hann fylgja með í því sem við eigum að undirgangast í nafni „fjölmenningar“. Heiður sé Ólafi Ragnari að tala skorinort um þetta.

B) En Ólafur sleppti mikilvægri hlið málsins: Að tengja ISIS við vestræna hernaðarútrás til Miðausturlanda, og eins hitt að Sádi-Arabar (þar með ISIS) eru bandamenn USA/NATO og þar með bandamenn okkar. Hann benti á það sem ráð í stöðunni að Bandaríkin, Frakkland og Rússland fari saman í einhvers konar herför gegn ISIS, sem er dauð óskhyggja. Bandaríkin (Bretar áður) og Sádi-Arabía hafa lengi myndað gagnvirkt bandalag: Sádar tryggja Sam aðgang að olíusvæðinu mikla, Sam tryggir Sádum vernd og aðgang að hinum góða félagsskap. Sádi-Arabía er tannhjól í valdakerfi Vestursins, sérstaklega mikilvægt handbendi bandarískrar heimsvaldastefnu.