Sunday, July 8, 2018

Flokkur og samfylking. Ráð Brynjólfs Bjarnasonar                                                      Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratauga baráttu
Ris og hnig í stéttabaráttunni
Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum... Í harðvítugum verkföllum og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega. Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og inngöngunni í NATO.
Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og hætti afskiptum af stjórnmálum.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu slík umskipti?

Frá verkalýðsflokki til kosningaflokks
Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970:  „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar... einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað 1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega fullnustaður 1968.
Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við stofnuðum til á sjötta áratugnum... Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru ekki nægilega ljós“ (57).
Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli. Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.

Árið 1962
Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt.

Saturday, May 5, 2018

Elías um ellefta september: Tíu punktar um yfirhylmingu

(birtist á síðunni Stríðið í Mið-Austurlöndum 5. maí 2018)


Hafandi fersk í minni tvö ný hryðjuverk með sterk einkenni sviðssetninga – eiturárásina á Skripal feðginin og „eiturárásina“ nýju í Douma – sem báðar þjóna stríðsrekstri Vestursins í Miðausturlöndum og vígvæðingunni gegn Rússum er rík ástæða til að rifja upp hryðjuverkið mikla 11. sept 2001 sem  var upphafsatriði „stríðsins gegn hryðjuverkum“ sem BNA og NATO lýstu yfir í kjölfarið og hefur síðan geysað og sett Stór-Miðausturlönd á hliðina og skapað flóttamannavandann...


Í meðfylgjandi grein lýsir Elías okkar Davíðsson í 10 punktum eftirmálum atburðarins. Hann bindur sig fyrst og fremst við réttarfarslega meðferð glæpsins (bæði refsiréttar- og þjóðréttarlega) – og sýnir að hún hefur stórum meiri einkenni yfirhylmingar en einkenni afhjúpunar og upplýsingar.


Fyrstu punktar Elíasar einir og sér sýna ærna annmarka: Að stjórnvöld BNA hafi ekki ekki sótt til saka nokkurn mann fyrir glæpinn, hvorki fangana í Guantánamo né aðra. Að stjórnvöld BNA og forusta NATO hafi ekki, þegar þau réðust á Afganistan mánuði eftir glæpinn og hófu „stríðið gegn hryðjuverkum“, lagt fram nein göng sem tengdu Afganistan við hryðjuverkið, og ekki gert það síðar heldur. Að stjórnvöld BNA skuli jafnvel ekki hafa saksótt Osama bin Laden, FBI m.a.s. viðurkennt að sig skorti ‘hard evidence connecting Bin Laden to 9/11”.
Þessi málsmeðferð á það sameiginlegt með málsmeðferð kringum hin nýfrömdu hryðjuverk að sönnunargögn málanna hverfa í dularfullt myrkur og eru algert aukaatriði í orðræðunni, en þeim mun meira er fjölmiðlafárið sem frá fyrsta degi er leikstýrt í einn farveg stríðsæsinga. Sjá grein Elíasar.

Monday, April 30, 2018

Að hafna olíudollarnum getur kostað innrás

(birtist á fésbók SHA 30. apríl 2018)


Í olíukreppunni snemma á 8. áratug gerðu BNA samning við Sádi-Arabíu. Þau skyldu kaupa olíu sína af Sádum og sjá þeim í staðinn fyrir vopnum (og brátt herstöðvum). Sádar skyldu nota stöðu sína í OPEC til að halda olíuverði niðri og tryggja að öll olía skyldi keypt GEGN DOLLURUM. Olíudollara sína skyldu Sádar (og OPEC-lönd) binda í Bandaríkjunum með kaupum á bandarískum ríkisskuldabréfum. Auk þess: lönd sem kaupa olíu þyrftu þar með að skaffa sér dollara svo að dollarinn varð ríkjandi gjaldmiðill heimsviðskipta. BNA gátu nú safnað skuldum og Alríkisbankinn gat prentað endalaust af dollar án þess að gengi hans félli, vitandi að alltaf er eftirspurn fyrir hendi, og gat þannig fjármagnað ævintýralegan ríkisfjárhallann. Olíudollarinn er hornsteinn undir hnattrænni valdastöðu Bandaríkjanna. Ríki sem hóta að hundsa olíudollarakerfið eru ekki tekin silkihönskum (m.a. Írak, Líbía og reyndar Sýrland). Enda: ef olíudollarakerfið hrynur er hætt við að skuldasprengja BNA springi. Hlustið á grátt gaman Lee Camp:

Rússar mæta í Hag með Douma-vitni

(birtist á Fésbók SHA 27. apríl 2018)


Rússar mæta í Hag með slatta af vitnum frá Douma. Með nokkur af fórnarlömbum umræddrar klórgas-árásar (vitni sem eru á hinum heimsfrægu fréttamyndum) og lækna og starfsfólk af þessari bráðavakt sem er sú eina í Douma. Þeir vitna um að á bráðavaktina hafi hafi komið fólk í andnauð og jafnvel með reykeitrun vegna brennandi húsa og sprengjuryks í nágrenninu. Síðan hafi Hvíthjálmar skyndilega mætt á svæðið og skapað panikk með ópum um eturvopnaárás og tekið myndir og sprautað vatni á fólk. Enginn hafi hins vegar sýnt merki um gaseitrun þann dag. Þetta er t.d. í samræmi við það sem Robet Fisk skrifaði í Independent en hann var fyrsti vestræni blaðamaður til að gefa rapport frá vettvangi.
"Fréttamyndir" Hvíthjálma nægðu hins vegar fyrir BNA, Breta og Frakka til árásar. Hana þurfti „nauðsynlega“ að gera ca. sólarhring áður en OPCW-rannsóknarnefndin komst inn á svæðið til að sannreyna merki um eiturgas. Íslenska ríkisstjórnin sýndi árásinni „skilning“ af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“ en skv. Stoltenberg  NATO-leiðtoga var hún „studd“ af öllum NATO-ríkjum, Íslandi líka. Já, áður en vettvangur var rannsakaður.
Þetta tekur sig illa út fyrir íslensku ríkisstjórnina, ef sannanir skipta yfir höfuð máli. En þær gera það líklega ekki. Í meginstraumsfjölmiðlum gildir að „taka sviðið“ á fyrsta degi og koma tilætlaðri frétt út. Ef hún einhvern tíma í framtíðinni verður borin til baka verður það ekki gert með neinum lúðrablæstri. Árangri náð.

Eins er með Skripal-málið. Við tökum þátt í refsiaðgerðum NATO-ríkja gegn Rússum af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“. Jafnvel þó Boris Johnson sé staðinn að lygum um að sérfræðingar Porton Down hefðu „sannað“ uppruna eitursins. Jafnvel þó engar sannanir séu bornar fram. Ekki þarf sannanir af því nú krefst NATO þess að allir standi saman. Ísland hafnar ekki slíkum kröfum. Og Skripal-málið var líka nauðsynlegur undanfari loftskeytaárásar.

Sviðssetningar og vestræna bræðralagið

(birtist á Neistar.is 7. apríl 2018)
                                                                     Sergei Skripal


Þessi grein var send á Vísir.is fyrir 10 dögum en ekki birt. Það sem síðan hefur einkum gerst er að breski utanríkisráðherrann, Boris Johnson, er staðinn að ósannsögli. Hann hafði fullyrt að vísindamenn á tilraunaverksmiðjunni í Porton Down hefðu sagt „afdráttarlaust“ að eitrið væri framleitt í Rússlandi. Vísndamenn Porton Down vildu hins vegar ekki staðfesta þetta og sögðust ekki geta fullyrt neitt um framleiðslustaðinn. En skortur á sönnunum hefur ekki breytt samstöðu „vestræna bræðralagsins“. Hér kemur þá greinin.

I. Tvíburaturnarnir féllu 11. sept 2001 og NATO hóf stríð sitt í Afganistan þremur vikum síðar. Afgerandi fundur var haldinn í Norður-Atlantshafsráðinu í Brussel 2. okt. Þar var mættur Frank Taylor sendiherra frá bandaríska State Department. Hann lagði fram skýrslu með kynningu sönnunargagna um atburðina 11. september. Utanríkisráðherrar NATO fengu sama dag skýrsluna kynnta munnlega, hver í sinni höfuðborg. Henni var svo haldið leyndri í 7 ár en leyndinni var aflétt 2008 þegjandi og hljóðalaust. Prófessor Niels Harrit við Kaupmannahafnarháskóla hefur gert grein fyrir innihaldi hennar. Á grundvelli skýrslunnar lýsti Robertson lávarður, aðalritari NATO yfir 2. október: „Á grundvelli þessarar sönnunar-kynningar hefur það verið staðfest að árásinni á Bandaríkin 11. september var stjórnað utanlands frá og verður hún því skoðuð sem aðgerð sem 5. grein Washington-sáttmálans tekur til, þar sem segir að hernaðarárás á einn eða fleiri bandamenn í Evrópu eða Norður-Ameríku sé skoðuð sem árás á þá alla.“ En í skýrslu Taylors er bara ekki neitt sem sýnir fram á tengsl afganskra stjórnvalda við árásirnar 11. september. Kjarnaatriðið – sem fjallaði um þau tengsl – kom orðrétt fram í yfirlýsingunni sem Robertson lávarður gaf út 2. október. Svohljóðandi: „Staðreyndiranr eru skýrar og óyggjandi. Við vitum að einstaklingarnir sem framkvæmdu þessar árásir voru hluti af alheims-hryðjuverkaneti Al Kaída sem stjórnað er af Osama bin Laden og liðsforingjum hans og verndað af Talíbanastjórninni.“ Engar frekari sannanir. Bara einföld fullyrðing, komin frá CIA og Pentagon. En stjórnvöld í samanlögðum NATO-ríkjum spurðu einskis frekar um sannanir, heldur „stóðu með sínum bandamönnum“. Engar sannanir hafa síðar komið fram sem tengja Afganistan á neinn hátt við 11. september, en stríð NATO gegn landinu hefur staðið síðan. www.globalresearch.ca/the-mysterious-frank-taylor-report-the-911-document-that-launched-us-natos-war-on-terrorism-in-the-middle-east/5632874

II. Átyllan til að ráðast á Írak var sviðssett. Við þekkjum hana. Skýrsluna sem sem Colin Powell varnarmálaráðherra gaf Öryggsiráðinu 30. janúar 2003. Hún var byggt á „gögnum“ sem starfsmenn í ráðuneyti Tony Blairs klipptu og límdu saman af samfélagsmiðlum – um gjöreyðingarvopn Saddams Hussein. Skýrsla Powells var flutt undir mikilli stríðshljómkviðu vestrænnar pressu. Mótmælin gegn þessu stríði voru reyndar svo gríðarleg að nokkur NATO-ríki heltust úr lestinni og NATO gat ekki staðið formlega að innrásinni, lét nægja að gerast aðili að hernáminu á eftir. Og nógu margir NATO-ráðherrar, bandalag viljugra, létu þessar „sannanir“ nægja og „stóðu með sínum bandamönnum“. Árás Vestursins á Miðausturlönd var hafin.

III. Sviðssetningin í Líbíu tókst „betur“. Vestrænar fréttastofur þróuðu þá tækni að búa til stríðsæsifréttir. Sagðar voru skáldaðar fréttir um fjöldamorð og fyrirhuguð fjöldamorð Gaddafís á þegnum sínum ásamt skálduðum fréttum af spontan uppreisn þegnanna. Það nægði ráðherrum NATO og þeir ákváðu einróma að hefja lofthernað gegn Líbíu. Þeir spurðu ekki um frekari sannanir, og landið er í tætlum síðan.

IV. Stríðið gegn Sýrlandi er aðallega þríþætt: með þungvopnuðum leiguherjum fjölþjóðlegra íslamista, með viðskiptabanni/diplómatískri útskúfun og með háþróaðri og samhangandi sviðssetningu vestrænnar pressu, leikstýrðri leiksýningu sem ber yfirskriftina „uppreisn gegn ógnarstjórn“. Sýningin er afar vel auglýst og kaflar úr henni hafa fengið Óskarasverðlaunin. Þetta virðist þó ekki duga til að koma á hinum tilætluðu „valdaskiptum“. Þess vegna getur maður enn átt von á skelfilegum sviðssetningum frá óvinum Sýrlands.

V. Sviðssetningin í Salisbury virðist vera illa valin og illa leikstýrð, æpandi órökræn og ótrúverðug í alla staði. Hefði gamli njósnarinn Skripal verið mjög hættulegur Rússum hefðu þeir ekki sleppt honum í fangaskiptum. Ef þeir vildu eitra fyrir hann var auðveldara að gera það meðan hann var í fangelsinu heima. Fyrirfram var í gangi mikil herferð á Vesturlöndum til að gera skrímsli úr Pútín og einangra Rússa. Afskaplega er ólíklegt að Rússar kysu að auka á þá einangrun með diplómatískum skandala, allra síst í aðdraganda HM. Nú, fróðir menn segja að Bretar geti vel framleitt eiturefnið novitjok, í tilraunaverksmiðju hersins við Salisbury, Porton Down. Og Pentagon er á kafi í efnavopnaprógrömmum þeirrar verksmiðju. Ekkert hefur verið lagt fram sem líkist sönnun á þátttöku Rússa í atburðinum. Enda sagði Theresa May aldrei að umrætt taugagas væri rússneskt, aðeins „af tegund sem þróuð var í Rússlandi“. Rússar eru krafðir skýringa en þegar þeir stinga upp á sameiginlegri rannsókn er því hafnað. En Guðlaugur Þór og aðrir utanríkisráðherrar NATO spyrja bara ekkert um sannanir. Hann og þeir hinir segjast bara „standa með sínum bandamönnum“ (og engar athugasemdir heyrast frá VG heldur).

Ef þessi leiksýnig selur – eftir allan lygabálkinn sem einkenndi upphaf fyrri árásarstríða – er komið upp stórhættulegt pólitískt ástand. Ég hef þó vissa von um að almenningur kaupi sig ekki inn á þessa síðustu sýningu.

Saturday, March 24, 2018

Heimsstyrjaldarhorfur

(birtist á visir.is 23.3. 2018)


Stríðstrommudrunur og óhugnaður í loftinu. Eftir dularfulla morðtilraun á rússneskum gagnnjósnara blæs Theresa May í herlúðra, segir þetta vera «efnaárás gegn Bretlandi» sem Rússar «að öllum líkindum» standi á bak við, vísar úr landi rússneskum diplómötum og heimtar harðari refsiaðgerðir gegn Pútín. Engin sönnunargögn. En Bandaríkin, Frakkar og Þjóðverjar biðja ekki um sönnunargögn heldur fordæma Rússa sameiginlega. Og Guðlaugur Þór segist «standa með vestrænum vinaþjóðum». Þetta sýnist vera leikrit, sviðsett í stríðsæsingaskyni.
 
Skripal-málið rímar fullkomlega við «Russiagate» í Bandaríkjunum. Neyðarlega lítið kom vissulega út úr svokallaðri Rússarannsókn í Washington, á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016. Þrettán vesæl rússnesk nettröll ákærð fyrir «upplýsingastríð», að reyna «grafa undan trausti» bandarískra kjósenda. Engin tengsl sýnileg við Trump né Pútin. Ekki einu sinni að þessi tröll hafi hafi hakkað sig inn í tölvukerfi Demókrataflokksins. 

En viðbrögðin eru bara meira Rússahatur: Leiðandi pólitíkusar, bæði demókrata og repúblikana, kalla meintar gjörðir þessara Rússa «stríðsaðgerð», «11. sept-aðgerð», «aðgerð sambærileg við Pearl Harbour»! Hin ofurherskáu viðbrögð eru stórfurðuleg en lýsandi fyrir heimsmynd Vesturlanda: Dregin er upp óvinamynd sem snýr öllum veruleika á hvolf. 

Í veruleikanum eru Rússar umsetnir af NATO sem hefur þanið sig upp að stofuvegg þeirra. Blaðamaðurinn og Íslandsfarinn John Pilger skrifaði 2016: “Á undanförnum 18 mánuðum hefur mesta uppbygging herstyrks frá síðari heimsstyrjöld – undir forustu Bandaríkjanna – átt sér stað á vesturlandamærum Rússlands. Ekki frá því Hitler réðist inn í Sovétríkin hafa erlendir hermenn boðað Rússlandi svo áþreifanlega ógn… Bandaríkin umkringja Kína með neti herstöðva, skotflaugum, orustusveitum, kjarnorkuberandi sprengjuflugvélum og hafa sett snöru um háls Kína.” Í orðræðunni hins vegar eru það Rússar (og Kína) sem eru skilgreindir “útþensluseggir». Pútin er daglega djöfulgerður af vestrænum fjölmiðlum – rétt eins og Miloshevic, Saddam, Gaddafí voru tilreiddir áður en ráðist var á þá. 

Hatrið í garð Rússlands og Kína er illskiljanlegt nema í ljósi hnattræns valdatafls. Nægir að vísa til hraðrar viðskiptasóknar Kína á heimsmarkaðnum. Glæpur Pútíns er að snúa frá þjónkun fyrirrennarans Jeltsíns við Vesturlönd og taka að verja af kappi hið smækkaða áhrifasvæði Rússlands gagnvart ásókn USA/NATO-velda. Og að gera bandalag við Kína. 

Gangverk heimsvaldastefnunnar leyfir ekkert tómarúm. Ef valdatóm myndast taka heimsveldin gráðugu óðar að berjast um «enduruppskiptingu». Við fall Sovétríkjanna 1991 myndaðist mikið tómarúm, m.a. í A-Evrópu og Miðausturlöndum. Sama ár sagði Paul Wolfowitz (seinna varnarmálaráðherra) við Wesley Clark yfirhershöfðingja NATO: «Við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Stefnt var á full yfirráð í Miðausturlöndum, og á „einpóla heim“ til frambúðar.

Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO ruddust fljótt inn á tómarúmið í A-Evrópu, upp að landamærum Rússlands. En „hreinsun“ Miðausturlanda (og Miðasíu og N-Afríku) komst ekki vel af stað fyrr en með 11. september 2001. Þá líka hófst djöfulskapurinn, fyrst með beinum innrásum, síðan blandaðri tækni innrása og staðgengilshernaðar og loks í Sýrlandi gegnum staðgengilshernað með virkri hjálp staðbundinna bandamanna. 

En þá hafði einmitt „næsta risaveldi“ stigið fram á sviðið, Kína, í bandalagi við gamla óvininn „R“. Kína geysist fram úr Bandaríkjunum á heimsmarkaðnum, byggir upp „nýja silkiveginn“ með háhraðalestum, vörum og fjárfestingum, og ætlar nú ásamt Rússum og Íran að sniðganga dollarann í olíuverslun – og aðrir geta fylgt á eftir. Staða dollarans sem heimsgjaldmiðils er í voða. Pútín eyðileggur draumana í Úkraínu og Sýrlandi. Ótal gróðavonir auðhringanna eru í uppnámi. 

Bandaríkin – og bandamennirnir í NATO – eiga aðeins eitt svar við áskorun keppinautanna: vopnavald. Þau mæta hinni nýju stöðu með meiri árásarhneigð en nokkru sinni. „Okkur liggur á áður en við töpum vopnaforskotinu!“ Það nýjasta er að USA færir nú taktísk atomvopn sín inn í almenna vopnabúrið, af því það Á AÐ NOTA ÞAU! 

Brennipunkturinn: Sýrlandsstríðið snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum. Frá upphafi er það „valdaskiptastríð“ með staðgengilsherjum, kostað, vopnað og mannað utanlands frá, stjórnað frá Washington (RÚV reynir endalaust að kalla það „uppreisn“). Valdaskiptin hefðu líklega tekist ef Pútín hefði ekki dregið strik í sandinn 2015 og gengið í lið með bandamanni sínum Assad. Sýrlandsher náði þá stríðsfrumkvæðinu. 

Ef „staðgenglarir“ bila verða bakmennirnir sjálfir að stíga fram. Tyrkir ráðast inn, Ísrael hefur beinan lofthernað og bíður eftir „tilefni“ til stórásarar. Bandaríkin snúa lofthernaði sínum beint gegn Sýrlandsher og lýsa yfir að þau muni ekki skila Sýrlandsstjórn þeim (olíuríku) svæðum sem þau ásamt bandamönnum taka frá ISIS. 

Sýrlandsstríðið er staðbundin heimstyrjöld. Stórveldabandalög svipuð og 1914: Bandaríkin og bandamenn þeirra (NATO/ESB/Sádar/Ísrael), hins vegar Sýrland/Íran/Hizbolla – studd af Rússum og Kína. Eins og 1914 eru helstu heimsveldin innblönduð í Sýrlandsstríðið og svæðisbundnu stórveldin líka. Ísrael og Sádar þurfa að lúskra á Íran og Tyrkir á Kúrdum. Í stærra samhengi snýst stríðið um að viðhalda yfirráðum Vesturlanda og að hindra áhrif rísandi keppinauta. Vegna spennustigsins á heimsmælikvarða boðar Sýrlandseldurinn þá miklu ógn að geta mjög auðveldlega breiðst út.

Wednesday, March 21, 2018

Leyniskjöl - "vestræna stjórnlistin" í SýrlandiStríð Vestursins í Sýrlandi er leynistríð. Vissulega var „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“ undir forustu Bandaríkjanna stofnað 2014 og hóf lofthernað á Sýrland, opinberan hernað þó að hann stríði gegn alþjóðalögum. En hinn óopinberi hernaður Vesturvelda (USA fremst) og staðbundinna bandamanna þeirra gegnum leppheri og staðgengilshernað, hernaðarráðgjöf og stjórnun skiptir þó meira máli. Vopnun, kostun, mönnun stríðsins – sem oftast er kallað „uppreisn“.

En þau afskipti eiga og þurfa að vera leynileg og þess vegna er afar lítið um þau rætt í hinni miðstýrðu opnu orðræðu á Vesturlöndum. Vestræn meginstraumspressa er stórkostlega miðstýrð og í málefnum stríðs er henni stýrt beint frá Pentagon. Í valkvæðum miðlunum (fjölmiðlum gegn straumnum) koma hins vegar oft fréttir af slíku, en þá er það gjarnan eitthvað sem hefur „lekið út“, utan dagskrár. Með því að hlusta bara á fjölmiðla eins og RÚV – sem aldrei nefnir vestrænt baktjaldamakk og leyniskjöl – fáum við einfaldlega kolrangan skilning á stríðinu. Ég ætla að tiltaka hér tvö dæmi um brölt vestrænu strategistanna að tjaldabaki.

Fyrra dæmið: Árið 2015 unnu hin íhaldssömu bandarísku baráttusamtök um upplýsingafrelsi Juridical Watch dómsmál og fengu aflétt leynd á ákveðinni skýrslu bandarísku stofnunarinnar Department of Intelligence Agency (DIA) frá 2012, stofnunar sem heyrir undir bandaríka hermálaráðuneytið. Skýrslu um „uppreisnina“ í Sýrlandi. Þar segir berum orðum: „Salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI [Al-Qaeda í Írak] eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi.“ Og ennfremur: „Ef greiðist úr stöðunni er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (í Hasaka og Deir ez-Zor) og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja, til að einangra Sýrlandsstjórn sem líta má á sem hluta af sjía-útþenslunni (Íran og Írak).“ Á öðrum stað í skýrslunni er AQI nefnt „ISI“ og það er alveg ljóst að um er að ræða hið verðandi ISIS. Til að útskýra hverja átt er við með „stuðningsveldin við andspyrnuna“ segir skýrslan: „Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja uppreisnina á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“ Sjá umrætt skjal.

Þessi áform frá 2012 gengu eftir á næstu misserum, með gríðarlegri styrkingu „uppreisnaraflanna“. Það var sérlega dularfullt mál hvernig hin þungvopnuðu ISIS og önnur útibú Al-Kaida (sem allt eru salafí-súnnítar) gátu yfirbugað Sýrlandsher (og Íraksher) á einu svæðinu á eftir öðru, einni borginni á eftir annarri, og árið 2014 stofnað „kalífat“ í Sýrlandi og Írak. Þá þróun mála notuðu svo Bandaríkin (og Vestrið) sem yfirvarp fyrir áðurnefndri opinskáu íhlutun – sem opinberlega beindist „gegn ISIS“ (!) – þegar þau sama ár stofnuðu „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“.

Seinna dæmið: Breskur diplómat fyrir Miðausturlönd, Benjamin Norman, staðsettur í USA, sendir leynilegt símskeyti 12. janúar 2018 sem lekur samt út og er fyrst birt í líbönsku blaði, Al-Akhbar. Það segir af fyrsta fundi í „The Small American Group on Syria“ höldnum í Washington 11. janúar og öðrum slíkum fundi áformuðum í París 12 dögum síðar. Þessi grúppa lykilaðila setur sér að stjórna þróun Sýrlandsstríðsins bak við tjöldin. Það segir sína sögu að miðað við upphaflega kjarnann í Vestur-bandalagainu (Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland) er Tyrkland nú ekki haft með í hópnum. Fulltrúarnir í „The Small Group“ eru frá Bandaríkjunum (David Satterfield, aðstoðar-utanríkisráðherra fyrir Miðausturlönd), Bretlandi, Frakklandi, Sádi-Arabíu og Jórdaníu. Þarna kemur fram núverandi „strategía Vestursins“: „skipting landsins [Sýrlands], ónýting Sochi-viðræðnanna, hindranir gagnvart Tyrklandi“ (“partition of the country, sabotage of Sochi, framing of Turkey“). Einnig kemur fram að Trumpstjórnin ætlar nú USA langvarandi hernaðarviðveru í Sýrlandi þrátt fyrir sigrana yfir ISIS, og að megintilgangur þeirrar viðveru er að hindra Íran í að ná of mikilli fótfestu í landinu. Fyrstu skref í baktjalda-diplómatíinu eru annars vegar að spilla tilraunum Rússa og Tyrkja til friðarviðræðna í Sochi sem haldnar voru í lok janúar og „styrkja Genfar-ferlið“, að senda „leiðbeiningar“ og „stuðning“ til Staffan de Mistura yfirmanns viðræðnanna í Genf á vegum SÞ. Þarna kemur líka fram vilji Bandaríkjanna að taka með kúrda í „Genfar-ferlið“ þó það skapi erfiðleika gagnvart Tyrkjum. Sjá grein um símskeytið.

Fyrrv sendiherra segir breska herinn geta framleitt novitjok-eitrið

(birt á fésbók SHA 16. mars 2018)
                                                                   Murray Craig fyrrv sendiherra í Uzbekistan

Porton Down er tilraunastofa breska hersins, 10 mínútna akstur frá Salisbury þar sem eiturárásin á Skripal-feðginin var gerð. Craig Murray fyrrverandi breskur sendiherra segir hér að þeir á Porton Town hafi getu til að framleiða eiturefnið novitjok. Nú hafa sérfræðingarnir þar verið undir mikilli pólitískri pressu að bera vitni um að efnið hljóti að vera framleitt í Rússlandi. Það vildu þeir ekki gera en sættust loks á orðalagið að eitrið væri „af tegund sem þróuð var í Rússlandi“. Theresa May hefur síðan notað það orðalag og nákvæmlega sama orðalag var notað í sameiginlegri fréttatilkynningu Breta, Bandaríkjamanna, Þjóðverja og Frakka í gær. Sjáið hér umrædda grein eftir Craig Murray.

Thursday, March 15, 2018

Skrípal-leikur - May - Blair og efnaárásir á BretlandSkrípal-leikurinn stigmagnast. Viðbrögð Guðlaugs Þórs fyrirsjáanleg: „Við höfum fram til þessa staðið með vestrænum vinaþjóðum okkar og ég á ekki von á því að það verði nein breyting þar á.“ Jæja, hafi Skripal verið svo hættulegur Rússum að þeir séu tilbúnir að setja bæði forsetakosningar í næsta mánuði og HM í knattspurnu í uppnám til að losna við hann af hverju í ósköpunum slepptu þeir honum þá í fangaskiptum? Theresa May segir „allt bendir til“ að „rússneska ríkið“ standi á bak við þessa „efnaárás gegn Bretlandi“. Ekki hefur hún haft fyrir að birta sannanir. Eru þær sambærilegar við „sannanir“ Tony Blair 2002 fyrir því að Saddam Hussain gæti gert efnaárás á Bretland á 45 mínútum? Sem hann svo notaði til að byggja upp stemningu fyrir innrás í Írak. 

Þegar Harold Pinter fékk nóbelinn 2005 notaði hann ræðu sína á Íraksstríðið og bresk-bandaríska stjórnarfarið og sagði: „Innrásin í Írak var verknaður brotamanna, blygðunarlaust ríkishryðjuverk og lýsti fullkominni fyrirlitningu á hugtakinu alþjóðalög... Bandaríkin gefa einfaldlega djöfulinn í SÞ, alþjóðalög eða ágreining og efasemdir annarra og skoða þær sem vanmáttugar og málinu óviðkomandi. Þau hafa líka sitt eigið jarmandi litla lamb sem eltir þau, hið aumkunarverða, afvelta Stóra-Bretland.“ (Sjá ræðuna)

RÚV vill ritskoða allt um Sýrlandsstríðið

(birt á fésbók SHS 13 mars 2018)

Vanessa Beeley rannsóknarblaðamaður talaði í Safnahúsi

Helstu pólar í umræðunni um Sýrlandsstíðið undanfarið byggja á eftirfarandi tveimur greiningum: 1) Stríðið kemur af því að friðsöm mótmæli, kæfð í blóði, þróast út í uppreisn gegn kúgaranum. 2) Stríðið hefur frá fyrsta degi verið staðgengilsstríð Vesturvelda með bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum gegn fullvalda ríki, enn ein valdaskiptaaðgerðin. Það að rússnesk stjórnvöld geti skrifað upp á margt í seinni greiningunni þýðir auvitað ekki að hún sé frá þeim komin. Orðræðan í íslenskum fjölmiðlum hefur verið algjörlega einhliða undir fyrrnefndu greiningunni. Loks gerðist það eftir 7 ára stríð að út kemur á íslensku bók sem styður greiningu 2, og boðin er hingað þekkt bresk/frönsk blaðakona, Vanessa Beeley, sem styður hana líka, og haldinn fundur. Fundurinn í Safnahúsi sýndi að fylgendum greiningar 2 fjölgar. 

RÚV fór alveg á límingunni út af málinu. Og viðbrögðin sýna hver tónn hinnar ríkjandi orðræðu er nú um stundir.
   a) RÚV fékk nokkur boð á Vanessu-fund og Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður svaraði: „Ég nenni ekki að hlusta á samsæriskenningar frá fólki sem dreifir rugli og rússneskum lygum eins og þessi kona gerir. Hún er eiginlega bara rússneskt nettrōll. Hefurðu skoðað feril hennar og hverju hún dreifir? Rugl útí eitt!"
   b) RÚV-tröllið Egill Helgason tók ekki í mál að taka Vanessu í viðtal en kastaði síðan skít á aðstandendur fundarins í „Silfri“ sínu: „Dómsdagskjaftæði, nettröll og karlar með Rússablæti.“ Síðan vitnar hann í bréf frá „reyndum blaðamanni“ sem skrifaði: „Vanessa þessi virðist, meðvitað eða ómeðvitað, hluti af herferð Rússa sem miðar að því að gera skynsamt fólk óöruggt. Upplýsingaóreiða heitir þetta, að blanda öllu saman og rugla fólk svo í ríminu að það veit fyrir rest ekki hvað snýr upp og hvað niður.“
   c) RÚV neitaði að dekka fundinn en gerði það samt í Morgunútvarpinu á mánudag. Þórunn Ólafsdóttir blaðamaður var kölluð til að ræða um hann og um Vanessu. Hún hafði EKKI verið á fundinum (né lesið bókina) en hún hafði skrifað færslu um hann á facebook – og þess vegna fékk hún 17 mínútna viðtal! Spyrillinn Sigríður Dögg Auðunsdóttir vitnaði í Guardian um að málflutningur Vanessu „virðist vera kominn frá Rússlandi“ og spurði svo: „Hvað finnst þér þá um að við séum að flytja til landsins fólk sem er að taka þátt í þessu áróðursstríði?“ Hlutlaus spurning! Í færslu sinni skrifar Þórunn: „Að vera það sem við myndum kalla stjórnarandstæðing heitir uppreisnarmaður í orðræðunni sem stjórn Assads, með fólk eins og Vanessu Beeley í fararbroddi, hefur tekist að tileinka umheiminum.“ Sem sagt Assad hefur „tekist að tileinka heiminum“ sína útgáfu og yfirtaka orðræðuna! 


Það er ekki nýtt að RÚV sé málpípa NATO-velda og stríðsstefnu þeirra. En hér er það fulltrúi ritskoðunar. Önnur sjónarmið heita nú "rússaáróður". Og sem endranær er ritskoðunin hörðust á sviði vestrænt rekinna styrjalda.

Monday, March 5, 2018

Aleppó, taka tvöRÚV endurflytur okkur bestsellerinn „Blóðbaðið í Aleppó“ og kallar hann núna „Blóðbaðið í Austur-Ghouta“. Og er um framferði Sýrlandsstjórnar og Rússa þar og brot þeirra á samþykktum SÞ og glæpi gegn mannúð, þar sem þeir beini sprengjum sínum einkum að börnum og sjúkrastofnunum. Og RÚV vitnar á víxl í „Sýrlensku mannréttindavaktina SOHR“ eða Óskarsverðlaunasamtökin Hvítu hjálmana, að því marki sem heimildir eru tilfærðar. Það er rétt hjá RÚV að átökin eru mjög mannskæð. Óumflýjanlega. Austur-Ghouta hefur frá 2012 verið afar vel víggirt hreiður „uppreisnarmanna“. Þeir eru ekki hófsamir. Helstu hóparnir eru Jaish al-Islam sem kostaður er af Sádum og viðurkennir að „standa nálægt“ Al Kaída, Faylaq al-Rahman sem kostaður er af Qatar og svo Ahrar al-Sham sem er annað nafn á al-Nusra (Al Kaída). Allir eru þeir öfgasinnaðir súnní-íslamistar með stefnu á sharíalög. RÚV talar bara um „uppreisnarmenn“. RÚV nefnir ekki að þessir hópar skjóta reglulega frá A-Ghouta inn í Damaskus. Ég les nýlegar tölur að þær sprengingar hafi drepið 11 þúsund borgarbúa og limlest 30 þúsund frá 2012. RÚV fullyrðir óhikað að Sýrlandsstjórn brjóti samþykkt Öryggisráðsins um vopnahlé frá 24. febr, en það er ekki sjálfgefið af því sú vopnahléssamþykkt undanskildi hópa tengda bæði ISIS og Al Kaída. RÚV talaði einhvern veginn allt öðru vísu um frelsun borganna Raqqa og Mósúl undir sprengjuregni Bandaríkjanna. Þá var það bara „ill nausyn“.


Sunday, March 4, 2018

Rétt að ákæra Atlanta en meginábyrgð er hjá stjórnvöldum

(birtist á Fésbók SHA 3. mars 2018)


Annars vegar svör Samgöngustofu og hins vegar Samgöngu- og Utanríkisráðuneyta við spurningum um vopnaflutninga hafa verið skóli í undanbrögðum. Til að útskýra af hverju leyfi voru gefin til flutninganna allt þar til í vetur og nú í kringum gerð Kveiks-þáttarins segir Þórólfur Árnason: „..allt hafði verið gert samkvæmt reglum, samkvæmt heimildum og það [ráðuneytið] hafði ekki ástæðu til að grípa inn í – fyrr en núna að þeim finnst með átakasvæðum nálægt Sádi-Arabíu þá beri Utanríkisráðuneytinu að hafna þessum undanþágum.“ Þegar hann var spurður hvort ekki hefði verið ástæða til að rannsaka nánar um áfangastaði vopnafarmanna í ljósi undirritaðra þjóðréttarlegra sáttmála um slíkt sagði hann að það væri „ráðuneytisins að koma breyttum áherslum til skila.“ Ennfremur sagði hann „Utanríkisráðuneytið og samgönguráðuneytið hafa vitað af þessari starfsemi Atlanta.“

Samgönguráðuneyti hins vegar kannast ekki við að hafa fengið beiðni um vafasaman flutning flugrekenda og síðan skrifar samskiptastjóri Samgöngustofu að „ráðuneytunum [hafi] ekki verið gerð sérstök grein fyrir umsóknum einstakra flugrekenda með formlegum hætti“. Báðir aðilar vísa þannig frá sér ábyrgð og benda á hinn.

Nú. Það er gott og mikilvægt að SHA ákæri Atlanta. En Atlanta þurfti í hvert sinn að fá heimild frá íslenskum stjórnvöldum fyrir vopnaflutningi. Þetta voru „a.m.k. 25 skipti“ og leyfið var alltaf veitt þar til í vetur (þar til „í haust“ sagði Þórólfur en þá var það táragasið til Venezúela). Þótt Sádi-Arabía sé ekki skilgreint átakasvæði vissi íslenska Utanríkisráðuneytið vel um þátt Sádi-Arabíu í Jemen-stríðinu og væntanlega einnig um stuðning Sáda við vopnaða andstöðu í Sýrlandi. Endanleg ábyrgð í málinu hlýtur að liggja hjá utanríkisráðuneyti og ríkisstjórn. Því tel ég eðlilegt að ákæra íslensk stjórnvöld fyrir annað hvort fulla viðurkenningu á þessari tegund vopnaverslunar eða a.m.k. vítavert sinnuleysi í málinu.

Íslenska tannhjólið í stríðsvélinni

Íslenska flufélagið Atlanta, sem verktaki Sádí-Arabíska flugfélagsins Saud, hefur flutt vopn frá Búlgaríu, Serbíu og Slóvakíu til Sádi-Arabíu. Hefur flogið a.m.k. 25 ferðir með slíkan farm á undanförnum árum. Það er brot á alþjóðasamningum og SÞ-sáttmálum sem Ísland hefur undirritað, og hafa lagagildi. Stjórnvöld hafa nú hafnað beiðni félagsins um frekari vopnaflutninga til Sádi-Arabíu. Umræðan um málið á þingi og í fjölmiðlum hefur snúist um þetta lögbrot, og er mjög jákvæð sem slík. Ég tel þó að gildi þess sem fram kom í þessum „Kveik“-þætti sé jafnvel enn frekar sú skarpa mynd sem þetta mál gefur af eðli Sýrlandsstríðsins, dæmi sem gegnumlýsir vel gangverk stríðsins.
Þetta eru umtalsverðir vopnaflutningar. Ekki fengust samt þær tölur frá íslenskum yfirvöldum. En Ingólfur Bjarni Sigfússon náði upplýsingum um umrætt flug með hjálp rannsóknarblaðamannasamtakanna OCCRP sem hafa stúderað vopnastrauminn m.a. til Sýrlands. Þar komust menn yfir útflutningsskýrslur frá Slóvakíu yfir vopn sem einmitt voru flutt af flugfélaginu Atlanta. Þar eru m.a. nefndar 2000 eldflaugavörpur, 850 öflugar hríðskotabyssur, 750 sprengujuvörpuskot, 170.000 jarðsprengjur (!) og margt fleira. Og þetta er bara flutningurinn frá Slóvakíu – flutingur frá Búlgaríu og Serbíu er ótalinn. Sömu heimildarmenn staðfesta að viðtakendur vopnanna í Sádi-Arabíu séu „ómerktir pallbílar sem aki farminum burt og ekki inn á næstu herstöð“. Ég sé í heimildum frá OCCRP (sem merkilegt nokk eru samtök styrkt af bandaríska utanríkisráðuneytinu) að CIA er meginaðili í að skipuleggja þessa vopnasölu. Í hjálagðri grein er einmitt vitnað í OCCRP um þess konar flutning vopna frá 9 fyrrum Varsjárbandalagsríkjum til Sádi- Arabíu, Jórdaníu, Arabísku furstadæmanna og Tyrklands fyrir 1.2 milljarðir evra á fimm árum og haft eftir Robert Stephen Ford, sendiherra Bandaríkjanna í Sýrlandi 2011-2014, að „vopnaverslunin er skipulögð af Leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA, Tyrklandi og Persasflóaríkjunum.
Kveikur ræddi við Patrick Wilken vopna- og mennréttindasérfræðing hjá Amnesty International sem þekkir vopnatraffíkina til „uppreisnarinnar“ í Sýrlandi mætavel: „Samkvæmt eftirgrennslan okkar er það mikið magn vopna sem miðlað er af Bandaríkjunum í gegnum austurevrópsk og miðevrópsk ríki og til Sádi-Arabíu og þaðan með ákveðnu vopnadreifikerfi og endar svo í Sýrlandi.“ Ennfremur segir Wilken: „Vopnin sem flutt hafa verið til Sádi-Arabíu eru ekki af þeirri gerð sem herinn þar í landi notar.“
Mikilvægi þessarar frásagnar um Atlanta felst í því að þessi flutningur er dæmigerður og lýsandi fyrir umræddan stríðsrekstur. Þótt Ford sendiherra viðurkenni að CIA standi á bak við slík – stórfelld – vopnaviðskipti eru þau meira og minna í trássi við lög og alþjóðlega samninga. Bandarískir bakmenn – CIA og Pentagon – skipuleggja þessa vopnasölu frá óopinberum vopnasöluaðilum í austanverðri Evrópu í gegnum flókið net skipafélaga og flugfélaga (með almennum flutningavélum, ekki herflutningavélum). Mikinn hagnað er að hafa fyrir viðkomandi flutningsaðila. Kostnaðinn greiða yfirleitt Sádi-Arabar eða önnur fjársterk Persaflóaríki. Þessi viðskipti eru ljósfælin og fara eftir margvíslegum krókaleiðum. Stríð heimsvaldasinna í Miðausturlöndum eru „skítug stríð“ og bakmennirnir vilja almennt ekki láta handarverk sín og fingraför sjást.
Þess vegna er gott að geta vitnað í meginstraumsmálgögn sem öllu jöfnu hafa það meginhlutverk að verja heimsvaldahagsmuni. Í desember sl. birti Newsweek grein, „How ISIS got wapons from the U.S. and usesd them to take Iraq and Syria.“ Þar er fjallað um „ólöggilta“ vopnamiðlun einkum Bandaríkjanna til óopinberra (non-state) aðila, þ.e.a.s. vopnaðrar andstöðu í Sýrlandi, m.a. ISIS, og er í trássi við lög. Einkum er lagt út af vopnabirgðum ISIS sem náðust þegar Sýrlandsher hafði rekið hryðjuverkasamtökin úr borginni Deir Ezzor sl. nóvember. Newsweek skrifar: „...mikill meirihluti vopnanna kom upprunalega frá Rússlandi, Kína og Austur-Evrópu... Bandaríkin og Sádi-Arabía útveguðu mest af þessum útbúnaði án löggildingar, að því er virðist til andstöðuafla. Þessi áframsendi útbúnaður, gerður upptækur hjá liðsveitum ISIS, samanstendur eingöngu af vopnum og skotfærum frá Varsjárbandalagsríkjum, keyptur af Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu í Evrópusambandsríkjum í Austurevrópu.“
Það er meira en tímabært að menn geri sér grein fyrir að óöldin í Sýrlandi snýst ekki um „uppreisn“. Heimsvaldasinnar hafa vissulega löngum lagt sig alla fram við að deila og drottna þar sem finna má þjóðernislegar glufur eða trúarlegar andstæður, en það nægir ekki til að gera innrásarstríð að „uppreisn“. Þetta er ekki heldur „borgarastríð“, heldur staðgengilsstríð háð af fjölþjóðlegum málaliðum. Bakmenn þeirra heimsvaldasinnar kosta þá og hafa dælt í þá gengdarlausu magni vopna frá fyrsta degi. Valdaskiptaaðgerðin mistekst engu að síður af því hana skortir stuðning hjá sýrlensku þjóðinni.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir lýsti á Alþingi vonbrigðum Atlanta-málið og sagði að það „stangast á við utanríkisstefnu sem Ísland hefur verið að mæla með“. Það er ekki nákvæm lýsing. Þáttur Íslands í stríðunum í Miðausturlöndum er vissulega ekki veigamikill í hinu stóra samhengi. En hann er alltaf stuðningur við stríð heimsvaldasinna. Ísland studdi stríð USA og NATO í Afganistan, Írak og Líbíu. Í desember 2012 viðurkenndi Ísland „Þjóðareiningu uppreisnarhópa í Sýrlandi“ sem „hinn lögmæta fulltrúa Sýrlands“ og tók sér stöðu með „uppreisninni“. Og Ísland hefur frá byrjun verið á lista „Fjölþjóðaliðsins gegn ISIS“ sem stjórnað er frá Washington og beinist æ opinskár gegn stjórnvöldum Sýrlands. Og þegar íslenskt flugfélag 25 sinnum fékk leyfi stjórnvalda fyrir vopnaflutningum til Miðausturlanda var það auðsótt enda áfangastaður vopnanna „réttu megin“.

Sýrland : Grímurnar falla og innrásasrstríðið blasir við

(birt á Neistar.is 12. febrúar 2018)

Innrásareðli stríðsins í Sýrlandi verður æ augljósara. Það breytir þó engu fyrir RÚV sem hleypur fram á hlað og geltir að þeim sem sigað er á frá Washington.
1. Tyrkir hófu beina innrás í Sýrland 20. janúar eins og áður hefur verið um fjallað í Neistum.
2. Svonefnt „Fjölþjóðalið gegn ISIS“ undir forustu Bandaríkjanna gerði loftárásir á liðssveitir tengdar sýrlenska stjórnarhernum nærri bænum Deir Ezzor þann 7. febrúar og munu hafa drepið a.m.k. 100 hermenn.
3. Og nú 10. og 11. febrúar fréttist að Sýrlenski herinn hafi skotið niður Ísraelska herflugvél í sprengjuleiðangri yfir Sýrlensku svæði við Golanhæðir, þá fyrstau sem Sýrlandsher skýtur niður. Og Ísrael svarar harkalega með loftárásum á 12 skotmörk í Sýrlandi.  

Tyrkir og síðan Fjölþjóðaliðið ráðast fram

Tyrkland gerir sína innrás til að koma á „öryggissvæði“ (safe havens) innan Sýrlands eins og þeir hafa lengi hótað að gera. Sú hugmynd hefur verið studd af Bandaríkjunum. Hins vegar er ljóst að núverandi innrás er sólóspil Tyrkja, í óþökk Bandaríkjanna enda beinist hún gegn herjum Kúrda, SDF,  bandamanni USA á svæðinu sem orðið hefur þeim símikilvægari að undanförnu. Árásin var bein viðbrögð við yfirlýsingum Tillersons utanríkisráðherra um að koma upp 30 000 manna „landamæraher“ sunnan sýrlensku landamæranna, borinn uppi af Kúrdum. Innrás Trykja er sem sagt alvarleg mögnun stríðsins, en um leið er hún merki um sundrungu í liði árásaraðilanna gegn Sýrlandi.
Hvað þá um árás Bandaríkjanna (formlega „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“) á liðssveitir tengdar Sýrlandsher nálægt bænum Deir Ezzor, 7. Febrúar? Að sögn bandarískra embættismanna voru þær liðssveitir „líklega að reyna að ná olíulindunum í Khusham“ austan Efrats, í Deir-Ezzor sýslu.  Það kemur æ betur fram í yfirlýsingum frá Washington að þar hafa menn ekki í hyggju að láta af hendi til Sýrlandsstjórnar hin olíuríku landsvæði austan Efrats þó að þau losni undan yfirráðum ISIS. „Þegar Mattis varnarmálaráðherra var spurður hvort Bandaríkjaher væri kannski að hnjóta inn í hin breiðari átök Sýrlandsstríðsins svaraði hann: „Nei, þetta er gert í sjálfsvörn.““ 

Hnattræn hersjórnarlist og gagnbylting

(birtist á vefritinu Neistum.is 5. febrúar 2018)

Þýddur er hér hluti af stærri grein eftir John Bellamy Foster úr marxíska tímaritinu Monthly Review, 3. hefti 2017, „Revolution and Counterrevolution, 1917–2017“. Þennan kafla um herstjórnarlist heimsvaldasinna og gagnbyltingar undangengin 100 ár er skynsamlegt að lesa í framhaldi bókar Leníns, Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins. Þýðandi
Það var heimsvaldastefnan – ekki í hefðbundnu merkingunni sem spannar alla sögu nýlendustefnunnar [ætti þá frekar að skrifast „heimsveldisstefna“ Þ.H.] heldur tengd einokunarstsigi kapítalismans, eins og V.I. Lenín notaði hugtakið – sem myndaði differentia specifica eða ákvarðandi sérkenni kapítalisma 20. aldarinnar og ákvarðaði þar með skilyrði jafnt byltingar sem gagnbyltingar. Strax á seinni hluta 19. aldar hafði keppnin um nýlendurnar – sem hafði að miklu leyti mótað átökin innan Evrópu allt frá 17. öld – breyst í baráttu nýs eðlis: baráttu á milli ríkja ásamt auðhringum þeirra, ekki fyrir ákveðnum heimsveldissvæðum heldur fyrir hnattrænum yfirráðum í sífellt samþættaðra heimsvaldakerfi.1 Síðan þá hafa bylting og gagnbylting verið samtengdar í kerfinu sem heild. Allar byltingaröldur eftir það – oftast sprottnar upp á jaðarsvæðum þar sem kúgunin er harkalegust, magnaðar af arðráni heimsveldanna – hafa verið byltingar gegn heimsvaldastefnunni og hafa átt í höggi við heimsvaldasinnaða gagnbyltingu, skipulagða af kjarnríkjum heimskapítalismans.2 Það flækti þessa stöðu enn frekar að forréttindageiri verkalýðsstéttarinnar í þróuðum auðvaldsríkjum sýndist þéna óbeint á arðinum sem fenginn var frá jaðarsvæðunum og myndaði „verkalýðsaðal“, fyrirbæri sem Friedrich Engels benti á og seinna var skilgreint fræðilega af Lenín í Heimsvaldastefnunni, hæsta stigi auðvaldsins.3

Monday, February 5, 2018

Bosníustríð rifjast upp

(birt 3. febr 2018 á Fésbók SHA)

Horfði á vonda mynd, „Endurborin“ á RÚV í gær. Um barbarisma í Bosníustríðinu, gerist í Sarajevó. Miðlægur atburður er að bosnísk kona er gripin, nauðgað og börnuð af setuliði Serba í borginni. Aðalpersónan (ítölsk) fær þetta barn og flýr með í NATO-flugvél burt úr stríðinu og elur það upp. Ég hafði þá nýlesið hjálagða Counterpunch grein um yfirstandandi herferð NATO fyrir að „vernda konur gegn kynferðislegu ofbeldi á átakasvæðum“. Og í greininni er einmitt farið vel yfir það hvernig fullyrðingar í vestrænni pressu um skipulegar nauðganir Serba á múslimakonum og „nauðgunarbúðir“ voru afar snar þáttur í áróðri NATO í Bosníustríðinu. SÞ lét reyndar rannsaka þetta, sem reyndist 99% blöff, en því var aldrei slegið neitt upp. Í frelsisstríði NATO fyrir Líbíu fullyrti svo sendiherra USA hjá SÞ að Gaddafí nestaði hermenn sína með viagra til að þeim gengi betur að nauðga andstæðingunum. Lesið greinina.

Saturday, February 3, 2018

Innrás Tyrkja í Sýrland: Árásaraðilarnir í hár saman

(Birtist í Neistum.is 26. jan 2018)

Sýrlandsstríðið tekur á sig nýja króka og flækjan eykst. Tyrklandsher réðist nú inn á sýrlenska svæðið Afrin sunnan tyrknesku landamæranna, vestarlega. Það er svæði sem um árabil hefur verið undir stjórn Varnarsveita Kúrda, YPG (sem er meginaflið í Sýrlenska lýðræðishernum, SDF) sem Erdógan kallar hryðjuverkamenn. Í árásinni eru Tyrkir studdir af Sýrlenska frelsishernum (FSA) sem er náinn bandamaður þeirra og opinberlega studdur af USA og NATO-veldunum. 
En þessi árás Tyrkja veldur nú miklum titringi vítt um lönd af því þeir sem ráðist er á, hersveitir YGP/SDF, eru einnig nánir bandamenn NATO-veldanna, sérstaklega Bandaríkjanna. Á meðan Sýrlandsher hefur undangengin tvö ár, með aðstoð Rússa, að mestu rústað kalífati Íslamska ríkisins og þrengt mjög kosti annarra mikilvægustu hópa uppreisnarinnar (Al Nusra/Al-Sham..), hafa Bandaríkin veðjað á vopnaða Sýrlandskúrda sem sinn meginbandamann í Sýrlandi. Kúrdarnir berjast fyrir sjálfstjórn á sínu svæði og hafa um leið barist harkalega við ISIS – en fyrir Bandaríkin er aðalmálið baráttan við Sýrlandsstjórn. Forusta Kúrda hefur að sínu leyti þegið USA sem bandamann sinn og verndara. 
Bandarísk yfirvöld höfðu örfáum dögum fyrr gefið það út að þau hygðust byggja upp 30 000 manna her í norðaustur Sýrlandi, mannaðan að mestu af Kúrdum. Allt að 2000 bandarískir sérsveitarmenn ku starfa með Kúrdum á svæðinu. Sú heruppbygging er augljóslega liður í áformum um sundurlimun Sýrlands, sem hefur verið „plan B“ í Washington þegar „plan A“ um valdaskipti í Damaskus ætlaði ekki að ganga upp. Erdógan getur vel hugsað sér báðar hugmyndirnar – um valdaskipti í Sýrlandi og sundurlimun landsins – en ekki skilyrðislaust. Innrás hans núna núna er snöggt svar til vina hans í Washington: Skipting Sýrlands skal aldrei verða með styrkingu „kúrdneskra hryðjuverkamanna“! Og öll plön USA eru þar með í upplausn.
Það hefur örugglega verið Kúrdum áfall að Bandarísku verndararnir hafa ekki hreyft legg né lið þeim til varnar gegn Erdógan. Tillerson utanríkisráðherra lét nægja að senda Tyrkjaforseta skeyti segjandi: „við viljum hvetja Tyrkland til að gæta hófs og tryggja að hernaðaraðgerðirnar séu takmarkaðar í tíma og umfangi.“ En þetta hefðu Kúrdar mátt segja sér sjálfir af langri og biturri reynslu, það er forgengilegra en flest annað í heimi hér að veðja á vinskap heimsvaldasinna.
Sýrlandsstjórn mótmælti auðvitað hinn löglausu innrás harkalega. En hún hefur látið þar við sitja. Sýrlandsher hefur fullar hendur á öðrum svæðum, ekki síst Idlib, síðasta stóra yfirráðasvæði ISIS og Al Kaídahópa í Sýrlandi. Hann getur illa bætt á sig stríðsátökum við Tyrklandsher sem er sá 8. stærsti í heimi. Assad-stjórnin kærir sig vissulega hvorki um kúrneskt ríki né tyrkneskt yfirráðasvæði á
sýrlensku landi. En hún metur stöðuna líklega sem svo: Ef Tyrkir veikja stöðu kúrdneskra aðskilnaðarsinna (studda af USA) í Afrin getum við vonandi aftur náð stjórn á því svæði við samningaborðið i Sochi (þar standa friðarviðræður yfir þessa dagana) eða við önnur samningaborð í náinni framtíð.

Tuesday, January 16, 2018

Sterkur Oliver Stone um Úkraínudeiluna

(birtist á fésbók SHA 16. janúar 2017)

Hér er afar sterkur og mikilvægur dókumentari Olivers Stone um Úkraínudeiluna. Sem er skólabókardæmi um framkvæmd litabyltinga. Annars vegar stúderar Stone ítarlega vinnubrögð hins CIA-rekna National Endowment for Democracy (þó hún kalli sig "Non Govermental", NGO) og bandaríska sendiráðsins á sviði almannatengsla og skipulagningar uppþotanna og hins vegar fer hann vel í forsögu úkraínsks fasisma og síðan hvernig þessir tveir gruggugu lækir renna saman í einn og vestrænu bakmennirnir gera fasistana að sínu mikilvægasta verkfæri. Áhersla bandarískra strategista á að vinna Úkraínu yfir er gríðarleg. Sbr orð Zbigniew Brzezinski um að tilvera Rússlands sem "evrasísks veldis" stæði og félli með stöðu Úkraínu. Í myndinni spyr Stone Pútín um afleiðingar þess ef Úkraína lenti inn í NATO og hann svarar: "Af hverju bregðumst við svo harkalega við útþenslu NATO? Þegar land hefur gerst aðili að NATO getur það ekki staðist þrýstinginn frá Bandaríkjunum. Og skjótt getur hvað sem er birst í þessu landi - eldflaugavarnarkerfi, herstöðvar, eldflaugaárásarkerfi. Hvað gerum við? Við verðum að gera gagnráðstafanir, miða eldfaugakerfum okkar á þennan nýja búnað sem við lítum á sem ógn..." Stone hefur að nokkru leyti tekið að sér að miðla heimsmyndinni eins og hún lítur út frá Rússlandi en líka eins og málin líta út frá sjónarhóli almennrar skynsemi.

Sunday, January 14, 2018

Truman og Churchill

(birtist á fésbók SHA 14. janúar 2017)
Harry Truman og Winston Curchill

Talandi um Kalda stríðið. Fáeinum mánuðum eftir stríðslok, í mars 1946, stóðu þeir Winston Churchill og Harry Truman Bandaríkjaforseti saman á fundi í Fulton í Missouri USA. Þeir tóku stöðuna og Churchill meitlaði hana í fræga setningu: “Frá Stéttin við Eystrasalt til Trieste við Adríahaf hefur fallið niður járntjald yfir þvera álfuna“.
Hvað gaurar voru þetta, nýkomnir úr stríði við fasismann? Ja. Winston Curchill hafði hitt Mússólíni 1927. Eftir fundinn sagði hann við ítalska blaðamenn: „Hefði ég verið Ítali er ég viss um að ég hefði staðið heilshugar með ykkur frá upphafi til enda í árangursríkri baráttu ykkar gegn villimannlegri græðgi og ofstæki lenínismans." (sjá R.M.Langworth 2017, Winston Churchill, Myth and Reality, bls. 106). Síðar, í stríðssögu sinni staðfesti Churchill þetta þegar hann rifjaði upp: „Ennfremur, í átökunum milli fasisma og bolsévisma var enginn vafi hvar samúð mín og sannfæring lá“ (sjá Churchill 1949, Their Finest Hour, 106). Harry Truman var litlu betri. Daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 mælti hann: „Ef við sjáum að Þýskaland er að sigra ættum við að hjálpa Rússum, en ef Rússland er sigursælt ættum við að hjálpa Þýskalandi og á þann hátt láta þá drepa eins marga og mögulegt er.“
Hvorugur þessara manna var andfasisti þó ekki væru þeir fasistar. Þeir voru fyrst og síðast auðvalds- og heimsvaldasinnar, og þeir höguðu seglum á alþjóðavettvangi eftir því sem kom þeirra eigin heimsveldi best. Og fyrir þeirra eigin heimsveldi voru fasistaríkin augljóslega helsta ógnin árið 1941. Fyrrnefnd ummæli Trumans þetta ár um Þýskaland og Rússland má þó ekki skilja svo að hann hafi lagt fasisma og kommúnisma að jöfnu. Eftir að hann varð forseti var andkommúnismi einna sterkasti þáttur í stjórnarstefnunni. Í utanríkismálum fylgdi hann Truman-kenningunni um að koma böndum á kommúnisma hvar í heimi sem væri, í samvinnu við m.a. fjölmargar fasista- og herforingjaklíkur – og í hans forsetatíð náði  McCarthyisminn hámarki heima fyrir. En þarna árið 1946 voru sem sagt þessi helstu forustumenn og spámenn hins „frjálsa heims“ að leggja línuna fyrir Kalda stríðið. Það var ekki von á góðu.

Rætur Kóreudeilunnar

(birtist á neistar.is 13. janúar 2017)

Samkvæmt boðskap vestrænu heilaþvottavélarinnar, sem endurvarpað er samviskusamlega af íslensku fréttastofunum, eru stjórnvöld Norður Kóreu stórhættuleg umheiminum fyrir brjálsemi sakir. Þó eru þau, eftir að þau misstu bakhjarl sinn, heimskommúnismann, fyrst og fremst til að hlæja að, skv. sama boðskap. Samt er það svo að það er ekki brjálsemi og árásarhneigð Norður-kóreskra leiðtoga sem veldur spennunni þar. Ekki heldur leifar af „gagnkvæmri tortryggni“ Kalda stríðsins. Heldur hefur meginorsökin alla tíð verið botnlaus yfirgangur forysturíkis Vestursins gagnvart þessu litla landi, Norður-Kóreu, og Kóreu allri.

Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga
Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga

Til að skilja ástandið á Kóreuskaga er óhjákvæmilegt að seilast aftur í og aftur fyrir Kóreustríðið (1950-53). Jaltasamningurinn undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari gerði ráð fyrir sameiginlegu hernámi Kóreu af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna meðan hernám Japans væri upprætt. Kórea hafði þá verið undir grimmdarlegu japönsku hernámi frá 1910. En þegar Japanir höfðu gefist upp og áður en til hernáms landsins kom hafði þjóðfrelsishreyfing Kóreu komið upp ákveðnu stjórnkerfi sem borið var uppi af sk. „alþýðunefndum“ og miðstjórn þeirra, og stefndi á fullt sjálfstæði.
Sovétmenn sendu her inn í landið frá norðri en Bandaríkin sendu skömmu síðar miklu stærri her inn að sunnan og hernámu beinlínis suðurhluta landsins. Bandarísk herstjórn beitti strax yfirdrifnum herstyrk af því hún óttaðist hið pólitíska ástand innan landsins, nefnilega mikinn styrkleika kommúnista og eindreginna þjóðernis- og andheimsvaldasinna í þjóðfrelsishreyfingunni, ástand sem einkenndi flest hernámssvæði Japana í Austur-Asíu í stríðslok (eins og reyndar líka hernámssvæði Þjóðverja í Evrópu). Það gilti m.a. um Kóreu, allt Indó-Kína, Filipseyjar og ekki síst Kína.

Tuesday, January 2, 2018

Íran - leiðarvísir um valdaskipti

(birt á fésbók SHA 2. jan 2018)
                                           Ali-Khalmenei æðstiklerkur segir óvini Írans standa að baki mótmælum

Ekki skal draga í efa raunverulega óánægju í Íran með spillingu og ójöfnuð. En ekki heldur efast um að óvinveitt veldi standi að baki og leiði uppþotin þar, eins og Írönsk stjórnvöld segja. Minna skal á CIA-stýrt valdarán gegn þjóðhollri stjórn Mosaddeghs 1953. (sjá hér)

Skoðið síðan vel þennan leiðarvísi til uppþota og valdaskipta í Íran, samin í tengslum við mótmælaölduna þar 2009. Hann var útgefinn af Brookings-stofnuninni, voldugustu utanríkis-hugveitu Bandaríkjanna. Kaflaskipting leiðarvísisins: 1. "Dissuading Tehran: The Diplomatic options" 2. "Disarming Tehran: The Military options" 3. "Toppling Tehran: Regime Change". Það eru svo undirkaflar við þennan punkt: f. "The Velvet revolution" g. "Inspiring an insurgency" h. "The coup: supporting a Military Move against the regime". (sjá heimild) Þarna er ekki farið í felur með neitt, skipulagning innri andstöðunnar og alþjóðleg fjölmiðlaherferð, og loks skipulagning valdaránsins. RÚV lætur sitt ekki eftir liggja.

Vaxandi viðsjár á Norðurlöndum 2017


Stórstríð er í gerjun. Á Norðurlöndum færist það einnig nær. Á árinu 2017 var Ísland flækt betur í styrjaldarundirbúning Bandaríkjanna og NATO. Í júní og júlí stóð tveggja vikna NATO-flotaæfing við Ísland. Þar tóku þátt 2000-3000 manns frá 9 NATO-ríkjum. Tilefnið var sagt vera vaxandi umsvif rússneskra kafbáta á svæðinu. Keflavíkursamningurinn er í gildi og Pentagon hefur nú eyrnamerkt 1,5 milljarð króna til uppgerðar á flugskýlum sínum á Keflavíkurvelli. Það er fyrsta skref.

Í þrjár vikur í september sl. var NATO-heræfingin Áróra haldin í Svíþjóð, stærsta heræfing þar í landi eftir Kalda stríðið. Yfir 20 þúsund hermenn tóku þátt, frá a.m.k. 5 NATO-löndum auk Svíþjóðar og Finnlands. Svíþjóð lét af hlutleysi sínu 1994 þegar það gerðist aukaaðili að NATO undir yfirskriftinni „Partnership for Peace“. Og 2016 tók NATO næsta skref og gerði „gestgjafasamning“ við Svía: Svíþjóð heimilar NATO-æfingar í landi sínu, NATO fær að geyma hergögn í landinu og sendir mannafla með litlum fyrirvara ef ófriðlegt skyldi gerast. Í höfuðstöðvum NATO var heræfingin Áróra skýrð svo: „Í ljósi núverandi stöðu öryggismála, með auknum áhyggjum af rússneskri hernaðarvirkni, þá styrkir NATO samvinnuna við Svíþjóð og Finnland á Eystrasaltssvæðinu.

Nýjustu fréttir frá Noregi: Í Noregi hafa þegjandi og hljóðalaust orðið brotthvarf frá upphaflegum NATO-skilmálum landsins frá 1949 þar sem sagði að ekki yrðu leyfðar í landinu herstöðvar eða herafli framandi hervelda á friðartímum. Nú hefur bandaríski flotinn viðvarandi herafla og hergögn á Værnes í Þrándheimsfirði. Og nú í desember er þar mættur bandarískur yfirhershöfðingi, Robert Neller, heldur fund með bandarískum hermönnum þar og segir: „Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en það er stríð á leiðinni.“ Neller kallar það stórstríð, „a big-ass fight“. Á sama fundi sagði undirforingi hans, Ronald Green: „We've got 300 Marines up here; we could go from 300 to 3,000 overnight.“ Norsk stjórnvöld hafa ekki hafnað þessum orðum herforingjans.

Hin stóraukna beislun Norðurlandanna fyrir stríðsvagninn er hluti af innikróun Rússlands og stríðsundirbúningi NATO gegn Rússum. Aðrir þættir í því eru hinir miklu flutningar hergagna og liðsafla NATO til nýju NATO-ríkjanna, nágrannalanda Rússlands að vestan, m.a. kerfi nýrra eldflaugaskotpalla í Póllandi, Rúmeníu og víðar og tilheyrandi NATO-heræfingar. Allt þetta hefur svo enn margfaldast frá árinu 2014 (þá yfirtóku Rússar Krímskaga) á öllu beltinu frá Eystrasaltssvæðinu til Svartahafs og Miðjarðarhafs. Liðir í hinum sama eru hinar víðtæku efnahagslegu refiaðgerðir USA og NATO-ríkja gegn Rússum sem Íslendingar taka þátt í með stuðningi allra flokka á þingi nema Flokks fólksins (?).

Yfirhershöfðinginn Robert Neller er ekki hver sem er. Hann er meðlimur í Joint Chiefs of Staff, voldugustu einingu bandarískra hermála. Ræða hans í Værnes er stefnumarkandi og eftirfarandi orð hans hafa líklega meira vægi en ef þau kæmu frá Donald Trump: „Ég hef trú á að við munum fljótlega snúa athygli okkar“ sagði hann „frá Miðausturlöndum til Rússlands og Kyrrahafsins“. Þ.e.a.s. áherslan snýst frá svæðisbundnum átökum og beinist beint að hinum strategísku óvinum, Rússlandi og Kína.

Loks verður að nefna Rússafárið í Bandaríkjunum. Bandaríska þjóðin kaus Donald Trump sem forseta m.a. af því hann sagaðist mundu draga úr spennu gagnvart Rússum, en slíkt gengur augljóslega gegn stefnu „djúpríkisvaldsins“ og hefur skapað forsetanum mikinn vanda. Slík pólitík verður ekki leyfð. Og eins og þessi forsetakosning hafi aldrei farið fram eykur bandaríska heilaþvottavélin jafnt og þétt áróðursmoldviðrið um rússneskt samsæri og rússneska íhlutun um bandarískar kosningar og önnur bandarísk innanríkismál. Rússafárið er sálfræðileg kynding stríðsaflanna.

Framantalin atriði snúast ekkert um leifar „kaldastríðs-hugsunar“ eða neitt slíkt. Þau snúast öll um ógnir nýs heimsvaldastríðs sem hrannast nú upp.