Sunday, December 23, 2018

Viðsnúningur í Sýrlandi

(birtist á Stríðið í Mið-Austurlöndum 23. des 2018)
                                          Donald Trump og James Mattis fráfarandi varnarmálaráðherra


Donald Trump og bandarísk yfirherstjórn sem nú hernema norðausturhéruð Sýrlands hafa sent tilkynningar um heimkvaðningu heraflans. Innri átök eru vestur þar og „mad dog Mattis“ segir af sér. Aldrei mun Donald Trump teljast til bandamanna andheimsvaldasinna, hann fer fyrir herskáasta ríki heims. En í kosningabaráttunni 2016 kallaði Trump einmitt á heimkvaðningu frá Sýrlandi. Þá benti ég á að Trump gerði út á "..utanríkisstefnu "raunsæis" sem viðurkennir að hernaðarleg heimsyfirráðastefna USA er að lenda í strandi ellegar heimsstyrjöld - og að treysta þurfi á aðrar leiðir til að bjarga heimsveldinu." Trump hefur oft síðan snúið kápunni eftir ríkjandi vindi hnattvæðingarelítunnar (sem er líka stríðsfylkingin). En þessi síðasta stefnubreyting hans (ef hún endist) er merki um að hluti bandarísku elítunnar horfist af raunsæi í augu við það að staða BNA í heiminum er breytt og óbreytt utanríkisstefna leiði óhjákvæmilega út í katastrófur og botnlausa mýrina. En RÚV leggur hins vegar megináherslu á að viðsnúningur Trumps í Sýrlandi væri svik við oss bandamenn BNA!

Aðalástæða umræddrar stefnubreytingar er að Bandaríkin ásamt NATO-veldunum og Persaflóafurstunum eru að tapa stríðinu gegn Sýrlandi. En Íslenskir fjölmiðlar eru heilt yfir gagnrýnir á þessa stefnubreytingu. Leggja m.a. áherslu á að með henni séu Kúrdar yfirgefnir. Sem er út af fyrir sig rétt.

Þetta stríð hefur aðallega verið háð gegnum staðgönguheri. Annars vegar með hjálp hinnar broguðu fylkingar íslamista sem hefur nú nokkurn veginn einangrast í Idlib-héraði. Hins vegar er það herinn SDF (með Varnarsveitir Kúrda YGP sem uppistöðu )sem hefur í þessu stríði fyrst og fremst verið fótgönguher austan Efrats fyrir Bandaríkin og  „Bandalagið gegn ISIS“. Óvænt ákvörðun Trumps um að kalla heim herina setur Kúrda vissulega í erfiða stöðu. Þá stöðu hafa Kúrdar því miður skapað sér sjálfir með því að gerast bandamenn Bandaríkjanna í streði þeirra að sundurlima Sýrland. Kúrdar sannreyna enn og aftur að heimsvaldastefnan er svikulastur vina. Ef Kúrdar hefðu viljað semja við Sýrlandsstjórn fyrir ári eða tveimur um aukna sjálfsstjórn hefðu þeir verið allgóðri samningsstöðu – en hún er miklu lakari nú.  


Tuesday, November 27, 2018

Jón Baldvin um Evrópusambandið undir þýskri forustu

(birt á fésbókarsíðu höfundar 27. nóvember

Einræða Jóns Baldvins Hannibalssonar um ESB, evruna, 3. orkupakkann í Silfrinu á sunnudag (25. nóvember) sætir tíðindum. Í viðtalinu ber Jón Baldvin saman fjármálakreppuna á Íslandi og í evruríkjunum eftir hrun: ESB undir þýskri forustu neyddi skattgreiðendur til að „bjarga bönkunum“ og hafnaði algjörlega að skuldunautar fengju skuldir afskrifaðar af því þýskir og franskir bankar heimtuðu svo. Jón Baldvin orðrétt: „Forusta ESB tók algjörlega svari fjármagnseigenda, 1%-elítunnar, og vanrækti algjörlega að taka svari þeirra sem raunverulega báru byrðarnar...Evruþjóðir hafa ekki gengisaðlögunartækið [eigin gjaldmiðil] og Maastricht-sáttmálinn bannar að reka ríkissjóð með halla, eins og Keynes hefði ráðlagt, nema X% [3%]. Svo það eru allra handa skerðingar á ríkisfjármálatækjunum líka. Niðurstaðan: Þjóðirnar fyrir utan Þýskaland sitja uppi með evru sem þjónar algjörlega þýskum útflutningshagsmunum... ESB er klofið milli hinna ríku – lánadrottnanna – og hinna veikari – skuldunautanna... Pólitíkin í ESB er eins og hún er í fyrsta lagi út af forustuleysi og í öðru lagi vegna þess að fjármagnseigendur ráða þarna lögum og lofum.“ Sjá viðtalið.



Viðhorf Jóns Baldvins til ESB, ekki síst eftir þróun þess í myntbandalag, eru í mörgu breytt. Maður með hans fortíð er ríkur að reynslu á þessu sviði og því full ástæða til að gefa þessum breyttu tónum hans gaum.