Showing posts with label friðarbarátta. Show all posts
Showing posts with label friðarbarátta. Show all posts

Saturday, November 2, 2019

Sýrlandsstríðið: innrás sem tapaðist

(birtist á Neistum.is 28. október 2019)

Veður skipast ört í lofti yfir Sýrlandi. Það sem Donald Trump boðaði fyrir tveimur vikum virðist síðan hafa gerst: Hann dregur bandarískan her burt af flestum átakasvæðum Sýrlands. Eftir nokkurra daga reiptog í stjórnkerfinu kom Trump samt aftur fram og útskýrði að herinn ætlaði þó ekki að yfirgefa sýlensku olíusvæðin. Í því sambandi er hann ekki með neitt froðusnakk um „lýðræði og mannréttindi“ í anda Obama, heldur segir hann einfaldlega: „Við höfum tryggt olíuna, og þess vegna munum við halda eftir litlum fjölda bandarískra hermanna á því svæði þar sem þeir [Sýrlendingar] hafa olíuna.“ Trump segist sem sagt hafa „tryggt olíuna“ svo hvorki ISIS né Sýrlandsstjórn komist í hana – og sendir þangað síðan aukinn liðstyrk. Það bendir til einhverrar framlengingar á þessu ránsstríði.

Brottkvaðning bandarísku hermannanna gerðist samhliða innrás Tyrkja („Friðarvorið“) á landræmu sunnan tyrknesku landamæranna 9. Október, sem Erdogan kvaðst ætla að gera að „öryggissvæði“ gegn hersveitum Kúrda. En Trump segist líka hafa komið fram sem „sáttasemjari“, hann hafi samið við Erdogan um að ganga ekki „of hart fram“ gegn Kúrdum. Þá segir hann að útkoman sé sigur fyrir Bandaríkin.

Trump getur vissulega sagt að það samræmist stefnu hans um um „America first“ að draga sig úr „endalausum íhlutunum“ vítt um veröld, að það sé gott fyrir Bandaríkin að losna úr „endalausum stríðum“ sem hafi kostað ríkið 8 billjónir dollara. Hann hefur líka sagt nýlega að stríðin í Írak og Sýrlandi hafi verið „tilgangslaus“ og „byggð á lygum“. Brottkvaðningu úr Sýrlandi er hins vegar mætt með víðtækri gagnrýni úr bandaríska „djúpríkinu“, frá haukum beggja flokka. Þar er Trump fordæmdur fyrir að svíkja bandaríska hagsmuni, svíkja Kúrda og „endurlífga ISIS“. Það hefur blasað við lengi að Bandaríkin eru alvarlega klofin í afstöðunni til Sýrlandsstríðsins. Hernaðariðnaðar-batteríið (military-industrial complex) ræður ennþá „djúpríkinu“ og CIA er nátengd því.


Sochi-samningur og Kúrdaspurningar
Trump talar valdsmannslega en hann er í raun ekki í aðstöðu til að ákvarða neina friðarskilmála í landi sem hann sýnist vera að hröklast út úr. Ef brottkvaðningin er meira en sjónhverfingar. Hins vegar var gerður annar samningur 22. október sl., í Sochi í Rússland, milli Pútíns og Erdógans. Samningsviðræðurnar voru harðar en ákvæðin í þeim samningi eru alveg áþreifanleg: Samkvæmt þeim á Tyrkland að stöðva árás sína á Sýrland. Landræma við landamærin skal vera „öryggissvæði“ þar sem Sýrlandsher mun taka stjórn en Tyrkir og Rússar gæta þess að skilmálum sé fylgt.

Varnarsveitir Kúrda (YPG, hluti af SDF-hernum) verða að hverfa frá landamærunum. Sýrlandsher skal taka stjórn í Norðaustur-Sýrlandi. Einingu og friðhelgi Sýrlands skal virða, öll sundurlimun úr sögunni. Í samningnum frá Sochi er ekki Bandaríkjunum ætlað neitt hlutverk. En reyndar var þar ekki heldur neitt minnst á olíusvæðin.

Tuesday, March 24, 2015

Friðarbaráttan og SHA



Friðarhreyfingin á Vesturlöndum hefur undanfarin ár verið lítt virk og sýnist mjög ráðvillt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi, Írak, Úkraínu og víðar. Ekki heldur SHA á Íslandi tekst að taka skýra afstöðu Í þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja öfluga baráttu fyrir friði.
Þetta er breyting frá því sem áður var. Ég fékk pólitíska skírn í baráttunni gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna í Víetnam, stríði sem ól af sér mesta andheimsvaldastarf 20. aldarinnar. Alþjóðleg samstaða átti stóran þátt í sigri víetnömsku þjóðarinnar 1975 og sú hreyfing olli pólitískri ólgu á Vesturlöndum og gerði mína kynslóð róttæka. Viðlíka gerðist aftur í tengslum við innrás „hinna viljugu“ í Írak 2003. Þá kviknaði aftur öflug grasrótarbarátta gegn stríði um hinn vestræna heim. Mannfjöldinn í götumótmælum var hliðstæður við hátinda Víetnambaráttunnar. Og mótmælahreyfingin gegn stríðinu vann áróðursstríðið svo Bush og Blair stóðu uppi sem ærulausir stríðsglæpamenn sem höfðu falsað gögnin um „gjöreyðingarvopn Saddams“.
Mótmælin gegn Íraksstríðinu á Íslandi voru líka mjög kröftug. Mánuðum saman voru vikulegir útifundir haldnir í Reykjavík. Allt annað gildir um nýjustu stríðin. Engin mótmæli eða ályktanir komu frá SHA né öðrum þegar stríð NATO geysaði í Líbíu. Og sama er uppi á teningnum í Sýrlandi, í stríði sem USA og ESB-veldin reka gegnum staðgengla. Breytingin er afskaplega sláandi. Ég ætla að slá því fram að meginorsakirnar séu tvær:


Í FYRSTA LAGI  skýrist hin ráðvilta afstaða fjölmargra friðarhreyfinga af því að heimsvaldasinnar tóku upp „smart power“ (sniðuga beitingu valds). Þeir píska upp stemningu gegn útvöldum „harðstjórum“, beita fyrir sig mannréttindasamtökum (NGO´s) og skipuleggja miklar ófrægingarherferðir gegnum heimspressuna. Slíkar herferðir geta tekið stefnu á íhlutun frá „alþjóðasamfélaginu“ undir merkjum „mannúðarinnrásar“ (sbr Líbíu), eða þá, sem algengara hefur orðið, að valin er leið stríðs gegnum staðgengla. Þá felst íhlutunin í að styðja uppreisn óánægðra trúarhópa eða þjóðernishópa og byggja upp og vopna her málaliða, oftast undir trúarlegri eða þjóðernislegri yfirskrift. Þriðja aðferðin er að ráðist er á fórnarlömbin út frá endurnýjaðri kennisetningu um „stríð gegn hryðjuverkum“ (sbr Sýrland og Írak 2014). Lömun friðarhreyfingarinnar liggur þá í því að hún kaupir að einhverju leyti þessar opinberu skýringar stríðsaflanna á hernaðinum. Um þessar aðferðir kenndar við  „smart power“ fjalla ég í  annarri grein: