(Ræða lesin á málþingi Rauðs vettvangs um marxisma í Friðarhúsi 7. nóv 2015)
Heimsvaldastig kapítalismans inniber átök milli
efnahagslegra/pólitískra blokka sem bítast um markað og áhrifasvæði. Út úr
slíkum átökum hafa sprottið mörg staðbundin stríð sem og báðar heimsstyrjaldir
20. aldar. Lenín skrifaði eftirfarandi um eðli heimsvaldastefnunnar: „Þeir [kapítlistarnir] skipta heiminum „í
hlutfalli við fjármagan“, „í hlutfalli við styrkleik“. Um aðra aðferð getur
ekki verið að ræða við skilyrði vöruframleiðslu og auðvalds. En styrkleikahlutföllin
raskast með þróun efnahags- og stjórnmála... hvort sem sú röskun er
„hrein“-efnahagsleg eða af öðrum rótum runnin (t.d. hernaðarlegum).“
(Lenín, Heimsvaldastefnan – hæsta stig
auðvaldsins, bls 97-98)
Útþenslan er hreyfiafal og sál kapítalismans. Þegar í lok
19. aldar var heiminum fullskipt upp milli auðvaldsblokka. Heimsvaldastefnan
þolir hvergi neitt „tómarúm“ því útþensluhneigt auðmagnið flæðir þá inn í
viðkomandi tómarúm. Stundum gerist það með verslun og hreinni fjármagnsútrás (
sbr. „hnattvæðingu auðhringanna“) en stundum með hernaðarútrás, jafnvel þar sem
blokkirnar bítast með vopnum.
Það hefur sýnt sig að á hverjum tíma eru hinar ólíku
efnahags- og stjórnmálablokkir misjafnlega árásarhneigðar, mishneigðar til að
beita herstyrk. Af mismunandi ástæðum. Fyrir fyrri heimsstyrjöld og þó enn
frekar á 4. áratugnum var Þýskaland mjög árásarhneigt ríki. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir
sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými,
af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá
þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi
var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og hins tiltölulega litla
olnbogarýmis (hér er fylgt greiningu Leníns).
Krafa nasismans um
„lífsrými“ skýrist af þessu og einnig stuðningur þýska stórauðvaldsins við
nasismann og áform hans um hervæðingu efnahagslífsins og landvinninga. Lenín
hafði skrifað: „Hvaða úrræði annað en
stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli
þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar
nýlendna og áhrifasvæða hins vegar?“ (Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls. 130)