(Birtist  á Neistum 26. febrúar 2022)

Við heyrum það alls staðar, Úkraínudeilan snýst um yfirgang og árásarhneigð einræðisherrans í Kreml gagnvart varnarlitlu sjálfstæðu grannríki hans, Úkraínu. Yfirgang sem jafnframt er «ógn við öryggi í Evrópu” eins og utanríkisráðherann okkar segir.

Já, deilan snýst um frelsi og valkosti Úkraínu. En hún snýst um fleira. Um öryggi Rússlands, eins og Pútín klifar á. Hún snýst líka um grundvöll bandalagsins NATO og um þenslu þess í austur – og um hlutverk Bandaríkjanna í Evrópu.

Hver ber ábyrgðina? “Rússland eitt ber ábyrgð á þeim dauða og eyðileggingu sem árásin hefur í för með sér” segir Joe Biden. «En krise skapt av Russland alene» segir Jens Stoltenberg. Það sama segja Katrín, Bjarni og Guðni Th. Svona einfaldlega liggur ábyrgðin samt ekki.

Það er illmögulegt að taka vitræna afstöðu í Úkraínudeilunni nema að gera það í sögulegu ljósi. Það gerði Bogi Ágústsson á sinn hátt í fréttaþætti fyrir nokkrum dögum. Hann dró saman rússneska utanríkisstefnu sögulega: “Segja má að stöðug útþensla hafi ríkt öldum saman í því skyni að ná yfirráðum í grannlöndum Rússlands í vestri.” Þetta hljómaði eins og samþjöppuð réttlæting fyrir hinu vestræna viðhorfi til Rússa. https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/25249/7gpd4d/stada-og-saga-ukrainu

En myndin er fölsk. Vissulega er Rússland stórveldi, hefur verið það a.m.k. frá dögum Péturs mikla á 18. öld. Rússland er «náttúrulegasta» stórveldi í Evrópu. Rússar eru langstærsta þjóð Evrópu, búandi í risastóru landi. Fyrir 3-5 öldum stigóx Rússneska ríkið, einkum í styrjöldum við aðsteðjandi mongóla og Svía (og að nokkru leyti Tyrkjaveldi). En síðustu rúm 200 árin hafa stryrjaldir Rússa verið varnarstríð; stríðið við Napóleon, Krímstríðið við Breta og Frakka, stríðið við Japani 1905, stríð við Vilhjálm 2 Þýskalandskeisara í Fyrri heimsstyrjöld, stríðið við Hitler. Þessi stríð voru háð innan landamæra rússneska (og sovéska) ríkisins. Innrásarherirnir – allir nema Japanir – komu úr vestri, og yfirleitt gegnum Úkraínu.

Stríðið við Hitler var Rússum dýrt, 27 milljónir fallinna Sovétborgara og vesturhluti ríkisins eitt flag eftir. Eftir þau ósköp gripu Sovétrússar til harkalegra ráðstafana og komu sér upp „stuðpúðabelti“ vestan við sig sem tryggja skyldi að í þeim ríkjum sætu „vinsamleg“ stjórnvöld. Útþensla? Ja, það má a.m.k. auðveldlega túlka það svo að það hafi verið öryggisráðstöfun fremur en útþensluráðstöfun (þónokkur þessara ríkja höfðu raunar verið í bandalagi við Hitler). En Sovétríkin voru orðin risaveldi, fátækt en hernaðarlega sterkt.

Tilgangur NATO: «Halda Rússum úti Bandaríkjunum inni og Þjóðverjum niðri»

Heimsstyrjöldinni, herhlaupinu «Operasjón Barbaraossa» inn í Sovétríkin, var varla lokið þegar hafið var enn eitt stríð, nú «kalt», gegn Sovétríkjunum undir bandarískri forustu. Þremur og hálfu ári frá stríðslokum var NATO stofnað þeim til höfuðs (sex árum á undan Warsjárbandalaginu).

Opinn og yfirlýstur tilgangur NATO var að verja lýðræðisríki í vestri gegn Sovétríkjunum og kommúnistahættunni. En fyrsti framkvæmdastjóri NATO, Lord Hastings Ismay, orðaði hins vegar tilgang þessa bandalags Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu talsvert betur: NATO var stofnað til að «halda Rússum úti, Ameríkönum inni og Þjóðverjum niðri» sagði hann. Bandaríkin voru ráðandi í bandalaginu og þannig tryggði NATO úrslitaáhrif þeirra í Evrópu (fyrst vestanverðri).

Tíminn leið til ársins 1991. Þá leystust Sovétríkin upp og Varsjárbandalagið líka. Þar með var yfirlýstur tilgangur bandalagsins NATO (að verjast kommúnismanum) horfinn og lá nú beinast við að leggja það niður líka. Síðustu Sovétleiðtogunum voru líka gefin margvísleg loforð um öryggismál. Nýlega skrifaði hinn virti Der Spiegel um viðræður stórveldanna árið 1990 í aðdraganda þess að Varsjárbandalagið var lagt niður:

Sem betur fer er nóg af skjölum aðgengilegum frá þeim ríkjum sem tóku þátt í viðræðunum, þ.á.m. greinargerðir frá samtölum, samningsútskriftir og skýrslur. Samkvæmt þessum skjölum gáfu Bandaríkin, Bretland og Þýskaland það til kynna að NATO-aðild landa eins og Póllands, Ungverjalands og Tékkóslóvakíu kæmi ekki til greina. Í mars 1991 lofaði breski forsætisráðherrann John Mayor í heimsókn í Moskvu að «ekkert slíkt mun gerast». https://www.spiegel.de/international/world/nato-s-eastward-expansion-is-vladimir-putin-right-a-bf318d2c-7aeb-4b59-8d5f-1d8c94e1964d Áður hafði Der Spiegel vitnað í ummæli James Baker utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar rætt var um mögulega sameiningu Þýskalands. Með orðum hans yrði þá «engin útvíkkun lögsagnarumdæmis NATO-herja eina tommu austar» https://www.spiegel.de/international/world/nato-s-eastward-expansion-did-the-west-break-its-promise-to-moscow-a-663315.html

„Halda Bandaríkjunum inni"

Málin tóku þó fljótt aðra stefnu. Sovétríkin leystust upp í desember 1991. Bandaríkin litu á það sem «gullið augnablik» fyrir sig sem opnaði þeim fordæmalausa möguleika. Strax árið 1992 lagði hermálaráðuneytið Pentagon sína hermálaáætlun, Defence Planning Guidance 1994-1999. Þar er lögð megináhersla á það atriði að Evrópa megi aldrei leysa sín öryggismál á eigin spýtur, án aðkomu Bandaríkjanna. Eins og þar segir: