(Birt á Friðarvefnum 31 október 2016)
Barnamyndirnar frá Aleppo þjóta um eterinn og steypast yfir okkur gegnum sjónvörp, dagblöð og samfélagsmiðla. Vaskir menn, gjarnan með hvíta hjálma, hlaupa út úr hrynjandi húsum með börn í fanginu. Myndunum fylgir jafnan sú skýring að þetta séu fórnarlömb loftárása Sýrlandshers („tunnusprengjurnar“) ellegar Rússa. Myndirnar þjóna nokkrum brýnum hlutverkum: a) að djöfulgera Assad forseta og hans menn, b) að vinna fylgi kröfunni um að dæma Sýrlandsstjórn og Rússa fyrir stríðsglæpi – í Öryggisráðinu og víðar og c) að kalla eftir „loftferðabanni“ á Sýrland sem í framkvæmd þýðir fullgildur lofthernaður og/eða innrás NATO-veldanna í Sýrland. Hér skiptir líka máli að Hillary Clinton hefur nú stillt sér kröftuglega á bak við hugmyndina um „loftferðabann“, andstætt bæði Donald Trump og Barak Obama.
"Drengurinn í sjúkrabílnum" - Omran litli í
heimspressunni
Omran litli – „andlit Aleppo“
Ein mynd hefur farið öðrum meiri sigurför um heiminn síðan hún birtist í ágúst síðastliðnum: myndin af „drengnum í sjúkrabílnum“ sem ku heita Omran Daqnees. Sjá Wikipedíu um hann. Samkvæmt fréttinni bjó Omran litli á svæði uppreisnarmanna í Aleppo. Ljósmyndarinn Mahmoud Raslan bjó aðeins 300 metra þaðan frá, og vaknaði því upp við sprengjuárás stjórnarhersins svona nærri. Sem betur fór voru „Hvítu hjálmarnir“ nærstaddir og björguðu Omran og fjölskyldu hans.
Fyrir skemmstu fullyrti Assad Sýrlandsforseti í svissnesku sjónvarpsviðtali að umrædd mynd væri sett á svið og dró fram aðrar myndir af drengnum og systur hans í öðrum kringumstæðum annars staðar í borgarrústunum. Yfirleitt eru þau þar í fanginu á einhverjum „Hvítu hjálmanna“, og Assad fullyrti að þetta væru hannaðar sviðsmyndir.
Myndirnar hafa verið krítískt skoðaðar af fleirum, bæði áður og enn frekar eftir viðtalið við forsetann. Moon of Alabama hefur nú birt nokkrar og mismunandi myndir af þeim systkinum, og ekki fer á milli mála við skoðun og samanburð að börnin eru klessumáluð og förðuð, og eru í leiksýningum. Þarna er sem sé einhver auglýsingaiðnaður á bak við. Einhvers konar barnaklám sem fréttastofurnar styðja og fær því mikla dreifingu.