Showing posts with label flóttamenn. Show all posts
Showing posts with label flóttamenn. Show all posts

Tuesday, October 17, 2017

Flóttamenn, heimsvaldastefna og hjartagæska

(Birtist í vefritinu neistar.is 16. okt 2017)

Ræðum nú aðeins flóttamannavandann. Sko, í kosningaumræðunni núna og íslenskri stjórnmálaumræðu er afar lítið talað um utanríkismál. Og sama sem ekkert um stríð og stríðshættu. Ein ástæðan er sú að það er engin raunveruleg stjórnarandstaða á þessu sviði á Alþingi. Það lengsta sem kosningaumræðan kemst inn á umrætt svið er að ræða „flóttamannavandann“. Af viðmælendum á götunni er ég dálítið spurður um afstöðu Alþýðufylkingarinnar til flóttamanna. Stundum í gagnrýnum tón, og er þá Alþýðufylkingunni líklegast ruglað saman við Íslensku þjóðfylkinguna, en það vandamál verður nú minna eftir skipbrot þess framboðs.

Umhyggja almennings gagnvart flóttamönnum sýnir heilbrigt hugarfar, síst skal gera lítið úr því. En fjöldi móttekinna flóttamanna er samt ekki aðalatriði málsins. Í fjölmiðlaumræðunni um flóttamenn, og í umræðu flokkanna flokkanna á Alþingi, er skipulega horft framhjá aðalatriði þess máls, orsökum flóttamannastraumsins. Höfuðorsakir hans eru í fyrsta lagi ránsstyrjaldir heimsvaldasinna og í öðru lagi misskipting og arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Hér mun ég eingöngu tala um fyrrnefnda atariðið.

Skv. tölum Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) eru um 22 milljónir manna á heimsvísu skilgreindir flóttamenn utan eigin lands, fólk sem flýr stríð, átök og ofsóknir. Á 21. öldinni eru nokkrar stærstu uppsprettur flóttamanna Afganistan, Írak, Sómalía, Suður-Súdan, Jemen og Sýrland. Sýrland hefur verið stærsta einstaka uppspretta flóttamanna frá 2011 og hefur valdið stöðugum og örum vexti í heildarfjölda flóttamanna. Stærsti orsakaþáttur flóttamannasprengjunnar er stríðsrekstur bandamanna okkar, NATO-velda og bandamanna þeirra, í framantöldum löndum (Suður-Súdan býr að vísu ekki við hernaðarinnrás heldur borgarastyrjöld frá 2013 eftir að Bandaríkin og Vesturlönd þvinguðu í gegn skiptingu Súdans 2011). Að baki hinni vestrænu hernaðarútrás, sem kallast oftast „stríð gegn hryðjuvverkum“ býr gróðadrifin, kapítalísk heimsvaldastefna.

Það er mikil hræsni að aulýsa sig sem sérstakan vin flóttamanna en standa í reyndinni á bak við þær styrjaldir sem flóttamannastraumnum valda. Íslenskar ríkisstjórnir hafa stutt hernað Vesturlanda og bandamanna þeirra í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi. Íslensk stjórnvöld hafa auk heldur með þögninni stutt glæpsamlegan stríðsrekstur Sádi-Araba gegn Jemen sem enda er studdur af forusturíkjum NATO.

Þarna breytir litlu eða engu um afstöðu Íslands hvort hér situr íhald við völd eða sk. vinstristjórnir, stuðningurinn við stríðsrekstur bandamanna okkar er óbreyttur. Stuðningur Davíðs og Halldórs við innrásina hroðalegu í Írak 2003 er frægur að endemum. Stuðningur íslensku vinstristjórnarinnar við stríð NATO gegn Líbíu 2011 var fumlaus og skilyrðislaus, stríð sem rak 2 milljónir á flótta, þriðjung þjóðarinnar. Svokölluð „uppreisn“ í Sýrlandi hófst einnig árið 2011. „Bandalag uppreisnarhópanna“ var skjótt viðurkennt og stutt af USA og NATO-ríkjum og bandamönnum þeirra við Persaflóa og af Ísrael – og af íslensku vinstristjórninni. „Uppreisnin“ leiddi af sér ómældar þjáningar fyrir landið. Fyrir hana voru sýrlenskir flóttamenn nánast óþekkt fyrirbæri en innan skamms var hálf þjóðin á flótta, innan landsins eða utan.

Flóttamannastraumur og framlög ríkja til „öryggis- og varnarmála“ hangir náið saman. Eins og áður sagði er stærsti orsakaþáttur flóttamannasprengjunnar hernaðarbrölt NATO-velda og bandamanna þeirra. Hvað um Ísland? Á vef Utanríkisráðuneytisins kemur fram að „hornsteinar varna landsins eru eftir sem áður varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).“ Meginverkefni NATO í Evrópu nú um stundir er hernaðaruppbyggingin gagnvart Rússlandi. Loftrýmiseftirlitið við Ísland er hluti af því. Þar við bætast hinar efnahagslegu refsiaðgerðir USA og ESB gegn Rússum út af Úkraínudeilunni. Vestrænt stutt valdarán í Kiev og hernaður nýrra stjórnvalda þar gegn austurhéruðunum hefur leitt af sér flótta um 1 milljónar manna þaðan úr landi. Refsiaðgerðirnar gegn Rússum eru studdar af öllum flokkum á Alþingi og hin tvöfalda árásarstefna Vesturblokkarinnar gegn þeim mætir engri andstöðu á Alþingi Íslendinga.

Stríðsframlög Íslands eru einkum pólitískur stuðningur við stríð. En þó að við berum eingöngu saman „varnarmálaframlög“ Íslands og framlög til flóttamanna er útkoman mjög slæm. Á yfirstandandi ári eru framlög Íslands til „flóttamanna og hælisleitenda“ (150 milljónir) aðeins einn tíundi hluti af framlagi landsins til „öryggis- og varnarmála“ (1,5 milljarður).

Alþýðufylkingin krefst þess að Ísland auki framlög sín til flóttamanna mjög verulega. Samt er það aðeins einn þáttur málsins, og ekki sá mikilvægasti. Flóttamannastraumur er fyrst og fremst ein afleiðing af yfirgangi heimsvaldasinna. Aðalspurningin á að vera: Hver er afstaða ykkar/okkar til styrjaldanna í áðurnefndum löndum? Þá spurningu vilja stjórnamálaflokkar Alþingis ekki ræða. Hana vill RÚV ekki heldur ræða, bara afstöðuna til flóttamanna. Þetta þrönga sjónarhorn mætti yfirfæra á annað svið til glöggvunar, frá utanríkisstefnu t.d. yfir á lýðheilsustefnu. Segjum að stjórnvöld rækju þá lýðheilsustefnu að troða í þegnana sem allra mestu af sykri og ómeti – sem væri jú nokkurs konar sýklahernaður gegn þeim – og tækju svo afleiðingum hernaðarins með mikilli áherslu á bætta tannhirðu. Það væri einmitt hliðstætt þeirri stefnu Vesturlanda (þ.á.m. Íslands) að standa að hernaði víða um heim og gera svo móttöku flóttamanna að aðalatriði í lausn vandans.

Sem áður segir er Sýrland nú stærsta uppspretta flóttamanna á heimsvísu, en nú eru fréttir þaðan reyndar batnandi. Góðu fréttirnar eru ekki brjóstgæði einstaka Evrópulands í móttöku flóttamanna – enda gildir um þau flest það sama og um Ísland að framlag þeirra til stríðsþáttarins er margfalt meira en framlagið til flóttamanna – heldur eru það hernaðarlegir sigrar Sýrlandshers sem valda því að flóttamannastraumur þaðan er byrjaður að snúast við.

Monday, August 21, 2017

Sýrlenskir flóttamenn snúa heim


SÞ-stofnunin International Organization for Migration (IOM) greinir frá að nú fjölgi mjög sýrlenskum flóttamönnum sem snúi heim, 600 þúsund það sem af er ári. Meirihluti þeirra er flóttafólk innan Sýrlands. Þetta eru straumhvörf í þróun stríðsins, þökk sé sigrum Sýrlandshers gegn innrásarherjum sem styðjast við NATO-ríkin og bandamenn við Persaflóa.


Skýrslan segir m.a. að meirihluti þeira sem snúa heim fari til Aleppó-stjórnsýsludæmis: "Half of all returns in 2016 were to Aleppo Governorate. The report shows that similar trends have been observed in 2017. Consequently, an estimated 67 per cent of the returnees returned to Aleppo Governorate" Áhugavert er að rifja upp áralangar hjartnæmar lýsingar RÚV á frelsisbaráttu uppreisnarmanna í Aleppo og sjá svo í ljósi þessa hverjir það voru sem í raun háðu frelsisbaráttu þar í borg. Sjá heimild. 

Thursday, December 1, 2016

Frelsun Aleppo (2)

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 30. nóv 2016)
[sjá grein með sömu yfirskrift frá febrúar sl.

Frelsun Aleppo gerist nú hraðar. Þessi stærsta borg Sýrlands hefur verið klofin í Vestur og Austur frá 2012 þegar „uppreisnarmenn“ náðu austurhlutanum á sitt vald. Nú býr um 1,5 milljón í vesturhlutanum sem Sýrlandsstjórn hefur alltaf haldið. Um hálf milljón hefur áður flúið frá austurhluta til vesturhluta borgarinnar. Eftir að austan eru 200-300 þúsund íbúar, þ.m.t. vígamennirnir (meirihlutinn líklega erlendur). Vígahóparnir – studdir NATO-veldum, Tyrklandi og Persaflóaríkjum – reyndu í október að hefja nýja sókn, en mistókst. Sýrlandsher hefur mikið til tekist að loka aðflutningsæðunum frá Tyrklandi og tekur nú eitt hverfið af öðu austan til í borginni, og nýjum hópum þjáðra íbúa hefur tekist að flýja. „Signs that the dogged resistance to the Syrian Army and Russian airforce in eastern Aleppo may be crumbling have started to appear as thousands of people fled to areas under government control...“ skrifaði Guardian sl. sunnudag. Þessir flóttamenn munu segja jafn ljóta sögu og flóttamennirnir frá Mosul sem fengið hafa gott pláss í íslenskri pressu undanfarið (UN Women: „Konum blæðir“). Mosul hefur verið á valdi ISIS á meðan „it's primarily al-Nusra who holds Aleppo“ eins og Steve Warren talsmaður Pentagon hefur viðurkennt. Við kunnum söguna um hina grimmu heri Assads og Rússa sem einkum herja á skóla og sjúkrahús og gegn þeim illa vopnuð „alþýðuuppreisn“, og loks um fulltrúa mannúðarinnar: mennina með hvítu hjálmana. En sú saga og sú mynd var sviðsett fyrir Vestrið. Stríð Vestursins gegn Sýrlandi tapast, og spilaborg lyganna hrynur.


Tuesday, October 27, 2015

Flóttamannasprengingin - orsakir og afleiðingar

(Erindi flutt í Friðarhúsi 17. október 2015, birt á fridur.is 25. október)
Fyrst eru það nokkrar staðreyndir sem að minni hyggju eru fyrirfram gefnar og ég mun ekki rökstyðja hér nema að litlu leyti. Flest af því má sjá grundað og rætt á vefsíðu minni.
Eitt: Heimurinn horfist í augu við mesta flóttamannavanda frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Tvö: Flóttamannastraumur þessi er að mestu afleiðing styrjalda. Flóttamannastofnun SÞ segir að mikill meirihluti flóttafólksins sem kom yfir til Evrópu á fyrrihluta árs 2015 hafi flúið stríð, átök og ofsóknir. Þrjú: Versta átakasvæðið er í Miðausturlöndum í víðum skilningi. þ.e. fyrir botni Miðjarðarhafs og á aðliggjandi svæðum. Fjögur: Stríðin sem geysa og hafa geysað í Miðausturlöndum og N-Afríku eru ránsstyrjaldir vestrænna stórvelda, oft háð gegnum staðgengla. Þar af eru hin stærstu Íraksstríðið, nánar tiltekið þrjú Íraksstríð, Afganistanstríðið, stríð í Líbíu, stríð í Sýrlandi. Stríðin snúast um áhrifasvæði heimsvaldasinna, eru ný útgáfa nýlendustyrjalda. Svo vill til – ekki tilviljun samt – að löndin sem verða vettvangur stríðsins eru olíulönd eða gegna lykilhlutverki í olíuflutningum. Árásaraðilinn er Bandaríkin og NATO. Fimm: Ísland hefur stutt öll þessi nýlendustríð vestrænna stórvelda.
Þriðja heimsstyrjöldin
Við skulum fyrst skoða aðeins nánar þessi nýju nýlendustríð. Þá kemur í ljós að þau eru ekki aðskildir atburðir. Þetta eru seríustríð. Sérstaklega frá 11. september 2001 hafa stríðin blossað upp eins og jólasería þar sem raðkviknar á perunum, sem sagt í einu samhangandi ferli. Stríðið gegn hryðjuverkum, stríðið gegn Írak, gegn Sýrlandi, gegn Líbíu, austur-Úkraínu, allt er þetta sama stríðið. Lógíkin í þessum stríðum er barátta um heimsyfirráð, þau beinast gegn keppinautum Bandaríkjanna og NATO.
Það má tala um þessi seríustríð sem nýja heimsstyrjöld, þriðju heimsstyrjöldina eða þá fjórðu ef kalda stríðið var talið sem sú þriðja. Það má tímasetja upphaf þessarar heimsstyrjaldar: 11. eptember 2001. Það höfðu geysað stríð sem voru undanfarar hennar, svo sem Persaflóastríðið og stríð í gömlu Júgóslavíu. En til að koma hnattrænu stríði af stað þurfti stórviðburð – það þurfti að eyðileggja goðsagnarkenndar byggingar og drepa mikinn fjölda manns – Bandaríkin þurftu sárlega nýjan óvin eftir Sovétríkin til að geta áfram byggt upp hið hnattræna hernaðarkerfi sitt. Þessum stórviðburði var komið í kring 11. september.

Sunday, September 6, 2015

Flóttamannasprengjan – á ekki að ræða orsakirnar?

(birtist í Fréttablaðinu 5. sept 2015)

Evrópa fær nú smjörþef af flóttamannavandanum. Fjölmiðlarnir ræða einkum hvernig stöðva megi strauminn, snúa honum við eða hvernig dreifa megi hælisleitendum um álfuna. Forðast hins vegar að tala um ORSAKIRNAR. Oft er gefið í skyn að þetta séu einkum efnahagslegir flóttamenn í leit að betri lífskjörum. Rangt. Langflestir flóttamenn nútímans flýja STRÍÐSÁSTAND. Skýrsla Flóttamannastofnunar SÞ um flóttamannastrauminn til Evrópu hefst svo: „Mikill meirihluti þeirra 130 þúsunda sem komu yfir Miðjarðarhaf til Evrópu sex fyrstu mánuði ársins 2015 flýja stríð, átök og ofsóknir.“ 

– SÝRLAND er stærsta uppspretta flóttamanna á heimsvísu með 4 milljóir flóttamanna, og 7 milljónir á flótta innan landsins sjálfs. Ástæðan? Jú, stríðið sem geysað hefur í landinu frá 2011, stríð Vesturveldanna og helstu bandamanna þeirra í Miðausturlöndum gegn Sýrlandi. Áður en það hófst var einfaldlega enginn flóttamannastraumur frá Sýrlandi. Stríðið hófst 2011 jafnhliða lokakafla Líbíustríðsins. Eins og í Líbíu hefur uppreisnin í Sýrlandi frá upphafi verið mönnuð af harðlínu-jíhadistum en studd, fjármögnuð og vopnuð af Vesturlöndum með bandamönnum, Persaflóaríkjunum, Tyrklandi... Staðgengilsstríð. Árið 2012 viðurkenndu USA og ESB bandalag uppreisnarhópa sem réttmætan fulltrúa sýrlensku þjóðarinnar og beita  sér fyrir „valdaskiptum“ í landinu. Sú afstaða var studd bæði af Össuri Skarphéðinssyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Þetta er sem sagt okkar stríð.