Showing posts with label seinni heimsstyrjöldin. Show all posts
Showing posts with label seinni heimsstyrjöldin. Show all posts

Friday, February 7, 2020

Söguendurskoðun frá Brussel



Molotov undirritar griðarsamninginn. Ribbentrop og Stalín fyrir aftan.


Í september 2019 voru 80 ár liðin frá upphafi seinna stríðs. Af því tilefni  samþykkti Evrópuþingið í Brussel þann 19. september „Ályktun um mikilvægi evrópskra minninga fyrir framtíð Evrópu.“ http://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-0021_EN.pdf  Í ályktuninni eru aðildarlöndin hvött til að halda hátíðlegan dag griðarsamnings Hitlers og Stalíns, 23. ágúst sem „sameiginlegan minningardag um fórnarlömb nasisma og kommúnisma“. Söguendurskoðun ESB gefur griðarsáttmálanum gríðarlegt sögulegt vægi en horfir skipulega framhjá aðdraganda hans.

Söguendurskoðunin er ekki alveg ný af nálinni þar sem Evrópuþingið samþykkti árið 2008 að lýsa 23. ágúst „evrópskan dag minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma“ og hefur síðan gert nokkrar almennari samþykktir um „evrópska samvisku og kommúnisma“ og „evrópska samvisku og alræðisstefnu“. En þessi síðasta ályktun gengur skrefi lengra en áður í því að gera Sovétríkin og Þýskaland Hitlers sameiginlega ábyrg fyrir heimsstyrjöldinni síðari.

Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem heiðra alræðisstjórnir, þ.á.m. þau sem helguð eru Rauða hernum. 

Ályktunin var borin fram af hægriflokkum á Evrópuþinginu en hún var studd af mörgum krataflokkum, grænum og frjálslyndum. En hún hefur mætt verulegri andstöðu. T.d. komu þúsundir kommúnista og vinstriróttækra saman í Róm hálfum mánuði eftir samþykktina og svöruðu ályktun ESB með slagorðinu „Fuck you!“ https://morningstaronline.co.uk/article/w/italian-communists-protest-eu-moves-to-rewrite-history
 
Í íslensku samhengi má segja að sögutúlkanir Þórs Whitehead  og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar ráði nú ríkjum í Brussel. Söguendurskoðunin er gamaldags andkommúnismi en gegnir jafnframt nýju hlutverki í nútímanum: í því að djöfulgera Rússland og endurnýjað rússahatur gegnir einmitt meginhlutverki í herskárri liðssöfnun BNA og Vestursins gegn keppinautunum í kalda stríðinu nýja. 

Hér á eftir fylgir ágæt grein um málið eftir Lennart Palm, sænskan söguprófessor, og birtist á vefnum BEVARA ALLIANSFRIHETEN. https://www.alliansfriheten.se/brussels-historierevisionism-om-andra-varldskriget/ 


ESB endurskoðar sögu síðari heimsstyrjaldar
Lennart Palm

Þann 19. sptember 2019 samþykkti Evrópuþingið með miklum meirihluta ályktunina „Mikilvægi evrópsksra minninga fyrir framtíð Evrópu“. Tilgangurinn með henni var sagður vera að þjóðir evrópu læri af stórslysum sögunnar til að forðast þau í framtíðinni. En minni er vandmeðfarið. Mennirnir vilja gjarnan hagræða og lagfæra söguna, oft af hugmyndafræðilegum orsökum. Stjórnmálamenn Evrópuþingsins reyna að búa til sameiginlegar minningar en sams konar hagræðingar-gangverk sýnir sig þar eins og hjá einstaklingum. Pólitískt viðkvæmum staðreyndum er ýtt út og hlutir teknir úr samhengi. Með orðum Harolds Pinter frá Nóbelsræðunni 2005: „Það hefur aldrei gerst. Ekkert hefur gerst. Ekki einu sinni meðan það gerðist gerðist það. Það hefur enga þýðingu.“ Hin umrædda ályktun hefur naumast verið nefnd í stóru fjölmiðlunum okkar. 

Meginhugsun ályktunarinnar er að Hitlers-Þýskaland og Sovétríkin hafi í sameiningu hafið seinni heimsstyrjöldina: „Evrópuþingið leggur áherslu á að seinni heimsstyrjöldin, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, byrjaði sem bein afleiðing af hinum alræmda nasistþýska-sovéska griðarsamningi frá 23. ágúst 1939, einnig nefndur Mólotoff-Ribbentropsamningurinn, og leynilegri bókun hans en með henni skiptu tvö alræðisríki, sem stefndu að því að leggja undir sig heiminn, Evrópu í tvö áhrifasvæði.“ Svo auðveldlega rugla menn spilunum – án neinna nýrra upplýsinga ganga menn í berhögg við viðtekið viðhorf í sagnfræðirannsóknum um Þýskaland sem upphafsaðila stríðsins. 

Nokkur gleymd efnisatriði: Seinni heimsstyrjöl var að miklu leyti framhald þeirrar fyrri. Í baráttu sinni um nýlendur og markaði öttu pólitískar elítur Evrópu árið 1914 þjóðum sínum út í mestu slátrun fram til þess tíma. Sigurvegararnir, fyrst og fremst Frakkar, Bretar, Bandaríkin og Belgar útnefndu Þýskaland sem eitt ábyrgt fyrir stríðinu og kröfðust grimmúðlegra stríðsskaðabóta. Landið var rænt gömlum þýskum svæðum eins og Elsass og Lotringen og Vestur-Prússlandi. Rínarhéruðin voru sett undir erlenda stjórn. 

Í austri féll rússneska keisaradæmið saman og í staðinn komu sjálfstæð ríki, verðandi Sovétríkin, Finnland, Eystrasaltslönd, Pólland m.m. Í Sovét-Rússlandi hélt borgarastríð milli rauðra og hvítra áfram til 1922. Hinir hvítu fengu hjálp frá hundruðum þúsunda  hermanna frá ríkjum í Vestrinu: Þýskalandi, Bretlandi, Tékkoslóvakíu, Bandaríkjunum, Finnlandi og öðrum. Í viðbót við það kom að Pólland réðst á og hernam stóra hluta af núverandi Hvítrússlandi og Úkraínu (hluta sem Stalín tók svo tilbaka 1939). Þessar innrásir skildu ekki bara eftir sig eyðingu, þær áttu líka þátt í að skapa andrúmsloft umsáturs í Sovétríkjunum. Einnig hér gleymir Evópuþingið illu sáðkorni Vestur-Evrópu í jörð hins ókomna. 

Sovétmenn voru sannfærðir um að þeir lifðu í fjandsamlegu umhverfi. Sovétforustan óttaðist fyrst mest Breta en fór með valdaatöku Hitlers að líta á hið nasíska Þýskaland sem helstu ógn. Áform Hitlers um að skapa sér „lebensraum“ og að gera hinn „óæðri lýð“ í austri að nýlendum voru vel þekkt úr Mein Kampf sem og þýska vígvæðingin (sem Sovétmenn vissu vel um gegnum hernaðarsamvinnuna við Weimarlýðveldið). Hernám Rínarhéraða og og íhlutunin gegn spænska lýðveldinu gerðu hættuna ljósari. 

Árið 1934 áleit utanríkisráðherra Sovétríkjanna að það væri „aðeins hægt að berjast gegn metnaðrgirnd Þýskalands af skjaldborg ákveðinna granna“. Sovétríkin beittu sér því fyrir „sameiginlegu öryggi“. En hversu „ákveðnir“ voru grannarnir? Íhaldssamir og frjálslyndir flokkar Þýskalands gerðu Hitler kleift að taka völdin og greiddu samhljóða atkvæði með umboðslögum hans 1933 [lög sem veittu honum stjórnarumboð, þýð.]. Lýðræðisstjórnir Evrópu höfðu staðið aðgerðarlausar gagnvart hernámi Rínarhéraða og uppreisn fasista á Spáni. Þrátt fyrir það gerðu Sovétríkin á 4. áratugnum ákafar tillögur um varnarbandalög við Frakka, Breta, Bandaríkin, Rúmeníu, Pólland, Júgóslavíu, já m.a.s. hina fasísku Ítalíu. Allstaðar var tillögunum hafnað, Pólland vann beinlínis gegn tillögum Sovétríkjanna alveg fram að stríði. Og enn átti það eftir að versna. 

Þann 29. September 1938 hittu breski forsætisráðherrann Chamberlain og Dadalier forseti Frakklands Hitler og Mússólíni í München. Þýskaland heimtaði að Tékkóslóvakía skilaði Súdetahéruðum með þýskmælandi íbúum. Hitler fékk grænt ljós frá Bretum og Frökkum að ráðast inn í Tékkóslóvakíu, og hann lét sem kunnugt er ekki staðar numið við Súdetahéruðin.

Einnig Pólland, sem árið 1934 varð fyrst til að gera griðarsamning við Hitler, sendi inn hermenn sína sem hertóku slésíska hluta Tékkóslóvakíu. Sovétfoustan sá nú hvert stefndi, þ.e.a.s. að Vestrið vildi fá Hitler til að stefna í austur. Stríðið virtist stöðugt nálgast, en svo seint sem í apríl 1939 hafnaði Frakkland nýju tilboði frá Sovétríkjunum. Í maí leitaði nýi utanríkisráðherran Mólotoff eftir samningi við Pólland en var strax hafnað. Það fóru þó fram samningaviðræður við Englendinga. Þeir áttu þó einnig í leynilegum samningaviðræðum við Þjóðverja og ákváðu að „fara sér hægt“. Þeir sendu sendinefnd með farþegaskipi (á 14 hnúta hraða) sem náði til Sovétríkjanna á 5 dögum, og þar sýndi sig að sendinefndin hafði ekki umboð til að undirrita neinn samning.

Nú gaf Moskva upp alla von um samninga við Vesturveldin. Mólotoff-Rippentroppsamningurinn var undirritaður 23. ágúst 1939. Samningurinn gaf Sovétríkjunum nokkra ávinninga. Þau fengu tóm til að byggja frekar upp varnir sínar fyrir þýsku árásina sem menn vissu að kæmi fyrr eða síðar. Gegnum hina (vissulega siðlausu) leynilegu bókun fékkst „áhrifasvæði“ sem virka skyldi sem stór höggdeyfir.
Öllu þessu samhengi hlutanna er vandlega ruglað og eytt í söguritun Evrópuþingsins. Einna furðulegast er að München-samkomulagið er þar ekki nefnt einu orði. 

En þetta er ekki nóg. Þann 22. júní 1941 kom svo árásin mikla á Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa. Þar tóku þátt auk Þýskalands einnig Austurríki, Rúmenía, Finnland, Ítalía, Ungverjaland, Slóvakía og Króatía. Það er frá nokkrum þessara landa sem eldsálirnar að baki ályktun Evrópuþingsins eru. Í hinni herteknu Evrópu lagaði borgarastéttin sig gjarnan að Þjóðverjum. Það voru reyndar Sovétríkin sem stóðu fyrir stærstum hluta andspyrnunnar gegn nasismanum (kostaði 27 milljónir sovétborgara lífið), og í andspyrnuhreyfingunum gegndu kommúnistar oft leiðandi hlutverki. Hvaða „minningar“ um þetta eigum við að varðveita, skv. Evrópuþinginu? Augljóslega engar!

Hvaða afleiðingar fær svona ályktun? Í framhaldinu er tjáningarfrelsinu hótað. Við megum búast við stöðugt þrengra tómi til umræðu, og nýjum, pólitískt leiðréttum skólabókum. Í ályktuninni eru aðildarlönd ESB hvött til að halda hátíðlegan 23. ágúst, dag þýsk-sovéska griðarsamningsins, sem  sameiginlegan minningadag um fórnarlömb um nasisma og kommúnisma, að forðast „lágkúru“ í umræðu og fjölmiðlum, að efla sameiginlega sögumenningu og veita meira fé til ESB-áróðurs. Rússneska samfélagaið er hvatt til að gera upp við sína sorglegu sögu og hætta meintu upplýsingastríði, háðu til að kljúfa hina lýðræðislegu Evrópu. Án þess að spá í grjótkast úr glerhúsi skrifar Evrópuþingið einnig að Rússland verði að hætta að rangsnúa sögulegum staðreyndum.

Þessi rússaandúð frá Brussel hefur verið ákaft gripin af stærsta blaði Svíþjóðar, Dagens Nyheter, af Michael Winiarski utanríkisskriffinna og af leiðarasíðu blaðsins. Við munum því miður sjá meira af slíku í fjölmiðlum okkar, miklu meira. En er það ekki viðvörunarmerki að pólitísk samkunda eins og Evrópuþingið fyrirskipi hvað er sögulegur sannleikur? Það leiðir hugann óneitanlega að alræðislegum forskriftum.
(Höfundur er prófessor emerítus við Gautaborgarháskóla)

Monday, September 22, 2014

Skilningshamlandi skrif Þórs Whitehead um upphaf seinna stríðs

[Á 4. og 5. áratug síðustu aldar var kommúnistahreyfingin helsta forustuafl alþýðu í baráttunni gegn nasisma og fasisma á heimsvísu. Og í seinna stríði voru það fyrsts og fremst Sovétmenn sem sigruðu og moluðu þýsku stríðsvélina. Ein helsta forsenda þess sigurs var fresturinn sem Sovétmenn keyptu sér með griðarsáttmálanum við Hitler 1939. Svo koma sagnfræðingar borgarastéttarinnar eins og Þór Whitehead og segja okkur að fasisminn og kommúnisminn hafi verið og séu bræður í anda og samherjar í raun. Neðanskráð grein er svargrein við bók Þórs, Milli vonar og ótta. Fyrir hana fékk Þór íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995. Á þessum tíma framstormandi frjálshyggju mætti bókin lítilli andstöðu meðal sagnfræðinga, og grein mín er áreiðanlega helstu andmælin úr þeim ranni. En burtséð frá skrifum Þórs Whitehead er þessi samningur Stalíns við Hitler heimssögulegur, og mjög mikilvægt að draga af honum rétta lærdóma.]

(Birtist í Morgunblaðinu 16. júní 1996)
ÞÓR Whitehead er langt kominn með að verða opinber sögutúlkandi íslenskrar utanríkisstefnu. Þar að auki er hann eitt helsta átórítet í akademískri umræðu um sögu íslenskrar kommúnistahreyfingar. Bæði þessi málefni eru mjög á dagskrá í síðustu bók hans, Milli vonar og ótta, sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin sem bestu bók síðasta árs á sviði fagbókmennta. Margt fróðlegt hefur Þór grafið úr fylgsnum heimildanna. Ég vil þó setja fram þessa spurningu: Er það sem hann skrifar um þessi mál e.t.v. fremur skilningshamlandi en skilningsaukandi?

"Kommúnasismi" sem tvíhöfða þurs

Milli vonar og ótta fjallar um fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er dramatískur tími í stjórnmálalífi Íslands og Evrópu, mjög markaður af griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Yfirleitt hefur Þór Whitehead þann sið að láta "heimildirnar tala". Hann leggur lítt fram eigin túlkanir á atburðum þessara tíma heldur dregur hann saman mikið magn heimilda, birtir úrval af því og eftirlætur lesendum að draga ályktanir. En úrval þeirra heimildabrota sem Þór dregur fram og samhengið sem þær mynda leiða hins vegar lesandann að ákveðnum ályktunum. Og þetta samhengi litast mjög af lífssýn Þórs. Það á við um það sem hann ritar um framgöngu kommúnista, hérlendis sem erlendis, á umræddum tíma og um þau skrif langar mig að fjalla lítillega (og til þeirra vísar titill greinar minnar). Einn ritdómari dregur t.d. ályktun beint af þessu "tali heimildanna" hjá Þór og skrifar að kommúnistar hafi bersýnilega verið "helstu talsmenn nasista eftir að griðasáttmálinn var gerður" (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Mbl. 20. des.). Þór setur aldrei fram svo grófa fullyrðingu berum orðum enda væri það ekki í samræmi við aðferð hans. Hann býr hins vegar til mynd þar sem slík fullyrðing liggur beint við en lætur ekki hanka sig á að koma með hana sjálfur. Myndin sem Þór dregur upp er raunar ekki ný. Hún er í meginatriðum lík málflutningi ráðandi afla þessara ára á Vesturlöndum og túlkun þeirra á griðasáttmálanum. Þór endurframkallar þá mynd einfaldlega með því að kalla á ný fram anda þessara ára. Að mínu mati er hér á ferðinni eitthvað annað en sagnfræði. Það er blaðamennska í sögulegu efni. Sagnfræðingur spyr spurninga, leitar hinna mögulegu skýringa og svara í heimildum sínum og tekur síðan afstöðu til þeirra. Þór veltir upp miklu söguefni að hætti blaðamanns en stoppar þar og eftirlætur lesendum að draga ályktanir.

En blaðamennska Þórs Whitehead er pólitísk, og stöku sinnum kemur hann með almennar "upplýsingar" sem í reynd eru pólitískt merktar túlkanir: 

"Stalín mælti einnig svo fyrir að Alþjóðasamband kommúnista skyldi virkjað gegn Bandamönnum ... Á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga ... Ráðstjórnin og Komintern höfðu afturkallað boðskapinn um samfylkingu gegn fasisma og fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu""(bls. 60-61).

Að sögn Þórs bergmálaði þessi nýja stefna Stalíns og Kominterns strax í málflutningi kommúnista á Íslandi. Sem dæmi um það tilfærir hann brot úr grein eftir Halldór Laxness og túlkar hana á sinn hátt. Hann segir hana vitnisburð um að kommúnistar hér hafi strax þóst skilja hver væri "dulinn tilgangur Stalíns" með hinni nýju stefnu: 

"Samfylking gegn fasisma" var úrelt orðin, því sáttmáli við Hitler, óvin siðmenningarinnar, þjónaði betur hagsmunum heimsbyltingarinnar ... Herjum Bandamanna og Þjóðverja blæðir út í langvarandi stríði, en Sovétríkin færa út landamæri sín í vesturátt og vígbúast í friði ... Í stað þess að haltra til framtíðarríkisins í hægfara samfylkingu gat óskadraumurinn um frelsun alþýðunnar þá ræst um alla álfuna, eins hratt og skriðdrekar hinnar stórkostlegu fimm ára áætlunar fengju sótt fram vestur á bóginn" (bls. 65).

Ofangreindar tilvitnanir og túlkanir draga upp eftirfarandi mynd: Í fyrsta lagi voru Stalín og Hitler bandamenn á þessu tímabili. Í öðru lagi hafði Stalín 1939 dulin plön um sórkostlega sókn vestur á bóginn. Í þriðja lagi gat Stalín, þegar honum hentaði, skipað fylgismönnum sínum á Íslandi sem annars staðar að gerast bandamenn fasista gegn sameiginlegum óvini beggja: lýðræðinu. Þeir hlýddu. Og þannig var línan fram á sumar 1941 þegar Hitler óforvarandis réðist á Stalín. Þá gerðust kommúnistar aftur andfasistar ­ en svo langt nær raunar ekki bókin Milli vonar og ótta.

Monday, September 15, 2014

Liðsafnaður í ranga átt - á ný

Rússarnir koma!
Fjölmiðlafárið undanfarið um „innrás“ Rússa og „fulla þátttöku“ í stríðinu í Úkraínu átti að skapa aðstæður fyrir nánari tengingu Úkraínu við NATO á leiðtogafundi bandalagsins í Bretlandi 4-5. september. Að sögn Camerons forsætisráðherra var verkefni fundarins einmitt að ákvarða tengsl  Úkraínu við NATO og stefnu NATO gagnvart Rússlandi. Niðurstaða fundarins varð vissulega nánara samstarf NATO við Úkraínu og „full hernaðarleg samverkan“ þeirra á milli. Þá var samþykkt „aukin samstarfsaðild“ nokkurra landa að NATO, m.a. fyrrum Sovétlýðveldanna Georgíu og Moldóvu, ennfremur Finnlands og Svíþjóðar. Hins vegar settu miklar ófarir Úkraínuhers undanfarið gagnvart „aðskilnaðarsinnum“ í austurhéruðunum mark sitt á fundinn. Borgarastríð, klofið land og óskýr landamæri útilokar a.m.k. fulla NATO-aðild Úkraínu í bráð. Enn fremur varð vopnahléið sem samið var um milli stríðsaðila 5. september til þess að ögn hægði á refsiaðgerðunum ESB-ríkja gegn Rússlandi.


Hitler, Stalín og Chamberlain áttu sviðið 1939

Rússar lögðu undir sig Krímskagann í mars slíðastliðnum eftir afar andrússnesk valdaskipti/valdarán í Úkraínu.  Yfirtaka Rússa varð að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu á skaganum sem tilheyrði Rússlandi frá 1783-1954 og er að mestu byggður Rússum. Þar hefur um aldir verið aðalflotastöð Rússa við Svartahaf. Leiðtogar NATO-landa fordæmdu aðgerð Pútíns sterklega, lýstu aftur á móti stuðningi við ný stjórnvöld í Kænugarði sem komu til valda í valdbyltingu og hafa síðan háð stríð gegn „aðskilnaðarsinnum“ í austurhluta landsins. Viðskiptabann og refsiaðgerðirnar gegn Rússum hafa þyngst stig af stigi. Hin meginviðbrögð Vestursins eru aukin hernaðarumsvif NATO í næsta nágrenni Rússlands og áköf umræða um nauðsyn þess að NATO þekki sinn vitjunartíma í Úkraínu. Vestrænir leiðtogar og vestræn pressa hafa leitað í ákafa að „smoking gun“ Pútíns í Úkraínudeilunni, leitað að sakarefnum til að hengja á hann sem árásaraðila, líkt og „gjöreyðingarvopnin“ voru hengd á Saddam Hussein 2003. Um tíma var það hollenska farþegaþotan, síðan NATO-myndir af rússneskum skriðdrekum í Úkraínu sem áttu að  vera „smoking gun“.
Leiðtogar  Norðurlanda láta ekki sitt eftir liggja. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar hefur lengi farið fyrir öðrum í harkalegum ummælumum Pútín: „Ég held að Krím sé bara upphitun… Ég er sannfærður um að eiginlegt markmið hans [Pútíns] er ekki Krím heldur Kíev, bætir Bildt við.“   Utanríkisráðherra Íslands fer í endurteknar heimsóknir til Kiev til að sýna stuðning sinn við stjórnvöld þar og lofar auknum framlögum til NATO. Á NATO-fundinum fengu Svíþjóð og Finnland, sem áður töldust hlutlaus ríki, viðurkennda „aukna samstarfsaðild“ landanna að NATO.  Danmörk ákvað nýlega að taka beinan þátt í skotflauganeti NATO sem beinist auðvitað gegn Rússlandi, þó formelga beinist það gegn „ónefndum óvini“. Og ekki þarf að hvetja hinn herskáa Noreg sem hefur tekið þátt í 8 styrjöldum Bandaríkjanna og NATO frá 1990.
Hörð viðbrögð Vestursins gegn Rússum eru knúin áfram af Bandaríkjunum. Fyrir bandaríska þinginu hefur síðan í vor legið frumvarp, sk. The Russian Aggression Prevention Act sem gefur Úkraínu (og Georgíu og Moldóvu) stöðu sem de facto NATO-ríki. Verði frumvarpið samþykkt gerir það stríðið í Úkraínu að málefni NATO, eða eins og þar segir:  “Provides major non-NATO ally status for Ukraine, Georgia, and Moldova for purposes of the transfer or possible transfer of defense articles or defense services.” Í tengslum við innlimun Krímskagans fóru áhrifamenn í bandarískum utanríkismálum, svo sem Zbigniew Brzezinski, John McCain og Hillary Clinton að líkja atburðinum við aðdraganda seinna stríðs, líkja innlimun Krím við innlimun Austurríkis 1937 og Tékkóslóvakíu 1938 og þar með líkja Pútín við Hitler. Framantalið áhrifafólk fólk er reyndar ekki við völd. Yfirmenn bandarískra hermála voru í fyrstu talsvert varkárari en í júlí kom yfirmaður bandaríska herráðsins (Joint Chiefs of Staff) með herskáar yfirlýsingar og  líkti innlimun Krímskaga við innrás Sovétríkjanna í Pólland 1939.

Saturday, August 9, 2014

Stórbreskt íhald

(birtist á Vefritinu Kistunni og á eggin.is í febrúar og mars 2008)
Nú hef ég hraðlesið tvær bækur, hnausþykkar, eftir Antony Beevor: Stalíngrað sem út kom hjá Bókaútgáfunni Stalingrad, BeevorHólum nú fyrir jólin (útgefin í Bretlandi 1998) og svo bókina TheBattle for Spain. The Spanish Civil War 1936–1939 sem kom út 2006.  Tvær aðrar bækur höfðu áður komið út á íslensku: Fall Berlínar 1945 (2006) ogNjósnari í Þýskalandi nasista?: ráðgátan um Olgu Tsékovu (2007).
Beevor er metsöluhöfundur sem hefur fundið einhverja þá töfraformúlu sem tryggir honum lesendur í milljónavís. Hann er orðinn að stórveldi á Íslandi líka. Í tengslum við útkomu bókarinnar Fall Berlínar haustið 2006 hélt hann fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands og troðfyllti hátíðarsal Háskóla Íslands og af því tilefni var hann hlaðinn miklu lofi af forsvarsmönnum Sagnfræðingafélagsins í útvarpinu og víðar.
Antony Beevor er menntaður í Winchester og nam síðan hernaðarsögu við Konunglegu herakademíuna í Sandhurst. Þá er hann fyrrverandi liðsforingi í breska hernum. Talsverð hefð er fyrir slíkum  menntunar- og starfsframa í breska heimsveldinu.