Showing posts with label Great Barrington yfirlýsing. Show all posts
Showing posts with label Great Barrington yfirlýsing. Show all posts

Sunday, November 22, 2020

Þrjú innlegg gegn lokunarstefnu

(Birtist á Neistum  29.október 2020)


                                                           Auð stræti á tíma kórónuveiru

(Eftirfarandi grein tjáir aðeins sjónarmið höfundar)

Alveg frá byrjun covid-19 faraldursins austur í Kína hefur ráðandi fjölmiðlaumræða talað um þetta fyrirbæri eins og plágu á borð við Spænsku veikina eða slíkar drepsóttir. Og á orðræðunni um „þriðju bylgjuna“ má enn skilja að covid sé helsta ógn og dánarorsök nú um stundir.

Viðbrögð stjórnvalda við þessu, samræmd í flestum aðildarríkjum SÞ, allt frá byrjun mars sl. hafa verið samfélagslegar lokanir þar sem samfélögum, atvinnulífi, samgöngum og félagslegum samskiptum hefur verið lokað og læst að meira eða meinna leyti. Það er það sem hér er nefnt „lokunarstefna“.

Covid er ekki helsta ógnin. Ár hvert deyja milli 50 og 60 milljónir jarðarbúa. Hjartasjúkdómar drepa um 17 milljónir og krabbamein 9,6 milljónir á hverju ári. En hingað til árið 2020 eru 1.1 milljón dauðsföll í heiminum skráð sem „covidtengd“. Rannsóknir sýna að yfir 90% hinna látnu höfðu fyrirfram einn eða fleiri aðra undirliggjandi sjúkdóma sem einnig áttu þátt í viðkomandi dauðsfalli.

Covidhættan nægir samt stjórnvöldum og fjölmiðlunum til að halda almenningi í sífelldum ótta með háum tölum um smit. Fréttir RÚV nú í vikunni: „Metfjöldi smita greinist dag eftir dag í nær hálfri Evrópu. Þessi bylgja faraldursins er sú stærsta til þessa...“ „[Kórónuveirusmit] hafa ekki verið fleiri á einum degi frá því að heimsfaraldurinn braust út“.

Hópsmitið á Landakoti var alvarlegt mál. En langflestir sem látist hafa af covid-19, á Íslandi sem annars staðar, dóu í vor. Samt er samfélagið enn og aftur og áfram sett á hiðina „í sóttvarnarskyni“. Við horfum fram á annan vetur eymdar og volæðis og varanlega samfélagsbreytingu – upp rís eftirlitssamfélag í nafni sóttvarna.

„Umræðuna“ á Íslandi um viðbrögðin gagnvart covid verður að hafa innan gæsalappa. Ákvarðanir eru teknar í samráði þríeykis og ráðherra. Upplýsing og ákvarðanir ganga aðeins í eina átt, ofan frá og niður. Þar á ofan er sú sóttvarnarstefna sem framfylgt er í grófum dráttum samkeyrð á heimsvísu og óljóst hvar sú stefna var mótuð. Eiginleg umræða um hana, og eiginlegt lýðræði, eiga mjög erfitt uppdráttar.

Gagnrýnar spurningar um hina ríkjandi stefnu heyrast samt í vaxandi mæli þrátt fyrir glymjanda mötunarvélarinnar. Eðlilega koma margar þeirra úr heilbrigðisgeiranum. Erlend dæmi: Fjölþjóðlegur hópur nokkur hundruð lækna og vísindamanna á heilbrigðissviði stofnaði World Doctors Alliance á stofnfundi í Berlín nú 10. október. Meðlimir hópsins deila reynslu sinni og ganga gegn lokunarstefnunni með öllum hennar gríðarlegu hliðarverkunum. Undirskrifendur eru nú rún 30 þúsund. Læknasamband þetta kynnir sig á eigin netsíðu, sjá hér. Tveimur vikum fyrr var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki þar í landi. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og þess að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi í landinu. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Meiri athygli hefur þó vakið svonefnd Great Barrington-yfirlýsing. Það er yfirlýsing þriggja alþjóðlega viðurkenndra sérfræðinga í smitsjúkdómum sem eru prófessorar þriggja leiðandi háskóla – um stefnumótun vegna COVID-19, samin og undirrituð í Great Barrington í Bandaríkjunum 4. október 2020. Yfirlýsingin hefur fengið undirskrift yfir 10 þúsund lýðheilsusérfræðinga og yfir 30 þúsund lækna vítt um heiminn. En hópurinn hefur þó fengið krúnuna kembda og mátt þola mikla sverti-herferð á Google og ritskooðun á YouTube. Það auðveldaði andstæðingum hans leikinn að hugveitan sem stóð að fundinum i Barrington, American Institute for Economic Research, er þekkt fyrir frjálshyggjupólitík. Það breytir því þó ekki að yfirlýsing þessi er ljóst merki um faglegan ágreining um sóttvarnastefnuna, enda höfundarnir alveg leiðandi vísindamenn á sínu sviði.

Hér á eftir verða tilfærð þrjú innlegg í covidumræðuna í októbermánuði. Það fyrsta er einmitt Great Barrington yfirlýsingin. Hin innleggin tvö koma ekki frá neinum „uppreisnaröflum“ í covidumræðunni heldur birtust þau á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en þau gefa samt bendingu í öfuga átt við það sem haldið er að okkur frá morgni til kvölds. Þó innleggin séu úr ólíkum herbúðum eiga þau þó það sameiginlegt að varpa gagnrýnu ljósi á lokunarstefnuna.


I. Great Barrington-yfirlýsingin

Great Barrigton-yfirlýsingin veldur deilum og er ötuð auri. Það er ekki óvænt þar sem hún gengur gegn núgildandi aðferð í baráttunni við covid, einkum því atriði að lokunarstefna og einangrun viðkvæmra jafnt sem hraustra sé lykillinn að árangri. Sérfræðingarnir á Barringtonfundi ganga m.a. út frá þeim tölfræðilega veruleik að munur á áhættu gagnvart veirunni sé gríðarlegur milli ólíkra samfélagshópa, þúsundfaldur munur milli æskulýðs og þeirra elstu segir þar. Strategía þeirra er því aldursmiðuð. Einnig fjallar yfirlýsingin um óhemjuleg og niðurrífandi samfélagsleg – og heilsufarsleg – áhrif lokunarstefnunnar. Yfirlýsinguna má sjá hér https://gbdeclaration.org/view-signatures/ og stytt útgáfa hennar hljóðar svo í þýðingu: