Showing posts with label Bandaríkjaher. Show all posts
Showing posts with label Bandaríkjaher. Show all posts

Sunday, November 22, 2020

Hernaðaráætlanir gegn Rússlandi og ósk um aðstöðu á Austfjörðum

(Birtist á Neistum 1. nóvember 2020

Mikilvægasta hernaðarlega hugveita í Bandaríkjunum er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Stofnunin lagði fram mikla hernaðaráætlun gegn Rússlandi á síðasta ári. Hún ber titilinn, Rússland teygt. Barist á hagstæðum grunni. (Extending Russia: Competing from Advantageous Ground) Það er ítarleg áætlun upp á rúmlega 300 bls. Hana má sjá hér.

Birting á þessu staðfestir að margt af því ráðabruggi bandarískrar utanríkiselítu sem maður hefur haft í getgátum liggur nú opinskátt fyrir.

„Að teygja Rússland“, hvað þýðir það? Í inngangi ritsins er það útskýrt sem „friðsamlegar aðgerðir [svo] sem reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda heima eða utan lands... og ber að skoða sem aðgerðir sem myndu láta Rússland keppa við Bandaríkin á sviðum og svæðum þar sem Bandaríkin hafa samkeppnisforskot og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.“

Fjórði kafli ritsins heitir „Landpólitískar aðgerðir“ (Geopolitical Measures). Yfirskriftirnar tala sínu máli: Aðgerð 1: Útvega vopnaaðstoð til Úkraínu. Aðgerð 2: Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn. Aðgerð 3: Stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi. Aðgerð 4: Nýta spennuna í Kákasuslöndum. Aðgerð 5: Draga úr áhrifum Rússlands í Mið-Asíu. Aðgerð 6: Standa gegn áhrifum Rússlands í Móldóvu.

Áherslurnar eru skýrar og síðan hernaðaráætlunin var lögð fram 2019 hefur orðið „uppreisn“ í Hvítarússlandi og spennan í Kákasus heldur betur hlaðist upp með stríði Asera og Armena. Bandarískir strategistar tala löngum um að gera Sýrland að „Víetnam Rússlands“. Og allar þessar aðgerðir miða að því að „teygja Rússland“ á áhrifasvæði sínu, grafa undan áhrifum þess og veikja það með hjálp álagsþreytu.

Þriðji kafli hernaðaráætlunarinnar heitir „Efnahagslegar aðgerðir“. Þær eru samkvæmt yfirskriftum: Aðgerð eitt: Hindra olíuúflutning. Aðgerð 2: Draga úr útflutningi á jarðgasi og hindra útbyggingu á gasleiðslum.

Sá hluti af hernaðaráætlun RAND er nú einnig á framkvæmdastigi. Olía og gas eru helsti útflutningur Rússa. Þýskaland er í brýnni þörf fyrir jarðgasið frá Rússlandi og Nord Stream leiðslan (sjá hér) um Eystrasalt er nærri tilbúin. Bandaríkin hafa frá byrjun lagt gríðarlega áherslu á að stöðva hana, m.a.s. hótað Þýskalandi efnahagslegum refsiaðgerðum. Aukin efnahagssamvinna Rússlands og Þýskalands er mikill þyrnir í augum Bandaríkjanna.


Vá fyrir dyrum Rússa

Í því að reka fleiga á milli Rússlands og Þýskalands gegna Eystrasaltslönd, Hvítarússland og Úkraína lykilhlutverki, landfræðinnar vegna. Litabylting tókst í Úkraínu 2014 og bandaríska utanríkiselítan hefur haft „valdaskipti“ í Hvítarússlandi á stefnuskránni síðan, samanber þessa áætlun RAND.

Í Washington og hjá NATO eru miklar vonir bundnar við uppþotin í Hvítarússlandi eftir kosningarnar umdeildu í ágúst. Þremur vikum eftir kosningarnar, og meðan uppþotin vegna þeirra voru mest í Minsk, héldu Bandarískar hersveitir æfingar í Litáen við Hvítrússnesku landamærin. Sjá nánar.

Horfurnar fyrir Nord Stream versnuðu verulega við dularfullt drápstilræði við rússneska stjórnarandstæðinginn Navalny. Þá tóku bandamenn BNA í Evrópu vel við sér. Í framhaldinu hefur Evrópuþingið a) viðurkennt stjórnarandstöðuna í Hvítarússlandi sem réttmætt stjórnvald landsins og b) krafist þess að lagning Nord Stream sé stöðvuð. Líkur styrkjast nú á því að þetta tvennt, uppþot í Hvítarússlandi og Navalny-málið séu verkfæri sem duga muni til að stöðva framkvæmd Nord Stream. Sjá nánar.

Svo nú tikkar í flest box og hjá RAND-corporation. Eftir litabyltinguna 2014 hefur Úkraína tekið fullan þátt í heræfingum NATO í Austu-Evrópu. Og Rússum mun þykja vá fyrir sínum dyrum ef NATO-sinnuð öfl ná völdum í Hvítarússlandi og „herskáasta þjóð í sögu mannkynsins“ (orð Jimmy Carters) með NATO-bandamönnum sínum getur þá stundað heræfingar sínar meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands.


Hvernig getur Ísland hjálpað til?

Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Mbl.is greindi frá heimsókn yfirforingja í Bandaríkjaher til Reykjavíkur sl. föstudag.

Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu segir bandaríska herinn vera að íhuga aukna fjárfestingu hér á landi sem myndi fjölga þjónustu svæðum fyrir flotann við Íslands strendur. Herinn sé að kanna hvort „eitt hvað verðmæti sé í litlu, varanlegu fótspori frá Bandaríkjunum“ á Íslandi.

Á Íslandi eru nokkrar þjónustu stöðvar fyrir NATO. Við erum að kanna hvað þyrfti til að stækka við þær stöðvar, fjárfesta í þeim,“ sagði Burke á fundi sem haldinn var í sendiráðinu í dag. „Mig langar mikið í þá valkosti sem við höfðum fyrir 25 til 30 árum síðan, með tilliti staða sem hægt er að lenda á og athafna sig.

Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðir en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega. Auk þess myndi slík aðstaða geta stutt undir öflugri leit og björgun á hafsvæðum umhverfis Ísland.

Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke. „Ég veit ekki hve móttækileg ríkisstjórnin ykkar er í þessu máli, svo við verðum að eiga það samtal.““ Sjá grein Mbl hér.

Svo mörg voru þau orð. Á síðustu árum hefur viðvera Bandarísks herliðs á Keflavíkurvelli breyst úr stopulli viðveru í fasta viðveru með vaxandi en „hreyfanlegan herafla“, og aukningin hefur verið hröðust í stjórnartíð Katrínar og Bjarna. Fréttin af heimsókn Burkes bendir til að fleiri tíðinda geti verið að vænta.

Monday, September 7, 2020

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Seinni grein

 (birt á Neistum.is 13. ágúst 2020)


Fyrri grein um heimsvaldastefnuna fjallaði einkum um efnahagslegan grundvöll hennar en þessi hér um pólitísku og hernaðarlegu hliðina, baráttuna um áhrifasavæði – og heimsyfirráð. Greinin byggir á fyrirlestri hjá Sósíalistaflokknum 4. júlí sl.

Hernaðarlegt og efnahagslegt stríð

Auðmagnið, „frjálsa framtakið“ og markaðsöflin flæða ekki einfaldlega um löndin af sjálfsdáðum. Þau mæta m.a. mismiklu viðnámi frá þjóðríkjum og keppni frá keppinautum. Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman skrifar reglulega pistla í NYT um hnattvæðingu og alþjóðamál, m.a. í pistli frá því um aldamót, svohljóðandi.

„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem bjó til F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ https://fair.org/media-beat-column/thomas-friedman/

Farvegir fjármagnsins (arðránsins) liggja frá jaðrinum og streyma til kjarnans samkvæmt eðli heimsvaldastefnunnar. Hernaðarleg yfirráð tryggja þessa farvegi og tryggja fjármagnsflæðið í rétta átt. Bandarískar herstöðvar í hundraðatali raðast um heiminn út frá þessu munstri.

Þegar kalda stríðinu lauk héldu ýmsir, jafnvel bandaríska þjóðin, að upp myndu renna friðsamlegir tímar og það myndi draga úr hernaðaruppbyggingu. En bandarísk utanríkisstefna og strategía er ekki ákveðin á þjóðþingi heldur af nokkrum hugveitum elítunnar sem þekkja raunveruleika heimsvaldastefnunnar álíka vel og Vladimir Iljits Lenín gerði. Í mars 1992, þegar Sovétríkin voru nýlega fallin og Persaflóastríðinu – fyrsta meiriháttar stríði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum – var nýlokið settu þeir Dick Cheney varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarráðherra hans fram utanríkisstefnu í ljósi nýjustu stórtíðinda – oft nefnd Wolfowitz kenningin – stefnu sem Bandaríkin hafa staðfastlega fylgt síðan undir breytilegum stjórvöldum: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar... að hindra sérhvert fjandsamlegt vald í því að drottna yfir svæði sem býr yfir auðlindum sem myndu, undir styrkri stjórn, nægja til að búa til hnattrænt vald.“ (Sjá NYT https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html ).

Seríustríðið í Austurlöndum nær sem í bandarískum hernaðarkreðsum er oft nefnt „stríðið langa“ hófst með Persaflóastríðinu u.þ.b. þegar Wolfowitz og Cheney skrifuðu ofanritað. Aðrir miða reyndar upphaf þess við 11. september 2001. „Stríðið langa“ snýst um tilraunir bandarískra heimsvaldasinna til að tryggja full yfirráð sín á efnahagslegu lykilsvæði sem Austurlönd nær eru. Í þeim tilgangi komu bandaríkin upp 125 herstöðvum í Austurlöndum nær á árabilinu 1983-2005. Mesta uppbyggingin var eftir að kalda stríðinu lauk. Til að tryggja full yfirráð þurfti að brjóta niður þvermóðskufull sjálfstæð ríki á svæðinu. „Stríðinu langa“ er stjórnað frá Bandaríkjunum með þátttöku svæðisbundinna bandamanna þeirra og NATO-ríkja. Mikilvægustu vígvellirnir hingað til eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland.

Í ríkjandi orðræðu og fréttaflutningi á Vesturlöndum er „Stríðinu langa“ ýmist lýst sem „stríði gegn hryðjuverkum“, sem „borgarastríði“ eftir trúarbragðalínum eða sem „uppreisn gegn harðstjórn“ sem kalli á „verndarskyldu“ (responisbility to protect) svokallaðs „alþjóðasamfélags“ (sama sem Vestrið). Alvarlegast er að á 21. öldinni hefur heimsvaldasinnum og fjölmiðlum þeirra gengið furðuvel að selja stríð sín í þessum fallegu umbúðum. Andstaðan við stríðsreksturinn frá friðarhreyfingum Vesturlanda og hefðbundnum stríðsandstæðingum til vinstri hefur verið sáralítill. Og víst er að ef slík andstaða kemur fram byggir hún ekki á greiningu á heimsvaldastefnunni heldur á þeirri friðarhyggju að maður skuli ekki drepa mann.

Heimsvaldasinnum hefur almennt gengið illa í „stríðinu langa“ – en stjórnvöld í Washington sýna mikla staðfestu í því að koma óvinum sínum á kné. Bandaríska þingið hefur nýlega lögfest grimmúðlegar refsiaðgerðir gegn bæði Íran og Sýrlandi, lög sem setja útskúfun og sektir á öll fyrirtæki og öll lönd sem eiga viðskipti eða diplómatísk samskipti við þessi útlagaríki. Samskipti við þau þýða stríð við BNA. Viðskiptabannið beinist gegn almenningi þessara landa í von um pólitíska kreppu sem leiði til „valdaskipta“.

Efnahagslegt stríð er stríð með öðrum aðferðum. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir gegn Íran og Sýrlandi eru orðin hluti efnahagsstríði Bandaríkjanna við Kína og bandamann þeirra Rússland. Í tilfelli Kína er samt orsakasamahengið sagt vera öfugt: Ein helstu rökin fyrir refsiaðgerðum gegn Kína er sú ásökun Trump-stjórnarinnar að kínverski tæknirisinn Huawei hefði brotið bandaríska refsilögggjöf gegn Írönum (brotið bandaríska refsilöggjöf!) með því að selja þeim síma. https://neistar.is/greinar/stridid-gegn-syrlandi-efnahagsvopnunum-beitt/


Enduruppskipting eftir fall Sovétríkjanna

Þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna 1915 gerði hann það m.a. til að skýra hreyfiöflin á bak við heimsstyrjöldina sem þá geysaði. Helstu drifkraftana bak við stríðið sá hann annars vegar í KAPÍTALÍSKRI GRÓÐASÓKN og úþensluhneigð sem af henni leiðir og hins vegar í ÓJAFNRI ÞRÓUN FRAMLEIÐSLUAFLANNA sem breytti styrkleikahlutföllum hagkerfa og skóp misræmi milli þeirra og þar með grundvöll stórstyrjalda. Heimsveldin ýmist sækja fram eða hopa á heimsmarkaði og m.t.t. áhrifasvæða – eftir styrkleika sínum. Þetta misræmi sprengir valdarammann sem fyrir er, knýr á um „enduruppskiptingu“. Lenín skrifaði: "Spuningin er: Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendnanna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar.“ ( Heimsvaldastefnan, bls. 130)

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Fyrri grein

 (birt á Neistum 6. ágúst 2020)

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá glæpnum gegn mannkyni þegar bandarískri kjarnorkuspregju var varpað á Hírósíma. Glæpurinn var réttlættur með endalausum lygum og skipulegum stríðsáróðri. Sami stríðsáróður frá sama stríðsaðila beinir nú spjótum sínum skipulega að nýjum andstæðingi – Kína. Bandaríkin hafa komið fyrir yfir 400 herstöðvum umhverfis Kína auk gríðarlegrar og hraðvaxandi flotauppbyggingar á Kyrrahafssvæðinu. Samhliða þessari uppbyggingu hefur „stríðið langa“ í Austurlöndum nær geysað það sem af er 21 öldinni. Bandaríkin hafa (2019) einhliða sagt sig frá samningum um takmörkun kjarnorkuflauga (INF, frá 1987). Alls 30 aðildarlönd SÞ stynja nú undan bandarískum efnahagslegum refsiaðgerðum af einhverju tagi. Formlega snúast þær um „lýðræði“ en raunveruleikinn er keppnin um heimsyfirráð.

Hvað hreyfiöfl knýja slíka atburðarás? Í tveimur greinum verður hér fjallað um heimsvaldastefnuna, hæsta stig auðvaldsins – og beina þær ljósinu sérstaklega á þá bandarísku, samt alls ekki eingöngu. Fyrri greinin fjallar einkum um efnahagslega hlið málsins en sú síðari um pólitíska og hernaðarlega hlið. Hryggjarstykki greinarinnar er fyrirlestur sem fluttur var á fundi hjá Sósíalistaflokknum að Borgartúni 1, fjórða júlí sl.


Hugtak sem hvarf

Þegar Bandaríkin herjuðu í Víetnam og Indó-Kína kringum 1970 hrópuðu vinstri menn um allan heim vígorð gegn „heimsvaldastefnu Bandaríkjanna“. Árið 1970 var íslenska Víetnamhreyfingin stofnuð og lýsti yfir á stofnfundi: „Víetnamhreyfingin styður þjóðfrelsisbaráttu Víetnama og baráttu gegn heimsvaldastefnunni um allan heim.“ Árið 1972 breyttist hún í Víetnamnefndina með víðtæku samstarfi vinstri hreyfinga. Fyrsta kjörorð hennar var: „Fullur stuðningur við Þjóðfrelsishreyfinguna (FNL)!“ og annað kjörorð var „Berjumst gegn bandarísku heimsvaldastefnunni!“ Málið var stuðningur við „þjóðfrelsisbaráttu“ þjóða undan heimsvaldastefnu. Þetta var róttæk og framsækin hreyfing..

Á 9. áratug hélt stuðningsstarf við þjáðar þjóðir áfram en innihaldið breyttist. 1985 hófust „Life aid“ tónleikarnir með söfnunarstarfi vegna hungurs í Afríku. Þá fóru jafnvel róttæklingar á Vesturlöndum að syngja „We are the world.. so let´s start giving“ eða „Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín“. Andheimsvaldabaráttu var skipt út fyrir BORGARALEGT LÍKNARSTARFF sem minntist ekki á heimsvaldastefnuna.

Þegar Bandaríkin réðust á Írak 2003 með stuðningi „viljugra ríkja“, þ.á.m. Íslands, var andstaða vinstri manna mjög massíf, en hugtakinu „heimsvaldastefna“ var þá almennt sleppt. Þegar hins vegar NATO, vestrænir herir og staðbundnir bandamenn hafa ráðist á Afganistan, Líbíu eða Sýrland á 21. öldinni hafa vinstri menn vítt um heim veitt því litla mótstöðu, og vestræn friðarhreyfing sömuleiðis. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessi stríð alveg óháð því hvort ráðherrarnir eru til hægri eða vinstri.

Í inflytjendaumræðunni er sama borgaralega líknarhugsun ráðandi. Góðir og „líknsamir“ vinstri menn og andrasistar sjá nú helstu von fyrir íbúa Afríku í leyfi þeirra til að flýja til Evrópu.


Klassísk greining á heimsvaldastefnunni

Í sögulegu samhengi er áhrifamesta ritið um heimsvaldastefnuna bók Leníns frá 1917 (rituð 1915), Heimsvaldastefnan: hæsta stig auðvaldsins. Í apríl í vor voru 150 ár liðin frá fæðingu Leníns. Í þessari bók dró hann saman meginþætti heimsvaldastefnunnar/ imperíslismans í eftirfarandi skilgreiningu: „Imperíalisminn er kapítalismi á því þróunarstigi er drottinvald einokunar og fjármálavalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutningur hefur öðrast áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Heimsvaldastefnan... bls 117) Lenín nefndi heimsvaldastefnuna „einokunarstig auðvaldsins“ sem komin var í stað kapítalisma frjálsrar samkeppni. Annað grundvallareinkenni hennar var fjármagsútflutningurinn, erlendar fjárfestingar. Tilvitnun: „Vöruútflutningur var einkenni gamla auðvaldsins þegar frjáls samkeppni var alls ráðandi. Útflutningur fjármagns er orðið einkenni nútíma kapítalisma þar sem einokun drottnar“ (Heimsvaldastefnan.. bls. 79).

Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldssins.
Lenín 150 ára í ár. Höfundur klassísks rits um efnið.

Samkvæmt þessari greiningu var heimsvaldastefna/imperíalismi orðin ríkjandi formgerð kapítalismans um aldamótin 1900. Og samkvæmt þessum skilningi er heimsvaldastefnan í grundvallaratriðum EKKI HUGMYNDALEGS EÐA SIÐFERÐILEGS EÐLIS HELDUR ER HÚN SJÁLFT EFNAHAGSKEFI KAPÍTALISMANS á ákveðnu þróunarstigi, „it's way of life“. Og hún er skilgreind sem „HÆSTA STIG AUÐVALDSINS“ sbr. titil bókarinnar.

Þessi greining varð klassísk meðal marxista, og heimsvaldastefnan í þessari merkingu varð algert lykilhugtak í sósíalískri og andkapítalískri baráttu á 20. öld. Barátta gegn henni varð ANNAR AF TVEIMUR MEGINÞÁTTUM BYLTINGARSINNAÐS STARFS gegn kapítalismanum og fól öðru fremur í sér stuðning við baráttu í 3. heiminum til að losna úr arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Skýringarlíkan Leníns reyndist öðrum skýringum frjórra við að greina hreyfiöflin að baki heimsstyrjöldunum tveimur. Á eftirstríðsárunum og enn frekar frá og með sjöunda áratugnum var þessi klassíska greining á heimsvaldastefnunni í mikilli almennri notkun, á vinstri væng stjórnmála og ekki síður í „þriðja heiminum“ þar sem frelsisstríð og byltingar geysuðu og beindust gegn fjötrum nýlendutímans.

Saturday, October 20, 2018

Norðurslóðir herlaust svæði?

(birtist á fésbók SHA 19. október 2018)

                  Á ráðstefnu Arctic Circle lýsti forsætisráðherra þeim vilja að norðurslóðir yrðu herlaust svæði

Forsætisráðherra vill að norðurslóðir verði "herlaust svæði í framtíðinni". Slík orð eru góðra gjalda verð. En þau eru yfirskyggð af þeirri staðreynd að 10 fullskipuð NATO-herskip, auk landhers, eru hér við heræfingar í boði íslenskra stjórnvalda meðan orðin eru sögð. Ísland er eitt tveggja landa sem hýsir stærstu heræfingu NATO frá 2002. Trident Juncture er ekki bara her að æfa sig almennt heldur her að undirbúa ÁKVEÐIÐ STRÍÐ. Við horfum upp á stórfellda vígvæðingu með skýra óvinamynd - Rússland. Norðurlönd liggja flöt sem stökkpallur fyrir Bandaríkin og NATO gegn Rússum, og bandaríski flotinn hefur nú m.a. fengið tvær fastar herstöðvar í Noregi. Bandaríkin og NATO æfa nú í haust stríð gegn Rússum í tveimur nágrannalöndum þeirra, Noregi og Úkraínu. Í þessu samhengi detta orð forsætisráðherra dauð niður.