Tuesday, January 14, 2020

Pólitísk morð og ríkishryðjuverk – afleikur Trumps

(Birtist á Neistar.is 8. janúar 2020)
 

Abdul-Mahdi forsætisráðherra Íraks segir Soleimani yfirhershöfðingja hafa verið í opinberum erindagjörðum þar í landi þegar hann var myrtur, að Bandaríkin hafi óskað eftir milligöngu Mahdis í deilu BNA og Írans og Soleimani stefnt á hans fund af þeim ástæðum. Hann kom í venjulegu áætlunarflugi til Bagdad. https://www.unz.com/tsaker/the-us-is-now-at-war-de-facto-and-de-jure-with-both-iraq-and-iran/ Dráp á opinberum sendimanni er gróft brot á alþjóðalögum. Soleimani var næstvaldamesti maður í Írans og þjóðhetja. Það er erfitt að hugsa sér nokkra grófari ögrunaraðgerð gagnvart Íran né heldur grófari íhlutun í málefni Íraks. Þetta er utanríkisstefna sokkin niður í glæpamennsku.

Sama drónasprengja drap einnig Abu Mahdi al-Muhandis, foringja hinna áhrifamiklu sjía-hersveita Hashd al-Shaabi (eða PMU, Alþýðusveitirnar) sem njóta stuðnings stjórnvalda í Írak og áttu stærstan þátt í sigrinum yfir ISIS þar í landi.

Morð Soleimanis er stríðsaðgerð af hálfu Bandaríkjanna, ekki stríðshótun heldur stríð. Árásarstríð. Stjórnvöld í Teheran sögðust strax taka því sem stríðsyfirlýsingu. Það er staðfest með loftskeytaárás Íranska byltingarvarðarins á bandarísku herstöðina Ain al-Assad í Vestur-Írak 7. janúar. Íranir vísuðu til stofnsáttmála SÞ sem heimilar beitingu hervalds í sjálfsvarnarskyni. https://www.presstv.com/Detail/2020/01/07/615621/IRGC-Ain-al-Assad-airbase-Anbar-province-


Einbeittur fjandskapur síðan 1979
Drápin við Bagdadflugvöll voru stríðsaðgerð. Spennumögnun með fullri vitund og vilja. Í áratugi hefur BNA haft þá stefnu að ögra Íran, að hámarka spennu og árekstra gagnvart Íran, til að sá sundrungu í landinu, koma þar á valdaskiptum, með litabyltingu, stríðshótunum eða beinum stríðsátökum.

Íran hefur verið efst á óvinalista Bandaríkjanna frá 1979. Þjóðleg og andheimsvaldasinnuð bylting varð í Íran það ár. Íranska keisarastjórnin, sérstakur skjólstæðingur og bandamaður Vestursins (einkum Breta og síðan Bandaríkjanna), var sett af og klerkastjórnin svokallaða tók við. Olíuiðnaðurinn var þjóðnýttur en Exxon, Mobil, Shell o.fl. voru rekin út. Það var ekki fyrirgefið.

Gríðarleg hernaðaruppbygging Bandaríkjanna í þessum heimshluta voru öðru fremur viðbrögð við írönsku byltingunni. Pentagon setti árið 1983 á fót herstjórnarsvæðið CENTCOM. Það markaði nýjar áherslur í hnattrænni herstjórnarlist BNA, ekki síst út frá vægi olíunnar. Næstu tvo áratugi var byggt upp net herstöðva í Miðausturlöndum og kringum Íran. Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum en á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Endurtökum: á rúmum tveimur áratugum, 1983-2005, úr núll herstöð í 125 herstöðvar. Bandarísk heimsvaldastefna blómstraði, skákandi í skjóli þess að sovéski mótpóllinn hvarf. https://neistar.is/greinar/iran-heimsvaldastefnan-og-midsvaedid/