Saturday, November 10, 2012

Nýju stríðin sýna endurkomu nýlendustefnunnar


(Birtist í Dagfara nóvember 2011)

Í október horfðum við á þjóðarleiðtoga eltan uppi og drepinn í beinni útsendingu. „Við komum, sáum og – hann dó!“ sagði Hillary Clinton skellihlæjandi við sjónvarpið þegar hún hafði horft á slátrunina. Hinn formlegi farvegur árásar á Líbíu lá gegnum samþykkt Öryggisráðs SÞ nr. 1973 frá í mars í vor um flugbann yfir Líbíu og „verndun borgaranna“ út frá óstaðfestum fréttum um fjöldamorð Gaddafís á eigin þegnum. Skömmu síðar sendu leiðtogar helstu árásarveldanna, Bandaríkjanna Breta og Frakka, frá sér yfirlýsingu og sögðu „ómögulegt að ímynda sér framtíð Líbíu með Gaddafí við völd“ (International Herald Tribune, 14. Apríl).

Svipaða aftöku þjóðhöfðingja eftir innrás sáum við áður í Írak þar sem innrásarherirnir og þjónar þeirra eltu uppi Saddam Hússein og hengdu hann eftir skyndimeðferð í götudómstól. Afgreiðslan á Milosévic fyrrum forseta Júgóslavíu var náskyld: Vesturveldin og NATO gerðu hernaðarinnrás, steyptu „óæskilegum“ þjóðarleiðtoga, drógu hann svo fyrir eigin dómstól þar sem hann dó í fangelsi meðan á réttarhöldunum stóð. Allir þessir þjóðarleitogar dæmdu sig til dauða með því að vera Vesturveldunum óþjálir. Aftakan var í tveimur áföngum: fyrst áróðursleg þar sem fjölmiðlar heimsvaldasinna breyttu mönnunum í skrýmsli og síðan var gerð hernaðarleg „mannúðarinnrás“ til að frelsa þjóðirnar undan skrýmslinu, skrýmslið drepið - og æði margir aðrir.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið að flækja málin eða gera sér lífið erfitt. Þau hafa stutt allar þessar innrásir. Enda er komið upp sjálfvirkt kerfi þar sem öll Vesturlönd eru komin inn í NATO, hernaðarbandalag USA og ESB, ýmist með beinni aðild eða aukaaðild og löndin fara nánast sjálfkrafa í stríð hvar og hvenær sem herforingjarnir stökkva til. Vinstri stjórn, hægri stjórn, NATO-þjónkunin óbreytt. Steingrímur og Ögmundur halda að vísu friðarræður og eru á móti stríðinu, en þeir marsera samt með á vígvöllinn. Annað myndi bara kosta veruleg óþægindi gagnvart NATO.

Hættuleg þjóðréttarþróun
Í tveimur fyrstu greinum í sáttmála Sameinuðu þjóðanna  frá 1945 koma fram þau prinsipp sem síðan urðu mikilvægustu atriðin í þjóðarrétti, og voru rökréttur lærdómur af nýliðinni styrjöld. Í fyrstu grein er talað um að virða skuli „grundvallaratriðin um jafnan rétt og sjálfsákvörðunarrétt þjóða“. Í samningi SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi stendur ennfremur: „Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar...“ Önnur grein sáttmálans frá 1945 bannar ríkjum að beita aðrar þjóðir vopnavaldi. Undantekning er aðeins beiting þess í sjálfsvörn.
         Undanfarna tvo áratugi hefur markvisst verið grafið undan þessum  þjóðréttarreglum. Þær hafa ekki verið numdar úr gildi formlega en að miklu leyti í reynd: a) Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er mjög gengisfelldur. b) Bann við árásarstríðum er í upplausn. c) Stórveldin beita  hernaðaraðgerðum gegn smærri ríkjum  hvort sem SÞ leggur stimpil sinn við þær eða ekki.  
         Eftir 11. sept. 2001 héldu Bandaríkin fram rétti sínum til „fyrirbyggjandi stríðs“ með eða án samþykkis SÞ, og komust upp með það sem eina risaveldið. Mikilvægt skref í þessari þjóðréttarþróun var svo ályktun Allsherjarþings SÞ árið 2005 um „skyldu til að vernda“ borgarana. Í framhaldinu hafa þeir sem nefna sig „alþjóðasamfélgið“ – í reynd fyrst og fremst USA og NATO – ýmist hótað löndum hernaðaraðgerðum eða, eins og í Líbíu, beinlínis gert innrás með tilvísun til „skyldunnar til að vernda“. Vísað er til þess að stjórnvöld í viðkomandi löndum brjóti „mannéttindi“ sem þarf að hindra ef og aðeins ef stjórnvöld eru ekki þóknanleg USA og NATO-veldunum. Vesturveldin hafa því komið á breyttum alþjóðasamskiptum og réttarreglum í þá átt sem hentar best þeirra landvinningabrölt, enda er „verndun borgaranna“ alveg kjörið yfirvarp til innrásar í lönd, og réttlætir „mannúðaríhlutun“. Réttur til íhlutunar er alltaf réttur hins sterka og þegar afnumin er virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða gengur frumskógarlögmálið í gildi.
         Þeir stóru og sterku grafa undan sjálfsákvörðunarréttinum. Það birtist ekki aðeins í formi hernaðarafskipta. Á tímum hnattvæðingar fjandskapast fjölþjóðlegt auðmagn og stórveldi við efnahagslegum sjálfsákvörðunarrétti (smærri) þjóða. Það viðhorf birtist m.a. í Evrópusamrunanum, og í sama  anda starfa AGS, Alþjóðabanki, WTO, ASEAN, NAFTA sem öll hafa frjálst flæði fjármagnsins sem sitt meginboðorð. Þegar svo hernaðarlega ógnunin frá USA og NATO bætist við efnahagslegar fyrirskipanir ofannefndra samtaka er erfitt fyrir einstök ríki að reka sjálfstæða efnahagsstjórn.

Nýja NATO og Sameinuðu þjóðirnar
Afgerandi í þessari þróun var sú breyting sem gerð var á stefnugrundvelli NATO 1999. Þá var opnað fyrir hernað bandalagsins „out of area“, s.s. utan svæðis aðildarlandanna, til að berjast fyrir grunngildum NATO (skilgreind sem mannéttindi, lýðræði, frjáls markaður). Sama ár réðist NATO á Júgóslavíu, án samþykktar frá SÞ. Nýja NATO er hernaðarhlið tvíeykisins USA/ESB og er megingerandi í tveimur heitustu styrjöldum samtímans: í Afganistan og Líbíu.
Í „nýju stríðunum“, þ.e. eftir fall Sovétríkjanna um 1990, hafa SÞ annars vegar orðið verkfæri Vesturveldanna í alþjóðapólitík og hins vegar hafa þau hætt beinum afskiptum á deilu- og átakasvæðum. Gerendurnir sem koma í staðinn eru annars vegar risaveldið eina, Bandaríkin – í Sómalíu, Írak, Afganistan – og hins vegar NATO – í Júgóslavíu, Afganistan, Líbíu. NATO kemur þar fram sem allt í senn a) löggjafi (skilgreinir hver er óvinur), b) gerðadómari,  c) hervald. Bandalagið kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og gefur sig út fyrir að vera „yfirþjóðlegt“ og hlutlaust afl, en gætir eingöngu hagsmuna vestrænna heimsvelda og sýnir æ herskárri hegðun.

Dæmið um Líbíu er ekki flókið
 Hvers eðlis var og er innrásin í Líbíu? Sumum finnst dæmið flókið og trúa Össuri sem talar um „mannúðaríhlutun“. Málið er samt alveg jafn einfalt og í Afganistan og Írak. Líbía er olíuauðugasta land í Afríku en auðhringarnir hafa ekki fengið ótakmarkað aðgengi að lindunum. Þetta er einfaldur olíuimperíalismi.
Það er auðvelt að setja slíkan stimpil á Bandaríkin enda er komin hefð á blóði drifna utanríkisstefnu þeirra. En nú voru það Evrópuríki, Bretar og sérstaklega Frakkar, sem tóku frumkvæði, jafnvel umfram Bandaríkin. Hvað voru þau að gera? Útbeiða evrópsk gildi? Já, Vestur-Evrópa er vagga nýlendu- og heimsvaldastefnu og kynþáttahyggju. En eftir seinna stríð urðu gömlu nýlenduveldin að draga sig til baka, bæði vegna frelsisbaráttu nýlendna og vegna yfirburða Bandaríkjanna. En samhliða þeirri þróun þjóðréttarmála sem rædd var hér að ofan taka þessi sömu ríki, ESB-stórveldin, aftur upp opnari nýlendustefnu. Frakkar kepptu öðrum lengur við Bandaríkin um gömlu svæðin sín í Vestur-Afríku, jafnvel gegnum leiguheri (t.d. í Kongó, Rúanda..). Eftir að Sarkozy kom til valda hafa þeir hins vegar tekið upp fulla samvinnu við Bandaríkin – og innan NATO – og ætla sér þannig stærri skerf en áður. Í kosningabaráttunni árið 2007 lagði Sarcozy upp hina endurbættu utanríkisstefnu og sagði þá í ræðu: „Ég vil vera forseti yfir Frakklandi sem kemur Miðjarðarhafssvæðinu í ferli endursameiningar eftir tólf alda klofning og sársaukafull átök... Ameríka og Kína hafa nú þegar hafið landvinninga í Afríku. Hversu lengi ætlar Evrópa að bíða með að byggja Afríku morgundagsins? Meðan Evrópumenn hika sækja aðrir fram.“ Og fimm dögum eftir að loftárásirnar hófust á Líbíu í mars í vor sagði Sarkozy á leiðtogafundi ESB: „Þetta er sögulegt augnablik... það sem gerist í Líbíu mótar réttarfarið... það eru meiri háttar straumhvörf í utanríkisstefnu Frakklands, Evrópu og alls heimsins.“ („Libya:NATO provides the Bombs; the French „Left“  provides the Ideology“ eftir Pierre Lévy, sjá Google). Um líkt leyti birti franska blaðið Libération bréf þar sem Líbíska þjóðarráðið („uppreisnarmenn“) lofaði að tryggja franska olíurisanum Total 35% af öllum vinnsluheimildum á líbískri olíu „í skiptum fyrir“ fullan hernaðarlegan stuðning Frakka við Líbíska þjóðarráðið.
Þetta er jafn einfalt og ógeðslegt og það hljómar. „Mannúðaríhlutunin“ er gamaldags ræningjaleiðangur. Gömlu nýlenduveldin renna nú aftur á lyktina af blóði og olíu, og bandalagsríki þeirra koma í halarófu á eftir, óháð því hvort þar sitja hægri eða vinstri stjórnir.   

Endurkoma nýlendustefnunnar
Heimsvaldastefnan hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás m.t.t. beinnar pólitískrar undirokunar þeirra landa sem verða fyrir henni. Seinni hluti nítjándu aldar var saga um útrás og nýlendusamkeppni Evrópuríkja sem er vel kunn úr skólabókum – saga um hernaðarinnrásir, fallbyssudiplómatí, uppkaup á nokkrum ættbálkahöfðingjum og síðan beina evrópska stjórn á viðkomandi landi. Á tuttugustu öld (einkum eftir seinna stríð) hörfaði nýlendustefnan um skeið vegna frelsisbaráttu nýlendna. Samhliða því tóku nokkur svæði upp sósíalisma og studdu þjóðfrelsisbaráttuna. Heimsvaldasinnar tóku þá upp „nýnýlendustefnu“, nýlendur fengu formlegt pólitískt sjálfstæði án þess þó að losna undan efnahagslegu ofurvaldi heimsvaldasinna. Eftir að sósíalsiminn beið aftur ósigur á sínum svæðum þrengdi mjög að fyrrverandi nýlendum á ný.
Tuttugasta og fyrsta öldin: Heimsvaldasinnar hafa snúið sér aftur að því að vinna beina stjórnun á hinum vanþróaðri jaðarsvæðum og/eða koma sér þar upp leppríkjum – umfram allt í efnahagslega mikilvægum löndum. Til þess þarf m.a. að veikja og beygja í duftið ríki sem á einhvern hátt hindra fullt markaðsfrelsi og hnattvæðingu á forsendum auðhringanna og ekki síður ríki sem mynda öflug sjálfstæð hagkerfi og bjóða vestrænum heimsvaldasinnum upp á efnahagslega samkeppni. Hnattvæðing auðhringanna er ótrygg ef henni er ekki fylgt eftir með hervaldi. Ríki eins og Íran og Líbía (og fáein önnur) hafa verið Vesturveldunum óþjál og ósamvinnuþýð. Auk þess bjóða ríki eins og Rússland og sérstaklega Kína upp á alvarlega efnahagslega samkeppni í Asíu og Afríku. Vesturveldin reiknuðu sem svo: Það þarf stríð til að reka Kína út úr Líbíu. Það er að takast, og sýnir það sem koma skal.

Vellyktandi heimsvaldahyggja
Málstaður heimsvaldasinna er vondur. Öll stríð þeirra eru til að byggja upp og verja arðránskerfi þeirra á heimsvísu. Slíkt er óheppilegt að segja upphátt svo stríðin verður óhjákvæmilega að heyja undir fösku flaggi. Svo einfalt er það. Yfirskin allra heimsvaldastríða er einhver stórfelld lygi – vegna þess að nauðsynlegt er að vinna stuðning almennings svo hann sé reiðubúinn að leggja fram bæði skattpeninga og syni sína til stríðsins. Þáttur fjölmiðla heimsvaldasinna er því algjört grundvallaratriði í sjálfum stríðsrekstrinum. Yfirskrift stríðsins verður að hljóma vel. Á 19. öld voru þessar ofbeldisfullu ránsferðir kallaðar kristnun, siðvæðing villtra og ósiðaðra þjóða, jafnvel afnám þrælahalds o.fl. Í þá daga keypti almenningur heimsvaldaríkjanna kynþáttahyggjuna og át hana hráa. Á 20. öld var kommúnisminn helsti óvinur heimsvaldastefnunnar og taktíkin var þá að beita fjölmiðlunum til að gera kommúnismann að grýlu sem æti börn og þvæði heila. Í upphafi 21. aldar er kommúnisminn horfinn um sinn sem ógn, og hrá kynþáttahyggjan dugar heldur ekki lengur sem stríðshugmyndafræði. Það verður að tilreiða heimsvaldahugmyndafræðina ögn betur og teikna betur myndina af óvininum. Yfirskriftir hernaðaraðgerða sem nú eru vinsælastar eru einkum tvær: a) „stríð gegn hryðjuverkum“ og b) „mannúðaríhlutun“. 

„Stríð gegn hryðjuverkum“
Þann 11. september 2001 kvað við startskot stórfelldrar hernaðarútrásar, þegar Bandaríkin og NATO settu „stríð gegn hryðjuverkum“ á fána sinn sem stríðshugmyndafræði. Hin heimatilbúnu hryðjuverk á Manhattan og heimatilbúna hugmyndafræði dugðu vel til innrása í Afganistan, Írak, Pakistan m.m. og eru enn megingrundvöllur undir vestrænni hernaðarútrás. Blekkingarleikurinn kringum 11. september og Afganistan- og Íraksstríðin er fyrir löngu afhjúpaður. Það vissu hinir voldugu bakmenn að myndi gerast, en þeir tóku óhræddir þá áhættu af því þeir vita að völd þeirra yfir ríkjandi og tóngefandi fjölmiðlakerfi eru slík að það skaðar þá ekki að marki þótt þeir séu afhjúpaðir af einhverjum einstaklingum og smáfjölmiðlum. Á Íslandi er vinsælt að tala um innrásirnar sem „misheppnaðar“ tilraunir til að „frelsa“ þessi lönd. Stríðin eru sem sagt „klúður“ en tilgangurinn góður. Þetta er bara ein útgáfan af blekkingunni miklu.
         Tveimur mánuðum eða svo eftir 11. september, þegar innrás í Afganistan var hafin, var Wesley Clark, fyrrum yfirhershöfðingi NATO í Kosovo, staddur í hermálaráðuneytinu í Washington. Hann skrifar:

 „...í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan.“ (Wesley Clark, Winning Modern Wars, bls. 130)
        
Al-Kaida gegnir lykilhlutverki í “stríði gegn hryðjuverkum”. Þetta eru óskilgreindir hópar íslamista sem hafa verið gegnumsmognir af flugumönnum tengdum CIA allt frá stríði Afgana við Sovétmenn. Það sérkennilegasta við þessa hópa  er að þeir ýmist ganga beint erinda USA og Vesturveldanna í því að grafa undan „óæskilegum” stjórnvöldum (í Afganistan á 9. áratug, í Bosníu, Kosovo, Tsétsníu, Líbíu) eða þeir birtast sem svarnir óvinir Vesturlanda og eru þá réttlæting fyrir vestrænni íhlutun (í Afganistan frá 2001, í Írak, Pakistan, Sómalíu og víðar). Þeir þjóna sem sagt vestrænum hagsmunum með breytilegum hætti.

“Manúðaríhlutanir”
Eftir umbreytingu NATO frá 1999 og sérstaklega eftir samþykkt SÞ árið 2005 um “skyldu til að vernda” hafa heimsvaldasinnar skipulega unnið fylgi hugmyndum sínum um íhlutunarrétt „alþjóðasamfélagsins” á grundvelli  “mannúðar”. Óæskileg stjórnvöld eru í fjölmiðlum útmáluð sem skrýmsli, sem er undirbúningur íhlutunar.  En vestrænir heimsvaldasinnar láta ekki þar við sitja. Þáttur vestrænnar leyniþjónustu á efnahagslega og hernaðarlega mikilvægum svæðum verður sífellt fyrirferðarmeiri. CIA og breska BI6 fara þar fyrir. Leyniþjónusturnar eru sífellt reiðubúnar að nýta sér og ýta undir pólitíska ólgu til að koma ár sinni betur fyrir borð og steypa óæskilegum stjórnvöldum og koma æskilegum að í staðinn.
         Júgóslavía var prófsteinn nýrrar herskárrar stefnu USA og NATO, og Kosovo-stríðið 1999 var gott dæmi um „mannúðaríhlutun”. Loftárásir NATO á Serbíu hófust eftir að bandarískir ráðherrar og fréttastofur höfðu óskapast yfir serbneskum fjöldamorðum á 100 þúsund eða 250 þúsund Kosovoalbönum og yfir serbneskum „nauðgunarbúðum” o.s.frv. Eftir uppgjöf Serbíu fundust fjöldagrafirnar aldrei og þeir sem féllu höfðu fallið í átökum serbneska hersins og Frelsishers Kosovo.
Fyrsta „litabyltingin” kom í kjölfarið gegnum kosningar í Serbíu árið 2000 með miklum vestrænum afskiptum. Forustuafl í þeirri byltingu voru serbnesku stúdentasamtökin Otpor. Vestrænum, fyrst og fremst bandarískum, stuðningi við þau var einkum beint gegnum frjáls „mannréttindasamtök” eins og National Democratic Institute (tengd Demókrataflokknum) og International Republican Institute (tengd Repúblíkanaflokknum) og einnig hin ríkisreknu National Endowment for Democracy, og stuðningurinn var pólitískur, fjárhagslegur, faglegur og tæknilegur.  Niðurstaðan var fall Milosévic og sigur „hófsamra”, vestrænt sinnaðra afla, bygging stærstu bandarísku herstöðvar í Evrópu í Kosovo m.m.
Serbneska dæmið lagði línuna fyrir þær „litabyltingar” sem urðu á svæði fyrrum Sovétríkjanna, svo sem í Georgíu  2003, Úkraínu 2004 og Kyrgistan 2005. Afskipti  vestrænna stjórnvalda og leyniþjónusta voru bein og óbein, leynd eða ljós, ekki síst gegnum frjáls vestræn „mannréttindasamtök” og samtök frá Serbíu, ennfremur með pólitískum ráðgjöfum, flugumönnum, fjölmiðlafári, nethernaði, opnun sjónvarpsstöðva og miklum peningastraumi. Ekki skal því haldið fram að þessar byltingar eigi sér engra rætur í raunverulegri ólgu heima fyrir, en málið er að heimsvaldasinnar spila á þá ólgu og geta haft úrslitaáhrif á stefnu hennar og útkomu. „Litabylingarnar“ skiluðu í öllum tilfellum bandarískum herstöðvum í viðkomandi löndum. Það gat heldur ekki hjá því farið að vestræn afskipti léku stórt hlutverk í hinu svokallaða „arabíska vori” á þessu ári enda eru þar meiri heimsvaldahagsmunir í húfi en annars staðar og vestræn (númer eitt bandarísk) viðvera er þar leynd og ljós á öllum sviðum.
Vesturveldin og NATO („alþjóðasamfélagið”) blanda sér svo með beinni hernaðaríhlutun í innri átök landa og borgarastríð, kynda undir ættbálka- og þjóðernaátök til þess að brjóta niður eða veikja viðkomandi lönd, þ.e.a.s. ef þau eru of sjálfráða, hlýða illa hnattvæðingarreglunum, neita vesturveldunum um herstöðvar, eiga of mikil viðskipti við Kína o.s.frv. Þannig hefur verið í pottinn búið í öllum helstu styrjöldum eftir lok kalda stríðsins, í Júgóslavíu, Afganistan, Írak og nú síðast í  Líbíu. Næsta land í þessari röð sýnist vera Sýrland og herkvíin um Íran þrengist stöðugt.
Í aðdraganda Líbíustríðs voru spunavélar ráðandi vestrænna fréttastofa á yfirsnúning að mála myndina af Gaddafí og básúna um „fjöldamorð á eigin þegnum” (netsíðan Gagnauga.is hefur gert því lygamoldroki góð skil). Afgerandi fyrir samþykkt Öryggisráðsins nr. 1973 (um flugbann yfir Líbíu) var ennfremur undirskriftalisti 70 mannréttindasamtaka, langflestra vestrænna, m.a. þeirra sem virkust voru í áðurnefndum „litabyltingum”, en formlegt frumkvæði að listanum tóku líbísk samtök sem nefna sig Libyan League for Human Rights (LLHR). Þar var farið fram á íhlutun alþjóðasamfélagsins í Líbíu og vísað til áðurnefndrar „skyldu til að vernda” borgarana. Bænaskráin var m.a. send Obama forseta og Ban-ki Moon. Sýnt hefur verið fram á náin tengsl samtakanna LLHR og Líbíska þjóðarráðsins. (Mahdi Darius Nazemroaya, Libya and the Big Lie: Using Human Rights Organizations to Launch Wars“). Þetta meðal annars bendir til að ákveðið úrval mannréttindasamtaka sé orðið eitt meginvopn vestrænnar heimsvaldastefnu í hernaðarlegri útrás hennar.
Nýtt amerísk-evrópskt hernám Afríku er aftur komið í gang. Í vor sendu Frakkar herafla til Fílabeinsstrandarinnar. Bandaríkin hafa undanfarið stóraukið hernaðarsamvinnu við nær öll ríki Afríku gegnum Afríkuherstjórn sína (AFRICOM) og munu ekki lýða það að þau halli sér í neinar aðrar áttir. Nýlega sendi Obama herlið til Uganda og á næstunni fara bandarískar hersveitir til Suður-Súdan, Kongó og Miðafríkulýðveldisins. Líbíustríðið er ekki lokaþáttur hernaðaraðgerða heldur bera þau flest merki þess að vera upphafsþáttur.

Alhliða barátta – sálmasöngur nægir ekki
Við Vesturlandabúar lifum í miklum lygaheimi. Okkur mun farnast illa nema við hættum að blekkja okkur sjálf og nefnum hlutina réttum nöfnum. Það bjargar okkur ekki þótt friðarsinnar syngi sálma um frið. Vandamálið er stærra en svo. Sem stendur er baráttan gegn heimsvaldastefnunni sorglega veik. Á Íslandi þurfum við öflug samtök heimsvaldaandstæðinga. Heimsvaldastefnan er ríkjandi form kapítalismans, og það er mikilvægt að fólk greini ráns- og mannætueðli hennar. Við þurfum að berjast gegn henni í öllum myndum hennar, efnahagslegum, pólitískum og hernaðarlegum. Við verðum að stuðla að því að Íslendingar verji eigin sjálfsákvörðunarrétt, og einnig að þeir styðji heimsvaldaandstöðu hvar sem er í heiminum. Sérstaklega er brýnt að berjast gegn hinni ríkjandi heimsvaldablokk USA/ESB – sem sameinuð er í NATO – og hinni herskáu og stórhættulegu sókn hennar að heimsyfirráðum. Því lengra sem hún kemst í þeirri sókn þeim mun ófriðvænlegra og ógæfulegra er framundan.








                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        

No comments:

Post a Comment