(birtist á Neistum 22. desember 2020)
Áhrifamesta auðmannasamkunda heims nefnist Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum, WEF), samkunda 1000 helstu þungaviktarauðhringa í heimi. Í sumar lögðu þessi auðhringasamtök fram áætlun um kapítalismann sem slíkan, áætlun sem þau nefna „Endurstillinguna miklu“. Á vefsíðu samtakanna er áætlun þeirra stuttlega kynnt og niðurstaðan: „In short, we need a “Great Reset” of capitalism.“ Stefnan boðar jöfnuð, græn gildi og það að nýta 4. iðnbyltinguna í þágu samfélagsins. En samanlögð útkoma stefnunnar er einstæður flutningur fjármuna frá almenningi til hinna allra ríkustu og stór skref burt frá lýðræði.
Í fyrri grein var fjallað um hnattvæddan kapítalisma sem form heimsvaldastefnunnar í nútímanum, með sérstakan fókus á utanríkisstefnu BNA sjá hér. Samtökin World Economic Forum hafa lengi verið fremsti fulltrúi fjármálavalds og hnattvæðingarafla á hnettinum. Jafnframt er það klúbbur þeirra voldugustu í samanlögðu efnahagskerfi kapítalismans. Lista yfir aðildarfyrirtæki hans má sjá hér.
Great Reset
WEF hefur svo sannarlega verið spyrt við markaðshyggju og einkavæðingu, þau hafa líklega hingað til verið öflugasti forsprakki og verkfæri þeirrar stefnu allt frá því um 1990. Að kenna klúbbinn núna einfaldlega við „markaðsöfl“ er hins vegar ónákvæmt. Frá WEF koma nú aðrir tónar en þeir að láta markaðinn einfaldlega stjórna ferðinni eins og flestum auðvaldssinnum þótti fínt fyrir 2008. Lausnarorð þeirra núna er „samstarf einka- og opinbers reksturs“ og sjálf kalla samtökin sig „the international organization for public-private partnership“.
World Economic Forum hefur um árabil unnið að því að því að umbreyta kapítalismanum úr „kapítalisma hluthafa“ í „kapítalisma hagsmunaaðila“ (stakeholder-economy eða stakeholder-capitalism). „Kapítalismi hagsmunaaðila“ skilgreinir sig vissulega sem „það kerfi þar sem fyrirtæki miðar að því að mæta þörfum allra hagsmunaaðila þess: viðskiptavina, starfsmanna, meðeigenda, nærsamfélags og þjóðfélagsins alls“. En slagorðin „samfélagsábyrgð“ fyrirtækja og „einka-opinbert samstarf“ vísar fyrst og fremst til kerfis þar sem hnattrænu stórfyrirtækin færa sig frá því að stunda eingöngu efnahagslega starfsemi yfir í virk afskipti af stjórnmálum og samfélagsþróun – út frá hagsumum sínum.
Hin nýja stjórnlist/strategía sem kennir sig við „Endurstillinguna miklu“ (Great Reset) er ekki alveg ný, heldur er hún í stórum dráttum það sem WEF hefur haldið á loft undanfarinn áratug, og tengist þeim efnahagssamdrætti sem hefur verið viðvarandi frá 2008. Árið 2016 hét áætlun WEF „Global Redesign Initiative“. Aðalatriðin voru þau sömu þar: „kapítalismi hagsmunaaðila“, „samstarf einka- og opinbers reksturs“. Auðhringarnir vilja koma upp nýju stofnanaumhverfi „alþjóðasamfélagsins“ þar sem þeir eru jafnréttháir þjóðríkjum og helst skör ofar.
Kórónukreppan opnaði leiðina
Kórónufaraldurinn gaf skyndilega tækifæri fyrir það sem WEF hafði keppt að. Áætlunin Great Reset er kynnt til sögunnar sem viðbrögð við kórónuveiru. Strategían var þó löngu tilbúin, sbr. áðurnefnt „Global Redesign Initiative“ frá 2016. Með faraldrinum í vor sá auðhringaelítan færi á að setja hana einfaldlega í framkvæmd. Hér var komið einstakt tækifæri til að koma á samstarfi einka- og opinbers reksturs, WEF hefur stokkið fram og boðað lausnarorð sitt á hnattrænum skala um „ public-privat partnership“: fyrst af öllu að styrkja samstarf ríkisstjórna og viðskiptalífsins til að tryggja fjármuni til að berjast við sjúkdóminn og þróa og dreifa bóluefni.