Showing posts with label keynesismi. Show all posts
Showing posts with label keynesismi. Show all posts

Thursday, September 23, 2021

Hvað um Sósíalistaflokkinn?

 

(Birtist á Neistum  8. september 2021)

Ég er sósíalisti. Ég er í Alþýðufylkingunni en hún býður ekki fram í ár. Það gerir hins vegar Sósíalistaflokkur Íslands (SÍ). Flokkurinn hefur náð athyglisverðum árangri með málflutningi sínum. Að íslenskur flokkur sem kennir sig við sósíalisma hafi 8% stuðning eru tíðindi. Maður verður að taka afstöðu til slíks framboðs.

Baráttustefna SÍ

Það er ljóst að við í Alþýðufylkingunni eigum samstöðu með SÍ í mörgum málaflokkum. Mest um vert er að SÍ hefur sett á dagskrá endurreisn verkalýðsbaráttunnar, og komið með stéttahugsun og stéttabaráttu aftur í hina pólitísku orðræðu. SÍ hefur sett fram framsæknar umbótakröfur í mörgum málaflokkum, nefna má húsnæðismál, skattamál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, félagslegar lausnir í stað markaðslausna (afstaðan gegn nýfrjálshyggju er alveg afdráttarlaus) – og flokkurinn kennir sig við sósíalisma. Þess er að vænta að slíkur flokkur sé bandamaður Alþýðufylkingarinnar í stéttabaráttunni oftar en aðrir flokkar.

SÍ heyr kosningabaráttuna af krafti. Það er athyglisvert að hún hefur einkum farið fram á samfélagsmiðlum – og þar er framleiðnin mikil – en smám saman einnig í öðrum fjölmiðlum. Það er ekkert leyndamál, og blasir við, að Gunnar Smári Egilsson er helsti áróðursmaður flokksins. Hann er mælskur og öflugur áróðursmaður, ennfremur býsna glúrinn og skarpur pólitískur greinandi – og skoðar mál mjög oft frá stéttasjónarmiði sem er vissulega kostur á sósíalista.

En það eru göt og eyður í stefnu og störf SÍ. Þar vantar atriði sem hreint ekki má vanta. Raunar er ekki hægt að tala um neina stefnuskrá flokksins, frekar lista aðskildra stefnumála sem lesandinn þarf að raða saman til að fá heildarstefnu. Eftirfarandi gagnrýni beinist fremur að langtímastefnu (eða stefnuleysi) flokksins en stefnu og málflutningi hans í einstökum kosningamálum.

Sósíalismi?

SÍ kallar sig sósíalískan flokk. Allt bendir þó til að hann berjist fyrir umbótum á kapitalismanum fremur en afnámi hans, að stefna hans sé innan ramma kratískra umbóta fremur en byltingarsinnaður sósíalismi. Lítt hefur verið skilgreint hvað felst í þessum „sósíalisma“. Ekki er í neinum stefnuplöggum minnst á sósíalískt þjóðfélag, valdatöku framleiðenda, eign þeirra á framleiðslutækjum, valdaafnám auðstéttarinnar eða slíkt.

Tuesday, November 27, 2018

Jón Baldvin um Evrópusambandið undir þýskri forustu

(birt á fésbókarsíðu höfundar 27. nóvember

Einræða Jóns Baldvins Hannibalssonar um ESB, evruna, 3. orkupakkann í Silfrinu á sunnudag (25. nóvember) sætir tíðindum. Í viðtalinu ber Jón Baldvin saman fjármálakreppuna á Íslandi og í evruríkjunum eftir hrun: ESB undir þýskri forustu neyddi skattgreiðendur til að „bjarga bönkunum“ og hafnaði algjörlega að skuldunautar fengju skuldir afskrifaðar af því þýskir og franskir bankar heimtuðu svo. Jón Baldvin orðrétt: „Forusta ESB tók algjörlega svari fjármagnseigenda, 1%-elítunnar, og vanrækti algjörlega að taka svari þeirra sem raunverulega báru byrðarnar...Evruþjóðir hafa ekki gengisaðlögunartækið [eigin gjaldmiðil] og Maastricht-sáttmálinn bannar að reka ríkissjóð með halla, eins og Keynes hefði ráðlagt, nema X% [3%]. Svo það eru allra handa skerðingar á ríkisfjármálatækjunum líka. Niðurstaðan: Þjóðirnar fyrir utan Þýskaland sitja uppi með evru sem þjónar algjörlega þýskum útflutningshagsmunum... ESB er klofið milli hinna ríku – lánadrottnanna – og hinna veikari – skuldunautanna... Pólitíkin í ESB er eins og hún er í fyrsta lagi út af forustuleysi og í öðru lagi vegna þess að fjármagnseigendur ráða þarna lögum og lofum.“ Sjá viðtalið.



Viðhorf Jóns Baldvins til ESB, ekki síst eftir þróun þess í myntbandalag, eru í mörgu breytt. Maður með hans fortíð er ríkur að reynslu á þessu sviði og því full ástæða til að gefa þessum breyttu tónum hans gaum.

Saturday, December 22, 2012

Nýjar skýrslur ESB boða harkalegan Thatcherisma


Kreppan í Evrópu dýpkar. Skoðum hvernig ESB-valdið bregst við henni. Í áranna rás hafa komið fram tvær meginaðferðir til að fást við auðvaldskreppu. Annars vegar er það aðferð frjálshyggju og nýklassíkur sem vill „spara sig út úr kreppunni", svara samdrætti í framleiðslu með sparnaði á eftirspurnarhliðinni, þ.e.a.s. með kjaraskerðingum og niðurskurði. Gegn þessu setti Bretinn J.M. Keynes fram stefnu um virkt ríkisvald sem skyldi vinna gegn hagsveiflum: með niðurskurði útgjalda og niðurkælingu hagkerfis á þenslutímum en hallarekstri ríkissjóðs og auknum ríkisumsvifum (skapar aukna eftirspurn) á samdráttartímum og í kreppu.
Þessi seinni stefna er oft kennd við kreppupólitík Roosevelts, en í Evrópu er hún einkum tengd sósíaldemókrötum sem töldu að með hjálp hennar mætti temja óstjórn kapítalísks markaðar og hindra ofþenslu jafnt sem kreppu. Sósíaldemókratar hafa á tímabilum staðið mjög sterkt í ESB. Til dæmis sátu þeir árið 1999  í 13 af 15 ríkisstjórnum sambandsins. Það kom ekki í veg fyrir ofþenslu og svo kreppu í ESB. Ekki nóg með það, nú ber lítið sem ekkert á Keynesisma í kreppuviðbrögðum innan ESB.
Þvert á móti. Þann 2.mars 2012 undirrituðu 25 af 27 leiðtogum ESB-ríkja svokallaðan ríkisfjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi helst ekki fara yfir 0.5%, og fari hann eitthvert ár yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Þegar sú stefna var samþykkt dró danska Information þessa ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu..." (information.dk 30. jan 2012).  Sáttmáli þessi sem bannar Keynesisma er nú lög í aðildarríkjum ESB.
Vegna áhrifa hægri krata hefur verkalýðshreyfingin lengi stutt samrunaferlið í Evrópu  og stefnuna og stofnanirnar í Brussel. En það er að breytast. Aðgerðir verkalýðssamtakanna gegn hinum blóðuga niðurskurði fara vaxandi, einkum í Suður-Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Sláandi dæmi um breytta tíma er allsherjarverkfall í sex ESB-löndum samtímis - Spáni, Portúgal, Ítalíu, Grikklandi, Kýpur og Möltu - þann 14. nóvember sl.
Ekki sitja menn aðgerðarlausir í hinum herbúðunum. Í september í haust sendi Framkvæmdastjórn ESB frá sér tvær skýrslur sem hafa vakið reiði og óhug í evrópskri verkalýðshreyfingu. Önnur þeirra fjallaði um ástandið á evrópskum vinnumarkaði ásamt tillögum um „skipulagsumbætur" á honum. Tillögurnar mynda heildstætt kerfi, meðal þess sem lagt er til er að lækka lágmarkslaun, draga úr vægi heildarkjarasamninga, vinnumarkaðurinn verði sveigjanlegri með sveigjanlegri vinnutíma, fyrirtæki geti sagt upp samningum, meira verði um staðbundna samninga, atvinnuleysisbætur verði lækkaðar en eftirlaunaaldur hækkaður. Í skýrslunni er almennt lagt til „almenn takmörkun á áhrifum stéttarfélaganna á ákvörðun launa."
Tillögur Framkvæmdastjórnarinnar varðandi vinnumarkaðinn eru ekki eru misskilin kreppuviðbrögð. Þau eru í anda frjálshyggju, það er rétt. Alveg eins og ríkisfjármálasáttmálinn. En það er meðvitað. Tillögurnar fela einfaldlega í sér stríðsyfirlýsingu gegn verkalýðshreyfingunni í því augnamiði að brjóta hana á bak aftur, í anda Margrétar Thatcher.  Evrópska stórauðvaldið undir forustu „Þríeykisins" (Troika) Framkvæmdastjórnar, Evrópska seðlabankans og AGS mætir hinni dýpkandi kreppu með stéttastríði. Veður gerast nú válynd.
Að þessu sögðu þarf að geta þess að sk. Keynesismi eftirstríðsáranna - með virku ríkisvaldi, m.a. útgjöldum til velferðarmála - varð ekki til í fílabeinsturni hagspekinnar. Hann var útkoma sterkrar verkalýðshreyfingar, stéttaátaka og síðan málamiðlana. Og aðeins þannig má vænta hans aftur, á Íslandi, í ESB eða annar staðar. Ekkert fæst ókeypis, sérhvern ávinning þarf að knýja fram. En í ESB nú um stundir  ber þó meira á sókn auðvaldsaflanna. / ÞH

Saturday, November 10, 2012

ESB og kreppan: Keynes úthýst


(Birtist á Eggin.is og Heimssyn.is 9. maí og 12. maí)

Kosningarnar í Frakklandi og  og óljós loforð sósíalistans Francois Hollande um að auka skuli umsvif hins opinbera hefur glætt umræðuna um kreppuviðbrögð Evrópusambandsins.
Vinstrisinnaðir ESB-sinnar hafa löngum stillt evrópsku efnahagskerfi  upp sem skynsamlegum kapítalisma og „velferðarkapítalisma“, eðlisólíkum hinum ameríska, stjórnlausa. Í upphafi fjármálakreppunnar 2008 hældust þeir yfir hinu stýrða markaðskerfi með ríkisafskiptum hér austanhafs. Töldu að það myndi ekki lenda í forarvilpum frjálshyggjunnar í  „villta vestrinu“.
            Sú trú brást. Það er ekki Atlantshafið sem skilur að „velferðarkapítalisma “ og frjálshyggjukapítalisma. Sú tvískipting er á milli tveggja tímaskeiða. Keynesismi óx fram í fyrri heimskreppu og gerði það reyndar óháð Keynes. Stefnan var afleiðing af stéttabaráttu, umbótabaráttu lýðsins. Síðan var það Keynes sem setti hana í kerfi, stefnu um virkt ríkisvald sem vinnur gegn hagsveiflum: hallarekstur ríkissjóðs og aukin ríkisumsvif á samdráttartímum en niðurskurður útgjalda og niðurkæling hagkerfis á þenslutímum. Þessi hugsun var andstæð frjálshyggjuhugsuninni um sjálfstýrðan markað sem jafnan býr til sína eigin eftirspurn.
            Sérstaklega á fyrstu áratugum eftir stríð varð keynesismi ríkjandi hagstjórnarskipan vestrænna auðvaldsríkja. Hún var fast studd af evrópskum mið-vinstriflokkum og bandarískum demókrötum, og allra dyggast af sósíaldemókrötum og verkalýðshreyfingu sem laut þeirra stjórn og hafði eflst í kreppunni. Þessi „gullöld kapítalismans“ bauð þannig upp á stéttasamvinnu og sveiflujöfunarstefnu á Vesturlöndum. Auðvaldið hafði „efni á“ umbótum enda hótaði lýðurinn annars byltingu. Farið var að skrifa í sögubækur að Keynes hefði fundið meðalið við stjórnleysi markaðarins.
            En upp úr 1970 náði kreppa auðvaldskerfisins aftur vestrænum hagkerfum. Bandaríska kerfið fór enn fremur að mæta vaxandi samkeppni. Þá fann auðvaldið út að keynesismi svaraði ekki lengur hagsmunum þess. Og sósíalisminn var á undanhaldi. Við tók stórsókn markaðshyggjunnar, fyrst undir forustu Tatchers og Reagans, gegn „velferðarkapítalismanum“. Boðað var afskiptaleysi ríkisvaldsins og markaðslausnir. Smám saman fylkti stjórnmálastéttin sér um frjálshyggjuna, ekki síst kratarnir – og keynesisminn hvarf.
            Allt frá Rómarsáttmálanum 1957 og þó enn frekar frá Maastrichtsamkomulaginu 1993 hefur markaðshyggjan verið grundvöllur Evrópusamrunans. Í fyrsta lagi: markaðslausnir í samfélagsmálum, allt sem hindraði samkeppni varð illa séð, t.d. ríkisumsvif eða ströng vinnulöggjöf. Í öðru lagi: alþjóðleg verkaskipting (hnattvæðing), þ.e.a.s. frjálst flæði fjármagnsins vöru, vinnuafls og þjónustu milli landa. ESB varð verkfæri frjálshyggjubyltingar í Evrópu, líkt og GATT og Heimsviðskiptastofnunin voru það á heimsvísu.
            Svo kom kreppan yfir hinn markaðsvædda heim 2007-8 eins og syndaflóð, byrjaði í fjármálageiranum og færðist þaðan til framleiðslunnar. Þá risu upp kratar og formæltu frjálshyggjunni. Steingrímur J Sigfússon skrifaði seint í September 2008: „Hvað erum við að upplifa þessa dagana? Eru það ekki ragnarök nýfrjálshyggjunnar, hins óhefta græðgiskapítalisma sem á endanum er að kollsigla sjálfan sig?“ („Ragnarök nýfrjálshyggjunnar“ Mbl. 18. sept 2008).
            Vinstri menn trúðu á „nýtt upphaf“. Björgun fjármálakerfisins og efnahagskerfisins sat þó fyrir. Kreppu bankanna var svarað með miklum ríkisframlögum til að bjarga þeim. Af því hlaust mikill skuldavandi þjóðríkja, og í framhaldinu niðurskurður ríkisútgjalda. Vægðarlaus. Kreppuviðbrögðin endurspegla núverandi styrkleikahlutföll stéttanna. Kreppunni er velt á alþýðu. Evrópskir kratar eiga engin ný ráð, né demókratarnir vestan hafs. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvort við völd sitja hægri eða svonefndar vinstri stjórnir. Auðvaldið ræður.
            Sem stendur er enginn keynesismi í augsýn. Bandaríski keynesistinn Paul Krugman andvarpaði í New York Times í júlí sl.: „Hugsið um það: Hvar eru hin stóru opinberu vinnuverkefni? Hvar eru herskarar opinberra starfsmanna? Í reynd eru opinberir starfsmenn hálfri milljón færri nú en þegar Obama komst til valda“ („No, we can´t? Or Won´t?“, NYT, 10 júlí 2011). Og hvað þá um Evrópu? Leiðtogafundir ESB 30. jan. og 2. mars samþykktu sem lög nýjan fjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi ekki fara yfir 0.5%. Fari hann yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Danska Information dró rétta ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu… Fjármálasáttmálinn útilokar ríkisstjórnirnar frá því að fjármagna fjárfestingar með ríkishalla og þvingar þær til að finna aðrar leiðir.“ („Finanspagt: Forfatningsforbud mod fornuft“, information.dk 30. jan 2012).
            Þetta er aldeilis ekki kreppa frjálshyggjunnar. Það er auðvaldskerfið sjálft sem er í kreppu. Frjálshyggjan hefur hins vegar styrkt sig fremur en hitt, og í Evrópu alveg sérstaklega. AGS og ESB eru samstíga. Steingrímur og Jóhanna ganga í þeim takti. Munurinn á bandaríska efnahagskerfinu og því evrópska er lítill og óðum að hverfa. Auðvaldið fer sínu fram, eins í kreppum. Draumur evrópuvinstursins á sér enga stoð og er í eðli sínu tragískur.

Monday, November 5, 2012

Þjóðfélagsskipan í kreppu


(birtist á marxismi.com apríl 2009 og eggin.is ágúst 2009)


Hannes Hólmsteinn Gissurarson finnur orsakir núverandi kreppu í einu tæknilegu atriði, bandarískum húsnæðismálasjóðum (með upphaf í efnahagsstefnu Clinton-stjórnarinnar) sem veittu undirmálsfólki undimálslán (sjá hannesgi.blog.is – leitið að orðinu „undirmálslán“). Óstjórn, vanhæfni og spilling íslenskra ráðamanna er orsökin segja aðrir. „Spillt stjórnmálastétt“ segir Þorvaldur Gylfason. Gamaldags, borgaralegir og íhaldssamir umbótasinnar eins og Ragnar Önundarson greina á milli „féfletta“ sem stunda spákaupmennsku af fíkn og „alvöru fjárfesta“, og segir að þeir fyrrnefndu hafi orðið ofan á eftir aðsteðjandi sókn frjálshyggjunnar fyrir áratug eða rúmlega það. Þingmenn VG taka undir þetta og kenna um hægrisinnaðri stjórnarstefnu, „eftirlitslausu ríkisvaldi frjálshyggjunnar“. Þeir bæta við að með því að kjósa vinstristjórn megi endurbæta auðvaldskerfið, sníða af því vankanta og smyrja legur og reka það síðan sem skynsamlegan kapítalsima eða „blandað hagkerfi“, laust við stjórnleysi markaðarins, og væntanlega laust við bæði kreppur og misrétti. Þeir benda á Skandinavíu og vísa stundum í breska hagfræðinginn John M. Keynes. Loks koma prestar og siðapostular og tala um „græðgisvæðingu samfélagsins“ sem skýringu á ofvexti bankanna og vilja hefðja almenna siðvæðingu. Engin þessara skýringa leitar orsakanna í grundvellinum sem undir býr, í hagkerfi og þjóðfélagsskipan auðvaldsins.