Tuesday, March 1, 2016

Herferðin gegn Líbíu – nýju aðferðirnar prófaðar

(birt á Friðarvefnum 29. febr 2016)

Jíhadistar drápu Gaddafí eftir að bílalest hans varð fyrir NATO-loftárás

Hér er fjallað um Líbíustríðið 2011 sem „prófmál“ fyrir nýja taktík í vestrænni íhlutunarstefnu, nýja aðferð til að koma á „valdaskiptum“. Fjallað er um málatilbúnað „alþjóðasamfélagsins“, stuðning við innri uppreisn, áróðursstorm bandarískrar/vestrænnar fjölmiðlamaskínu um mannréttindabrot í Líbíu og beitingu nýs prinsipps í alþjóðarétti, um „verndarskyldu“ (Responsipility to Protect). Og síðan um nær órofa samstöðu Vesturlanda/NATO-ríkja í málinu. Sérstaklega er fjallað um afgreiðsla málsins á Íslandi, sem lítt hefur verið sinnt fyrr, og einnig í Noregi. En í báðum þeim löndum sátu vinstri stjórnir við völd – og skipuleg andstaða við stríðsreksturinn var enginn. Ein niðurstaða greinarinnar er dapurlegt ástand lýðræðis innan Vesturblokkarinnar á okkar dögum.
Hliðargildi þess að rannsaka Líbíustríðið er að varpa ljósi á stríðið í Sýrlandi sem hefur orðið miklu meiri stærð í alþjóðastjórnmálum. Það er fleira líkt en ólíkt með þeim stríðum. Ekki síst sú taktík sem Vestrið og stuðningssríki „uppreisnarinnar“ hafa beitt, þó ekki tækist að koma á beinum lofthernaði „alþjóðasamfélagsins“ gegn Sýrlandsstjórn eins og reynt var sumarið 2013. Stríðið í Sýrlandi kom í framhaldi af „valdaskiptunum“ í Líbíu. Að tengslin milli stríðanna voru mjög bein sást á því að þegar opnuð höfðu verið vopnabúr Gaddafí-stjórnarinnar hófust strax miklar vopnasendingar frá Líbíu – einkum miðstöð uppreisnarinnar, Benghazi – til Sýrlands gegnum Tyrkland.  Að ýmsu leyti var Líbía eins og æfing fyrir Sýrland. Niðurstaða „valdaskipta“ í Líbíu liggur fyrir og er rík ástæða til að skoða hana.
„Alþjóðasamfélagið“ gegn Gaddafí
Þann 17. mars 2011 samþykkti Öryggisráð SÞ „loftferðabann“ á Líbíu (tíu ríki ráðsins greiddu atkvæði með, en fimm – Rússland, Indland, Þýskaland, Brasilía, Kína – sátu hjá). Samþykktin fól í sér heimild til að fylgja loftferðabanninu eftir með hernaðaraðgerðum til að „vernda borgarana“. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG lýsti strax yfir stuðningi við ályktunina. Þann 23. mars greiddi Ísland atkvæði með því innan NATO að NATO tæki að sér stjórn á aðgerðunum. NATO kom þarna fram, eins og alloft eftir lok Kalda stríðsins, sem hernaðarlegt framkvæmdavald SÞ. Þar með fór Líbíustríðið á fullt. Lofthernaður NATO og stuðningur Vestursins við uppreisn jíhadista rústaði Líbíu sem ríki. Ég ætla ekki að fjalla um yeðileggingu Líbíu, en um það má t.d. lesa hér.  Um Líbíu fyrir stríðið sem það næsta við velferðarríki sem Afríka hafði upp á að bjóða má lesa hér.