Showing posts with label verkalýðsbarátta. Show all posts
Showing posts with label verkalýðsbarátta. Show all posts

Friday, November 26, 2021

Stríðið í Eflingu

(Birtist á Neistum 4. nóvember 2021)

Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.

Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.

Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.

Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?

Thursday, May 7, 2020

Sigur Eflingar

(birtist á Neistum 13. mars 2020)

„Við lítum á þessa umframhækkun sem viðurkenningu á okkar málflutningi og kröfum um að sögulega vanmetin kvennastörf þurfi einfaldlega á þessari leiðréttingu að halda." Í viðtali við RÚV var Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingarkona fegin og ánægð eftir undirritun kjarasamnings Eflingar – stéttarfélags og Reykjavíkurborgar þann 10. mars, eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna.

Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Sem er umtalsverður ávinningur miðað við þau 90 þúsund á lægstu laun sem um var samið í Lífskjarasamningunum. Efling hélt því alla tíð stíft fram að þörf væri á „sérstakri kjaraleiðréttingu vegna lágra heildarlauna, álags og kynbundins misréttis sem Eflingarfélagar hjá borginni búa við.“

Auk þessarar hækkunar var samið um styttingu vinnuvikunnar í takt við það sem gert hefur verið hjá öðrum hópum undanfarið. Vinnuvika vaktavinnufólks fer niður í 36 tíma og 32 tíma hjá þeim sem ganga vaktir allan sólarhringinn, leikskólastarfsfólki eru tryggðir 10 yfirvinnutímar á mánuði í formi sérgreiðslu, auk þess sem námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launum og fleira mætti telja. Samningurinn nær til um 1.850 starfsmanna borgarinnar.

Friday, March 6, 2020

Áfram Eflingarkonur!

(Birtist á Neistum 3. mars 2020)

Efling stéttarfélag ryður nú brautina. Ótímabundið verkfall félagsins gagnvart Reykjavíkurborg hefur staðið í á þriðju viku. Samstaðan og stuðningur félagsmanna við aðgerðirnar er yfirgnæfandi. Verkfallið var samþykkt með 95,5% atkvæða þar sem um 60% greiddu atkvæði. Væntanleg samúðarverkföll Eflingarfélaga hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg (sett á 9. mars nk.) voru einnig samþykkt með miklum meirihlutastuðningi. Láglaunafólk í Reykjavík er í baráttuhug. https://efling.is/2020/01/26/yfirgnaefandi-meirihluti-samthykkir-verkfallsbodun-gagnvart-reykjavikurborg/

Svo sem við var að búast reyna andstæðingarnir að sá sundrungu. Lýsa Eflingu sem klofningsafli í verkalýðshreyfingunni. Efling eyðileggur Lífskjarasamningana! Efling vill ekki meta nám til launa! Borgarstjóri stundar fagurgala í fjölmiðlum en býður mjög fátt sem fast er í hendi. En Eflingarfólk þjappar sér bara betur saman. Hátt er rætt um réttmæti verkfallsins og réttmæti verkfalla yfirleitt.
Ýmsir „ábyrgir“ aðilar segja að kröfur Eflingar séu óásættanlegar, „út úr kú“, muni koma af stað „höfrungahlaupi“, „skapa glundroða“ o.s.frv. Við þurfum varla að ræða lengi slíka skoðun. Ófaglært starfsfólk í barnagæslu hefur lægst laun af öllum starfsstéttum í landinu. Umönnunarstörf eru lægst metin! Að undirlaunuð kvennastétt og umönnunarstétt stígi fram – lægsti hópur launaskalans eftir áratuga vaxandi ójöfnuð – er að sjálfsögðu fagnaðarefni.

Saturday, March 18, 2017

Vinstrimennskan, verkalýðurinn og hnattvæðingin

Ræða haldin á landsfundi Alþýðufylkingarinnar 11. mars 2017)

Eftir fall Sovétríkjanna og sósíalismans í Kína m.m. lækkaði stjarna sósíalismans mjög á himninum. Sá ósigur var um leið ósigur verkalýðsstéttar auðvaldslandanna. Frjálshyggja og hnattvæðing auðhringanna sigldu fram seglum þöndum um heim allan, sem ríkjandi efnahagsstefna og hugmyndafræði. „There is no alternative“ (TINA) sagði Margaret Tatcher. Nú um stundir stendur verkalýðsstéttin höllum fæti og hefur miklu minni samfélagsáhrif en lengst af 20. öld. Vísbending um þróunina er að stéttarfélagsaðild hefur minnkað um nærri helming í Evrópu síðustu 30 ár og réttindi launafólks versna að því skapi.

Hnattvæðingin birtist sem frjálst flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa, svæða og heimshorna. Auðhringarnir skipta með sér heiminum. Tilgangurinn er að TRYGGJA AUÐVALDINU ÓDÝRT VINNUAFL.  Frjálsa flæðið – t.d. erlenda farandvinnuaflið á Íslandi – er kerfisbundið notað til að brjóta niður áhrif og áunnin réttindi verkalýðshreyfingar. Hnattvæðingin grefur einnig undan valdi þjóðþinga. Hnattvætt auðvald – hjá World Economic Forum og álíka – telur sjálfstæð þjóðríki vera úrelt fyrirbæri. Markaðskratar, og m.a.s sumir sk. byltingarsinnaðir sósíalistar, taka undir þann söng.

Stéttasamvinnustefna skaut snemma rótum í íslenskri verkalýðshreyfingu. Á frjálshyggjutímanum festi hún sig betur í sessi. Vinstri flokkarnir fá að taka þátt í ríkisstjórnum með því skilyrði að lofa auðstéttinni  „ásættanlegri arðsemi peninganna“. Á undanförnum árum hafa þeir gegnt lykilhlutverki í að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Ætli myndin af stéttasamvinnunni verði skýrari en í samvinnunni um SALEK og makki SA og ASÍ um „leyfilegar launakröfur“ og „forsendubrest“ ef einhver starfsstétt knýr fram eitthvað umfram ASÍ-línuna.

Flokkurinn sem við þurfum er stéttabaráttuflokkur. Ekki þingpallaflokkur sem lofar að færa alþýðu velferð og völd gegnum stjórnkerfi borgarastéttarinnar. Borgarastéttin elur á þeirri blekkingu að valdið í samfélaginu hvíli á þjóðþinginu og óskastaða hennar er að þingpallabaráttan dragi til sín þá athygli og krafta meðal alþýðu og andófsafla sem gætu annars komið fram í fjöldabaráttu í grasrótinni.

„Saga mannfélagsins hefur fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“ sögðu Marx og Engels í Kommúnistaávarpinu. Og „lausn verkalýðsstéttarinnar verður að vera hennar eigið verk.“ (Úrvalsrit II, bls. 217) Byltingarsinnar skilgreina verkalýðsstéttina sem hina framsæknu stétt sem með hjálp stéttvísi og með því að treysta á eigin samtakamátt verði að taka forystu í samfélaginu og skapa þjóðfélag fyrir fólk. Verkefni byltingarsinnaðra flokka er þess vegna að efla og leiða stéttabaráttu alþýðu.

Saturday, May 11, 2013

Andstaða við EES í norskri verkalýðshreyfingu


Í grein hér á Vinstri vaktinni 7. maí kom fram að samkvæmt nýrri könnun styðja aðeins 42% Svía aðild að ESB en voru 53% fyrir 3 árum (sem breytir þó litlu þegar enginn farvegur út úr sambandinu er til). Einnig kemur fram að aðeins 9% Svía telja að ESB-aðild auki sjálfstæði landsins, sem er vinsæl kenning meðal aðildarsinna hérlendis. Ekki síst kemur fram að aðeins 9% vilja að landið taki upp evru í staðinn fyrir sænsku krónuna.
Víkur þá sögunni til Noregs. Formaður norsku Evrópuhreyfingarinna lýsti nýlega yfir: „umræðan um norska ESB-aðild er dauð" (Klassekampen 29. nóvember 2012) og lagði niður hreyfinguna. Lengi var andstaðan við ESB í Noregi borin uppi af landsbyggðarfólki, ekki síst því sem tengist landbúnaði og fiskveiðum, en tök hægri krata á verkalýðshreyfingunni voru sterk og komu í veg fyrir kröftuga andstöðu úr þeirri átt. Nú eru tímar breyttir. Nú er verkalýðshreyfingin ekki aðeins andsnúin ESB-aðild heldur í vaxandi mæli andsnúin EES líka.
Norsk verkalýðshreyfing hafnar forgangsrétti ESB-reglna  
Norska verkalýðshreyfingin LO hélt í síðustu viku allsherjarþing (LO-kongess) sem hún gerir á fjögra ára fresti. Þar fór mest umræða í harkalega gagnrýni á EES-samninginn. Stærsta landssamband innan LO, Fagforbundet, hafði þegar ályktað að „vinnumarkaðsmál og fagleg réttindi verða að fara út úr EES-samningnum svo við getum varðveitt norsku atvinnulífsgerðina." Mörg önnur sambönd höfðu einnig lýst yfir óánægju með það hvernig Evróputilskipanir grípi inn í norska kjarasamninga og vinnumálalöggjöf. Sum bæta því við að ef ekki megi komast hjá þessu verði Noregur að yfirgefa EES. Óánægjan beinist einmitt að því hvernig EES-samningurinn felur í sér hæga og bítandi aðlögun að ESB.
Umræður urðu heitar á LO-þinginu. Að lokum var samþykkt nær samhljóða málamiðlunartillaga, einmitt frá Fagforbundet: „LO-þingið fullyrðir að núverandi EES-samningur grípur inn í norskt atvinnulíf og samfélag. LO krefst þess að norsk stjórnvöld hafni hverri skerðingu á rétti til samvirkra baráttuaðferða, rétti til heildarkjarasamninga og landsbundinnar launamyndunar. ILO-samningar, norskir kjarasamningar og norsk vinnumálalöggjöf skulu hafa forgangsrétt fram yfir ESB-reglur" (http://www.abcnyheter.no/nyheter/2013/05/08/lo-kongressen-med-viktigste-vedtak-i-norsk-politikk-om-eoes?utm_source=feedly).
Það sem gerir þessa LO-samþykkt svo róttæka er að efni hennar er ósamrýmanlegt EES-samningnum eins og þinginu var fullkunnugt um. Gianluca Grippa, formaður Vestur-Evrópudeildar Framkvæmdastjórnar ESB, var spurður um þetta atriði og svaraði: „Þeirri spurningu er svarað í 35. bókun samningsins en þar eru aðilar sammála um að EES-samningurinn hafi forgangsrétt fram yfir þjóðlega löggjöf ef á milli ber." (http://www.abcnyheter.no/nyheter/2013/02/06/eu-sier-nei-til-lo-kompromiss).
Fjórfrelsinu hafnað 
Bókunin hljóðar svo: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum" (http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/pages/bokun35 )
Í fjölmennum röðum EES-andstæðinga á LO-þinginu var það mál manna að samþykkt þessi hlyti að leiða af sér stigmagnandi árekstra milli LO og ESB-reglna. Hér er í raun hafnað gildandi framkvæmd á frjálsu flæði vinnuafls á Evrópska efnahagssvæðinu á tímum atvinnuleysissprengingar og vaxandi félagslegra undirboða. Líklegra verður þó bið á að ASÍ-þing ráðist gegn EES-samningnum á viðlíka hátt.