(Birtist á Neistum 4. nóvember 2021)
Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.
Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.
Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.
Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?