Tuesday, May 14, 2019

Þjóðin mín er skynsöm

(birt á Neistar.is 12. maí 2019)

Það er sama þótt 98% af fréttaflutningi sem á okkur dynur segi að við eigum að styðja orkupakkann þá er almenningur honum andvígur. Fréttablaðið 7. maí og RÚV 10. maí sýndu svipaða afstöðu, 50% aðspurðra – rúmlega 60% þeirra sem taka afstöðu – segja nei. Aðeins kringum 30% aðspurðra segja já. Nei-hlutfallið enn hærra hjá kjósendum stjórnarflokkanna. Sjá nánar á vef fréttablaðsins.
Sjá nánar a vef rúv.

Alþingismenn upp til hópa, allir nema þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins, segja okkur að leiða beri pakkann í lög. Þeir ætla bersýnilega ekkert að sinna þjóðarviljanum í þessu máli. Katrín ræðir málið við norsku Ernu Solberg og pöntuð er sameiginileg yfirlýsing með EFTA-ríkjunum tveimur um að pakkinn skerði ekki fullveldi þeirra. Norska þingið samþykkti einmitt pakkann í fyrra í grófu trássi við vilja þjóðarinnar.

Allir sérfræðingarnir sem RÚV og Fréttablaðið vitna í, allir, segja að pakkinn hafi lágmarksáhrif, en afar brýnt sé að samþykkja hann. Svo er pantaður úrskurður frá forseta EFTA-dómstólsins. „Synjun þriðja orkupakkans stefnir aðild Íslendinga að EES í tvísýnu“, segir hann. Og bætir við: „Eftir öll þessi ár erum við í þeirri stöðu að við getum gert ráð fyrir að ESB verði hart í horn að taka, einnig í ljósi þess að orka skiptir svo miklu fyrir ESB.“ En hótanir breyta engu. Meirihlutinn er á móti.

Það sýnir að almenningur á Íslandi er skynsamur. Dregur sínar eigin ályktanir. Yfirlýstur tilgangur orkumálastefnu ESB, eins og hún birtist í orkupökkunum, er samtenging orkukerfanna á svæði ESB/EES: „Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri.“ Fólk er varfærið. Það hugsar sem svo: Ef þetta er innleitt í íslensk lög skuldbindur Ísland sig til að vinna að einmitt þessu markmiði. Þetta gefur bæði innlendu og yfirþjóðlegu auðmagni og evrópsku skrifræði viðspyrnu og tök og tæki sem það hafði ekki áður til að koma slíku í kring. Annar yfirlýstur tilgangur laganna er uppbrot orkufyrirtækja og markaðsvæðing þeirra – og um leið opnun á einkavæðingu. Almenningur hefur handfast neikvætt dæmi tengt fyrri orkupökkum: HS orku. Fólk er varfærið – og það er skynsamlegt.

Almenningur efast um að íslenskir fyrirvarar haldi. Hann þekkir ný dæmi úr matvælalöggjöfinni. Íslenskir fyrirvarar dæmdir ólöglegir. Að áliti ESB trompa ESB-lög lög einstakra ríkja. Í aðildarviðræðum Jóhönnustjórnarinnar við ESB hafði Alþingi gert fyrirvara um yfirráð Íslands yfir sjávarútvegsmálum sem samræmdist ekki viðmiði ESB. Þess vegan var aldrei hægt að opna sjávarútvegskaflann í viðræðunum og þær sigldu í strand. Ekki er traustvekjandi að lögleiða orkupakka og gá seinna hvort hann samræmist stjórnarskrá, fyrst þegar möguleg samtenging kemur til framkvæmda. Það er öfugsnúið. Almenningur telur að þá verði erfitt að taka ákvörðunina til baka. Auðvelt inngöngu, erfitt útgöngu eins og allt í ESB. Þegar ESB-lög eru samþykkt verða þau ekki dregin til baka.

Almenningur vill félagslega eign og félagslegan rekstur á auðlindum (og grunnþjónustu), það hefur víða og oft komið fram. Almenningur er líka fullvedissinnaður og vill að mál séu ákvörðuð hér heima, ekki í fjarlægu embættiskerfi. Pakkasölumenn vita þetta. Þess vegna segja þeir: málið snýst ekkert um fullveldi, það snýst ekkert um markaðsvæðingu. Það snýst um alþjóðasamvinnu, neytendavernd, aukna samkeppni og lýðræði. En fólkið hugsar sitt.

Þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty skiptir elítunni á Vesturlöndum í viðskiptaelítu (styður hægri flokka) og menningarelítu (styður stóru vinstri flokkana). Það eru hinar nýju hnattvæðingalínur. Meira um það hér. Í orkupakkamálinu snúa þessar tvær elítur bökum saman. En alþýðan er síst hrifnari fyrir vikið og snýr baki við báðum. Almenningur samþykkir með því það álit Pikettys að þetta sé bara tvískipt elíta – sem hann ber enga lotningu fyrir.

Friday, April 26, 2019

Baráttan fyrir „nýju og betra ESB“

(umræða á Fésbók Sósíalistaflokksins 26 apríl 2019)


Ég set stórt spurningarmerki við hugmyndir um að sósíalistar geti breytt Evrópusambandinu. Efnahagsbandalagið/Evrópusamb hefur frá upphafi verið auðvaldsprósékt. Sérstaklega frá og með Maastricht er það blanda af annars vegar hnattvæðingarfrjálshyggju og hins vegar andlitslausu, ekki-kjörnu, yfirþjóðlegu skrifræðisvaldi. Sem er tengt efstu fjármála- og auðvaldselítum þúsund þráðum. Þetta vald keyrir samrunaþróunina stöðugt áfram. Árið 2015 mörkuðu hinir 5 sviðsforsetar ESB (Tusk, Schulz, Juncker, Dijsselbloem, Draghi) þá stefnu að fyrir 2025 skuli stofnanir ESB ákvarða fjárlög fyrir einstök aðildarlönd. Slík afgreiðsla lýðræðis virðist ekki bögglast fyrir hinum skriftlærðu „brahmínum“. 

Hins vegar er alþýðan miklu fullveldissinnaðari og skoðanakannanir sýna alltaf og alls staðar að hún er andvíg auknu valdi til stofnana ESB, ergó fær hún yfirleitt ekki að kjósa um slíkt. Þegar innleiða skyldi stjórnarskrá 2004 ætluðu aðeins 8 ESB-lönd að leggja það fyrir þjóðina. Þegar svo Frakkar og Hollendingar felldu var stjórnarskráin blásin af sem slík en 95% hennar lögð fram sem Lissabonsáttmáli. Þá hann afgreiddur eingöngu af þjóðþingum nema bara Írar fengu að kjósa. Þeir felldu en voru látnir kjósa aftur eftir örlitla andlitslyftingu samnings. Síðan voru engar þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-mál fyrr en Bretar fengu að kjósa um Brexit. Og á Íslandi mega Orkupakkamenn ekki heyra nefnt að alþýðan fái að kjósa um pakkann.

Guðmundur Auðunsson skrifar:  "Vissulega eru alþjóðastofnanir byggðar á grunni pólitískrar og efnahagslegrar hegemóníu frjálshyggjunnar.".. „Hugmyndafræðilega er nýfrjálshyggjan gjaldþrota. Stóri sigur Bramítanna hefur verið í félagslegum málum (mannréttindum, réttindum minnihlutahópa t.d. samkynhnegðra o.sv.fr.), því stríði er meira og minna lokið í okkar heimshluta, "hægrið" tapaði þeirri orusstu þó þeir hafi unnið efnahagsorusstuna. En nú eru miklar væringar. Stór hluti almennings er búinn að gefast upp á elítunni og stofnannapólitík og ef við byggjum ekki upp nýja vinstristefnu, sem byggir á sósíalískum og lýðræðislegum efnahagslegum gildum, er voðinn vís. Ef okkur tekst að vinna þá hugmyndabaráttu á alþjóðavísu þá getum við breytt alþjólegum stofnunum nýfrjálhyggjunnar eins og ESB og nýtt þær til að byggja upp nýjan heim, nýja Evrópu, byggða á sósíalískri félags- og efnahagsstefnu.“

Þórarinn svarar: Er það ekki svolítið tómt mál að segja að nýfrjálsyggjan sé „hugmyndalega gjaldþrota“ þegar þú segir jafnframt: „Vissulega eru alþjóðastofnanir byggðar á grunni pólitískrar og efnahagslegrar hegemóníu frjálshyggjunnar.“ Þær þurfa þá ekki að vera hugmyndalega frjóar þegar þær hafa yfirráðin. Að við getum breytt „alþjólegum stofnunum nýfrjálhyggjunnar eins og ESB“ í átt til sósíalisma tel ég mjög óraunsætt. Hverjum öðrum þá, fjandakornið ekki World Economic Forum, AGS, WTO, OECD...
Hægri hefur "unnið efnahagsorusstuna" segir þú, en "stóri sigur bramítanna hefur verið í félagslegum málum (mannréttindum, réttindum minnihlutahópa....)". Sammála. Þess vegna vilja brahmínar færa fókusinn frá efnahagsorustu og stéttastjórnmálum yfir á réttindi minnihluta og sjálfsmyndarstjórnmál. Hvaða stétt skyldi sú fókusfærsla þjóna?

Gelding stjórnmálanna og tvískipt elíta

(birtist á Neistar.is 24. apríl 2019)

                                         
                                                 Stjórnmálastéttin er sú starfsstétt sem hér er til umræðu

Í orkupökkunum er fjórfrelsi ESB innleitt í íslenska orkugeirann og þær reglur ýta til hliðar íslenskri orkulöggjöf. Í lögum sem afnema frystiskyldu á hráu kjöti er fjórfrelsið líka innleitt og ýtir til hliðar íslenskum fyrirvörum og íslenskri matvælalöggjöf. Íslenska stjórnmálastéttin er sameinuð um þetta að undanateknum Miðflokknum (og Flokki fólksins í orkupakkamáli). Í utanríkismálum undafarin ár hefur íslenska stjórnmálastéttin verið algerlega sameinuð í einni blokk: í refsiaðgerðum BNA og ESB gegn Rússum, flugskeytaárásum BNA & co á Damaskus, NATO-æfingunni Trident Juncture á Íslandi í haust, stuðningi við valdaránstilraun í Venesúela. Og fjölmiðlarnir: Í öllum þessum framantöldu málum og málaflokkum eru hinir ráðandi fjölmiðlar í landinu sameinaðir þessari í sömu fylkingu. Engin hjáróma rödd heyrist.

Það kostar sitt að vera stofuhæfur

Hlutskipti VG er hér umhugsunarefni. Ekki bara er flokkurinn formlega and-NATO og andsnúinn ESB-aðild. Miðað við alla ímynd VG fyrir nokkrum árum hefði talist óhugsandi að flokkurinn styddi nokkurt þessara mála. En alla þessa úlfalda hefur VG gleypt. Það var verðið sem flokkurinn þurfti að greiða til að geta talist stjórntækur og hæfur í „betri stofu“ stjórnmálanna.

Það hefur yfirleitt einkennt þessi framantöldu mál að þau hafa farið gegnum Alþingi nokkurn veginn sjálfkrafa og umræðulítið. Það á við um öll framantalin utanríkismál, þau fóru þegjandi í gegn. Þriðji orkupakkinn er að því leyti undantekning þar sem Miðflokkurinn og Flokkur fólksins veita mótspyrnu og eru enda óðara stimplaðir sem þjóðernispopúlistar, en það er einmitt einkunn sem skilgreinir fólk út úr „betri stofunni“.

Hvað er „betri stofan“? Hún er sá hugmyndalegi og pólitíski rammi sem leyfður er nú um stundir í íslenska valdakerfinu. Í efnahagsmálum markast ramminn af alþjóðavæddri frjálshyggju. Hafni menn þeim ramma, þeirri grundvallarforsendu, verða þeir utangarðsmenn, til hægri eða vinstri. Í alþjóðamálum er ramminn einfaldur: skilyrðislaus stuðningur við stefnu og aðgerðir NATO (stefnu sem stjórnað er frá Washington). Það skiptir engu máli hvort flokkarnir skilgreina sig til hægri eða vinstri eða hvort þeir styðja formlega tilveru NATO eða ekki.

Geldingin – valdaafsal stjórnmálanna

Við erum vitni að geldingu stjórnmálanna. Hún felst í því að nokkrir afgerandi málaflokkar eru teknir út fyrir sviga. Stjórnmálastéttin stendur í fyrsta lagi sameinuð um nokkur aðalatriði, og er sameinuð í því að taka þau „út fyrir sviga“, úr umræðunni. Í öðru lagi er hún sammála um að rífast heiftarlega um aukaatriðin.

Efnahagslega þungvægasta atriðið sem sameinast er um á þennan hátt eru reglur alþjóðavæddrar frjálshyggju. Þórlindur Kjartansson skrifar 12. apríl í Fréttablaðið greinina „Hvernig gat þetta gerst?“ Hann ræðst gegn þeim sem hafna vilja Þriðja orkupakkanum. Þetta séu „uppivöðsluseggir“ í ætt við Trump, þetta sé „afturhald“ og „andstaða við frjálsa verslun, alþjóðlega samvinnu og mannréttindi“ og þeir stefni á „upplausn“.

Þessu svaraði Gunnar Smári Egilsson samdægurs á fésbók Sósíalistaflokksins: „Það vantar eitt mikilvægt atriði í þessa greiningu á upplausn samfélagsins í kjölfar tímabils nýfrjálshyggjunnar, sem því miður virðist vera stjórnmálastefna og tímabil sem Þórlindur vísar til sem uppbyggingar frjálsra viðskipta, alþjóðlegs samstarfs og mannréttinda. Hið rétta er að undir slíkum slagorðum og yfirvarpi hafa völdin verið færð frá hinum pólitíska vettvangi út á hinn svokallaða markað á liðnum fjórum áratugum, færð frá vettvangi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði yfir á vettvang þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Á þessum tímabili voru stjórnmálin skræld að innan allri merkingu og inntaki, eitt megin einkenni þessa tíma var sannfæring um að stjórnmálin væru ekki lausnin heldur vandinn, hinn svo kallaði markaður var bæði lausnin, leiðin og markmiðið. Það sem Þórlindur kallar frjáls viðskipti, alþjóðlegt samstarf og mannréttindi varð í reynd að markaðsvæðingu allra geira samfélagsins, alþjóðavæðingu sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja en braut niður réttindi launafólks og dró úr völdum hins lýðræðislega vettvangs...“

Þetta sem Gunnar Smári nefnir „valdaafsal hins lýðræðislega vettvangs til hins svokallaða markaðar“ er nokkurn veginn það sama og ég nefni geldingu stjórnmálanna. Það er þetta sem meira en nokkuð annað hefur holað innan lýðræðið á seinni árum. Gunnar Smári bendir á að þetta „valdaafsal“ sé tvíþætt: „markaðsvæðing allra geira samfélagsins“ og „alþjóðavæðing sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja“. Frjálshyggjan og alþjóðavæðingin (hnattvæðingin) eru tvö ferli en þau ferli eru þó kyrfilega samofin. Í Evrópu fer alþjóðavæðingin helst fram þannig að skrifræðið í Brussel yfirtekur stjórn mála frá þjóðþingum álfunnar, í einum málaflokki af öðrum. Orkupakkarnir eru gott dæmi um það. Orkan er markaðsvædd, gerð að vöru á markaði hæstbjóðenda (aðrir málaflokkar skrifræðisvæðingar ESB eru t.d. fjármálaregluverk, fjármálaeftirlit, persónuvernd, innflytjendastefna, vinnumarkaðsmál, reglur um útboð verkefna, matvælalöggjöf).

Frá u.þ.b. 1990 (fall Sovétsins) hefur hnattvæðing kapítalismans stormað fram og hnattvæðingarhyggjan verið ríkjandi hugmyndafræði á heimsvísu. Auðvaldið í sóknarham. Opna skyldi lönd og álfur fyrir auðhringana: með stofnun NAFTA, Maastrichtsamkomulagi ESB, Úrúgvælotu GATT, stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (WTO), TISA, TTIP; allt eru þetta verkfæri hnattvæðingar, hafa það meginhlutverk að tryggja frjálst flæði fjármagnins og takmarka sem mest möguleika þjóðríkja og þjóðþinga til að stjórna eigin efnahagsmálum. Kjarni og eðli hnattvæðingarhyggjunnar er efnahagsleg nýfrjálshyggja. En búningur og yfirskriftir hennar eru „alþjóðleg samvinna“, „viðskiptafrelsi“, „lýðræði“. Og markaðskratar hafa búið til sinn sérstaka „sósíalíska“ búning utan á sömu efnahagsstefnu.

ESB fékk núverandi form og nafn 1993 (í Maastricht), byggt utan um innri markað fjórfrelsisins. Það er kjarni þessa sambands. Samtímis var EES búið til sem forgarður þess og aðilum EES-samningsins gert að taka einhliða við megninu af lögum og tilskipunum Framkvæmdanefndarinnar í Brussel og undirgangast sama fjórfrelsi – með undanþágum varðandi sjávarútveg og landbúnað fyrir þá sem ekki voru tilbúnir til fullrar inngöngu strax.

Og ESB gekk skrefi lengra. Sambandið setti sér stjórnarskrá árið 2004. Það var fyrsta stjórnarskrá í heimi sem mælti fyrir um ákveðna efnahagspólitík – hvað annað en frjálshyggjuna, fjórfrelsið?! Þessi stjórnarskrá var að vísu felld af Hollendingum og Frökkum í þjóðaratkvæðagreiðslu. En þá var hún, eða 95% hennar, bara lögð fram aftur og löggilduð (þjóðaratkvæðagreiðslu sleppt!) en ekki kölluð stjórnarskrá heldur sáttmáli, Lissabonsáttmálinn. Og gegnum EES-samning gildir hann á Íslandi líka. Sem sagt markaðsvæðing og skrifræðisvæðing ESB er ekki sitt hvað, það er tvíeitt fyrirbæri. En stefnan er negld föst af skrifræðisbákninu og ekki á valdi kjósenda að breyta henni.

Íslenska stjórnmálastéttin hefur (nokkurn veginn heil og óskipt) gengist inn á grundvallarforsendur hnattvæddrar frjálshyggju, stefnu NATO í alþjóðamálum o.s.frv. Málpípur valdsins, eins og t.d. Þórlindur Kjartansson, búa svo til nýjar grundvallarandstæður í stjórnmálum í staðinn fyrir stéttaandstæðurnar: andstæðurnar á milli „framsækni“ og „afturhalds“, eftir því hvort menn styðja hið markaðsfrjálslynda „frjálsa flæði“ milli landa og svæða eða ekki. En í þessum grundvallarandstæðum er hefðbundið hægri (t.d. Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn) og hefðbundið vinstri (Samfylking og VG) saman í liði, fylgjandi „frelsi og fjölmenningu“ en hitt liðið kallast þá „þjóðernissinnar“, „ostopafullur minnihluti“, „uppivöðslusesggir“, „afturhald“, enda skal umræðan um „fjórfrelsið“ tekin út úr „betri stofunni“ og helst „út fyrir sviga“ stjórnmálanna.

Kerfisflokkarnir eru sem sagt orðnir að einni samsteypu í stóru málunum eins og efnahagsstjórn, og í öllum utanríkismálum. En auðvitað verður að fela þessa miklu samtöðu. Þess vegna verða flokkarnir fyrir kosningar að gera sem allra mest úr því sem á milli ber (þó það séu í raun aukaatriði) svo að kjósendur fái á tilfinninguna að þeir ráði einhverju um þá stjórnarstefnu sem verður ofan á.

Piketty um brahmínvinstri og markaðshægri

Franski þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty sló í gegn á heimsvísu með bókinni Capital in the Twenty-First Century frá 2014 (rannsóknir sem Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson kynntu og nýttu sér í bókinni Ójöfnuður á Íslandi). Í fyrra lagði Piketty fram aðra greiningu sem ennþá er miklu minna umtöluð, hefur enda ekki enn fengið mikla dreifingu, sem hún á þó skilið. Titillinn er Brahmin Left vs Merchant Right. Þar gerir hann mikla úttekt á kjörfylgi flokka í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á tímabilinu 1948-2017, og sýnir fram á ákveðna eðlisbreytingu sem orðið hefur á hefðbundinni skiptingu í vinstri og hægri. Piketty skrifar í inngangi:

„Hnattvæðing og hækkað menntunarstig hefur skapað nýja vídd ójafnaðar og átaka og leitt til þess að fyrri bandalög byggð á stéttum og tekjuskiptingu hafa veikst og ný tvískipting hefur þróast“... [og áfram skrifar hann] „Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar var stuðningur við „vinstri sinnaða“ (sósíalíska og sósíaldemókratíska) flokka í kosningum tengdur minni menntun og lágtekjuhópum. Þetta svarar til þess sem kalla má stéttbundið flokkakerfi: lágstséttakjósendur skilgreindir út frá mismunandi þáttum (lágmenntun, láglaunum o.s.frv.) hafa tilhneigingu til að kjósa sama flokk eða bandalag á meðan yfirstétta- og millistéttakjósendur út frá mismunandi þáttum hafa tilhneigingu til að kjósa hinn flokkinn eða bandalagið.
Frá og með áttunda áratug hafa „vinstri“ atkvæðin smám saman tengst einkum kjósendum með hærri menntun. Það er ástæða þess að ég kýs að kalla flokkakerfið á fyrsta og öðrum áratug 21. aldar „fjölelítu flokkakerfi“. Hámenntaelítan kýs nú „vinstri“ en hátekju- og stóreignaelítur kjósa ennþá „hægri“ (vissulega minna en áður). Þ.e.a.s. að „vinstri“ hefur orðið flokkur menntaelítunnar (brahmína) en „hægri“ má skoða sem flokk kaupsýsluelítunnar (markaðshægri). Ég sýni fram á að sama umbreyting hefur orðið í Frakklandi, Bandaríkjunum og í Bretlandi þrátt fyrir margs konar ólíkindi í flokkakerfum og stjórnmálasögu þessara landa.“

„Brahmínar“ sem Piketty talar hér um vísar til hæstu stéttarinnar af fjórum innan hindúismans. Brahmínar eru prestar og fræðimenn. Samkvæmt því er menntaelítan orðin að prestastétt hnattvæðingarinnar og nýtur á ýmsan hátt molanna sem falla af hennar borði. Brahmínarnir hafa yfirtekið hefðbundnu vinstriflokkana sem jafnframt hafa yfirgefið hina gömlu stéttapólitík. Verkalýðsstéttin hins vegar hefur fallið niður á milli stóla og er á flestan máta tapari markaðsvæðingar og hnattvæðingar, finnst hún vera svikin og leitar eitthvert annað. Það er skiljanlegt: Ef flokkur snýr baki við stéttinni snýr hún óhjákvæmilega baki við honum líka.

Rannsókn Piketty nær líka yfir hraðan vöxt popúlismans á síðari árum: „Að því er ég best veit er rannsókn mín sú fyrsta sem tengir vöxt „popúlismans“ við það sem kalla má „elítu-þróun“, þ.e.a.s. stigvaxandi þróun „fjölelítu“-flokkakerfis þar sem hvort hinna tveggja ráðandi bandalaga sem skiptast á að hafa völdin endurspeglar viðhorf og hagsmuni sinnar elítu (menntaelítu eða kaupsýsluelítu).“

Þessi greining á popúlisma er í dágóðum samhljómi við það sem þessi skriffinni hér hefur áður skrifað um fyrirbærið. Sjá hér. Elítugreining Piketty virkar skarpleg og sannfærandi fyrir Ísland líka. Hún hjálpar manni við að skilja stéttbundinn (og hrokafullan) málflutning til stuðnings Þriðja orkupakkanum. Hún setur líka í upplýsandi samhengi dvínandi fjöldafylgi sósíaldemókrata (Evrópu) og ekki síst færslu á verkalýðsfylgi margra þeirra yfir til nýrra popúlískra flokka.

Wednesday, April 24, 2019

Fullveldið á vinstri vængnum

(birtist á Neistum.is 14. apríl 2019)
                                                                Ísland fullvalda ríki 1918

Umræðan um orkupakkann ólgar og sýður. Hugtakið FULLVELDI kemur þar í sífellu upp. Svo mjög að segja má að umræðan um orkupakkann birti um leið afstöðu viðkomandi til fullveldisins. Orkupakkinn er ágætis hnotskurn! Um afstöðu ólíkra hópa til fullveldisins má segja að „sínum augum lítur hver á silfrið“. Annars vegar eru þeir sem tala um „orkuna okkar“ og vilja verja „fullveldið í orkumálum“ og hins vegar þeir sem segja ýmist að orkan sé bara eðlileg vara eins og fiskur og ferðamenn eða þá að málið snúist „einkum um náttúruvernd og neytendavernd í orkumálum“. Við fullyrðingu þeirra fyrrnefndu um fullveldisframsal er algengasta svar hinna síðarnefndu: „Þetta hefur ekkert með fullveldi að gera!“
 
Pólarnir á vinstri vængnum

Þessi andstæðu meginviðhorf birtast skýrt og skarpt í pakka-umræðunni á vinstri væng. Ákafast við JÁ-PÓLINN er það sem kalla má „frjálslynda vinstrið“. Það er mjög svipað mengi og „evrópuvinstrið“. Ákefðin er skiljanleg í ljósi þess að í pakkamálinu er EES-samningurinn í nokkru uppnámi nema öll EFTA-löndin samþykki pakkann. Höfnun á honum er að því leyti höfnun á EES. En þetta fólk telur gjarnan „fullveldi“ vera úrelt hugtak sem aðallega sé áróðurshugtak þjóðernispopúlista (sem beita vissulega fullveldishugtakinu þegar þeir tala gegn hnattvæðingu m.m.). Íslenska frjálslynda vinstrið vill nú helst tengja allt fullveldistal í orkumálum við Miðflokkinn. Þetta er í samræmi við línuna frá Brussel sem felur í sér ákveðna umræðutækni og drottnunartækni. Hún er þessi: Stimplum alla andstöðu við fjórfrelsið og hinn skrifræðislega Evrópusamruna sem popúlisma og öfgahægrimennsku! „Sagðir þú fullveldi? Þjóðremba, popúlismi, nasismi, úlfur, úlfur!“ Sérfræðingur já-fólksins er prófessor Eiríkur Bergmann sem RÚV leitar ALLTAF til varðandi popúlisma og öll álitaefni varðandi „Evrópumál“.

Hinir róttækari í þessum hópi tala niðrandi um „fullveldi og önnur borgaraleg gildi“ sem bara gegni því meginhlutverki að gera gera auðstéttina og verkalýð að samherjum. Þeir hæða fólk óspart fyrir að vilja frekar láta innlent auðvald arðræna sig en erlent o.s.frv.

Við NEI-PÓLINN eru svo þeir vinstrimenn sem telja fullveldið mikils verðan hluta af lýðræðinu. Fullveldið markar jú línu kringum lögsögu þjóðríkisins. Það sem er innan línunnar er í lögsagnarumdæmi viðkomandi ríkisvalds, þjóðþings þess og þjóðkjörinna stofnana. Sem marxisti veit ég vel hvaða öfl ráða mestu í lögsagnarumdæmi íslenska þjóðríkisins. Það er íslenska auðvaldið, nánar tiltekið einokunarauðvaldið. Að því leyti má líta á lögsagnarumdæmi íslenska fullveldisins sem arðránslögsögu íslenskrar borgarastéttar (sú stétt er reyndar töluvert „komin í bland við“ tröll fjölþjóðlegra einokunarauðhringa, t.d. í bankakerfi, stóriðju og innflutningsverslun). Samt hefur íslenskur almenningur og almannasamtök formlega aðkomu að stofnunum almannavaldsins og alþýðan hefur alltaf möguleika á að byggja upp „mótaflið“ í samfélaginu á heimavelli og auka áhrif sín.

Á Alþingi Íslendinga sýnist það lið sem helst skilgreinir sig sem „vinstrimenn“ nú skipa sér í hnapp við já-pólinn. Afstaða Samfylkingarinnar í skyldum málum (aðildarumsókn, hrátt kjöt, orkupakkar) hefur alltaf legið fyrir. Á undanförum áratug hefur VG verið að renna sér úr síðarnefnda hópnum í þann fyrrnefnda. Þessi vinstrimennska hérlendis er t.d. einkennilega ólík pólitísku línunum í Noregi en þar hafa róttæku vinstriflokkarnir leitt baráttuna gegn pakkanum (auk verkalýðshreyfingarinnar) en Hægri flokkurinn og popúlistarnir í Fremskrittspartiet leiða stuðninginn við hann.

Mun stórnmálastéttin standa í lappirnar?

Verður lagaður sæstrengur? Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvort fyrirvarar Alþíngis haldi gagnvart Evrópudómstólnum. Þeir sýnast ekki vera „í anda“ samningsins og reglugerð 3. pakkans þar sem segir: „Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum bandalagsins á sviði orku.“ Eru fyrirvararnir ekki einmitt slíkar „hindranir“? Hvað um það: Setjum svo að orkuskortur í Evrópu haldi áfram að aukast. Setjum svo að gull sé í boði, t.d. þrefalt verð miðað við það sem stóriðjan á Íslandi býður. Við vitum hvar valdið liggur á íslenskum fjármálamarkaði, og þyngstu hagsmunir í efnahagskerfinu sjá hér gríðarlega möguleika á hámörkun gróða síns. Mun þá Alþingi standa í lappirnar? Ég bara spyr.

Ef (þegar) sæstrengur verður lagður er „orkan okkar“, í fallvötnum og í jörðu, þar með orðin að vöru til að selja hæstbjóðanda. Það verður hrein markaðsvæðing og með henni verður EKKI LEYFILEGT að stjórna nýtingu orkunnar út frá samfélagslegum áherslum. Orkan verður þá í öllum aðalatriðum komin út úr lögsögu þjóðkjörna valdsins og lýðræðisins. Þess vegna er það mikið bull að orkupakkinn hafi ekkert með fullveldi að gera. Orkupakkinn sýnir einmitt í hnotskurn að fullveldismál eru fyrst og fremst lýðræðismál en hafa ekkert með þjóðrembu að gera, hvað þá nasisma.

Orkupakkinn er ágætis hnotskurn sagði ég. Er ekki orkan ein höfuðauðind okkar? Ásamt fiski og ferðamönnum. Orkupakkinn sýnir líka í hnotskurn að íslenska stjórnmálastéttin (sem endurspeglar peningaöflin nokkuð vel) er orðin fráhverf þeirri „þjóðvarnarstefnu“ og fullveldishyggju sem hún fylgdi t.d. í landhelgismálinu upp úr 1970. Umskiptin eru dramatísk og munar þar mikið um afstöðu „frjálslynda vinstrisins“.

Deila

Friday, April 5, 2019

Orkupakkinn og pólitísku línurnar í Noregi

(birtist á fésbók Sósíalistaflokks Íslands)

VG styður nú orkupakkann gráa. Hér á síðu Sósíalistaflokksins vilja sumir stuðningsmenn pakkans stimpla alla andstæðinga hans sem þjóðernispopúlista (fundur Ögmundar á morgun t.d. nefndur „áróðursfundur þjóðernissinna“). Viðskiptablaðið hafði í vikunni áhyggjur af Noregi af því öll EFTA-lönd þurfa að samþykkja til að pakkinn virki: „Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn... Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar... færu að hafna pakkanum.“ 

Ég skoðaði þess vegna norsku blöðin. Meirihluti norska Stórþingsins samþykkti þriðja pakkann 22. mars í fyrra. En skoðanakannanir bentu þá til að mikill meirihluti þjóðarinnar væri á móti. Og hvernig lágu pólitísku línurnar í Stórþinginu? MEÐ PAKKANUM voru Hægri-flokkurinn, Framfaraflokkurinn (eini flokkur Noregs kenndur við hægripopúlisma), Verkamannaflokkurinn (mjög klofinn samt), Græningjar og Venstre (miðjuflokkur þrátt fyrir nafnið). Á MÓTI PAKKANUM voru Sósíalíski vinstriflokkurinn (systurflokkur VG), Rauðir (Rødt), Miðjuflokkurinn og Kristni þjóðarflokkurinn. Varðandi Verkamannaflokkinn má geta þess að AUF (ungliðar flokksins) var á móti og flokkurinn sjálfur líka í 12 af 18 fylkjum Noregs. Og í sama mánuði og Stórþingið sagði já sagði LO (norska ASÍ), öll framkvæmdastjórnin samhljóða, nei. Og auðvitað bændasamtökin, Norges bondelag og Norges bonde- og småbrukarlag. Grófu línurnar í Noregi eru þær að kapítalið og stofnanavaldið segir já en verkalýðshreyfing, vinstri menn og dreifbýli segja nei – og meirihluti þjóðarinnar. Væri þá stórundarlegt ef einungis þjóðernispopúlistar segðu nei á Íslandi.

Bjørn Moxnes, formaður flokksins Rødt (sem er í vinsamlegum samskiptum við Sósíalistaflokkinn?) situr á Stórþinginu. Eftir atkvæðagreiðsluna batt hann helst vonir við Alþingi Íslendinga og sagði við Norska útvarpið (í Noregi er pakkinn kenndur við orkustofnunina Acer): „Vi gir oss ikke. Dette slaget tapte vi, men på Island er regjeringa mot Acer, og Island må si ja til Acer, hvis også Norge skal bli med.“

Niður með orkupakkann!

(birtist á Neistar.is 3. apríl 2019)
                              

Tillaga utanríkisráðherra og ríkisstjórnar er að heimila Alþingi „að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara“ við innleiðingu 3 orkupakkans í EES-samninginn. Ef þjóðþing allra EFTA-landanna samþykkja verður pakkin að lögum á EES-svæðinu og þar með Íslandi.

Stuðningsmenn pakkans, m.a. ráðherrar Sjálfstæðisflokks og VG, flytja málið þannig að annars vegar hafi pakkinn „engin áhrif á Íslandi“ og hins vegar að höfnun hans setji „EES-samninginn í uppnám“.
„Það yrðu stórtíðindi í íslenskri pólitík ef þriðji orkupakkinn yrði felldur vegna þess að það gæti sett EES-samninginn í uppnám. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.“ (RÚV 14.11.2018)

Viðskiptablaðið skrifar 1. apríl: „Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn... Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar – sem hafa engra hagsmuna að gæta í þessu máli – færu að hafna pakkanum.“ („Mikil óvissa ef Alþingi segir nei“)

Markaðsvæðing – orkan sem vara

Þriðji pakkinn fjallar um verslun með orku: Orka á að vera vara sem á að fljóta frjálst á innri markaði ESB/EES. Öll ákvæði EES-samningsins um frjálsa flæðið – „sál ESB“, fjórfrelsið – munu taka gildi fyrir raforkugeirann (sem og jarðgas), strax við samþykkt Alþingis á Pakkanum, ekki við lagningu mögulegs sæstrengs. Þriðji markaðspakkinn felur í sér markaðsvæðingu. Um það er ekkert deilt. „Orkupakkarnir voru ekkert annað en markaðspakkar, og sá þriðji er það líka“, sagði orkumálaráðherrann Þórdís Kolbrún Gylfadóttir um daginn á ársfundi Landsvirkjunar (Mbl. 28.febr.).

Dæmi: Umrædd markaðsvæðing leiðir af sér bann við hvers konar niðurgreiðslu orku og pólitískri stjórnun orkumála, svo sem út frá umhverfisáherslum (orkuskipti í samgöngum), lýðheilsu, matvælaöryggi o.s.frv. Markaðurinn skal ráða og orkan seljast hæstbjóðanda sem þýðir útilokun á aðkomu lýðræðislegra stofnana. Það er engin tilviljun að helsta andstaðan við pakkanum kemur frá samtökum bænda. Og garðyrkjubændur sjá sína sæng upp reidda í nýrri verðsamkeppni.

Sæstrengur er svo framkvæmdaratriði. Alþingi skal setja þann fyrirvara að Alþingi eigi að ákveða hvort leggja skuli streng. Hvort sem sá fyrirvari heldur gagnvart ESA eða ekki (og fyrirvarar í kjötmálunum halda greinilega ekki): Ef peningavaldið og evrópskt stofnanavald taka að kalla á sæstreng og glittir í gull, er þá Alþingi líklegt til að standa í lappirnar? (við munum ICESAVE-afgreiðslu Alþingis) Og ef strengur er lagður er fullveldi okkar í orkumálum farið.

„Orkuverð á Íslandi mun hækka gríðarlega“ við innleiðinguna, segir Jón Baldvin Hannibalsson. Styrmir Gunnarsson skrifar: „Verði orkupakkinn samþykktur hefur Evrópusambandinu verið opnuð leið til þess að ná síðar yfirráðum yfir einni af þremur helstu auðlindum okkar Íslendinga.“

Orkusamband – liður í samrunaþróun

EES-samningurinn og evrópska stofnanavaldið er nú notað sem pískur á Alþingi og þjóðina. Samþykkið pakkann eða EES-samningurinn er „í uppnámi“! Og EES-sinnar beygja sig hver af öðrum. Af hverju? Af því höfnun á orkupakkanum felur í sér höfnun á EES eins og það er nú orðið. Að fella samninginn ætti þess vegna að leiða af sér gagngert uppgjör við EES.

Þetta á ekkert að þurfa að koma á óvart. EES-samningurinn hefur forgang fram yfir þjóðlega löggjöf. EES-lög er hluti, stór hluti, af ESB-löggjöf. EES var frá upphafi hugsað sem forgarður að ESB. „Jafnræðisreglan“ í samskiptum ESB og EFTA-ríkja hefur einmitt virkað þannig að EES-samningurinn felur í sér hæga og bítandi aðlögun að ESB.
Árið 2008 fór að bera á svæðisbundnum orkuskorti innan ESB. Það flýtti fyrir því að miðstöðvar sambandsins ákváðu að koma á einu sameiginlegu orkukerfi samkvæmt svokallaðri „Kerfisþróunaráætlun“. Eins og í öðru frá Brussel er stefnan „miðstýrt frelsi“, miðstýrð markaðsvæðing, miðstýrð frjálshyggja.

Orkupakkarnir eru einn þáttur í evrópska samrunagangverkinu. ESB yfirtekur stjórn mála frá þjóðþingum aðildarríkja, í einum málaflokki af öðrum, svo sem fjármálaeftirliti, fjármálaregluverki, persónuvernd, innflytjendastefnu, vinnumarkaðsmálum, lýðheilsu, orkumálum. Það er gert á þann hátt að setja einfaldlega á stofn valdamiklar stofnanir sem lúta bara eftirliti Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Og í mörgum tilfellum nær vald þeirra yfir allt EES-svæðið, ekki síst ef valdsviðið snertir fjórfrelsið.

Eins slík stofnun er ACER, orkustofnun Evrópusambandsins, stofnuð 2010. Samkvæmt orkupökkunum er hún æðsta stjórnvald, setur bæði markaðsreglur og tæknilegar reglur í orkumálum. ACER tekur ákvarðanir um flutningskerfi (raforkunet) sem liggja yfir landamæri og setur yfirþjóðlegar reglur um orkuöryggi og „sameiginlega hagsmuni“ og sker úr í deilumálum meðal aðildarríkja um kostnað við sameiginlegt orkukerfi. Eitt markmið ACER er að jafna orkuverð í ESB/EES.

Þáttur VG 

Þáttur VG í málinu er raunalegur, en svo sem í samræmi við „ESB-andstöðu“ þess flokks undafarin misseri, og flokkurinn aðhyllist æ meir þá markaðskratísku hundalógík sem tengir ESB við „vinstrimennsku“. Katrín Jakobsdóttir fullyrðir bara að fyrirvarar utanríkisráðherra haldi til að tryggja „forræði íslenskra stjórnvalda“ í málinu. Hins vegar segir hún eða flokkssystkini hennar á þingi harla fátt um það hver ávinningur Íslands sé af að ganga í þetta orkusamband. Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra skrifar að ríkisstjórnin verði „að gera okkur grein fyrir því hver ávinningur okkar er“: „Hvers vegna eruð þið að þessu yfir höfuð?“ (Bændablaðið 6. Tbl. 2019)

Wednesday, March 27, 2019

Rússarannsókn lokið - engar kærur

(birt á fésbók SHA 26. mars 2019)
                                                       Roberet Mueller sérstakur saksóknari


„Rannsókn undir stjórn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, leiddi ekki í ljós nein sönnunargögn fyrir því að Donald Trump og kosningabarátta hans hefðu haft samráð við rússnesk yfirvöld í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.“ (http://www.ruv.is/frett/trump-hafdi-ekki-samrad-vid-russa )

Ímyndið ykkur, þetta var beiskur kaleikur að tæma fyrir RÚV, enda er þetta stutt frétt og málið ekki endurtekið. Málið hefur verið risavaxið og tröllriðið bandarískum fréttaveitum í tvö ár, þar með öllum helstu vestrænum meginstraumsmiðlum og endurvarpsstöðinni RÚV. Fyrir réttu ári skrapp málið svo allmikið saman þegar Mueller, sérstakur saksóknari, ákærði þrettán vesæl rússnesk nettröll fyrir «upplýsingastríð», að reyna «grafa undan trausti» bandarískra kjósenda. Og nú sem sagt er „Rússarannsókn lokið“ og „engar ákærur lagðar fram“ um tengsl Trumps við Rússa.

Tapari málsins eru meginstraumsmiðlarnir. Mesta samsæri síðari tíma var blaðra sem sprakk. Þeir sitja eftir með flekkaðan blaðamennskufána. Fjölmiðlaveldið sem mest fordæmir samsæriskenningar er einmitt sú pressa sem mest hefur básúnað samsæriskenningu allra samsæriskenninga. Fjölmiðlaveldið sem gerði „fake news“ (falsfréttir) að sínu mikla vísdómsorði (um aðferðir Pútíns) er sama veldi og framleitt hefur í fréttafabrikkum sínum þessa stærstu „fake news“ síðari tíma. Pínlegt.

Bólan er sprungin vonum við, sennilega ekki horfin fyrir því. En hún hefur samt þjónað tilgangi sínum: aukið efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum, girt fyrir það sem virtist stefnumál hjá Trump – að koma á eðlilegu viðskiptasambandi við Rússa – aukið vopnaframleiðsluna og stríðshættuna um nokkur stig. Hlutir eins og tvær herstöðvar Bandaríkjanna og NATO í Noregi hægfara endurkoma stöðvarinnar á Íslandi tengjast þessu nokkuð beint líka og rífandi gangur á hlutunum.