Thursday, August 30, 2018

Hvert stefnir í Sýrlandi?

(birt á Neistum 29. ágúst 2018)
                                                          Raqqa Sýrlandi
Hvernig stendur Sýrlandsstríðið? Síðan í vor hefur borið minna á því í íslenskum fréttum en áður. Í apríl sl. gerðu Bandaríkin og Bretar og Frakkar flugskeytaárásir á Damaskus – með stuðningi allra NATO-ríkja, þ.á.m. stuðningi/skilningi ríkisstjórnar Íslands. Flugskeytaárásin skóp hættu á stórfelldri stigmögnun stríðsins. Hún var sögð vera „refsiaðgerð“ vegna „eiturvopnaárásar“ Sýrlandshers í Douma, úthverfi Damaskusborgar. Sendinefnd frá Alþjóðaefnavopnastofnunni (OPCW) var komin til Damaskus að rannsaka málið en ekki mátti samt bíða eftir niðurstöðum.
Í byrjun júlí sl. sendi OPCW frá sér skýrslu um rannsóknina og kvaðst ekki hafa fundið merki um beitingu taugagass („No nerve agents“) í Douma og ekki séð merki um bönnuð vopn („No chemicals relevant to CWC [Chemical Weapons Convention] have been found“). Vestrænar fréttastofur töluðu mjög lágt um þennan rapport og forðuðust að draga af honum augljósar ályktanir, nefnilega að flugskeytaárásin hafi verið gerð á upplognum forsendum (og íslenskar fréttastofur þögðu alveg). Verra en það, vestrænar fréttastofur og stjórnvöld halda áfram að tala um „efnaárásina“ í Douma sem staðreynd.

Út frá öllum almennum stöðlum er Sýrlandsstríðið tapað stríð fyrir vestræna heimsvaldasinna og bandamenn þeirra. Sýrlandsher hefur undanfarin þrjú ár, með aðstoð Rússa o.fl., náð frumkvæðinu í stríðinu og smám saman frelsað þau svæði landsins sem „uppreisnarmenn“ höfðu náð. Það þýðir samt ekki að heimsvaldasinnar horfist í augu við þann ósigur. Þrjú svæði landsins hafa lögleg stjórnvöld Sýrlands enn ekki endurheimt:
  1. Idlib-hérað. Þangað hafa safnast íslamískir vígahópar frá þeirri „uppreisn“ sem um tíma reif landið í tætlur. Nú er Idlib eina svæðið undir stjórn þeirra afla. Og Sýrlandsher hefur hafið aðgerðir sínar til að frelsa Idlib. Það er þó ljóst að það verða veruleg átök af því til héraðsins hafa safnast margbreytilegir og mikið vopnaðir hópar vígamanna. Öflugasti hópurinn er Al-Kaída útibúið Jabhat al-Nusra sem nú kallar sig Hayat Tahrir al-Sham. Að fenginni reynslu (m.a. frá Aleppo og Douma) vitum við að vestræna pressan mun lýsa átökunum við þá sem „slátrun á saklausum borgurum“. Nú gerist þrennt í senn sem bendir til væntanlegra tíðinda: a) Bandaríkjaher byggir upp flotastyrk sinn á austanverðu Miðjarðarhafi og siglir þar inn skipum sem fær eru um flugskeytaárásir á Sýrland. b) Bandaríkin, Bretar og Frakkar gáfu fyrir viku út sameiginlega yfirlýsingu um að þau muni ráðast á Sýrland noti Assad efnavopn. Það jafngildir boði til hryðjuverkamanna um að sviðsetja efnavopnaárás. c) Samtímis gáfu Rússar út aðvörun um að þeir sjái merki þess að Tahrir al-Sham i Idlibhéraði undirbúi sviðsetta efnavopnaárás. Hefðbundin flétta. Sbr. þessa Newsweek-frétt.
    -
  2. Afrin hérað sem Tyrkir hafa hertekið af sveitum Kúrda, YPG, í kjölfar innrásar í janúar sl., með stuðningi nokkurra hópa sýrlenskra vígamanna, einkum Frelsishers Sýrlands, FSA. Innrás Tyrkja leiddi af sér ákveðna samvinnu milli sveita Kúrda og Sýrlandshers í Afrin, en sá síðarnefndi hefur þó kosið að láta ekki sverfa verulega til stáls við Tyrki.
    -
  3. Stærsta og alvarlegasta hernám á sýrlensku landi er nú í Norðaustur-Sýrlandi, austan Efratfljóts. Þar hefur US-Army full hernaðarleg yfirráð, það er bandarískt hernám. Það flækir hins vegar málið mjög að hernámsaðilinn hefur fengið til liðs við sig mikilvægan bandamann á svæðinu, kúrdnesku aðskilaðarhreyfinguna PYD og hersveitir henni tengdar, YPG og SDF, sem US-Army vopnar og verndar úr lofti. Á hluta svæðisins, Hasaka, hefur PYD lýst yfir kúrdnesku sjálfsstjórnarsvæði. Í Hasaka býr samt þjóðernablanda og Kúrdar eru ekki í meirihluta. Bandalag hernámsaflanna (undir forustu BNA) við aðskilnaðar-Kúrda í PYD veldur miklum árekstrum við Tyrki, en augljóslega hefur það orðið Bandaríkjamönnum símikilvægara eftir því sem bandalag þeirra við vopnaða íslamista hefur trosnað í takt við minnkandi hernaðargengi þeirra. Það má ljóst vera að bandarísk hermálayfirvöld veðja gríðarlega á kúrneska trompið. Vopnaaðstoðin er gríðarleg, bandarískar sérsveitir hafa um árabil verið innblandaðar í kúrdnesku herina og hernaður YPG og SDF sem heild er undir yfirstjórn bandaríska CENTCOM (herstjórn Miðsvæðisins sem nær yfir Miðausturlönd og Miðasíu. Gjaldið sem PYD er tilbúið að greiða fyrir „sjálfstæðið“ er varanleg hernaðaryfirráð US-Army í landi þeirra. Heimildir um þetta eru t.d. rækilega skráðar í þessari Wikipediagrein. Donald Trump hefur hins vegar alloft nefnt að Bandaríkin ætli að draga sig út úr Sýrlandsstríði: „We'll be coming out of Syria like very soon. Let the other people take care of it now.“ Hvaða „other people“ á hann við? Sennilega einkum Sáda og Persaflóaríki. Sendinefnd frá Sádum, Sameinuðu furstadæmunum o.fl. munu hafa hitt fulltrúa frá YPG í sumar til að ræða slíka þáttöku. Ekki er þó líklegt að nein arabaríki muni beinlínis „taka við keflinu“ af BNA. Nýlega endurtók Mattis varnarmálaráðherra þá gömlu yfirlýsingu að BNA myndu ekki yfirgefa Sýrland fyrr en Assad forseti væri farinn frá.
Ekkert bendir til að US ætli sér að gefa Sýrland eftir. Enda snýst stríðið um meira en Sýrland eitt. Sýrlandsstríðið – eins og allt „langa stríðið“ í Miðausturlöndum frá 2001 – snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum. Það sýnist nú fjarlægur draumur að heimsvaldasinnar nái markmiðinu um valdaskipti og vestrænt sinnaða stjórn í Sýrlandi. En „plan B“ er varanleg sundurlimun landsins og það er sú stefna sem fylgt er í Pentagon, NATO og hjáríkjum BNA nú um stundir.

Sunday, July 8, 2018

Flokkur og samfylking. Ráð Brynjólfs Bjarnasonar                                                      Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratauga baráttu
Ris og hnig í stéttabaráttunni
Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum... Í harðvítugum verkföllum og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega. Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og inngöngunni í NATO.
Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og hætti afskiptum af stjórnmálum.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu slík umskipti?

Frá verkalýðsflokki til kosningaflokks
Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970:  „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar... einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað 1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega fullnustaður 1968.
Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við stofnuðum til á sjötta áratugnum... Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru ekki nægilega ljós“ (57).
Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli. Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.

Árið 1962
Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt.

Saturday, May 5, 2018

Elías um ellefta september: Tíu punktar um yfirhylmingu

(birtist á síðunni Stríðið í Mið-Austurlöndum 5. maí 2018)


Hafandi fersk í minni tvö ný hryðjuverk með sterk einkenni sviðssetninga – eiturárásina á Skripal feðginin og „eiturárásina“ nýju í Douma – sem báðar þjóna stríðsrekstri Vestursins í Miðausturlöndum og vígvæðingunni gegn Rússum er rík ástæða til að rifja upp hryðjuverkið mikla 11. sept 2001 sem  var upphafsatriði „stríðsins gegn hryðjuverkum“ sem BNA og NATO lýstu yfir í kjölfarið og hefur síðan geysað og sett Stór-Miðausturlönd á hliðina og skapað flóttamannavandann...


Í meðfylgjandi grein lýsir Elías okkar Davíðsson í 10 punktum eftirmálum atburðarins. Hann bindur sig fyrst og fremst við réttarfarslega meðferð glæpsins (bæði refsiréttar- og þjóðréttarlega) – og sýnir að hún hefur stórum meiri einkenni yfirhylmingar en einkenni afhjúpunar og upplýsingar.


Fyrstu punktar Elíasar einir og sér sýna ærna annmarka: Að stjórnvöld BNA hafi ekki ekki sótt til saka nokkurn mann fyrir glæpinn, hvorki fangana í Guantánamo né aðra. Að stjórnvöld BNA og forusta NATO hafi ekki, þegar þau réðust á Afganistan mánuði eftir glæpinn og hófu „stríðið gegn hryðjuverkum“, lagt fram nein göng sem tengdu Afganistan við hryðjuverkið, og ekki gert það síðar heldur. Að stjórnvöld BNA skuli jafnvel ekki hafa saksótt Osama bin Laden, FBI m.a.s. viðurkennt að sig skorti ‘hard evidence connecting Bin Laden to 9/11”.
Þessi málsmeðferð á það sameiginlegt með málsmeðferð kringum hin nýfrömdu hryðjuverk að sönnunargögn málanna hverfa í dularfullt myrkur og eru algert aukaatriði í orðræðunni, en þeim mun meira er fjölmiðlafárið sem frá fyrsta degi er leikstýrt í einn farveg stríðsæsinga. Sjá grein Elíasar.

Monday, April 30, 2018

Að hafna olíudollarnum getur kostað innrás

(birtist á fésbók SHA 30. apríl 2018)


Í olíukreppunni snemma á 8. áratug gerðu BNA samning við Sádi-Arabíu. Þau skyldu kaupa olíu sína af Sádum og sjá þeim í staðinn fyrir vopnum (og brátt herstöðvum). Sádar skyldu nota stöðu sína í OPEC til að halda olíuverði niðri og tryggja að öll olía skyldi keypt GEGN DOLLURUM. Olíudollara sína skyldu Sádar (og OPEC-lönd) binda í Bandaríkjunum með kaupum á bandarískum ríkisskuldabréfum. Auk þess: lönd sem kaupa olíu þyrftu þar með að skaffa sér dollara svo að dollarinn varð ríkjandi gjaldmiðill heimsviðskipta. BNA gátu nú safnað skuldum og Alríkisbankinn gat prentað endalaust af dollar án þess að gengi hans félli, vitandi að alltaf er eftirspurn fyrir hendi, og gat þannig fjármagnað ævintýralegan ríkisfjárhallann. Olíudollarinn er hornsteinn undir hnattrænni valdastöðu Bandaríkjanna. Ríki sem hóta að hundsa olíudollarakerfið eru ekki tekin silkihönskum (m.a. Írak, Líbía og reyndar Sýrland). Enda: ef olíudollarakerfið hrynur er hætt við að skuldasprengja BNA springi. Hlustið á grátt gaman Lee Camp:

Rússar mæta í Hag með Douma-vitni

(birtist á Fésbók SHA 27. apríl 2018)


Rússar mæta í Hag með slatta af vitnum frá Douma. Með nokkur af fórnarlömbum umræddrar klórgas-árásar (vitni sem eru á hinum heimsfrægu fréttamyndum) og lækna og starfsfólk af þessari bráðavakt sem er sú eina í Douma. Þeir vitna um að á bráðavaktina hafi hafi komið fólk í andnauð og jafnvel með reykeitrun vegna brennandi húsa og sprengjuryks í nágrenninu. Síðan hafi Hvíthjálmar skyndilega mætt á svæðið og skapað panikk með ópum um eturvopnaárás og tekið myndir og sprautað vatni á fólk. Enginn hafi hins vegar sýnt merki um gaseitrun þann dag. Þetta er t.d. í samræmi við það sem Robet Fisk skrifaði í Independent en hann var fyrsti vestræni blaðamaður til að gefa rapport frá vettvangi.
"Fréttamyndir" Hvíthjálma nægðu hins vegar fyrir BNA, Breta og Frakka til árásar. Hana þurfti „nauðsynlega“ að gera ca. sólarhring áður en OPCW-rannsóknarnefndin komst inn á svæðið til að sannreyna merki um eiturgas. Íslenska ríkisstjórnin sýndi árásinni „skilning“ af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“ en skv. Stoltenberg  NATO-leiðtoga var hún „studd“ af öllum NATO-ríkjum, Íslandi líka. Já, áður en vettvangur var rannsakaður.
Þetta tekur sig illa út fyrir íslensku ríkisstjórnina, ef sannanir skipta yfir höfuð máli. En þær gera það líklega ekki. Í meginstraumsfjölmiðlum gildir að „taka sviðið“ á fyrsta degi og koma tilætlaðri frétt út. Ef hún einhvern tíma í framtíðinni verður borin til baka verður það ekki gert með neinum lúðrablæstri. Árangri náð.

Eins er með Skripal-málið. Við tökum þátt í refsiaðgerðum NATO-ríkja gegn Rússum af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“. Jafnvel þó Boris Johnson sé staðinn að lygum um að sérfræðingar Porton Down hefðu „sannað“ uppruna eitursins. Jafnvel þó engar sannanir séu bornar fram. Ekki þarf sannanir af því nú krefst NATO þess að allir standi saman. Ísland hafnar ekki slíkum kröfum. Og Skripal-málið var líka nauðsynlegur undanfari loftskeytaárásar.

Sviðssetningar og vestræna bræðralagið

(birtist á Neistar.is 7. apríl 2018)
                                                                     Sergei Skripal


Þessi grein var send á Vísir.is fyrir 10 dögum en ekki birt. Það sem síðan hefur einkum gerst er að breski utanríkisráðherrann, Boris Johnson, er staðinn að ósannsögli. Hann hafði fullyrt að vísindamenn á tilraunaverksmiðjunni í Porton Down hefðu sagt „afdráttarlaust“ að eitrið væri framleitt í Rússlandi. Vísndamenn Porton Down vildu hins vegar ekki staðfesta þetta og sögðust ekki geta fullyrt neitt um framleiðslustaðinn. En skortur á sönnunum hefur ekki breytt samstöðu „vestræna bræðralagsins“. Hér kemur þá greinin.

I. Tvíburaturnarnir féllu 11. sept 2001 og NATO hóf stríð sitt í Afganistan þremur vikum síðar. Afgerandi fundur var haldinn í Norður-Atlantshafsráðinu í Brussel 2. okt. Þar var mættur Frank Taylor sendiherra frá bandaríska State Department. Hann lagði fram skýrslu með kynningu sönnunargagna um atburðina 11. september. Utanríkisráðherrar NATO fengu sama dag skýrsluna kynnta munnlega, hver í sinni höfuðborg. Henni var svo haldið leyndri í 7 ár en leyndinni var aflétt 2008 þegjandi og hljóðalaust. Prófessor Niels Harrit við Kaupmannahafnarháskóla hefur gert grein fyrir innihaldi hennar. Á grundvelli skýrslunnar lýsti Robertson lávarður, aðalritari NATO yfir 2. október: „Á grundvelli þessarar sönnunar-kynningar hefur það verið staðfest að árásinni á Bandaríkin 11. september var stjórnað utanlands frá og verður hún því skoðuð sem aðgerð sem 5. grein Washington-sáttmálans tekur til, þar sem segir að hernaðarárás á einn eða fleiri bandamenn í Evrópu eða Norður-Ameríku sé skoðuð sem árás á þá alla.“ En í skýrslu Taylors er bara ekki neitt sem sýnir fram á tengsl afganskra stjórnvalda við árásirnar 11. september. Kjarnaatriðið – sem fjallaði um þau tengsl – kom orðrétt fram í yfirlýsingunni sem Robertson lávarður gaf út 2. október. Svohljóðandi: „Staðreyndiranr eru skýrar og óyggjandi. Við vitum að einstaklingarnir sem framkvæmdu þessar árásir voru hluti af alheims-hryðjuverkaneti Al Kaída sem stjórnað er af Osama bin Laden og liðsforingjum hans og verndað af Talíbanastjórninni.“ Engar frekari sannanir. Bara einföld fullyrðing, komin frá CIA og Pentagon. En stjórnvöld í samanlögðum NATO-ríkjum spurðu einskis frekar um sannanir, heldur „stóðu með sínum bandamönnum“. Engar sannanir hafa síðar komið fram sem tengja Afganistan á neinn hátt við 11. september, en stríð NATO gegn landinu hefur staðið síðan. www.globalresearch.ca/the-mysterious-frank-taylor-report-the-911-document-that-launched-us-natos-war-on-terrorism-in-the-middle-east/5632874

II. Átyllan til að ráðast á Írak var sviðssett. Við þekkjum hana. Skýrsluna sem sem Colin Powell varnarmálaráðherra gaf Öryggsiráðinu 30. janúar 2003. Hún var byggt á „gögnum“ sem starfsmenn í ráðuneyti Tony Blairs klipptu og límdu saman af samfélagsmiðlum – um gjöreyðingarvopn Saddams Hussein. Skýrsla Powells var flutt undir mikilli stríðshljómkviðu vestrænnar pressu. Mótmælin gegn þessu stríði voru reyndar svo gríðarleg að nokkur NATO-ríki heltust úr lestinni og NATO gat ekki staðið formlega að innrásinni, lét nægja að gerast aðili að hernáminu á eftir. Og nógu margir NATO-ráðherrar, bandalag viljugra, létu þessar „sannanir“ nægja og „stóðu með sínum bandamönnum“. Árás Vestursins á Miðausturlönd var hafin.

III. Sviðssetningin í Líbíu tókst „betur“. Vestrænar fréttastofur þróuðu þá tækni að búa til stríðsæsifréttir. Sagðar voru skáldaðar fréttir um fjöldamorð og fyrirhuguð fjöldamorð Gaddafís á þegnum sínum ásamt skálduðum fréttum af spontan uppreisn þegnanna. Það nægði ráðherrum NATO og þeir ákváðu einróma að hefja lofthernað gegn Líbíu. Þeir spurðu ekki um frekari sannanir, og landið er í tætlum síðan.

IV. Stríðið gegn Sýrlandi er aðallega þríþætt: með þungvopnuðum leiguherjum fjölþjóðlegra íslamista, með viðskiptabanni/diplómatískri útskúfun og með háþróaðri og samhangandi sviðssetningu vestrænnar pressu, leikstýrðri leiksýningu sem ber yfirskriftina „uppreisn gegn ógnarstjórn“. Sýningin er afar vel auglýst og kaflar úr henni hafa fengið Óskarasverðlaunin. Þetta virðist þó ekki duga til að koma á hinum tilætluðu „valdaskiptum“. Þess vegna getur maður enn átt von á skelfilegum sviðssetningum frá óvinum Sýrlands.

V. Sviðssetningin í Salisbury virðist vera illa valin og illa leikstýrð, æpandi órökræn og ótrúverðug í alla staði. Hefði gamli njósnarinn Skripal verið mjög hættulegur Rússum hefðu þeir ekki sleppt honum í fangaskiptum. Ef þeir vildu eitra fyrir hann var auðveldara að gera það meðan hann var í fangelsinu heima. Fyrirfram var í gangi mikil herferð á Vesturlöndum til að gera skrímsli úr Pútín og einangra Rússa. Afskaplega er ólíklegt að Rússar kysu að auka á þá einangrun með diplómatískum skandala, allra síst í aðdraganda HM. Nú, fróðir menn segja að Bretar geti vel framleitt eiturefnið novitjok, í tilraunaverksmiðju hersins við Salisbury, Porton Down. Og Pentagon er á kafi í efnavopnaprógrömmum þeirrar verksmiðju. Ekkert hefur verið lagt fram sem líkist sönnun á þátttöku Rússa í atburðinum. Enda sagði Theresa May aldrei að umrætt taugagas væri rússneskt, aðeins „af tegund sem þróuð var í Rússlandi“. Rússar eru krafðir skýringa en þegar þeir stinga upp á sameiginlegri rannsókn er því hafnað. En Guðlaugur Þór og aðrir utanríkisráðherrar NATO spyrja bara ekkert um sannanir. Hann og þeir hinir segjast bara „standa með sínum bandamönnum“ (og engar athugasemdir heyrast frá VG heldur).

Ef þessi leiksýnig selur – eftir allan lygabálkinn sem einkenndi upphaf fyrri árásarstríða – er komið upp stórhættulegt pólitískt ástand. Ég hef þó vissa von um að almenningur kaupi sig ekki inn á þessa síðustu sýningu.

Saturday, March 24, 2018

Heimsstyrjaldarhorfur

(birtist á visir.is 23.3. 2018)


Stríðstrommudrunur og óhugnaður í loftinu. Eftir dularfulla morðtilraun á rússneskum gagnnjósnara blæs Theresa May í herlúðra, segir þetta vera «efnaárás gegn Bretlandi» sem Rússar «að öllum líkindum» standi á bak við, vísar úr landi rússneskum diplómötum og heimtar harðari refsiaðgerðir gegn Pútín. Engin sönnunargögn. En Bandaríkin, Frakkar og Þjóðverjar biðja ekki um sönnunargögn heldur fordæma Rússa sameiginlega. Og Guðlaugur Þór segist «standa með vestrænum vinaþjóðum». Þetta sýnist vera leikrit, sviðsett í stríðsæsingaskyni.
 
Skripal-málið rímar fullkomlega við «Russiagate» í Bandaríkjunum. Neyðarlega lítið kom vissulega út úr svokallaðri Rússarannsókn í Washington, á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016. Þrettán vesæl rússnesk nettröll ákærð fyrir «upplýsingastríð», að reyna «grafa undan trausti» bandarískra kjósenda. Engin tengsl sýnileg við Trump né Pútin. Ekki einu sinni að þessi tröll hafi hafi hakkað sig inn í tölvukerfi Demókrataflokksins. 

En viðbrögðin eru bara meira Rússahatur: Leiðandi pólitíkusar, bæði demókrata og repúblikana, kalla meintar gjörðir þessara Rússa «stríðsaðgerð», «11. sept-aðgerð», «aðgerð sambærileg við Pearl Harbour»! Hin ofurherskáu viðbrögð eru stórfurðuleg en lýsandi fyrir heimsmynd Vesturlanda: Dregin er upp óvinamynd sem snýr öllum veruleika á hvolf. 

Í veruleikanum eru Rússar umsetnir af NATO sem hefur þanið sig upp að stofuvegg þeirra. Blaðamaðurinn og Íslandsfarinn John Pilger skrifaði 2016: “Á undanförnum 18 mánuðum hefur mesta uppbygging herstyrks frá síðari heimsstyrjöld – undir forustu Bandaríkjanna – átt sér stað á vesturlandamærum Rússlands. Ekki frá því Hitler réðist inn í Sovétríkin hafa erlendir hermenn boðað Rússlandi svo áþreifanlega ógn… Bandaríkin umkringja Kína með neti herstöðva, skotflaugum, orustusveitum, kjarnorkuberandi sprengjuflugvélum og hafa sett snöru um háls Kína.” Í orðræðunni hins vegar eru það Rússar (og Kína) sem eru skilgreindir “útþensluseggir». Pútin er daglega djöfulgerður af vestrænum fjölmiðlum – rétt eins og Miloshevic, Saddam, Gaddafí voru tilreiddir áður en ráðist var á þá. 

Hatrið í garð Rússlands og Kína er illskiljanlegt nema í ljósi hnattræns valdatafls. Nægir að vísa til hraðrar viðskiptasóknar Kína á heimsmarkaðnum. Glæpur Pútíns er að snúa frá þjónkun fyrirrennarans Jeltsíns við Vesturlönd og taka að verja af kappi hið smækkaða áhrifasvæði Rússlands gagnvart ásókn USA/NATO-velda. Og að gera bandalag við Kína. 

Gangverk heimsvaldastefnunnar leyfir ekkert tómarúm. Ef valdatóm myndast taka heimsveldin gráðugu óðar að berjast um «enduruppskiptingu». Við fall Sovétríkjanna 1991 myndaðist mikið tómarúm, m.a. í A-Evrópu og Miðausturlöndum. Sama ár sagði Paul Wolfowitz (seinna varnarmálaráðherra) við Wesley Clark yfirhershöfðingja NATO: «Við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Stefnt var á full yfirráð í Miðausturlöndum, og á „einpóla heim“ til frambúðar.

Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO ruddust fljótt inn á tómarúmið í A-Evrópu, upp að landamærum Rússlands. En „hreinsun“ Miðausturlanda (og Miðasíu og N-Afríku) komst ekki vel af stað fyrr en með 11. september 2001. Þá líka hófst djöfulskapurinn, fyrst með beinum innrásum, síðan blandaðri tækni innrása og staðgengilshernaðar og loks í Sýrlandi gegnum staðgengilshernað með virkri hjálp staðbundinna bandamanna. 

En þá hafði einmitt „næsta risaveldi“ stigið fram á sviðið, Kína, í bandalagi við gamla óvininn „R“. Kína geysist fram úr Bandaríkjunum á heimsmarkaðnum, byggir upp „nýja silkiveginn“ með háhraðalestum, vörum og fjárfestingum, og ætlar nú ásamt Rússum og Íran að sniðganga dollarann í olíuverslun – og aðrir geta fylgt á eftir. Staða dollarans sem heimsgjaldmiðils er í voða. Pútín eyðileggur draumana í Úkraínu og Sýrlandi. Ótal gróðavonir auðhringanna eru í uppnámi. 

Bandaríkin – og bandamennirnir í NATO – eiga aðeins eitt svar við áskorun keppinautanna: vopnavald. Þau mæta hinni nýju stöðu með meiri árásarhneigð en nokkru sinni. „Okkur liggur á áður en við töpum vopnaforskotinu!“ Það nýjasta er að USA færir nú taktísk atomvopn sín inn í almenna vopnabúrið, af því það Á AÐ NOTA ÞAU! 

Brennipunkturinn: Sýrlandsstríðið snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum. Frá upphafi er það „valdaskiptastríð“ með staðgengilsherjum, kostað, vopnað og mannað utanlands frá, stjórnað frá Washington (RÚV reynir endalaust að kalla það „uppreisn“). Valdaskiptin hefðu líklega tekist ef Pútín hefði ekki dregið strik í sandinn 2015 og gengið í lið með bandamanni sínum Assad. Sýrlandsher náði þá stríðsfrumkvæðinu. 

Ef „staðgenglarir“ bila verða bakmennirnir sjálfir að stíga fram. Tyrkir ráðast inn, Ísrael hefur beinan lofthernað og bíður eftir „tilefni“ til stórásarar. Bandaríkin snúa lofthernaði sínum beint gegn Sýrlandsher og lýsa yfir að þau muni ekki skila Sýrlandsstjórn þeim (olíuríku) svæðum sem þau ásamt bandamönnum taka frá ISIS. 

Sýrlandsstríðið er staðbundin heimstyrjöld. Stórveldabandalög svipuð og 1914: Bandaríkin og bandamenn þeirra (NATO/ESB/Sádar/Ísrael), hins vegar Sýrland/Íran/Hizbolla – studd af Rússum og Kína. Eins og 1914 eru helstu heimsveldin innblönduð í Sýrlandsstríðið og svæðisbundnu stórveldin líka. Ísrael og Sádar þurfa að lúskra á Íran og Tyrkir á Kúrdum. Í stærra samhengi snýst stríðið um að viðhalda yfirráðum Vesturlanda og að hindra áhrif rísandi keppinauta. Vegna spennustigsins á heimsmælikvarða boðar Sýrlandseldurinn þá miklu ógn að geta mjög auðveldlega breiðst út.