Sunday, November 22, 2020

Joe Biden opinskár um Sýrlandsstríðið

(Birtist á Neistum 14. nóv 2020)Nýr forseti sýnist hafa tryggt sér völd í Bandaríkjunum. Joe Biden var varaforseti BNA í stjórnartíð Baracks Obama. Af þessu tilefni er vert að rifja upp eitt atvik í afskiptum hans af utanríkismálum frá 2014. Nánar tiltekið fólust þau í greiningu á stríðinu í Sýrlandi sem ollu fjaðrafoki og móðguðu nokkra helstu bandamenn BNA í Miðausturlöndum.

Joe Biden var ákafur og áhrifamikill stuðningsmaður innrásar í Írak 2003. En Íraksstríðið varð Bandaríkjunum dýrt, blóðugt og óvinsælt, og erfitt yrði í Bandaríkjunum að markaðssetja slíkt stríð á ný. Næstu stríð í Miðausturlöndum hlutu að verða annars konar.

Frá byrjun Sýrlandsstríðsins 2011 hafa Washington og Pentagon, vestræn stjórnvöld og vestrænir fjölmiðlar markaðssett það stríð sem eina mikla „uppreisn gegn harðstjóra“. Sú uppreisn gegn Assad-stjórninni hafi byrjað sem „friðsamleg mótmæli“ en verið lamin niður af slíkri hörku að „borgarastríð“ hlaust af. Þessa sögu hafa RÚV Mogginn og Fréttablaðið sagt okkur 1000 sinnum.

Eftir því sem „uppreisnin“ gegn Assad varð villimannlegri varð hins vegar ekki framhjá því horft að í henni voru „slæm öfl“ sem komu óorði á málstaðinn. Fremst í þeim óþokkaflokki var Íslamska ríkið, og fleiri en eitt útibú af al-Kaída sem nokkru áður, eftir 11. september, voru sögð mesta ógn við mannkynið.

Þá var það að vestræn stjórnvöld tóku að sundurgreina uppreisnaröflin í Sýrlandi í annars vegar „öfgasinnaða“ hryðjuverkamenn og hins vegar „hófsama uppreisnarmenn“ þar sem styðja þyrfti þá síðarnefndu í baráttu við bæði þá fyrrnefndu og gegn Sýrlandsstjórn.

Það var um þessa vandasömu greiningu milli vondra og góðra afla í sýrlensku uppreisninni sem Joe Biden eitt sinn talaði furðulega glannalega. Hann lagði jafnframt fram greiningu á stríðinu sem var hreint ekki í samræmi við hina opinberu stefnu stjórnvalda. Greininguna þurfti hann þess vegna að draga til baka. Hún var hins vegar miklu nær sannleikanum en opinbera stefnan frá Washington.

Eftirfarandi texti er eftir sænska blaðamanninn Patrik Paulov og er kafli úr bókinni Syriens tystade röster sem kom út árið 2019. Sjá hér


Patrik Paulov (kafli úr bókinni Syriens tystade röster):

Vopnin fljóta inn í Sýrland

Cambridge, Boston 2. október 2014. Salurinn er þéttsetinn. Harvard Kennedy School við hinn virta Harvard University hefur boðið Joe Biden varaforseta að koma og tala um utanríkismál.

Stríðið í Sýrlandi hefur staðið í þrjú og hálft ár. Tölur um mannfall og fjölda flóttamanna hafa stöðugt hækkað og hryðjuverkaherinn Íslamska ríkið hefur á stuttum tíma hernumið stór svæði í Írak og Sýrlandi. Með Íslamska ríkið sem átyllu hafa BNA byrjað að varpa sprengjum yfir Írak og Sýrland.

Biden virkar afslappaður og í góðu skapi. Hann tekur hljóðnemann og grínast við kynninn áður en hann hefur mál sitt. Hann talar um Rússland og Pútín, um fund sinn með Xi Jinping og um það að BNA hafi ekki látið brjóta sig niður með hryðjuverkunum 11. september og sé enn fremsta hagkerfi heimsins. Hann endar með orðunum: „Guð blessi ykkur öll og megi guð vernda hermenn okkar. Takk fyrir.“

Þá tekur við lófaklapp og kominn er tími fyrir fyrstu spurningu. Stúdent spyr um þátttökuna í Sýrlandsstríðinu og af hverju rétt sé að taka þátt í því núna en ekki fyrr. Biden tekur við hljóðnemanum og kemur með svar sem brátt verður vel þekkt víða um lönd.

Varaforsetinn byrjar á að segja að í Bandaríkjunum haldi menn að í hverju því landi sem standi frammi fyrir umbyltingu sé að finna hófsama miðju í stjórnmálunum. „En möguleikinn á að finna hófsama miðju í Sýrlandi var aldrei fyrir hendi“ slær Biden föstu. Þessu fylgir síðan nokkuð sem á eftir að vekja viðbrögð:

  • „Mesta vandamál okkar í Sýrlandi fólst í bandamönnum okkar á svæðinu. Tyrkir voru góðir vinir okkar og ég er í góðu sambandi við Erdógan sem ég hef nýlega hitt, og ég er í góðu sambandi við Sáda og Sameinuðu furstadæmin o.s.frv. Hvað voru þeir að gera? Þeir voru svo ákveðnir að steypa Assad og koma af stað styrjöld súnnía við sjía gegnum staðgengla að þeir jusu inn hundruðum milljóna dollara og tugþúsundum tonna af vopnum í hverja þá sem börðust gegn Assad – nema hvað þeir sem tóku við sendingunum voru al-Nusra og al-Kaída og öfgasinnaðir jíhadistar sem koma frá öðrum svæðum heimsins. Þið haldið að ég sé að ýkja, en gáið að hvert þessar sendingar fóru.“

Ræða Bidens var fest á filmu og má finna á Youtube-vef Harvard háskólans [vandfundnari á netinu nú en áður, þýð.]. Óvænt útspil hans fékk fljótt mikla dreifingu og þeir sem þar var vísað til urðu felmtri slegnir. Erdógan krafðist opinberrar afsökunarbeiðni. Tveimur dögum eftir upptroðsluna gaf talsmaður Bidens út eftirfarandi yfirlýsingu:

  • „Varaforsetinn biðst afsökunar á öllum fullyrðingum um að Tyrkland eða aðrir bandamenn og samstarfsaðilar á svæðinu hafi vísvitandi stuðlað að eða stutt framgang Íslamska ríkisins eða annarra ofbeldis- og öfgaafla í Sýrlandi.“

Þrátt fyrir afsakanirnar gefa orð Bidens hlutaskýringu á því af hverju stríðið í Sýrlandi hefur orðið svo grimmilegt og dregist svo á langinn. Varaforsetinn staðfesti það sem yfirmaður eftirlitsmanna SÞ, Robert Mood, benti á í júní 2012 um að „það koma sendingar bæði af peningum og vopnum“ og við höfum séð „erlenda aðila stuðla að ofbeldisvítahring á allt annað en uppbyggilegan hátt“. Það sem Biden sleppir að fjalla um er eigin þáttur í að kynda undir „ofbeldisvítahringnum“ [...]

Að Bandaríkin væru beint innblönduð í að kynda undir stríðinu í Sýrlandi var afhjúpað af New York Times 21 júní 2012:

  • „Dálítill hópur CIA-foringja eru leynilega starfandi í suðurhluta Tyrklands. CIA-foringjarnir hjálpa bandamönnum Bandríkjanna að ákveða hvaða uppreisnarhópar hinum megin landamæranna skuli fá vopn til að berjast við Sýrlandsstjórn að sögn bandarískra talsmanna og arabískra upplýsingafulltrúa.
  • Vopn, m.a. sjálfvirkar byssur, sprengjukastarar, skotfæri og vopn gegn brynvörðum ökutækjum eru flutt yfir tyrknesku landamærin eftir leynilegu neti milliaðila þ.á.m. Múslimska bræðralagsins. Vopnin eru kostuð af Tyrklandi, Sádi-Arabíu og Katar.“

Meira um framgöngu Obama/Bidens í Miðausutrlöndum – og einnig fyrirrennaranna Bush/Cheney og eftirmannanna Trump og Pence – má lesa í bókinni Syriens tystade röster.

Hernaðaráætlanir gegn Rússlandi og ósk um aðstöðu á Austfjörðum

(Birtist á Neistum 1. nóvember 2020

Mikilvægasta hernaðarlega hugveita í Bandaríkjunum er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Stofnunin lagði fram mikla hernaðaráætlun gegn Rússlandi á síðasta ári. Hún ber titilinn, Rússland teygt. Barist á hagstæðum grunni. (Extending Russia: Competing from Advantageous Ground) Það er ítarleg áætlun upp á rúmlega 300 bls. Hana má sjá hér.

Birting á þessu staðfestir að margt af því ráðabruggi bandarískrar utanríkiselítu sem maður hefur haft í getgátum liggur nú opinskátt fyrir.

„Að teygja Rússland“, hvað þýðir það? Í inngangi ritsins er það útskýrt sem „friðsamlegar aðgerðir [svo] sem reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda heima eða utan lands... og ber að skoða sem aðgerðir sem myndu láta Rússland keppa við Bandaríkin á sviðum og svæðum þar sem Bandaríkin hafa samkeppnisforskot og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.“

Fjórði kafli ritsins heitir „Landpólitískar aðgerðir“ (Geopolitical Measures). Yfirskriftirnar tala sínu máli: Aðgerð 1: Útvega vopnaaðstoð til Úkraínu. Aðgerð 2: Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn. Aðgerð 3: Stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi. Aðgerð 4: Nýta spennuna í Kákasuslöndum. Aðgerð 5: Draga úr áhrifum Rússlands í Mið-Asíu. Aðgerð 6: Standa gegn áhrifum Rússlands í Móldóvu.

Áherslurnar eru skýrar og síðan hernaðaráætlunin var lögð fram 2019 hefur orðið „uppreisn“ í Hvítarússlandi og spennan í Kákasus heldur betur hlaðist upp með stríði Asera og Armena. Bandarískir strategistar tala löngum um að gera Sýrland að „Víetnam Rússlands“. Og allar þessar aðgerðir miða að því að „teygja Rússland“ á áhrifasvæði sínu, grafa undan áhrifum þess og veikja það með hjálp álagsþreytu.

Þriðji kafli hernaðaráætlunarinnar heitir „Efnahagslegar aðgerðir“. Þær eru samkvæmt yfirskriftum: Aðgerð eitt: Hindra olíuúflutning. Aðgerð 2: Draga úr útflutningi á jarðgasi og hindra útbyggingu á gasleiðslum.

Sá hluti af hernaðaráætlun RAND er nú einnig á framkvæmdastigi. Olía og gas eru helsti útflutningur Rússa. Þýskaland er í brýnni þörf fyrir jarðgasið frá Rússlandi og Nord Stream leiðslan (sjá hér) um Eystrasalt er nærri tilbúin. Bandaríkin hafa frá byrjun lagt gríðarlega áherslu á að stöðva hana, m.a.s. hótað Þýskalandi efnahagslegum refsiaðgerðum. Aukin efnahagssamvinna Rússlands og Þýskalands er mikill þyrnir í augum Bandaríkjanna.


Vá fyrir dyrum Rússa

Í því að reka fleiga á milli Rússlands og Þýskalands gegna Eystrasaltslönd, Hvítarússland og Úkraína lykilhlutverki, landfræðinnar vegna. Litabylting tókst í Úkraínu 2014 og bandaríska utanríkiselítan hefur haft „valdaskipti“ í Hvítarússlandi á stefnuskránni síðan, samanber þessa áætlun RAND.

Í Washington og hjá NATO eru miklar vonir bundnar við uppþotin í Hvítarússlandi eftir kosningarnar umdeildu í ágúst. Þremur vikum eftir kosningarnar, og meðan uppþotin vegna þeirra voru mest í Minsk, héldu Bandarískar hersveitir æfingar í Litáen við Hvítrússnesku landamærin. Sjá nánar.

Horfurnar fyrir Nord Stream versnuðu verulega við dularfullt drápstilræði við rússneska stjórnarandstæðinginn Navalny. Þá tóku bandamenn BNA í Evrópu vel við sér. Í framhaldinu hefur Evrópuþingið a) viðurkennt stjórnarandstöðuna í Hvítarússlandi sem réttmætt stjórnvald landsins og b) krafist þess að lagning Nord Stream sé stöðvuð. Líkur styrkjast nú á því að þetta tvennt, uppþot í Hvítarússlandi og Navalny-málið séu verkfæri sem duga muni til að stöðva framkvæmd Nord Stream. Sjá nánar.

Svo nú tikkar í flest box og hjá RAND-corporation. Eftir litabyltinguna 2014 hefur Úkraína tekið fullan þátt í heræfingum NATO í Austu-Evrópu. Og Rússum mun þykja vá fyrir sínum dyrum ef NATO-sinnuð öfl ná völdum í Hvítarússlandi og „herskáasta þjóð í sögu mannkynsins“ (orð Jimmy Carters) með NATO-bandamönnum sínum getur þá stundað heræfingar sínar meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands.


Hvernig getur Ísland hjálpað til?

Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Mbl.is greindi frá heimsókn yfirforingja í Bandaríkjaher til Reykjavíkur sl. föstudag.

Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu segir bandaríska herinn vera að íhuga aukna fjárfestingu hér á landi sem myndi fjölga þjónustu svæðum fyrir flotann við Íslands strendur. Herinn sé að kanna hvort „eitt hvað verðmæti sé í litlu, varanlegu fótspori frá Bandaríkjunum“ á Íslandi.

Á Íslandi eru nokkrar þjónustu stöðvar fyrir NATO. Við erum að kanna hvað þyrfti til að stækka við þær stöðvar, fjárfesta í þeim,“ sagði Burke á fundi sem haldinn var í sendiráðinu í dag. „Mig langar mikið í þá valkosti sem við höfðum fyrir 25 til 30 árum síðan, með tilliti staða sem hægt er að lenda á og athafna sig.

Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðir en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega. Auk þess myndi slík aðstaða geta stutt undir öflugri leit og björgun á hafsvæðum umhverfis Ísland.

Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke. „Ég veit ekki hve móttækileg ríkisstjórnin ykkar er í þessu máli, svo við verðum að eiga það samtal.““ Sjá grein Mbl hér.

Svo mörg voru þau orð. Á síðustu árum hefur viðvera Bandarísks herliðs á Keflavíkurvelli breyst úr stopulli viðveru í fasta viðveru með vaxandi en „hreyfanlegan herafla“, og aukningin hefur verið hröðust í stjórnartíð Katrínar og Bjarna. Fréttin af heimsókn Burkes bendir til að fleiri tíðinda geti verið að vænta.

Þrjú innlegg gegn lokunarstefnu

(Birtist á Neistum  29.október 2020)


                                                           Auð stræti á tíma kórónuveiru

(Eftirfarandi grein tjáir aðeins sjónarmið höfundar)

Alveg frá byrjun covid-19 faraldursins austur í Kína hefur ráðandi fjölmiðlaumræða talað um þetta fyrirbæri eins og plágu á borð við Spænsku veikina eða slíkar drepsóttir. Og á orðræðunni um „þriðju bylgjuna“ má enn skilja að covid sé helsta ógn og dánarorsök nú um stundir.

Viðbrögð stjórnvalda við þessu, samræmd í flestum aðildarríkjum SÞ, allt frá byrjun mars sl. hafa verið samfélagslegar lokanir þar sem samfélögum, atvinnulífi, samgöngum og félagslegum samskiptum hefur verið lokað og læst að meira eða meinna leyti. Það er það sem hér er nefnt „lokunarstefna“.

Covid er ekki helsta ógnin. Ár hvert deyja milli 50 og 60 milljónir jarðarbúa. Hjartasjúkdómar drepa um 17 milljónir og krabbamein 9,6 milljónir á hverju ári. En hingað til árið 2020 eru 1.1 milljón dauðsföll í heiminum skráð sem „covidtengd“. Rannsóknir sýna að yfir 90% hinna látnu höfðu fyrirfram einn eða fleiri aðra undirliggjandi sjúkdóma sem einnig áttu þátt í viðkomandi dauðsfalli.

Covidhættan nægir samt stjórnvöldum og fjölmiðlunum til að halda almenningi í sífelldum ótta með háum tölum um smit. Fréttir RÚV nú í vikunni: „Metfjöldi smita greinist dag eftir dag í nær hálfri Evrópu. Þessi bylgja faraldursins er sú stærsta til þessa...“ „[Kórónuveirusmit] hafa ekki verið fleiri á einum degi frá því að heimsfaraldurinn braust út“.

Hópsmitið á Landakoti var alvarlegt mál. En langflestir sem látist hafa af covid-19, á Íslandi sem annars staðar, dóu í vor. Samt er samfélagið enn og aftur og áfram sett á hiðina „í sóttvarnarskyni“. Við horfum fram á annan vetur eymdar og volæðis og varanlega samfélagsbreytingu – upp rís eftirlitssamfélag í nafni sóttvarna.

„Umræðuna“ á Íslandi um viðbrögðin gagnvart covid verður að hafa innan gæsalappa. Ákvarðanir eru teknar í samráði þríeykis og ráðherra. Upplýsing og ákvarðanir ganga aðeins í eina átt, ofan frá og niður. Þar á ofan er sú sóttvarnarstefna sem framfylgt er í grófum dráttum samkeyrð á heimsvísu og óljóst hvar sú stefna var mótuð. Eiginleg umræða um hana, og eiginlegt lýðræði, eiga mjög erfitt uppdráttar.

Gagnrýnar spurningar um hina ríkjandi stefnu heyrast samt í vaxandi mæli þrátt fyrir glymjanda mötunarvélarinnar. Eðlilega koma margar þeirra úr heilbrigðisgeiranum. Erlend dæmi: Fjölþjóðlegur hópur nokkur hundruð lækna og vísindamanna á heilbrigðissviði stofnaði World Doctors Alliance á stofnfundi í Berlín nú 10. október. Meðlimir hópsins deila reynslu sinni og ganga gegn lokunarstefnunni með öllum hennar gríðarlegu hliðarverkunum. Undirskrifendur eru nú rún 30 þúsund. Læknasamband þetta kynnir sig á eigin netsíðu, sjá hér. Tveimur vikum fyrr var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki þar í landi. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og þess að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi í landinu. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Meiri athygli hefur þó vakið svonefnd Great Barrington-yfirlýsing. Það er yfirlýsing þriggja alþjóðlega viðurkenndra sérfræðinga í smitsjúkdómum sem eru prófessorar þriggja leiðandi háskóla – um stefnumótun vegna COVID-19, samin og undirrituð í Great Barrington í Bandaríkjunum 4. október 2020. Yfirlýsingin hefur fengið undirskrift yfir 10 þúsund lýðheilsusérfræðinga og yfir 30 þúsund lækna vítt um heiminn. En hópurinn hefur þó fengið krúnuna kembda og mátt þola mikla sverti-herferð á Google og ritskooðun á YouTube. Það auðveldaði andstæðingum hans leikinn að hugveitan sem stóð að fundinum i Barrington, American Institute for Economic Research, er þekkt fyrir frjálshyggjupólitík. Það breytir því þó ekki að yfirlýsing þessi er ljóst merki um faglegan ágreining um sóttvarnastefnuna, enda höfundarnir alveg leiðandi vísindamenn á sínu sviði.

Hér á eftir verða tilfærð þrjú innlegg í covidumræðuna í októbermánuði. Það fyrsta er einmitt Great Barrington yfirlýsingin. Hin innleggin tvö koma ekki frá neinum „uppreisnaröflum“ í covidumræðunni heldur birtust þau á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en þau gefa samt bendingu í öfuga átt við það sem haldið er að okkur frá morgni til kvölds. Þó innleggin séu úr ólíkum herbúðum eiga þau þó það sameiginlegt að varpa gagnrýnu ljósi á lokunarstefnuna.


I. Great Barrington-yfirlýsingin

Great Barrigton-yfirlýsingin veldur deilum og er ötuð auri. Það er ekki óvænt þar sem hún gengur gegn núgildandi aðferð í baráttunni við covid, einkum því atriði að lokunarstefna og einangrun viðkvæmra jafnt sem hraustra sé lykillinn að árangri. Sérfræðingarnir á Barringtonfundi ganga m.a. út frá þeim tölfræðilega veruleik að munur á áhættu gagnvart veirunni sé gríðarlegur milli ólíkra samfélagshópa, þúsundfaldur munur milli æskulýðs og þeirra elstu segir þar. Strategía þeirra er því aldursmiðuð. Einnig fjallar yfirlýsingin um óhemjuleg og niðurrífandi samfélagsleg – og heilsufarsleg – áhrif lokunarstefnunnar. Yfirlýsinguna má sjá hér https://gbdeclaration.org/view-signatures/ og stytt útgáfa hennar hljóðar svo í þýðingu:

„Núgildandi lokanir (lockdowns) hafa eyðileggjandi áhrif á lýðheilsu til styttri og lengri tíma litið. Áhrifin eru m.a. fækkandi bólusetningar á börnum, minni árangur af hjartalækningum, færri krabbameinsskoðanir og versnandi geðheilsa – sem leiða til hækkandi dánartíðni á komandi árum - þar sem verkafólk og ungt fólk verður verst úti. Að halda nemendum frá námi er mjög alvarlegt óréttlæti. Verði þessum aðgerðum haldið til streitu uns bóluefni er tiltækt valda þær óafturkræfu tjóni, sem einkum bitnar á lægri lögum samfélagsins.

Sem betur fer eykst þekkingin á vírusnum. Við vitum að hættan á dauða er þúsundfalt meiri hjá öldruðum og sjúkum en hjá ungu fólki. Raunar stafar börnum minni hætta af COVID-19 en af mörgum öðrum sjúkdómun, m.a. inflúensu.

Eftir því sem ónæmi eykst minnkar hættan á sýkingum almennt – og þá líka hjá viðkvæmum hópum. Við vitum að allar þjóðir munu einhvern daginn ná hjarðónæmi – þ.e. þeim punkti að hlutfall nýrra sýkinga verður stöðugt – og að þessa þróun má styðja með (en hún er samt ekki háð) bóluefni. Markmið okkar hlýtur því að vera að dauðsföll verði eins fá og hægt er og félagslegt tjón eins lítið og mögulegt er uns við náum hjarðónæmi.

Mannúðlegasta nálgunin til að ná hjarðónæmi er jafnvægi milli áhættu og árangurs. Þannig ætti að leyfa þeim sem eru í minnstri lífshættu að lifa eðlilegu lífi í því skyni að auka ónæmi gagnvart vírusnum – ónæmi sem er náð með náttúrulegu smiti. Á sama tíma á að verja þá sem eru í mestri áhættu. Þetta köllum við markvissa vernd.

Mikilvægasti þáttur opinberra aðgerða og fyrirmæla gagnvart faraldrinum er að verja þá sem eru viðkvæmir. Sem dæmi má nefna að starfsfólk hjúkrunarheimila þyrfti sem flest að hafa náð ónæmi og framkvæma þarf tíðar skimanir fyrir veirunni hjá öðru starfsfólki og öllum gestum. Starfsmannaveltu og -breytingum þarf að halda í lágmarki...

Þeim sem ekki eru í áhættuhópi ætti án tafar að heimila að snúa aftur til eðlilegs lífsmynsturs. Einfaldar varúðarráðstafanir, s.s. handþvottur og að dvelja heima í veikindum, þyrftu allir að gera til að lækka „hjarðónæmisþröskuldinn“. Skólar og háskólar ættu að kenna með staðnámi. Annarri virkni, s.s. íþróttum ætti að halda áfram. Ungt fólk í lágmarksáhættu ætti að vinna áfram með óbreyttu lagi, frekar en frá heimilum sínum. Veitingahús og aðrir í viðskiptum ættu að halda opnu. Listir, tónlist, líkamsrækt og önnur menningarstarfsemi ætti að halda áfram. Fólk í aukinni áhættu má taka þátt að vild, á meðan samfélagið sem heild verndar viðkvæma með skjóli þeirra sem mynda hjarðónæmi.“

Svo mörg voru þau orð. Höfundar eru Dr. Martin Kulldorff, prófessor við Harward-háskóla, dr. Sunetra Gupta, prófessor við Oxford-háskóla, dr. Jay Bhattacharya, prófessor við Stanford-háskóla. Öll eru þau faraldsfræðingar og ennfremur sérfræðingar í smitsjúkdómum og ónæmi.

Þessi covid-strategía sem nú er kennd við Great Barrington felur í sér viðhorf sem hvað algengust eru meðal þeirra sem hafna gildandi stefnu. Stefna þessi er líka í góðum samhljómi við þá nálgun sem mælt hefur verið með í þessu riti, ekki síst greinum Jóns Karls Stefánssonar, sjá hér og hér. Enn frekar sýnist þessi nálgun vera í góðum samhljómi við almenna skysemi.

Þá staðfestir yfirlýsingin það að valið stendur auðvitað ekki á milli „lokunarstefnu“ og þess að „gera ekki neitt“ í sóttvarnarskyni eins og gjarnan er gefið í skyn. Hún horfir til almennrar lýðheilsu – og samfélagslegs ástands – en einblínir ekki á smitbælingu. „Það er hættulegt að tala um lokanir án þess að viðurkenna hinn gríðarlega kostnað sem hún hefur fyrir aðra viðkvæma hópa samfélagsins“ segir Sunetra Gupta. https://unherd.com/2020/05/oxford-doubles-down-sunetra-gupta-interview/

-- -- -- -- -- --

Látum þetta nægja að sinni frá „uppreisnaröflum“ og tilfærum í staðinn tvo texta koma frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO). Sú stofnun hefur framundir þetta verið boðberi þeirrar stórslysalegu sóttvarnarstefnu sem ríkt hefur – og hrollvekjandi spár þaðan sl. vetur voru hvað mest notaðar til að réttlæta lokunarstefnuna.


II. „Við í WHO mælum ekki með lokunarstefnu sem meginaðferð til að ná stjórn á veirunni“

Í faraldrinum í vor mælti Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) með lokunarstefnu sem aðferð gegn covid-19 (auk hins gríðarlega ofmats á drepsóttarhættunni). En 11. október sl. setti topp-enbættismaður WHO, David Nabarro, fram breytt viðhorf til samfélagslegra lokana í vitali við breska The Spectator. „Lokanir hafa afleiðingar sem aldrei má gera lítið úr og það er að þær gera fátækt fólk fátækara“, sagði hann. Þegar Nabarro var spurður um viðhorf áðurnefndrar Sunetra Gupta í Oxford, hin eyðileggjandi áhrif lokana á samfélagið og einkum þá viðkvæmari hafði þessi leiðandi enbættismaður WHO þetta að segja:

„Mjög mikilvægt atriði frá prófessor Gupta. Ég endurtek: Við í WHO mælum ekki með lokunum sem meginaðferð til að ná stjórn á þessari veiru... Sjáðu hvað gerðist hjá smábændum um allan heim... Sjáðu hvað gerist með fátæktarstigið. Það lítur út fyrir að við fáum tvöföldun fátæktar á næsta ári. Það er ekki ólíklegt að við fáum tvöföldun vannærðra barna. Við áköllum stjórnvöld allra landa: Hættið að beita lokunum sem meginaðferð til að ná stjórninni.“ https://twitter.com/spectator/status/1314573157827858434

Nabarro sýndi vissulega ekki nægan manndóm til að viðurkenna slysaleg mistök stofnunarinnar. Engu að síður sýnist þetta vera merki um að VIÐSNÚNINGUR sé í farvatninu hjá WHO, þar sem fulltrúar stofnunarinnar viðurkenna í raun skaðsemi þeirrar stefnu sem valin var sl. vetur. Ég ímynda mér að WTO sé hér að baktryggja sig þegar hrikalegar efnahags- og félagslegar „hliðarverkanir“ stefnunnar verða smám saman lýðum ljósar. „Hliðarverkaniranar“ eru vel að merkja ekki verkanir sjúkdómsins sjálfs heldur stafa þær af VIÐBRÖGÐUNUM við honum, lokunarstefnunni.

Hér á landi hafa Þríeykið og stjórnvöld gjarnan stutt orð sín og lokunarstefnuna með afstöðu WHO. Hvernig bregðast þau þá við þessum nýju merkjasendingum þaðan?


III. John Ioannidis: miklu lægra dánarhlutfall en metið var í byrjun

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur í Bulletin of the World Health Organization 14. október sl. birt ritrýnda grein eftir viðurkenndan faraldsfræðing, John Ioannidis (prófessor Stanford University), um dánartíðni af völdum covid-19 sem sýnir að dánarhlutfall allra smitaðra af veirunni fyrir fólk undir sjötugu er 0,05%, sem er talsvert lægra en fyrir venjulega inflúensu.

Rannsókn Ioannidis bendir til að dánarhlutfall smitaðra (IFR) af covid sé allbreytilegt frá einu svæði til annars í veröldinni:

„Óleiðrétt mat á dánarhlutfalli smitaðra af covid-19 var breytilegt, frá 0,01% til 0,67% (miðgildið 0,1%) á 19 stöðum með dánartíðni undir alþjóðlegu meðaltali, frá 0,07% til 0,73% (miðgildi 0,2%) á 17 stöðum með dánartíðni yfir meðaltali en samt með minna en 500 covidtengd dauðsföll pr. milljón íbúa, og frá 0,2% til 1,63% (miðgildi 0,71%) á 15 stöðum sem höfðu yfir 500 covid-dauðsföll pr. milljón íbúa. Miðgildi dánarhlutfalls var samkvæmt leiðréttu mati 0,09%, 0,20% og 0,57% fyrir þessa þrjá ólíkt staðsettu hópa.“

En fyrir aldurshópinn undir 70 ára aldri var niðurstaða Ioannidis hins vegar þessi: „Fyrir fólk undir 70 ára aldri var dánarhlutfall smitaðra af covid á 40 stöðum með aðgengilegu talnaefni frá 0,00% til 0,31% (miðgildi 0,05%). Leiðrétt mat var það sama.“ https://www.who.int/bulletin/online_first/BLT.20.265892.pdf

Talan 0,1% sýnist vera viðurkennd tala (meðaltal) fyrir dánarhlutfall árstíðabundinnar inflúensu í seinni tíð. Það þýðir þá að skv. tölum Ioannidis um covid-19 er dánarhlutfall smitaðs fólks undir sjötugu helmingi lægra af þeim sjúkdómi en af venjulegri inflúensu, en ef reiknað er fyrir alla aldurshópa er dánarhlutfallið nokkru hærra fyrir covid-19. Ionnadis skrifar í niðurstöðum sínum: „Hið ályktaða dánarhlutfall smitaðra virðist vera miklu lægra en í því mati sem gert var á fyrri stigum faraldursins.“

Enn aðrar upplýsingar komu frá WHO í október. Það var í tilkynningu frá framkvæmdaráði WHO þann 5. október. Þar er ályktað að um 10% jarðarbúa hafi þegar smitast af covid-19 (skv. okkar „bestu áætlun“) . Miðað við að 1 milljón hafi látist af völdum covid-19 gæfi það um 0,14% dánarhlutfall – sem er ríflega venjulegt hlutfall af völdum inflúensu . https://off-guardian.org/2020/10/08/who-accidentally-confirms-covid-is-no-more-dangerous-than-flu/


Hin raunverulega katastrófa

Í tölum John Ioannidis er aðeins metið hversu mannskæður sjúkdómur covid-19 er en ekkert fjallað um fórnarlömb lokunarstefnunnar þar sem tölur yfir fórnarlömb eru miklu hærri. Þar nægir raunar að minnast á orð Nabarros um tvöföldun fátæktarstigs í heiminum og tvöföldun vannæringar barna, einnig mætti minna á alla þá öldruðu sem nú lifa og deyja í einsemd og eymd, eða minnast á vaxandi alkohólisma, kvíða, þunglyndi og heimilisofbeldi meðal atvinnuleysingja o.s.frv.

Sem sýnir að lokunarstefnan drepur miklu meira en hún bjargar – og breytir farandveiki í djúpa samfélagslega kreppu. Og 1 milljón látnir er vissulega slæmt en það er 1 milljón af 7800 milljónum jarðarbúa og ef fátæktarstig og vannærð börn meðal allra þeirra milljóna tvöfaldast af völdum þessarar stefnu er það hin raunverulega katastrófa.

Covid-19, verkfæri í stéttabaráttu

(Birtist á Neistum 30. sept 2020)

Í fréttum 22. september sagði RÚV: „Í yfir 20 Evrópuríkjum greinast nú fleiri kórónuveirutilfelli daglega en í vor.“ Og þremur dögum síðar sagði RÚV: „Aldrei hafa fleiri tilfelli [af kórónuveiru] greinst á einum degi á heimsvísu enn síðastliðinn sólarhring.“ https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8kua0d/aldrei-fleiri-greinst-med-koronuveirusmit Daginn eftir hófst fréttatími útvarps svona: „Metfjöldi Kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 greindust bæði í Bretlandi og Frakklandi síðasta sólarhring.“ Þetta eru engin öfgadæmi heldur tilviljunarkennd dæmi. RÚV talar nú stöðugt um „fjölda smita“ en sleppir því hins vegar yfirleitt að nefna hvað margir af öllum þessum smituðu séu veikir eða deyi.

Munurinn á „tilfellum“ núna og í vor er sá að núna er skimað fyrir veirunni í mörgum löndum sem lítið var gert í vor (nema á Íslandi). Í vor þýddi „tilfelli“ yfirleitt þeir sem höfðu sjúkdómseinkenni, voru veikir, en nú þýðir það allir þeir sem hafa einhverjar agnir af veiru í öndunarvegi. Þar með margfaldast tala „smitaðra“. Dánarhlutfall smitaðra (IFR) og dánarhlutfall sýktra (CFR) er sitt hvað, en þessu tvennu er líka flækt hvoru um annað. Þetta er því skilningshamlandi fréttaflutningur hjá RÚV með þann eina sjáanlega tilgang að velja óöryggi og skelfingu. Sjá um hugtakarugl: https://drmalcolmkendrick.org/2020/09/04/covid-why-terminology-really-matters/

Þetta hefur líka verið ríkjandi stefna frá upphafi þessa sjúkdóms. Frá byrjun hafa RÚV og helstu fjölmiðlar landsins talað um kórónuveiruna sem heimsfaraldur í sérflokki. Sem einstæðan, afar mannskæðan sjúkdóm og óútreiknanlegan ekki síður. Sem ógni mannkyninu sjálfu! Með því eru fjölmiðlarnir annars vegar málpípur hinnar opinberu heilbrigðisstefnu og stunda hins vegar hreina æsifréttamennsku. Afleiðingin er almennur ótti og óöryggi.


Hin miðstýrða hnattræna „heilbrigðisstefna“

Þegar fyrst var farið að fjalla um Covid-19 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, út ógnvekjandi tölur: að dánartíðni þeirra sem smituðust væri 3,4%, allir væru í hættu, engin lækning til og sjúkrahúsin myndu yfirfyllast. Stofnun með mikið heilsufarslegt agavald, Imperial College í London (undir forustu Neil Ferguson), lýsti því yfir í mars að allt að 40 milljónum myndi líklega deyja úr Covid á heimsvísu án róttækra aðgerða, en með lokunum, rekstrarstöðvunum og slíkum varnaraðgerðum mætti lækka töluna í 20 milljónir. https://www.imperial.ac.uk/mrc-global-infectious-disease-analysis/covid-19/report-12-global-impact-covid-19/ Umfram aðra aðila varð Imperial College sá sem „sló taktinn“ um viðbrögð við Covid, a.m.k. í Evrópu. Lokunarstefnan var svo framkvæmd, vissulega með tilbrigðum, með stuttu millibili um allan heim, í nær öllum 193 aðildarríkjum SÞ.

Þetta sýndi sig að vera heiftarlegt ofmat á sjúkdómnum. Sé miðað við íslenskar rannsóknir þá bendir mat Íslenskrar Erfðagreiningar á annars vegar umfangi smits og hins vegar á dauðsföllum til þess að dánartíðni smitaðra hafi verið 0,34% í vor (og fari lækkandi), sem sagt 1/10 af mati WHO. Og varðandi ofannefnda spá Imperial Collega um heildardauðsföll þá eru opinberar tölur um sk. „covid-tengd“ dauðsföll í heiminum núna í lok september komnar í slétta milljón (til samanburðar hafa á undaförnum áratug dáið árlega 290-650 þúsund í árstíðarbundinni inflúensu, þrátt fyrir bólusetningar). „Ráðgjöf“ WHO og Imperial College hefur sýnt sig að vera mikill hræðsluáróður – tíföldun hættunnar og þaðan af meira – í stað upplýsingagjafar.


Seinni bylgjan: Bretland

Bretland hefur verið áberandi í fjölmiðlunum undanfarið. Um það sagði RÚV 22. september: „Önnur Covid-19 alda er ekki lengur fræðilegur möguleiki í Bretlandi, hún hefur þegar dunið yfir... Nú tvöfaldast smitin á viku. Um allt land eru varnaraðgerðir hertar... Í Englandi mega undir engum kringumstæðum koma fleiri en 6 manns saman í hóp.“ https://www.ruv.is/frett/2020/09/22/covid-19-og-osammala-visindamenn

Hræðsluáróður! Hreinræktaður hræðsluáróður. Vitnað er í bresk heilbrigðisyfirvöld og breska fjölmiðla þar sem segir að fyrir miðjan nóvember megi búast við 50.000 staðfest smituðum á dag í október og þá 200 dauðsföllum á dag mánuði síðar, um miðjan nóvember. Sjá BBC: https://www.bbc.com/news/uk-54234084 Þetta er auðvitað bara spá. En hversu dramatísk er sú spá? Hlutfallið 200/50.000 þýðir undir 0.3% dánarhlutfall af staðfest smituðum. Ef gert er ráð fyrir öðru eins af óstaðfestu smiti í samfélaginu þýðir það að dánarhlutfall smitaðra sé 1,5 prómill.

Vefsíðan Anti-Empire skoðar nokkrar tölur og línurit frá hinni opinberu Office for National Statistics (ONS) úr septembermánuði í Englandi og Wales í næstliðinni viku. M.a. eru borin saman Covid-19 annars vegar og hins vegar inflúensa og henni tengd lungnabólga. Í umræddri viku höfðu dáið 10 sinnum fleiri úr flensu og lungnabólgu en úr Covid. Aðeins 1% af skráðum dauðsföllum í Englandi og Wales þá vikuna voru skráð sem „covid-tengd“ (auk þess: í yfir 90% tilfella sem skráð eru sem Covidtengd dauðsföll hefur viðkomandi undirliggjandi sjúkdóma, oft er erfitt að ákvarða hvort sjúklingur dó „af“ veirunni eða einungis „með“ hana). Íhaldsþingmaðurinn Steve Baker lét svo ummælt: „Tíðni kórónaveiru skv. mælingum ONS er nú einn á móti 20 þúsund. Það er fjórðungs magn af stigi faraldurs.“ https://www.anti-empire.com/flu-and-pneumonia-killed-ten-times-as-many-brits-as-covid-last-week-stats-reveal/

Hin svokallaða „seinni bylgja“ í Bretlandi er sem sagt blekking. Engu að síður eru neyðarráðstafanir þar í landi hertar um nokkur stig í viðbót, að því er virðist til þess eins að viðhalda ótta og óöryggi almennings. Og „neyðarástandið“ í Bretlandi er bergmálað í íslenskum fjölmiðlum – sömuleiðis virðist það til þess eins að auka ótta og óöryggi. Nú beinir RÚV athyglinni fyrst og fremst að að „fjölda smitaðra“, ekki fjölda látinna. Af hverju? Líklega af því smithlutfall hækkar og hækkar en dánarhlutfall lækkar og lækkar. Alvarlegi fasi sjúkdómsins er löngu liðinn hjá. Og málflutningurinn frá Bretlandi er dæmigerður fyrir málflutning RÚV af Covid-19.


SA nota Covid eins og mest þau mega

Svo til Íslands: Undanfarna viku á Íslandi hafa á bilinu 1-5 legið á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og 0-2 verið á gjörgæslu. Engu að síður tala stjórnvöld enn eins og við séum stödd í heilsufarshamförum. Í samræmi við það eru nú í landinu á 5. þúsund manns í sóttkví, þ.á.m. mörg hundruð skólabörn.

Afleiðingar kórónu-ráðstafana eru svo annar handleggur. Vegna þeirra er nú atvinnuleysi á Íslandi 10%, sem er a.m.k. langmesta atvinnuleysi frá því á 4. áratug 20. aldar. Atvinnuleysi fylgja alvarleg félagsleg vandamál: fátækt, tilgagnsleysi, illar heimilisaðstæður barna, kvíði og öryggisleysi, heimilisofbeldi, áfengissneysla, tíðari sjálfsvíg...

Icelandair og SA vísa til veirunnar þegar þeir ráðast á flugstéttirnar og hóta niðurbroti á stéttarfélögum viðsemjenda ef með þarf. Og „vegna veirunnar“ hóta SA uppsögn kjarasamninga og þvingar í gegn ívilnanir sér til handa frá ríkinu. Jafnhliða þessu er í snöggu vetfangi komið hér upp eftirlitssamfélag með persónunjósnum og skertu persónufrelsi.

Ef umgangsveirusýking sem kostar landið aðeins 1-5 sjúkrahúsinnlagnir í einu er nóg til að réttlæta miklar og viðvarandi neyðarráðstafanir hvenær megum við þá búast við að ástandið verði „normalt“?

Það er viðbúið að íslenska ríkisstjórnin, eins og margar aðrar, hafi í vor verið raunverulega hrædd við faraldurinn (á Íslandi var lokunarstefnunni þó aldrei fylgt á jafn öfgafullan hátt og í mörgum nálægum löndum), en hitt ér ég líka viss um að hún eins og aðrir valdhafar hafi tekið fagnandi tækifærinu til að stjórna landinu í krafti ótta og upplifa þegnana undirgefnari en áður. Og ekkert hefur staðið upp á hana (eða íslenska fjölmiðla) í hræðsluáróðrinum.


„Varnarviðbrögð“ og kreppa á heimsvísu

Rekstrarstöðvanir vegna covid-ráðstafana á heimsvísu hafa leitt af sér gríðarlegt atvinnuleysi. Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, áætlar að á 2. ársfjórðungi 2020 hafi tapast 495 milljón heilsdags störf (17,3%) og að á 3. ársfjórðungi tapist 345 milljón störf. https://www.ilo.org/global/topics/coronavirus/impacts-and-responses/WCMS_755910/lang--en/index.htm Þetta eru vel að merkja ekki neinar beinar afleiðingar af sjúkdómum Covid-19 eins og orðræða valdsins gefur í skyn, heldur eru þetta afleiðingar af pólitískum ákvörðunum, einkum um rekstrarstöðvanir og lokun heilu hagkerfanna, stofufangelsi, nálægðarbann og einangrun áhættuhópa jafnt sem annarra o.s.frv. Lokanirnar í Bandaríkjunum einum hafa til dæmis leitt af sér mesta atvinnuleysi sögunnar þar í landi með 40 milljónir atvinnulausar.

Þetta gerist næstum án þess að fólk veiti því viðnám vegna hins yfirlýsta neyðarástands. Fjöldafundir og mótmæli eru bönnuð. Verkalýður heimsins er í klemmdri stöðu og sýnist lamaður, a.m.k. um sinn.

Umræðan um Covid hefur verið afar einhliða og einokuð og vel passað upp á að ekki fari á flot upplýsingar um sjúkdóminn sem ekki samræmast hinni opinberu heilbrigðisstefnu. Covid-reglurnar eru eitt risavaxið hlýðninámskeið og yfirvöld heimsins geta væntanlega metið árangurinn af því námskeiði góðan, a.m.k. í bili.

Aðalritari SÞ sagði strax í apríl að kreppa af völdum lokana vegna veirunnar gæti leitt af sér „barnadauða í hundruðþúsundatali á ári“. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) lét frá sér skýrslu í apríl í vor þar sem fram kemur að vegna kórónukreppu muni líklega 130 milljón manns aukalega ýtast á barm hungurs fyrir árslok 2020. https://www.wfp.org/news/wfp-chief-warns-hunger-pandemic-covid-19-spreads-statement-un-security-council

Lokunarstefnan hefur leitt til þess að meðhöndlun sjúkdóma á borð við berkla, malaríu og HIV hefur stöðvast í fátækum löndum, nokkuð sem leiðir til meira en milljón viðbótardauðsfalla 2020-21. Lokanir skóla hafa skaðað 1,6 milljarð barna og sá skaði mun fylgja þeim. https://apps.who.int/gpmb/assets/annual_report/GPMB_AR_2020_EN.pdf

Öryggisnet brotna saman, fátækt eykst – og eymdin og öll félagslegu vandamálin að sama skapi. Samkvæmt tölfræðivefnum worldometer.info eru 1.8 milljón manns dauðir af ofdrykkju í heiminum þetta árið og 790 þúsund vegna sjálfsvíga. Rifjum upp í því samhengi að í kreppunni í Rússlandi á 10. áratug lækkaði meðalaldur karlmanna um 10 ár á einum áratug vegna félagslegra afleiðinga kreppunnar, ekki síst einmitt ofdrykkju og sjálfsvíga.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að Covid-19 sé meinlaus sjúkdómur, sérstaklega var hann það ekki í vor, sérstaklega ekki fyrir gamla og veiklaða. En ég held því hiklaust fram að þau miðstýrðu „hamfaraviðbrögð“ sem gripið var til gegn honum á heimsvísu hafi verið stórslys fyrir allan almenning og hafi skaðað margfalt fleiri en þau björguðu – og eigi eftir að gera það enn frekar.


Hvaðan kom lokunarstefnan?

Atvinnulíf og heilu samfélögin snögglega sem næst stöðvuð og þeim lokað í „heilsuverndarskyni“. Þetta var fordæmalaus samfélagsleg tilraun. Hvað réði þeirri stefnumörkun og hvaðan úr ósköpunum kom hún?

Ég skrifaði fyrstu grein um Covid 16. apríl í vor. Þar sagð: „Ekki ætla ég að halda því fram að eitthvert fjármálasamsæri úti í heimi hafi fundið veiruna upp. Hitt þykist ég hafa sannreynt ríkjandi auðvaldsöfl nota sérhvert gott tækifæri til að móta heiminn sér í vil. Og margt bendir til þess að valdamikil öfl hafi snemma tekið þá stefnu að notfæra veirufaraldur þennan til að koma á samfélagsbreytingum sem þau telja sér hagstæðar.“ Þetta var skrifað þegar sjúkdómurinn var í hámarki í vor. Sá vafasami tilgangur sem þarna er gefinn í skyn staðfestist enn frekar þegar spennustigi og neyðarráðstöfunum er viðhaldið jafnt þótt sjúkdómurinn sé að fjara út.

Lokunarstefnan mikla kom í beinu framhaldi af yfirlýsingu WHO í mars um Covid-19 sem heimsfaraldur með áðurnefndum ógnartölum um dánarhlutfall. En WHO (eða Sameinuðu þjóðirnar) lagði samt ekki fram neina opinbera stefnu um samfélagslega lokun. Einhver miðlæg og ofursterk öfl hafa komið að þeirri stefnumörkun. Það er t.d. vitað að Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum, WEF ) beitti sér mjög fyrir lokunarstefnu alveg frá byrjun. WEF er samkunda 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims sem hittist árlega í Davos í Sviss, stefnumótandi stjórnstöð, og margfalt áhrifameiri en SÞ um efnahagsmál heimsins. Ekki er hún alveg ótengd SÞ samt, þar sem auðhringasamkundan WEF tók í fyrra SÞ á löpp og gerði við alþjóðasamtökin sögulegan samstarfssamning. Með þessu „Strategic Partnership“ eru fjölþjóðlegu auðhringarnir orðnir fullgildir aðilar að stjórnkerfi SÞ (nú fyrr í mánuðinum bað Matvælastofnun SÞ „billjónera“ heimsins að hjálpa sér að bjarga 30 milljón manns frá hungurdauða).

Í október 2019, rétt áður en faraldur gaus upp í Kína, héldu nokkrir lykilaðilar æfingu í New York í því að fást við faraldur af völdum SARS veirusjúkdóms. Þeir kölluðu það „Event 201“. Aðstandendur voru World Economic Forum, Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health og Bill & Melinda Gates Foundation. Þátttakendur voru m.a. frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Alþjóðabankanum. Æfingin gerði ráð fyrir að „...út brjótist ný kórónuveira úr dýraríkinu sem smitast úr leðurblökum í svín og svo í menn og verður loks smitandi frá manni til manns sem leiðir til hættulegs faraldurs. Sýkillinn og veikin sem hann veldur taka að mestu mið af SARS...“ https://www.centerforhealthsecurity.org/event201/scenario.html

Eftir æfinguna var gefin út ráðgjöf um hvernig mæta skyldi slíkum faraldri og kallað eftir samvinnu ríkisstjórna, alþjóðastofnana og stórfyrirtækja. Mikil áhersla var lögð á stjórnun upplýsingagjafar, nútímalegri ritskoðun: „Þetta krefst þess að þróa getuna til að fylla fjölmiðla með fljótri, nákvæmri og staðfastri upplýsingagjöf... Að sínu leyti þurfa fjölmiðlafyrirtæki að ábyrgjast að tryggja það að opinber skilaboð hafi forgang og að falsfréttum verið haldið frá, jafnvel með hjálp tækninnar.“ https://www.centerforhealthsecurity.org/event201/recommendations.html

WEF var sem sé tilbúð með viðbragðsáætlun þegar veirusýkillinn mánuði síðar stakk sér niður í Kína. WEF er ekki einangruð stofnun heldur fulltrúi voldugusta stórauðvalds á hnettingum. Efnahagsáætlanir WEF eru í takt við áætlanir Alþjóðabankans, AGS, áætlanir Bill & Melinda Gates Foundation, Rockefeller Foundation og annarra aðila úr kjarna vestrænnar fjármálaelítu.


„Endurstillingin mikla“

Þessi greining mín mun verða kennd við samsærishyggju, og samsærislega hljómar þetta. En raunveruleikinn er einmitt sá að heimskapítalismanum (þróun hans) á „öld eins prósentsins“, öllu heldur „öld 0,0001 pósentsins“, er í æ meiri mæli stjórnað frá fáeinum klúbbum og hugveitum auðmanna. Það er vissulega ærið samsærisbrölt í þessu fólgið. Fyrst og fremst er þetta þó stéttabarátta af hálfu áðurnefndrar fjármálaelítu. Af þeirri tegund sem kennd er við hamfarakapítalisma sem Naomi Klein hefur lýst öðrum betur. Söguleg hliðstæða er helst innleiðing markaðshyggjunnar (nýfrjálshyggju) um auðvaldsheiminn fyrir 30-40 árum. Sjá hér: https://neistar.is/greinar/hugleidingar-um-covid-kreppu/

Í maí í vor setti WEF fram nýja efnahagsstrategíu „til að mæta kórónukreppunni“ og kallar hana „The Great Reset“ (endurstillinguna eða uppstokkunina miklu). Í kynningarefni segir m.a. „Nú er tíminn til að ýta á endurstillingartakkann fyrir kapítalismann... Við verðum nýta þetta tækifæri til gagns fyrir mannkynið... Þetta augnablik er fordæmalaust í mannkynssögunni.“ https://www.facebook.com/watch/?v=189569908956561 Þarna er undirstrikað að heimurinn eigi ekki að fara aftur í „normalástand“ heldur skuli þessi kreppa notuð til að skapa „kapítalisma fyrir 21. öld.“ Ekki reyni ég hér að útskýra stefnuna af viti en nefni að hún hefur þrjár megináherslur: 1) réttlátari kapítalisma, hagsmunagæslu(stakeholder)-kapítalisma, 2) sjálfbært hagkerfi og grænni þróun, 3) nýta nýjungar fjórðu iðnbyltingarinnar til að bæta velferð, heilsu og félagsleg gæði. Áætlunin kynnt hér: https://www.weforum.org/great-reset

Tveir fyrri liðir áætlunarinnar ganga augljóslega út á að selja „endurstillinguna“ til almennings. Réttlæti selur og „grænt“ selur alltaf (en WEF eru umfram alla aðra holdgerfingur auðhringavalds, ójöfnuðar og umhverfissulls). Þriðji liðurinn er þegar í fullum gangi, og vegur væntanlega þyngst, þ.e.s. fjórða iðnbyltingin. Kórónuráðstafanirnar gera milljónir atvinnulausar, þær rústa litlum og meðalstórum fyrirtækjum um allan heim. Það opnar öðrum leið og sá rekstur verður yfirtekinn af stærri aðilum. Þar mun fjórða iðnbyltingin koma mikið við sögu, stafræna byltingin, gerfigreindin o.s.frv. Samtímis því sem efnahagslíf Bandaríkjanna hrapar meira en fordæmi eru fyrir raka tæknirisarnir inn metgróða. Microsoft, Alphabet (á Google), Apple, Amazon og Facebook þénuðu 34 milljarða dollara á 2. ársfjórðungi. https://thenextrecession.wordpress.com/2020/08/01/taking-on-the-fearsome-foursome-and-market-power/ “Faraldurinn er hagkvæmniskreppa fyrir elíturnar sem stjórna þessum ráðstöfunum“, sagði Robert F. Kennedy jr. á fjöldafundi í Berlín í ágúst.


Vaxandi mótmæli í Evrópu

Þó að upplýsingaflæðið kringum kórónuveiru sé gríðarlega ofanstýrt og einhliða hefur það ekki hindrað að mótmæli við ríkjandi stefnu aukist. Einkum nú tvo síðustu mánuði eða svo. Í Berlín urðu mikil mótmæli 1. ágúst með á milli 80.000 og 500.000 þátttakendum sem fóru alveg friðsamlega fram. Og 29. ágúst mótmæltu aftur tugþúsundir í Berlín, mótmælt var því 20-alda broti á þýsku stjórnarskránni sem aðgerðir þýskra stjórnvalda fela í sér að mati aðstandenda. Aðalræðumaður var Robert F. Kennedy jr. Ráðandi fjölmiðlar reyndu mjög að stimpla mótmælendur sem hægri-öfgamenn, en þótt slíkir hafi líka mótmælt í borginni var ljóst að langsamlega stærstur hluti voru venjulegir borgarar. Sama dag (29.) var mótmælafundur á Trafalgar Squere í London og mættu tugþúsundir. Aftur mættu tugþúsundir á sama stað 27. september. Yfirskriftin var þá „Nei við kórónuharðstjórn“. Kjörorð voru m.a. „No to social distancing“, „Freedom not fear!», «No to lockdown!», «No to fascism!» og «Say no to cashless society!“ Fjölmenn mótmæli hafa einnig farið fram m.a. í Dublin og Madrid undanfarnar vikur.

Þann 24. september var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi. Læknarnir telja auk þess að mörg viðbrögðin séu ekki vísindalega rökstudd og þjóni ekki heilbrigði. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Þetta er vonandi merki um að hin stranglega ofanstýrða orðræða samhliða „sjokkmeðferðinni“ muni smám saman missa tökin á þegnunum, og þá mun margt gerast. Læt ég svo mál mitt niður falla.

Monday, September 14, 2020

Merkileg bók um atburðina 11. september 2001 í samhengi

 (birtist á Neistum 11. sept 2020, meðhöfundur Jón Karl Stefánsson)


Í dag er árásin á Tvíburaturnana 19 ára. Nýlega kom út (á ensku, af íslensku forlagi) ný bók um atburðina sem áttu sér stað þann 11. september 2001. Þetta er gríðarlega vel unnin og beinskeytt bók sem nær að fanga marga mikilvægustu þættina um þetta málefni. Bókin America´s Betrayal Confirmed. 9/11: Purpose, Cover-up and Impunity, er sterk bók um stórmál. Elías Davíðsson er baráttumaður mannréttinda, hefur einnig mjög fjallað um náttúruverndarmál og lýðræði en öðru fremur hefur hann sem sérsvið málefni hryðjuverka (undir fölsku flaggi sérstaklega).

Elías hefur áður fjallað um málefni tengd 11. september 2001 í bók sinni «Hijacking America´s Mind on 9/11» (Algora Publishers, New York, 2013), þar sem hann sýndi fram á að bandarísk yfirvöld hafa ekki lagt fram neinar sannanir um veru hryðjuverkamanna í flugvélunum. Önnur bók hans, einnig á ensku, var umfangsmikil rannsókn á hryðjuverkunum í Mumbai (Indlandi) árið 2008. Bókin varð tilnefnd bók ársins af hálfu stofnunarinnar London Institute on South Asia árið 2018 og hefur verið þýdd á úrdú (landsmáli Pakistan). Auk þess gaf Elías út tvær bækur á þýsku, aðra um 11. september 2001 og hina um atburðinn á jólamarkaðinum í Berlín 2016, einu bókina sem hefur birst um þennan atburð. Sú bók hefur verið þýdd á tékknesku. Bókin sem hér er fjallað um, hefur verið þýdd á hollensku.

Bókin byggist á sjálfstæðum umræðueiningum. Hver kafli fjallar um afmarkaðan þátt þessara atburða og sýnir, óháð hinum þáttum, að bandarísk yfirvöld hafa með öllum tiltækum ráðum reynt að hylma yfir þá sem hafa skipulagt og framið fjöldamorðin. Hver eining fyrir sig myndar þannig sjálfstætt ásökunarskjal. Samanlagt mynda kaflarnir 16 að því er virðist óhagganlegt ásökunarskjal sem gæti orðið mjög erfitt að hrekja.

Bókin America´s Betrayal Confirmed sýnir fram á að opinbera kenningin um atburðarrásina stenst ekki og getur ekki staðist. Elías telur upp þau fjölmörgu atriði sem sanna að tilgáturnar sem mynda kenninguna standast enga prófun. Hann setur þessi fyrirbæri í samhengi við hegðun og viðbrögð Bandaríkjastjórnar sjálfrar við þessum atburðum. Og auðvitað felur þessi afsönnun opinberu kenningarinnar í sér rök, líkindi eða sannanir fyrir að þessir atburðir hefðu einfaldlega ekki getað gerst hefði fólk úr innsta kjarna bandaríska valdakerfisins ekki tekið þátt í þeim.


Atburðirnir 11. september í ljósi breyttrar heimsmyndar í kjölfar þeirra

Skoðum lítillega fyrsta kaflann, „The Road to 9/11 (the Decade 1990-2001)”. Það er vissulega erfitt að taka inn þann stóra skammt að hryðjuverkin 11. sept hafi verið „innanbúðarverk“ (inside job), að slíkur sögulegur stórviðburður hafi byggt á „skipulegri blekkingu“. En þá er þess að gæta að atburðurinn verður í röklegu samhengi og það er „system í galskaben“. Skoðum nokkur atriði.

„Ellefti september“ var startskot fyrir „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Sjálf hugmyndin um þetta «hnattræna stríð» var og er hugmyndafræði og yfirskrift þess stríðs sem síðan hefur geisað, einkum í Austurlöndum nær. Öll hin afmörkuðu stríð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra eftir 11. september – þau helstu í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi sem hafa kostað á aðra milljón mannslífa og sent tugmilljónir á flótta – byggja á skipulegum og kerfisbundnum blekkingum og eru glæpur gegn mannkyni. Það væri ósamræmi ef hin einstöku stríð byggðu á blekkingum en forsendan og hugmyndafræðin á bak við þau byggði á einhverju öðru, t.d. raunverulegri ógn.

Monday, September 7, 2020

Danskar upplýsingar um netógnir

 

Fréttir RÚV 3. september greindu frá óundirbúnum fyrirspurnum til utanríkisráðherra á Alþingi. Þar kom fram: „Hneykslismál sem umlykur dönsku leyniþjónustuna snertir Íslendinga með beinum hætti sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og vísaði til þess að leyniþjónusta danska hersins veitti bandarísku leyniþjónustunni aðgang að ljósleiðurum. Sæstrengir sem tengja Ísland við umheiminn fara um danskt yfirráðasvæði... „Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi,“ sagði Smári.“

Utanríkisráðherra taldi málið alvarlegt. Hann bætti við: „Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að mér finnst við ekki vera nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði að Íslendingar væru eina ríkið innan Atlantshafsbandalagsins sem ekki tækju þátt í setri um netöryggismál í Tallinn og eina norræna ríkið sem ekki tæki þátt í sambærilegu setri í Helsinki.“ https://www.ruv.is/frett/2020/09/03/segir-danskt-njosnahneyksli-snerta-islendinga-beint?fbclid=IwAR1rSuFo4ZtutvtzBA7KCVPPOWpjFRRz6SlFmH2w_q2_inBsFw1zwPllgPE

Ekki er þetta þó eins og þruma úr heiðskýru lofti. Edward Snowden, starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, hóf árið 2013 að leka út til almennings (m.a. til Wikileaks og Julian Assange) upplýsingum frá NSA um mestu njósnir á okkar tímum, ekki síst netnjósnir. Afhjúpanir Snowdens sýndu að bandarískar leyniþjónustur og öryggisstofnanir ekki bara njósna um allan almenning í eigin landi og brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns heldur stunda þær víðtækar njósnir um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess – og raunar heiminn allan.

Snowden-gögnin bentu ennfremur til að evrópskar leyniþjónustur hefðu starfað með NSA um njósnirnar í Evrópu. Der Spiegel upplýsti m.a. um slíka samvinnu þýskrar leyniþjónustu við þá bandarísku. https://www.theguardian.com/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies Og danska Information upplýsti árið 2014 út frá Snowden-gögnum um víðtækt samstarf dönsku Leyniþjónustu hersins með NSA sem fólst einmitt í því að veita NSA aðgang að dönskum ljósleiðurum. https://www.information.dk/tema/nsas-danske-forbindelse Allt voru þetta hin neyðarlegustu mál sem endurspegluðu vel valda- og virðingarröðina innan NATO og sagði margt um raunverulegt fullveldi Evrópuríkja.

Hneykslið var þó bersýnilega ekki svo mikið að það girti fyrir að umrætt samstarf við stóra bróður vestan hafs héldi áfram. Því allt sýnist vera við það sama enn í dag. https://www.dr.dk/nyheder/indland/samarbejde-med-usa-kan-overskride-reglerne-potentielt-en-af-de-stoerste

Viðbrögð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við spurningum Smára McCarthy um íslenska hliða málsins ná ekki að sefa illan grun. Hann segir að við Íslendingar séum ekki „nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki“, t.d. tækjum við ekki þátt í setri um netöryggismál í Tallin og öðru í Helsinki. Hann gefur m.ö.o. í skyn að við þyrftum að taka þar beinni þátt. Viðkomandi miðstöðvar eru NATO Cooperative Cyber Defence Centre of Excellence í Tallin og European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats í Helsinki (undir væng ESB og NATO).

Gallinn er sá að þessar NATO-tengdu stöðvar um netöryggi vernda okkur hreint ekki gegn netnjósnum Bandaríkjanna. Þær telja það ekki vera ógnir og eru sjálfar hluti af sama batteríi og NSA. Í febrúar sl. var Kveikur Ríkisútvarpsins með þátt um netógnir og falsfréttir. Sjá hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kveikur/29047/8l0e3k. Þar talaði Ingólfur Bjarni við sérfræðinginn Hanna Smith sem er einmitt yfirmaður hjá áðurnefndri stofnun gegn „blönduðum ógnum“ (hyber threats) í Helsinki. Þar kom eftirfarandi fram: „Rússar eru oftast nefndir á nafn í sambandi við tölvuárásir og upplýsingaóreiðu, og ekki að ástæðulausu... Kínverjar eru einnig nefndir í þessu sambandi, og í einhverjum tilfellum Íran.“ Þetta kemur ekkert á óvart. Þessi „setur um netöryggismál“ sem Guðlaugur þór vill að við tökum þátt í eru ekkert annað en framlægar stöðvar í hernaðinum við Rússa og í vaxandi mæli við Kína.

Fréttirnar frá Danmörku sýna rétt einu sinni að mesta ógn við netöryggi kemur frá BNA. Við vitum enn fremur að Bandaríkin láta ekki sitja við njósnirnar einar heldur eru verkin látin tala. Ekki bara eru þau mesti netnjósnari í heimi. Samkvæmt orðum Jimmy Carter í fyrra eru BNA einfaldlega „herskáasta þjóð í sögu heimsins“.

Til að enda greinina ekki á svartsýnum nótum ber að minnast á gleðilega frétt frá því fyrr í vikunni. Bandarískur dómstóll hefur úrskurðað að þær miklu persónunjósnir um bandaríska borgara sem Snowden afhjúpaði í sínum mikla leka hefðu verið ólöglegar. Í kjölfarið hefur fjölgað mjög tilmælum til Trumps forseta um að fá Edward Snowden náðaðan. Sjá hér: https://news.yahoo.com/u-court-mass-surveillance-program-033648290.html

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Seinni grein

 (birt á Neistum.is 13. ágúst 2020)


Fyrri grein um heimsvaldastefnuna fjallaði einkum um efnahagslegan grundvöll hennar en þessi hér um pólitísku og hernaðarlegu hliðina, baráttuna um áhrifasavæði – og heimsyfirráð. Greinin byggir á fyrirlestri hjá Sósíalistaflokknum 4. júlí sl.

Hernaðarlegt og efnahagslegt stríð

Auðmagnið, „frjálsa framtakið“ og markaðsöflin flæða ekki einfaldlega um löndin af sjálfsdáðum. Þau mæta m.a. mismiklu viðnámi frá þjóðríkjum og keppni frá keppinautum. Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman skrifar reglulega pistla í NYT um hnattvæðingu og alþjóðamál, m.a. í pistli frá því um aldamót, svohljóðandi.

„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem bjó til F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ https://fair.org/media-beat-column/thomas-friedman/

Farvegir fjármagnsins (arðránsins) liggja frá jaðrinum og streyma til kjarnans samkvæmt eðli heimsvaldastefnunnar. Hernaðarleg yfirráð tryggja þessa farvegi og tryggja fjármagnsflæðið í rétta átt. Bandarískar herstöðvar í hundraðatali raðast um heiminn út frá þessu munstri.

Þegar kalda stríðinu lauk héldu ýmsir, jafnvel bandaríska þjóðin, að upp myndu renna friðsamlegir tímar og það myndi draga úr hernaðaruppbyggingu. En bandarísk utanríkisstefna og strategía er ekki ákveðin á þjóðþingi heldur af nokkrum hugveitum elítunnar sem þekkja raunveruleika heimsvaldastefnunnar álíka vel og Vladimir Iljits Lenín gerði. Í mars 1992, þegar Sovétríkin voru nýlega fallin og Persaflóastríðinu – fyrsta meiriháttar stríði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum – var nýlokið settu þeir Dick Cheney varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarráðherra hans fram utanríkisstefnu í ljósi nýjustu stórtíðinda – oft nefnd Wolfowitz kenningin – stefnu sem Bandaríkin hafa staðfastlega fylgt síðan undir breytilegum stjórvöldum: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar... að hindra sérhvert fjandsamlegt vald í því að drottna yfir svæði sem býr yfir auðlindum sem myndu, undir styrkri stjórn, nægja til að búa til hnattrænt vald.“ (Sjá NYT https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html ).

Seríustríðið í Austurlöndum nær sem í bandarískum hernaðarkreðsum er oft nefnt „stríðið langa“ hófst með Persaflóastríðinu u.þ.b. þegar Wolfowitz og Cheney skrifuðu ofanritað. Aðrir miða reyndar upphaf þess við 11. september 2001. „Stríðið langa“ snýst um tilraunir bandarískra heimsvaldasinna til að tryggja full yfirráð sín á efnahagslegu lykilsvæði sem Austurlönd nær eru. Í þeim tilgangi komu bandaríkin upp 125 herstöðvum í Austurlöndum nær á árabilinu 1983-2005. Mesta uppbyggingin var eftir að kalda stríðinu lauk. Til að tryggja full yfirráð þurfti að brjóta niður þvermóðskufull sjálfstæð ríki á svæðinu. „Stríðinu langa“ er stjórnað frá Bandaríkjunum með þátttöku svæðisbundinna bandamanna þeirra og NATO-ríkja. Mikilvægustu vígvellirnir hingað til eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland.

Í ríkjandi orðræðu og fréttaflutningi á Vesturlöndum er „Stríðinu langa“ ýmist lýst sem „stríði gegn hryðjuverkum“, sem „borgarastríði“ eftir trúarbragðalínum eða sem „uppreisn gegn harðstjórn“ sem kalli á „verndarskyldu“ (responisbility to protect) svokallaðs „alþjóðasamfélags“ (sama sem Vestrið). Alvarlegast er að á 21. öldinni hefur heimsvaldasinnum og fjölmiðlum þeirra gengið furðuvel að selja stríð sín í þessum fallegu umbúðum. Andstaðan við stríðsreksturinn frá friðarhreyfingum Vesturlanda og hefðbundnum stríðsandstæðingum til vinstri hefur verið sáralítill. Og víst er að ef slík andstaða kemur fram byggir hún ekki á greiningu á heimsvaldastefnunni heldur á þeirri friðarhyggju að maður skuli ekki drepa mann.

Heimsvaldasinnum hefur almennt gengið illa í „stríðinu langa“ – en stjórnvöld í Washington sýna mikla staðfestu í því að koma óvinum sínum á kné. Bandaríska þingið hefur nýlega lögfest grimmúðlegar refsiaðgerðir gegn bæði Íran og Sýrlandi, lög sem setja útskúfun og sektir á öll fyrirtæki og öll lönd sem eiga viðskipti eða diplómatísk samskipti við þessi útlagaríki. Samskipti við þau þýða stríð við BNA. Viðskiptabannið beinist gegn almenningi þessara landa í von um pólitíska kreppu sem leiði til „valdaskipta“.

Efnahagslegt stríð er stríð með öðrum aðferðum. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir gegn Íran og Sýrlandi eru orðin hluti efnahagsstríði Bandaríkjanna við Kína og bandamann þeirra Rússland. Í tilfelli Kína er samt orsakasamahengið sagt vera öfugt: Ein helstu rökin fyrir refsiaðgerðum gegn Kína er sú ásökun Trump-stjórnarinnar að kínverski tæknirisinn Huawei hefði brotið bandaríska refsilögggjöf gegn Írönum (brotið bandaríska refsilöggjöf!) með því að selja þeim síma. https://neistar.is/greinar/stridid-gegn-syrlandi-efnahagsvopnunum-beitt/


Enduruppskipting eftir fall Sovétríkjanna

Þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna 1915 gerði hann það m.a. til að skýra hreyfiöflin á bak við heimsstyrjöldina sem þá geysaði. Helstu drifkraftana bak við stríðið sá hann annars vegar í KAPÍTALÍSKRI GRÓÐASÓKN og úþensluhneigð sem af henni leiðir og hins vegar í ÓJAFNRI ÞRÓUN FRAMLEIÐSLUAFLANNA sem breytti styrkleikahlutföllum hagkerfa og skóp misræmi milli þeirra og þar með grundvöll stórstyrjalda. Heimsveldin ýmist sækja fram eða hopa á heimsmarkaði og m.t.t. áhrifasvæða – eftir styrkleika sínum. Þetta misræmi sprengir valdarammann sem fyrir er, knýr á um „enduruppskiptingu“. Lenín skrifaði: "Spuningin er: Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendnanna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar.“ ( Heimsvaldastefnan, bls. 130)