Monday, January 21, 2019

Rauðir minningardagar í Berlín

       (birtist á Neistum 16. jan 2019)
        Fulltrúar Alþýðufylkingarinnar í minningargöngu Rósu Luxemburg og Karls Liebknecht í Berlín.
Um miðjan janúar árlega safnast kommúnistar og sósíalistar margra landa saman í Berlín og ganga þar fjöldagöngu til minningar um uppreisn alþýðu, „ófullgerðu byltinguna“, sem brast á í nóvember 1918 en var kæfð með miklu ofbeldi í janúar 1919. Þann 15. janúar það ár voru helstu leiðtogar byltingarinnar, Karl Liebknecht og Rósa Luxemburg, myrt og þúsundir verkamanna í framhaldinu. Þar sem nú er öld liðin frá atburðunum var meira haft við en venjulega í Berlín.

Vésteinn Valgarðsson var þar

Á aldarafmælinu, 15. janúar, birti Vésteinn svohljóðandi fésbókarfærslu:
Í dag er slétt öld frá því hvítliðar/fasistar myrtu Rósu Luxemburg og Karl Liebknecht, aðalleiðtoga þýskra kommúnista, og brutu þar með á bak aftur þýsku nóvemberbyltinguna, ófullgerðu byltinguna. Þessi morð voru framin með vitund og velþóknun Eberts og annarra krata í ríkisstjórn.
Í fyrradag gengu mörgþúsund manns í árlegri minningargöngu um Rósu og Karl, þar á meðal við nokkur frá Íslandi. Þessi árlega ganga er stærsta reglulega samkoma kommúnista í Evrópu, ef ekki heiminum. Gengið er frá Frankfurter Tor, um 4 km leið að minnisvarða sósíalista, þar sem margir frægustu píslarvottar og leiðtogar þýskra sósíalista eru grafnir.
Á laugardaginn var stór ráðstefna sem við fórum líka á. Og á fimmtudag og föstudag fórum við á söguslóðir, Landwehrkanal þar sem Rósu Luxemburg var kastað út í eftir að hafa verið skotin. Ekki er vitað hvort hún var með lífsmarki þá, en það var hún að minnsta kosti ekki þegar hún var slædd upp úr síkinu nokkrum dögum seinna.
Við skoðuðum líka Treptower Park, til minningar um Rauða herinn sem frelsaði Berlín undan nasistunum. Og styttuna af Marx og Engels.
Þetta var góð ferð.“


Monday, January 7, 2019

2018 var gleðilegt ár í Sýrlandi

(birtist í Neistar.is 7. jan 2019)
                                          Damaskus aftur örugg borg. Gleðilegt jólahald

„Stríðið langa“ í Stór-Miðausturlöndum hófst 2001. Helstu vígvellir: Afganistan, Írak, Líbía og Sýrland. Barist er um yfirráðin í heimshlutanum og er það hluti af tafli um heimsyfirráð. Nýjasta stóra lota stríðsins er háð í Sýrlandi og hún er langt komin. Miklar og gleðilegar breytingar urðu í Sýrlandsstríðinu á árinu og stórtíðindi nú síðast í desember:
1) Donald Trump boðaði 19. desember heimkvaðningu bandarískra herja frá Sýrlandi. Átök eru þó veruleg um málið í Pentagon, varnarmálaráðherra Mattis hefur sagt af sér og Trump hefur nú hægt á heimkvaðningunni miðað við fyrstu yfirlýsingar.
2) Tyrkir og Rússar funduðu á hæsta pólitíska plani 29. desember um samstilltar aðgerðir í Sýrlandi gagnvart bandarísku heimkvaðningunni. Þar skal „fullveldi Sýrlands“ haft að leiðarljósi. http://www.hurriyetdailynews.com
3) Sama dag barst sú fregn að kúrdnesku herirnir SDF/YPG (og flokkurinn PYD) sem haldið hafa hinum hernaðarlega mikilvæga bæ Manbij í norðri hefðu beðið Sýrlandsher um að koma og yfirtaka stjórn bæjarins. http://www.kurdistan24.net Aðskilnaðar-Kúrdar óttast tyrkneska innrás miklu meira en þeir óttast Assadstjórnina. Þetta boðar mjög trúlega að Kúrdarnir muni opna fyrir sömu lausn mála í Norðaustur-Sýrlandi.
4) Sameinuðu furstadæmin og Bahrain opna nú sendiráð sín aftur í Damaskus. Ennfremur er Sýrlandi víst boðið aftur í Arababandalagið sem landinu var vísað úr 2011. Írak til dæmis hefur lýst yfir stuðningi við það og Saudi Arabía hefur sagt að það muni ekki snúast gegn því. https://www.almasdarnews.com

Trump breytir stefnunni

Umskiptin hjá bandarísku herstjórninni eru mikil og söguleg, gangi þau fram sem horfir. Sömuleiðis hjá Tyrkjum og Sádum sem til þessa hafa notfært sér stríð Vestursins gegn Sýrlandi til að þjóna eigin stórveldisdraumum (fyrir Sáda er stríðið gegn Sýrlandi liður í veikingu Írans).

Hvað er í gangi? „Jólagjöf til Pútíns“? Hrossakaup við Rússa? Uppgjöf fyrir harðstjóranum Assad? Svik Trumps við bandamenn sína í NATO? Svik við lýðræði og mannréttindi? Svik við Kúrda? Skýringar stuðningsmanna stríðsins gegn Sýrlandi eru margar og margvíslegar. Fram stíga riddarar „vestrænna mannréttinda“ sem berja sér á brjóst og tala um svik við einhvern dularfullan málstað í Sýrlandi. En málið er einfaldara. Nærtækasta skýringin er að stefnubreyting Trumps sé „sigur raunsæis“ í Washington, m.ö.o. að um síðir sé horfst sé í augu við staðreyndirnar á vígvellinum: Hernaðarlega er stríðið töpuð skák.

Sunday, December 23, 2018

Viðsnúningur í Sýrlandi

(birtist á Stríðið í Mið-Austurlöndum 23. des 2018)
                                          Donald Trump og James Mattis fráfarandi varnarmálaráðherra


Donald Trump og bandarísk yfirherstjórn sem nú hernema norðausturhéruð Sýrlands hafa sent tilkynningar um heimkvaðningu heraflans. Innri átök eru vestur þar og „mad dog Mattis“ segir af sér. Aldrei mun Donald Trump teljast til bandamanna andheimsvaldasinna, hann fer fyrir herskáasta ríki heims. En í kosningabaráttunni 2016 kallaði Trump einmitt á heimkvaðningu frá Sýrlandi. Þá benti ég á að Trump gerði út á "..utanríkisstefnu "raunsæis" sem viðurkennir að hernaðarleg heimsyfirráðastefna USA er að lenda í strandi ellegar heimsstyrjöld - og að treysta þurfi á aðrar leiðir til að bjarga heimsveldinu." Trump hefur oft síðan snúið kápunni eftir ríkjandi vindi hnattvæðingarelítunnar (sem er líka stríðsfylkingin). En þessi síðasta stefnubreyting hans (ef hún endist) er merki um að hluti bandarísku elítunnar horfist af raunsæi í augu við það að staða BNA í heiminum er breytt og óbreytt utanríkisstefna leiði óhjákvæmilega út í katastrófur og botnlausa mýrina. En RÚV leggur hins vegar megináherslu á að viðsnúningur Trumps í Sýrlandi væri svik við oss bandamenn BNA!

Aðalástæða umræddrar stefnubreytingar er að Bandaríkin ásamt NATO-veldunum og Persaflóafurstunum eru að tapa stríðinu gegn Sýrlandi. En Íslenskir fjölmiðlar eru heilt yfir gagnrýnir á þessa stefnubreytingu. Leggja m.a. áherslu á að með henni séu Kúrdar yfirgefnir. Sem er út af fyrir sig rétt.

Þetta stríð hefur aðallega verið háð gegnum staðgönguheri. Annars vegar með hjálp hinnar broguðu fylkingar íslamista sem hefur nú nokkurn veginn einangrast í Idlib-héraði. Hins vegar er það herinn SDF (með Varnarsveitir Kúrda YGP sem uppistöðu )sem hefur í þessu stríði fyrst og fremst verið fótgönguher austan Efrats fyrir Bandaríkin og  „Bandalagið gegn ISIS“. Óvænt ákvörðun Trumps um að kalla heim herina setur Kúrda vissulega í erfiða stöðu. Þá stöðu hafa Kúrdar því miður skapað sér sjálfir með því að gerast bandamenn Bandaríkjanna í streði þeirra að sundurlima Sýrland. Kúrdar sannreyna enn og aftur að heimsvaldastefnan er svikulastur vina. Ef Kúrdar hefðu viljað semja við Sýrlandsstjórn fyrir ári eða tveimur um aukna sjálfsstjórn hefðu þeir verið allgóðri samningsstöðu – en hún er miklu lakari nú.  


Tuesday, November 27, 2018

Jón Baldvin um Evrópusambandið undir þýskri forustu

(birt á fésbókarsíðu höfundar 27. nóvember

Einræða Jóns Baldvins Hannibalssonar um ESB, evruna, 3. orkupakkann í Silfrinu á sunnudag (25. nóvember) sætir tíðindum. Í viðtalinu ber Jón Baldvin saman fjármálakreppuna á Íslandi og í evruríkjunum eftir hrun: ESB undir þýskri forustu neyddi skattgreiðendur til að „bjarga bönkunum“ og hafnaði algjörlega að skuldunautar fengju skuldir afskrifaðar af því þýskir og franskir bankar heimtuðu svo. Jón Baldvin orðrétt: „Forusta ESB tók algjörlega svari fjármagnseigenda, 1%-elítunnar, og vanrækti algjörlega að taka svari þeirra sem raunverulega báru byrðarnar...Evruþjóðir hafa ekki gengisaðlögunartækið [eigin gjaldmiðil] og Maastricht-sáttmálinn bannar að reka ríkissjóð með halla, eins og Keynes hefði ráðlagt, nema X% [3%]. Svo það eru allra handa skerðingar á ríkisfjármálatækjunum líka. Niðurstaðan: Þjóðirnar fyrir utan Þýskaland sitja uppi með evru sem þjónar algjörlega þýskum útflutningshagsmunum... ESB er klofið milli hinna ríku – lánadrottnanna – og hinna veikari – skuldunautanna... Pólitíkin í ESB er eins og hún er í fyrsta lagi út af forustuleysi og í öðru lagi vegna þess að fjármagnseigendur ráða þarna lögum og lofum.“ Sjá viðtalið.Viðhorf Jóns Baldvins til ESB, ekki síst eftir þróun þess í myntbandalag, eru í mörgu breytt. Maður með hans fortíð er ríkur að reynslu á þessu sviði og því full ástæða til að gefa þessum breyttu tónum hans gaum.