Í mótmælaólgunni miklu í Bandaríkjunum eftir
dráp lögreglunnar á George Floyd í Minneapolis felst augljóslega
gríðarmikil grasrótaruppreisn gegn ríkjandi kerfi. Sterk öfl reyna þó
mjög að koma því til leiðar að broddur mótmælanna sneiði framhjá
valdakerfi bandaríska auðvaldsins. Hér verða settar fram nokkrar
ályktanir um mótmælahreyfinguna.
Rasismi – ofbeldi – misskipting

- Í Bandaríkjunum eru svartir hlutfallsega miklu oftar drepnir en hvítir.
- Svartir íbúar í Bandaríkjunum eru að jafnaði miklu fátækari en hvítir og hafa verið það allt frá dögum þrælasölu og þrælahalds.
- Í bandarískum fangelsum eru 33% vistmanna svartir, sem er nærri þrefalt hlutfall þeirra af þjóðinni (12%).
- Ofbeldisglæpir í Bandaríkjunum eru mjög bundnir fátækrahverfum borganna. Þar búa hlutfallslega margir svartir.
- Blökkumenn sem drepnir eru í BNA eru langoftast drepnir af öðrum blökkumönnum.
- Þeir sem drepnir eru í Bandaríkjunum – af lögreglu og öðrum – eru fátækir.
Af fréttum frá BNA má skilja að grundvallarvandamál samfélagsins vestan hafs sé rasisminn og hann er skoðaður sem sjálfstætt og einangrað þjóðfélagsböl. Í því formi er kynþáttavandamálið raunar notað í stjórnmálabaráttunni í BNA.