Showing posts with label Noregur. Show all posts
Showing posts with label Noregur. Show all posts

Tuesday, June 8, 2021

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum

 (birtist á Neistum 23. maí 2021)

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum gekk vel. Allir flokkar á Alþingi Íslendinga stóðu prúðan heiðursvörð þegar hann gekk könnunarganginn. Hann var ekki spurður um nýja norðurslóðastefnu Bandaríkjahers. Sergei Lavrov var hins vegar sagður efna til átaka á Norðurslóðum, vegna einhvers sem hann sagði aldrei.

Kurteislegt tal í Hörpu

Eftir fund þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Hörpu sagði Antony Blinken: “Sem bandamenn á Norðuslóðum vilja Íslendingar og Bandaríkjamenn tryggja að heimshlutinn verði áfram laus við átök, þar sem samvinna ræður.“ Íslensku blaðamennirnir létu þetta gott heita og spurðu hann ekki frekar um stefnu og athafnir Bandaríkjanna á Norðurslóðum, hvorki á þessum fundi né öðrum. Enda telja þeir vandamálið liggja annars staðar. Bogi Ágústsson orðaði það svo í sjónvarpsfréttum 18. maí: „Lavrov varaði vestræn ríki við að gera kröfur til Norðurskautssvæðisins, það tilheyri Rússum.“ Svo át hver það eftir öðrum að Sergei Lavrov hefði komið með „stóryrtar yfirlýsingar“ um að „Norðurskautssvæðið tilheyri Rússum“ og þær kröfur „brjóta í bága við alþjóðalög um hafrétt á svæðinu“ (sjá t.d. Fréttablaðið 20. maí). Það er auðséð hvar ógnin er og yfirgangurinn! Gallinn sá er að Lavrov sagði þetta aldrei, og orð Blinkens tjá ekki Norðurslóðastefnu Bandaríkjanna.

Kurteislegt tal Antony Blinkens um spennuleysi og umhverfisvernd í norðri hefur það hlutverk að breiða yfir staðreyndir, sem er vígvæðing Norðurslóða, leidd af Bandaríkjunum. Fundir Norðurskautsráðsins hafa lengi undafarið snúist um annað en hermál. En á fund ráðsins í Finnlandi í maí 2019 var Pompeo utanríkisráðherra mættur og lýsti yfir: “Þetta er stund Ameríku til að standa upp sem heimskautaþjóð... Svæðið er orðið að vettvangi hnattrænna valda og samkeppni.“ Hann réðist þar harkalega á „yfirgang“ Rússa og Kínverja á Norðurslóðum.

Skömmu eftir valdatöku Bidenstjórnar birtu höfuðstöðvar Bandaríkjahers stefnu sína fyrir Norðurheimskautssvæðið í bæklingi með heitið: „Að endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu. Norðurslóðastefna Bandaríkjahers.“ Þar má lesa: „Breytingarnar í hinu landfræðipólitíska umhverfi og aðgerðir stórveldakeppinauta ásamt breytingum í náttúrulegu umhverfi krefjast þess að herinn endurstilli og endurskerpi valkostina við að byggja aftur upp mátt okkar á Norðurskautssvæðinu.“ https://api.army.mil/e2/c/downloads/2021/03/15/9944046e/regaining-arctic-dominance-us-army-in-the-arctic-19-january-2021-unclassified.pdf Blinken minntist ekki á þessa stefnuyfirlýsingu í Hörpu, og íslenskir blaðmenn voru þá ekki heldur að ónáða utanríkisráðherrann með óþægilegum spurningum þarum.

Grænland, Noregur og Atlantshafsflotinn

Blinken kom hingað með viðkomu í Danmörku. Mikilvægasta erindi hans þangað var að ræða Grændlandsmál og hitta fólk úr grænlensku heimastjórninni (einnig þeirri færeysku). Hann lýsti þar yfir ánægju sinni vegna stórlega aukinna útgjalda Dana til varnarmála á Grænlandi. Danska ríkisstjórnin samþykkti í febrúar sl. 40 milljarða aukningu til málaflokksins. Þessi gríðarlega hækkun kom eftir mikinn þrýsting frá Washington. Berlingske hafði í ágúst 2019 eftir Peter Viggo Jakobsen, lektor í Varnarmálaakademíunni dönsku: „Það er feiknalegur þrýstingur á Danmörku til að fá okkur til að hafast meira að á Norðurheimskautssvæðinu sem þjónar bandarískum hagsmunum. Bandaríkin segja: 'Setjið upp hjálminn og komið með í bardagann'.“ https://www.berlingske.dk/nyheder/ekspert-danmark-er-under-gigantisk-pres-usas-budskab-er-spaend-nu-hjelmen Þetta var í anda Trumps sem pressaði mjög á NATO-bandamann að leggja meira fram til hermála. Danir höfðu sem sagt látið undan þessum þrýstingi og Blinken lýsti ánægju sinni með það.

Monday, April 26, 2021

Ys og þys út af NATO

(Birtist á Neistum 13. apríl 2021

                                                 Bandarískir skriðdrekar á leið til Evrópu

Keflavík, Finnafjörður, Noregur, Úkraína. Jens Stoltenberg segir að Rússar verði að „hætta óréttlætanlegri hernaðaruppbyggingu í og við Úkraínu. NATO stendur með Úkraínu“. En NATO-myndin af yfirgangsstefnu Pútíns sem kjarna vandans er fölsk mynd.

Öryggissvæði við Finnafjörð

Nýtt stjórnarfrumvarp er flutt af Guðlaugi Þór utanríkisráðherra. Lagt er til að 12. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 verði breytt og mörk núverandi öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall, í landi ríkisins við Gunnólfsvík á Langanesi, endurskilgreind og útvíkkuð úr 93,5 hekturum í 771 hektara og nái niður í Finnafjörð sem liggur þar sunnan undir.

Í greinargerðinni segir: „Tilefni lagasetningarinnar má rekja til undirbúningsvinnu vegna mögulegrar uppbyggingar alþjóðlegrar stórskipahafnar í Finnafirði.“ Slík áform fjölþjóðlegra byggingarfélaga og sveitarfélaga m.m. hafa staðið yfir í nokkur ár. Staðsetningin þykir ákjósanleg fyrir umskipunarhöfn í Norður-Atlantshafi og tekur sérstaklega mið af opnun siglingaleiðar norðan Síberíu til og frá Kyrrahafi.

Í greinargerðinni segir ennfremur: „Þá tekur frumvarpið mið af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi á árinu 2016, sbr. þingsályktun nr. 26/145, þar sem áhersla er meðal annars lögð á að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og varnarsamstarfs við önnur ríki, þ.m.t. innlendan viðbúnað, og að til staðar séu varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.“

Stórbissnissmenn hafa sem sagt áform um byggingu risahafnar, og hugsunin með breytingunni á varnarmálalögum er skv. greinargerð að „tryggja heimild ríkisins til skipulagsþróunar út frá stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og þjóðaröryggisstefnu Íslands.“

Í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar skrifar Stefán Pálsson 7. mars sl. fyrir hönd Samtaka hernaðarandstæðingar. "Sú hugsun flögrar að tortryggnum lesanda að markmið frumvarpsins sé einmitt ... að eyrnamerkja land til uppbyggingar framtíðarherskipahafnar þegar og ef stórframkvæmdir við höfn í Finnafirði verða að veruleika."

Rétt. Auðvitað hljótum við að skoða "leitar- og eftirlitstengda starfsemi" við Finnafjörð í samhengi við yfirstandandi framkvæmdir vegna „leitar- og eftirlitstengdrar starfsemi" á Öryggissvæðinu í Keflavík (meira um það aftar). Skylt er skeggið hökunni. Samkvæmt „þjóðaröryggisstefnu Íslands“ eru hornsteinar hennar tveir, varnarsamningurinn frá 1951 og aðildin að NATO. Breytingin á varnarmálalögum er komin frá Guðlaugi Þór, línuverði NATO-línunnar. Sú lína er lögð í Brussel og Washington. Ísland hefur sem kunnugt er ekki sjálfstæða utanríkisstefnu.


Endurvinnum yfirráðin á Norðurskautssvæðinu!“

En hver er þá stefnan í Brussel og Washington varðandi Ísland? Svo vel vill til að nú í mars gáfu höfuðstöðvar Bandaríkjahers út nýja skýrslu og stefnuyfirlýsingu um Norðurskautssvæðið. Yfirskrift hennar er: „Að endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“, Regaining Arctic Dominance. The U.S. Army in the Arctic“. regaining-arctic-dominance-us-army-in-the-arctic-19-january-2021-unclassified.pdf

Á síðunni Antiwar.com fjallar Rick Rozoff um yfirlýsinguna í grein sem nefnist „Bandaríkjaher skilgreinir Norðurskautssvæðið sem orrustuvöll við Rússland og Kína“. US Army Identifies Arctic as Battleground With Russia and China - Antiwar.com Original Í yfirlýsingunni segir nefnilega: „Norðurskautssvæðið hefur allt til að bera að verða svæði sem deilt er um, þar sem stórveldakeppinautar Bandaríkjanna reyna að nota hernaðarlegt og efnahagslegt vald til að ná og viðhalda aðgengi að svæðinu á kostnað bandarískra hagsmuna. Þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna leggur áherslu á að Norðurskautssvæðið sé leið/gangur fyrir útvíkkaða herstjórnarlega stórveldasamkeppni milli tveggja svæða – Evrópu og Indlands-Kyrrahafssvæðisins.“ Og áfram: „Á meðan flestar Norðurskautsþjóðir eru bandamenn Bandaríkjanna hafa helstu stórveldakeppinautar Bandaríkjanna – Rússland og Kína – þróað Norðurskautsstefnu með landfræðipólitísk markmið andstæð hagsmunum Bandaríkjanna.“

Á öðrum stað í skýrslunni stendur þetta: „Herinn [bandaríski] verður að mynda herstyrk sem er fær um að keppa á árangursríkan hátt með, við og gegnum bandamenn og samstarfsaðila, til að skapa vandamál fyrir andstæðinga þegar þeir reyna að fá aðgang og keppa á svæðinu.“ Í skýrslunni er algjörlega horfið það tungumál sem gjarnan hefur verið notað t.d. í Norðurskautsráðinu, að tala um „samvinnu“ norðurslóðaríkja í heild og í staðinn er í skýrslunni kerfisbundið talað um Rússland og Kína sem „andstæðinga“ (í 54 skipti alls), það er svo hluti af sama kerfisbundna málfari að fjalla um andstæðingana sem „valdboðsríkin í austri“ eða „alræðisríkin“.


Skilgreind fjögur svið árekstra

Norðurskautsstrategían frá Washington skilgreinir fjögur svið samkeppni og árekstra á Norðurskautssvæðinu: hernaðarsvið, orka og auðlindir, flutningar, matvælaöryggi. Þar kemur ennfremur fram: „Sem það ríki sem stærst landsvæði hefur norðan Heimskautsbaugs hefur Rússland það sem fyrsta forgangsmál að verja sögulegan rétt sinn til að stjórna Norðurskautssvæðinu og tryggja landfræðilega hagsmuni sína gagnvart bandalagsríkjum NATO... 75% af olíu Rússlands og 95% af jarðgasi er sótt á Norðursvæðin. Norðurskautssvæðið stendur fyrir 20% vergrar þjóðarframleiðslu Rússlands, 22% útflutnings og 10% allra fjárfestinga.“

Norðursvæðin eru auðug af olíu, jarðgasi, málmum og jarðefnum. Átök um þau eru auðsýnileg og fara í vöxt. Grænlendingar hafa samið við Kínverja um efnahagsstarfsemi á Grænlandi, en stjórnvöld í Kaupmannahöfn og Washington líta það mjög alvarlegum augum, og sem viðbrögð við því falaði Trump Grænland til kaups vorið 2019. Því var illa tekið en rök hans í málinu (á Twitter) voru hreint hernaðarleg og hann tísti einkum um „geoplitical importance“ Grænlands og „strategic value“. Svo þrýstingur frá Washington á Grænland og danska Grænlandspólitík mun nú aukast jafnt og þétt. Tilboð Trumps var bara fyrsta herópið.


Hernaðarsviðið mikilvægast

Varðandi hernaðarsviðið segir yfirlýsingin frá Pentagon: „Norðurskautssvæðið er grundvallaratriði í hernaðarmætti Rússlands.“ Skýrslan ræðir um nauðsyn þess að styrkja hernaðarnet Bandaríkjanna á Norðurskautssvæðinu: „Að styrkja þau net gerir hernum kleift að fylkja liði til að keppa við, fæla og, ef nauðsyn krefur, sigra andstæðinga Bandaríkjanna.“

Þegar þeir í Pentagon tala um að „endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“, líka yfirráðin yfir þessum umrædda norðlæga „ganginum milli Evrópu og Indlands-Kyrrahafssvæðisins“ verður að hafa í huga að þetta langa hafbelti norðan Evrasíu en sunnan þykkasta íssins, sem spannar 10 tímabelti (nærri hálfhringur umhverfis jörðina), og sem er líkleg siglingaleið innan skamms, er fyrst og fremst rússneskt innhaf, ýmist innan rússneskrar efnahagslögsögu ellar skammt utan hennar. Það væri hliðstætt bandarískum „yfirráðum“ á Suður-Kínahafi. Ellegar rússneskum og kínverskum „yfirráðum“ á Karabíahafi.

Samanber að þegar Sovétmenn fóru að setja upp skotflaugar á Kúbu 1962 þótti mörgum í BNA vera vá fyrir dyrum. Og eins er núna, það er engin leið fyrir Rússa að lesa stefnuyfirlýsingu sem þessa sem annað en mikinn váboða. Allt tal um að BNA og NATO-veldi ætli sér „yfirráð“ á því svæði er m.ö.o. afar herská orðræða. Á hinn bóginn: fyrir þann sem ætlar að sigra Rússa er líklega nauðsynlegt að geta sótt að þeim úr norðri.


Dæmið Noregur

Sú var tíðin að Noregur hafði eitthvað sem nálgaðist eigin sjálfstæða utanríkisstefnu. Landið hafði þá her sem byggði á almennri herskyldu, skipulagður sem heimastýrður landvarnarher. Við inngöngu Noregs í NATO 1949 var gefin út yfirlýsing (send Sovétríkjunum sérstaklega) um að Noregur skyldi aldrei hafa erlendar herstöðvar (né karnorkusprengjur) á norsku landi. Í Kalda stríðinu voru þar aldrei erlendar herstöðvar og landið hélt bærilegan frið við grannann stóra í austri.

Við fall Sovétríkjanna 1991 var herskyldan lögð af í Noregi. Margir spáðu friði. En í staðinn jókst hernaður BNA og NATO-veldanna: Persaflóastríð, Sómalía, Júgóslavía. Þegar NATO stóð á fimmtugu, 1999, breytti bandalagið eigin tilvistargrunni, lagði allan heiminn undir og tók að heyja árásarstríð utan eigin landsvæðis, það fyrsta stóð þá einmitt í Júgóslavíu. Noregur var með. Síðan hefur norski herinn verið byggður upp sem atvinnuher, felldur inn í hernaðarkerfi BNA og NATO og hefur sinnt léttaverkum fyrir heimsvaldasinna, m.a. í Júgóslavíu, Afganistan, Líbíu (Jens Stoltenberg var leiðandi í loftárásum NATO!) og Sýrlandi. Noregur er nú (líkt og flest önnur NATO-lönd) í stöðugu stríði undir fjarlægum himinskautum. Ill örlög. Hins vegar sinnir norski herinn lítt landvörnum Noregs, þeim hefur í meginatriðum verið útvistað til Bandaríkjahers, Breta, NATO. En það brölt hefur lítið með landvarnir Noregs að gera. Þvert á móti það er hluti af streði BNA/NATO að heimsyfirráðum – og Noregi náttúrlega stórhættulegt að efna til ófriðar við grannann í austri. https://www.derimot.no/norsk-forsvar-har-endret-innhold-oberstloytnantfra-vernepliktforsvar-til-del-av-natos-angrepstrategi/

Árið 2016 var norsk flotastöð í Værnes í Þrændarlögum gerð að bandarískri herstöð. Herstöðvapólitíkinni frá 1949 – aldrei erlend herstöð á norsku landi! – var þarmeð hent út um gluggann. Nú voru þarna 330 bandarískir hermenn að staðaldri. Frá 2018 var sá herstyrkur aukinn upp í 700 manns, með útibú á annarri herstöð í viðbót, Setermoen í Tromsfylki norðan heimskautsbaugs. Breskir hermenn æfa nú árlega vetrarhernað í Norður-Noregi. Í þeim landshluta þjálfuðu sig í fyrra 4.400 erlendir hermenn, einkum breskir og bandarískir.

Og árið 2021 gerir U.S. Air Force Ørland-flugvöll norðan Þrándheimsfjarðar frambúðarhervöll fyrir hinar ógurlegu B-1 Lancer kjarnorkusprengiflugvélar sínar. Í fyrra varð Tromsø að taka á móti bandarískum kjarnorkukafbátum og vista þá vikum saman í höfn bæjarins. Og norður í Vardø er í byggingu mikil norsk-bandarísk ratsjá, við rússnesku landamærin, skammt frá hinum hernaðarlega mikilvæga Kola-skaga. https://steigan.no/2020/07/statusrapport-fra-forsvaret/ Noregur hefur látið af hendi sjálfsforræðið í varnarmálum og Norður-Noregur er í vaxandi mæli gerður að herbúðasvæði og stökkpalli til austurs fyrir BNA og NATO í þeirra heimsyfirráðastrategíu. Frekari herstöðvaþróun á þeirra vegum er meira en líkleg, enda samræmist það vel stefnu þessara aðila um að „endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“.


Umsvif á öryggissvæðinu í Keflavík

Í júlí 2019 kom í RÚV frétt um komandi uppbyggingu á öryggissvæðinu á Keflavíkurfluvelli og aðrar framkvæmdir hérlendis á og vegum Bandaríkjahers og NATO.

Framkvæmdunum má skipta í tvo hluta. Annars vegar er uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbygging á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins... Bandaríski flugherinn ætlar svo að útbúa aðstöðu til búsetu í einskonar gámaíbúðum fyrir meira en þúsund hermenn inni á varnarsvæðinu. Íbúðirnar rísa ekki strax heldur verður lagt skólpkerfi í jörðu, raflagnir og annað slíkt.“ https://www.ruv.is/frett/14-milljarda-framkvaemdir-vid-varnarmannvirki

Á árinu 2020 var ekki að sjá að faraldurinn Covid-19 hefði afgerandi áhrif á hina stöðugt auknu virkni á öryggissvæðinu á Miðnesheiði 2020. Þar var liðssafnaður árið um kring og tala hermanna var sú næsthæsta sem verið hefur síðan farið var draga þangað herafla á ný. Þó var vegna Covid blásin af æfingin Norður-Víkingur í mars þar sem taka áttu þátt 1000 manns, en með henni hefði árið 2020 farið langt fram úr fyrri árum.

Þann 7. nóvember sl. haust fjölluðu Víkurfréttir um líflega uppbyggingu á öryggissvæðinu: umfangsmiklum endurbótum á ratsjárkerfum Atlantshafsbandalagsins hér á landi var nýlokið en verkefnið var framkvæmt af sérfræðingum Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, Lockheed Martin í Bandaríkjunum og Innkaupastofnun Atlantshafsbandalagsins í Lúxemborg. Svo kom haustið og var óvenju annasamt:

Í haust hafa verið við vinnu á öryggissvæðinu liðsmenn bandaríska sjóhersins við rekstur á stjórnstöð fyrir kafbátaeftirlit og við eftirlit og æfingar á hafinu sem er framkvæmt með nýju P-8A kafbátaeftirlitsflugvélunum. Hafa verið tólf kafbátaleitarflugvélar á Keflavíkurflugvelli frá bandaríska sjóhernum, auk tveggja frá kanadíska flughernum.

Bandaríkjamenn voru hérna [við loftrýmisgæslu í október] um 260 talsins frá flughernum. Því til viðbótar hafa verið hér 500 aðrir erlendir liðsmenn frá bandaríska sjóhernum við kafbátaeftirlit og áhafnaskipti sem hafa tekið óvenju langan tíma út af sóttvörnum,“ segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar í Keflavík, í samtali við Víkurfréttir... „Undanfarin ár hafa verið hér frá fjórum og upp í fjórtán orrustuþotur við loftrýmisgæsluna hverju sinni. Þær voru fjórtán núna.“

Eins og áður þá er og verður við vinnu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli alltaf einhver fjöldi erlends liðsafla og annarra verktaka og sérfræðinga og dvelur hluti þeirra á hótelum utan öryggissvæðisins. Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli standa yfir umfangsmiklar framkvæmdir á vegum Íslands, Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna. Helstu verkefni eru; viðhald og breytingar á flugskýli 831, bygging þvottastöðvar fyrir flugvélar, viðhald og endurbætur á flughlöðum, akstursbrautum flugvéla og tengdum ljósakerfum. Nú síðast var gerður samningur við Íslenska aðalverktaka um stækkun og bygging flughlaðs og undirstöðu fyrir gámabyggð [sbr. áðurnefndar gámaíbúðir fyrir yfir 1000 manns]. Til viðbótar er fjöldi annarra mannfrekra venjubundinna verkefna til framkvæmdar.“ sjá hér.

Fyrir utan umræddar gámaíbúðir/gámabyggð hófst nú í vetur bygging á varanlegri svefnskálum fyrir erlendan liðsafla, og eiga þeir að geta hýst 300 manns fyrir 2024. Það má sjá hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. sjá hér.

Bandaríski Atlantshafsherflotinn (United States Second Fleet ) hafði verið leystur upp til annarra verkefna árið 2011, en árið 2018 var hann endurræstur. Bandaríkjastjórn „ætlar honum hlutverk á hafsvæðum fyrir norðan Ísland. Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli tekur mið af þessu“, skrifaði Björn Bjarnason (Mbl. 9. ágúst 2019). Rétt. Endurræsing Atlantshafsflotans, endurreisn Keflavíkurherstöðvar eftir tímabundinn dvala, sóknarmiðuð vígvæðing Noregs og stefnan um að „endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“ hangir allt náið saman.

Enduruppbygging herstöðvar á öryggissvæðinu á Keflavíkurfulugvelli hefur aldrei gengið hraðar en í stjórnartíð Katrínar Jakobsdóttur. VG andvígur NATO? Ja, VG-forustan vill alla vega ekki þvælast fyrir NATO-sinnum í gerðum þeirra. Þessi hluti stjórnmála gengur sinn gang óháð samsetningu ríkisstjórna á Íslandi. Enda hefur Ísland enga eigin utanríkis- og varnarmálapólitík, aðra en þá að taka við stefnunni frá höfuðstöðvum NATO. Sem aftur taka við stefnunni frá Washington.


Stóra samhengið

Eftir fall Sovétríkja og Sovétblokkar um 1990 varð hið alþjóðlega valdakerfi „einpóla“ og margir áttu von á friði, en friður fékkst ekki. Vestrænir heimsvaldasinnar (Vesturblokkin = NATO-blokkin = BNA + ESB = „Veldið“ = auðvaldsblokk með kjarna sinn í Wall Street) þurftu fyrst að éta sig inn á það stóra matborð sem var gamla áhrifasvæði Sovétríkjanna. Það fól í sér færslu NATO austur og suðaustur eftir Evrópu eftir að Warsjárbandalagið var lagt niður (og leiddi fljótt til stríðs á Balkanskaga). Það fól líka í sér baráttu fyrir fullum yfirráðim BNA/Vesturblokkar í Austurlöndum nær.

Áherslan á Austurlönd nær fékk framan af ákveðinn forgang, vegna olíuauðæfa og af því svæðið taldist lykilsvæði í heimsvaldataflinu, svo Vesturblokkin réðist þar á eitt landið af öðru undir ýmsum yfirskriftum (mest notaða yfirskriftin var „stríð gegn hryðjuverkum“). Svæðið hafði m.a.s. slíkan forgang að vestur í Pentagon töldu menn m.a. skynsamlegt í bili að leggja herstöðina á Íslandi í dvala og flytja heraflann þaðan til „heitari“ verkefna.

Eftir aldamótin olli hin ójafna þróun kapítalismans því hins vegar að ný efnahagsveldi náðu að efla sig og byrja að mynda aðra valdapóla – trufluðu með því „einpóla“ heimsvaldakerfið eftir kalda stríðið. Sovétlaust Rússland náði vissum efnahagsbata eftir hörmungar Jeltsínáranna og tók að verja svæðisbundna stórveldishagsmuni sína gegn yfirgangi Vesturblokkar. Skýrustu merki um það voru annars vegar innlinum Krímskaga í Rússland eftir CIA-stýrt valdarán í Úkraínu 2014 og hins vegar hernaðarstuðningur við bandamann Rússa í Sýrlandi frá 2015. Lengra í austri óx úr grasi nýtt iðnveldi sem tók að keppa óforskammað við gömlu heimsveldin um kapítalíska heimsmarkaðinn, og smám saman hefur Kína skotið keppinautunum ref fyrir rass og siglir fram úr þeim í efnahagssamkeppni. Keppinautarnir eiga ekki svar.


Friður óæskilegur

Jú, þeir eiga reyndar eitt svar – hernaðarlegt. Þeir hafa enn hernaðarlega yfirburði. Og vegna þessa „stóra samhengis“ sjá hinir spöku vestrænu strategistar (einkum þeir í Washington) fram á að friðsamleg efnahagsþróun ein og sér leiði til þess að Vesturblokkin verði varanlega undir í efnahagssamkeppni og heimsforræði hennar falli. Friðsamleg þróun er sem sé lífshættuleg! Vestræn yfirráð byggjast nú fyrst og síðast á hernaðarlegum yfirburðum. Þar að auki: Drottnunarstaða Bandaríkjanna INNAN EIGIN HERBÚÐA byggist á því hvað hinir bandamennirnir eru hernaðarlega háðir US Army. Vald BNA byggist sem sagt á því að EKKI VERÐI NEIN SLÖKUN.

Þetta „stóra samhengi“ skýrir þá líka það hvers vegna árásarhugur og allur fókus vestrænna heimsvaldasinna hefur beinst á æ beinni og opinskárri hátt að þessum (tveimur) rísandi keppinautum sjálfum með hverju árinu sem líður.

Þetta birtist í mörgum myndum á síðustu árum og mánuðum. Obama lýsti á sínum tíma yfir flutningi á „þungamiðju til Asíu“ (pivot to Asia) sem fól í sér flutning þungamiðju bandaríska sjó- og flugflotans til Asíu og Kyrrahafssvæðis, vegna Kína. Við fjöllum ekki um það hér. En í Evrópu eru merkin líka afar skýr: Joe Biden lýsir yfir að Krímskagi skuli aftur afhendast Úkraínu og BNA/NATO sendir herskip inn á Svartahaf (13 eru þar núna, skammt undan Krím) og lýsa yfir það það sé til stuðnings Úkraínu. Það gerist þegar Kiev-stjórnin blæs til gríðarmikillar sóknar gegn rússnesku aðskilnaðarhéruðunum í austri. Þungavopnaflutningarnir þangað undanfarnar vikur eru eins og fullnaðarstríð sé í uppsiglingu. Í Moskvu segja menn á móti að fullnaðarárás frá Kiev á þessi héruð myndi neyða Rússa til að verja íbúa Donbass. Að öðru leyti eru viðbrögð Rússa verulegir herflutningar hinum megin við landmærin. Hvers konar þátttaka Rússa í átökum þar er stórhættuleg, en plúsinn er að hún mun leiða af sér frekari refsiaðgerðir gegn Rússum og pólitíska einangrun þeirra. https://thesaker.is/is-the-ukraine-on-the-brink-of-war-again/

Utan Úkraínu er svo hin breiða sókn og vígvæðing NATO til austurs (sem hófst 1990) löngu komin fast að vesturgluggum Rússlands, með víglínu eldflaugaskotpalla (í Póllandi, Rúmeníu og víðar) og sívaxandi heræfingum. Þessa nánuðina, frá Lettlandi til Búlgaríu, frá mars og fram í júlí verður liðssafnaður og heræfingar á vegum NATO með 40.000 hermönnum og 15.000 herfarartækjum nærri landamærum Rússlands. Helmingurinn er frá Bandaríkjunum. https://steigan.no/2021/04/storste-nato-styrke-noensinne-ved-russlands-grenser/

Þrettán herskip á Svartahafi eru út af fyrir sig ekki alvarleg ógn við Rússland. Fjögurtíu þúsund hermenn kannski ekki heldur. En vopnaskakið og vígvæðingin kyndir undir væringum og stríðsmóðursýki í Evrópu og kemur í veg fyrir og eðlileg viðskipti og samskipti Rússlands við granna sína, og er um leið fóður fyrir harðari herstöðvapólitík á Íslandi og víðar. Það telst ákjósanlegt í Washington.

Joe Biden byrjaði Rússlandssamskipti sín sem forseti á því að kalla Vladimir Putin «drápsman» (a killer). Það er jú það sama og morðingi, og er skýrt merki um þá stefnu sem tekin er. Það styður það sem áður er sagt: friðurinn er óæskilegur, slökunin hættuleg. https://edition.cnn.com/2021/03/18/europe/biden-putin-killer-comment-russia-reaction-intl/index.html


Fréttir og sálfræðihernaður

Í viðbót við landher, flota og flugher er sálfræðihernaðurinn fjórða grein hernaðar nútildags og þáttur hans verður stöðugt stærri. Hlutverk hans er að prenta óvinamyndina í vitund þegnanna. Verkefnið felst öðru fremur í djöflagerðariðnaði í fjölmiðlum. Djöflarnir Milosevic, Saddam Hussein, Gaddafi og Assad voru allur málaðir sem Hitlerar áður en ráðist var á þá. Nú er Pútín djöfull númer eitt og Xi Jinping næstverstur, eða öfugt. Um þessar mundir fáum við í reglulegum skömmtum hjartnæmar sögur af illri meðferð á Úígúrum í Kína og Navalní í Rússlandi.

Öll stærri skref í vígvæðingu þarf þó að undirbyggja með því að sannfæra okkur fyrst um að óvinurinn boði okkur sjálfum lífshættu, og það verða sjálfsagt næg ráð til þess. Væntanlega þarf að sannfæra okkur um að Rússar hyggi á hernaðarútrás í vestur, gegn margfalt öflugri herjum NATO-velda. Það hæðir og spottar að vísu alla rökhugsun, en það er ekki aðalatriðið ef áróðurinn vinnur vel – og ef andróðurinn er lítill.

Og þar er af litlu að státa: Ísland hefur stutt öll stríð BNA og NATO á 21. öldinni, og efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússlandi, Sýrlandi, Venezúela og öllum þeim sem NATO vill refsa. Og andstaðan við það verður sífellt minni. Á Alþingi Íslendinga er engin sjáanleg andstaða í öryggis og utanríkismálum. Eitt sinn var andheimsvaldastefna stór þáttur vinstristefnu og sósíalisma en sýnist nú vera gleymd. Vestrænar heimsvaldabullur æða fram enn á ný og hrópa: America is back! Eigum við eitthvert svar?

Sunday, October 13, 2019

Stríðsöflunum miðar betur í norðri en í suðri

(birtist á Neistum 25. september 2019)

Átökin um hnattræn yfirráð nú um stundir einkennast annars vegar af mikilli alhliða drottnunarstöðu Bandaríkjanna og NATO-blokkarinnar – sem í krafti stöðu sinnar kalla sig „alþjóðasamfélagið“ – og hins vegar af hnignandi stöðu sömu blokkar. Efnahagsleg hnignun hennar (undanhald í keppninni um heimsmarkaðinn) samfara miklum hernaðaryfirburðum leiðir af sér þá miklu árásahneigð sem hún sýnir (sérstaklega Bandaríkin). Helstu stríð og stríðsógnir nútímans eru komnar frá þessari blokk, undir bandarískri forustu.
Á 21. öldinni hafa vestrænir heimsvaldasinnar þróað hugmyndafræði íhlutana sem þeir nefna „verndarskyldu“ (responisbility to protect). Nefnilega að ástandið í tilgreindum ríkjum sé þannig að það kalli á íhlutun „alþjóðasamfélagsins“, yfirleitt í nafni „mannúðar“.
Sú „vernd“ og „mannúð“ sem um ræðir felst í efnahagslegum refsiaðgerðum, valdaránum og valdaskiptaaðgerðum, innrásum eða staðgegnilsstríðum gegn löndum sem vestrænir auðhringar vilja ráða yfir en hafa ekki nægjanleg tök á (mótþróalönd).


Suðrið
Kringum 2001 hófu Bandaríkin og NATO „stríð gegn hryðjuverkum“ og settu fram lista yfir „öxulveldi hins illa“ og stefndu herjum sínum einkum á hin olíuauðugu Austurlönd nær til að tryggja yfirráðin eftir fall Sovétríkjanna. Þegar fyrir aldamót hafði Pentagon skilgreint Íran og Írak sem „þorpararíki“ og kallaði eftir einangrun þeirra og „valdaskiptum“. Fljótt eftir 11. september var ráðist inn í Afganistan og nýjum ríkjum var bætt á listann „öxulveldi hins illa“: Líbíu og Sýrlandi. Sjá nánar.
     Síðan hefur stríðið á þessu svæði staðið óslitið – gegnum beinar innrásir Bandaríkjanna og „alþjóðasamfélagsins“ eða staðgengilsstríð og málaliðahernað studdan af Vestrinu og Ísrael ásamt bandamönnum í arabalöndum. Megintaktíkin hefur verið að nota trúardeilur til að brjóta mótþróalöndin niður innan frá.
     Hin volduga bandaríska hugveita Brookings Institution gaf árið 2009 út skýrsluna „Hvaða leið til Persíu?“ Sjá hér. Þar kom fram að til að sigrast á Íran væri nauðsynlegt að gera fyrst skaðlausan helsta bandamann Írans, Sýrland. Sú aðgerð hófst 2011.
     En það er skemmst frá því að segja að þessar styrjaldir Vestursins í Austurlöndum nær hafa gengið mjög illa. Stríð NATO í Afganistan hefur staðið í 18 ár og „sigur“ er síst í augsýn. Afganir eru stolt þjóð og mjög ákveðnir í að ráða sér sjálfir. Íraksstríðið var tíu ára hroðaleg og blóðug katastrófa (að viðbættu borgarastríðinu við ISIS frá 2014) og eru innrásaröflin þó litlu bættari á eftir. Líbíustríð NATO-ríkja þótti takast best en eftir stendur niðurrifið land. Sýrlandsstríðið leit vel út um tíma fyrir Vestrið og bandamenn þess en frá 2015 snérist stríðsgæfan Sýrlandi í vil (með hernaðaraðstoð frá Rússlandi) og landið er unnið tilbaka úr kjafti vargsins í bitum og áföngum. Sjá stöðuna hér. Og Íran hefur ekki látið ógnanir, innikróun og viðskiptastríð beygja sig til undirgefni og svarar nú stríðshótunum BNA og bandamanna þeirra fullum hálsi.
     Djöfulskapurinn hefur nefnilega ekki skilað tilætluðum árangri heldur hefur andspyrnan styrkt sig. Ríki og þjóðir sem hafa mátt þola þessa ásókn heimsvaldasinna verja sjálfsákvörðunarrétt sinn og snúa bökum saman. Til varð andspyrnuöxull („axis of resistance“) í Miðausturlöndum og hann hefur eflst við hverja raun. Kjarni hans er Íran, Sýrland og Hizbollahreyfingin í Líbanon. Upp á síðkastið hefur Írak æ meir tekið sér stöðu með andspyrnuöxlinum og eins er um Hútahreyfinguna í Jemen sem á í höggi við nokkra sömu meginóvini (Sáda, Bandaríkin, Breta...) og lætur ekki sinn hlut.


En norðrið?
Svona er staðan í Suðrinu. En í Norðrinu er allt annars konar þróun í gangi. Á Íslandi er „herinn“ á leiðinni til baka, í Keflavík er að taka á sig mynd varanleg herstöð með sívaxandi herbúnaði og hreyfanlegum herafla frá Bandaríkjunum og NATO (og herstöðvar nútildags hafa einmitt „hreyfanlegan herafla“). Á alþingi Íslendinga er engin andstaða sem hægt er að nefna því nafni gegn þessari þróun.


Noregur
Ísland er þó ekkert sértilfelli. Noregur hefur nú látið af 70 ára gamalli herstöðvastefnu sinni, stefnu frá tilurð NATO 1949, um að leyfa aldrei erlenda herstöð í Noregi á friðartímum. Undanfarin fáein misseri hafa verið settar upp tvær bandarískar herstöðvar í Noregi, í Værnes í Þrændalögum og Setermoen í Tromsfylki og er þar gert ráð fyrir 700 hermönnum fyrst um sinn. Sjá hér. Miklar bandarískar vopnabirgðir eru í risastórum geymslusölum gröfnum inn í nokkur fjöll í Þrændalögum. Þær eiga að duga 16 þúsund hermönnum til eins mánaðar stríðs. Sjá hér. Uppbygging radarkerfa í Noregi fer fram undir bandarískri stjórn, og verður áfram undir bandarískri stjórn. Noregur hefur kúvent landvaranarstefnu sinni og aðlagað hana hnattrænni stríðsstefnu NATO: setur eigin landvarnir undir bandaríska forsjá og tekur jafnframt fullan þátt í stríðum NATO í fjarlægum heimshlutum, var m.a. í miklu hlutverki í lofthernaðinum gegn Líbíu. Noregur var aðalgestgjafi Trident Juncture í fyrra, mestu NATO-æfingar frá 2002 (50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar) sem æfði óopinbert stríð við Rússa.


Svíþjóð og Finnland
„Hlutlausu löndin“ Svíþjóð og Finnland hafa nú gerst mjög virkir þátttakendur í NATO. Bæði gerðust „samstarfsaðilar“ að NATO (s.k. „partnership for peace“) árið 1994. Bæði hófu þátttöku í stríðinu í Afganistan árið 2002. Bæði sendu flugvélar og mannskap í stríðið gegn Líbíu 2011. Bæði löndin gerðu „gestgjafasamning“ við Bandaríkin árið 2014 sem þýðir að Bandaríkin og NATO geta – að boði gestgjafanna – bæði æft og háð stríð frá þessum löndum við þriðja land. Og þá heimild hefur NATO nýtt sér með miklum heræfingum í báðum löndunum, gegn Rússum. Svíþjóð og Finnland eru ekki lengur hlutlaus lönd heldur í reyndinni orðin NATO-meðlimir og æfa NATO-stríð. Sjá hér. Og hér.


Danmörk og Grænland
Það er í ljósi þessa undirlægjuháttar Norðurlanda sem skoða verður nýjan áhuga Donalds Trump á að kaupa Grænland. Danski forsætisráðherrann kallaði reyndar hugmyndina „absúrd“, og gott var það. Við það varð Trump hins vegar móðgaður og ítrekaði að hugmyndin væri alvarlega meint. Og í ljósi þess hvað Norðurlönd hafa lagt sig gjörsamlega flöt undir Bandaríkin í varnarmálum (og refsiaðgerðum gegn Rússum m.m.) og í ljósi nýlegrar skyndisóknar Bandaríkjanna sem „heimskautaþjóð“ er trúlegt að „tilboð“ Trumps verði ekki það síðasta sem við heyrum um áhuga BNA á Grænlandi.


Glæpur Pútíns
Þessi þróun á Norðurlöndum er auðvitað bara hluti af allsherjarsókn NATO til austurs og vígvæðingunni gegn Rússlandi, með skotpallavíglínu og vaxandi heræfingum vestan vesturlandamæra Rússlands. Og óvíða er andrússneski NATO-áróðurinn meira eintóna en á Norðurlöndum, áróður sem er þó runnin upp í Bandaríkjunum. Stöðugt er haldið á loft þeirri mynd að Rússland sé hin mikla ógn sem þurfi að refsa, einangra og vígbúast gegn. Það er þó ljóst öllum þeim sem vilja sjá að öll þessi vígvæðing er drifin áfram af Bandaríkjunum og Vestrinu. Rússland ógnar ekki á neinn hátt stórveldum NATO (síst af öllu Bandaríkjunum) heldur er það öfugt. Raunverulegur glæpur Pútíns er að snúa frá þjónkun fyrirrennarans Jeltsíns við Vesturlönd og taka að verja af kappi hið smækkaða áhrifasvæði Rússlands gagnvart ásókn USA/NATO-velda. Og að mynda blokk með Kína gegn þeirri blokk sem öllu hefur ráðið og kallar sig „alþjóðasamfélagið“.

Friday, April 5, 2019

Orkupakkinn og pólitísku línurnar í Noregi

(birtist á fésbók Sósíalistaflokks Íslands)

VG styður nú orkupakkann gráa. Hér á síðu Sósíalistaflokksins vilja sumir stuðningsmenn pakkans stimpla alla andstæðinga hans sem þjóðernispopúlista (fundur Ögmundar á morgun t.d. nefndur „áróðursfundur þjóðernissinna“). Viðskiptablaðið hafði í vikunni áhyggjur af Noregi af því öll EFTA-lönd þurfa að samþykkja til að pakkinn virki: „Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn... Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar... færu að hafna pakkanum.“ 

Ég skoðaði þess vegna norsku blöðin. Meirihluti norska Stórþingsins samþykkti þriðja pakkann 22. mars í fyrra. En skoðanakannanir bentu þá til að mikill meirihluti þjóðarinnar væri á móti. Og hvernig lágu pólitísku línurnar í Stórþinginu? MEÐ PAKKANUM voru Hægri-flokkurinn, Framfaraflokkurinn (eini flokkur Noregs kenndur við hægripopúlisma), Verkamannaflokkurinn (mjög klofinn samt), Græningjar og Venstre (miðjuflokkur þrátt fyrir nafnið). Á MÓTI PAKKANUM voru Sósíalíski vinstriflokkurinn (systurflokkur VG), Rauðir (Rødt), Miðjuflokkurinn og Kristni þjóðarflokkurinn. Varðandi Verkamannaflokkinn má geta þess að AUF (ungliðar flokksins) var á móti og flokkurinn sjálfur líka í 12 af 18 fylkjum Noregs. Og í sama mánuði og Stórþingið sagði já sagði LO (norska ASÍ), öll framkvæmdastjórnin samhljóða, nei. Og auðvitað bændasamtökin, Norges bondelag og Norges bonde- og småbrukarlag. Grófu línurnar í Noregi eru þær að kapítalið og stofnanavaldið segir já en verkalýðshreyfing, vinstri menn og dreifbýli segja nei – og meirihluti þjóðarinnar. Væri þá stórundarlegt ef einungis þjóðernispopúlistar segðu nei á Íslandi.

Bjørn Moxnes, formaður flokksins Rødt (sem er í vinsamlegum samskiptum við Sósíalistaflokkinn?) situr á Stórþinginu. Eftir atkvæðagreiðsluna batt hann helst vonir við Alþingi Íslendinga og sagði við Norska útvarpið (í Noregi er pakkinn kenndur við orkustofnunina Acer): „Vi gir oss ikke. Dette slaget tapte vi, men på Island er regjeringa mot Acer, og Island må si ja til Acer, hvis også Norge skal bli med.“