Eftir fall Sovétríkjanna og sósíalismans í Kína m.m. lækkaði
stjarna sósíalismans mjög á himninum. Sá ósigur var um leið ósigur
verkalýðsstéttar auðvaldslandanna. Frjálshyggja og hnattvæðing auðhringanna
sigldu fram seglum þöndum um heim allan, sem ríkjandi efnahagsstefna og
hugmyndafræði. „There is no alternative“ (TINA) sagði Margaret Tatcher. Nú um stundir
stendur verkalýðsstéttin höllum fæti og hefur miklu minni samfélagsáhrif en
lengst af 20. öld. Vísbending um þróunina er að stéttarfélagsaðild hefur
minnkað um nærri helming í Evrópu síðustu 30 ár og réttindi launafólks versna
að því skapi.
Hnattvæðingin birtist sem frjálst flæði fjármagns, atvinnu
og vinnuafls milli landa, svæða og heimshorna. Auðhringarnir skipta með sér
heiminum. Tilgangurinn er að TRYGGJA AUÐVALDINU ÓDÝRT VINNUAFL. Frjálsa
flæðið – t.d. erlenda farandvinnuaflið á Íslandi – er kerfisbundið notað til að
brjóta niður áhrif og áunnin réttindi verkalýðshreyfingar. Hnattvæðingin grefur
einnig undan valdi þjóðþinga. Hnattvætt auðvald – hjá World Economic Forum og
álíka – telur sjálfstæð þjóðríki vera úrelt fyrirbæri. Markaðskratar, og m.a.s
sumir sk. byltingarsinnaðir sósíalistar, taka undir þann söng.
Stéttasamvinnustefna skaut snemma rótum í íslenskri
verkalýðshreyfingu. Á frjálshyggjutímanum festi hún sig betur í sessi. Vinstri
flokkarnir fá að taka þátt í ríkisstjórnum með því skilyrði að lofa auðstéttinni „ásættanlegri arðsemi peninganna“. Á
undanförnum árum hafa þeir gegnt lykilhlutverki í að tryggja hagsmuni
auðstéttarinnar. Ætli myndin af stéttasamvinnunni verði skýrari en í
samvinnunni um SALEK og makki SA og ASÍ um „leyfilegar launakröfur“ og
„forsendubrest“ ef einhver starfsstétt knýr fram eitthvað umfram ASÍ-línuna.
Flokkurinn sem við þurfum er stéttabaráttuflokkur. Ekki
þingpallaflokkur sem lofar að færa alþýðu velferð og völd gegnum stjórnkerfi
borgarastéttarinnar. Borgarastéttin elur á þeirri blekkingu að valdið í
samfélaginu hvíli á þjóðþinginu og óskastaða hennar er að þingpallabaráttan
dragi til sín þá athygli og krafta meðal alþýðu og andófsafla sem gætu annars
komið fram í fjöldabaráttu í grasrótinni.
„Saga mannfélagsins
hefur fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“ sögðu Marx og Engels í
Kommúnistaávarpinu. Og „lausn verkalýðsstéttarinnar verður að vera hennar eigið
verk.“ (Úrvalsrit II, bls. 217) Byltingarsinnar skilgreina verkalýðsstéttina sem
hina framsæknu stétt sem með hjálp stéttvísi og með því að treysta á eigin
samtakamátt verði að taka forystu í samfélaginu og skapa þjóðfélag fyrir fólk. Verkefni
byltingarsinnaðra flokka er þess vegna að efla og leiða stéttabaráttu alþýðu.