Showing posts with label vinstrimennska. Show all posts
Showing posts with label vinstrimennska. Show all posts

Saturday, March 18, 2017

Vinstrimennskan, verkalýðurinn og hnattvæðingin

Ræða haldin á landsfundi Alþýðufylkingarinnar 11. mars 2017)

Eftir fall Sovétríkjanna og sósíalismans í Kína m.m. lækkaði stjarna sósíalismans mjög á himninum. Sá ósigur var um leið ósigur verkalýðsstéttar auðvaldslandanna. Frjálshyggja og hnattvæðing auðhringanna sigldu fram seglum þöndum um heim allan, sem ríkjandi efnahagsstefna og hugmyndafræði. „There is no alternative“ (TINA) sagði Margaret Tatcher. Nú um stundir stendur verkalýðsstéttin höllum fæti og hefur miklu minni samfélagsáhrif en lengst af 20. öld. Vísbending um þróunina er að stéttarfélagsaðild hefur minnkað um nærri helming í Evrópu síðustu 30 ár og réttindi launafólks versna að því skapi.

Hnattvæðingin birtist sem frjálst flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa, svæða og heimshorna. Auðhringarnir skipta með sér heiminum. Tilgangurinn er að TRYGGJA AUÐVALDINU ÓDÝRT VINNUAFL.  Frjálsa flæðið – t.d. erlenda farandvinnuaflið á Íslandi – er kerfisbundið notað til að brjóta niður áhrif og áunnin réttindi verkalýðshreyfingar. Hnattvæðingin grefur einnig undan valdi þjóðþinga. Hnattvætt auðvald – hjá World Economic Forum og álíka – telur sjálfstæð þjóðríki vera úrelt fyrirbæri. Markaðskratar, og m.a.s sumir sk. byltingarsinnaðir sósíalistar, taka undir þann söng.

Stéttasamvinnustefna skaut snemma rótum í íslenskri verkalýðshreyfingu. Á frjálshyggjutímanum festi hún sig betur í sessi. Vinstri flokkarnir fá að taka þátt í ríkisstjórnum með því skilyrði að lofa auðstéttinni  „ásættanlegri arðsemi peninganna“. Á undanförnum árum hafa þeir gegnt lykilhlutverki í að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Ætli myndin af stéttasamvinnunni verði skýrari en í samvinnunni um SALEK og makki SA og ASÍ um „leyfilegar launakröfur“ og „forsendubrest“ ef einhver starfsstétt knýr fram eitthvað umfram ASÍ-línuna.

Flokkurinn sem við þurfum er stéttabaráttuflokkur. Ekki þingpallaflokkur sem lofar að færa alþýðu velferð og völd gegnum stjórnkerfi borgarastéttarinnar. Borgarastéttin elur á þeirri blekkingu að valdið í samfélaginu hvíli á þjóðþinginu og óskastaða hennar er að þingpallabaráttan dragi til sín þá athygli og krafta meðal alþýðu og andófsafla sem gætu annars komið fram í fjöldabaráttu í grasrótinni.

„Saga mannfélagsins hefur fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“ sögðu Marx og Engels í Kommúnistaávarpinu. Og „lausn verkalýðsstéttarinnar verður að vera hennar eigið verk.“ (Úrvalsrit II, bls. 217) Byltingarsinnar skilgreina verkalýðsstéttina sem hina framsæknu stétt sem með hjálp stéttvísi og með því að treysta á eigin samtakamátt verði að taka forystu í samfélaginu og skapa þjóðfélag fyrir fólk. Verkefni byltingarsinnaðra flokka er þess vegna að efla og leiða stéttabaráttu alþýðu.

Thursday, July 21, 2016

Það sem lesa má úr „Brexit“

Birtist á bloggsíðu Alþýðufylkingarinnar 20 júlí 2016


Almenningur vann
Úrslit atkvæðagreiðslunnar um Brexit voru merkileg og sögulegur stórviðburður. Þarna tókust á almenningur sem vildi ráða eigin málum og hins vegar yfirþjóðlegt vald ESB-elítunnar. Almenningur vann. Annars vegar stóð hin fjölþjóðlega ESB-elíta, stjórnvöld Bretlands, fjármála- og bankavaldið, voldugustu fjölmiðlarnir, hins vegar almenningur. Almenningur vann. Ekki bara það. Nokkrir helstu ráðamenn Evrópuríkja gerðu sitt besta, Stoltenberg NATO-framkvæmdastjóri gekk fram fyrir skjöldu – og Obama forseti kom yfir hafið og hótaði Bretum verri viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir kysu ekki rétt. Það dugði ekki til og almenningur vann. Í ESB-samhengi var kosningaþátttakan alveg óvenjulega mikil, 72%.

Eftir atkvæðagreiðsluna hefur her af breskum lögfræðingum lýst yfir að atkvæðagreiðslan sé auðvitað bara ráðgefandi. Og það er alls óvíst að hún verði staðfest af þinginu. Ég á eftir að sjá að Bretland yfirgefi ESB í þessari lotu. Valdakerfið í heilu lagi vinnur gegn slíku og vilji almennings fær yfirleitt litlu að ráða.

Hvað segja nú ráðamenn Brusselvaldsins? Þeir hrökkva ekki hátt þótt almenningur sé með uppsteyt. Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands og franski starfsbróðir hans, Ayrault, lögðu í júnílok fram stefnuplagg þar sem segir að svarið við Brexit sé meiri samruni innan ESB og minna þjóðlegt sjálfstæði aðildarríkja, m.a. á efnahags- og hernaðarsviði. Um þetta skrifaði Daily Mail 27 júní. Það sama er uppi á teningnum hjá forseta Evrópuþingsins, Martin Schulz, í grein í Frankfurter Allgemeine Zeitung 3. júlí. Þar segir hann að rétt svar við atkvæðagreiðslunni í Bretlandi sé að „breyta Framkvæmdastjórn ESB í raunverulega evrópska ríkisstjórn“, sem sagt taka stórt skref í átt til yfirþjóðlegs evrópsks stórríkis. Í áðurnefndri yfirlýsingu fylgdi Schulz eftir stefnumörkun sem hann gaf frá sér bara nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna ásamt hinum fjórum forsetum ESB: Juncker forseta Framkvæmdastjórnarinnar, Tusk forseta Ráðherraráðsins,  Dijsselbloem forseta Evruhópsins og Draghi forseta Evrópska Seðlabankans. Þar kemur m.a. fram að fyrir 2025 skuli stofnanir ESB ákvarða fjárlög fyrir einstök aðildarlönd. Skoðanakannanir sýna hins vegar að í engu aðildarlandi vilja kjósendur aukið vald til stofnana ESB. En hvorki það né úrslit Brexit-kosninganna hefur nein áhrif á afstöðu Schulz og þessara toppmanna til áframhaldandi samrunaþróunar í álfunni. 

Saturday, November 10, 2012

Nokkurs konar kommúnistaávarp 1. maí


(Birtist á Eggin.is 1. maí 2012)

Kreppan byrjaði sem sprungin fjármálabóla sem hefur þróast yfir í skuldakreppu æ fleiri ríkja eftir að þau ábyrgðust skuldir banka. Orsakir hennar eru þó innri andstæður framleiðslukerfisins. Hún er í eðli sínu kapítalísk offramleiðslukreppa. Marx skilgreindi á sínum tíma hvernig þenslueðli kapítalismans rekst óhjákvæmilega á arðránseðli hans. Sú móthverfa er þar enn jafn óleyst.
Undanfarna áratugi hefur stöðnun kapítalismans sagt meira og meira til sín. Núverandi kreppa er sú dýpsta eftir stríð og dýpkar enn. Atvinnuleysistölurnar hækka, árásirnar á kjör almennings harðna, velferðin er skorin og skorin meira. Kreppan gerir heimsvaldasinna enn herskárri. Þeir reyna að tryggja með valdbeitingu það sem ekki vinnst með peningavaldinu einu. Fremst í þeim flokki standa Bandaríkin og evrópskir bandamenn þeirra.
Kreppan skall snemma og harkalega á Íslandi vegna ofvaxtar fjármálakerfisins. Sá ofvöxtur átti rætur í sömu andstæðum framleiðslukerfisins og í samdrætti í innlendum frumframleiðslugreinum og iðnaði. Vinstri flokkarnir nýttu sér kreppuna – til að taka við stjórnartaumum. Fyrsta „hreina vinstristjórn“ lýðveldistímans varð til.
Margur maðurinn taldi að nú yrði gagnger breyting á efnahags- og valdakerfinu á Íslandi. Fyrst eftir fjármálahrunið var það útbreidd skoðun vinstri manna að frjálshyggjan væri á leiðinni á öskuhaug sögunnar og „félagsleg gildi“ yrðu leidd til öndvegis. Það gerðist ekki. Í staðinn var endurreisninni stýrt af helsta fánabera frjálshyggjunnar á heimsvísu, AGS, sem þótti reyndar framganga íslenskra stjórnvalda til fyrirmyndar, enda forgangsverkefnin í anda sjóðsins: endurreisn fjármálakerfisins og mikill niðurskurður ríkisútgjalda. Ekki var ráðist gegn ríkjandi eignarhaldi eða rekstrarháttum á neinu sviði. Þvert á móti. Einkavæðingin heldur áfram.
Samfylkingin var í „hrunstjórninni“ og reyndar alla tíð mjög bendluð við kratíska markaðshyggju og einkavæðingu, svo ímynd hennar var löskuð. VG var hins vegar talinn róttækur hugsjónaflokkur, og ómengaður. Ekki lengur. Forusta hans samsamar sig nú íslenska efnahags- og valdakerfinu svo rækilega að vandlæting hennar beinist einkum að þeim sem keyrðu kerfið „út af sporinu“. Í þeim anda hafði VG umfram aðra flokka frumkvæði að því að kæra ráðherra úr fyrri ríkisstjórn fyrir Landsdómi.  Með tilvísun til „ráðherraábyrgðar“ er bankakreppan skoðuð sem „klúður“ og „mistök“.
Þessi kerfis-samsömun „vinstri foringjanna“ er til þess gerð að fá alþýðu til að samsama sig kerfinu líka. Endurreisn kerfisins, umfram allt fjármálakerfisins, er kölluð endurreisn „samfélagsins okkar“. Og nú hafa stjórnvöld öfluga píska á hendi. Þau vísa til „ástandsins“. „Ástandið“ er því miður svona slæmt. Engir peningar til. Allir verða að axla sinn skerf af „ástandinu“. Það er jafnaðarmennska! Það er fullkomið ábyrgðarleysi fyrir almenning að gera nú kröfu um eitt né neitt.
Kúgunarkerfi auðvaldsins er orðið mjög fullkomið þegar gamlir verkalýðsforingjar eins og Jóhanna Sigurðardóttir (áður formaður Flugfreyjufélagsins) og Ögmundur Jónasson (áður formaður BSRB) fá þessar „ástands“-svipur í hönd og láta þær ganga á bökum alþýðu – og taka síðan niðurskurðarhnífana.
Auðvaldskreppan birtist fólki eins og umferðarslys eða lestarslys. Lestin er efnahagskerfið. Auðstéttin og ráðandi auðblokkir ætlast til þess að stjórnvöld velti kreppunni yfir á almenning og vinni svo að því að koma lestinni „á sporið“ aftur. Kreppan vekur reiði sem beinist að stjórnvöldum. Almenningur er til alls vís. Gömlu andlitin í stjórnkerfinu eru rúin trausti. Það er sigurstranglegt fyrir auðstéttina að fá vinstri menn og alþýðusamtök til að taka ábyrgð á kerfinu (og utanaðkomandi „fagaðila“ eins og AGS). Þá kemur alþýða síður vörnum við heldur en ef kjaraskerðingarnar eru framkvæmdar af íhaldsöflunum og hefðbundnum auðvaldssinnum.
Fátt af  þessu er í raun séríslenskt. Frá því um 1980 eða svo hafa flestir stjórnmálaflokkar kenndir við vinstrimennsku og alþýðu lagt alveg á hilluna sósíalíska baráttu og gengið efnahagskefi og stjórnmálakerfi auðvaldsins á hönd. Þegar kreppan nú ríður yfir og auðvaldskerfið sýnir grímulausan ljótleika sinn kemur í ljós algjör skortur kratismans á þjóðfélagslegum valkosti og hann fær þetta snatthlutverk fyrir auðvaldið sem hann hefur á Íslandi nú um stundir.
Í íslenskri verkalýðshreyfingu eru mestu ráðandi sömu stjórnmálaöfl og í landsstjórninni. Verkalýðsforingjarnir undirgangast leikreglur íslenska auðvaldskerfisins, sammála því að horfa verði til hins erfiða „ástands“ og ganga í það að friða almenning gagnvart hinum harkalegu kjaraskerðingum. Nöturlegur veruleikinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing er í gíslingu auðstéttarinnar.
Það ástand hlýtur að vera tímabundið. Það er áhugavert að bera stöðuna nú saman við síðustu stóru kreppu, á 4. áratug 20. aldar. Þegar kreppan skall á Íslandi voru sprækir hópar kommúnista og vinstri sósíalista nýkomnir fram á sjónarsviðið og starfandi innan samtaka alþýðu. Þeir sögðu einfaldlega að kreppa auðvaldsins væri ekki þeirra kreppa. Síst af öllu mátti alþýðan draga úr kröfum og baráttu vegna hennar. Þvert á móti var kreppan tilefni til að herða baráttuna fyrir kjarabótum – og öðru þjóðskipulagi. Róttæklingarnir tóku forustu í alhliða stéttabaráttu, verkalýðshreyfingin treysti á samtakamáttinn og náði að stórefla sig á þessum kreppuárum. Forustumönnum kommúnista hefði seint dottið í hug að fara í dómsmál við Tryggva Þórhallsson og Jónas frá Hriflu fyrir að valda kreppunni.
Þörfin fyrir þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið verður æpandi í kreppunni. Eftir fall fyrstu kynslóðar sósíalsískra ríkja er margt óljóst um það hvernig sá valkostur mun líta út. Hitt er þó ljóst að ekki er lengur búandi við þjóðskipulag sem byggir á einkaeignarrétti á framleiðslutækjum og hefur gróðasóknina sem gangvél. Það leiðir okkur aðeins lengra út í afmennskun samfélagsins og hnattrænt barbarí.

Tvö meginatriði. Í fyrsta lagi: Verkalýðshreyfing sem ekki á sér þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið er og verður í gíslingu. Í öðru lagi: Launafólk og róttæk alþýða má ekki skoða núverandi vinstri flokka í landinu sem velmeinandi en skeikula bandamenn heldur það sem þeir eru, verkfæri auðvaldsins. Þeir eru meginstoðir í valdakerfi auðstéttarinnar í landinu.

Vinstri beygja sem styrkir auðvaldið


(Birtist í Morgunblaðinu 19. jan 2010)

Janúar 2009 var sögulegur mánuður. Uppþot og búsáhaldabylting á Íslandi velti stjórnvöldum  úr sessi. Stjórn Geirs fór frá 26. janúar og 1. febrúar tók við stjórn Jóhönnu, fyrsta „hreina vinstristjórn“ í sögu lýðveldisins. Í sama janúarmánuði settist Obama að völdum í USA. Sigurmánuður fyrir vinstrið. Eða svo virtist.
            Í kosningabaráttunni höfðaði Obama mjög til vinstri kjósenda og lágstétta. Það kom þó víða fram að stór hluti bandaríska auðmannaveldisins studdi hann til valda svo kosningasjóður hans varð miklu stærri en McCains. Hvers vegna?  Bandaríska valdakerfið var í sárri þörf fyrir nýtt andlit. Bushstjórnin var óvinsæl heima fyrir, og styrjaldir heimsveldisins gengu illa. Svo var komin kreppa. Það hentaði best að skipta um stjórn. 
            Útkoman? Langstærstu ríkisútgjöld vegna kreppunnar urðu stuðningur við banka og fjármálakerfi. Þjóðnýting tapsins, kallast það. Obama tryggði stærri fjárframlög til bankanna en Bush hefði tekist. Hins vegar var lítið um ríkisframlög til atvinnusköpunar (stefna kennd við Keynes). Utanríkismálin? Fyrirheit Obama um friðsamlegri tíma áttu stóran þátt í sigri hans, en reyndin varð veruleg aukning til hermála. En Obama er snjall í markaðssetningu utanríkisstefnunnar. Hann markaðssetur stríð svo vel (með hjálp fréttastöðvanna) að það lítur út sem friður, og hann fær friðarverðlaun Nóbels. Hann hefur tvöfaldað innrásarherina í Afganistan og við blasir ný 50% fjölgun á þessu ári. Hann hefur fært stríðið út til Pakistans. Fækkun bandarískra hermanna í Írak er ennþá engin. Bush var kominn í ógöngur en Obama hefur náð að blása til nýrrar sóknar bandarískrar heimsvaldastefnu. Stjórnkerfið rekur sömu auðvaldshagsmuni og áður en með tungutaki  alþjóðlegrar samvinnu og félagslegra gilda. Það ber árangur og stuðningur annarra Vesturlanda við stríðsreksturinn eykst. Andstöuöfl gegn stríðinu heima fyrir eru miklu lágværari af því „þeirra maður“ er í forustu.
            Aðferð íslenska auðvaldsins er svipuð. Einnig hér snúast kreppuráðstafanir um að þjóðnýta tapið. Fjármagnseigendur þurftu að velta Icesave-skuldum og örðum skuldum sínum yfir á almenning og ríkisvaldið tók það að sér. Dagskipun AGS í ársbyrjun 2009 var: mikill niðurskurður, kjaraskerðingar, lítil ríkisframlög til vinnuskapandi framkvæmda.
Janúarbyltingin gerði stjórnmálamenn útrásartímans ófæra um að framfylgja þessari stefnu. Það þurfti ný andlit á kerfið. VG hafði ekki þótt stjórntækur, einkum vegna stóriðjuandstöðu, og 2006 fékk hann miklu minni fjárframlög frá auðmönnum en hinir flokkarnir þrír. En janúarbyltingunni fylgdi vinstri sveifla og ný staða kom upp. Úr því auðmenn höfðu ekki tryggt sér flokkinn fyrirfram þurftu þeir að gera það eftirá, og það gekk greiðlega. Úr ráðherrastóli breytti Steingrímur J. málflutiningi sínum undurhratt, gagnvart AGS, í niðurskurðarmálum, Icesave, ESB-umsókn m.m. Með mælsku sinni náði hann að leggja stefnu íslenska auðvaldsins og AGS fram sem stefnu félagslegra gilda. Vegna skorts á róttækri forustu var hægt að sveigja janúarbyltinguna inn á forsendur hins þingræðislega valdakerfis. Vinstri flokkunum var beitt fyrir vagn auðvaldsins, kjósendur þeirra þar með fastari í net valdakerfisins og auðvaldið snöggtum tryggara í sessi en áður.
            Meinið er að VG hefur aldrei átt sér neina framtíðarsýn aðra en auðvaldskerfi með grænum gildum. Þess vegna er breyting flokksins í kerfisflokk auðveld. Þegar hann fer í stjórn og tekur ábyrgð á íslenska auðvaldskerfinu þarf hann að ábyrgjast ásættanlegt gróðahlutfall auðstéttarinnar og taka þar með afstöðu með henni í stéttabaráttunni. VG-þingmenn minnast ekki á stéttir eftir að flokkurinn settist í stjórn, en gerðu svo sem ekki oft áður heldur. Inntak núverandi stjórnarstefnu er þjónkun við íslenskt stórauðvald með tungutaki félagshyggju og vinstrimennsku.
Voldug ESB-ríki þröngva ólögmætum skuldbindingum upp á Ísland, beita fyrir sig AGS, en stjórnvöld mæta árásunum ýmist á hnjánum eða liggjandi. Við bjuggumst ekki við miklum landvörnum af hálfu ESB-óðrar Samfylkingar, en aumingjaskapur VG í málinu olli mörgum vonbrigðum. En ég bendi á að VG sveigir sig einnig hér að ríkjandi efnahagsstefnu íslensks auðvalds. Með ríkisstjórnum til hægri og vinstri hefur hefur sú stefna allt frá 8. áratugnum verið mjög eindregin aðlögun að hnattrænu markaðs- og fjármálakerfi. Þess vegna eru íslenskt hagkerfi og stjórnmál mjög berskjölduð gagnvart þrýstingi frá „alþjóðakerfinu“, og ESB-hluta þess sérstaklega.   
Ár lærdósríkrar reynslu er liðið frá mikilvægum umskiptum á Íslandi og í Bandaríkjunum. Í báðum löndum ríkir auðræði, stjórnkerfið er hannað til að þjóna ákveðnum stéttarlegum hagsmunum og það breytist ekkert hvort heldur fólkið í brúnni talar til hægri eða vinstri. Það er ekki nýtt að ýmsar tegundir vinstri flokka gagnast oft auðvaldinu betur en hægri flokkar. Ekki skal meta flokka af merkimiðunum sem þeir hengja á sig. Í báðum umræddum löndum sárvantar stjórnmálaöfl sem standa alþýðumegin í stéttabaráttunni.