Showing posts with label heimsyfirráð. Show all posts
Showing posts with label heimsyfirráð. Show all posts

Sunday, August 27, 2017

Viðbúnaðurinn gegn Norður-Kóreu beinist að Kína


Daginn áður enn aðalráðgjafi Trumps, Steve Bannon, yfirgaf Hvíta húsið sagði hann í viðtali að hamagangurinn á Kóreuskaga væri bara „aukasýning“ „sideshow“. Hins vegar: „The economic war with China is everything. And we have have to be maniacally focused on that... We’re at economic war with China. It’s in all their literature. They’re not shy about saying what they’re doing. One of us is going to be a hegemon in 25 or 30 years and its gonna be them if we go down this path.“ Sjá heimild. 

Svona umbúðalaust tal æðstu manna er glannalegt og Bannon var látinn fara. En auðvitað hafa glöggir menn séð þetta áður. Paul Craig Roberts skrifaði fyrir skömmu: „The Chinese government also is not stupid. The Chinese leadership understands that the reason for the N. Korean “crisis” is to provide cover for Washington to put anti-ballistic missile sites near China’s border.“ Sjá heimild. 

Í fyrradag sagði svo Trump að hann ætlaði að setja aftur aukinn kraft í Afganistanstríðið. Í Moskvu hugsuðu menn sitt um þessa vendingu í Washington. Adzhar Kurtov ritstjóri hjá Rannsóknarstofnun hermála skrifaði: „Behind all these bright-eyed statements about a certain new strategy in Afghanistan is a trivial position – to remove a rival or weaken him. Nowadays, the People’s Republic of China is the main rival of the US on the global arena,” Adzhar Kurtov said. He pointed to Beijing’s “serious plans for cooperation with Afghanistan, including in the economic sector“. Kurtov vísar sérstaklega til þess að Afganistan og Pakistan gegna mikilvægu hlutverki í áformum Kína um nýja „Efnahagsbelti silkivegarins“. Pakistan gerðist nýlega fullur meðlimur í „Samvinnustofnun Sjanghæ“ með miðstöð í Peking og í framhaldinu hótar nú Trump að stöðva efnahagsaðstoð USA við Pakistan. Sjá heimild.

Tuesday, May 31, 2016

Stríð um heimsyfirráð - hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

Birtist á fridur.is 24. maí og vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. maí 2016
„Það er alheims stríð, það er allsherjar stríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“ (heimild)

              

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan
Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.

Saturday, September 28, 2013

Streð að heimsyfirráðum skýrir árásarhneigðina

(Birtist á vef SHA, fridur.is 6.sept 2013)
Árásarhneigð Vesturveldanna – með Bandaríkin í fararbroddi – eftir fall múrs og Sovéts verður ekki skýrð og skilin nema sem streð eftir heimsyfirráðum. Það þarf orðið meira en meðalheimsku til að trúa á hina vestrænu vísun til „mannúðar og mannréttinda“ í árásunum á Júgóslavíu, Afganistan, Írak, Líbíu og nú Sýrland, enda eru æ færri sem trúa. Dreifing fórnarlandanna í og kringum hin olíuríku Miðasuturlönd er ekki tilviljun. Einbeitt árasárhneigðin er  meira en bara almenn keppni um áhrifasvæði. Hún verður ekki skýrð nema sem keppni um óskert yfirráð Vesturveldanna í Miðausturlöndum – sem aftur er lykilhlekkur í streði að heimsyfirráðum.

Ef leita skal að sögulegri hliðstæðu þess sem nú fer fram er eðlilegast að fara aftur á 4. áratuginn. Öxulveldin hófu þá hernaðarlega útþenslu með innrás Japana í Mansjúríu 1931, síðan inn í Kína og svo koll af kolli en fasistaríkin í Evrópu tóku Abbisiníu 1935, steyptu spænska lýðveldinu, tóku Austurríki, Tékkóslóvakíu, Pólland, Danmörku, Noreg, Frakkland… Í áratug horfði Þjóðabandalagið á þetta og gerði ekkert.

Eftir fall múrs og Sovéts varð heimurinn pólitískt og hernaðarlega einpóla. Yfirþyrmandi vald safnaðist við þennan eina pól þar sem var risaveldið eina, Bandaríkin, og bandamenn þess í NATO. Í krafti þess á sú blokk í flullu tré við alla hugsanlega andstæðinga sína og notfærir sér það óspart.

Efnahagslega – hins vegar – eru aðrir pólar í vexti sem sauma að gömlu heimsveldunum. Það eru „nýmarkaðslöndin“ með Kína þar fremst í flokki. Landið er m.a. stærsti  iðnaðarframleiðandi heims og aðild þess að heimsmarkaði vex stöðugt á kostnað iðnríkja Vesturlanda. Kína er þess vegna strategískur höfuðandstæðingur Vesturveldanna. Efnahagslegt undanhald USA og ESB verður enn greinilegra í yfirstandandi kreppu. Hins vegar getur Kína ekki mælt sig við Bandaríkin í pólitískum, diplómatískum og hernaðarlegum styrk (á sínum tíma tóku Bandaríkin einnig efnahagslega forustu á heimsvísu miklu fyrr en hina pólitísku og hernaðarlegu forustu). Það er þessi blanda efnahagslegs undanhalds og pólitísk-hernaðarlegrar útþenslu sem veldur nýjum og nýjum styrjöldum og afar dapurlegu útliti fyrir heimsfriðinn.

Hernaðartrompið er síðasta stóra tromp Vesturveldanna og þau beita því óspart í heimsvaldataflinu. Útþensluaðferð þeirra er að stórum hluta hernaðarleg. Ekki síst gerist hún með útþenslu og endursköpun eina hernaðarbandalagsins, NATO. NATO hefur fjöldgað aðildarlöndum úr 16 í 28 og rúmlega annar eins fjöldi hefur sk. bandalagsaðild (partnership). Þetta hefur til dæmis leitt af sér að öll lönd við Miðjarðarhaf nema tvö, Sýrland og Líbanon, hafa nú hernaðarlega samvinnu við NATO (fyrir rúmum 2 árum var Líbía þriðja óháða ríkið). Hvert ríki sem bætist við NATO-samstarfið verður hernaðarlegur stökkpallur gegn þeim ríkjum sem eftir eru utan við.

Önnur aðferð í útþenslunni er einmitt sú að ráðast með her á þau ríki sem reka sjálfstæða og óháða utanríkisstefnu. Það gerist alltaf á svipaðan hátt. Vesturveldin setja á dagskrá (í heimspressunni) nauðsyn „valdaskipta“ í viðkomandi landi, beitt er pólitískri og diplómatískri einangrun og leitað að mögulegum misklíðaefnum innan lands, einn trúar- eða þjóðernishópur styrktur gegn öðrum o.s.frv. Jafnframt hefst skrímslisgering (demónisering) stjórnvalda viðkomandi lands gegnum heimspressuna. Ef þetta nægir ekki er leitað að yfirvarpi til íhlutunar. Ef illa tekst til og ekkert heppilegt yfirvarp gefst er það einfaldlega búið til með leyniþjónustuaðferðum og auglýst í heimspressunni (sbr. Sýrland í  dag)

Sem áður segir varð heimurinn einpóla eftir fall múrsins. Á seinni árum hefur vaxið fram nýr pólitískur og hernaðarlegur mótpóll. Lönd sem helst girða fyrir full heimsyfirráð NATO-veldanna eru annars vegar Rússland (f.o.m. Pútin) og hins vegar Kína. Þriðji aðilinn í andstöðuhópnum er Íran og svo eru minni lönd eins og Sýrland, Venezúela og Kúba. Það blasir við að miðað við NATO-blokkina stóru og pólitísk fylgiríki hennar er þessi blokk lítil og minni háttar að pólitískum styrk. Á móti sér hefur hún t.d. nær alla heimspressuna.

Í Miðausturlöndum er staðan sú að Sýrland er eini bandamaður Írans ásamt Hizollasamtökunum í Líbanon. Ef Vesturveldunum tekst að kyrkja Sýrlandsstjórn og ná um leið kverkataki á Hizbolla er augljóst hver er næstur í röðinni: Íran. Leiðin til Teheran liggur um Damaskus. Og – takist síðan að steypa Íransstjórn standa Rússland og Kína einangruð á heimsvísu, og full heimsyfirráð eru þá innan seilingar hjá Vesturblokkinni, a.m.k. raunverulegri hjá nokkru heimsveldi áður.

Það er þetta sem er í húfi. Árásirnar á hin einstöku lönd byggir á herfræðilegri heildarhugsun. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þessum djöfulskap. Þess vegna er Bandaríkjaforseti (friðarverlaunahafinn) tilbúinn að setja þennan heimshluta á annan endan með stórstyrjöld. Þess vegna er hann tilbúinn að ráðast á Sýrland þó hann þurfi að fara einn. Hann þykist sjá að mikið hangi á spýtunni. Annars væri háttarlag hans óskiljanlegt.

Ég nefndi í upphafi máls samanburð við 4. áratuginn. Eitt af öðru eru óþæg ríki kyrkt. Heimurinn horfir á. Og nú gildir hið sama um Sameinuðu þjóðirnar eins og Þjóðabandalagið þá: Þær standa ekki gegn þeirri nöktu árásarhneigð sem hér er til umræðu. Þær hafa ýmist  (t.d. í Írak 1991 og Líbíu 2011) beinlínis verið verkfæri hernaðarstefnunnar eða þá setið aðgerðarlausar, og þegjandi látið NATO eða Bandalag viljugra fara sínu fram.

Hafi nokkurn tíma verið tilefni til að andæfa þessum morðingjum heimsins þá er það nú. Kurteisleg tilmæli Sigmundar Davíðs til Obama um að „leita friðsamlegra lausna“ er miklu betri en stuðningur við hernaðaraðgerðirnar en missir samt marks af því talað er við ásrásaraðila. Stríðið í Sýrlandi hefur frá upphafi verið stríð vestrænt studdra innrásaafla gegn Sýrlandi. Krafan til Obama og bandamanna hans er: Burt með býfurnar af sýrlandi. Og ef/er árás hefst er skylda okkar: fullur stuðningur við Sýrland.

Tuesday, May 28, 2013

Vestræn hernaðarstefna og við


syria_uprising_2013-03-08.png

Sýrland sem eitt af "öxulveldum hins illa"

Heitustu stríðsátök undanfarinna tveggja ára eru í Sýrlandi. Talið er að 100 þúsund manns séu dauðir í Sýrlandsstríðinu og 1-3 milljónir á flótta. Ásakanir eru nú settar fram um beitingu efnavopna í landinu auk sprengjutilræða og hermdaraðgerða, og áður hefur Obama sagt að einmitt beiting efnavopna sé það "rauða strik" sem - ef farið væri yfir - geti réttlætt íhlutun s.k.. "alþjóðasamfélags" í landið.
Jafnhliða á sér stað mikill vígbúnaður kringum Íran, viðskiptabann og stríðshótanir í garð íranskra stjórnvalda. Það er réttlætt með kjarnorkuáætlun Írana. Ísrael talar einmitt um "rautt strik" sem Íran sé nálægt að fara yfir og megi þá búast við að verða fyrir árás.
Fréttaflutningurinn af efnavopnum í Sýrlandi og kjarnorkuvopnin í Íran gefur sterkadejavutilfinningu. Við höfum heyrt mjög líkar fréttir áður. Þarna eru Vestrænar fréttastofur og vestrænir þjóðarleiðtogar komnir af stað með sama yfirvarp og það sem réttlætti innrásina á Írak árið 2003, en reyndist vera upplýsingar og fréttir framleiddar hjá vestrænum hermálayfirvöldum og leyniþjónustum.
Svíinn Hans Blix fór þá fyrir vopnaeftirliti SÞ og bað alltaf um lengri frest til að kanna málið, en var svo alveg hundsaður. Hann segir nú hiklaust að innrásin hafi byggst á fölsuðum forsendum og verið brot gegn þjóðarrétti.
Nú er starfandi á vegum Mannréttindanefndar SÞ rannsóknarnefnd um stríðsglæpi í Sýrlandsstríðinu. Ein leiðandi kona í nefndinni er hin svissneska Carla del Ponte. Fyrir 10 dögum sagði hún eftirfarandi við blaðið The Independent, "það eru sterkar vísbendingar um að uppreisnarmenn hafi notað efnavopn, en það eru ekki vísbendingar um að stjórnvöld hafi notað slík vopn." (The Independent 6. Maí 2013).
Ef vel er leitað í fréttum má finna upplýsingar um meginatriði eins og þetta, en fréttaflutningur í þveröfuga átt er hins vegar miklu fyrirferðarmeiri og háværari. Sá fréttaflutningur lýsir átökunum í Sýrlandi sem hluta af "arabíska vorinu" þar sem friðsamir mótmælendur mæta þungvopnuðum her landsins og lögreglu. Það rímar hins vegar illa við þá staðreynd - sem líka heyrist stöku sinnum - að uppreisnaröflin hafa drepið þúsundir, jafnvel tugþúsundir sýrlenskra hermanna.
Spurning: Hverjir BERA UPPI UPPREISNINA Í SÝRLANDI? Það hefur lengi verið kunnugt að kjarninn í hersveitum uppreisnaraflanna, bæði herskáustu og árangursríkustu sveitirnar, tilheyra íslamísku samtökunum al Nusra.
Ein mikilvæg staðreynd í málinu sem hefur lengi heyrst á litlum hliðarfjölmiðlum birtist svo í apríl sl. í ýmsum meginstraumsfjölmiðlum, nefnilega að þessi samtök, AL NUSRA, ERU HLUTI AF AL KAÍDA. Ég nefni í því sambandi einn helsta sérfræðing CNN í málefnum Miðausturlanda, Peter Bergen, og einnig franska blaðið Le Monde sem er ein mikilvægasta málpípa frönsku ríkisstjórnarinnar.
Þetta hljómar ólíkindalega í eyru sem lengi hafa verið fóðruð á því að Bandaríkin og NATO hafi farið í sitt heimsstríð, stríðið gegn hryðjuverkum, með samtökin Al Kaída sem helsta skotmark. Það að Al Kaída skuli bera uppi uppreisnina gegn Assad á samt ekki að koma alveg á óvart þeim sem hafa fylgst sæmilega með átökum við Miðjarðarhaf undafarið. Það rifjar upp Líbíustríðið. Einnig þar voru það íslamistar, og m.a. hópar tengdir Al Kaída, sem báru uppi uppreisnina gegn Gaddafí og fengu vopnastuðning frá helstu fylgiríkjum Vesturveldanna meðal araba, Saudi Arabíu og Qatar og síðan þann stuðning úr lofti frá NATO sem reið baggamuninn.
Þetta er sem sagt sú uppreisn í Sýrlandi sem lýst er í fréttum sem uppreisn lýðræðissinna en eru skærur og hermdarverk íslamskra trúarhópa sem eru tilbúnir að beita vopnum fyrir málstað sinn. Þetta er uppreisn innan gæsalappa. Taka verður fram að mjög mikilvægur þáttur í þessari s.k.. uppreisn er útlendingar. Það kemur fram á ýmsum fréttastofum að þúsundir erlendra jihadista munu vera í Sýrlandi til að berjast við Assad-stjórnina, flestir frá Mið-Austurlöndum og Norður Afríku en einnig eru nokkur hundruð frá Evrópu1.
Önnur spurning: Hverjir STANDA Á BAK VIÐ uppreisnaröflin í Sýrlandi? Það er á allra vitorði að uppreisnaröflin eru vopnuð af traustustu fylgiríkjum Bandaríkjanna meðal araba, Qatar og Saudi Arabíu, rétt eins og var í Líbíustríðinu. Uppreisnarsveitirnar eiga sér ennfremur bækistöðvar og aðstöðu í eina fullgilda NATO-landinu við landamæri Sýrlands, Tyrklandi. Þann 19. mars mátti lesa eftirfarandi á CBS-news:
[Stavridis] yfirmaður bandarísku herstjórnarinnar í Evrópu sagði að NATO stæði að áætlun um mögulega hernaðaraðgerð í Sýrlandi og að bandarískar hersveitir væru undirbúnar ef kall kæmi frá SÞ og aðildarlöndum NATO… og ennfremur að mögulegar leiðir til að styðja andspyrnuöflin í Sýrlandi, leiðir sem gætu bundið enda á þráteflið í landinu væru nú kannaðar af aðildarríkjum.
Bakhjarl uppreisnarinnar er sem sagt tvíeykið Bandaríkin og NATO. Þriðji aðilinn er Ísrael sem hefur nú um hríð gert beinar loftárásir á Sýrland. Af þessu samanlögðu sést að það er meira en hæpið að tala um stríðið í Sýrlandi sem uppreisn eða borgarastríð. Þetta er ein tegund innrásarstríðs, stríð vestrænna stórvelda gegn fátæku þjóðríki, innrás sem ennþá er aðallega háð gegnum leiguhermenn og staðgengla.
Eftir lok kalda stríðsins er aðeins eitt risaveldi í heiminum, risaveldi sem fyrir vikið fer mjög sínu fram. Bandaríkin og NATO hafa farið með æðsta vald í alþjóðastjórmálum. Þetta er enn fremur sú tvíeining sem staðið hefur á bak við öll helstu stríðsátök í verölinni eftir lok kalda stríðsins, ég endurtek, ÖLL HELSTU STRÍÐSÁTÖK í veröldinni. Og í Mið-Austurlöndum er svo óhætt að bæta við þriðja aðilanum, Ísrael, svo úr verður æðstráðandi þríeining í málefnum þessa svæðis: USA NATO og Ísrael.
Það var George W Bush sem kom með heitið "öxulveldi hins illa" í framhaldi af atburðunum 11. September, og nefndi Írak, Íran og N-Kóreu. Hann sagði orðrétt: "States like these constitute an axis of evil". Sendiherra hans hjá SÞ, John Bolton, bætti skömmu síðar við þremur ríkjum til viðbótar á listann: Kúbu, Líbíu og Sýrlandi. Í þessum 6 landa hópi eru sem sagt 4 lönd í M-Austurlöndum: Írak, Íran, Líbía og Sýrland. Hvernig svo sem atburðirnir 11. september eru til komnir skópu þeir ný skilyrði í alþjóðastjórnmálum. Með þeim bjuggu Bandaríkin sér til aðstæður sem gerðu mögulega stóraukna hörku í viðskiptum við þessi "illu öxulveldi" og öll óhlýðin ríki.
Tveimur mánuðum eða svo eftir 11. september, þegar innrás í Afganistan var nýhafin, var Wesley Clark - sem hafði verið yfirhershöfðingi NATO í Kosovo-stríðinu - staddur í hermálaráðuneytinu í Washington. Hann skrifaði nokkrum árum síðar:
"...í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan." (Wesley Clark, Winning Modern Wars, bls. 130)
Wesley Clark áleit að með 11. september hefði átt sér stað valdarán í Bandaríkjunum sem og þetta valdarán snéri herforingjanum fyrrverandi til ákveðinnar andstöðu við Bush-stjórnina. Í ræðu í október 2007 sagði hann um þessa áætlun að markmið hennar væri að SKAPA UPPLAUSNARÁSTAND (destabilize) í umræddum löndum og gegnum það ætlaði risaveldið að ná þar yfirráðastöðu.
Hvort sem hér var um valdarán að ræða eða ekki er ljóst að Obamastjórnin hefur haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var undir Bush. Munurinn var einkum sá að Obama tókst betur - m.a. í Afganistan og Líbíu - að fylkja Vesturveldunum á bak við sig en Bush hafði tekist. Í stjórnatíð Obama hefur samstaða Bandaríkjanna og ESB-veldanna styrkst og hlutverk NATO í stríðsrekstrinum aukist mjög á kostnað einhliða aðgerða Bandaríkjanna.
Stjórnlistin sem NATO fylgir er einfaldlega sú að viðhalda og styrkja hnattræna stöðu Bandaríkjanna og Vesturveldanna. Baráttan fer fram í öllum heimshlutum, og hún minnkaði ekki heldur harðnaði mikið eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins. Eftir kalda stríðið hefur ákveðin brennipunktur þessara átaka verið í Miðausturlöndum, að hluta til er það vegna hinna miklu olíuauðæva þess svæðis. Önnur ástæða er sú að þetta var svæði þar sem áhrif gömlu Sovétríkjanna voru veruleg, og við brottfall þeirra skapaðist þar valdatóm og ný færi sóknar fyrir Vesturveldin.
Málið er afskaplega einfalt á teikniborðinu, búinn er til listi og krossað yfir nöfn þeirra ríkja þar sem ekki sitja ásættanlegar ríkisstjórnir að áliti Vesturveldanna. Krossinn þýðir "valdaskipti nauðsynleg", valdaskipti með illu eða góðu. Þegar Clark heimsótti Pentagon 2001 var krossinn yfir 7 ríkjum. Framkvæmdin er auðvitað flóknari. Hún hefur falist í því að þjarma að þessum ríkjum jafnt og þétt - með diplómatískri einangrun, með viðskiptaþvingunum, með því að kynda undir innri ólgu - ekki síst með því að beita trúardeilutrompinu svokallaða - og loks með beinum innrásum í löndin.

Taflið um heimsyfirráð

"Hernaðarstefnan er tímaskekkja, leifar af kaldastríðshugsun" er nokkuð sem friðarsinnar segja oft. Það er mikill og hættulegur misskilningur. Hernaðarstefnan er grundvallarþáttur í keppni heimsveldanna um áhrifasvæði, hún er grundvallarþáttur kapítalískra stjórnmála.
Eftir lok kalda stríðsins hafa USA og NATO eignast nýja andstæðinga. Eftir aldamótin hefur það orðið æ skýrara að strategískur höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og NATO er hið nýja efnahagsveldi, Kína. Kína á sér nokkra mikilvæga bandamenn. Sá mikilvægasti er Rússland og Íran er líklega númer tvö. Bandarísk herstjórnarlist beinist að því að einangra og veikja þessa andstæðinga. Bandaríkin og bandamenn þeirra leggja slíka megináherslu á að kyrkja stjórn Assads í Sýrlandi af því sú stjórn er nú orðið eini bandamaður Írana (og þar með Kínverja) í Miðausturlöndum. Til að einangra Íran og koma þar á valdaskiptum er nauðsynlegt að losa sig við Sýrland fyrst.
Herskáasti gerandi á vettvangi alþjóðastjórnmála nútímans er NATO-blokkin, sem er jafnframt langsterkasta hernaðarblokk okkar daga. Ástæða árásarhneigðarinnar er einkum sú að þessi blokk er efnahagslega á undanhaldi. Hernaðarlegir yfirburðir eru þess vegna hennar helsta tromp. Stríðin í Írak, Afganistan og Líbíu og umsátrið um Íran snúast ekki um lýðræði og harðstjórn. Þau snúast um olíu. Ekki bara það, einnig um að tryggja vestræn yfirtök á mikilvægum svæðum og halda andstæðingunum frá. Stærsti olíuseljandi til Kína er Íran. Og í Líbíu hafði fjöldi kínverskra fyrirtækja fjárfest, ekki síst í gjöfulum olíuiðnaði landsins. NATO gerði innrás og þar með urðu Kínverjarnir að draga sig út úr því landi. Kína er orðinn stærsti viðskiptaaðili Afríku á meðan markaðsaðild vestrænna auðhringa dregst þar saman. Kína fjárfestir þar líka meira en nokkurt annað heimsveldi. Svarið við því er AFRICOM, sem er skammstöfun fyrir Afríkuherstjórn Bandaríkjahers. Obama ætlar að senda 3000 hermenn til Afríku á þessu ári og áformar að senda herlið inn í 35 Afríkulönd á næstu árum. Sem sagt eins og ég sagði: efnahagslegt undanhald er vegið upp með hernaðarlegri sókn.
En heimsvaldastefnan fer óhjákvæmilega fram undir FÖLSKU FLAGGI. Hún getur ómögulega sagt opinskátt að hún heyi stríð vegna olíuhagsmuna og til að tryggja aðgang að auðlindum vítt um lönd eða að hún berjist um markaði og áhrifasvæði við Kína og önnur heimsveldi. Ekki er heldur hægt með góðu móti að segja að andstæðingurinn sé af óæðri kynstofni eins og í nýlenduhernaði 19. aldar.
Á 20. öld var kommúnisminn hið stóra skálkaskjól. Hann var gerður að grýlu sem réttlætti íhlutanir heimsvaldasinna um allan heim. Í upphafi 21. aldar var kommúnisminn nær horfinn um sinn og nú varð að tilreiða boðskap heimsvaldastefnunnar öðru vísi.
Yfirskriftir hernaðaraðgerða Bandaríkjanna og NATO hafa undanfarna tvo áratugi einkum verið tvenns konar. Annars vegar s.k.. "stríð gegn hryðjuverkjum". Hins vegar eitthvað sem kallast "mannúðarinnrásir" í einstök þjóðríki undir yfirskyni "skyldunnar til að vernda" borgara þess ríkis. Í tengslum við þetta beitir heimsvaldastefnan flóknum aðferðum til að vinna jarðveginn fyrir innrásir. Ég ætla að nefna þrennt í því sambandi 1) sívaxandi hlutverk vestræns leyniþjónustunets, 2) beiting s.k.. "hryðjuverkaógnar" sem er skipulega notuð og skipulega ræktuð af heimsvaldasinnum 3) trúardeilutrompið sem hefur reynst árangursríkt gagnvart því markmiði sem Wesley Clark nefndi að skapa upplausnarástand í ríkjum sem eru í ónáð, 4) hin mikla spunavél ráðandi vestrænna fréttastofa sem heimsvaldasinnar hafa full yfirráð yfir og býr hún til þá heimsmynd sem réttlætir hernaðarstefnuna.
Ekki er tóm til að fara skipulega í þessi atriði. Ég vil þó staldra aðeins við fyrirbærið Al Kaída. Þetta er dularfullur og herskár flokkur íslamista, nánar tiltekið hreyfing af grein salafista á meginstofni sunnímúslima. Flokkur þessi varð til í leynilegum en afgerandi tengslum við bandaríska leyniþjónustu í stríði Afgana við Sovétmenn á 9. áratugnum. Síðan þá hafa samtök þeirra verið gegnumsmogin af vestrænum flugumönnum og komið afar víða við.
Al Kaída hafa í sannleika reynst fjölnota verkfæri fyrir heimsvaldastefnuna, hálfgert undratæki. Það er ýmist þannig að starfsemi þessara vígahópa - skærur þeirra og hermdarverk - skapa heimsvaldasinnum tilefni og YFIRVARP TIL VOPNAÐRAR ÍHLUTUNAR í ákveðnu landi eða þá að vígahóparnir eru þvert á móti STAÐGENGLAR OG HANDLANGARAR vestrænna heimsvaldasinna í því að skapa upplausn og grafa undan stjórnvöldum í ákveðnu landi sem heimsvaldasinnar hafa sigtað út til "valdaskipta". Hryðjuverkamaður Al Kaída er sem sagt ýmist skotmaður heimsvaldasinna eða skotmark þeirra - og jafn nytsamlegur í báðum hlutverkjum.
Í framhaldi af 11. september var fyrri útgáfan mest notuð, innrás gerð í lönd til að uppræta hryðjuverkastarfsemi. Dæmi um það voru Afganistan og að nokkru leyti Írak. Í Afríku er þessi útgáfa t.d. notuð í Sómalíu og nú síðast í Malí. Seinni árin hefur þó hin útgáfan verið stöðugt meira notuð, þar sem hinir herskáu jihadistar vinna sjálft verkið fyrir heimsvaldasinna sem þurfa bara að sjá þeim fyrir vopnum og e.t.v. aðstoða þá úr lofti. Þannig var það í Líbíu þar sem íslamistar, m.a. Al Kaída, báru uppi landhernaðinn og voru óspart studdir af NATO-ríkjunum. Eldra dæmi er úr Kosovostríðinu þar sem hryðjuverkaher íslamista, s.k.. Frelsisher Kosovo, var í svipuðu hlutverki sem framlengdur armur CIA og NATO.
Í Sýrlandi stendur sterk arabísk þjóðernis- og þjóðfrelsishyggja gegn heimsvaldastefnunni. Samt eru aðstæður þar að sumu leyti heppilegar fyrir utanaðkomandi heimsveldi sem vilja skapa upplausnarástand. Konungsfjölskyldan er af trúarhópi alavíta sem standa nær síamúslimum en sunní og eru auk þess í bandalagi við síamúslimana í Íran, á meðan meirihluti þjóðarinnar er sunnímúslimar sem á margan hátt hafa verið kúgaðir. Við þessi skilyrði er rökrétt aðferð heimsvaldasinna að beita TRÚARDEILUTROMPINU eins og mögulegt er. Það er hluti af nýjum áherslum heimsvaldasinna og sést m.a. á óvæntum en greinilegum vinskap Bandaríkjanna og Múslimabandalagsins í Egyptalandi. Múslimabandalagið hefur t.d. beðið NATO og "alþjóðasamfélagið" um íhlutun í Sýrlandi.
Trúardeilutrompinu í Sýrlandi er beitt á þann hátt að hópum herskárra sunnímúslima eru fengin vopn og aðrir slíkir eru kallaðir til frá öðrum múslimalöndum. Útkoman er alla vega sú að helsta haldreipi Bandaríkjanna og NATO á vígvöllunum Sýrlands er Al Kaída. Sú nöturlega staðreynd sýnir svo ekki verður um villst að hin vestrænu afskipti snúast ekkert um lýðræði og mannréttindaást. Öll meðul sem stuðla að "valdaskiptum" eru jafngóð, öll meðul sem þjóna gráðugum vilja heimsvaldasinna eru jafn góð.
Kostnaðurinn af stríðsrekstri Vesturveldanna er ógurlegur svo ekki sé meira sagt. Samt er hann alls engin sigurganga. Stríð þeirra í Afganistan virðist ekki ætla að vinnast þrátt fyrir þátttöku flestra Evrópuríkja í því auk Bandaríkjanna. Og stríðið í Sýrlandi, háð af íslamískum staðgenglum og leigugerjum studdum af Vesturveldunum, hefur sömu leiðis gengið illa upp á síðkastið með dvínandi bjartsýni um skjótan sigur.
Þessi beiting trúardeilutrompsins hefur ennfremur ýmsar ófyrirséðar hliðarverkanir. Dæmi um það er hvernig stríðið í Sýrlandi flæðir nú aftur yfir landamærin til Íraks og veldur leppstjórn Vesturveldanna þar ómældum vandræðum.
Sem sagt: Eins og oft áður er það samkeppni heimsvaldablokka sem veldur stríðshættunni. Rétt eins og á 4. áratug síðustu aldar er það þó fyrst og fremst ein blokkin sem beitir hernaðarstefnu til að ná markmiðum sínum. Nú er það blokkin USA/NATO.
Ef Assadstjórnin tapar Sýrlandsstríðinu og fellur innan skamms segir öll reynsla okkur að þá verði ekki langt í árás á Íran. Þess vegna er það svo að von friðarins í Miðausturlöndum er nú helst bundin vopnuðum sveitum Assads. Fyrir marga friðarsinna er það of beiskur sannleikur til að kyngja.

Stuðningur Íslands við vestrænan stríðsrekstur

Ísland hefur almennt enga eigin stefnu í málefnum stríðs og friðar, aða en þá að fylgja NATO. Stefna NATO hefur hins vegar tekið afgerandi breytingum hin síðari ár. NATO er nú hnattrænt bandalag, mjög árásarhneigt bandalag og miklu umsvifameira en nokkru sinni áður. Það er tilbúið til íhlutana hvar á hnettinum sem er.
En frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda er málið einfalt. Herir NATO eru okkar menn. Íslensk stjórnvöld hafa stutt ÖLL helstu stríð Bandaríkjanna og NATO frá lokum kalda stríðsins: Bosníustríð, Kosovostríð, stríðið í Afganistan, bæði Íraksstríðin, Líbíustríðið og nú stríðið í Sýrlandi. Það hefur engu máli skipt hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn Íslands. Auðvitað hefur beint framlag Íslendinga til viðkomandi aðgerða ekki breytt miklu til eða frá. Samt hefur það verið umtalsvert í mannskap og sérfræðistörfum í Kosovo og síðar í Kabúl, m.a. við að annast flugvelli. Það stendur enn, a.m.k. í Kabúl. Mikilvægari er þó pólitíski stuðningurinn.
Þessi lýsing á ósjálfstæði Íslands á hermálasviðinu á reyndar við um miklu fleiri lönd. Hún á m.a. við um ESB-löndin sem nú hafa ÖLL tengst NATO (ýmist með fullri aðild eða aukaaðild). Það kemur fram í Afganistanstríðinu og kom fram í Líbíustríðinu, í báðum tilfellum hefur öll NATO-blokkin komið fram sem ein órofa fylking, sem vissulega er afgerandi breyting frá því sem var kringum innrásina í Írak 2003.

Íslenska friðarhreyfingin

Nú ætla ég að segja ofurlítið um íslenska friðarsinna. Ég held því fram að íslenskir friðarsinnar hafi haldið vöku sinni, látið óspart í sér heyra og sýnt mikinn styrk í baráttunni kringum Íraksstríðið, en framgöngu þeirra í kringum Líbíustríðið og aftur nú í staðgengilsstríði Vesturveldanna gegn Sýrlandi verður helst lýst sem ærandi þögn.
Lof mér að rifja skjótlega upp mótmælin vegna Íraksstríðsins. Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust á Írak 20. mars 2003. Það voru stórir mótmælafundir í Reykjavík í janúar og 14. febrúar og svo á innrásardaginn. Á fundinn 14. febrúar mættu 4000 manns. Einnig voru fundir á Akureyri og Ísafirði. Þá var líka mótmælastaða við bandaríska sendiráðið og síðar við stjórnarráðið á hverjum laugardegi frá janúar og fram í maí. Samhliða þessu voru skrif gegn stríðinu á prenti daglega fyrir augum manna mánuðina fyrir og eftir innrásina.
Svo komu stríðin í Líbíu og í Sýrlandi. Enn hafa engar mótmælaaðgerðir sést vegna þeirra á Íslandi. Skrif og ályktanir SHA vegna Líbíu voru alla vega í lágmarki og engar ályktanir hafa enn birst vegna Sýrlandsstríðsins. Það er freistandi að álykta í þá veru að þetta snerti eitthvað þá staðreynd að á Íslandi hefur setið við völd vinstri stjórn, hvar í eiga sæti nokkrir kunnir herstöðva- og hernaðarandstæðingar. Vinstri stjórnin hefur samt með hefðbundnum hætti íslenskra ríkisstjórna stutt stefnu NATO-veldanna í stríðum þessum. Líklega er óhætt að bæta því á afrekaskrá hennar að hún hafi með samböndum sínum inn í friðarhreyfinguna náð að svæfa hina virku andstríðsbaráttu í landinu.
Rétt er að taka fram að þetta er líka hluti af alþjóðlegu fyrirbæri. Skipuleg andstríðsmótmæli voru gífurleg kringum innrásina í Írak. Í Bandaríkjunum og um gjörvalla Evrópu, og auðvitað víðar. En nú er þessi friðarhreyfing afskaplega veik og víða alveg óvirk. T.d. í Bandaríkjunum veslaðist hún fljótt upp með tilkomu Obama-stjórnarinnar. Hefur þó Obama aukið framlögin til hermála, aukið hernaðarbrölt Bandaríkjanna vítt um heim enn frekar, þó víða sé það gegnum hernaðarráðgjafa og staðgengilsheri frekar en fjölmennt bandarískt herlið.
Af hverju lyppast friðarhreyfingin niður? Skýringin er væntanlega sú að bandaríska auðvaldið setti upp nýtt andlit og nýjan talanda með nýjum forseta. Eftir það tókst því miklu betur en áður að matreiða og bera á borð hernaðarstefnu sína. Nú heita stríðin "mannúðaríhlutanir". Obama fær friðarverðlaun Nóbels fyrir. Eining Vesturlanda að baki honum er órofa, og eftir að ESB-ríkin hafa stóraukið stríðsþátttöku sína innan NATO fær ESB friðarverðlaun líka. En svo er að sjá að þessi lystaukandi framreiðsla stríðanna hafi dugað til að margar friðarhreyfingar ætu hana líka.
Ég slæ því fram í lokin að öll friðarbarátta verður ómarkviss og raunar marklítil ef hún tengist ekki skipulegri og upplýstri andstöðu gegn heimsvaldastefnunni.

(flutt á fundi MFÍK 17. maí)

Saturday, March 9, 2013

Og þar með eru öll ESB-ríki orðin þátttakendur í NATO



Öll ríki ESB nema eitt eru ýmist með fulla aðild eða aukaaðild að NATO. Undantekningin er Kýpur. En ekki lengi úr þessu. Með stjórnarskiptum nú þegar Anastasiades forseti tekur við af Christofias sækir Kýpur um aukaaðild að NATO.

· Evrópuvinstrið heldur því lítt á loft, en nánasti bandamaður ESB er Bandaríkin. Bandaríkin og ESB mynda efnahagslega, pólitíska og hernaðarlega blokk – köllum hana bara Blokkina, enda hefur hún lengi  verið mesta valdasamstæða heims. Hernaðararmur hennar nefnist NATO.

· Blokkin stækkar. Í heimsvaldataflinu mikla á árunum eftir fall Múrsins hafa tvö ferli gengið samhliða yfir Evrópu: Stækkun ESB og stækkun NATO. NATO hefur oft verið skrefi á undan, en stærsti skammtur Austur-Evrópuríkja gekk þó samtímis inn í samböndin tvö, árið 2004.

· Samstarfsþátttaka eða aukaaðild að NATO – svonefnt „Samstarf um frið“ (Partnership for Peace) – var stofnsett að frumkvæði Bandaríkjanna árið 1993. Yfirlýst markmið þess var að skapa traust í samskiptum NATO og Evrópuríkja við fyrrum Sovétríkin.

· Í reynd er þessi samstarfsþátttaka biðsalur eða forgarður að NATO. Öll ríki gömlu Austur-Evrópu (vestan fyrrum Sovétríkja) og flest ríki Balkanskagans auk Eystrasaltsríkjanna (innan fyrrum Sovétríkja) hafa fyrst gerst aðilar að þessu „samstarfi“ og svo fullir aðilar að NATO. Balkanríki sem ókomin eru inn eru á leiðinni inn.

· Því fylgja skyldur að vera í liði Blokkarinnar.  Dæmi: Öll ríki ESB nema dvergríkið Malta – og hingað til Kýpur – taka þátt í hernaði NATO í Afganistan. Nú mun Kýpur einnig þurfa að senda lið í hernað NATO.

· „Samstarf um frið“ er líka hernaðarlegar þjálfunarbúðir. Samstarfsþátttaka í NATO innber að viðkomandi lönd bjóða NATO til heræfinga hjá sér og taka þátt í hernaði bandalagsins. Til dæmis, Svíðþjóð og Finnland  hafa kallað sig „hlutlaus ríki“ en eru það ekki lengur og stunda heræfingar með NATO á eigin landi og hafa tekið þátt í hernaðinum í Afganistan og Líbíu. Almenningur í þessum löndum ekki spurðar um þetta enda vitum við Íslendingar að hermál eru hafin yfir lýðræði. Eins og allt hjá NATO er „Samstarf um frið“ öfugmæli.

· Önnur undirdeild eða forgarður að NATO eru sk. „Miðjarðarhafssamskipti“ (Mediterranean  Dialogue). Sú deild bandalagsins er fyrir Miðjarðarhafsríki utan Evrópu. Árið 2010 var svo komið að öll ekki-evrópsk ríki sem strönd eiga að Miðjarðarhafi voru komin í þessa deild nema Líbía, Sýrland og Líbanon. En sjálfstæð utanríkisstefna skal ekki liðin og því síður það að vera í „vitlausu liði“. Blokkin setti því kross yfir þessi þrjú lönd sem þýddi „valdaskipti“. Síðan hefur verið gengi í það verk. Full yfirráð yfir Miðjarðarhafi hafa mikla hernaðarlega þýðingu fyrir Blokkina, og í því samhengi verður að skoða innkomu Kýpur til þátttöku í NATO.

· Mikilvægur þátttakandi í „Miðjarðarhafssamskiptum“ er Ísrael. Í fyrradag var Shimon Peres Ísraelsforseti í heimsókn í höfuðstöðvum NATO í Brussel og ræddi við Rasmussen um Mið-Austurlönd. Hann hlóð þar lofi á sambandið og sagði „We feel part of NATO although we are not members of NATO“ (Okkur finnst við vera hluti af NATO þó við séum ekki meðlimir).

· Blokkin USA/ESB er á undanhaldi á efnahagssviðinu þar sem aðalkeppinauturinn, Kína, sækir fram. Blokkin veðjar þess vegna á hernaðaryfirburði sína. Ummerkin eru nokkur „heit stríð“ – í fyrrum Júgóslavíu, Írak, Afganistan, Líbíu og Sýrlandi – og fleiri „misheit stríð“ – í Malí, Sómalíu, Kongó, Pakistan, Jemen og víðar. Alls staðar stendur Blokkin að baki, ýmist með beinni þátttöku eða gegnum staðgengla. Þessi nýju nýlendustríð eru norðuramerísk-evrópsk stríð. Hernaðarstefna Blokkarinnar verður þá fyrst skiljanleg þegar hún er skoðuð sem barátta fyrir heimsyfirráðum. Sókn NATO sýnir að það markmið er ekki bara óljós draumur heldur áætlun í örri framkvæmd. 

Saturday, November 10, 2012

Veldið stefnir á heimsyfirráð

(Birtist á Gagnauga.is 21. mars 2012)


Það má kalla hana Veldið, heimsvaldablokkina miklu sem sameinast hernaðarlega í NATO. Þetta er gamla risaveldið, USA, með nánustu bandamönnum sínum. Mikilvægasti bandamaðurinn er Evrópuvængur NATO, þ.e.a.s. ESB. Annar er Ísrael, mikilvægur af því hann er reiðubúinn til skítverka.  Alþjóðastjórmál eru nú miðstýrðari en þau hafa verið áður í sögunni. Vladimir Putin orðar það svo að  heimurinn sé einpóla.

Frá falli Sovétríkjanna, 1991, hefur Veldið fært vígstöðvar sínar fram, ár frá ári. Byrjaði á að ráðast á Írak sama ár. Næst var það Balkanskaginn, stríð í tveimur lotum, svo Afganistan, aftur Írak, Pakistan, Líbía. Framkvæmdina hefur ýmist Bandaríkjaher annast eða NATO. Veldið beinir nú sprengjuvörpunum að Sýrlandi og Íran. Ógnandi stríðsöskrin heimta „stjórnarskipti“ – rétt eins og í öllum fyrrnefndu löndunum – heimta að „alþjóðasamfélagið“ grípi inn ella. Veldið skilgreinir sjálft hvar „vandinn“ og „hættan“ liggur. Yfirskin íhlutana er breytilegt: að þessi ríki ógni heimsöryggi, hýsi „hryðjuverkamenn“, hafi gjöreyðingarvopn, skorti „lýðræði“, brjóti lýðréttindi... Sannanir eru einfaldar af því Veldið er sjálft dómarinn með yfirtökum sínum á alþjóðastofnunum og heimspressunni. Veldið ræður einnig yfir heimslögreglunni sem framfylgir svo dómnum.

Málið snýst auðvitað ekki um lýðréttindi og lýðræði heldur um það að koma árum Veldisins fyrir borð á efnahagslegum og hernaðarlegum lykilsvæðum. Þegar Sovétríkin féllu skildu þau eftir pólitískt tómarúm. Þá skapaðist afbrigðilegt ástand á vettvangi heimsvaldastefnunnar. Til að þenja sig út dugði Veldinu þá fyrst í stað að beita hreinkapítalískum aðferðum, valdi markaðarins – auk yfirþjóðlegra stofnana eins og AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnuninni til að tryggja frjálst flæði vöru og fjármagns. Síðar fór Veldið að mæta hindrunum og nýrri samkeppni – af því kapítalísk heimsvaldastefnan felur í sér stöðuga keppni um áhrifasvæði – og þá þurfti æ oní æ að beita hervaldi.


Utanríkisstefna Veldisins er jafnan vafin í málskrúð um lýðræðisást og slíkt en í reynd stjórnast hún af gróðasók. Einstaka talsmenn tala skýrt. Ralph Peters var ofursti og nokkuð áberandi maður innan bandaríska hersins, og starfaði mjög á sviði leyniþjónustu. Árið 1997 skrifaði hann í grein.

Það verður enginn friður. Á hverjum tíma um okkar daga verða átök í mismunandi formum vítt um veröldina. Hernaðarátök munu móta helstu yfirskriftirnar en menningarleg og efnahagsleg átök verða samfelldari og ráða úrslitum. Hið raunverulega hlutverk bandarískra herja er að gera veröldina öruggari fyrir efnahag okkar og opna fyrir menningarleg áhlaup okkar. Í því augnamiði hljótum við stunda allnokkur dráp. www.informationclearinghouse.info/article3011.htm

Veldið á sér nú keppinauta, það er m.a.s. að tapa áhrifasvæðum. Hlutdeild þess á mörkuðum heimsins skreppur saman. Keppinautarnir sækja á. Veldið hefur hins vegar gífurlega hernaðaryfirburði. Þessi blanda, efnahagsleg veiking en hernaðarlegir yfirburðir, skapar hina óskaplegu árásarhneigð. Efnahagskreppan magnar hana enn frekar.

Skæðasti keppinautur Veldisins er Kína, þá Rússland. Hið nýja skotflaugakerfi og herstöðvanet NATO umhverfis Rússland talar sínu máli um það, enn fremur hin mikla flota- og eldflaugauppbygging Bandaríkjanna á Kínahafi. Aðrir andstæðingar Veldisins eru í léttari vigtarflokkum. Stríð Veldisins eru öll háð til að bola keppinautum burt eða tryggja að þeir nái ekki fótfestu. Árásarhneigð  Veldisins verður aðeins skiljanleg ef okkur skilst að það keppir að heimsyfirráðum. Í því ljósi verður að skoða ofuráhersluna sem það leggur á að ná fullri stjórn á hinum olíuauðugu Miðausturlönd. Þar eru nú aðeins tvö lönd eftir – Íran og Sýrland – sem ekki hlýða, lönd sem enn standa gegn Veldinu og/eða styðja keppinauta þess. Því skal nú mætt af fullri hörku.

Aðferðin við að knésetja andstæðingana , „vandræðaríkin“, er þessi: Veldið útnefnir þau ríki sem „hættan“ stafar frá – þ.e.a.s. þau ríki sem ekki hlýða – og safnar liði sínu gegn þeim. Júgóslavía, Serbía, Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, Íran segja söguna (og listinn lengist). Beiting fjölmiðla við stríðsundirbúning og stríðsrekstur verður sífellt háþróaðri og um leið mikilvægari þáttur. Stóru fréttastofur Veldisins eru nánast einráðar um hinn vestræna heim, þær gefa tóninn sem endurómar svo vítt um veröld. Að baki hverju árásarstríði býr vel matreidd lygi. Fréttastofur Veldisins hafa verið margstaðnar að því að framleiða tilbúnar fréttir og búa til furðurlegustu sviðssetningar til að vekja réttar tilfinningar áhorfenda (slíkt hefur verið rækilega sýnt og sannað  hér á Gagnauganu). Tilgangurinn er að skapa stuðning við stríðsreksturinn meðal almennings heima fyrir.

Í aðdraganda beinnar innrásar er beitt margbreytilegum vopnum, auk fréttaflutnings. Innan viðkomandi „vandræðaríkis“ er beitt leyniþjónustu og undirróðri, ögrunar- og hryðjuverkum, vestrænt sinnuðum „frjálsum félagasamtökum“, tölvuhernaði, stuðningi við uppreisnaröfl og hagnýtingu staðbundinna misklíðaefna (dæmi: trúardeilna milli súnní og sía); í stuttu máli: samsærisaðferðum bak við tjöldin. Út á við er beitt viðskiptabanni og refsiaðgerðum auk diplómatískrar einangrunar.

Svo er ráðist á landið. Í öllum þeim stríðum sem hér hafa verið nefnd er um að ræða árásarstríð Veldisins gegn einstöku þjóðríki. Yfirlýst tilefni tengjast oftast innanlandsástandi. Í aðeins einu tilfelli var innrásin sögð vera svar við hernaðarárás, þ.e. árás Íraks á Kuwaít árið 1991, og flest bendir til að þar hafi Saddam Hussein gengið í bandaríska gildru. Í hinum löndunum skyldi innrásin bara steypa vondri ríkisstjórn, innleiða „lýðræði“ og slíkt fínerí. Svo sagði áróðurinn. Í raunheiminum standa eftir lönd í rústum, rænd, snauð og sundurtætt, þó féttastofur Veldisins forðist að tala um slíkt. Eitt fá öll löndin altént í sárabætur: herstöðvar, bandarískar herstöðvar og/eða NATO-herstöðvar. Og þau losna við stimpilinn „vandræðaríki“.

Heimsmyndin sem haldið er að okkur er fals. Ofurvald Veldisins herskáa er hið mikla öryggisvandamál okkar tíma. Ráns- og ofbeldisöflin sitja á hæstu tindum valdsins og dæma lifendur og dauða. Útlitið er því drungalegt. Vonir um heimsfrið eru bundnar því að andstöðuöflin við Veldið nái að styrkja sig frá því sem nú er. Ástandið minnir um margt á ástandið í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar. Hjáseta Rússa og Kínverja í Öryggisráðinu í mars 2011 varðandi aðgerðir gegn Líbíu minnir á friðkaupastefnu Breta og Frakka í München 1938, eftirgjöf til að friða úlfinn. Sem betur fer varð harðari stefna ofan á hjá Rússum og Kínverjum gagnvart Sýrlandi í febrúar sl. Alþýða og þjáðar þjóðir heims verða að tengja sig mönnum eins og Putin, Ahmadinejad og Bashar Assad – mönnum sem Veldið útnefnir sem Hitlera okkar tíma – rétt eins og andfasistar á sínum tíma þurftu að tengja sig manni eins og Churchill sem var enginn fulltrúi alþýðunnar en stóð þó uppi í hárinu á Hitler.