Okkur Svarfdælingum
bættist ansi drjúg viðbót við byggðasögu okkar núna fyrir jólin. Miðaldir í
Skuggsjá Svarfaðardals. Frumkvæðið að ritinu kom frá Sögufélagi Svarfdæla sem
fékk Árna Daníel Júlíusson til verksins. Með því var um leið minnst 100 ára
afmælis Kristjáns Eldjárns, sem hóf sjálfur ritun svarfdælskrar byggðasögu en
lést áður en langt var komið verki, hafði þó skrifað skemmtilegan formála og
lítils háttar drög. Þau drög fékk Árni Daníel til afnota og notar, birtir m.a.
formálann í heild. Árni Daníel takmarkar verkið við miðaldirnar, en lok þeirra
miðast gjarnan við aldamótin 1500 eða þá siðaskiptin um 1550.
Saga auðs og valds
Bókin opnar okkur góða glugga inn í áður huldan heim. Þar birtast útlínur
og megindrættir samfélags. Í misskýrum línum þó. Nafnið er engin tilviljun.
Þarna birtist ekki Svarfaðardalur í ljósi almennra íslenskra miðaldarannsókna
heldur einmitt miðaldir Íslands dregnar upp „í skuggsjá Svarfaðardals“,
þ.e.a.s. í ljósi svarfdælskra fornleifarannsókna og ritheimilda um dalinn frá miðöldum.
Svo bætast við helstu nýju fornleifarannsókinir frá öðrum svæðum í
landinu.
Ég held að þarna fáist fyllri mynd af miðaldasamfélaginu en aðgengileg
hefur verið, a.m.k. kunnug mér sem er leikmaður á þessu fræðasviði. Það stafar
af því hvað efnislegar minjar (kuml, merkjagarðar, bæjarhólar, seltóftir,
kirkjugarðar, tímasetning mannvistar og eyðibyggðar) og skriflegar heimildir úr
Svarfaðardal eru miklar og Árni Daníel notar þær vel.
Eins og fram hefur komið hjá höfundi, m.a. hér í Norðurslóð, þá „hverfist
umfjöllunin fyrst og fremst um það hverjir áttu landið, hverjir nutu góðs af
framleiðslunni, hverjir fóru með völdin og þess háttar. Þetta er sem sagt ekki
landbúnaðarsaga heldur saga auðs og valds.“ (Nsl. nóvember 2016) Það mætti líka
kalla þetta þróun stéttaskiptingarinnar í landinu. Það má gagnrýna slíkt
sjónarhorn og segja að það sé þröngt, en vissulega eru þetta grundvallarþættir
í þróun samfélagsins og tilvist fólksins. En kannski er ekki rétt hjá höfundi
að sjónarhornið sé svona þröngt.
Sem alhliða mynd af miðaldasamfélagi dalsins tel ég þó allvíða vanta upp á
að mynd Árna Daníels sé skýr fyrir lesandann. Líklega er ekki kostur á öðru.
Eitthvað vantar upp á alþýðleika í framsetningu til að almennur lesandi fái
ljósa mynd. Vissulega útheimtir miklu meira af höfundi, miklu meiri matreiðslu
textans, að skrifa alþýðlegt rit en t.d. greinaskrif fyrir fræðirit. Texti Árna
Daníels er alls ekki fræðigreinatexti en hefði þó haft gott af meiri vinnu við
að auka alþýðleikann. Þetta er sjálfsagt óhjákvæmilegt í ljósi hins víðfeðma
efnis og þess nauma tíma sem höfundur fékk.
Árni Daníel er varfærinn fræðimaður sem lætur ekki hanka sig á að „hrapa að
ályktunum“. Hann segir stundum að svona og svona „gæti það hafa verið“. Ég veit
að skiptar skoðanir eru meðal fræðimanna um íslenskt miðaldasamfélag, rétt eins
og um nútímasamfélgið. Til að auka gagn og ánægju lesandans af lestrinum hefði
ég hér og þar kosið meiri og ákveðnari ályktanir höfundar. Mér sýnist
heimildagrundvöllur Árna Daníels víðast það traustur að hann beri uppi
ályktanir. Kannski mætti stundum skrifa „líkindi benda til“ í stað þess að
segja „gæti hafa verið“.