Showing posts with label Sádi-Arabía. Show all posts
Showing posts with label Sádi-Arabía. Show all posts

Monday, April 30, 2018

Að hafna olíudollarnum getur kostað innrás

(birtist á fésbók SHA 30. apríl 2018)


Í olíukreppunni snemma á 8. áratug gerðu BNA samning við Sádi-Arabíu. Þau skyldu kaupa olíu sína af Sádum og sjá þeim í staðinn fyrir vopnum (og brátt herstöðvum). Sádar skyldu nota stöðu sína í OPEC til að halda olíuverði niðri og tryggja að öll olía skyldi keypt GEGN DOLLURUM. Olíudollara sína skyldu Sádar (og OPEC-lönd) binda í Bandaríkjunum með kaupum á bandarískum ríkisskuldabréfum. Auk þess: lönd sem kaupa olíu þyrftu þar með að skaffa sér dollara svo að dollarinn varð ríkjandi gjaldmiðill heimsviðskipta. BNA gátu nú safnað skuldum og Alríkisbankinn gat prentað endalaust af dollar án þess að gengi hans félli, vitandi að alltaf er eftirspurn fyrir hendi, og gat þannig fjármagnað ævintýralegan ríkisfjárhallann. Olíudollarinn er hornsteinn undir hnattrænni valdastöðu Bandaríkjanna. Ríki sem hóta að hundsa olíudollarakerfið eru ekki tekin silkihönskum (m.a. Írak, Líbía og reyndar Sýrland). Enda: ef olíudollarakerfið hrynur er hætt við að skuldasprengja BNA springi. Hlustið á grátt gaman Lee Camp:

Sunday, March 4, 2018

Rétt að ákæra Atlanta en meginábyrgð er hjá stjórnvöldum

(birtist á Fésbók SHA 3. mars 2018)


Annars vegar svör Samgöngustofu og hins vegar Samgöngu- og Utanríkisráðuneyta við spurningum um vopnaflutninga hafa verið skóli í undanbrögðum. Til að útskýra af hverju leyfi voru gefin til flutninganna allt þar til í vetur og nú í kringum gerð Kveiks-þáttarins segir Þórólfur Árnason: „..allt hafði verið gert samkvæmt reglum, samkvæmt heimildum og það [ráðuneytið] hafði ekki ástæðu til að grípa inn í – fyrr en núna að þeim finnst með átakasvæðum nálægt Sádi-Arabíu þá beri Utanríkisráðuneytinu að hafna þessum undanþágum.“ Þegar hann var spurður hvort ekki hefði verið ástæða til að rannsaka nánar um áfangastaði vopnafarmanna í ljósi undirritaðra þjóðréttarlegra sáttmála um slíkt sagði hann að það væri „ráðuneytisins að koma breyttum áherslum til skila.“ Ennfremur sagði hann „Utanríkisráðuneytið og samgönguráðuneytið hafa vitað af þessari starfsemi Atlanta.“

Samgönguráðuneyti hins vegar kannast ekki við að hafa fengið beiðni um vafasaman flutning flugrekenda og síðan skrifar samskiptastjóri Samgöngustofu að „ráðuneytunum [hafi] ekki verið gerð sérstök grein fyrir umsóknum einstakra flugrekenda með formlegum hætti“. Báðir aðilar vísa þannig frá sér ábyrgð og benda á hinn.

Nú. Það er gott og mikilvægt að SHA ákæri Atlanta. En Atlanta þurfti í hvert sinn að fá heimild frá íslenskum stjórnvöldum fyrir vopnaflutningi. Þetta voru „a.m.k. 25 skipti“ og leyfið var alltaf veitt þar til í vetur (þar til „í haust“ sagði Þórólfur en þá var það táragasið til Venezúela). Þótt Sádi-Arabía sé ekki skilgreint átakasvæði vissi íslenska Utanríkisráðuneytið vel um þátt Sádi-Arabíu í Jemen-stríðinu og væntanlega einnig um stuðning Sáda við vopnaða andstöðu í Sýrlandi. Endanleg ábyrgð í málinu hlýtur að liggja hjá utanríkisráðuneyti og ríkisstjórn. Því tel ég eðlilegt að ákæra íslensk stjórnvöld fyrir annað hvort fulla viðurkenningu á þessari tegund vopnaverslunar eða a.m.k. vítavert sinnuleysi í málinu.

Íslenska tannhjólið í stríðsvélinni

Íslenska flufélagið Atlanta, sem verktaki Sádí-Arabíska flugfélagsins Saud, hefur flutt vopn frá Búlgaríu, Serbíu og Slóvakíu til Sádi-Arabíu. Hefur flogið a.m.k. 25 ferðir með slíkan farm á undanförnum árum. Það er brot á alþjóðasamningum og SÞ-sáttmálum sem Ísland hefur undirritað, og hafa lagagildi. Stjórnvöld hafa nú hafnað beiðni félagsins um frekari vopnaflutninga til Sádi-Arabíu. Umræðan um málið á þingi og í fjölmiðlum hefur snúist um þetta lögbrot, og er mjög jákvæð sem slík. Ég tel þó að gildi þess sem fram kom í þessum „Kveik“-þætti sé jafnvel enn frekar sú skarpa mynd sem þetta mál gefur af eðli Sýrlandsstríðsins, dæmi sem gegnumlýsir vel gangverk stríðsins.
Þetta eru umtalsverðir vopnaflutningar. Ekki fengust samt þær tölur frá íslenskum yfirvöldum. En Ingólfur Bjarni Sigfússon náði upplýsingum um umrætt flug með hjálp rannsóknarblaðamannasamtakanna OCCRP sem hafa stúderað vopnastrauminn m.a. til Sýrlands. Þar komust menn yfir útflutningsskýrslur frá Slóvakíu yfir vopn sem einmitt voru flutt af flugfélaginu Atlanta. Þar eru m.a. nefndar 2000 eldflaugavörpur, 850 öflugar hríðskotabyssur, 750 sprengujuvörpuskot, 170.000 jarðsprengjur (!) og margt fleira. Og þetta er bara flutningurinn frá Slóvakíu – flutingur frá Búlgaríu og Serbíu er ótalinn. Sömu heimildarmenn staðfesta að viðtakendur vopnanna í Sádi-Arabíu séu „ómerktir pallbílar sem aki farminum burt og ekki inn á næstu herstöð“. Ég sé í heimildum frá OCCRP (sem merkilegt nokk eru samtök styrkt af bandaríska utanríkisráðuneytinu) að CIA er meginaðili í að skipuleggja þessa vopnasölu. Í hjálagðri grein er einmitt vitnað í OCCRP um þess konar flutning vopna frá 9 fyrrum Varsjárbandalagsríkjum til Sádi- Arabíu, Jórdaníu, Arabísku furstadæmanna og Tyrklands fyrir 1.2 milljarðir evra á fimm árum og haft eftir Robert Stephen Ford, sendiherra Bandaríkjanna í Sýrlandi 2011-2014, að „vopnaverslunin er skipulögð af Leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA, Tyrklandi og Persasflóaríkjunum.
Kveikur ræddi við Patrick Wilken vopna- og mennréttindasérfræðing hjá Amnesty International sem þekkir vopnatraffíkina til „uppreisnarinnar“ í Sýrlandi mætavel: „Samkvæmt eftirgrennslan okkar er það mikið magn vopna sem miðlað er af Bandaríkjunum í gegnum austurevrópsk og miðevrópsk ríki og til Sádi-Arabíu og þaðan með ákveðnu vopnadreifikerfi og endar svo í Sýrlandi.“ Ennfremur segir Wilken: „Vopnin sem flutt hafa verið til Sádi-Arabíu eru ekki af þeirri gerð sem herinn þar í landi notar.“
Mikilvægi þessarar frásagnar um Atlanta felst í því að þessi flutningur er dæmigerður og lýsandi fyrir umræddan stríðsrekstur. Þótt Ford sendiherra viðurkenni að CIA standi á bak við slík – stórfelld – vopnaviðskipti eru þau meira og minna í trássi við lög og alþjóðlega samninga. Bandarískir bakmenn – CIA og Pentagon – skipuleggja þessa vopnasölu frá óopinberum vopnasöluaðilum í austanverðri Evrópu í gegnum flókið net skipafélaga og flugfélaga (með almennum flutningavélum, ekki herflutningavélum). Mikinn hagnað er að hafa fyrir viðkomandi flutningsaðila. Kostnaðinn greiða yfirleitt Sádi-Arabar eða önnur fjársterk Persaflóaríki. Þessi viðskipti eru ljósfælin og fara eftir margvíslegum krókaleiðum. Stríð heimsvaldasinna í Miðausturlöndum eru „skítug stríð“ og bakmennirnir vilja almennt ekki láta handarverk sín og fingraför sjást.
Þess vegna er gott að geta vitnað í meginstraumsmálgögn sem öllu jöfnu hafa það meginhlutverk að verja heimsvaldahagsmuni. Í desember sl. birti Newsweek grein, „How ISIS got wapons from the U.S. and usesd them to take Iraq and Syria.“ Þar er fjallað um „ólöggilta“ vopnamiðlun einkum Bandaríkjanna til óopinberra (non-state) aðila, þ.e.a.s. vopnaðrar andstöðu í Sýrlandi, m.a. ISIS, og er í trássi við lög. Einkum er lagt út af vopnabirgðum ISIS sem náðust þegar Sýrlandsher hafði rekið hryðjuverkasamtökin úr borginni Deir Ezzor sl. nóvember. Newsweek skrifar: „...mikill meirihluti vopnanna kom upprunalega frá Rússlandi, Kína og Austur-Evrópu... Bandaríkin og Sádi-Arabía útveguðu mest af þessum útbúnaði án löggildingar, að því er virðist til andstöðuafla. Þessi áframsendi útbúnaður, gerður upptækur hjá liðsveitum ISIS, samanstendur eingöngu af vopnum og skotfærum frá Varsjárbandalagsríkjum, keyptur af Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu í Evrópusambandsríkjum í Austurevrópu.“
Það er meira en tímabært að menn geri sér grein fyrir að óöldin í Sýrlandi snýst ekki um „uppreisn“. Heimsvaldasinnar hafa vissulega löngum lagt sig alla fram við að deila og drottna þar sem finna má þjóðernislegar glufur eða trúarlegar andstæður, en það nægir ekki til að gera innrásarstríð að „uppreisn“. Þetta er ekki heldur „borgarastríð“, heldur staðgengilsstríð háð af fjölþjóðlegum málaliðum. Bakmenn þeirra heimsvaldasinnar kosta þá og hafa dælt í þá gengdarlausu magni vopna frá fyrsta degi. Valdaskiptaaðgerðin mistekst engu að síður af því hana skortir stuðning hjá sýrlensku þjóðinni.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir lýsti á Alþingi vonbrigðum Atlanta-málið og sagði að það „stangast á við utanríkisstefnu sem Ísland hefur verið að mæla með“. Það er ekki nákvæm lýsing. Þáttur Íslands í stríðunum í Miðausturlöndum er vissulega ekki veigamikill í hinu stóra samhengi. En hann er alltaf stuðningur við stríð heimsvaldasinna. Ísland studdi stríð USA og NATO í Afganistan, Írak og Líbíu. Í desember 2012 viðurkenndi Ísland „Þjóðareiningu uppreisnarhópa í Sýrlandi“ sem „hinn lögmæta fulltrúa Sýrlands“ og tók sér stöðu með „uppreisninni“. Og Ísland hefur frá byrjun verið á lista „Fjölþjóðaliðsins gegn ISIS“ sem stjórnað er frá Washington og beinist æ opinskár gegn stjórnvöldum Sýrlands. Og þegar íslenskt flugfélag 25 sinnum fékk leyfi stjórnvalda fyrir vopnaflutningum til Miðausturlanda var það auðsótt enda áfangastaður vopnanna „réttu megin“.

Thursday, June 22, 2017

Katardeilan og klofningur innan sýrlensku "uppreisnarinnar"

(birtist á fésbókarsíðu SHA 22. júní 2017)


Hér er grein frá REUTERS sem greinir erlenda stuðninginn við sýrlensku "uppreisnina" og hvernig Katardeilan virkar kljúfandi á hann. Stuðningur Katar hefur farið á hópa sem standa nálægt Múslimska bræðralaginu og al-Kaida/Nusra, sem kalla sig nú Tahir al-Sham. Þessir aðilar tengjast jafnframt Tyrkjum og starfa mest í Norður-Sýrlandi. Sádar styðja aðallega sömu aðila og CIA (Jaish al-Islam o.fl) sem eru sterkari á suðursvæðinu. Það er ljóst að slæmt stríðsgengi veldur vaxandi klofningi meðal leiguherjanna - nokkuð sem hjálpar Sýrlandsher. Hins vegar stuðlar þetta líklega að auknum beinum hernaði USA-bandalagsins og um leið skýrist æ betur hver er hans raunverulegi andstæðingur.


Í pistli í febrúar sl.vísaði ég í uppfærð plön (eftir „fall“ Aleppo) strategistanna í bandaríska stjórnkerfinu um sundurlimun Sýrlands (í alavíta- tyrkneskan- kúrdískan og súnní- hluta) sem kljúfi allan austurhluta landsins undan yfirráðum Damaskus. Ofannefnd skipting er mjög í samræmi við það. Nýleg fleygsókn Sýrlandshers austur að landamærum Íraks ógnar hins plönum strategistanna. 

Sunday, June 11, 2017

Eldsmatur í "Katar-krísunni"

(Ég deili hér viðtali við Juniad Ahmad sem birtist á The Real News Network 9. Júní 2017 um „Katar-krísuna“. Úr umræðu á fésbók SHA sama dag)


Samkvæmt Junaid Ahmad vakir fyrir þessu bandalagi sem hann kallar „US-Saudi-Israeli-UAE nexus“ að magna deiluna við Írani og vill það þvinga Katar til að slíta sinni orkumálasamvinnu við þá. Og í þinginu í Washington er hafin umræða um að setja aftur refsiaðgerðirnar á Íran. En eldsmaturinn í deilunni sést á því að Tyrkir taka afstöðu með Katar og bjóða þeim bæði mat og hernaðaraðstoð. Þarna er þá samtímis alvarleg deila risin innan NATO (Innan sviga sjást önnur merki um alvarlegar sprungur innan NATO þegar Þjóðverjar draga 260 manna her sinn fráIncirlik-herstöðinni í Tyrklandi)


Ég hef ákveðið á tilfinningunni að þessi klofningur innan fylgiríkja Vestursins í Miðausturlöndum tengist mikið því að stríðin þeirra þar ganga mjög illa. Líbíustríðið gekk „vel“ og varð til að þétta raðirnar og menn fylktu sér fullir bjartsýni á bak við valdaskipta-"uppreisn" í Sýrlandi. En lengi hefur allt gengið á afturfótum í Sýrlandi og líka í Jemen og þá fer samstaðan að bila.

Thursday, May 25, 2017

Trump auðmýktur og hnattvæðingaröflin ráða förinni

(birtist á Fésbók SHA 24. maí 2017)
                                          Bandarísku forsetahjónin í Rýadh

Heimsókn Trumps til Sáda er dæmisaga, skrifuð í skýin. Trump náði kjöri með því að hamast gegn hnattvæðingunni og hernaðarævintýrum USA, þessum "6 billjónum dollara [sem er] sólundað í Miðausturlöndum". Hann ætlaði almennt að hætta "valdaskipta"-æði fyrirrennara sinna, hann sagði "ekkert forgangsatriði" að losna við Assad Sýrlandsforseta og vildi samvinnu við Rússa í því að berjast við ISIS (og á fleiri sviðum). Fyrir skömmu sagði hann líka að Sádar væru "heimsmeistarar í fjármögnun hryðjuverka". Ég hygg að Trump hafi meint alveg slatta af þessu. En bandaríska djúpríkisvaldið ekki. Því ráða hnattvæðingarsinnar. Þeir völdu að berja hann til hlýðni. Og eftir barsmíð í 5-6 mánuði beygði hann sig djúpt í duftið. Þann 7. apríl var Trump kominn í yfirlýstan hernað við Assadstjórnina, og þar með við Rússa. Þegar hann svo skyldi í sína fyrstu utanlandsför var hann sendur einmitt til Sádi-Arabíu (og til Ísraels sem hann gerði líklega af eigin hvötum). Þar gerði hann einn stærsta vopnasölusamning sögunnar og tók þátt í að opna miðstöð gegn terrorisma! Í þakkarræðu sinni hlóð hann lofi á stjórnvöld í Rýadh en réðst á Írani fyrir að "kosta og þjálfa terrorista um heim allan". Umræddum vopnum er einmitt beint gegn Íran og Sýrlandi. Dæmisagan er saga um mikla auðmýkingu og sýnir um leið hverjir ráða í Hvíta húsinu.


Bandaríska hnattvæðingarelítan fyrirlítur Trump og lætur berja á honum. Trump tekur síðan 180 gráðu beygjur þar sem þess er krafist. Hann er bersýnilega ekki sá prinsippmaður að hann taki prinsipp sín fram yfir valdasetu. Mergur málsins er að Trump var einkum kosinn til að hafna stefnu hnattvæðingar og efnahagslegrar frjálshyggju (ekki rasistar að kjósa rasista eins og meginstraumspressan heldur fram) -  en hnattvæðingarsinnarnir sem ráða keyra sitt spor alveg án tillits til þess hver er "maðurinn í brúnni".

Wednesday, April 19, 2017

Fordæmum nýjustu árás Bandaríkjanna á Sýrland!

(Birtist á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 19. apríl 2017)

Vestrænir stuðningsmenn „uppreinsarinnar“ í Sýrlandi vilja einkum ræða það hvort Bashar al-Assad sé góður eða vondur forseti, og vestræn pressa hefur frá 2011 lýst Assad sem mikilli og afbrigðilega kaldrifjaðri skepnu. Ýmsir vinstri hópar og friðarsinnar gangast inn á þessar forsendur og segjast aldrei geta stutt „harðstjóra“ á nokkurn hátt. Slík rökfærsla afvegaleiðir umræðuna. Það er að vísu full ástæða til að benda á að skrýmslismyndin af Assad er pólitískt lituð. Bandaríkin settu Sýrlandsstjórn á listann yfir  „Öxulveldi hins illa“ árið 2001, settu viðskiptabann á landið 2003 og studdu við „uppreisn“ frá 2011 af því stjórnvöld þar voru ekki „vestrænt sinnuð“, ekki með þeim í liði. Nýbirt leyniskjöl sýna raunar að CIA vann að valdaskiptum í Sýrlandi þegar árið 1986. Það má þó fullyrða að Assadstjórnin hefur meira lýðræðislegt umboð en flestar eða allar stjórnir olíufurstanna við Persaflóa sem eru fylgiríki Vestursins í Sýrlandsdeilunni.

Þetta er samt ekki mergurinn málsins. Það er ekkert aðalatriði hvort Assad forseti er mildur eða harður. Aðalatriðið er íhlutun utanaðkomandi afla í málefni Sýrlands. Sérlega alvarlegt er síðasta skref Bandaríkjanna til stigmögnunar Sýrlandsstríðsins þegar þau hafa beint hernaði sínum opinskátt gegn stjórnvöldum Sýrlands. Alþýðufylkingin hlýtur að mótmæla þessu kröftuglega:

Við fordæmum eldflaugaárás Bandaríkjanna á Shayrat flugvöllinn 6. apríl sem inniber stórfellda stigmögnun stríðsins í átt að beinum átökum helstu kjarnorkuvelda heims.

Við mótmælum allri hernaðaríhlutun erlendra ríkja í Sýrland án samþykkis löglegra stjórnvalda landsins, og styðjum rétt Sýrlandsstjórnar til að verja landið fyrir innrásum og einnig staðgengilsherjum studdum utanlands frá.

Nokkrar helstu röksemdir:

a) Þjóðarréttur og sáttmálar SÞ banna ríkjum að hlutast til um innri málefni annars lands. Undantekning á því er aðeins ef um sjálfsvörn er að ræða eða ef til kemur samhljóða ákvörðun Öryggisráðs SÞ um íhlutun. Hvorugt gildir um Sýrland. Þetta bann við íhlutunum bannar hins vegar ekki löglegum stjórnvöldum að biðja um hernaðaraðstoð gegn innri og ytri hættu. Það á við um aðstoð Rússa og Írana við Sýrlandsher.

b) Fordæma verður skefjalausar, síendurteknar valdaskiptaaðgerðir Bandaríkjanna og NATO-ríkja í þessum heimshluta sem vísa til „verndarskyldu“ gegn „harðstjórn“ en valda aðeins ómældri þjáningu, dauða og eyðileggingu.

c) Valkosturinn við Assadstjórnina er ekki lýðræðisleg stjórn heldur kaos og sundurlimun landsins. A.m.k. 2/3 hlutar uppreisnaraflanna í Sýrlandi eru ofstækisfullir íslamistar og örlög Afganistans, Íraks og Líbíu tala skýru máli.

d) Ekki er hægt að berjast gegn Íslamska ríkinu (sem er yfirvarp hernaðar „Alþjóðlega bandalagsins gegn ISIS“ í landinu) og samtímis gegn Assadstjórninni sem er höfuðaflið gegn ISIS. ISIS að sínu leyti er afurð hinnar vestrænu innrásar í Írak sem braut niður samfélagið þar.

e) Það að veikja Sýrland og helst lima það sundur er einnig liður í stórveldaáætlunum Ísraels og Sádi-Arabíu um Miðausturlönd og uppskrift að áframhaldandi stríði og upplausn.

Sunday, October 16, 2016

Clinton og bandarísk yfirvöld hafa alltaf vitað að vinir þeirra fjármagna ISIS og Al Kaída

(birtist á fésbókarsíðu SHA 12. október 2016)
WikiLeaks er farinn að birta tölvupósta John Podesta, kosningastjórna Hillary Clinton, til hennar frá 2014. Í pósti 19. ágúst þ.á. segir hann um ISIS/ISIL og Sýrlandsstríðið: „the governments of Qatar and Saudi Arabia,which are providing clandestine financial and logistic support to ISIL and other radical Sunni groups in the region.“ Rúmum mánuði seinna talaði Joe Biden varaforseti við Harvard-stúdenta, einnig um ISIS og bandamenn USA. Hann sagði að ISIS væri „sköpunarverk bandamanna okkar“ og nefndi sérstaklega Tyrkland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi Arabíu: “They were so determined to take down Assad and essentially have a proxy Sunni-Shia war, what did they do? They poured hundreds of millions of dollars and tens, thousands of tons of weapons into anyone who would fight against Assad—except that the people who were being supplied were al Nusra and al Qaeda and the extremist elements of jihadis coming from other parts of the world.” Það blasir við: Obamastjórnin hefur vitað frá upphafi hvaðan peningarnir streymdu til ISIS og Al Kaída. Hitt skiptir enn meira máli: Hvorki í Sýrlandi né í Jemen né annars staðar gætu Sádar og aðrir olíufurstar staðið fyrir stórstyrjöldum nema hafa til þess öruggan stuðning frá USA.

Friday, January 8, 2016

Vestrið og gerfistríðið við ISIS

(birtist á fridur.is 7.jan 2016)


Vestræn herveldi ráðast nú hvert af öðru inn í Sýrland til að „berjast við ISIS“. Nú er endurvakið það „stríð gegn hryðjuverkum“ sem Bandaríkin og NATO skrifuðu á stríðsfána sína eftir 11. september 2001 og réðust í framhaldinu á Afganistan og Írak. Margt er líkt. Fyrirbærið ISIS er einmitt af sama meiði og fyrirbærið Al Kaída: Islömsk hryðjuverkasamtök af stofni Súnnía. ISIS hétu upphaflega Al Kaída í Írak. Líkt og Al Kaída láta þau nú til sín taka í mörgum löndum í Asíu og Afríku.
Þessi hernaður vestrænna ríkja í Sýrlandi er í óþökk ríkisstjórnar landsins, vestrænir leiðtogar og bandamenn þeirra taka mjög skýrt fram að þeir muni ekki vinna með því afli sem öðrum fremur hefur þó sýnt árangur í að uppræta ISIS á svæðinu, þ.e. Sýrlandsher.
Vestrænar íhlutanir og hryðjuverk hanga saman
Jafnvel í vestrænni fréttaveitu er sú staðreynd nokkuð viðurkennd að íslamskir hryðjuverkahópar og jíhadistar – bæði Al Kaída, ISIS og fleiri slíkir – hafi einkum sprottið og gróið úr innrásum og íhlutunum vestursins á hinu íslamska svæði frá Mið-Asíu til Norður-Afríku eftir að „stríð gegn hryðjuverkum“ hófst. Þetta má staðfesta með því að ganga á röðina.
Írak: Fyrir innrás „hinna viljugu“ 2003 var Al Kaída ekkert afl í Írak. Upp úr innrásinni og hernáminu uxu samtökin úr grasi, hétu fyrst Al Kaída í Írak, svo ISI. Hlutverk þeirra í stríðinu varð að vekja trúarbragðadeilur innan Írak og veikja þar með samstöðuna og viðnámið gegn hinni vestrænu innrás. Hryðjuverkasamtökin fluttu svo meginstarfsemi sína 2011 yfir landamærin til Sýrlands þegar vestrænt studd uppreisn hófst þar, uxu þá eins og arfi á mykjuhaug og urðu smám saman höfuðaflið í þeirri uppreisn. Árið 2014 voru þau orðinn stór, ríkulega útbúinn her og kölluðu sig ISIS/ISIL. Líbía: Al Qaeda var ekki neitt neitt í Líbíu fyrr en með hinni vestrænt studdu uppreisn og lofthernaði NATO gegn landinu 2011. En eftir íhlutunina er landið orðið að miðstöð íslamskra hryðjuverkahópa alls konar sem sendir vopn og vígamenn í allar áttir. Framantalin dæmi gefa skýra mynd: Eftir vestrænar íhlutanir standa viðkomandi lönd í upplausn, sundurtætt af trúardeilum þar sem íslamskir vígamenn gera sig gildandi umfram aðra. Hryðjuverkahóparnir gréru og blómstruðu við þær aðstæður sem ihlutanirnar skópu. Þetta vitum við og þurfum ekki að deila um. Afganistan er aðeins flóknara dæmi. Sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton , viðurkenndi (2009) berum orðum hinn stóra þátt bandarískra strategista í því að skapa Al Kaída og slíka íslamska hryðjuverkahópa þegar hún sagði: „þeir sem við berjumst við núna kostuðum við fyrir 20 árum“ til að berjast við Sovétherinn í Afganistan.https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=xd0fLAbV1cA Í því stríði gegndu þessir íslömsku hryðjuverkahópar mikilvægu staðgengilshlutverki fyrir vestræna heimsvaldastefnu, fjármagnaðir og vígbúnir einkum annars vegar af CIA og hins vegar af Sádi-Arabíu. Í seinna Afganistanstríðinu hafði Al Kaída hins vegar aðeins það hlutverk að réttlæta innrás USA og NATO-veldanna í landið, svo var því hlutverki lokið og þau hurfu að mestu úr sögunni. Í viðtali nýlega viðurkenndi Hamid Karzai – sem var yfirverkfæri Bandaríkjanna og NATO eftir innrásina – að Al Kaída sé kannski mýta og hann, forseti landsins 2004-2014, hafi a.m.k. aldrei séð neinar sannanir fyrir tilvist þeirra í Afganistan. http://www.theguardian.com/us-news/2015/sep/10/hamid-karzai-al-qaida-myth-september-11-afghanistan

Monday, November 30, 2015

Forsetinn um Sáda og ISIS - mjög gott og minna gott

(birtist í Fréttablaðinu og Vísi 27. nóvember 2015)
Ólafur Ragnar Grímsson hefur eftir ódæðin í París varað við afskiptum Sádi-Arabíu af trúmálum á Íslandi, „ríki sem fóstrað hefur öfgakennt íslam og þær sveitir sem hafa lagt til atlögu gegn vestrænni siðmenningu… Þessi ákvörðun erlends ríkis að fara að skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi á sama hátt og það hefur gert vítt og breitt um veröldina… er áminning til okkar Íslendinga að við verðum að hefja nýja umræðu“ og barnalegt sé að leysa megi málið með „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta.“ 

Hann nefndi þó nafn ríkisins fyrst nokkrum dögum síðar: „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem ræktuð hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni öfgafullu útgáfu af íslam.“
Ýmis viðbrögð við þessum viðtölum eru fróðleg. Baldur Þórhallsson prófessor segir að orð forsetans „ali á andúð í garð múslima“. Guðmundur Andri Thorsson skrifar að: „Forseti Íslands mætti minnast þess að hann er líka forseti innflytjendanna… Og það er rangt að taka sérstaklega út eina tegund öfgamanna og segja þá hættulegri en aðra.“ Um þetta segi ég tvennt.
A) Forsetinn er algjörlega maður orða sinna í því sem hann segir um stefnu Sádi-Arabíu. Þá stefnu má kenna við olíuimperíalisma, sambrædda efnahagslega og trúarpólitíska heimsvaldastefnu. Sádar heyja nú blóðugt innrásarstríð gegn Jemen, þeir hafa – ásamt fleiri Persaflóaríkjum, og Tyrklandi – verið helsti bakhjarl hryðjuverkaherja í stríðunum í Líbíu og Sýrlandi. Þeir eru helstu kostunaraðilar, og líka hið hugmyndafræðilega bakland, bæði við ISIS og Al Kaída og þeir standa á bak við hryðjuverkahreyfingar í Keníu, Nígeríu og Malí. 

Þeir ausa peningum á báðar hendur til að styrkja eigin útgáfu af bókstafstrú, loforðið um 135 milljónir til moskubyggingar í Reykjavík er bara lítið en lýsandi dæmi um þetta ágenga „trúboð“: moskur, kóranskólar, bækur og bæklingar sem eiga að treysta efnahagsveldið. 

Ólafur Ragnar gerði skýran greinarmun á íslam og „hinni öfgafullu útgáfu af íslam“ og það er mikilvægt. Ríkistrú Sáda er gjarnan kennd við Wahhabisma eða Salafisma. Sá mannsskilningur og samfélagssýn fótum treður allt það besta í húmanisma síðari tíma, ekki síst í menningu múslima. Hann er eins konar fasismi á trúargrunni sem kallar á alræðislegt, ofbeldisfullt ríkisvald. Hann er blettur á íslam. Það er hættuleg og „barnaleg einfeldni“ að láta hann fylgja með í því sem við eigum að undirgangast í nafni „fjölmenningar“. Heiður sé Ólafi Ragnari að tala skorinort um þetta.

B) En Ólafur sleppti mikilvægri hlið málsins: Að tengja ISIS við vestræna hernaðarútrás til Miðausturlanda, og eins hitt að Sádi-Arabar (þar með ISIS) eru bandamenn USA/NATO og þar með bandamenn okkar. Hann benti á það sem ráð í stöðunni að Bandaríkin, Frakkland og Rússland fari saman í einhvers konar herför gegn ISIS, sem er dauð óskhyggja. Bandaríkin (Bretar áður) og Sádi-Arabía hafa lengi myndað gagnvirkt bandalag: Sádar tryggja Sam aðgang að olíusvæðinu mikla, Sam tryggir Sádum vernd og aðgang að hinum góða félagsskap. Sádi-Arabía er tannhjól í valdakerfi Vestursins, sérstaklega mikilvægt handbendi bandarískrar heimsvaldastefnu.