Showing posts with label lögregluríki. Show all posts
Showing posts with label lögregluríki. Show all posts

Thursday, May 7, 2020

Hugleiðingar um Covid-kreppu

(birtist á Neistum 16. apríl 2020)



                                                    Mynd: Shutterstock
Neistar eru kraftasmár fjölmiðill. Af því Neistar mátu það svo nokkrar fyrstu vikur COVID-tímans að veiki þessi þessi væri fremur heilsufarslegt vandamál en hápólitískt sagði ritið fátt um faraldur þann hinn mikla. En þar sem faraldurinn, og enn frekar viðbrögðin við honum, hefur með undaraskjótum hætti orðið þjóðfélagsmál af slíkri stærðargráðu að yfirskyggir allt annað – og af því að þetta hefðu Neistar mátt láta sér skiljast fyrr – þá gerir ritið sjálfsgagnrýni fyrir (næstum) þögn sína um málið.
Og þar sem Neistar búa ekki yfir (og ekki Alþýðufylkingin heldur) neinni samhæfðri stefnu gagnvart COVID-faraldri eða afleiðingum hans verða hér aðeins settar fram nokkrar lausar athugasemdir, á ábyrgð höfundar, og alls engin alhliða úttekt.


Varð skjótt að djúpri kreppu
Bandaríski seðlabankinn (FED) spáði í marslok allt að 32% atvinnuleysi þar í landi eða 47 milljónum atvinnuleysingja á örðum ársfjórðungi 2020. https://www.cnbc.com/2020/03/30/coronavirus-job-losses-could-total-47-million-unemployment-rate-of-32percent-fed-says.html Til að skilja dramatíkina í þeirri tölu má nefna að atvinnuleysið í Bandaríkjunum á 4. áratugnum – í upphafslandi kreppunnar miklu – varð aldrei meira en um 25%. Haft er nú eftir hagstofum OECD að atvinnustarfsemi í næstum öllum hagkerfum heims dragist saman um 25% á meðan hinar víðtæku rekstrarstöðvanir (lockdown) gilda. Tekjutap í tvo til þrjá mánuði hjá smáfyrirtækjum eða sprotafyrirtækjum leiðir af sér neikvæða spírala gjaldþrota og atvinnuleysis. Og eftir þvísem rekstrarstöðvanir og lokanir dragast á langinn verða slíkar afleiðingar meiri.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu að reikna megi með að 6,3 prósent vinnustunda í heiminum tapist á öðrum ársfjórðungi 2020, sem tilsvarar 195 milljón heilsdagsstörfum. Framkvæmdastjóri ILO, Guy Ryder, segir kórónukreppuna verstu kreppu í 75 ár https://www.ilo.org/global/about-the-ilo/newsroom/news/WCMS_740893/lang--en/index.htm
Samkvæmt svartsýnustu spá sinni fyrir árið 2020 á Íslandi gerir Seðlabankinn ráð fyrir allt að 4,8% samdrætti. Nú þegar hefur Vinnumálastofnun gefið út spá um 14% atvinnuleysi í apríl sem er talsvert hærra hlutfall en var í kreppunni hér á landi á 4. áratug og miklu meira en mesta mánaðaratvinnuleysi eftir fjármálahrunið 2008 (hæst í febrúar 2009, 9,3%). Og nú gerist einmitt það að samfélagslegar lokanir framlengjast með hverri viku sem líður, og neikvæðir spíralar þar með. Að öllum líkindum verður atvinnuleysi í maí verra en í apríl. Og mikið af þessum störfum verður þá varanlega horfið.

Friday, April 11, 2014

Lýðræðið verst í vök

Lýðræði hentar auðvaldinu illa á krepputímum.Þróun ESB er dæmi um það.ESB er þó alls ekki einangrað, mislukkað dæmi eins og ýmsir kjósa að skoða sambandið, heldur er það á margan hátt dæmigert fyrir þróunina á heimsvísu.
Meðan fullvalda þjóðríki með eru rammi stjórnmála gefur það verkalýðshreyfingu og virkri grasrót möguleika til áhrifa. En yfirþjóðlegar blokkir eins og ESB og NATO taka sér æ meira vald. Þær stjórnast af öflugri þrýstihópum: stórveldum Evrópu, fjármálamörkuðum austan Atlantshafs og vestan, Bilderberg-klúbbnum, World Economic Forum, AGS, Heimsviðskiptastofnuninni o.s. frv. Grasrót og smáríki hafa þar harla litla möguleika til áhrifa. Hagsmunir vestræns stórauðvalds sitja fyrir og menn nálgast þar hreint auðræði. Einkennilegt er að sjá yfirlýsta vinstri menn styðja þessa þróun.
Þessi samþjöppun valdsins í Evrópu gildir ekki eingöngu fyrir lönd með fulla ESB-aðild. Hvort sem við Íslendingar innleiðum 2/3 af regluverki ESB gegnum EES-samninginn - oftast án teljandi umræðu á þingi - eða ögn hærra eða lægra hlutfall er það sannanlega grafalvarlegt afsal á fullveldi landsins og þar með lýðræðinu.
Auðurinn þjappast saman ekki síður en valdið, svo nú eiga 85 auðugustu einstaklingar heims jafn miklar eignir og fátækari helmingur jarðarbúa.
Evrópa hefur þróast hratt til tvískiptingar, kjarnasvæði norðan- og vestanvert og svo jaðarsvæði í austri og suðri. Efnahagskerfi jaðarsins verður undir í samkeppninni, þau lönd verða efnahagslegar hjálendur meðan kjarninn, einkum Þýskaland, þróast sem útflutningshagkerfi. Kapítalískur aflsmunur ræður.
Í kreppu síðustu ára í Evrópu hafa jaðarlöndin orðið ofurskuldug. Þá er lýðræðinu og borgaralegum réttindum miskunnarlaust fórnað. Árið 2011 neyddi fjármálafáveldi Evrópu tvo forsætisráðherra, ítalska Berlusconi og gríska Papandreo, til að segja af sér. Berlusconi hafði sagt að Ítalía gæti e.t.v. ekki greitt skuld sína. ESB skipti honum þá snarlega út og setti Mario Monti, bankastjóra í Goldman Sachs í hans stað. Þegar Papandreo ýjaði að því að þjóð hans ætti e.t.v. að fá að segja álit sitt á kreppuráðstöfunum ESB þá ýtti ESB honum til hliðar og setti varaforseta Evrópska seðlabankans í hans stað.„Þríeykið" - Framkvæmdastjórnin í Brussel plús Evrópski seðlabankinn plús AGS - lagði línuna. Þjóðþing voru einskis spurð. Þingræðinu er ýtt til hliðar þegar það hentar ekki.
Í kreppunni miklu upp úr 1930 jókst vægi grasrótarinnar víða í Evrópu smám saman (þar sem ekki ríkti fasismi) einkum vegna framsóknar róttækrar verkalýðshreyfingar og sósíalískra viðhorfa. En vegna sögulegs undanhalds sósíalismans er nú mikill skortur á mótafli í samfélagið gegn hinu óhefta auðræði.  
Lögregluríkið þróast jafnt og þétt bak við tjöldin. Edward Snowen hefur sýnt og margsannað að bandarískar öryggisstofnanir hafa árum saman njósnað um almenning í eigin landi og um heim allan gegnum Microsoft, Google, Facebook m.m. Bandaríska Þjóðaröryggisstofnunin hlerar Angelu Merkel, en Snowden hefur einnig sýnt að breskar þýskar og meira að segja skandinavískar öryggisstofnanir vinna náið með þeirri bandarísku.Þessi lönd halda þó fram eigin lýðræði sem fyrirmynd. Þetta er skýlaust brot á stjórnarskrá landanna, en hún víkur fyrir þörfum auðs og valds.
Í sunnanverðri Evrópu, þar sem kreppan kemur harðast niður hefur ríkisvaldið tekið að skerða atahafnafrelsi verkalýðshreyfingar og virkrar fjöldahreyfingar. Á Spáni er kreppan hyldjúp. Atvinnuleysi fólks innan 25 ára nálgast 60%, sem eðlilega hefur leitt til mikilla mótmæla. Því svarar ríkisvaldið með harðneskjulegum lögum gegn mótmælaaðgerðum. Lögleidd hafa verið grimmilegar fjársektir t.d. við verkföllum og við því að mótmæla í leyfisleysi nálægt þinginu í Madríd.
Þegar kreppan dýpkar og átök heimsveldanna harðna bruggar Vestrið (USA og ESB-veldin) sterkari meðul. Í Sýrlandi beitir það fyrir sig vígasveitum íslamískra terrorista. Í Úkraínu var löglega kjörinni stjórn steypt með dyggilegri hjálp ESB og Bandaríkjanna. Miklu ofbeldi var beitt við stjórnarskiptin. Vestræn pressa lýsir þessu reyndar sem sigri „lýðræðisins" enda voru það vestrænt sinnuð öfl sem komust að. Helstu flokkarnir í nýrri stjórn eru Föðurlandsflokkur Jatsenjúks forsætisráðherra og Júlíu Tímosjenko fyrrum forsætisráðherra og svo fasistaflokkurinn Svoboda. Ekki þarf að fjölyrða um þann síðarnefnda, þar fara nasistar af gamalli gerð. Hinn er flokkur öfgaþjóðernissinna, afskaplega Rússlands-fjandsamlegra. Tímosjenko hefur verið séstakur talsmaður ESB í Úkraínu, mjög vestrænt sinnuð og frjálslynd að því okkur er sagt. En rússnesk leyniþjónusta náði að hlera og leka til fjölmiðla símtali hennar við samflokksmann sinn þar sem hún segir að útrýma beri Rússunum í Úkraínu og breyta Rússlandi í sviðna jörð! Í háborgum valdsins vestan og austan Atlantshafs eru menn sjálfsagt ekkert hrifnir af fasistum. En allt er hey í harðindum og sem sagt: á krepputímum hentar lýðræðið auðvaldinu illa.

Saturday, July 27, 2013

Langur slóði Snowdens


Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 26.7.2013

Mál Edwards Snowdens dregur langan slóða. Afhjúpanir hans sýna að bandarískar öryggisstofnanir njósna um allan almenning í eigin landi. Þær brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns og sýna frelsi fólks og mannréttindum fulla fyrirlitningu.
Snowden-008
Dr. Paul Craig Roberts var varafjármálaráðherra Bandaríkjanna í tíð Reagans en hefur síðar gerst mjög gagnrýninn á kerfið vestur þar. Hann skrifar á vefsíðu sína:
Stjórnvöldin í Washington skortir stjórnarskrárlegt og lagalegt lögmæti. Bandaríkjunum er stjórnað af valdaræningjum sem láta eins og framkvæmdastofnanir þeirra séu hafnar yfir lög og bandaríska stjórnarskráin sé „pappírsrusl" (...) Obamastjórnin líkt og Bush/Cheneystjórnin áður hefur ekkert lögmæti. Bandaríkjamenn eru kúgaðir af ólögmætum stjórnvöldum sem stjórna ekki með lögum og stjórnarskrá heldur með lygum og nöktu valdi (...) Viðbrögð Washington við þeim sönnunum Snowdens að Washington - í fullum blóra við bæði innlendan og alþjóðlegan rétt - njósni um allan heiminn hefur sýnt og sannað hverju landi að Washington setur hefndarþorstann ofar lögum og mannréttindum (...) Ef Bandaríkjamenn sætta sig við valdaránið hafa þeir kyrfilega komið sér fyrir í greipum harðstjórnar.

Ein bomban í uppljóstrunum Snowdens eru vítækar njósnir NSA og bandarískra öryggisstofnana um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess o.s.frv. Þannig líta Bnadaríkin berlega á bandamennina sem sína undirdánugu þjóna sem þarf að hafa eftirlit með.  http://www.guardian.co.uk/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies
En hvað með Evrópustórveldin? Stunda þau hliðstæðar njósnir? Frá byrjun uppljóstrana Snowdens lá það fyrir að sams konar starfsemi er stunduð af breskum öryggisstofnunum í náinni samvinnu við stóra bróður handan hafsins. Hvað um hin ESB-stórveldin? Á fimmtudag sagði Ríkisútvarpið af nýjum uppljóstrunum Der Spiegel sem sýna fram á nána „vestræna samvinnu" á þessu sviði:
„Allt bendir til þess að þýsk stjórnvöld hafi vitað af njósnum bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA. Þá er einnig talið líklegt að NSA og þýska leyniþjónustan, BND, hafi starfað saman við njósnir.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikur vegna persónunjósna bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar. Hefur hún verið gagnrýnd harðlega af jafnt stjórnarandstæðingum, fjölmiðlum og almenningi, fyrir að sýna bandarískum yfirvöldum linkind í málinu.
Blaðamenn þýska fréttatímiritsins Der Spiegel hafa komist yfir gögn sem sýna fram á að þýsk yfirvöld hafi líklegast vitað af njósnakerfi NSA, sem ber nafnið PRISM, og þá er einnig talið líklegt að þýska leyniþjónustan, BND, hafi starfað með NSA við njósnir.
Ljóst er að starfsmenn BND fóru síðast í aprílmánuði til Virginíuríkis í Bandaríkjunum til að sækja námskeið í notkun njósnaforritsins XKeyScore, sem safnar rafrænum gögnum á svipaðan hátt og PRISM. Komi í ljós að þýsk yfirvöld hafi stundað njósnir á sínum eigin ríkisborgurum er það brot á þýsku stjórnarskránni..."
Við sklum draga af þessu þrjár ályktanir. 1) Vestræna blokkin er ein órofa heild. 2) Vestræna blokkin er að verða eða orðin lögregluríki. 3) Edward Snowden er þess vegna andspyrnuhetja í lögregluríki, ekki föðurlandssvikari, og ríki sem virðir mannréttindi (Ísland?) ber að veita honum pólitískt hæli. /ÞH