Showing posts with label sósíalísk bylting. Show all posts
Showing posts with label sósíalísk bylting. Show all posts

Thursday, September 23, 2021

Hvað um Sósíalistaflokkinn?

 

(Birtist á Neistum  8. september 2021)

Ég er sósíalisti. Ég er í Alþýðufylkingunni en hún býður ekki fram í ár. Það gerir hins vegar Sósíalistaflokkur Íslands (SÍ). Flokkurinn hefur náð athyglisverðum árangri með málflutningi sínum. Að íslenskur flokkur sem kennir sig við sósíalisma hafi 8% stuðning eru tíðindi. Maður verður að taka afstöðu til slíks framboðs.

Baráttustefna SÍ

Það er ljóst að við í Alþýðufylkingunni eigum samstöðu með SÍ í mörgum málaflokkum. Mest um vert er að SÍ hefur sett á dagskrá endurreisn verkalýðsbaráttunnar, og komið með stéttahugsun og stéttabaráttu aftur í hina pólitísku orðræðu. SÍ hefur sett fram framsæknar umbótakröfur í mörgum málaflokkum, nefna má húsnæðismál, skattamál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, félagslegar lausnir í stað markaðslausna (afstaðan gegn nýfrjálshyggju er alveg afdráttarlaus) – og flokkurinn kennir sig við sósíalisma. Þess er að vænta að slíkur flokkur sé bandamaður Alþýðufylkingarinnar í stéttabaráttunni oftar en aðrir flokkar.

SÍ heyr kosningabaráttuna af krafti. Það er athyglisvert að hún hefur einkum farið fram á samfélagsmiðlum – og þar er framleiðnin mikil – en smám saman einnig í öðrum fjölmiðlum. Það er ekkert leyndamál, og blasir við, að Gunnar Smári Egilsson er helsti áróðursmaður flokksins. Hann er mælskur og öflugur áróðursmaður, ennfremur býsna glúrinn og skarpur pólitískur greinandi – og skoðar mál mjög oft frá stéttasjónarmiði sem er vissulega kostur á sósíalista.

En það eru göt og eyður í stefnu og störf SÍ. Þar vantar atriði sem hreint ekki má vanta. Raunar er ekki hægt að tala um neina stefnuskrá flokksins, frekar lista aðskildra stefnumála sem lesandinn þarf að raða saman til að fá heildarstefnu. Eftirfarandi gagnrýni beinist fremur að langtímastefnu (eða stefnuleysi) flokksins en stefnu og málflutningi hans í einstökum kosningamálum.

Sósíalismi?

SÍ kallar sig sósíalískan flokk. Allt bendir þó til að hann berjist fyrir umbótum á kapitalismanum fremur en afnámi hans, að stefna hans sé innan ramma kratískra umbóta fremur en byltingarsinnaður sósíalismi. Lítt hefur verið skilgreint hvað felst í þessum „sósíalisma“. Ekki er í neinum stefnuplöggum minnst á sósíalískt þjóðfélag, valdatöku framleiðenda, eign þeirra á framleiðslutækjum, valdaafnám auðstéttarinnar eða slíkt.

Monday, January 21, 2019

Rauðir minningardagar í Berlín

       (birtist á Neistum 16. jan 2019)
        Fulltrúar Alþýðufylkingarinnar í minningargöngu Rósu Luxemburg og Karls Liebknecht í Berlín.
Um miðjan janúar árlega safnast kommúnistar og sósíalistar margra landa saman í Berlín og ganga þar fjöldagöngu til minningar um uppreisn alþýðu, „ófullgerðu byltinguna“, sem brast á í nóvember 1918 en var kæfð með miklu ofbeldi í janúar 1919. Þann 15. janúar það ár voru helstu leiðtogar byltingarinnar, Karl Liebknecht og Rósa Luxemburg, myrt og þúsundir verkamanna í framhaldinu. Þar sem nú er öld liðin frá atburðunum var meira haft við en venjulega í Berlín.

Vésteinn Valgarðsson var þar

Á aldarafmælinu, 15. janúar, birti Vésteinn svohljóðandi fésbókarfærslu:
Í dag er slétt öld frá því hvítliðar/fasistar myrtu Rósu Luxemburg og Karl Liebknecht, aðalleiðtoga þýskra kommúnista, og brutu þar með á bak aftur þýsku nóvemberbyltinguna, ófullgerðu byltinguna. Þessi morð voru framin með vitund og velþóknun Eberts og annarra krata í ríkisstjórn.
Í fyrradag gengu mörgþúsund manns í árlegri minningargöngu um Rósu og Karl, þar á meðal við nokkur frá Íslandi. Þessi árlega ganga er stærsta reglulega samkoma kommúnista í Evrópu, ef ekki heiminum. Gengið er frá Frankfurter Tor, um 4 km leið að minnisvarða sósíalista, þar sem margir frægustu píslarvottar og leiðtogar þýskra sósíalista eru grafnir.
Á laugardaginn var stór ráðstefna sem við fórum líka á. Og á fimmtudag og föstudag fórum við á söguslóðir, Landwehrkanal þar sem Rósu Luxemburg var kastað út í eftir að hafa verið skotin. Ekki er vitað hvort hún var með lífsmarki þá, en það var hún að minnsta kosti ekki þegar hún var slædd upp úr síkinu nokkrum dögum seinna.
Við skoðuðum líka Treptower Park, til minningar um Rauða herinn sem frelsaði Berlín undan nasistunum. Og styttuna af Marx og Engels.
Þetta var góð ferð.“


Sunday, July 8, 2018

Flokkur og samfylking. Ráð Brynjólfs Bjarnasonar



                                                      Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratauga baráttu
Ris og hnig í stéttabaráttunni
Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum... Í harðvítugum verkföllum og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega. Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og inngöngunni í NATO.
Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og hætti afskiptum af stjórnmálum.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu slík umskipti?

Frá verkalýðsflokki til kosningaflokks
Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970:  „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar... einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað 1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega fullnustaður 1968.
Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við stofnuðum til á sjötta áratugnum... Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru ekki nægilega ljós“ (57).
Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli. Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.

Árið 1962
Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt.

Sunday, March 4, 2018

Hnattræn hersjórnarlist og gagnbylting

(birtist á vefritinu Neistum.is 5. febrúar 2018)

Þýddur er hér hluti af stærri grein eftir John Bellamy Foster úr marxíska tímaritinu Monthly Review, 3. hefti 2017, „Revolution and Counterrevolution, 1917–2017“. Þennan kafla um herstjórnarlist heimsvaldasinna og gagnbyltingar undangengin 100 ár er skynsamlegt að lesa í framhaldi bókar Leníns, Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins. Þýðandi
Það var heimsvaldastefnan – ekki í hefðbundnu merkingunni sem spannar alla sögu nýlendustefnunnar [ætti þá frekar að skrifast „heimsveldisstefna“ Þ.H.] heldur tengd einokunarstsigi kapítalismans, eins og V.I. Lenín notaði hugtakið – sem myndaði differentia specifica eða ákvarðandi sérkenni kapítalisma 20. aldarinnar og ákvarðaði þar með skilyrði jafnt byltingar sem gagnbyltingar. Strax á seinni hluta 19. aldar hafði keppnin um nýlendurnar – sem hafði að miklu leyti mótað átökin innan Evrópu allt frá 17. öld – breyst í baráttu nýs eðlis: baráttu á milli ríkja ásamt auðhringum þeirra, ekki fyrir ákveðnum heimsveldissvæðum heldur fyrir hnattrænum yfirráðum í sífellt samþættaðra heimsvaldakerfi.1 Síðan þá hafa bylting og gagnbylting verið samtengdar í kerfinu sem heild. Allar byltingaröldur eftir það – oftast sprottnar upp á jaðarsvæðum þar sem kúgunin er harkalegust, magnaðar af arðráni heimsveldanna – hafa verið byltingar gegn heimsvaldastefnunni og hafa átt í höggi við heimsvaldasinnaða gagnbyltingu, skipulagða af kjarnríkjum heimskapítalismans.2 Það flækti þessa stöðu enn frekar að forréttindageiri verkalýðsstéttarinnar í þróuðum auðvaldsríkjum sýndist þéna óbeint á arðinum sem fenginn var frá jaðarsvæðunum og myndaði „verkalýðsaðal“, fyrirbæri sem Friedrich Engels benti á og seinna var skilgreint fræðilega af Lenín í Heimsvaldastefnunni, hæsta stigi auðvaldsins.3

Saturday, November 10, 2012

Stéttabaráttuflokkar og blóðsuguflokkar


(Birtist á Eggin.is 1. október 2012)

Nýlega voru nokkri róttæklingar norðan lands á fundi. Þar kom fram vilji til að hraða sér að stofna flokk, flokk sem gæti boðið fram í vor. Lögð voru fram nokkur stefnumál fyrir vinstri flokk, yfirleitt góð og gild umbótamál og græn mál, málin sem VG sveik og fleira í þeim dúr. Stefnumál sem fara þó ekki út fyrir ramma kapítalismans. Vésteinn Valgarðsson  segir sig úr VG og segir í úrsögninni að Ísland þurfi sósíalískan flokk. Hann útskýrir þó ekki hvað í því felst, enda greinagerðin stutt..

Ég hélt því fram á fundinum að við þyrftum ekki enn einn „vinstri“ flokkinn heldur byltingarsinnaðan flokk sem a) berst fyrir byltingu, afnámi auðvaldskerfisins (þ.e.a.s. afnámi efnahagskerfis einkaeignar á atvinnutækjunum) og b) berst jafnframt fyrir umbótum innan ríkjandi þjóðskipulags en ekki eftir leið þingpallabaráttu og stjórnarþáttöku heldur setur sér það meginverkefni að leiða og skipuleggja fólk í stéttabaráttunni.

Friedrich Engels skrifaði árið 1884 (í „Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins“) að almennur kosningaréttur gæti aðeins verið mælikvarði á pólitískan þroska verkalýðsstéttarinnar. Það er rétt hjá honum. Borgaralegt þingræði er bærilegra fyrir almenning en nakin kúgun, en þingræðið er dulargerfi, það er hula lýðræðis utan um arðrán og stéttardrottnun. Í því liggur slævandi styrkur þess.

Hugmyndin um þinræðislega leið til alþýðuvalda er blekking. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldinu – her, lögreglu, emættismannakerfi auk þjóðþings – sem er tæki stéttardrottnunar og samofið eignakerfi atvinnulífsins, en ríkið þykist standa fyrir ofan og utan stéttirnar. Þetta ríkisvald verður aldrei vald í höndum fólksins. Hins vegar býr alþýðan yfir valdi. Það er fólgið í samtakamætti, hinu samstillta átaki, hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Marx ritaði: „Einu frumskilyrði sigursins ráða verkamennirnir yfir: mannfjöldanum, en fjöldi er því aðeins afl að hann sé sameinaður í samtökum og láti stjórnast af reynslu og þekkingu. (Marx/Engels, Úrvalsrit II, 215) Alþýðuna vantar stjórnmálaafl sem setur sér þetta hlutverk: „að finna, í samfélaginu sem er umhverfis okkur, öflin sem geta – og, vegna félagslegrar stöðu sinnar, verða – að mynda það afl sem getur svipt burt því gamla og skapað það nýja, og að upplýsa og skipuleggja þessi öfl fyrir baráttuna.“ (Lenín: „Þrjár rætur og þrír þættir marxismans“, Eggin, vefrit um samfélagsmál 25. sept)

Þingpallaleiðin er blekking. Í fyrsta lagi er hún hættuleg. Ef róttækir sósíalistar gerast áhrifamiklir og ógna þjóðfélagslegu valdi og eignum borgarastéttarinnar lætur hún af lýðræðistilburðum og beitir valdi miskunnarlaust. Dæmin eru mörg og blóðug: Indónesía 1965, Grikkland 1945-46 og aftur 1967 og Chile 1973 eru nokkur.

Þar að auki er þingpallaleiðin ekki neinum umbótum til framdráttar. Raunar er besta aðferðin til að drepa hreyfingu kringum ákveðið málefni að gera málefnið að framboðsmáli til Alþingis og flokksmáli, eða beinlínis stofna kringum það flokk.

Nokkur dæmi:
1.     Vakning um kvenfrelsun og jafnréttismál. Þar var mikil hreyfing um og upp úr 1980, með miklu grasrótarstarfi. Eftir að Kvennalistinn eignaðist þingmenn yfirtók hann málefnið, gerðist hefðbundinn þingpallaflokkur, og almennar baráttukonur máttu fara heim og leggja sig. Upp á síðkastið hefur þróun til launajafnréttis mjög hægt á sér eða stöðvast, klámvæðing sótt í sig veðrið o.s.frv.

2.     Samtök um þjóðareign var öflug hreyfing byggð á andstöðu við kvótakerfið, framseljanlegan kvóta o.s.frv. Hún hafði með sér sjómenn og minni útgerðarmenn vítt um land. Árið 1998 var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður um málið. Baráttunni var veitt í þingpallafarveg. Þar með varð þessi andspyrna að flokksmáli sem varð smám saman til að drepa eða gera óvirka þá hreyfingu sem var fyrir hendi í þessu risastóra hagsmunamáli alþýðu vítt um land.

3.     Íslandshreyfingin var hreyfing gegn stóriðjustefnunni sem grasseraði á þenslutímanum upp úr 2000, og andastaðan gegn henni óx líka mjög. Hreyfingin átti sinn hápunkt þegar hún safnaði 15 000 manns í mótmælagöngu niður Laugaveg árið 2006. Þessi hreyfing og málefnið var svo gert að flokksmáli. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna sem flokk og fékk 3% í kosningum 2007. Flokkurinn komst ekki inn á þing og dó þar með. En í raun var það VG sem náði að gera andstöðu við stóriðjustefnuna að flokksmáli sínu. VG var nánast eins máls flokkur þessi ár þegar Kárahnjúkaframkvæmdir voru undirbúnar og framkvæmdar. Flokkurinn tók að sér að stöðva stóriðjustefnu og einkavæðingu í orkugeira m.m. ef hann fengi þingstyrk og kæmist í stjórn – og hann sópaði að  sér fylginu. En var að vanda gagnslaus við að skipuleggja grasrótarbaráttu. Fjöldahreyfingin lognaðist smám saman út af. Síðan fór flokkurinn í ríkisstjórn og stóriðjustefna stjórnvalda hélst lítið breytt.

4.     Í Búsáhaldabyltingunni flæddu íslensk stjórnmál og stéttaátök um stundarsakir út úr hinum löggilta, þingræðislega og snyrtilega farvegi sem valdakerfið hefur veitt þeim í. Almenningur steig fram á sviðið, fólk hegðaði sér allt öðru vísi en venjulega, fór út á götur og torg, fór í samstilltar aðgerðir. Gerði m.a.s. tilkall til valda í landinu. Grasrótarbarátta fór af stað í skuldamálum heimila, Icesave-málum m.m. Enn sem áður vantaði þó stjórnmálaafl sem gat tekið forustu og skipulagt slíka stéttabaráttu fram á við. Það voru hins vegar vinstri kratar og hentistefnumenn sem riðu á bylgjunni í bland við ýmsa aðgerðarsinna sem ekki höfðu neina sameiginlega stefnu. Stjórnmálaflokkurinn Borgarahreyfingin varð til og bauð fram til þings. VG tók Lilju Mósesdóttur í öruggt sæti og fleira búsáhaldafólk neðar. Í komandi kosningabaráttu og áfram færðist öll þungamiðja baráttunnar inn í þingið og almennt búsáhaldalið mátti fara heim og leggja sig.

Þeir þingpallaflokkar sem hér voru nefndir hafa sjálfsagt talið sig vera í andstöðu við ríkjandi kerfi. En þeir haga sér allir eins. Þeir leiða ekki andstöðuna (hvort sem það er skipuleg hreyfing eða óskipuleg ólga) heldur leggjast á hana og sjúga úr henni blóðið. Af því fitna þeir rétt á meðan viðkomandi andstaða/hreyfing er að  tærast upp. Síðan veslast þeir upp sjálfir nema þeir finni aðra andstöðu til að blóðsjúga. Svona virkar þingræðiskerfið – eins og því er ætlað að virka.

Rétt er að taka fram að VG getur ekki lengur kennt sig við kerfisandstöðu. Enginn flokkur fær að fara í ríkisstjórn nema hann ábyrgist að tryggja auðvaldinu ásættanlega arðsemi. Það hlutverk hefur VG gengist inn á. Bless VG.

Við verðum að viðurkenna að hugmyndin um grasrótarbaráttuna, það að „finna, upplýsa og skipuleggja“ mótaflið í samfélaginu stendur enn veikt á Íslandi. Jafnvel vinstri menn sitja mest og mæna á bramboltið og tilburðina á Alþingi – eins og málin ráðist þar. Þar við bætist að lítið hefur enn gerst í því að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu. Á meðan brennur Róm. Kapítalisminn sem á sínum tíma var framfaraskref frá stöðnuðu stigveldi lénskerfis hvílir nú sem ægilegt farg á herðum mannkyns og boðar fyrst og fremst eyðingu. Tíminn æpir á byltingarsinnaðan valkost, á Íslandi sem annars staðar.

Ég mæli ekki gegn þáttöku í þingkosningum. En það getur aldrei verið nema ein hlið starfsins af mörgum og alls ekki sú mikilvægasta. Mér finnst ekki liggja á að stofna flokk, því síður framboðskláran flokk. Eðlilegt milliskref er að stofna hreyfingu eða samtök sem temja sér nýjar aðferðir í pólitísku starfi, í anda þess sem hér hefur verið skrifað. Og eitt verkefni blasir við: Koma verður upp umræðuvettvangi fyrir róttæklinga varðandi það stjórnmálaafl sem beðið er eftir. Þessi grein er lítið innlegg þar í.

Hvernig flokk þurfum við?



(Ræða á ráðstefnu Rauðs vettvangs 11. okt. 2009, lítillega aukin og endurbætt. Birtist á eggin.is 28. okt. s. á.) 

HVERNIG FLOKK ÞURFUM VIÐ? Því verður að svara með hjálp annarrar spurningar: TIL HVERS Á AÐ BRÚKA HANN?
BRÝNASTA VERKEFNIÐ hlýtur að vera þetta: Að hjálpa íslenskri alþýðu að verja sig gegn núverandi árásum, skipuleggja vörnina, og mögulega sókn. Það er ekkert stjórnmálaafl í landinu sem gerir það svo gagn sé að.
EN TIL LENGRI TÍMA? Hvaða framtíðarsýn höfum við? Kannski vitum við það ógjörla en vitum þó að nú er rétti tíminn til að ræða einmitt það. Ég held við vitum líka hvað við viljum ekki.  Ég tel víst að flest okkar hér inni séum sammála um að við viljum ekki auðvaldið. Auðvaldið sem ræður ríkjum, vald peninganna, vald markaðarins, auðræði, altækt vald og alls staðar nálægt eins og guð.