Showing posts with label sviðssett hryðjuverk. Show all posts
Showing posts with label sviðssett hryðjuverk. Show all posts

Tuesday, July 16, 2019

Ögrunaraðgerðir gegn Íran sýna alvöru Bandaríkjanna

(birtist á Neistum.is 20 júní 2019)

„Við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Þetta sagði Paul Wolfowitz þá vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna (síðar varnarmálaráðherra) árið 1991 á fundi með Wesley Clark yfirhershöfðingja NATO. Sjá hér
Sprengjum var skotið á tvö olíuskip á Persaflóa 13. júní, japanskt og norskt, og bandarísk stjórnvöld (og bresk, Ísraelsk, Sádísk m.m.) segja Írana hafa verið að verki. Núverandi átök Bandaríkjanna og Írans birta okkur óvenjulega skýrt um hvað taflið snýst: Um svæðisbundin yfirráð, um hnattræn yfirráð. Það sama og árið 1991. En það ár voru Bandaríkin einmitt að máta sig í hlutverkið „Risaveldið eina“, og flest sýndist mögulegt. Þau eru enn í þessu hlutverki árið 2019. Nú eru tilþrifin hins vegar orðin mjög krampakennd. Eins og við skrifuðum í greininni. „Íran, Miðsvæðið og heimsvaldastefnan“: „Bandaríkin (og Vestrið) eru hnignandi efnahagsveldi sem tapa í efnahagsáhrifum og markaðshlutdeild ár frá ári. Viðbrögð þeirra við þessu verða stöðugt meira einhliða: að beita þeim yfirburðum sem þau hafa: hernaðarmætti og ofbeldi.“ Sjá grein. Ætlun Donald Trump er skýr: „Make America great again“.

 Að útnefna „óvini“ og slá þá niður

Þessa tæpu þrjá áratugi frá 1991 hefur ákveðin mantra verið grundvallaratriði í stjórnstöðvum bandarískrar utanríkisstefnu. Það er listi yfir ákveðin lönd, „öxulveldi hins illa“ eða einfaldlega „óvinaríki“, ríki sem þarf að ráðast gegn, veikja, grafa undan og kalla þar eftir „valdaskiptum“. Hvaða lönd eru á þessum lista? Það eru einfaldlega lönd sem talin eru of óháð vestrænu valdi og eru á hernaðarlega mikilvægum og auðlindaríkum svæðum. Listinn breytist af og til, t.d. ef „valdaskipti“ hafa tekist einhvers staðar og önnur „óvinalönd“ verða mikilvægari. Hann breytist lítt eða ekki þótt vald færist milli demókrata og repúblíkana. Árið 2001 var listinn opinberlega tengdur „hnattrænu stríði gegn hryðjuverkum“ og fyrst og fremst miðaður á hin olíuríku Austurlönd nær.
Íran hefur alla tíð verið ofarlega á listanum (nánar tiltekið frá byltingunni 1979) vegna olíuauðs og andstöðu við vestræna heimsvaldastefnu. En Íran er hlutfallslega sterkt og vel fært um að bíta frá sér. Þess vegna hefur það tafist að BNA og bandamenn legðu í beint stríð við landið. Ennfremur: Íran býður upp á freistandi viðskipti og fjárfestingar. Þess vegna gerist það nú að BNA virðist vera að einangrast í sinni herskáu afstöðu til Írans. Að Bandaríkin skuli samt skora Írana á hólm er ekki merki um að Íran hafi veikst eða Bandaríkin styrkst. Það er fyrst og fremst merki um vaxandi örvæntingu í Washington.

Heimsvaldatafl og ójöfn þróun

Kapítalísku efnahagskerfin, og þar með heimsveldin, þróast ójafnt og sækja fram eða hopa á heimsmarkaði samkvæmt styrkleika sínum. Það er lögmál. Þróun auðvaldsheimsins er enn sams konar og sama eðlis og um og upp úr 1900 þegar Þjóðverjar sigldu upp að og fram úr Bretum og Frökkum í iðnaði en vantaði Lebensraum (eins og Lenín lýsti í bókinni Heimsvaldastefnan). Útkoman úr því varð tvær heimsstyrjaldir. Nú fer líku fram þegar nýtt efnahagsveldi, kapítalískt Kína, þrammar fram á heimsmarkaðsvöllinn. Frá 2013 hefur Kína lýst yfir uppbyggingu „nýja Silkivegarins“ (BRI, Belt and Road Initiative), efnahagsbeltis með háhraðaflutningum á landi og líka á sjó auk vöru- og fjárfestingaflæðis sem samtengja skal Kína og Evrópu og allt svæðið þar á milli. BRI nær nú yfir nærri 70 lönd og 40% af þjóðarframleiðslu heimsins. Mike Pompeo utanríkisráðherra hefur sagt að Kína sé höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og „geo-strategic threat“. Og Íran er lykilhlekkur í Silkiveginum. Sjá nánar
Bandaríkin urðu risaveldi í krafti öflugasta framleiðslukerfis heimsins. Nú hafa þau löngu staðnað sem iðnríki, þau hafa útvistað miklu af iðnaði sínum og hafa ekki lengur það framleiðslukerfi sem þarf til að „make America great“. Auk þess er olídollarakerfið að bresta. Í staðinn grípa Bandaríkin báðum höndum krampataki um sitt öflugasta vopn: hervald og ógnanir. Þau hafa langstærsta her heimsins og þau eyða trilljónum og aftur trilljónum dollara í stríð, valdarán, refsiaðgerðir og viðskiptastríð vítt um lönd og álfur. Bandaríkin eru gríðarlega ofbelsdissinnað heimsveldi og munu því ekki „stíga til hliðar“ með friðsemd. Því miður.

Fjandskapurinn við Íran er í alvöru

Í þessu ljósi verður að skoða atburðina á Persaflóa sl. 13. júní. Bandaríkin og nánustu fylgiríki skelltu óðara skuldinni á Írana. En það er of vitlaust til að það þurfi einu sinni að rannsaka það eða ræða sérstaklega. Fyrrverandi breski sendiherrann Craig Murray skrifar: „Ég reyni ekki að mæla dýpt þeirrar heimsku sem trúir því að Íran myndi ráðast á japanskt olíuflutningaskip samtímis því sem forsætisráðherra Japans sest niður, í óþökk Bandaríkjanna, til friðsamlegra samræðna um efnahagssamvinnu um það hvernig Íran megi komast í gegnum bandarískar refsiaðgerðir.“ Sjá hér
Bandaríkin byggja öll stríð sín á einhverri grundvallarlygi (og eru svo sem ekki ein um það). Æði oft þarf ögrunaraðgerðir, sviðssett hryðjuverk, stundum með hjálp staðgengla, til að koma stríðinu í gang. Tonkinflóa-atvikið 1964 var hryðjuverk undir fölsku flaggi og nýttist til fullrar innrásar í Víetnam, atburðirnir 11. september voru notaðir til að ráðast á Afganistan sem ekki tengdist þeim á nokkurn hátt, „gjöreyðingarvopn Saddams Hússein“ voru fölsk átylla notuð til að ráðast á Írak, „eiturefnaárásirnar“ notaðar til loftskeytaárása á Sýrland o.s.frv. Og sagan endurtekur sig enn.
Bandaríkin segja sig frá kjarnorkusamningnum við Íran og hefja nýjar og harðari refsiaðgerðir gegn landinu (og gegn þeim sem skipta við Íran), eins þótt það gangi gegn augljósum hagsmunum bandamannanna þeirra (ESB m.m.). Bandaríkin neita að draga sig út úr Sýrlandi þó að íslamistar séu þar sigraðir (enda var stríð BNA við ISIS yfirskin). Allt þetta sýnir alvöruna í fjandskap Bandaríkjanna við Íran, að þau veðji ennþá á stríðstrompið í þeirri von að stríð, stríðshótanir, efnahagslegar refsiaðgerðir og alþjóðleg áróðursherferð geti sáð sundrungu í Íran og veikt landið nægjanlega til að koma á hinum eftirsóttu „valdaskiptum“. Hin sviðsettu hryðjuverk í Persaflóa fyrir skemmstu eru enn ein vísbendingin um þessa miklu alvöru. Þess vegna: Búum okkur undir að þurfa að taka afstöðu til fleiri ögrunaraðgerða þar sem reynt verður að koma sök á Íran. Spurningin verður bara hvort heimsvaldasinnum og áróðursmaskínu þeirra takist að draga nógu marga „viljuga“ bandamenn með sér í hina komandi krossferð.

Saturday, May 5, 2018

Elías um ellefta september: Tíu punktar um yfirhylmingu

(birtist á síðunni Stríðið í Mið-Austurlöndum 5. maí 2018)


Hafandi fersk í minni tvö ný hryðjuverk með sterk einkenni sviðssetninga – eiturárásina á Skripal feðginin og „eiturárásina“ nýju í Douma – sem báðar þjóna stríðsrekstri Vestursins í Miðausturlöndum og vígvæðingunni gegn Rússum er rík ástæða til að rifja upp hryðjuverkið mikla 11. sept 2001 sem  var upphafsatriði „stríðsins gegn hryðjuverkum“ sem BNA og NATO lýstu yfir í kjölfarið og hefur síðan geysað og sett Stór-Miðausturlönd á hliðina og skapað flóttamannavandann...


Í meðfylgjandi grein lýsir Elías okkar Davíðsson í 10 punktum eftirmálum atburðarins. Hann bindur sig fyrst og fremst við réttarfarslega meðferð glæpsins (bæði refsiréttar- og þjóðréttarlega) – og sýnir að hún hefur stórum meiri einkenni yfirhylmingar en einkenni afhjúpunar og upplýsingar.


Fyrstu punktar Elíasar einir og sér sýna ærna annmarka: Að stjórnvöld BNA hafi ekki ekki sótt til saka nokkurn mann fyrir glæpinn, hvorki fangana í Guantánamo né aðra. Að stjórnvöld BNA og forusta NATO hafi ekki, þegar þau réðust á Afganistan mánuði eftir glæpinn og hófu „stríðið gegn hryðjuverkum“, lagt fram nein göng sem tengdu Afganistan við hryðjuverkið, og ekki gert það síðar heldur. Að stjórnvöld BNA skuli jafnvel ekki hafa saksótt Osama bin Laden, FBI m.a.s. viðurkennt að sig skorti ‘hard evidence connecting Bin Laden to 9/11”.
Þessi málsmeðferð á það sameiginlegt með málsmeðferð kringum hin nýfrömdu hryðjuverk að sönnunargögn málanna hverfa í dularfullt myrkur og eru algert aukaatriði í orðræðunni, en þeim mun meira er fjölmiðlafárið sem frá fyrsta degi er leikstýrt í einn farveg stríðsæsinga. Sjá grein Elíasar.

Monday, April 30, 2018

Rússar mæta í Hag með Douma-vitni

(birtist á Fésbók SHA 27. apríl 2018)


Rússar mæta í Hag með slatta af vitnum frá Douma. Með nokkur af fórnarlömbum umræddrar klórgas-árásar (vitni sem eru á hinum heimsfrægu fréttamyndum) og lækna og starfsfólk af þessari bráðavakt sem er sú eina í Douma. Þeir vitna um að á bráðavaktina hafi hafi komið fólk í andnauð og jafnvel með reykeitrun vegna brennandi húsa og sprengjuryks í nágrenninu. Síðan hafi Hvíthjálmar skyndilega mætt á svæðið og skapað panikk með ópum um eturvopnaárás og tekið myndir og sprautað vatni á fólk. Enginn hafi hins vegar sýnt merki um gaseitrun þann dag. Þetta er t.d. í samræmi við það sem Robet Fisk skrifaði í Independent en hann var fyrsti vestræni blaðamaður til að gefa rapport frá vettvangi.
"Fréttamyndir" Hvíthjálma nægðu hins vegar fyrir BNA, Breta og Frakka til árásar. Hana þurfti „nauðsynlega“ að gera ca. sólarhring áður en OPCW-rannsóknarnefndin komst inn á svæðið til að sannreyna merki um eiturgas. Íslenska ríkisstjórnin sýndi árásinni „skilning“ af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“ en skv. Stoltenberg  NATO-leiðtoga var hún „studd“ af öllum NATO-ríkjum, Íslandi líka. Já, áður en vettvangur var rannsakaður.
Þetta tekur sig illa út fyrir íslensku ríkisstjórnina, ef sannanir skipta yfir höfuð máli. En þær gera það líklega ekki. Í meginstraumsfjölmiðlum gildir að „taka sviðið“ á fyrsta degi og koma tilætlaðri frétt út. Ef hún einhvern tíma í framtíðinni verður borin til baka verður það ekki gert með neinum lúðrablæstri. Árangri náð.

Eins er með Skripal-málið. Við tökum þátt í refsiaðgerðum NATO-ríkja gegn Rússum af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“. Jafnvel þó Boris Johnson sé staðinn að lygum um að sérfræðingar Porton Down hefðu „sannað“ uppruna eitursins. Jafnvel þó engar sannanir séu bornar fram. Ekki þarf sannanir af því nú krefst NATO þess að allir standi saman. Ísland hafnar ekki slíkum kröfum. Og Skripal-málið var líka nauðsynlegur undanfari loftskeytaárásar.

Sviðssetningar og vestræna bræðralagið

(birtist á Neistar.is 7. apríl 2018)
                                                                     Sergei Skripal


Þessi grein var send á Vísir.is fyrir 10 dögum en ekki birt. Það sem síðan hefur einkum gerst er að breski utanríkisráðherrann, Boris Johnson, er staðinn að ósannsögli. Hann hafði fullyrt að vísindamenn á tilraunaverksmiðjunni í Porton Down hefðu sagt „afdráttarlaust“ að eitrið væri framleitt í Rússlandi. Vísndamenn Porton Down vildu hins vegar ekki staðfesta þetta og sögðust ekki geta fullyrt neitt um framleiðslustaðinn. En skortur á sönnunum hefur ekki breytt samstöðu „vestræna bræðralagsins“. Hér kemur þá greinin.

I. Tvíburaturnarnir féllu 11. sept 2001 og NATO hóf stríð sitt í Afganistan þremur vikum síðar. Afgerandi fundur var haldinn í Norður-Atlantshafsráðinu í Brussel 2. okt. Þar var mættur Frank Taylor sendiherra frá bandaríska State Department. Hann lagði fram skýrslu með kynningu sönnunargagna um atburðina 11. september. Utanríkisráðherrar NATO fengu sama dag skýrsluna kynnta munnlega, hver í sinni höfuðborg. Henni var svo haldið leyndri í 7 ár en leyndinni var aflétt 2008 þegjandi og hljóðalaust. Prófessor Niels Harrit við Kaupmannahafnarháskóla hefur gert grein fyrir innihaldi hennar. Á grundvelli skýrslunnar lýsti Robertson lávarður, aðalritari NATO yfir 2. október: „Á grundvelli þessarar sönnunar-kynningar hefur það verið staðfest að árásinni á Bandaríkin 11. september var stjórnað utanlands frá og verður hún því skoðuð sem aðgerð sem 5. grein Washington-sáttmálans tekur til, þar sem segir að hernaðarárás á einn eða fleiri bandamenn í Evrópu eða Norður-Ameríku sé skoðuð sem árás á þá alla.“ En í skýrslu Taylors er bara ekki neitt sem sýnir fram á tengsl afganskra stjórnvalda við árásirnar 11. september. Kjarnaatriðið – sem fjallaði um þau tengsl – kom orðrétt fram í yfirlýsingunni sem Robertson lávarður gaf út 2. október. Svohljóðandi: „Staðreyndiranr eru skýrar og óyggjandi. Við vitum að einstaklingarnir sem framkvæmdu þessar árásir voru hluti af alheims-hryðjuverkaneti Al Kaída sem stjórnað er af Osama bin Laden og liðsforingjum hans og verndað af Talíbanastjórninni.“ Engar frekari sannanir. Bara einföld fullyrðing, komin frá CIA og Pentagon. En stjórnvöld í samanlögðum NATO-ríkjum spurðu einskis frekar um sannanir, heldur „stóðu með sínum bandamönnum“. Engar sannanir hafa síðar komið fram sem tengja Afganistan á neinn hátt við 11. september, en stríð NATO gegn landinu hefur staðið síðan. www.globalresearch.ca/the-mysterious-frank-taylor-report-the-911-document-that-launched-us-natos-war-on-terrorism-in-the-middle-east/5632874

II. Átyllan til að ráðast á Írak var sviðssett. Við þekkjum hana. Skýrsluna sem sem Colin Powell varnarmálaráðherra gaf Öryggsiráðinu 30. janúar 2003. Hún var byggt á „gögnum“ sem starfsmenn í ráðuneyti Tony Blairs klipptu og límdu saman af samfélagsmiðlum – um gjöreyðingarvopn Saddams Hussein. Skýrsla Powells var flutt undir mikilli stríðshljómkviðu vestrænnar pressu. Mótmælin gegn þessu stríði voru reyndar svo gríðarleg að nokkur NATO-ríki heltust úr lestinni og NATO gat ekki staðið formlega að innrásinni, lét nægja að gerast aðili að hernáminu á eftir. Og nógu margir NATO-ráðherrar, bandalag viljugra, létu þessar „sannanir“ nægja og „stóðu með sínum bandamönnum“. Árás Vestursins á Miðausturlönd var hafin.

III. Sviðssetningin í Líbíu tókst „betur“. Vestrænar fréttastofur þróuðu þá tækni að búa til stríðsæsifréttir. Sagðar voru skáldaðar fréttir um fjöldamorð og fyrirhuguð fjöldamorð Gaddafís á þegnum sínum ásamt skálduðum fréttum af spontan uppreisn þegnanna. Það nægði ráðherrum NATO og þeir ákváðu einróma að hefja lofthernað gegn Líbíu. Þeir spurðu ekki um frekari sannanir, og landið er í tætlum síðan.

IV. Stríðið gegn Sýrlandi er aðallega þríþætt: með þungvopnuðum leiguherjum fjölþjóðlegra íslamista, með viðskiptabanni/diplómatískri útskúfun og með háþróaðri og samhangandi sviðssetningu vestrænnar pressu, leikstýrðri leiksýningu sem ber yfirskriftina „uppreisn gegn ógnarstjórn“. Sýningin er afar vel auglýst og kaflar úr henni hafa fengið Óskarasverðlaunin. Þetta virðist þó ekki duga til að koma á hinum tilætluðu „valdaskiptum“. Þess vegna getur maður enn átt von á skelfilegum sviðssetningum frá óvinum Sýrlands.

V. Sviðssetningin í Salisbury virðist vera illa valin og illa leikstýrð, æpandi órökræn og ótrúverðug í alla staði. Hefði gamli njósnarinn Skripal verið mjög hættulegur Rússum hefðu þeir ekki sleppt honum í fangaskiptum. Ef þeir vildu eitra fyrir hann var auðveldara að gera það meðan hann var í fangelsinu heima. Fyrirfram var í gangi mikil herferð á Vesturlöndum til að gera skrímsli úr Pútín og einangra Rússa. Afskaplega er ólíklegt að Rússar kysu að auka á þá einangrun með diplómatískum skandala, allra síst í aðdraganda HM. Nú, fróðir menn segja að Bretar geti vel framleitt eiturefnið novitjok, í tilraunaverksmiðju hersins við Salisbury, Porton Down. Og Pentagon er á kafi í efnavopnaprógrömmum þeirrar verksmiðju. Ekkert hefur verið lagt fram sem líkist sönnun á þátttöku Rússa í atburðinum. Enda sagði Theresa May aldrei að umrætt taugagas væri rússneskt, aðeins „af tegund sem þróuð var í Rússlandi“. Rússar eru krafðir skýringa en þegar þeir stinga upp á sameiginlegri rannsókn er því hafnað. En Guðlaugur Þór og aðrir utanríkisráðherrar NATO spyrja bara ekkert um sannanir. Hann og þeir hinir segjast bara „standa með sínum bandamönnum“ (og engar athugasemdir heyrast frá VG heldur).

Ef þessi leiksýnig selur – eftir allan lygabálkinn sem einkenndi upphaf fyrri árásarstríða – er komið upp stórhættulegt pólitískt ástand. Ég hef þó vissa von um að almenningur kaupi sig ekki inn á þessa síðustu sýningu.